Fimmtudagur 20. júní, 2024
8.8 C
Reykjavik

„Minnimáttarkenndin drífur mig áfram“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sigmar Vilhjálmsson varð fyrst landsþekktur fyrir að drekka ógeðsdrykki og stunda símahrekki í sjónvarpsþættinum 70 mínútur. Mörgum árum síðar er hann orðinn þekktur viðskiptamaður og er að opna tvo nýja staði í miðjum heimsfaraldri. Í viðtali við Mannlíf ræðir hann æskuárin, föðurhlutverkið, framann, fyrirtækin og síðast en ekki síst, sjálfan sig.

 

„Ég hef stundum lýst því þannig að „drive-ið“ mitt sé minnimáttarkenndin, sem ég í raun fæddist með, mér finnst ég alltaf þurfa að sanna mig meira en sá næsti. Til dæmis á jólaskákmótum okkar bræðra þar sem maður var yngstur og vitlausastur og ég tapaði stöðugt. Allt árið fór í að vera betri á næsta ári og fá að vera með,“ segir Sigmar, alltaf kallaður Simmi, einlæglega um hvað það er sem drífur hann áfram.

„Pabbi var skólameistari og ég kláraði ekki stúdentinn, sem var lengi eldur á minnimáttarkenndina. Þessi krafa er þó að minnka, en ég er oft meðvitaður um hana. Spurninguna „hvað ertu menntaður“ sem ég var spurður að fram undir þrítugt, er ég eiginlega hættur að heyra, menn ganga meira að því vísu í dag að ég hafi menntað mig, sem er ákveðið hrós. Núna er ég frekar spurður „í hvaða háskóla varstu?“ og þá finnst mér gaman að svara að ég sé ekki einu sinni stúdent. Pabbi gamli sagði: „menntun er ekki bara fengin úr bók.“ Hann ýtti aldrei á að ég kláraði stúdentsprófið, sem sýnir að mörgu leyti hvað hann var klár því þetta er rétt hjá honum. Það er margt fólk sem þrælar sér í gegnum eitthvert nám og er með hæfileika á allt öðru sviði.“

Sigmar Vilhjálmsson
Mynd / Hallur Karlsson

Opnar tvo staði í heimsfaraldri

Þrátt fyrir að hafa ekki gengið menntaveginn hefur Simmi gert ansi margt, jafnvel meira en flestir, og hefur fjölmörg störf og verkefni á ferilskránni. Nú í júní bætast tvö verkefni við, Barion Bryggjan á Granda og Minigarðurinn.

„Ég fékk ábendingu um að Bryggjan væri orðin þrotabú, sem kom mér á óvart því ég hélt að staðurinn gengi vel. Ég mundi að þar var ansi gróft og fallegt innbú og kom í þeim tilgangi að skoða innanstokksmuni með það í huga að kaupa og nýta á mínum stöðum. Ég féll fyrir staðnum og ákvað að kaupa allt. Ástæðan fyrir því að ég hræðist það ekki er að við eigum fyrir Barion í Mosfellsbæ sem hefur gengið vel og fengið góða dóma, þannig að þetta er minna tilhlaup en að opna nýjan veitingastað frá grunni,“ segir Simmi um Barion Bryggjuna og bætir við að það sem geri verkefnið mjög spennandi sé að þar eru tæki til bjórframleiðslu.

- Auglýsing -

„Er það ekki innst inni draumur allra veitingamanna að gera sinn eigin bjór? Kannski það verði einn svona kastaníubrúnn bjór í boði,“ svarar Simmi aðspurður hvort von sé á Barion-bjór eða Simma-bjór.

Hugmyndina að Minigarðinum hefur Simmi verið með í kollinum í mjög langan tíma, en framkvæmdir hófust í byrjun árs. „Ég er þriggja barna faðir og maður þekkir það að vilja gera sér dagamun með börnunum og mér fannst alltaf fátt vera í boði fyrir okkur til að njóta saman. Minigarðurinn mun bjóða upp á samverustund fyrir fjölskylduna, og mun einnig ná til breiðs hóps, hann er mjög góður vettvangur fyrir hópefli og fólk í fyrirtækjum til að koma og spila saman, keppa, drekka og borða og svo getur þetta líka verið skemmtileg byrjun á kvöldi sem partístaður. Ég held að þetta geti orðið mjög skemmtilegt stórt verkefni,“ segir Simmi, en ástæðan fyrir langri meðgöngu hugmyndarinnar er meðal annars leit að hentugu húsnæði fyrir starfsemina. „Það eru ekki margir 2.000 fm staðir miðsvæðis í boði, við ætluðum fyrst að gera þetta í Holtagörðum með Reitum, þar eru ansi margir fermetrar ónýttir af gömlu Hagkaups- og Bónusplássi. Reginn sá hins vegar ljósið með okkur hinum megin við götuna og staðsetningin er frábær.“

Opnun tveggja nýrra staða veldur því að ráða þarf margt starfsfólk, eða um 130 manns. Hvernig er sú tilfinning á tímum kórónuveirufaraldursins, á meðan mörg önnur fyrirtæki eru að segja upp sínu starfsfólki? „Það er ótrúlega gaman. Mér finnst alltaf gaman að gera eitthvað nýtt, hvort sem það er COVID eða ekki COVID, en það að geta gert það á þessum tímum gefur því meiri ánægju, ég viðurkenni það. Það er rosalega gaman að geta ráðið fólk til starfa sem var farið að sjá fram á það að hafa ekkert að gera,“ segir Simmi.

- Auglýsing -

„Þetta er efnahagslega gott fyrir samfélagið. Fólkið fer frá því að vera kostnaður fyrir samfélagið, í formi atvinnuleysisbóta, í það að verða skattgreiðendur og virkir neytendur þannig að margfeldisáhrif hvers starfs eru mjög verðmæt fyrir samfélagið. Þetta er gefandi ferli og rekur mann áfram í að vilja flýta því og ég hef reynt að ýta við hlutum alls staðar til að geta opnað Barion Bryggjuna um sjómannadagshelgina. Minigarðurinn verður opnaður 19. júní.“

„Fólk gefur sig á tal við mig og ég hef aldrei pirrað mig á því. Það veitir mér ákveðið aðhald og ritskoðun, því það er oft stutt í vitleysinginn í mér.“ Mynd / Hallur Karlsson

Kórónuveirufaraldurinn kennir okkur að standa vörð um okkur sjálf

Simmi hefur ákveðnar skoðanir á flestu. Heimsfaraldurinn og hvernig við komumst best undan honum er ekki undanskilið. „Ég tel að við höfum fundið það á eigin skinni núna að þegar við leitum til annarra landa um aðstoð þá hugsar hver um sig. Við ættum að hafa það svolítið hugfast þegar við erum búin að jafna okkur eftir kórónuveiruna að standa áfram vörð um íslenska framleiðslu og iðnað.“

Samhliða rekstri eigin fyrirtækja er Simmi talsmaður FESK, félags í eigu svína-, eggja- og kjúklingabænda, en honum var boðið starfið á sínum tíma þar sem hann var opinn með skoðanir sínar, sem fóru saman við hagsmuni félagsins. „Ég gaf kost á mér í starfið í eitt ár, og ég mun efna það, en þótt ég muni ekki sinna starfinu lengur en árið sem ég réð mig til, þá verð ég alltaf talsmaður hagsmuna þessara bænda,“ segir Simmi. „Eggja-, kjúklinga- og svínabændur njóta ekki ríkisstyrkja, á sama tíma hefur innflutningur á þessum vörum aukist töluvert. Mér fyndist ekki óeðlilegt að hið opinbera myndi standa vörð um endurfjárfestingar þessara greina, veita þeim einhverjar tilslakanir eða niðurfellingu í gjöldum og sköttum, einhvers konar fyrirgreiðslu í því að bændur fjárfesti, slík enduruppbygging kallar á iðnaðarmenn og margfeldisáhrifa slíkra framkvæmda gætir mjög víða og örvar atvinnulífið,“ segir Simmi.

„Kórónuveirufaraldurinn hefur sýnt það að ef við værum með öllu háð innflutningi á matvælum hefðum við bara lent í verulegum vandræðum“

„Við verðum að flytja inn matvæli, við getum ekki séð um okkur 100 prósent sjálf frekar en aðrar þjóðir. En við þurfum hins vegar að setja reglur um það hvað má flytja inn tollfrjálst, en sem dæmi er nú bara talað um ákveðið mikið magn af svínakjöti, þetta þarf að skilgreina betur líkt og gert er með útflutning. Þar skilgreinum við sem dæmi mjólk, smjör, skyr, en ekki bara kúaafurðir,“ segir Simmi.

Sigmar Vilhjálmsson
Mynd / Hallur Karlsson

„Þú getur aldrei tapað á því að velja íslensku afurðina og kórónuveirufaraldurinn hefur sýnt það að ef við værum með öllu háð innflutningi á matvælum hefðum við bara lent í verulegum vandræðum. Bæði hvað varðar flutningsleiðir og það að hvert einasta land fór að horfa inn á við og brauðfæða fyrst eigin þegna, áður en vörur voru fluttar út. Vöruverðinu hefði þá einnig verið stýrt og við algjörlega undir því komin. Við höfum ekkert að segja um olíuverð, við erum með öllu háð innflutningi á henni þannig að olíuríkin geta leikið sér með þetta eins og Matador og ég myndi ekki vilja sjá okkur í sömu stöðu gagnvart matvælum,“ segir Simmi, sem telur að núna sé einnig tími til að fjárfesta í endurbótum á innviðakerfi ferðaþjónustunnar, svo að landið sé betur í stakk búið til að taka á móti ferðamönnum þegar þeir fara að heimsækja landið aftur.

„Ég er að tala um vegakerfið okkar og aðbúnað á þessum góðu og fallegu stöðum sem við viljum að ferðamenn sæki. Við stækkuðum flugstöðina og höfðum ekki undan, fókusinn fór allur þangað, svo hleyptum við öllum út í vegakerfið og allir keyra á holóttum vegum. Við ættum að nota núna tækifærið og fjárfesta í endurbótum á innviðakerfinu, það örvar atvinnusköpun og hagvöxt, og þannig erum við frekar undir það búin þegar fólk verður tilbúið að ferðast til okkar, sem gæti tekið tvö ár.“

Egilsstaðir heimahagarnir

Simmi er landsbyggðarstrákur, fæddur 3. janúar 1977 í Reykholti, sjötti sonur Vilhjálms Einarssonar, frjálsíþróttamanns og skólameistara, og Gerðar Unndórsdóttur. „Ég er sjötta mislukkaða tilraun foreldra minna til að eignast dóttur, eða að pabbi kunni að hætta á toppnum, ég hef svona notað þetta sem rök fyrir því að vera yngstur,“ segir Simmi og hlær.

Þegar Simmi var þriggja ára flutti fjölskyldan til Egilsstaða og síðan til Svíþjóðar í þrjú ár, þegar hann var 13 ára, þar sem faðir hans fór í nám. „Við vorum bara fjögur þá, stóru bræður mínir voru fluttir að heiman, það er það langt á milli okkar. Næstelsti bróðir minn varð sextugur í gær sem dæmi [1. júní]. Árin í Svíþjóð voru mín lærdómsríkustu ár, 13-16 ára, og svo flutti ég til Egilsstaða aftur og var með annan fótinn í Reykjavík þangað til ég flutti þangað endanlega 19 ára. Egilsstaðir eru mínir heimahagar en ég hef verið hátt í 13 ár í Mosfellsbæ, sem er orðið mitt annað „heima“, það er svona sveit í borg og ég kann virkilega vel við mig þar. Það er mjög stutt í sveitamanninn í mér,“ segir Simmi, sem segir uppvaxtarárin á Egilsstöðum hafa verið frábær og hann hafi verið allt í öllu, sérstaklega þegar kom að íþróttum.

„Ég æfði frjálsar, handbolta, fótbolta, fimleika, innibandí, badminton og blak. Ég var landliðsmaður í frjálsum og á silfurverðlaun á Ólympíuleikum smáþjóða og ætlaði að feta í fótspor pabba. Rúmlega tvítugur tók ég þá ákvörðun að hætta í spjótkasti en þá var ég kominn með fullan háskólastyrk til að læra auglýsingasálfræði við háskóla í Bandaríkjunum. Í Svíþjóð var ég í unglingalandsliði Svía í handbolta, þannig að handbolti og spjót voru íþróttir sem ég tók lengra. Á hverju ólympíuári fæ ég fiðring, ég var upphaflega í hópnum með Völu Flosa sem fór til Sydney í Ástralíu og það er eftirsjá að hafa ekki tekið það alla leið, þó ekki væri nema til að prófa að ganga inn á völlinn á Ólympíuleikum og hafa það í lífsreynslubankanum.“

„Ég lærði snemma að frægð og frami er ekki það sama og vellystingar, glansmyndin er ekki endilega raunveruleiki“

Hvernig var að eiga þjóðþekktan föður? „Ég þekkti hann ekki sem íþróttamann, heldur sem skólameistarann. Einar bróðir minn, sem er 17 árum eldri en ég, var á sínum tíma rosastór í spjótkasti og ég kynntist þessum frægðaráhrifum meira í gegnum hann og það var mikill skóli. Ég lærði snemma að frægð og frami er ekki það sama og vellystingar, glansmyndin er ekki endilega raunveruleikinn og þá er ég ekki að segja að bróður mínum hafi liðið neitt illa,“ segir Simmi. „En ég man til dæmis eftir að hafa farið með honum í Kaupfélag Reykjavíkur og nágrennis að árita plaköt og það voru þúsundir manna og stjörnufans. Svo fórum við upp í Fiat-inn hans og hann kom honum ekki í gang og við þurftum að ýta og sjarminn af frægðinni fór svolítið. Þannig að maður áttaði sig ungur á að það eru þessar öfgahliðar á frægðinni og sérstaklega á Íslandi, þetta var góður skóli á sínum tíma.“

Fjölmiðlarnir alltaf hlutastarf

Ferill Simma sem fjölmiðlamanns byrjaði þegar hann var í Menntaskólanum á Egilsstöðum og fór að vera með þætti í svæðisútvarpi Rásar 2. Þegar svæðisútvarpið var lagt niður ákvað hann að fylgja eftir fjölmiðlaáhuganum og fara til Reykjavíkur. „Ég leigði herbergi með aðgangi að salerni, í kjallara hjá vinafólki, skúraði 11-11 verslanirnar á næturnar og var í skóla með. Ég fékk síðan tækifæri til að vera með morgunþátt á laugardags- og sunnudagsmorgnum frá 9-12 á útvarpsstöð sem hét Mono og enginn hlustaði á,“ segir Simmi og hlær.

Á Mono kynntust hann góðvini sínum og síðar viðskiptafélaga, Jóhannesi Ásbjörnssyni (Jóa) og byrjuðu þeir með morgunþátt saman sem seinna varð að sjónvarpsþættinum 70 mínútur. Síðan tóku við fleiri störf eins og kynnir í Idol stjörnuleit og fleira.

„Þetta er tröppugangurinn og ferillinn í fjölmiðlamennskunni sem var þó alltaf hlutastarf,“ segir Simmi, sem á þessum tíma var sölumaður auglýsinga á útvarpssviði.

Fabrikkuævintýrið verður til

Árið 2009 starfaði Simmi sem forstöðumaður sölu- og markaðssviðs hjá Tali og áttaði sig á að hann mætti frekar í vinnuna til að fá greitt, þar sem hann hafði góð laun, frekar en að hafa gaman af því sem hann gerði. „Ég fann fyrir breytingu á gildismati hjá sjálfum mér og tók því frekar afstöðu með geðheilsunni en veskinu og árið 2009 sagði ég upp og var ekki með neitt annað í hendi. Á þeim tíma var þáverandi eiginkona mín ófrísk að þriðja syni okkar þannig að ég fæ stundum kaldan svita yfir tilhugsuninni um hvað maður var fífldjarfur að gera þetta en ég var sannfærður um að ég þyrfti að vera upp við vegg til að finna hvað ég vildi gera.“

Hamborgarafabrikkan fór á teikniborðið hjá honum og Jóa árið 2010 og upprunalega hugmyndin var að taka Gauk á Stöng í gegn og opna lítinn krúttlegan stað þar. „Við ætluðum bara að vera þar sjálfir að steikja borgarana en hugmyndin vatt upp á sig og varð fljótlega mun stærri en við réðum tveir við,“ segir Simmi og tekur fram að árferðið hafi verið svipað og núna, í kjölfar kreppunnar þegar öll úrræði vegna hennar voru að líða undir lok.

„Úr varð að við stofnuðum fyrirtæki sem var byggt á því að hafa gaman og ég trúi því að ef þú getur unnið við það sem þér finnst gaman þá er það ekki lengur bara einhver vinna heldur verkefni og áhugamál. Og ef þú getur það þá sinnir þú því vel, verður góður í því og ég held að á endanum að þá náir þú í gegn. Þetta er einföld heimspeki en ég hef fundið það að hún virkar.“

Simmi og Jói áttu 75 prósent í fyrirtækinu og Skúli Gunnar Sigfússon, ávallt kenndur við Subway, átti 25 prósent. Deilumál Simma og Skúla vegna lóðamála á Hvolsvelli höfðu þau áhrif, að sögn Simma, að honum var að hluta haldið frá félaginu. „Og þegar þú færð ekki að sinna verkefninu þínu þá hægt og rólega missir þú fókusinn, en Skúli er ekki ástæða þess að ég fór úr félaginu,“ segir Simmi, sem fór í félagið Gleðipinna, ásamt Jóa og Guðmundi Auðunssyni, sem rak Keiluhöllina í Egilshöll. Eftir breytingar á eignarhaldi, þar sem Gleðipinnar keyptu hlut Simma og Jóa í Hamborgarafabrikkunni, kom í ljós að eigendur deildu ekki sömu framtíðarsýn hvað fyrirtækið varðaði. „Við vorum sáttir með að ég myndi víkja úr sæti í félaginu og í dag er það fyrirtæki orðið mun stærra, þeir höfðu ákveðna framtíðarsýn og ég var ekki endilega sammála þeim um hana. Jói var hrifnari af henni en ég og því skildu leiðir okkar viðskiptalega séð, en við erum og verðum alltaf mjög góðir vinir.“

Aðspurður um deilumál þeirra Skúla segir Simmi ekki rétt að hann tjái sig mikið um það, þar sem fyrirtaka sé á málinu í Hæstarétti í sömu viku og viðtalið er tekið. Simmi vann málið að hluta fyrir Landsrétti, en báðir áfrýjuðu þeir málinu til Hæstaréttar. „Málið er á réttum stað hjá dómstólum. En þetta mál er harmleikur af því að upprunalega þurfti þetta ekki að verða að stóru máli,“ segir Simmi og segir málið fordæmisgefandi, þar sem ekki hafi oft reynt á vernd minnihlutaeignar félaga fyrir dómstólum. „Málareksturinn hefur kostað mig um 20 milljónir. Lagahvoll hefur unnið málið vel fyrir mig og lagt mikið upp úr drengskapnum í málinu, það er auðvelt að fara ofan í skotgrafir og alls konar flækjustig, þeir hafa hins vegar haldið reisn og drengskap og ég kann mjög vel að meta það.“

Sigmar Vilhjálmsson
Mynd / Hallur Karlsson

Á hlaupum í áratug í viðbót

Auk þess að eiga staðina þrjá sem áður eru nefndir á fyrirtæki Simma 50 prósenta hlut í Hlöllabátum. „Hlöllabátar er alveg dásamlegt alíslenskt fyrirtæki og elsti skyndibitastaður landsins, sem hefur ekki mikið breyst frá árinu 1986 og mér líður svolítið eins og hlutverkið þar sé að standa vörð um að það breytist of mikið. Ég taldi vörumerkið eiga mjög mikið inni, sem hefur verið raunin. Við sjáum aukningu í sölu og frekari tækifæri eins og að selja sósurnar og önnur hráefni í verslunum,“ segir Simmi.

 

„Hægt og rólega lærir maður að slaka á kröfunum en ég á alveg til að gera miklar kröfur, bæði til mín og þeirra sem vinna með mér“

„Ég sé fyrir mér að ég eigi eftir svona tíu ár í því sem ég er að gera, þá er ég að tala um að vera á gólfinu. Síðan sé ég mig fyrir mér í þeirri stöðu að geta stutt aðra sem eru með hugmyndir, hvort sem það er með fjármagni eða hugmyndum eða vinnu; hugmyndavinnan og útfærslan er oft mest vanmetin því þú getur verið með frábæra hugmynd en lélega útfærslu og þá þarftu oft bæði reynsluna og hugmyndaflugið til að útfæra hana öðruvísi. Í draumheiminum verð ég einhvers staðar með skrifstofu þar sem dyrnar verða opnar og maður bara miðlar reynslu og hugmyndum til þeirra sem koma með nýjar hugmyndir. Ég held að þetta geti verið mjög gefandi,“ segir Simmi.

„Orðinn þetta gamall og eftir svona mörg verkefni get ég líklega ekki logið því að ég sé ekki leiðtogi,“ svarar Simmi aðspurður um hvort hann sé yfirmaður eða leiðtogi. „Ég er „hands on“-maður, það hefur aldrei vantað upp á að ég geng sjálfur í verkin,“ segir Simmi sem segist vera metnaðargjarn og honum finnist mikilvægt að gera hlutina vel.

„Hægt og rólega lærir maður að slaka á kröfunum en ég á alveg til að gera miklar kröfur, bæði til mín og þeirra sem vinna með mér, en ég held samt að ég sé sanngjarn í því og ég er ekki að biðja fólk um að gera meira en það sem ég geri. Ég get ekki heldur ætlast til þess að fólk sé ástríðufullt eins og ég er fyrir mínum verkefnum.“

Kitlar það þig að starfa aftur sem fjölmiðlamaður?

„Ég gæti hugsað mér að vera með einn sjónvarpsþátt, sem mér finnst ég eiga eftir að gera einhvern tíma, en ég sé ekki færi á því í dag. Ég fór náttúrlega mjög langt, átti framleiðslufyrirtæki, þar sem við framleiddum sjónvarpsþætti og við settum í gang tvær sjónvarpsstöðvar sem voru skammlífar,“ segir Simmi, en greint hefur verið frá því að það fyrirtæki hafi farið í gjaldþrot. „Skúli [eigandi Subway], hefur sagt í fjölmiðlum að þær hafi farið í gjaldþrot, sem sýnir orðræðu hans gagnvart mér og hvernig hann reynir að lítillækka mig í umræðunni. Hið rétta er að 365 keypti þær stöðvar eftir mjög stuttan tíma í loftinu og svo gerðu þeir ekkert með þær, sem er kannski ástæðan fyrir kaupunum að þeir vildu bara að þær lognuðust út af. Það töpuðust engir fjármunir í þessu máli.“

Sigmar Vilhjálmsson
Mynd / Hallur Karlsson

Nærist á gagnrýninni

Sem þekktur maður ratar Simmi oft í fjölmiðla, þá hinum megin við borðið, sem umfjöllunarefnið en ekki fjölmiðlamaðurinn, en hann segist ekki vera viðkvæmur fyrir umfjöllun um sig eða neikvæðum ummælum.

„Ég er viðkvæmur fyrir hönd þeirra sem standa mér næst frekar, börnin mín eru númer eitt, tvö og þrjú í því. Ég er ósáttur ef þeim er blandað inn í umræðuna, en ég er ekki viðkvæmur fyrir henni og í sjálfu sér nærist ég á gagnrýni. Ég tek gagnrýni ekki illa og er alltaf til í að hafa rangt fyrir mér og sanna að ég fari með rangt mál, ég er ekki viðkvæmur fyrir því. Ég er búinn að brynja mig fyrir skítkasti og lygum og megnið af því er bara ekki svaravert. Hins vegar hef ég alveg leyft mér að svara þegar einhverju er haldið við og ég hef þá bara stigið fram og svarað því, en ég er ekkert í kommentakerfunum,“ segir Simmi og segist vera fyrstur manna til að biðjast afsökunar þegar við á.

„Ef ég hef sært einhvern þá er ég fyrsti maðurinn til að taka upp símann og hringja og biðjast afsökunar og ég þoli alveg þau samskipti. Auðvitað fylgir því ákveðin ritskoðun að vera þekktur og ég átta mig á því, bara dags daglega, og það er líka bara hollt að ákveðnu leyti. Og meðan mér er ekki heilsað að sjómannasið þá er það betra en ekki og hefur frekar hjálpað mér í lífinu en hitt. Fólk gefur sig á tal við mig og ég hef aldrei pirrað mig á því. Það veitir mér ákveðið aðhald og ritskoðun, því það er oft stutt í vitleysinginn í mér. Ég hef oft gaman af því að gera hluti sem kannski aðrir gera ekki.“

Af því að þú opnaðir inn á það, ertu enn svolítið í dag vitleysingurinn sem þú varst í 70 mínútum?

„Algjörlega, það er ekkert langt í hann. Mér finnst gaman að gera skrýtna hluti sko, það er stutt í strákinn í mér,“ segir Simmi og skellihlær. „Mér finnst líka gaman hvað ég hef komist upp með að fá að vera bara ég sjálfur. Ég segi hluti sem skipta máli og er tekinn alvarlega í umræðunni og svo næsta dag er ég að gera símaat með strákunum í útvarpsþætti. Mér þykir vænt um að fá að vera bara svolítið ég sjálfur og ég held að fólk eigi almennt ekki bara einhverja eina hlið. Við höfum séð stjórnmálamenn sem sýna á sér nýja hlið og það verða allir svo undrandi eins og stjórnmálamenn séu bara stjórnmálamenn, fólk á sér svo margar hliðar.

Ég held að samfélagið sé orðið svo opið, líka vegna samfélagsmiðla, ég er með opinn samfélagsmiðil og leyfi mér bara að vera svolítið ég sjálfur þar. Mér finnst þetta bara fínt. Í versta falli hættir fólk að fylgjast með mér ef það fílar mig ekki. Ég bað engan um að fylgjast með mér. Ég hef aldrei þurft að bæla eitt eða neitt niður af því sem mér finnst gaman að gera.“

Sigmar Vilhjálmsson
Mynd / Hallur Karlsson

Lánsamur að hafa áhuga á vinnunni

Simmi segist reyna að skapa sér frítíma, enda með áhuga á mörgu öðru en vinnunni. Á sumrin eru það golf og veiði, en á veturna skíði og ferðalög. „Þetta er það sem ég flokka sem áhugamál mín. Ég er hins vegar lélegur áhugamaður, ég kann þetta allt en ég er ekkert sérstaklega góður af því ég gef þessu ekki tíma. Þannig að maður paufast eitthvað í von um að muna þetta allt, kunna þetta og halda þessu við þannig að þegar maður er orðinn eldri og getur farið að stunda þetta þá er maður fljótur aftur að ná árangri,“ segir Simmi.

„Svo er ég bara svo lánsamur að hafa áhuga á því sem ég er að gera, veitingarekstur, matur, er það áhugamál? Er það ekki bara sjálfsbjargarviðleitni að kunna að elda?“

Alltaf verið barnakall

Simmi var orðinn föðurbróðir tíu ára gamall og byrjaður að passa börn bræðra sinna. Sjálfur hafði hann alltaf áhuga á eignast börn og fjölskyldu. „Ég eignaðist helmingi færri börn en foreldrar mínir, ég á þrjá stráka. Ég hef alltaf verið mikill barnakall, hef mjög gaman af börnum og hlakka bara til að verða afi, ég held að það sé besta hlutverkið af þeim öllum. Svo getur bara vel verið, nú þegar maður er einhleypur, að maður finni einhverja og eignist fleiri börn,“ segir Simmi og hlær, en dregur síðan örlítið í land. „Ég er ekki að opna á það samt en mig hefur aldrei hryllt við börnum eða foreldrahlutverkinu.“

„Ég hef alltaf verið mikill barnakall, hef mjög gaman af börnum og hlakka bara til að verða afi, ég held að það sé besta hlutverkið af þeim öllum.“

Ertu góður pabbi?

„Ég held það já, ég alla vega reyni að leggja áherslu á það og að við gerum hluti saman. Ég leyfi þeim líka að eiga frumkvæðið, en ég hef tekið mjög virkan þátt í því sem þeir gera, ég er liðsstjórinn á fótboltamótunum, sef í skólastofunni með strákunum, segi sögur og tek þann pakka. Ég hef gaman af því og að kynnast um leið strákunum sem eru samferðamenn sona minna og sjá hvernig karakterar þeir eru og munu verða,“ segir Simmi.

Að hans mati felst skilgreining á góðu foreldri þó ekki í hversu góður skemmtanastjóri það er, heldur hvaða gildum það er hægt að koma að, og stundum felist samvera í að gera ekkert saman. „Ég finn mun á mínum elsta, sem er 17 ára, og mínum yngsta, sem er 10 ára, að tíminn sem við höfum sem foreldrar til að hafa áhrif á börnin okkar hefur styst. Áhrifavaldarnir í upplýsingum sem flæða yfir börnin okkar eru það sterkir. Maður taldi sig hafa 14 ár til að ala upp barnið sitt og kenna því ákveðin gildi, en hann hefur styst alveg um fjögur ár milli þeirra tveggja þannig að ég held að ég sé bara að horfa á það að ég, á lokasprettinum með þann yngsta, er að koma gildum inn hjá honum til frambúðar. Ég held að það mikilvægasta í dag sé að kunna að velja og hafna, vita muninn á hvað er rétt og hvað er rangt. Mér hefur lánast það til þessa, synir mínir hafa verið mjög heilbrigðir í afstöðu sinni til hópþrýstings til slæmra verka, það er stutt hins vegar í það að þeir séu fjörugir og hrekkjóttir og ég verð víst að bera einhverja ábyrgð á því,“ segir Simmi og brosir prakkaralega og svarar aðspurður að synirnir verði að ákveða hvort þeir feti í fótspor hans í ógeðsdrykkjum og hrekkjum. „Ég hef ekki teiknað upp neina stjörnumynd af því.“

„Ég sagði einhvern tíma í gríni að ég væri að leita að hlutastarfskærustu, en það er í gríni sagt.“ Mynd / Hallur Karlsson

Er tími fyrir ástina?

„Það er erfitt, hún þarf tíma og það þarf að rækta hana eins og annað. Ég sagði einhvern tíma í gríni að ég væri að leita að hlutastarfskærustu, en það er í gríni sagt,“ ítrekar Simmi. „Er þetta ekki bara þannig að hún kemur þegar hún kemur; einhvers staðar las ég að þegar maður leitar sem minnst þá dettur þetta í fangið á manni. Ég er alla vega ekki á Tinder og hef ekki hug á að fara þangað, ég held að það sé ekki vettvangurinn fyrir þessi mál. Kannski gerist þetta á einhverju balli hér á Bryggjunni að maður dettur í vangadansinn, hver veit?“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -