2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Reykjavík látin axla byrðar nágrannanna

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri var í veikindaleyfi á sama tíma og hart var sótt að honum vegna braggamálsins. Hann segir vondan brag á umræðunni um störf borgarinnar en er staðráðinn í að sitja út kjörtímabilið sem að hans sögn mun einkennast að mikilli uppbyggingu.

Óhætt er að segja að mikið hafi gengið á fyrstu mánuði nýs meirihluta sem kynntur var í júní. Gustað hefur um Orkuveitu Reykjavíkur eftir að framkvæmdastjóri Orku Náttúrunnar var sakaður um óæskilega hegðun gagnvart undirmönnum og einni þeirra sem kvartaði undan hegðun hans var sagt upp. Þá kom í ljós að tveir aðrir starfsmenn höfðu orðið uppvísir af sambærilegri hegðun, innan og utan veggja fyrirtækisins. Á haustmánuðum var svo ljóstrað upp um yfirgengilega framúrkeyrslu við enduruppbyggingu bragga í Nauthólsvík. Ofan á allt saman hefur Dagur glímt við erfið veikindi en hann greindi frá því í júlí að hann glímdi við svokallaða fylgigigt í kjölfar sýkingar. Um miðjan október fór hann í veikindaleyfi vegna þessa. „Gigtin var greind fljótt og vel og ég er á ansi mikilli ónæmisbælandi meðferð til að halda henni niðri og fannst það hafa gengið býsna vel. En hin hliðin á því að vera ónæmisbældur er að maður er útsettari fyrir sýkingum og ég hafði verið varaður við því. En maður býst samt kannski aldrei við því að fá þær og fyrir nokkrum vikum tók sig upp sambærileg sýking og ég fékk síðasta vetur. Hún var hins vegar greind fljótt og vel og ég fékk viðeigandi meðferð en þurfti að taka tíma til að jafna mig. Þannig að þetta er ákveðinn línudans en ég bý að því að eiga frábæra fjölskyldu og frábært samstarfsfólk sem steig bara inn í þau verkefni sem voru í gangi og leysti það mjög vel af hendi. Nú er ég kominn aftur á ról, kannski tek því aðeins rólegar,“ segir Dagur sem hefur notast við staf á ferðum sínum. „Ég er að reyna að losa mig við stafinn, nota hann á lengri gönguferðum en hvorki í vinnu né heima og vonast til að losna við hann fljótlega.“

Upphlaup út af stóru og smáu

Veikindi Dags urðu að pólitísku deilumáli eftir að oddviti Sjálfstæðisflokksins sagði óþægilegt að hann gæti ekki tekið þátt í umræðum um braggamálið og fékk hann miklar skammir í hattinn frá samherjum Dags. Sjálfur kaus Dagur að svara ekki fyrir málið. „Ég óskaði eftir ákveðinni tillitssemi í sumar og það sem mér finnst standa upp úr er að ég mæti hvarvetna hlýju og stuðningi og nánast undantekningarlaust í pólitíkinni. Þær undantekningar sem þar eru finnst mér dæma sig sjálfar og ég ætla ekkert að bregðast við því.“

Þegar ljóst var hvernig borgarstjórn var skipuð sagðist Dagur vonast til þess að þeir ósiðir sem tíðkuðust á Alþingi bærust ekki inn í ráðhúsið. Aðspurður hvernig til hafi tekist á þessum fyrstu mánuðum kjörtímabilsins svarar Dagur því til að núverandi minnihluti sé óvægnari en sá sem áður var: „Mér finnst vondur bragur á upphlaupum út af stóru og smáu. Það er nánast sama hvað er, það eru notuð alveg gríðarlega stór orð. Ég kveinka mér ekki undan því þegar þeim er beint að mér en mér finnst miklu verra þegar það er verið að hafa almennt verkafólk sem er að vinna hjá borginni að háði og spotti með því að birta myndir því á Facebook og gera það að athlægi.“ Eitt slíkt tilfelli var þegar Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, birti á Facebook-síðu sinni mynd af starfsmönnum borgarinnar að vökva blóm í rigningu. „Mér finnst þetta í raun vera að fara yfir einhver mörk sem við eigum ekki að venjast hér í borginni. Fólk sem er kjörnir fulltrúar og er komið í valdastöðu verður einfaldlega að sjá sóma sinn í því að umgangast það vald af hófsemi og virðingu fyrir öðru fólki.“

„Ég kveinka mér ekki undan því þegar þeim er beint að mér en mér finnst miklu verra þegar það er verið að hafa almennt verkafólk sem er að vinna hjá borginni að háði og spotti með því að birta myndir því á Facebook og gera það að athlægi.“

AUGLÝSING


Senda skýr skilaboð um borgarlínu

„Ég myndi segja að þessi vetur gæti orðið vetur hinna stóru verkefna,“ segir Dagur þegar hann er spurður út í fjárhagsáætlun borgarinnar fyrir árið 2019 sem hann kynnti í vikunni.  Er gert ráð fyrir að afgangur á rekstri borgarinnar nemi 3,6 milljörðum króna. Á sama tíma var fjármáláætlun næstu ára lögð fram. „Þar er af mörgu að taka og í mínum huga erum við að sigla inn í kjörtímabil sem mun einkennast af miklum fjárfestingum fyrir fólk og lífsgæðin í borginni, fyrir hverfin og þjónustu við börn og unglinga. Rekstur borgarinnar gengur mjög vel og tölurnar eru mjög sterkar.“ Fyrst nefnir Dagur fimm milljarða króna fjárfestingu í leikskólamálum á næstu árum þar sem markmiðið er að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla. „Við erum að fjölga leikskóladeildum, fjölga ungbarnadeildum sérstaklega og byggja nýja leikskóla. Á rekstrarhliðinni sjáum við fram á að geta tekið inn yngri börn í skrefum. Þarna erum við að klára leikskólabyltinguna sem var sett af stað í borginni fyrir 20 árum.“ Þá nefnir Dagur stór verkefni í efri byggðum borgarinnar – boltahús við Egilshöll í Grafarvogi, byggingu Dalsskóla í Úlfarsárdal ásamt menningarmiðstöð og sundlaug og knatthús og íþróttahús í Mjódd.

„Rekstur borgarinnar gengur mjög vel og tölurnar eru mjög sterkar.“

Stóra málið er þó vafalaust hin umdeilda borgarlína en í fyrsta skipti eru fjármunir eyrnamerktir því verkefni í fjárfestingaáætlun, fimm milljarðar nánar tiltekið. Það er þó ekki fugl í hendi því enn á eftir að semja við ríkið um fjármögnun verkefnisins. „Þó að þetta séu ekki endanlegar tölur þá vildum við sýna að borgin hefur afl til þess að standa fyrir sínum hluta á þessu stóra verkefni sem skiptir rosalegu máli ef að tafatíminn í umferðinni á ekki að aukast enn meira. Ríkið þarf auðvitað að standa við sinn hlut en við höfum sagt að við séum tilbúin til þess að leggja út fyrir borgarlínunni í einhver ár gegn öruggum samningi um að ríkisframlagið komi í réttu hlutfalli á móti vegna þess að ef maður horfir á morgunumferðina og síðdegisumferðina í borginni þá er augljóst að það þarf að grípa til fjárfestinga og róttækra aðgerða.“ Þótt borgarlínu sé ekki að finna í drögum að fimm ára samgönguáætlun ríkisins segist Dagur bjartsýnn á að verkefnið fái framgang, enda liggi fyrir viljayfirlýsing milli ríkisins og þeirra sveitarfélaga sem koma að verkefninu. „Nýframkomin loftlagsáætlun stjórnvalda ætti að styrkja í raun þennan málstað og þetta verkefni. Það er algjörlega ljóst að Ísland getur ekki náð þeim markmiðum sem sett eru varðandi samgöngur ef ekki koma til breyttar ferðavenjur, þar með talið borgarlína. Það er margt sem helst í hendur um að það ætti að vera hægt að ná breiðri pólitískri samstöðu og breiðri samstöðu milli ríkis og sveitarfélaga.“

Aðra stóra samgönguframkvæmd er þó að finna í samgönguáætlun og er það stokkur á Miklubraut. Dagur segir það mikið fagnaðarefni þótt sú framkvæmd sé einungis fjármögnuð að hluta. „Hún er sett í stokk á öðru tímabili samgönguáætlunar. Mér finndist mjög spennandi að skoða leiðir til þess að flýta því í tengslum við borgarlínuframkvæmdina en það er auðvitað praktískt úrlausnarefni. Þetta er líka flókin framkvæmd, það þarf að fara í umhverfismat og útfæra hvernig við ætlum að haga umferðinni á framkvæmdatímanum. En aðalatriðið er að Miklabraut fari í stokk. Stóra myndin í samgöngumálunum er sú að við þurfum að gera það að betri og í raun framúrskarandi kosti fyrir alla sem vilja fara til og frá vinnu eða skóla með almenningssamgöngum, að geta gert það fljótt og vel. Að borgarlínan fái forgang í umferðinni, að þú vitir að þetta skili þér hratt og örugglega, að tíðnin sé meiri, að stöðvarnar séu vistlegri og þetta sé bara framúrskarandi upplifun í alla staði.“

Til að takast á við miklar umferðarteppur á álagstímum segir Dagur að hægt sé að ráðast í tilteknar aðgerðir. „Það eru ákveðnir hlutir sem hægt er að gera í ljósastýringu og það á að gera það strax. Það eru líka ákveðnir hlutir sem hægt er að gera varðandi tiltekna flöskuhálsa sem hægt er að gera strax“. Um mislæg gatnamót segir Dagur að gefinn sé upp bolti með það í útjaðri borgarinnar í tengslum við áform um tvöföldun veganna út úr borginni. „En það er alveg ljóst að inni í miðri byggð þar sem eru íbúðahverfi, þar á hraðbrautaskipulag ekkert heima.“

Ekki meiri peningur í braggann

Dagur segir fjárhagsáætlunina bera þess merki að fjárhagsleg staða borgarinnar sé sterk en stærsta mál kjörtímabilsins hefur þó snúið að óábyrgri fjármálastjórn í kringum braggamálið. Þótt málið hafi á tíðum verið farsakennt, samanber 750 þúsund króna reikning fyrir dönsk strá sem líta út eins og íslenskt melgresi, þá er 250 milljóna króna framúrkeyrsla lítið gamanmál. Framkvæmdum er ólokið en Dagur segir að af hálfu Reykjavíkurborgar verði ekki meiri peningar settir í braggann. „Braggafjárfestingunni er lokið og nú verður Háskólinn í Reykjavík leigusali og annast starfsemina þar. Við þurfum auðvitað að ljúka frágangi málsins við Háskólann í Reykjavík en hugsunin var sú að leigugreiðslur háskólans myndu standa undir þessari framkvæmd. Það er alveg ljóst og var ljóst síðastliðið sumar að af því að framkvæmdin fór fram úr áætlun þá mun hluti þess lenda á Reykjavíkurborg og hluti þess á Háskólanum í Reykjavík. Þessari framkvæmd á að vera lokið.“

„Braggafjárfestingunni er lokið og nú verður Háskólinn í Reykjavík leigusali og annast starfsemina þar.“

Dagur segir að þessi mikla framúrkeyrsla hafi orðið honum ljós þegar viðauki við fjárfestingaáætlun hafi verið lagður fram í sumar. Hann hafi þá vakið athygli borgarráðs á málinu og kallað eftir skýringum. „Allur meirihlutinn hefur verið alveg skýr í því að það þurfi að fara yfir þetta mál og komast til botns í því og við höfum kallað eftir tillögum frá innri endurskoðun um það sem þarf að bæta úr. Við þurfum að tryggja að ferlarnir hjá okkur og leikreglurnar séu þannig að það dragi úr áhættu eins og hægt er í fjárfestingu og framkvæmdum. Við vitum það að opinberar framkvæmdir og framkvæmdir á vegum einkaaðila hafa tilhneigingu til að fara fram úr og það er áhætta í því öllu og umgjörðin hjá okkur þarf að vera þannig að það sé dregið úr þeirri áhættu eins og nokkur kostur er.“ Bendir Dagur í því samhengi á að bæði Perlan og Ráðhús Reykjavíkur hafi farið langt fram úr áætlunum. „Í samtímaheimildum sagði að Perlan hefði dugað til þess að byggja 27 leikskóla. Ráðhúsið eitt og sér voru 33 braggar í framúrkeyrslu.“

Dagur sagðist á dögunum ekki munu segja af sér vegna málsins en aðspurður um hvernig pólitísk ábyrgð á málinu komi til með að líta út svarar hann: „Við ákváðum að setja þetta mál til skoðunar, meðal annars vegna þess að það hafði verið spurt ýmissa spurninga varðandi það. Ég held að innri endurskoðun sé réttur aðili til að fara yfir það mál og fella dóma um það og ég ætla ekki að kveða upp dóma um það fyrr en þeirri skoðun er lokið.“

Erum að uppskera í húsnæðismálunum

Gríðarlegar hækkanir á húsnæðismarkaði hafa sett marga í erfiða stöðu, ekki síst leigjendur, fyrstu kaupendur og þá sem hafa minna á milli handanna. Fyrir þessa hópa er ástandið afleitt og húsnæðismálin verða eitt helsta málið í komandi kjarasamningum. Dagur segir að nú sé verið að sigla inn í tímabil uppskeru í húsnæðismálum. „Það sem við erum að sjá núna að á hverju ári koma inn á markaðinn hundruð íbúða sem eru í byggingu á vegum óhagnaðardrifinna félaga sem eru ætlaðar fólki með lægri laun, stúdentum, eldri borgurum og þeim sem vilja búseturétt. Þetta mun hafa veruleg og vaxandi áhrif inn á húsnæðismarkaðinn til þess að tempra hækkanir á leigu og stuðla að miklu heilbrigðari húsnæðismarkaði og þeirri fjölbreytni sem þarf.“ Á sama tíma séu að byggjast upp ný svæði með íbúðum á sölumarkaði – Vogabyggð, Hlíðarendi, Gufunes, Kirkjusandur, stækkun Bryggjuhverfis svo og nýtt hverfi í Skerjafirði þar sem 700 íbúðir fara af stað í fyrsta áfanga. „Þannig að við munum sjá miklar og jákvæðar breytingar á húsnæðismarkaði, bæði aukið framboð fyrir þá sem vilja kaupa en líka örugga langtímaleigu á viðráðanlegu verði fyrir þá sem hafa minna á milli handanna eða eru stúdentar.“

En koma þessar framkvæmdir ekki of seint í ljósi þess ástands sem ríkir á markaðinum?

„Við töldum, kannski með röngu vegna margs konar yfirlýsinga um alls konar lausnir í einingahúsum, nýjar lausnir í byggingaaðferðum og svo framvegis, að það kæmu í gegnum hinn almenna húsnæðismarkað lausnir sem myndu mæta ungu fólki og nýjum kaupendum. Að mínu mati og það var okkar niðurstaða í fyrra að þessar lausnir höfðu bara látið á sér standa þrátt fyrir alla umræðuna. Markaðurinn var ekki að mæta ungu fólki og þess vegna steig borgin fram.“ Þar vísar Dagur í verkefni sem kynnt var á dögunum og fólst í hugmyndasamkeppni þar sem öllum gafst kostur á að koma með hugmyndir að uppbyggingu ódýrs húsnæðis fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur. Borgin leggur til lóðir á völdum stöðum í borginni sem valdir samstarfsaðilar munu þróa og byggja upp að gefnum ákveðnum skilyrðum. „Þarna er borgin að einhverju leyti að fara út fyrir hlutverk sitt en við lítum þannig á að borg þarf að hafa heilbrigðan og fjölbreyttan húsnæðismarkað og við viljum beita okkur fyrir nýsköpun og tempra þessar rosalegu verðhækkanir sem hafa orðið.“

Mynd / Hákon Davíð

Eitt af þeim félögum sem valin voru til verksins var Heimavellir. Það vakti litla lukku meðal formanns VR sem sagði Heimavelli gróðafyrirtæki sem beri ekki hag leigjenda fyrir brjósti. Dagur bendir á móti á að Reykjavíkurborg hafi verið leiðandi í samstarfi við óhagnaðardrifin félög. „Það hefur enginn og ekkert sveitarfélag á Íslandi unnið nánar í samvinnu við verkalýðshreyfinguna en Reykjavíkurborg. Við vorum í liðinni viku að úthluta lóð fyrir 99 íbúðir uppi í Árbæ við Bæjarhálsinn til Bjargs. Þar með eru úthlutanir til Bjargs orðnar um 700. Við höfum síðan átt í mjög jákvæðum samskiptum við formann VR sem vill til viðbótar við þessar íbúðir á vegum Bjargs, sem eru fyrir lægst launaða hópinn, fara í verkefni þar sem VR byggir leiguíbúðir sem verði fyrir alla félagsmenn VR, ótekjutengt. Við erum mjög jákvæð fyrir því.“

Reykjavík axlar byrðar nágrannanna

Dagur segist finna fyrir því að ríkari kröfur eru gerðar til Reykjavíkurborgar en annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Aðspurður hvort hann upplifi það þannig að borgin sé að taka á sig byrðar nágrannasveitarfélaganna svarar hann: „Að hluta til. Ég hef kallað eftir því í mörg ár að önnur sveitarfélög geri meira í húsnæðismálunum. Mér finnst ekkert eðlilegt við það að Reykjavíkurborg sé að vinna að uppbyggingu þúsund íbúða í samvinnu við verkalýðshreyfinguna og sum stór og öflug sveitarfélög hafa ekki lagt fram lóð fyrir eina einustu íbúð í sama verkefni. Það er nákvæmlega það sama þegar kemur að stúdentaíbúðum og að mörgu leyti þegar kemur að íbúðum fyrir aldraða og búseturéttaríbúðir. Við erum með yfir þrjú þúsund íbúðir í byggingu í samráði við óhagnaðardrifin félög þá eru verkefni annarra sveitarfélaga bara í mýflugumynd.“ Dagur segir þetta varhugaverða þróun með tilliti til þróunar samfélagsgerðarinnar. Hætta sé á að ríkt fólk verði aðgreint frá hinum tekjulægri. „Við verðum að vera með eitt samfélag, með félagslega blöndun alls staðar. Það er heldur ekki gott fyrir fólk með meira á milli handanna að það verði til einhver einsleit hverfi fyrir ríkt fólk. Því að dæmin erlendis þar sem svona þróun hefur fengið að vera óáreitt eru ömurleg. Þetta er verri niðurstaða fyrir alla.“

„Ég hef kallað eftir því í mörg ár að önnur sveitarfélög geri meira í húsnæðismálunum.“

Dagur segir að þetta eigi að einhverju leyti við um aðra þjónustu þar sem borgin njóti ekki alltaf sannmælis. Það skýri meðal annars hvers vegna Reykjavíkurborg fái lakari einkunn í þjónustukönnunum en nágrannasveitarfélögin. „Fólk klórar sér svolítið í hausnum yfir því að menningarmál fái miklu hærri einkunn en Reykjavík í sveitarfélögum þar sem öllum ber saman um að menningu er alls ekki sinnt. Jafnvel í sumum góðum nágrannasveitarfélögum þar sem að fólk bara fer í Hörpu og Borgarleikhúsið til að sinna sinni menningarneyslu. Þetta hefur eitthvað með það að gera að eftir því sem borgin verður stærri, þá upplifir það fjarlægðina við stjórnendur meiri og þú gefur þínu nærumhverfi aðra einkunn.“ Þessar kannanir sýni til dæmis að skólarnir fái verstu einkunnina hjá þeim sem eru ekki að nota þá. „En ef þú ert með börn í skólanum þá eykst ánægjan og svo þegar þú ert spurður um þinn skóla þá er ánægjan komin um eða yfir 90% og 95% í leikskólanum. Þannig að þetta er líka spurningin á hvað áttu að horfa. Áttu að horfa á þjónustukönnun þar sem er verið að spyrja foreldra út í skólann sem börnin þeirra eru í og ánægjan mælist jafnvel 95% sem er gríðarlega hátt, eða áttu að leggja aðaláherslu á kannanir sem eru í rauninni einhvers konar ímyndarkannanir þar sem er verið að stórum hluta verið að spyrja fólk sem er ekki að nota viðkomandi þjónustu?“

Hafnartorg fengið ósanngjarna gagnrýni

Um þessar mundir stendur yfir mikil uppbygging í miðborginni. Hótel er að rísa við Hörpu og Hafnartorgið langt komið. Dagur segir loksins komið að því að miðborgin snúi vörn í sókn. „Miðborgin hefur átt undir högg að sækja eiginlega alveg frá því Kringlan var byggð. Borgarstjórnarkosningar eftir borgarstjórnarkosningar var linnulaus umræða um það að annað hvert bil við Laugaveginn væri autt. Núna er slegist um plássin í hliðargötunum.“  Uppbygging miðborgarinnar er þó ekki óumdeild og segir Dagur það eðlilegt enda þyki öllum vænt um miðborgina. En uppbygging Hljómalindar- og Hjartatorgsreitanna, Hafnarstrætis, Exeter-hótelsins og Fiskhallarinnar í Tryggvagötu sýni svo ekki verður um villst að miðborgin sé að þróast í rétta átt. „Það sem hefur verið hvað umdeildast er Hafnartorgið og það má alveg deila um arkitektúr en ég er sannfærður um að þær verslanir, veitingastaðir, íbúðir, skrifstofur og mannlíf sem þarna kemur mun verða alveg ótrúleg vítamínsprauta. Við fáum magnaðar göngugötur, bæði frá Austurvelli og út að Hörpu en líka í framhaldi af Hverfisgötu að Kolaportinu og þeirri starfsemi. Síðan þegar við sjáum húsin klárast norðan við Geirsgötuna erum við allt í einu komin með íbúðir og veitingastaði út að höfninni eins og við þekkjum frá Nyhavn í Kaupmannahöfn og Akerbrygge í Ósló. Ég er ótrúlega stoltur af þessum breytingum á borginni og ég held að að fólk sem hefur lýst áhyggjum af þessu eigi að halda aðeins í sér þangað til þetta verður komið í endanlega mynd.“

Þú nefndir byggingarnar á Hafnartorgi, finnst þér þær persónulega vel heppnaðar?

„Mér finnst þær hafa legið undir mjög ósanngjarnri gagnrýni. Þær hafa auðvitað mjög ákveðinn stíl. Mér hefur alltaf þótt það mjög eftirminnilegt þegar Pétur Ármannsson arkitekt var spurður út í hvort honum fyndist Harpan falleg daginn sem hún var opnuð. Hann sagði eitthvað á þá leið: „Spurðu mig eftir fimm ár“. Fimm árum eftir opnun Hörpu held ég að allir séu sammála um að hún sé ótrúlega vel heppnuð bygging. Þannig að ég held að ég svari því eins og Pétur, spurðu mig eftir fimm ár eftir að starfsemin hefur verið í gangi og þessi hús hafa fengið að sanna sig, ekki bara sem hús með vinnupöllum heldur hús með starfsemi og hús sem smita af lífi og þrótti út í borgarlífið.“

Mynd / Hákon Davíð

Stór hluti borgarlínuverkefnisins tengist uppbyggingu samgöngumiðstöðvar á BSÍ-reitnum. Þar sér Dagur fyrir sér að auk borgarlínunnar þjónusti hún alla helstu samgönguþjónustu, svo sem strætisvagna utan af landi og rútur með ferðamenn. „Þarna ertu í návígi við alla stærstu vinnustaði landsins; Landspítalann, háskólana báða og þetta er í raun flatlendi þannig að ef þú kemur með borgarlínu, strætó eða rútu og skiptir yfir á hjól, þá ertu í raun bara staddur í Danmörku með það flatlendi sem Vatnsmýrin og Kvosin er. Það er meira að segja hægt að sjá fyrir sér að við verðum með litlar rafskutlur sem myndu fara á milli þessara vinnustaða frá þessu samgönguhjarta.“

Ætlar að klára kjörtímabilið

Þrátt fyrir að hafa setið samfleytt í borgarstjórn síðan 2002 og ítrekað verðið orðaður við formennsku í Samfylkingunni er ekkert fararsnið á Degi úr borginni. Þvert á móti virðist hann vera að fjarlægjast landsmálin. Hann segist staðráðinn í að sitja út kjörtímabilið enda af nógu að taka. „Ég er borgarstjóri í Reykjavík og hef beitt kröftum mínum í borginni vegna þess að mér finnst borgin skipta gríðarlegu máli fyrir framtíð þessa lands. Borgarhagkerfið ásamt ferðaþjónustunni dró vagninn í hagvexti, auknum lífskjörum, fjárfestingu og svo framvegis á árunum eftir hrun og borgin mun líka gegna algjöru lykilhlutverki við að koma jafnvægi á húsnæðismarkaðinn og byggja upp atvinnulíf framtíðar. Þar er einfaldlega hjartað mitt, borgarmálin finnst mér langmest spennandi vettvangurinn í íslenskri pólitík og ótrúlega vanmetin varðandi mikilvægi.“

„Ég er borgarstjóri í Reykjavík og hef beitt kröftum mínum í borginni vegna þess að mér finnst borgin skipta gríðarlegu máli fyrir framtíð þessa lands.“

Verður borgarstjóraembættið þitt síðasta trúnaðarhlutverk fyrir Samfylkinguna?

„Ég held að maður eigi bara að spara stór orð um einhverja fjarlæga framtíð. Þetta kjörtímabil er að byrja, við erum í nýjum kraftmiklum meirihluta sem hefur ákveðið að takast á við mjög stór verkefni og á meðan svo er held ég að kröftum mínum sé hvergi varið betur en hér. Síðan er líka bara hitt, að þótt maður hafi gefið sig að stjórnmálum í einhvern tíma og ákveður að segja það gott á þeim vettvangi, þá er ekki sjálfgefið að maður haldi áfram í stjórnmálum á einhverjum öðrum vettvangi. Ég gæti þess vegna snúið mér að læknisfræði eða hverju öðru sem að höndum bæri.“

Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Lestu meira

Engar færslur fundust.

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is