„Við verðum að átta okkur á því að þetta efni er ekki ókeypis og á ekki að vera það. Núna er það undirverðlagt og þá hefur enginn í keðjunni nóg til að lifa af, hvorki útgefendur né höfundar og í raun og veru ekki streymisveitan heldur. Markaðurinn hér á landi er lítill og viðkvæmur og Storytel er eins og stórt skrímsli sem er að éta hann upp,“ segir Margrét Tryggvadóttir formaður rithöfundasambandsins í viðtali við mbl.is.
Algjört hrun hefur orðið á útgáfu þýddra skáldsagna hér á landi en Morgunblaðið greindi frá að titlum hafi fækkað úr 201 niður í 100 á síðast liðnum tveimur árum. Nemur fækkunin því 45 prósentum. Margir íslenskir yndislesendur hafa fært sig yfir á lestrarbrettin eða yfir í hljóðbækur.
„Ég held að þetta sé afar hættuleg þróun fyrir okkur sem samfélag. Það skiptir máli að við höfum aðgengi að þýðingum. Þær eru líka íslenskar bókmenntir og í raun nokkurs konar gluggi út í heim, allt öðruvísi en við fáum úr öðru afþreyingarefni.“