Föstudagur 26. apríl, 2024
9.1 C
Reykjavik

Sakar seðlabankastjóra um ritstuld: „Martröð að sjá aðra setja fram tilgátur manns“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Bergsveinn Birgisson rithöfundur sakar Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóra um ritstuld í aðsendri grein á Vísi í dag.

Nýlega kom út bókin Eyjan hans Ingólfs eftir Ásgeir Jónsson en þar fjallar hann um landnám Íslands. Skrifar Ásgeir að bókin hafi verið lengi í smíðum, og sé afrakstur margendurtekins lesturs á Landnámabók og tengdum heimildum. Bergsveinn bendir á í grein sinni að höfundur vísi til greina og rita í neðanmálsgreinum, en hafi þó láðst að setja heimildaskrá aftast í bókina.

„Mér er málið skylt þar sem ég skrifaði bók sem fjallar um sama efni og heitir Den svarte vikingen (2013, Spartacus), og kom út þrem árum síðar í íslenskri gerð undir titlinum Leitin að svarta víkingnum (2016, Bjartur, hér eftir kölluð LSV). Svo ánægjulegt sem það annars er fyrir höfund að sjá tilgátur sínar og hugsanir reifaðar í bókum annarra, er það að sama skapi martröð að sjá aðra setja fram tilgátur manns án þess að umræddra verka sé getið.“

Segir Bergsveinn að tilgáta hans endurómi í gegnum alla bók Ásgeirs.

„Nánar tiltekið er um hugmyndastuld að ræða, fremur en beinar tilvitnanir, þó stundum stappi nærri. Ef byrjað er á breiðu línunum snýst þetta um að í áðurnefndu verki mínu (LSV) er sett fram heildartilgáta um frumlandnám Íslands útfrá landnámsmanninum Geirmundi heljarskinn. Fjölmargir fræðimenn, svo sem Helgi Guðmundsson, Helgi Þorláksson og Orri Vésteinsson höfðu varpað því fram að veiðar á rostungum hafi getað lokkað fyrstu ævintýramennina til Íslands, og er þessa getið í mínu riti.

Hið nýja í mínu verki var að nota miðaldaheimildir, auk þess að leita til annarra fræðigreina, til stuðnings því sem ég birti og kalla efnahagsmódel veiðimenningar sem ég tel hafa einkennt frumlandnám Íslands, sem síðan hafi þróast út í meiri áherslu á landbúnað þegar veiði þvarr. Þessi veiðimenning hafi byggt á veiðum á rostungum og öðrum sjávarspendýrum, vegna þess að skipaútgerð þess tíma hafi algerlega verið háð slíku til reipa í skipsreiða og til verndar á trévirki í sjó. Er þessi heildartilgáta bókarinnar rökstudd gegnum allt verkið.

- Auglýsing -

Skemmst er frá því að segja að þessi tilgáta endurómar gegnum alla bók Ásgeirs, en ekki annað að sjá en hann hafi komist að þessari niðurstöðu af eigin rammleik. Á blaðsíðu 42 í EHI varpar höfundur fram þeirri tilgátu sinni, að Garðar Svavarsson hafi komið til Íslands með þræla sína til að veiða rostung fremur en að nema land. Síðan kemur löng endursögn á því hvernig strendur Íslands hafi verið kjörnar fyrir rostunga sem lifa á skeldýrum, húðir þessara dýra væru nýttar í skipsreiða og spikið hafi verið gulls ígildi. Þá telur Ásgeir að «fyrstu siglingar til Íslands [hafi] haft þetta sama tilefni».“

Ásgeir hefur sagt að búast megi við tilkynningu frá honum von bráðar.

Hægt er að sjá alla greinina hér: Stolið og rangfært – um Eyjuna hans Ingólfs eftir Ásgeir Jónsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -