Fimmtudagur 28. september, 2023
8.1 C
Reykjavik

Dabbi T borðar skyndibita eftir leiki: „Vil frekar borga aðeins meira fyrir minni tíma“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Davíð Tómas Tómasson, oft kallaður Dabbi T, er neytandi vikunnar. Davíð er alþjóðlegur körfuboltadómari sem dæmir í Subway-deildunum en ásamt því vinnur hann hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Moodup og heldur námskeið og fyrirlestra sem hjálpa fólki að bæta andlega og líkamlega heilsu. Davíð er 34 ára gamall og býr í Laugardalnum ásamt kærustu sinni.

Gerir þú verðsamanburð á vörum og þjónustu? 

Ég er ekki nægilega duglegur að gera verðsamanburð. Kærastan er mjög fylgin sér í því og spáir mikið hvar er hægt að gera bestu kjörin. Það mætti segja að hún væri „Spararinn“ og ég væri „Eyðarinn“.

Hvernig sparar þú í matarinnkaupum? 

Ég reyni að gera flest mín matarinnkaup í Bónus. Án þess að hafa gert mikinn verðsamanburð þá líður mér alltaf eins og ég sé næstum því að græða peninga ef ég versla í Bónus. Ég fer samt oft í þægindi fram yfir sparnað og enda oftar en ekki í rándýru hverfisbúðinni. Þegar ég geng út með tómt veskið þá segi ég alltaf við sjálfan mig að ég sé að styrkja innviði hverfisins. Það lætur mér líða betur!

Endurnýtir þú? Ertu með ráð til annarra? 

- Auglýsing -

Ég endurnýti nánast ekkert. Finnst það mjög sjarmerandi þegar ég heyri af fólki sem gerir það en ég er ekki enn kominn á vagninn.

Hvað hefur þú í huga þegar þú kaupir mat, fatnað og gjafir? 

Ég reyni alltaf að „prioritise-a“ tímann minn fram yfir allt annað. Ég vil frekar borga aðeins meira fyrir minni tíma heldur en öfugt. Ég get þá notað tímann í hluti sem mér finnst vera betur varin í. Ég reyni því yfirleitt að velja það sem er næst og fjótlegast.

- Auglýsing -

Hverju átt þú erfiðast með að draga úr kaupum á? 

Ég á erfiðast með að draga úr kaupum á skyndibita, sérstaklega á meðan körfuboltatímabilið er í gangi. Það hentar ekki að borða kvöldmat rétt fyrir leik og ég enda því yfirleitt svangur, nýbúinn að dæma, klukkan 21:30. Þá er rosa þægilegt að grípa sér eitthvað fljótlegt á leiðinni heim.

Skiptir umhverfisvernd þig máli? 

Ég er ekki mjög djúpur á umhverfismálunum. Hef bara í sannleika sagt ekki kynnt mér það nægilega vel. Við flokkum heima og ég reyni að vera samviskusamur í því en að öðru leyti geri ég mjög lítið. 

Annað sem þú vilt taka fram? 

Nei

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -