Föstudagur 26. apríl, 2024
7.1 C
Reykjavik

Gunnar um lóð Jóns: „Ef ég hefði verið áfram þá hefði ég ekki tekið þetta í mál – Stóð við mitt“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Einka­hluta­fé­lag, stofn­að af Jóni Gunn­ars­syni dóms­málaráherra og eig­in­konu hans í mars, keypti ein­býl­is­hús og 3,2 hekt­ara lóð í Garða­bæ á 300 millj­ón­ir mán­uði síð­ar. Dag­inn áð­ur komu ný­ir eig­end­ur inn í fé­lag­ið og Jón yfirgaf eig­enda­hópninn. Kon­an hans er með­al eig­enda og sit­ur hún í stjórn fé­lags­ins ásamt syni þeirra og tengda­dótt­ur. Stefnt er að bygg­ingu 30-40 íbúða byggð. Fyrri eig­andi reyndi ít­rek­að að fá að ráð­ast í sam­bæri­lega upp­bygg­ingu en var alltaf hafn­að af bæn­um, eins og segir í grein Stundarinnar.

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra og fjölskylda hans eru aðalfólkið í 300 milljóna fasteignaviðskiptum með þriggja hektara land í Garðabæ; fyrri eigandi reyndi ítrekað að fá bæjaryfirvöld til að samþykkja breytt deiliskipulag og leyfa byggingu íbúða á landinu en án árangurs. Síðast fyrir tveimur árum.

Þessi hópur í kringum Jón dómsmálaráðherra hefur nú þegar leitað til arkitekta vegna hugmynda um að byggja tugi íbúðarhúsa á landinu og virðist vera búin að veðja 300 milljónum á að þau geti sannfært nýjan meirihluta í Garðabæ um að snúa af fyrri leið.

„Þú ert ekki með réttar upplýsingar,“ voru fyrstu viðbrögð Jóns þegar Stundin spurði Jón út í viðskipti félagsins:

„Það eru fleiri aðilar sem eru komnir inn í þetta félag og það er ekki búið að ganga frá kaupsamningi um eitthvað land.“

Ekki löngu síðar segir hann þó að það sé ekkert leyndarmál að félag sem þau hjónin ættu einhvern hlut í væri í ferli að kaupa land ásamt fleirum; hann væri þó ekki á meðal hluthafa lengur, en eiginkona hans sé það.

- Auglýsing -

„Við erum bara þátttakendur í félagi sem er að kaupa þarna ákveðið land. Og það er eiginlega ekkert annað um það að segja, og síðan eiga menn eftir að þróa það og skoða hvað verður gert með þetta land og hvernig það vinnst,“ sagði Jón.

Sjálf kaupin voru gerð í gegnum einkahlutafélagið Hraunprýði byggingar ehf. sem Jón og eiginkona hans Margrét Halla Ragnarsdóttir stofnuðu 23. mars á þessu ári: áttu hjónin félagið til helminga; minna en mánuði síðar, þann 20. apríl, keypti þetta félag einbýlishús og meðfylgjandi lóð fyrir 300 milljónir króna.

Jón segir að hann sé ekki lengur í hluthafahópnum. Eiginkona Jóns er það hins vegar.

- Auglýsing -

Og samkvæmt Jóni, og upplýsingum frá Skattinum, á eiginkona Jóns, 26% hlut í félaginu. Skráning, um raunverulega eigendur félagsins var uppfærð á vef Skattsins eftir að Stundin hafði samband við Jón.

En sjálfur eignarhlutur eiginkonunnar er alls ekki eina tenging dómsmálaráðherrans við áðurnefnt félag: Sonur Jóns, Gunnar Bergmann Jónsson er varamaður í stjórn þess og eiginkona hans, Halla Hallgeirsdóttir, er aðalmaður; stjórn félagsins er sem sé samsett af eiginkonu ráðherrans og tengdadóttur, auk fjárfesta og aðila úr byggingageiranum, og þá situr sonur hans í varastjórn.

Verðið sem félagið Hraunprýði byggingar greiddi fyrir eignina er í litlu samræmi við það deiliskipulag sem nú gildir, samkvæmt þeim sem þekkja vel til þessa máls.

Vert er að nefna að íbúðarhúsið á lóðinni margumtöluðu var metið nánast ónýtt árið 2011, þegar Ríkiskaup, sem þá sýslaði með lóðina fyrir hönd nokkurra stofnanna, sem höfðu fengið húsið í arf frá fyrri eiganda, bauð það til sölu.

Yfirlit matsmanns var lagt fram samhliða sölunni þar sem þessar upplýsingar litu dagsins ljós.

Kaupandinn var Dalsnes ehf, félag; sem er í eigu Ólafs Björnssonar, sem meðal annars heldur utan um eignarhlut hans í heildsölunni Innnes. Um leið og hann eignaðist lóðina hóf hann undirbúning að endurskipulagningu og uppbyggingu íbúða; það var í samræmi við það sem gerst hafði á lóðunum í kring; þar hefur risið íbúðabyggð í hverfi sem fékk nafnið „Prýði“. En erindi Ólafs og áformum hans var hafnað af bæjaryfirvöldum í Garðabæ.

Ástæðan fyrir höfnuninni var sögð sú að vernda ætti skógrækt sem fyrri eigandi hafði staðið að á landinu um langt árabil. Og þau sjónarmið bæjarins héldu þegar Ólafur kærði ákvörðunina til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála; Þessi afstaða er óbreytt: Í það minnsta á pappírunum.

Ekki liggur ljóst fyrir í stjórnkerfi Garðabæjar hvort unnið sé í að breyta deiliskipulaginu; út á það virðast viðskipti fjölskyldu Jóns og viðskiptafélaga ganga.

Kemur fram að stjórnarformaður félagsins, sem á þeim tíma var samt ekki orðinn slíkur, leitaði í aðdraganda kaupanna til arkitekta um að kanna hversu mikið byggingamagn kæmist fyrir á lóðinni samkvæmt heimildum blaðsins.

Lóðin Hrauntunga er gríðarlega stór; hafa nærliggjandi lóðir þegar verið skipulagðar fyrir íbúðabyggð og hugmyndir hópsins á bak við Hraunprýði byggingar eru að reisa á bilinu 30-40 hús á landinu.

Gunnar Einarsson, fráfarandi bæjarstjóri í Garðabæ, stóð í stafni gegn deiliskipulagsbreytingum, og hann kannast ekki við að neinar breytingar séu fyrirhugaðar á lóðinni: Enda hefði afstaða sveitarfélagsins verið afar skýr í gegnum málarekstur fyrri eigenda:

„Svo veit ég ekkert hvað framtíðin ber í skauti sér, en ef ég hefði verið áfram bæjarstjóri þá hefði ég ekki tekið þetta í mál,“ segir Gunnar.

Hjálmar R. Bárðarson, fyrrverandi siglingamálastjóri og forstjóri Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar, var eigandi jarðarinnar Hrauntungu og bjó þar ásamt Else konu sinni og stundaði skógrækt.

Gunnar segir um samskipti sín við Hjálmar að „við náðum mjög vel saman og hann lagði mikla áherslu á að lóðin fengi að halda sér bara svona eins og hún er; það er mikil skógrækt þarna og ég var bara alveg sammála honum í því að mér fyndist það vera skynsamlegt. Og síðan kaupir Óli í Innnes húsið, þegar Hjálmar fellur frá, og sækir á okkur með það að fá að skipuleggja þarna einhverja íbúðabyggð. Og ég bara mundi eftir orðum okkar Hjálmars og ég var alls ekki tilbúinn til þess að, ja ég segi að svíkja það loforð sem ég gaf.“

Að sögn Gunnars hafa engin áform komið inn á borð bæjaryfirvalda og að hann hafi ekki vitað af því að húsið við Hrauntungu hefði skipt um eigendur.

