Föstudagur 26. apríl, 2024
9.1 C
Reykjavik

Að finna sér samastað

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Leiðari úr 41. tölublaði Vikunnar

Staða innflytjenda í öllum samfélögum er viðkvæm. Þeir eiga sér veikara bakland á nýjum slóðum, þurfa að venjast aðstæðum sem eru mismunandi framandi og finna sér samastað í umhverfi sem er iðulega þeim fjandsamlegt. Þetta vita flestir og þess vegna gefur augaleið að enginn tekur sig upp og flytur á milli landa nema sterk öfl reki hann af stað. Oftast er það vonin um betra líf en stundum þekkingarþrá og einnig í mörgum tilfellum ástin.

Það var einmitt hún sem dró Nichole Leigh Mosty til Íslands. Margt kom henni spánskt fyrir sjónir þegar hún kom hingað þótt hún væri svo heppin að ekki skildi að mikill menningarmunur. Nichole er bandarísk, hvít og átti þess vegna greiðari aðgang að Íslendingum og samfélaginu en margir aðrir. Samt rakst hún á veggi. Menntun hennar var til að mynda einskis metin. Hún átti erfiðara með að fá vinnu og vegna þess að íslenskan hennar var ekki fullkomin var það notað til að draga úr vægi þess sem hún sagði. Allt þetta opnaði Nichole skilning og samúð með aðstæðum annarra kvenna af erlendum uppruna hér á landi og hún beitti sér fyrir því að skapa þeim samastað, opna þeim leiðir inn í hringiðu þjóðfélagsins og vettvang til að segja sögur af kynbundnu ofbeldi sem þær urðu fyrir.

Þegar Nichole setti upp síðu fyrir konur af erlendum uppruna í kjölfar #metoo óraði líklega engan fyrir því að ofbeldið gegn þeim væri svo gróft, svo ljótt og svo algengt. Það var áfall fyrir flestar konur að átta sig á því, að vegna þess að staða innflytjandans er alltaf veikari, vegna vanþekkingar á kerfinu og minni skilnings á tungumálinu, þeim lykli að allri tjáningu, væru til karlmenn sem hiklaust og formálalaust kysu að nýta sér það á svo andstyggilegan hátt. Ofbeldið varð einhvern veginn svo afgerandi og ógeðslegt einmitt vegna þess. Nichole hefur sterka réttlætiskennd og það lýsir sér ekki bara í þessari viðleitni hennar til að styðja aðrar konur heldur einnig í starfi á leikskólanum og meðan hún átti sæti á þingi.

„Þegar Nichole setti upp síðu fyrir konur af erlendum uppruna í kjölfar #metoo óraði líklega engan fyrir því að ofbeldið gegn þeim væri svo gróft, svo ljótt og svo algengt.“

Hún hefur sýnt ótrúlegan dugnað og útsjónarsemi og vegna þessara eiginleika tekist að skapa sér samastað í tilverunni hér á Íslandi. Sú staðreynd að hún kýs að nota þá stöðu til að styðja aðra til að fara sömu leið er svo einnig lýsandi fyrir mannkosti hennar.

Við Íslendingar erum svo fáir að það hlýtur að vera fengur í nýju fólki, viljugu til að vinna og breyta og ekki hvað síst afburðamanneskjum af því tagi sem Nichole Leigh Mosty er.

- Auglýsing -

Sjá einnig: „Auðveldast að þagga niður í viðkvæmustu hópunum“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -