Þriðjudagur 16. júlí, 2024
9.8 C
Reykjavik

New York Loft á Grandanum 

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hjördís Árnadóttir, myndlistarmaður og hönnuður, heillaðist af Grandanum enda býr gamla hafnarsvæðið í Reykjavík yfir miklum sjarma.

Gamla hafnarsvæðið í Reykjavík býr yfir miklum sjarma og á undanförnum árum hefur Grandagarður tekið meiri háttar breytingum. Þar sem áður voru verbúðir sjómanna, neftóbakskarlar og nær eingöngu starfsemi sem tengdist sjávarútvegi hefur nú myndast blómlegt og skemmtilegt nýsköpunarsvæði og fjölbreyttara mannlíf.

Það er óhætt að segja að hafnarsvæðið sé orðið hip og kúl en víða erlendis hefur þróunin orðið á þessa leið; það er að segja að gömul iðnaðarhverfi verða að líflegum nýsköpunarhverfum þar sem vinnustofur, sprotafyrirtæki, kaffihús, verslanir, veitingastaðir og mannlíf blómstrar.

Sjávarlyktin berst inn

Ein þeirra sem hefur heillast af þessu gamla hafnarsvæði er Hjördís Árnadóttir, myndlistarmaður og hönnuður, eftir að hafa búið í New York og verið með vinnustofu í gömlu iðnaðarhverfi þar í borg heillaðist hún af Grandanum í Reykjavík. Hún segir að stemningin sé að verða svolítið svipuð þar og í iðnaðarhverfinu í stórborginni þar sem hún bjó áður og sér ekki eftir því að hafa fjárfest í húsnæði á svæðinu þar sem útsýni er yfir höfnina og sjávarilmurinn berst inn um gluggana.

- Auglýsing -

Bjó í gamalli sykurverksmiðju

Hjördís Árnadóttir er myndlistarmaður með BA-gráðu frá Listaháskólanum og masters-gráðu frá School of Visual Arts í New York þar sem hún bjó áfram í nokkur ár eftir útskrift. Hún tók þátt í listasýningum þar í borg, var með vinnustofu og bjó í gömlu iðnarhúsnæði ásamt nokkrum öðrum listamönnum sem voru með henni í náminu.

„Við hreiðruðum um okkur í gamalli sykurverksmiðju á bökkum East river með útsýni yfir Manhattan. Þetta var gamalt iðnaðarhverfi í niðurníðslu sem listamenn fóru að hafa áhuga á, eitt og eitt kaffihús og listamannastúdíó voru opnuð í hverfinu, ekki ólíkt því sem hefur verið að gerast á Grandanum núna undanfarið og hverfið þróaðist í að vera líflegt nýsköpunarhverfi. Ég bjó þarna í fimm til sex ár, kynntist svo manninum mínum hér heima og flutti heim til Íslands í kjölfarið, tveimur árum seinna,“ segir hún brosandi.

- Auglýsing -

Minnir á listamannaloft á Manhattan

Hvernig æxlaðist það svo að þið keyptum húsnæði á Grandanum?

„Fyrir nokkrum árum síðan fjárfestum við í iðnaðarhúsnæði á Grandanum með það að markmiði að endurbyggja það og hanna á þann hátt að úr yrði áhugavert vinnurými fyrir fólk í skapandi greinum. Í heildina var um að ræða þrjú hundruð fermetra húsnæði eða þrjú 100 fermetra rými, auk 30 fermetra opinnar hæðar í hverju rými. Við hönnun og endurbyggingu leitaðist ég eftir að halda í upprunan og einfaldleikann með því að hafa opið í stálgrind í lofti og halda milliveggjum í algjöru lágmarki þannig að rýmið fengi að njóta sín sem heild. Veggirnir sem ná mest sex metra hæð voru sprautaðir hvítir og flóðlýstir og gólf steypuflotuð,“ svarar hún og við spyrjum hana að endingu hvað sé mest heillandi við þetta hafnarsvæði borgarinnar?

„Á næstu árum verður spennandi að fylgjast með því hvernig þetta svæði verður skipulagt og hvort þarna þarna fái að þróast íbúabyggð.“

„Fyrir utan staðsetninguna minnir húsnæðið á klassísk listamannaloft í New York með tvöfaldri lofthæð og opinni hæð en húsnæði af þessu tagi er ekki algengt hér í Reykjavík. Í raun væri eins heillandi möguleiki að nota svona húsnæði sem íbúðarhúsnæði en enn sem komið er er ekki gert ráð fyrir íbúðarbyggð á Grandanum. Á næstu árum verður spennandi að fylgjast með því hvernig þetta svæði verður skipulagt og hvort þarna þarna fái að þróast íbúabyggð í bland við áframhaldandi skapandi atvinnustarfsemi og menningu,“ segir Hjördís brosandi og fær sér kaffisopa.

Blaðamaður kveður myndlistarmanninn og hönnuðinn sem hefur skapað þetta skemmtilega rými á einum besta stað bæjarins þar sem ávallt er líf og fjör og sjávarlyktin fyllir vitin.

Myndir / Aðsendar

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -