Laugardagur 28. maí, 2022
8.1 C
Reykjavik

Draugagangur í Skipalóni

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Þann 13. nóvember, árið 2008, birtist í Fjarðarpóstinum frétt um óskunda mikinn, sem gerður var í hálfkaraðri blokk í Skipalóni í Hafnarfirði. Þá voru aðeins örfáir íbúar fluttir inn í fjölbýlishúsið, eðli málsins samkvæmt, sem eflaust var drungalegt á að líta; lítið um ljós í gluggum og fleira slíkt sem annars breytir köldum steinsteypukössum í hlýleg híbýli.

Kvöld eitt í vikunni áður en fréttin birtist í Fjarðarpóstinum voru íbúar einnar íbúðarinnar í mestu makindum heima hjá sér og áttu sér einskis ills von. Skyndilega var sem allir árar vítis væru mættir, slíkur var hávaðinn þegar höggin dundu á útidyrahurðinni. Einnig barst mikil háreysti að utan sem innihélt að stærstum hluta fólskulegt orðbragð og hótanir um ill örlög íbúa ef þeir gengju ekki að kröfum óvættanna sem fóru mikinn úti fyrir.

Samkvæmt frétt í Fjarðarpóstinum mátti draga þá ályktun að óprúttnir einstaklingar hefðu gert sér að leik „að búa til draugagang í blokkinni“ umrætt kvöld. Sannleikurinn er þó annar, því samkvæmt áreiðanlegum, síðari tíma heimildum bárust inn í íbúðina háværar kröfur um að íbúar „borguðu skuldina“ ella hefðu þeir verra af.

Skelkaðir íbúarnir inni fyrir nötruðu af skelfingu, slíkar voru barsmíðarnar og öskrin að utan. Könnuðust þeir enda ekki við að skulda nokkrum manni nokkuð, nema ef vera skyldi ónafngreindum banka og fannst þeim ólíklegt að hann gripi til innheimtuaðgerða af þessu tagi þótt alkunna sé að bankar elta skuldunauta sína út yfir gröf og dauða ef svo ber undir.

„Með öskrum og banki tókst þeim [hávaðaseggjunum, innsk.] að búa til hræðsluástand hjá íbúum sem endaði með því að íbúar, sem hrekkurinn beindist að, læstu sig inni á salerni og hringdu á lögregluna,“ segir í Fjarðarpóstinum.

Hófst þá atburðarás sem hefði sómt sér í amerískri glæpamynd. Í Fjarðarpóstinum segir: „Tveir lögreglubílar voru sendir á forgangi á staðinn og er lögreglumenn komu heyrðu þeir öskur og hróp í blokkinni. Gengu menn fljótlega á hljóðin og kom þá í ljós að um hrekk var að ræða.“
Sagan segir reyndar að lögreglumenn hafi talið sig sjá til mannaferða þar sem engar áttu að vera í húsinu og hafist hafi eftirför mikil, þar sem brjótast þurfti inn í mannauðar íbúðir með tilheyrandi tjóni. Hér skal ekki fullyrt um hvort sú hafi verið raunin, enda alkunna að laxinn á það til að stækka og þyngjast í hverri nýrri frásögn af veiðiferðinni … með ákveðnum greini.

- Auglýsing -

Ætlun hrekkjalómanna var þó ekki að búa til draugagang, heldur þóttust þeir vera undirheima menn að innheimta skuld sem til hafði verið stofnað í þeirri kreðsu. Enn fremur kom í ljós að þarna voru ekki á ferðinni ókunnugir menn sem af einskærri illsku höfðu látið til skarar skríða við íbúðina. Einnig varð ljóst að ekki hafði kylfa ráðið kasti þegar íbúðin og íbúar hennar voru valdir sem skotspónn.

Sannleikurinn var mun nærtækari; þannig var mál með vexti að húsráðandi var ónafngreind kona, sem nýlega hafði fest kaup á íbúðinni, og fyrir utan voru faðir konunnar og bróðir sem höfðu hugsað gjörninginn sem græskulaust grín. Tvær lögreglubifreiðir í forgangsakstri og fjöldi lögreglumanna hafði ekki verið inni í myndinni þegar hugmyndin hafði fæðst og síðar verið framkvæmd. Þeir ku hafa verið æði niðurlútir þegar þeir báðust afsökunar á þessu glensi.
Grínið féll í mjög grýttan jarðveg hjá dóttur forsprakkans og lögreglumönnunum var, merkilegt nokk, ekki skemmt.

En þarna lauk sögunni ekki, því konan ákvað að launa pörupiltunum lambið gráa; þeir skyldu fá til tevatnsins. Því setti hún auglýsingu á Bland þar sem sagði að tvöfaldur, leðurklæddur, amerískur ísskápur fengist gefins ef hann yrði sóttur og að hægt væri að fá frekari upplýsingar í síma. Auglýsingunni lét konan fylgja símanúmer föður síns og bróður. Eins og við var að búast þagnaði ekki sími hjá óknyttadrengjunum heldur hringdi hvort tveggja oft og frekjulega.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -