Fimmtudagur 18. júlí, 2024
13.8 C
Reykjavik

Í fyrstu íbúð hjá smekklegu pari

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Fyrir tveimur árum heimsóttum við Úlfhildi Daníelsdóttur og George Kristófer Young í litla en vel skipulagða íbúð þar sem fallegir og listrænir munir settu skemmtilegan svip á heimilið.

 

Úlfhildur og George höfðu búið í íbúðinni, sinni fyrstu íbúð, í fimm ár þegar Hús og híbýli kíkti í heimsókn. „Við værum alveg til í að stækka við okkur en þessi íbúð er 62 fermetrar. Hún er lítil og vel skipulögð en það var einmitt skipulagið sem heillaði okkur um leið og við komum hingað inn. Íbúð á jarðhæð með garði var einnig mikill kostur fyrir okkur þar við sem erum með kött. Núna getum við eiginlega ekki hugsað okkur að vera ekki á jarðhæð. Við viðurkennum alveg að við dettum stundum inn á erlendar fasteignasíður og látum okkur dreyma. Stundum langar okkur að pakka niður og flytja til Svíþjóðar í fallega íbúð með stórum frönskum gluggum og fiskibeinaparketi sem erfitt er að standast.“

Skapandi par

Það er ekki hægt að segja annað en að parið sé skapandi. Úlfhildur er tækniteiknari og húsgagnasmiður að mennt og hefur starfað sem hönnuður hjá innréttingafyrirtækinu Fríform síðustu fimm árin og George er grafískur miðlari hjá Morgunblaðinu. „Ég hef alltaf haft mikinn áhuga fyrir hönnun og rýmisnotkun þannig að þetta á mjög vel við mig,“ segir Úlfhildur. „Það er töluvert meira að gera í dag en fyrir tveimur árum, fólk er mikið að taka í gegn hjá sér og breyta þessa dagana.“

Hvað er vinsælast í innréttingum?

„Það er svo margt í gangi. Fyrir einhverjum árum síðan vildi fólk nánast eingöngu hvítar háglans innréttingar, það er á undanhaldi í dag. Fólk er farið að færa sig yfir í hvítar hálfmattar innréttingar, grátt og ljósa viðarliti. Svarti liturinn er reyndar að koma sterkt inn núna sem er mjög skemmtilegt. Ég er sjálf mjög spennt fyrir honum en hugsa að puttaförin sem fylgja dökkum innréttingum fæli mig frá því að taka stökkið. Ef ég ætti að segja að það væri einhver ákveðin tískubylgja í gangi í innréttingum þá myndi ég segja að það væru höldulausar innréttingar og tækjaskápar fyrir öll raftækin.“

- Auglýsing -
Myndirnar tók Rut Sigurðardóttir.

Stofan stækkaði með einni hurð

Parið hefur gert sitt lítið af hverju fyrir íbúðina, málað og skipt um borðplötu í eldhúsinu sem dæmi. „Við skiptum líka um útidyrahurð, þessi sem fyrir var var í mjög slæmu ástandi. Við hönnuðum hurðina og pabbi Úlfhildar smíðaði,“ segir George.

Bláu skápahurðirnar gera heilmikið fyrir skenkinn.

„Ef við gætum þá myndum við helst vilji flytja hana með í næstu eign en það er auðvitað ekki í boði. Eins byggðum við pall út frá stofunni stuttu eftir að við keyptum en við létum setja hurð úr stofunni og út í garð fyrir tveimur árum. Áður þurftum við að fara út um aðaldyrnar og ganga hringinn til að fara út á pall. Þetta er því mikill lúxus og stækkar stofuna heilmikið á góðviðrisdögum.“

- Auglýsing -

Einstakt í bland við hefðbundið

Úlfhildi er margt til lista lagt. Hún hannaði og smíðaði til að mynda sófaborðið og bekkinn í stofunni og hefur hún einnig smíðað ruggustól handa mömmu sinni sem hún heldur mikið upp á. Þau lýsa stílnum á heimilinu sem einföldum en einstökum. „Við eigum einstaka hluti en erum með hefðbundna hluti inn á milli. Í stofunni er stíllinn kannski litríkastur, þar eru til dæmis bláir skápar og listabækur í opnum hillum.“

Flestallar myndir á veggjunum eru verk eftir föður Úlfhildar.

Úlfhildur og George koma bæði úr skapandi fjölskyldum en faðir hennar er Daníel Magnússon, ljósmyndari og listamaður – flestallar myndirnar á veggjunum eru verk eftir hann. „Það var skapandi andrúmsloft á heimilinu í minni æsku,“ segir Úlfhildur.

Skemmtileg hugmynd að hengja upp Insta-myndir í hornið. Hringlaga spegillinn er frá Further North.

„Pabbi var alltaf á verkstæðinu og föðurafi minn smíðaði mikið úti í bílskúr. Foreldrar mínir voru mjög duglegir að taka mig með sér á söfn og listasýningar sem barn og það er eitthvað sem ég reyni alltaf að gera þegar ég ferðast. Pabbi er hvað þekktastur fyrir stólana sína en kollarnir sem prýða heimilið eru einmitt eftir hann. Hann hefur smíðað mikið inn á veitingastaði, til dæmis barstólana sem eru á Loksins bar. Draumurinn er eldhús með eyju og barstólum eftir pabba.“

Í borðstofunni hangir mynd eftir Daníel Magnússon, föður Úlfhildar, en hann smíðaði einnig trékollinn.

Dónalegt verk og kjúklingur í glugganum

Húsráðendur festu nýlega kaup á Mammoth-stólnum frá Norr11 og dreymir einnig um Elephant-stólinn úr sömu verslun. „Kannski fáum við okkur hann ef að við stækkum við okkur.“ Þau segjast horfa í notagildi og fagurfræðina er þau versla fyrir heimilið og spá mikið í hlutina.

Hægindastóllinn Mammoth frá Norr11 er fyrsti stóri hluturinn sem parið keypti sér saman.

„Plássið er ekki mikið þannig að við þurfum að passa upp á hvað kemur hingað inn. Við höfum verið hægt og rólega að finna út úr því hvað við viljum og kaupum aldrei neitt nema að eiga fyrir hlutunum.“

Blaðamaður tekur eftir spaugilegu verki á veggnum inn í eldhúsi og langar að vita meira. Hér talar „Sævar“ ítarlega um hvernig hin fullkomna kona líti út með mjög skemmtilegum lýsingum og teikningum. „Ég fékk þetta verk frá pabba í útskriftargjöf en það er eftir Steingrím Eyfjörð. Ef það er eitthvað sem er að plaga okkur þá er það listaverkaeign, við erum með nokkur í geymslu því við höfum hreinlega ekki veggpláss. Við erum líka með steyptan kjúkling í eldhúsglugganum eftir bandaríska listakonu. Það er spurning hvað nágrannarnir halda um okkar þegar þeir labba fram hjá glugganum,“ segja þau og hlæja. Hér eru einnig kaktusar í steyptum kökusneiðum sem George keypti í Listaháskólanum í Glasgow og tók með heim. Sem sagt, skemmtileg blanda af allskonar munum.

Í eldhúsinu er flott veggfóður sem húsráðendur keyptu í Svíþjóð og blómapotturinn er frá Póstulínu.

Það vantar ekki ljósmyndabækurnar, eigið þið uppáhaldsljósmyndara? „Ég hef lengi haft áhuga á ljósmyndun. Planið var að fara í ljósmyndanám í Tækniskólanum en ákvað á endanum að fara í grafíska miðlun. Ég á engan einn uppáhaldsljósmyndara en held mikið upp á RAX, André Kertész og Golla. Og já auðvitað tengdapabba, ég má ekki gleyma honum,“ segir George og hlær.

Grænblöðungarnir fá mikla athygli

Þau hafa kannski ekki mikið andrými til að breyta heima fyrir þó að smáhlutirnir fari stundum á flakk. Á heimilinu eru fallegar plöntur og sér George algjörlega um þá hlið. „Ég er með app í símanum sem heitir Koubachi, það sendir mér áminningar um hvenær ég eigi að vökva, spreyja o.s.frv.,“ segir George. Hér verður blaðamaður forvitinn því það hefur reynst erfitt að halda lífi í þessum grænblöðungum hingað til.

„Það eru engar plöntur vannærðar á þessu heimili.“

„Þú nefnir plönturnar þínar og þegar þú hefur sett inn tegundina og helstu upplýsingar þá færð þú tilkynningu um hvenær á að vökva, hvenær á að gefa næringu og annað. Það eru engar plöntur vannærðar á þessu heimili,“ segir George.

„Okkur finnst gaman að eiga fallegar bækur og leyfa þeim að vera eins og listaverk.“

Aðspurð segist Úlfhildur taka helst eftir innréttingum, skipulagi og nýtingu á rýminu er hún kemur inn á önnur heimili en George tekur helst eftir vegglist og andrúmsloftinu. En að þeirra mati gera bækur, plöntur og listaverk mikið fyrir heimilið. „Við erum miklir bókaunnendur. Okkur finnst gaman að eiga fallegar bækur og leyfa þeim að vera eins og listaverk. Við höfum fengið margar bækur frá pabba og við kaupum yfirleitt eina bók á ferðalögum, það er orðin skemmtileg hefð,“ segir Úlfhildur.

Í svefnherberginu.
Falleg birta í svefnherberginu. Litla myndin er eftir David Young, bróður George.

Eruð þið að safna einhverju?

„Það er vandamálið við okkur. Við erum örugglega leiðinlegasta fólkið þegar það kemur að því að gefa gjafir því ef það er eitthvað sem okkur þykir fallegt þá kaupum við það oftar en ekki. Það mætti halda að við værum búin að vera saman í 50 ár. Ef við myndum gifta okkur, þá myndi líklegast vera baukur við dyrnar fyrir brúðkaupsferðinni,“ segja þau og hlæja.

Kötturinn Salka.

Texti / Elva Hrund Ágústsdóttir
Myndir / Rut Sigurðardóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -