Fimmtudagur 18. júlí, 2024
11.8 C
Reykjavik

„Ég nota bjartari liti þegar mér líður vel“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Við kíktum á vinnustofu Úlfs Karlssonar listamanns sem leigir rými á Hólmaslóð þar sem hann ver löngum stundum með penslana á lofti. Vinnustofan er ekki stór en verkin hans eru stór og Úlfur segist verja um mánuði í að gera hvert og eitt þeirra en sum eru mun lengri tíma í vinnslu.

Nokkur stór strigaverk liggja upprúlluð á gólfinu og Úlfur fer að sýna okkur þau eitt af öðru á meðan Aldís ljósmyndari fangar stemninguna á vinnustofunni.

Verkin hans Úlfs vísa oft í kvikmyndir og það sem er að gerast í heiminum og sjá má margar heimsþekktar persónur í verkum hans; boxara, stjórnmálamenn, leikara o.fl. „Litirnir í myndunum segja til um hvernig mér líður þegar ég er að mála þær. Fyrir tveimur árum notaði ég mikið bláa og gula liti, þar á undan var ég mikið í svörtu og rauðu. Síðasta sumar og vetur var erfiðara tímabil hjá mér og þá urðu litirnir grárri. Ég nota bjartari liti þegar mér líður vel en það er ekki meðvituð ákvörðun heldur gerist það bara.“

Var það alltaf markmið hjá þér að verða listamaður?

„Nei, ég get ekki sagt það. Ég byrjaði í kvikmyndagerð, þegar ég var í Garðaskóla gerði ég stuttmyndir með vini mínum, við vorum bara að leika okkur en svo komst ein þeirra á kvikmyndahátíð í New York, þá vorum við félagarnir bara svona 14 ára. Það hvatti okkur til að taka þetta alvarlega og ég fór svo í Kvikmyndaskólann 2006-2008. Í framhaldinu fór ég í Myndlistarskólann á Akureyri bara vegna þess að mamma hvatti mig til þess, hún er sjálf myndlistarmaður.

Mynd / Aldís Pálsdóttir

Þá fór ég að gera mínimalísk verk og áhuginn kviknaði. Svo komst ég inn í myndlistarskóla í Svíþjóð og plássinu fylgdi vinnustofa og því fylgdi frelsi sem ég hafði ekki kynnst áður. Ég hélt svo sýningu og seldi tvö verk og síðan hef ég ekki getað hætt að mála. Ég útskrifaðist frá Valand Academy of Art í Gautaborg árið 2012 og hef verið á Íslandi meira og minna síðan, fór að vísu til Strassburg að mála í nokkra mánuði síðasta vetur og hef haldið nokkrar sýningar. Næsta sýning verður í Vínarborg í maí á þessu ári.“

Ertu með mörg verk í vinnslu í einu eða einbeitir þú þér að einu?

- Auglýsing -

„Ég er stundum með tvö í vinnslu; eitt hér á vinnustofunni og eitt í bílskúrnum heima, þá mála ég hér á daginn og oft í skúrnum á morgnana og á kvöldin. Þetta getur verið pínulítið vesen,“ segir hann og brosir.

Lifir þú á listinni?

„Nei, ekki enn þá, ég hef alltaf verið að vinna með. Núna er ég í hálfu starfi á leikskóla. Ég ætla ekki að gera þau mistök aftur að fara í 100% vinnu.“

- Auglýsing -
Úlfur segist verja um mánuði í að gera hvert og eitt verk en sum eru mun lengri tíma í vinnslu.

Hvaða listamenn eru í uppáhaldi hjá þér?

„Erró hefur alla tíð verið í uppáhaldi hjá mér, ég var einu sinni með eina mynd á samsýningu í Hafnarhúsinu á sama tíma og hann var með sýningu þar í öðru rými sem mér fannst mjög skemmtilegt. Kjarval heillar mig líka.“

Hvernig nærir þú andann?

„Ég reyni að hugsa vel um mig. Fer í ræktina, út að hlaupa eða í sund og ég drekk eiginlega bara þegar ég er með opnun. Þá er stressið sem fylgir því að halda sýningu liðið hjá og ég fæ mér í glas.“

Verk Úlfs eru gjarnan mjög stór.

Ljósmyndir / Aldís Pálsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -