2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Sviðslistasamband Íslands ekki til skattrannsóknar þvert á ásakanir Þjóðleikhússtjóra

Stjórn Sviðslistasamband Íslands hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna ummæla Ara Matthíassonar Þjóðleikhússtjóra um sambandið. Ari hefur ítrekað haldið því fram að sambandið sé til skattrannsóknar.

„Fjármál Sviðslistasambands Íslands eru hvorki til rannsóknar hjá embætti ríkisskattstjóra né skattrannsóknarstjóra ríkisins og hafa aldrei verið,“ segir í yfirlýsingu sem stjórn sambandsins sendi frá sér í gær.

Vísir birti viðtal við Ara í síðasta mánuði þar sem gefið er til kynna að sambandið sé til skoðunar hjá ríkisskattstóra. Þar kemur fram tilvitnun úr bréfaskriftum sem fóru á milli Ara og Birnu Hafstein, forseta Sviðslistasambandsins, í vor. „Forseti fullyrti að allt væri unnið í verktakavinnu og um engar „svartar“ greiðslur væri að ræða. Komið hefur í ljós að það stenst ekki – a.m.k. hefur SSÍ ekki skilað launa- og verktakamiðum fyrir árin 2016 og 2017, eins og SSÍ beri að gera,“ segir í bréfi Ara.

Hann hefur sakað Birnu um að vinna gegn hagsmunum Þjóðleikhússins með ósæmilegum og ómaklegum hætti. Hún hafi þá ráðist á hans persónu og starfsemi leikhússins. Málsatvikið var rakið í ítarlegu bréfi sem hann sendi til mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Greint var frá bréfinu í viðtalinu.

„Þannig hafa embættismenn í mennta- og menningarmálaráðuneytinu (bæði 2017 og 2018) og fulltrúar frá samninganefnd ríkisins úr fjármála- og efnahagsráðuneytinu (2017 og 2018) haft samband við mig óformlega til að segja mér af þessum ummælum. Samkvæmt þeirra frásögnum hefur Birna sagt að alger óstjórn ríki í Þjóðleikhúsinu í kjölfar #Metoo, að þar væri allt í kalda koli og ógnarstjórn gagnvart samstarfsfólki að minni hálfu,“ segir í bréfi Ara.

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is