2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Mávagarg í stað iðandi bæjarlífs

  Nýverið opnaði ljósmyndasýning Braga Þórs Jósefssonar KRUMMASKUÐ.

  Bragi hefur verið lengi í ljósmyndabransanum og það er gaman að geta þess að hann var eiginlega hirðljósmyndari Húsa og híbýla hér á árum áður. Bragi útskrifaðist frá Rochester Institute of Technology í New York árið 1986.

  Hvað segir Bragi sjálfur um sýninguna KRUMMASKUÐ: „Ég hef alltaf heillast af þorpum á landsbyggðinni, sérstaklega stöðum þar sem hrikaleg náttúran rammar inn drauma genginna kynslóða: Stöðum sem við borgarbúar köllum stundum krummaskuð í hroka okkar og þröngsýni – en þorpin okkar eru þjóðargersemi. Steinn Steinarr orti: „Í draumi sérhvers manns er fall hans falið“ og það má oft heimfæra við mannvirki í krummaskuðum nútímans, mannvirki sem stórhuga menn byggðu þegar vel áraði og framtíðin var björt. Nú standa mörg þeirra auð og yfirgefin, fáir sjást á ferli og mávagarg hefur komið í stað iðandi bæjarlífs.“

  Við eigum öll uppruna okkar í krummaskuðum.

  Bragi segir að fyrir ljósmyndara séu öll þessi þorp, kaupstaðirnir og litlu þorpin, myndrænn fjársjóður sem tengir saman nútíð og fortíð.

  „Hvert sem litið er birtist vitnisburður um stórhuga framtíðarsýn eða listræna þörf. Við sjáum minnisvarða mælda í húsakosti með persónuleika og í atvinnutækjum sem sum hver gegna öðru hlutverki í dag en þeim var ætlað í upphafi. Í þeim birtast persónuleg sérkenni sem við höfuðborgarbúar fáum ekki að tjá í okkar kassalaga húsum í kassalaga skipulagi. Við eigum öll uppruna okkar í krummaskuðum, við höfum bara gleymt því,“ segir Bragi.

  AUGLÝSING


  Myndirnar á sýningunni eru svipmyndir frá nokkrum kaupstöðum og þorpum sem Bragi hefur átt leið um á undanförnum árum og hluti af stærra verkefni sem hann hefur verið að vinna að um skeið.

  „Tíminn einn mun leiða í ljós hvort þetta verkefni verður stærra eða viðameira eða hvert það leiðir mig,“ segir hann að endingu og við hvetjum alla til að kíkja á sýninguna KRUMMASKUÐ sem mun standa til 14. apríl og er í Ramskram, Njálsgötu 49. Þar er opið er um helgar, milli klukkan 14 og 17.

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is