„Það hefur enginn haft samband við mig og spurt mig, enda vita menn að ég er á útleið og mér þætti það mjög furðulegt ef arftaki minn eða næsti meirihluti breytti eitthvað út af þessu, þessari sýn sem ég var að lýsa fyrir þér áðan. Að það væri svona grænt svæði á þessum stað og svo líka bara ákveðin virðing við látinn mann. En það er kannski bara eitthvað sem telur ekki í þessum nútímaheimi, ég veit ekkert um það. En allavega stóð ég við mitt loforð.“

Jafnvel Þótt að heimildir Stundarinnar hermi að stórfelld íbúðauppbygging sé það sem vaki fyrir fjölskyldu Jóns og viðskiptafélögum þeirra, vill dómsmálaráðherra ekkert um það segja; bendir þó á að nýr stjórnarformaður félagsins sé byggingameistari.

„Já já, það hlýtur augljóslega að vera eitthvað markmið í því. Ég er að segja þér það, það á eftir að skipuleggja þetta land og fara alveg í gegnum það hvað menn ætla að gera þarna og hvað menn geta gert þarna og allt svoleiðis. Það eru aðrir að keyra það heldur en ég. Það er þarna byggingameistari í þessu eignarhaldi og annað gott fólk,“ segir Jón.

Vert er að nefna að Jóhann Berg Guðmundsson fótboltamaður er í liði með fjölskyldu Jóns í kaupunum á Hrauntungu. Segist Jón ekki þekkja tilraunir fyrri eiganda til þess að fá deiliskipulagi lóðarinnar breytt; né heldur að fyrir liggi eitthvað vilyrði um að slíkar breytingar myndu ná í gegn fyrir nýja eigendur.

„Bara veistu það, ég þekki þetta ekki. Hvað hefur gerst þarna áður sko. En það er auðvitað bara ekkert ákvörðun þeirra sem eiga landið nákvæmlega hvað er hægt að gera, það er samkomulag við yfirvöld og svoleiðis og liggur ekkert slíkt samkomulag mér vitanlega fyrir enda er nú bara nýbúið að kjósa þarna í sveitarfélaginu eins og öðrum sveitarfélögum.“

Stjórnarformaður félagsins er Vignir Steinþór Halldórsson og er í dag skráður eigandi að 26% hlut, samkvæmt fyrirtækjaskrá Skattsins yfir raunverulega eigendur; auk áðurnefndra fjölskyldumeðlima Jóns og Vignis, eru Jóhann Berg Guðmundsson landsliðsmaður í knattspyrnu og leikmaður Burnley í ensku úrvalsdeildinni, og forstjóri HS Orku, Tómas Már Sigurðsson, sestir í stjórn félagsins.

Nefnt er að Tómas er ekkill Ólafar Nordal, fyrrverandi ráðherra og varaformanns Sjálfstæðisflokksins, sem sat lengi á þingi með Jóni. Þá er móðir Jóhanns Bergs, Íris Gunnarsdóttir, varamaður í stjórn félagsins; eiginmaður hennar og faðir Jóhanns Bergs er Guðmundur Örn Jóhannsson framkvæmdastjóri hjá útgáfufélaginu Torgi, og fyrrum framkvæmdastjóri Slysavarnarfélagsins Landsbjargar.

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra var sjálfur í því starfi áður en hann settist á þing árið 2007; 5 árum áður en Guðmundur tók við starfinu.

Þá er búið er að segja upp leigusamningi íbúanna sem leigt hafa húsið sem stendur á Hrauntungu.

Og Jón segir:

„Þú veist að það er hátt í 400 fm einbýlishús á þessu landi,“ segir hann aðspurður um áform hópsins; vísar til hússins sem var metið ónýtt árið 2011.

„Það er búið í því. En það þarf örugglega að laga það heilmikið til, en það er búið í því. Og þetta er einstakt svæði,“ segir hann.

Bætir við:

„Ég er ekki að fara að búa þarna, svo þú vitir það. Ég er ekki að flytja þangað.“

Húsið er vissulega á lóðinni, en fasteignamat þess er rétt rúmlega 100 milljónir króna, en í því mati er ekkert tillit tekið til þess mats sérfræðings, sem tók húsið út árið 2011, að ástand þess væri svo lélegt að ráðast þyrfti í stórfelldar endurbætur á því; Þar hafa verið leigjendur um árabil og þeir staðfestu við Stundina að búið væri að segja upp leigusamningnum

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -