Föstudagur 19. júlí, 2024
10.8 C
Reykjavik

Leikur þjóðhetju í Chernobyl

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þættirnir Chernobyl, sem hófu nýverið göngu sína, hafa farið sigurgöngu um heim allan en líkt og heitið gefur til kynna snúast þættirnir um kjarnorkuslysið fræga í Chernobyl í Úkraínu 1986 þegar kjarnaofn sprakk með þeim afleiðingum að geislavirk efni sluppu út í andrúmsloftið og fjöldi manns lét lífið. Auk þess er fjallað um aðdragandann að slysinu og eftirmála. Leikarinn Baltasar Breki Samper fer með hlutverk í Chernobyl og segir að það hafi verið lærdómsríkt að taka þátt í þessu stóra verkefni.

 

„Ég get nú samt ekki beint sagt að þetta hafi verið beint ánægjuleg upplifun, leiklega séð, að vera öllum stundum inni í stúdíói í þessum kafaragalla ofan í einhverri sundlaug, uppfullri af pípum og drasli,“ játar hann og hlær.

„En á móti kemur að þá var auðvitað alveg geggjað að fá tækifæri til að leika á móti stjörnum eins og Jared Harris og Stellan Skarsgård, þótt ég sé sjálfur ekki í stóru hlutverki, og sjá hvernig svona umfangsmikil framleiðsla gengur fyrir sig. Svo ég tali nú ekki um hvað það er gaman að vera hluti af seríu sem er að fá svona góð viðbrögð, með hæstu einkunn í sögu kvikmyndavefsins IMDB eða 9,7.“

Í þáttunum fer Baltasar Breki með hlutverk Alexei nokkurs Ananenko, eins þriggja verkfræðinga sem eru í kjölfar slyssins sendir af stað til að hleypa vatni undan kjarnaofninum og fyrirbyggja þannig enn stærri sprengingu og frekari eyðileggingu. Spurður hvort það hafi ekki verið viss pressa að leika mann sem litið er á sem þjóðhetju í heimaland sínu, svarar Baltasar Breki að hann hafi nú ekki verið mjög upptekinn af því. Vissulega hafi hann kynnt sér sögu Ananenkos en undirbúningurinn fyrir hlutverkið hafi hins vegar snúist að mestu um að lesa sér betur til um slysið sjálft og skelfilegar afleiðingar þess.

„Ég hafði auðvitað, eins og margir jafnaldrar mínir, heyrt ýmislegt um það en vissi ekki að það hefði verið svona hræðilegt eins og ég komst að raun um þegar ég fór að gúggla það og sá myndir af fórnarlömbunum. Að sama skapi vissi ég ekki hversu illa þessir sovésku kerfiskarlar, í sínum myrkvuðu bakherbergjum, höndluðu slysið. Það var bara óhugsandi að þeirra mati að svona ofn gæti sprungið. Þeir voru svo uppteknir af sinni stöðu í flokknum, af því að líta vel út, að enginn horfðist í raun og veru í augu við stöðuna. Hefði einhver gert það hefði kannski mátt fyrirbyggja sumt af því sem gerðist en í staðinn klúðruðu þeir alveg málunum.“

„Að sama skapi vissi ég ekki hversu illa þessir sovésku kerfiskarlar, í sínum myrkvuðu bakherbergjum, höndluðu slysið.“

Hann segir að ekki hafi verið síður merkilegt að lesa hvaða sögulegu áhrif slysið hafði. „Mér skilst að það hafi til dæmis verið einn af síðustu nöglunum í líkkistu ríkjabandalags Sovétríkjanna, sem er merkilegt, og líka ein ástæðan fyrir leiðtogafundinum í Höfða,“ segir hann og vísar þar til sögufrægs fundar Ronalds Reagan, forseta Bandaríkjanna, og Mikhaíls Gorbatsjev, leiðtoga Sovétríkjanna, í október árið 1986 en sá fundur er meðal annars talinn hafa markað upphafið að lokum kalda stríðsins.

- Auglýsing -
Hlutverkinu í Chernobyl landaði Baltasar Breki í gegnum erlendan umboðsaðila sem hafði komið auga á hann í Ófærð. Hann segir að framleiðslan í kringum þættina sé sú stærsta sem hann hafi komið nálægt til þessa.

Orðinn pínulíðið „paranoid“ eftir þetta

Fyrir utan það segir Baltasar Breki að það hafi haft mikil áhrif á sig persónulega að lesa um áhrif geislavirkni. „Til dæmis hef ég öðru hverju verið að kaupa í sakleysi mínu gamlar sovéskar linsur á Netinu sem ég nota í hinu starfinu mínu sem tökumaður og komst svo bara núna nýlega að því að þær innihalda efnið thorium, sem er geislavirkt. Ég snarhætti því. Maður er orðinn pínulítið „paranoid“ eftir að hafa leikið í þessum þáttum.“

Talandi um það, hefurðu fengið einhver viðbrögð við leik þínum í Chernobyl? „Tja, eins og ég segi þá reynir nú kannski ekki mikið á mig leiklega séð. Maður er náttúrlega bara í einhverjum kafaragalla allan tímann, sem gefur ekki svigrúm fyrir mikil leikræn tilþrif. En fólk er ánægt með þættina sem er gaman og auðvitað ástæða til því þetta er þrusugóð framleiðsla í alla staði þótt ég segi sjálfur frá.“

- Auglýsing -

Spurður hvort hann telji að þættirnir komi til með að opna honum nýjar dyr í bransanum, hvort það séu einhver spennandi verkefni á döfinni, segist Baltasar Breki búinn að vera að vinna að eigin verkefnum undanfarið. Þess á milli hafi hann verið að taka að sér hlutverk og sé einmitt í augnablikinu að skoða svolítið. „En því miður get ég ekki rætt það við þig,“ segir hann leyndardómsfullur. „Að minnsta kosti ekki í bili.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -