Föstudagur 29. mars, 2024
-4.2 C
Reykjavik

Íslenski kvikmyndabransinn blómstrar en veðrið pirrar landann

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Í góðum málum

Íslenski kvikmyndageirinn er heldur betur í góðum málum þessa dagana. Hver frábær kvikmynd rekur aðra í kvikmyndahúsum landsins í byrjun ársins og virðast þær allar slá í gegn. Fyrst var það Villibráð Elsu Maríu Jakobsdóttur, sem sló heldur betur í gegn en tugir þúsunda hafa séð hana síðan hún kom út í janúar. Þykir þar leikurinn og handritið bera af, en um er að ræða einhvers konar gamanmynd með vott af sálfræðitryllingi. Því næst var það spennumyndin Napóleónsskjölin sem byggð er á samnefndri bók eftir Arnald Indriðason í leikstjórn Óskars Þórs Axelssonar. Kvikmyndin hefur yfir sér Hollywood-blæ, er einstaklega vel unnin og þar má sjá stjörnu úr Game of Thrones, Ian Glen, ásamt Vivian Ólafsdóttur og Jack Fox, svo fáeinir séu nefndir. Senunni stelur þó risinn okkar góðlátlegi, Ólafur Darri Ólafsson, í hlutverki sveitadurgsins Einars. Þriðja íslenska kvikmyndin sem frumsýnd var nú nýlega er ferðasagan Á ferð með mömmu í leikstjórn Hilmars Oddssonar, en þar fara aðalleikararnir, Þröstur Leó Gunnarsson og Kristbjörg Kjeld, algjörlega á kostum. Í myndinni keyrir Þröstur Leó þvert yfir landið með lík móður sinnar í baksætinu, í þeim tilgangi að jarða hana á Eyrarbakka. En sú gamla hætti ekki að kvarta í honum þrátt fyrir þá staðreynd að hún væri dáin. Tragíkómísk og listræn.

Í slæmum málum

Íslendingar sem annaðhvort hafa ekki efni á eða af einhverjum ástæðum komast ekki til Tenerife til að taka tásumyndir og liggja í sólinni, þeir eru í slæmum málum. Af hverju? gæti einhver spurt sig. Svarið er sáraeinfalt. Vegna veðursins á Íslandi. Hver bölvuð lægðin kemur á eftir annarri og Veðurstofa Íslands skellir fram gulum og appelsínugulum viðvörunum, líkt og hún fái greitt fyrir það. Hún fær það reyndar, en þið skiljið hvað ég meina. Og þessar lægðir eru ekkert hættar að koma hingað og svo er nú páskahretið eftir. Þessum lægðum fylgir svo alls konar vesen, hálkuslys, kvef og fastir bílar. Og ekki láta mig byrja á bílastæðunum, þvílík kvöl og pína sem þau eru þegar snjórinn frýs og verður ómögulegur. En við sem hér dveljum getum þó huggað okkur við það, að eftir veturinn kemur vor og eftir vorið kemur tveggja vikna sumar, ef við erum heppin.

Þessi pistill birtist í nýjasta helgarblaði Mannlífs sem má lesa í heild sinni hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -