Laugardagur 27. apríl, 2024
10.8 C
Reykjavik

Þrír hafa dáið í höndunum á Kjartani Guðbrandssyni: „Hefur djúpstæð áhrif á mann“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Kjartan Guðbrandsson einkaþjálfari og listmálari hefur átt ótrúlegt lífshlaup og segir lífið og dauðsföll í kringum sig hafi kennt sér að njóta hverrar mínútu og fara ekki að sofa með óuppgerða hluti eða eiga í illdeilum við fólk. Kjartan, sem er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar  segir dauðann vara stærsta kennara sem til er:

„Ég hef haldið á þremur aðilum í höndunum sem hafa dáið og það er rosaleg reynsla sem mótar mann og hefur djúpstæð áhrif á mann,“ segir Kjartan, sem  var náinn vinur Jóns Páls Sigmarssonar og var með honum á æfingunni þegar hann lést ungur að aldri:

„Ég labba inn í sal í einhverri leiðslu og þá liggur Jón Páll þar og hafði greinilega dottið aftur á bak eftir einhvers konar aðsvif. Við vorum þarna þrír að reyna að blása í hann lífi. Ég man að sjúkrabíllinn var mjög fljótur á staðinn, en þetta er enn í móðu eins og ég segi, skuggalegt atvik. Gym 80 var á frábærri leið þegar Jón Páll fór. Þetta var gríðarlegt sjokk og eiginlega svo mikið sjokk að ég náði mér bara ekkert eftir það. Þetta átti ekki að gera gerst. Ég fékk lexíu í því hvað dauðinn kennir manni á þessu tímabili og það er ekkert sem kennir manni meira. Dauðinn kennir manni það að það er ekkert sjálfsagt og þú skalt njóta hverrar mínútu og hann kennir manni rosalega öfluga lexíu sem er að ganga til hvílu að kvöldi án þess að eiga í illdeilum við fólk. Það er ekkert til verra en óuppgerðir hlutir við fólk sem fer.“

Kjartan, sem er líklega eini Íslendingurinn sem hefur sigrað keppnir í vaxtarrækt, kraftlyftingum, aflraunum og fitness. Hann byrjaði mjög ungur að æfa með Jóni Páli Sigmarssyni, margföldum sterkasta manni heims. Kjartan segir að Jón Páll Sigmarsson hafi verið gjörsamlega ótrúlegur maður í alla staði:

„Jón Páll var rosaleg fyrirmynd. Ég var svo heppinn að fá að ferðast með honum og sjá hvað hann var vinsæll erlendis. Hagmæltur, fyndinn, fljótur að hugsa. Hann var með allan pakkann. Ofboðslega aðlaðandi maður, góður karakter og góður vinur. Hann nýtti sína orku í ofurmannlegan ,fókus og setti allt í að verða bestur,“ segir Kjartan, sem segist aldrei gleyma atvikinu þegar Jón Páll fékk hann til að rífa niður veggi í uppbyggingunni á Gym 80.

„Þessi hugmynd með Gym 80 vaknaði bara á rúntinum og úr varð mjög mögnuð stöð. Ég gleymi því aldrei þegar það þurfti að brjóta veggina áður en stöðin opnaði af því að þarna var bara íbúð áður. Hann hringir í mig og við mætum með kúbein niður eftir. Hann byrjar með kúbeinið, en svo bara gafst hann upp á kúbeininu og byrjar að hlaupa niður veggina og gefa frá sér rosaleg hljóð. Hann var 140 kíló þarna og þetta var eins og í Marvel mynd. Það vantaði bara merkið framan á hann, því hann hafði allt, alla vöðvana og lúkkið og allt saman.“

- Auglýsing -

Kjartan, Bubbi Morthens og Jón Páll Sigmarsson voru allir miklir áhugamenn um hnefaleika. Það var ekki hlaupið að því að sjá bardagana á þessu tíma og því oft gripið á það ráð að leita að einhverjum með gervihnött. Kjartani er sérlega minnistætt þegar þeir félagarnir horfðu á Mike Tyson tapa í fyrsta sinn:

„Það var magnað atriði þetta tiltekna kvöld, þegar Mike Tyson tapar í fyrsta skipti á móti Buster Douglas. Við höfðum verið að leita að stað til að horfa á bardagann og höfum loks upp á manni sem vart vert á Kaffi Óperu sem átti flott heimili og var með gervihnattasjónvarp og við fáum að fara heim til hans að horfa. Konan hans var ein Heima þetta kvöld og hún opnaði fyrir okkur og fór svo bara upp á háaloft. En þessi bardagi var rosalegur og smám saman eykst hávaðinn í okkur. Þegar konugreyið kemur aftur niður stigann klukkan fjögur um nótt þá er Tyson í gólfinu og það er verið að telja. Bubbi er hoppandi uppi í sófa og segir aftur og aftur: „Hann sló hann niður, hann sló hann niður!“ Á sama tíma er Jón Páll kominn úr að ofan og allur rauður og sveittur, enda fljótur að hitna, 140 kílógramma fjallið. Þegar hún sér okkur þrjá í þessum ham var hún fjót að læðast upp aftur án þess að segja neitt. En þetta var algjörlega frábær tími og útsendingarnar þar sem Bubbi og Ómar Ragnarsson voru saman að lýsa þessum bardögum eru algjörlega „legendary” dæmi.“

Kjartan hefur upplifað ótrúlega hluti í gegnum tíðina og tekið þátt í alls kyns hlutum. Árið 2016 var hann fenginn í sérstakt verkefni, þegar honum var boðin full vinna í London við að einkaþjálfa dularfulla moldríka konu:

- Auglýsing -

„Mér var boðin vinna í Equinox í London og það var klapp á bakið fyrir mig, af því að þetta er fyrir mér eitt allra besta „gym“ í heimi. Þetta var árið 2017 og ég var fenginn í að þjálfa eina rússneska í prufuverkefni. Ég brunaði til London og massaði prufuna, en hún var ekki alveg tilbúin í verkefnið. Þetta var búlgarskur Rússi [Ruja Ignatova]. Hún var í braski með rafmynt (OneCoin) og hafði náð svaka hæðum þar og átti bunka af aurum og lifði hátt. Hún var með lífverði og alls konar fólk í kringum sig og svo var ég þjálfarinn þarna einhvers staðar á „standby“ á Hilton hótelinu og ég þoli það ekki til lengdar. Hún var ekki alveg tilbúin í það prógramm sem ég ætlaði henni. Ég nenni ekki að vera á launum við að gera ekki neitt, ég hef prófað það áður. Ég var á launum við að gera nánast ekki neitt. Ég kíkti í gymmið og rölti um Kensington og fékk mér eitthvað að borða og svo leið bara tíminn. Ég vildi sjá hvort hún myndi hrökkva í gírinn, en eftir sex eða sjö vikna æfingatörn sem var frekar dræm, þá tók ég fund og ákvað að við myndum reyna að hittast seinna og gera þetta betur þegar hún væri tilbúin. En nú skilst mér að hún sé bara horfin af yfirborði jarðar. Annað hvort var hún mafíutengd eða einhver hefur látið hana hverfa. Eða að hún hafi sjálf látið sig hverfa með einhvern pening, en enginn veit neitt virðist vera. Þetta var talsvert öðruvísi verkefni en ég er vanur,“ segir Kjartan.

Ruja hafði náð ótrúlegum hæðum í braski með rafmyntina á heimsvísu áður en hún hvarf sporlaust í október árið 2017. Ekkert hefur spurst til hennar síðan, þó að lögregluyfirvöld víðs vegar í heiminum hafi reynt að hafa uppi á henni.

Í þættinum segir Kjartan alls kyns sögur, meðal annars þegar hann gleymdi níu túpum af dýnamíti undir rúmi móður sinnar þegar hann var unglingur:

„Mamma er mér ofarlega í minni núna, af því að dánardagurinn hennar er nýliðinn. Hún dó allt of ung og er mér ofarlega í huga. Hún gerði sitt besta til að hemja okkur bræðurna, en við vorum kengbrjálaðir á köflum. Denni bróðir bjó erlendis, en kom heim reglulega. Eitt kvöldið kemur hann heim með skvísu og vill fá herbergið mitt. Ég sagði honum að gleyma því og hann reynir að múta mér, fyrst með einhverjum ólöglegum efnum í poka, en þegar það gekk ekki segist hann geta látið mig hafa túbur af dýnamíti ef hann fái herbergið og ég samþykkti það. Svo fór ég inn í herbergi til mömmu og set dýnamítið undir rúmið og sofna við hliðina á henni. En svo gleymi ég því bara að það séu 9 túbur af dýnamíti undir rúmi hjá mömmu. Ef það hefði farið af stað hefði það líklega sprengt hálfa blokkina!“

Kjart­an hefur undanfarið getið sér gott orð fyrir málverk sín. Upphafið að því var þegar hann slysaðist til að mála of­ur­hetju­mynd­ir með syni sín­um í barnaher­berg­inu. Eftir það fór hann í Slipp­fé­lagið, keypti sér striga og byrjaði að mála:

„Lífið snýst um að taka ákvarðanir og ég ákvað bara að ég gæti gert þetta. Nú eru komin nokkur ár og  þetta hefur gengið vonum framar. Pabbi málaði, bróðir hans pabba og margir fleiri í ættinni, þannig að það er myndlist í ættinni og ég hef alltaf haft áhuga. Þegar ég kem heim til einhvers tek ég strax eftir því hvað er á veggjunum. Ég byrjaði bara að æfa mig og svo hefur þetta vaxið smátt og smátt og það er komin eftirspurn í þetta. Af því að ég er ekki lærður fæ ég ekki inni í galleríunum hérna heima, en nýlega hafði Gallerý í San Fransisco samband við mig og við náðum samningum um að þeir keyptu af mér slatta af myndum. Það er búið að flytja þær út og flestar myndirnar eru þegar seldar og þeir vilja nánara samstarf. Það er mikil viðurkenning og mjög gaman fyrir mig. En aðallega finnst mér gaman að mála og vonandi skil ég einhverja jákvæðni eftir á striganum. Gjöfin að geta skilið eitthvað gott eftir sig í lífinu er það mikilvægasta fyrir hjartað.“

Hægt er að nálgast viðtalið við Kjartan og öll viðtöl og podcöst Sölva Tryggvasonar inni á solvitryggva.is

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -