Laugardagur 27. apríl, 2024
2.1 C
Reykjavik

Marínó segir að maðkur sé í mysunni: ,,Á stórundarlegan hátt fóru atkvæði að færast á milli flokka“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -
,,Það er gott að formaður yfirkjörstjórnar í NV-kjördæmi sé svona öruggur um að enginn hafi komist inn í geymsluna,“ segir Marínó G. Njálsson um kosningaklúðrið sem nú skekur íslenskt samfélag, og bætir við:
,,En hvernig ætlar hann þá að skýra það út, að 12 atkvæðaseðlar sem voru auðir í fyrstu talningu, voru allt í einu ekki auðir í endurtalningunni? Varla förlaðist talningarmönnum svo svakalega, að mistelja um heil 12 atkvæði í 394 atkvæða bunka. Hvað þá að ógildum fjölgaði um tæp 50%. Nei, slíkt gerist ekki hjá reyndu talningarfólki.“
Heldur áfram:
,,Mér finnst að kjósendur í kosningunum eigi heimtingu á því að formaðurinn útskýri, hvernig talningarfólki gat förlast svona hrikalega, að 69 atkvæði reyndust rangt talin og að atkvæðum hafi fjölgað um 2. Maður hefði haldið að talningarskýrslur hefðu átt að stemma, þannig að fjöldi atkvæða á hvern flokk og í það heila væri sá sem kom fram í frumtalningu.
69 atkvæði eru kannski ekki mörg atkvæði í það heila, en þetta er minnsta kjördæmið. Hafi sambærileg skekkja orðið í öðrum kjördæmum, þýðir það að í SV-kjördæmi gæti munað yfir 300 atkvæðum, 210 í hvoru af Reykjavíkurkjördæmunum, 140 í NA-kjördæmi og 180 í Suðurkjördæmi. Það gerir um 1.100 atkvæði á landsvísu.“
Marínó spyr hvort að við ,,eigum að trúa því, að landskjörstjórn láti bara gott heita, að ígildi 1.100 atkvæða á landsvísu, færist á milli flokka, hætti að vera auð, verði allt í einu ógild eða bara bætist við fjölda greiddra atkvæða?
En það er meira: Talningin var ekki í samræmi við lög og því átti hún ekki að byrja fyrr en ákvæði laga voru uppfyllt. Talning atkvæða í alþingiskosningum er ekki einkamálefni formanns yfirkjörstjórnar. Það eitt á að verða til þess að niðurstöðu hennar ber að hafna,“ segir Marínó og gefur enn meira í:
,,Loks er það rúsínan í pylsuendanum og hún er eiginlega þess virði að henda út endurtalningunni: Það er alveg stórkostleg tilviljun að atkvæðum Viðreisnar fækkað nægilega mikið til þess að jöfnunarmannahringekjan fór af stað. Samkvæmt frumtalningu var Viðreisn með 1072 atkvæði af 17248 gildum atkvæðum eða með 6,2152% fylgi í kjördæminu.
Svo hringekja færi af stað þurfti fylgi Viðreisnar að fara niður fylgi flokksins í Suðurkjördæmi, sem var við frumtalningu 6,2094%. Til þess að það gerðist varð annað af tvennu að gerast: a) gildum atkvæðum að fjölga í kjördæminu um a.m.k. 32 án þess að neitt þeirra rynni til Viðreisnar; b) atkvæðum greiddum Viðreisn að fækka um a.m.k. 2, en fjöldi gildra atkvæða í kjördæminu héldist óbreyttur. Og svo sambland af þessu tvennu. Við þetta fyrra myndi fylgi Viðreisnar lækka í 6,2043% og væri komið undir fylgið í Suðurkjördæmi. Það lítur hins vegar illa út að allt í einu dúkki upp 32 atkvæði, þannig að þá var það leið b) ásamt því að tvö atkvæði fundust, eins og dreginn upp úr hatti töframannsins.“
Hann nefnir einnig að ,,á stórundarlegan hátt fóru atkvæði að færast á milli flokka. Mestar voru hreyfingarnar hjá Sjálfstæðisflokknum í atkvæðum talið, en það er hlutfallslega hreyfingin sem skiptir meira máli. Þær voru svona raðað eftir listabókstaf (Flokkur; Atkvæði; Breyting á atkvæðum; hlutfallsleg breyting):
Framsókn; 4443; 5; 0,11%
Viðreisn; -9; 1072; -0,84%
Sjálfstæðisflokkur; 3887; 10; 0,26%
Flokkur fólksins; 1513; -3; -0,20%
Sósíalistaflokkur; 721; 7; 0,97%
Miðflokkur; 1283; -5; -0,39%
Frjálsl. lýðræðisfl.; 72; 1; 1,39%
Píratar; 1082; -1; 0,09%
Samfylking; 1196; -1; -0,08%
VG; 1979; -1; -0,05%
Ég verð bara að segja eins og er, að þetta hefði ekki getað gengið betur upp, þó þessi atburðarrás hefði verið hönnuð af einhverjum sem gjörþekkir kerfið. Viðreisn lendir í því, eins og töfrasprota hafi verið veifað, að missa þrefalt meira fylgi en fylgi Sjálfstæðisflokksins eykst og um tífalt það fylgi sem flokkar með svipað atkvæðamagn missa. Ég átta mig á því að Sósíalistaflokkurinn fær meiri fylgisaukningu en nemur fylgistapi Viðreisnar, en Sósíalistaflokkurinn skiptir engu máli meðan hann fékk ekki kjördæmiskjörinn mann.
Væri allt eðlilegt, ættu fylgisbreytingar Viðreisnar hefðu að vera í dúr við breytingarnar hjá Pírötum og Samfylkingu, enda allir flokkarnir með svipað fylgi.“
Marínó er mjög ósáttur og færir í tal að ,,því miður lyktar þessi ,,endurtalning“ af algjöru rugli og hollast er fyrir alla að hún verði afturkölluð. Svona breytingar, sem sjást í töflunni að ofan, eru einfaldlega ekki trúverðugar, sérstaklega í ljósi þess hvernig staðið var að því að vernda atkvæði fyrir óleyfilegum aðgangi og að kjörkassar hafi verið hreyfðir, hvað þá opnaðir, án þess að umboðsmenn ALLRA framboða hafi verið komnir á svæðið. Hver og einn getur dregið sína ályktun, en í mínum huga er þetta bull.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -