2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Siðblind, sturluð og illa innrætt

Húsnæðismálin verða stór lykill að komandi kjaraviðræðum og hluti af lausninni. Þetta sagði forseti ASÍ í fréttum eftir að hafa fundað með öðrum fulltrúum launþega, atvinnurekenda, sveitarfélaga og ríkisstjórnarinnar í Ráðherrabústaðnum í vikunni og undir þau orð tóku fleiri á fundinum. Tekjugrunnur samfélagsins var líka ræddur að sögn viðstaddra og sitthvað fleira.

Mikið var nú gott að fá þarna yfirvegaða skýringu á stöðunni því eftir að stærstu stéttarfélögin lögðu fram kröfugerðir sínar á dögunum hefur umræðan verið svo heiftúðug að það hefur verið svolítið erfitt að átta sig á því um hvað málið raunverulega snýst. Dylgjur og ásakanir um óheiðarleika og illan ásetning hafa gengið á víxl. Fólk hefur verið sakað um að vera gráðugt, siðblint, þjófótt, sturlað, viðbjóðslegt, illa innrætt og þaðan af verra. Á einum stað var manneskja nánast vænd um að vera undirrót alls ills af því að hún skaut föstum skotum á leiðtoga stéttarfélags í pistli.

Umræðan hefur verið svo dramatísk á köflum að hún hefur frekar minnt á upphlaup í unglingapartíi en skoðanaskipti fullorðins fólks. Samlíking sem væri kannski í aðra rönd skondin ef þessi umræða hefði ekki verið svona rætin og ljót og ef það væri ekki fyrir þá staðreynd að hér eiga hlut að máli aðilar sem hafa meðal annars valist í þau ábyrgðarfullu störf að sitja við samningaborðið í viðræðum sem munu hafa gríðarleg áhrif á allt og alla í samfélaginu.

Auðvitað er skiljanlegt að fólki, til dæmis forystufólki stéttarfélaganna, verði heitt í hamsi og það láti í sér heyra. Að það skuli berjast fyrir því að störf launafólks í landinu séu metin að verðleikum og hlutur hinna verstu settu í þjóðfélaginu sé réttur af. Það er ekkert athugavert við að vilja bæta samfélagið. Og það er heldur ekki óeðlilegt að „hin hliðin“ skuli tjá sig um málið. Að einhverjir segist hafa áhyggjur af því að ekki verði í öllum tilfellum hægt að standa undir launakostnaði nái kröfurnar fram að ganga. Og að einhverjir hafi áhyggjur af því að miklar launahækkanir kunni að leiða til aukinnar verðbólgu í þjóðfélaginu. Vitanlega hafa menn fullt frelsi til að tjá skoðanir sínar og gera það eins og þeim sýnist. En halda þeir virkilega að það muni hjálpa til að hlaupa upp til handa og fóta í hvert sinn sem einhver á öndverðri skoðun við þá sjálfa stingur niður penna eða opnar á sér munninn, „tjúllast“ svo gripið sé til vel þekkts orðs í umræðunni og hrauna yfir viðkomandi. Að það muni einhvern veginn liðka fyrir viðræðunum að vera með skítkast og leiðindi.

AUGLÝSING


Fram undan eru strembnar kjaraviðræður. Vonandi ber viðsemjendum gæfa til að einblína á aðalatriðin. Halda sig við það sem máli skiptir og láta ómerkilegar dylgjur og ásakanir sér sem vind um eyru þjóta. Það er mikið í húfi og smásmugulegt þref hjálpar ekki til.

Lestu meira

Engar færslur fundust.

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is