Vigdís Víglundsdóttir furðar sig á því að íþróttafólk fari fram á að vera í forgangi að fá bólusetningu við COVID. Sjálf vinnur hún á veirufræðideild Landspítalans og er ekki í forgangi. Hún vekur athygli á þessu innan Facebook-hópsins Vísindi í íslenskum fjölmiðlum sem hún stýrir ásamt eiginmanni sínum Jóni Magnúsi Jóhannessyni, lækni sem hefur verið áberandi í umræðunni um COVID.
Vigdís deilir frétt um að Íþrótta- og ólympíusamband Íslands hafi óskað eftir því við heilbrigðisyfirvöld að afreksfólk í íþróttum verði verði í forgangi. Hún skrifar svo: „Forgangshóparnir leynast greinilega víða. Ég starfa á veirufræðideild Landspítala sem sér um greiningu á SARS-CoV-2, veirunni sem veldur COVID-19. Ég er oftast ekki sýnileg sjúklingum en ég tek á móti ótrúlegu magni af sjúklingasýnum, sem stundum leka eða slettast á mig. Ef starfið mitt og samstarfsfélaga minna fellur niður verður ekki greining á veirunni sem í kjölfarið hefur augljós áhrif á þróun faraldursins. Samt er ekki í sjónmáli að veirufræðihluti Sýkla- og veirufræðideildarinnar fái bólusetningu gegn veirunni.“