Föstudagur 26. apríl, 2024
9.1 C
Reykjavik

Herdís er látin: „Hún bar umhyggju fyrir íbúum, sem réttara væri að kalla væntumþykju“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Herdís Hólmsteinsdóttir geðhjúkrunarfræðingur er látin en hún var einungis 66 ára. Herdís markaði djúp spor á málefni þeirra sem minnst mega sín á Íslandi. Hún var deildarstjóri geðdeildar Landspítala 33C á árunum 1989 til 1997. „Þá varð hún forstöðumaður sambýlis fyrir geðfatlaða á Hringbraut 8 og sinnti þeirri forstöðu í um áratug, ásamt því að sinna faglegum störfum hjá Geðhjálp. Árið 2008 tók hún að sér stöðu sem verkefnisstjóri vegna yfirfærslu geðvængs SSR frá ríki til borgar,“ segir í yfirliti Morgunblaðsins.

Minningargreinar um Herdísi minnast nær allar á glaðlyndi hennar og hve hjartahlý hún var. Halldór Kr. Júlíusson sálfræðingur starfi með henni þegar hún var forstöðumanns sambýlis fyrir geðfatlað fólk en hann sviðsstjóri. Hann lýsir henni svo:

„Herdís var glaðlynd og mætti samstarfsfólki sínu og verkefnum af jákvæðni og með opnum hug. Hún var fagleg í allri sinni vinnu en hún hafði mikla reynslu af störfum á geðdeildum og þjálfun í meðferð áður en hún réðst til starfa hjá SSR. Hún bar virðingu og umhyggju fyrir íbúum sambýlisins og starfsfólki sínu, sem réttara væri að kalla væntumþykju. Herdís hafði einstakt og næmt innsæi sem nýttist henni á öllum sviðum, jafnt í stjórnun sem í meðferðarstarfi. Þá var Herdís mikil baráttu- og hugsjónakona sem sá fyrir sér mikla uppbyggingu félagslegrar þjónustu fyrir fólk með geðfötlun og opnun geðheilsustöðva þar sem fólk gæti sótt fyrstu línu aðstoð með geðræn og sálræn vandamál.“

Hann segir Herdísi enn fremur hafa mikil áhrif á málefni geðfatlaðra. „Áhrif Herdísar á þróun félagslegrar þjónustu fyrir geðfatlað fólk liggja víða. Skipulag hennar á starfsemi sambýlisins á Hringbraut 8 (síðar Sóleyjargötu 39) varð fyrirmynd að annarri búsetuþjónustu. Þá vann hún ötullega að skipulagi nýrra húsnæðisúrræða SSR fyrir geðfatlað fólk. Þegar Herdís hóf störf hjá SSR var ljóst að stór hluti geðfatlaðs fólks dvaldi á stofnunum heilbrigðiskerfisins. Á vordögum 2003 réðst SSR í að gera úttekt á fjölda geðfatlaðra Reykvíkinga innan geðheilbrigðisþjónustunnar sem gætu nýtt sér félagsleg búsetuúrræði. Sú upplýsingaöflun, sem Herdís vann, var undanfari úttektar á landsvísu sem þáverandi félagsmálaráðherra lét gera og sem varð grundvöllur átaks í uppbyggingu félagslegra húsnæðisúrræða fyrir geðfatlað fólk, – Straumhvarfaverkefnisins. Eftir að Herdís réðst til starfa hjá Reykjavíkurborg var velferðarsviðið fljótt að koma auga á hæfileika hennar og fól henni að byggja upp vettvangsgeðteymi til stuðnings geðfötluðum íbúum í búsetuþjónustu, – mikilvægt framfaraspor í félagslegri þjónustu.“

Þóra Björk Bjarnadóttir sálfræðingur skrifar minningargrein fyrir hönd Vettvangsgeðteymis Reykjavíkurborgar og vitnar í fyrrverandi vinnufélaga Herdísar. Þóra segir sjálf um hana: „Hún hafði smitandi ástríðu fyrir faginu og því að auka lífsgæði einstaklinga með geðraskanir. Hún var góður vinnufélagi og hafði sínar skoðanir og var föst fyrir en réttsýn og frábær málsvari fyrir notendur þjónustunnar.“

Líkt og fyrr segir þá vitnar Þóra í nafnlausa samstarfsmenn Herdísar. „Eftir fráfall Herdísar hafa teyminu borist margar kveðjur frá fyrrverandi samstarfsfélögum hennar og eru þær lýsandi fyrir eiginleika hennar og hvað hún skilur eftir: „Herdís var hjartahlý og ekkert verkefni var of lítið eða of stórt fyrir hana og hjarta hennar brann fyrir fólki með geðsjúkdóma.“ „Hún var einstök, það var gott að vinna með henni og hún var góður hlustandi.“ „Ég leit á Herdísi sem vinkonu mína. Hún var dásamleg manneskja.“ „Hún gerði svo mikið fyrir mig og var sú reynslumesta og besta manneskja sem ég hef unnið með. Hún gleymist ekki.“ „Herdís var frábær og yndisleg að kynnast. Fagmanneskja og gefandi að vinna með henni. Blessuð sé minning hennar sem mun lifa.“ „Minnist hennar með hlýhug og virðingu.““

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -