Fimmtudagur 22. september, 2022
9.1 C
Reykjavik

VG búin að gefa frá sér vinstrimennsku: „Það er eitthvað mikið að“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Ögmundur Jónasson, fyrrverandi ráðherra og þingmaður er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar. Ögmundur er alls ekki hrifinn af þeirri þróun að ritskoða ákveðnar skoðanir og segir að ein stærsta ógn samtímans sé ritskoðun og tilraunir til að stöva tjáningarfrelsið:

„Það er raunverulega ógnvænlegt hvernig tjáningarfrelsið er komið í hættu. Ekki bara eru ríki og sveitarfélög að taka þátt í því, heldur eru risarnir sem stjórna netmiðlum á fullu í að stoppa umræður. Svo er samfélagið almennt komið á skrýtinn stað, þar sem fólk sem er á öndverðum meiði í ákveðnum málaflokkum er nánast ofsótt. Svo erum við með dæmi eins og Wikileaks, þar sem Julian Assange á yfir höfði sér 200 ára fangelsi fyrir það að upplýsa um alvarlega hluti. Lærdómurinn fyrir fólk í alls kyns málum er að það sé betra að segja ekki frá ákveðnum hlutum. Þetta veldur því að við erum komin á mjög sérstakan stað.“

Ögmundur, sem var lengi eins konar andlit vinstri manna á Íslandi segir í þættinum að Vinstri Græn séu búin að týna ákveðnum gildum í samstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn.

„Pólitíkin er að hverfa úr pólitíkinni. Ég hef verið að efna til funda fyrir áhugafólk um að endurverkja vinstri stefnuna og tala fyrir samfélagslega ábyrgri stefnu í stjórnmálunum. Ég upplifi að við séum komin á svipaðan stað núna og 1995, þegar Alþýðuflokkurinn var að koma úr samstarfi með Sjálfstæðisflokknum og var þá búin að gefa frá sér allt sem getur heitið vinstrimennska og allt félagslegt. Núna heitir Alþýðuflokkurinn VG. Núna eru Vinstri Grænir búnir að vera í þessu faðmlagi við Sjálfstæðisflokkinn í 4 ár og önnur fjögur að hefjast og maður spyr sig hvernig þetta geti eiginlega verið. Þetta samkurl veldur því að það er eiginlega ekkert tekist á um lykilatriði sem þessir flokkar eru í grunninn ósammála um. Það er eitthvað mikið að gagnvart kjósendum. Kjósendum er lofað annars vegar að markaðsvæða samfélagið eða samfélagsvæða samfélagið og það er hættulegt fyrir lýðræðið ef það er ekkert að marka þetta. Það að markaðsvæða samfélagið eða samfélagsvæða samfélagið eru gagnstæð sjónarmið og þessir flokkar verða að vera trúir sinni grunnsannfæringu.“

Ögmundur er enn harður vinstri sinni, en hann segir að vinstrið í stjórnmálum hafi í mörgum tilvikum misst sjónar af hlutverki sínu:

„Það að það sé annars vegar til fólk sem býr til verðmæti til samfélagsins og hins vegar ríkisstarfsmenn og þeir sem njóta afrakstursins er bara rugl. Þeir sem starfa á sjúkrahúsum, í skólum, segja frá veðrinu og annað eru líka að búa til verðmæti. Það hvort að eigandi fyrirtækis sé hið opinbera eða einkaaðili breytir því ekki hvort verið sé að búa til verðmæti. Það að halda því fram að einkavæðing á öllu sé lausn allra vandamála er bara vitleysa.“

- Auglýsing -

Hægt er að nálgast viðtalið við Ögmund og öll viðtöl og podcöst Sölva Tryggvasonar inni á solvitryggva.is

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -