Fimmtudagur 7. desember, 2023
2.1 C
Reykjavik

Meta framleiði heilsuvörur úr hampi: „Komst að því hvað þetta er margslungin planta“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Meta Pahernik flutti hingað til lands ásamt eiginmanni sínum, Jurij, fyrir fáeinum árum en í heimalandinu Slóveníu ræktuðu þau hamp á bóndabæ sínum. Hjónin flytja slóvensk matvæli til landsins auk þess sem Meta framleiðir heilsuvörur úr hampi undir heitinu Jara. Meta er viðmælandi í nýjum þætti HAMPKASTSINS, umræðuþætti Hampfélagsins, þar sem hún rekur sögu sína og hvernig hampurinn kom inn í líf hennar.

Áhuginn kviknaði í háskólanum

Áhuginn á hamprækt kviknaði hjá Metu á öðru ári í námi sínu í landbúnaðarfræði við háskólann í Maribor, annarri stærstu borg Slóveníu. „Þetta var fyrsta ritgerðin sem ég skrifaði þetta skólaárið og eftir að ég hafði skoðað bók um jaðarræktun (e. alternative crop). Við lesturinn komst ég að því hvað þetta er margslungin planta sem gefur af sér textíl, eldsneyti, matvöru, byggingarefni og pappír og áfram mætti telja.“

Meta tekur það sérstaklega fram að það hafi ekki verið vímugjafinn kannabis sem hún hafði hug á. „Ég hafði ekki áhuga á kannabínóðum á þessum tíma. Auðvitað þekkti ég þá sögu alla enda samofin plöntunni sjálfri en ég var tvítug að velja mér framtíð og það var ekki heillavænlegt að gera vímugjafanum í plöntunni hátt undir höfði. Þetta var auðvitað þunn lína þarna á milli en ég var að vinna með aðra hluti plöntunnar.“

Í skólanum rannsakaði Meta kannabisplöntuna frá öllum hliðum, þar á meðal sögu hennar í Slóveníu. Þannig á plantan sér langa sögu í þorpinu sem hún ólst upp í en Meta er úr Drava-dalnum í norðurhluta Slóveníu. „Íbúar sem eru komnir á níræðisaldur muna eftir því að kannabisplöntur var víða að finna í þorpinu þegar þau voru börn en þau vita samt ekki alveg hvernig þær voru notaðar.“ Plantan óx vilt í þorpinu og telur Meta að aðallega hafi fræ hennar verið notuð og þá til matargerðar.

Kannabisplöntur voru ræktaðar í stórum stíl í Slóveníu og á sínum tíma var landið annar stærsti útflytjandi heimsins á textíl úr hampi. „Það var verið að rækta hamp á um tvö þúsund hekturum árlega. En þetta var iðnaður sem dó út, vélarnar voru bræddar til að nota í annað,“ segir Meta og bætir við: „Þetta var vegna bannáranna. Bandaríkjamenn lögðu stefnuna sem önnur ríki heimsins tóku upp eftir þeim og plantan sem slík var bönnuð í Slóveníu, allir hlutar hennar og mismunandi tegundir. Þannig að þetta bara dó út og þessi iðnaður gleymdist. Núna, ekki hundrað árum síðar, erum við að reyna vekja fólk til vitundar um þennan gleymda iðnað.“

- Auglýsing -

Framleiðir heilsuvörur úr hampi

Meta leggur sitt lóð á vogarskálarnar þegar kemur að vitundarvakningunni um kannabisplöntuna og alla þá möguleika sem hún býður upp á. Hún hannar og framleiðir heilsuvörur úr hampi, þar á meðal tölvumúsarpúða sem seldir eru í verslun Elko í Lindum, undir nafninu Jara. „Áður en ég hóf framleiðsluna var ég að lesa mér aðeins til um rúnir og sá þá að Jara þýðir uppskera. Mér fannst það svo flott að ég ákvað að ef ég skyldi setja á fót fyrirtæki þá yrðu vörurnar undir því nafni. Ég kaupi efniviðinn frá Rúmeníu og kemur hann úr einni af verksmiðjunum sem stóðu af sér bannárin. Það væri gaman að geta gert alíslenskar vörur og ég vona að það verði að veruleika á næstu árum.“ Meta hefur framleitt ýmsar vörur, til dæmis bangsa og brjóstagjafapúða, og tekur við sérpöntunum. Salan hefur gengið vel á Íslandi og framar vonum. „Ég reyndi að setja þessar sömu vörur á markað í Slóveníu en markaðurinn hafnaði mér. Vörurnar þóttu of dýrar og verslanir vildu helst ekki samsama sig við kannabisvörur.“

Spurð út í framtíð hampræktunar á Íslandi segir Meta að gera verði greinarmun á ræktun utandyra og í gróðurhúsum. Veðráttan á Íslandi sé með því móti að vart sé hægt að rækta kannabisplöntur utandyra nema til að nota í byggingarefni eða lífefni (e. biomass). Aftur á móti séu gríðarleg tækifæri fólgin í ræktun kannabisplanta í gróðurhúsum en með því móti megi ná miklum gæðum sem nýst gætu í heilsuvörur á borð við þær sem innihalda CBD.

- Auglýsing -

Meta er ekki sjálf í bússtörfum hér á landi en horfir fram á veginn. „Ef einhver býður mér akur til að rækta á þá bý ég yfir allri nauðsynlegri þekkingu. Heima í Slóveníu var ég með bóndabæ en við sjáum til hvað gerist hér á landi. En vonandi fæ ég tækifæri til að rækta hamp á Íslandi því við fjölskyldan stefnum á að búa hér til framtíðar.“

Þáttinn má sjá í heild sinni í spilaranum hér að neðan. Gunnar Dan Wiium, stjórnarmaður í Hampfélaginu, tók viðtalið við Metu Pahernik. Mickael Omar Lakhlifi sá um tæknimál og Andri Karel um fréttaskrif.

Fræðast má nánar um vörurnar hennar Metu á eftirfarandi vefslóðum:

https://www.facebook.com/jara.products

https://www.instagram.com/jara_products/

Hér má horfa á viðtalið í heild sinni:

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -