Sunnudagur 14. júlí, 2024
12.4 C
Reykjavik

Aðalsmerki góðs yfirmanns

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Átti ég að starfa með manni sem mig langaði ekki að starfa með?“

Svo spurði Sólveig Anna Jónsdóttir í nýlegri yfirlýsingu til fjölmiðla og svar mitt við þeirri spurningu er: „Já, þú, rétt eins og ég og allir aðrir Íslendingar á vinnumarkaði, áttir að láta þig hafa það vinna með einhverjum sem þig langaði ekki nokkurn skapaðan hlut að vinna með.“

Það er einfaldlega svo að okkur líkar misjafnlega við fólk og allir hafa einhvern tíma staðið í þeim sporum að einhver samstarfsmaður fellur þeim ekki í geð. Sé sá hinn sami hæfur í starfi, kurteis og nokkuð dagfarsprúður verðum við bara að láta okkur hafa það. Að auki eigum við sem fullorðið fólk að gefa öllum tækifæri þegar við flytjum okkur milli vinnustaða og það enn frekar séum við í yfirmannstöðu.

Mitt mat er að aðalsmerki góðs yfirmanns sé að hann vinnur sín skítverk sjálfur. Þess vegna treystir hann ekki á að einhver annar reki starfsmenn fyrir sig jafnvel þótt hann hafi látið viðkomandi vita, tvisvar sinnum, að hann ætli sér að skipta út fólki. Mér hefur líka alltaf fundist meira til um þann sem hefur manndóm í sér til að standa augliti til auglitis við starfsfólk sitt, rétta því uppsagnarbréfið og skýra ástæðurnar hreinskilnislega.

Það er ábyrgðarhluti að segja fólki upp. Flestum er mikið áfall að fá uppsagnarbréf og oft setur það afkomu fólks í hættu. Uppsögn er einnig ennþá talinn svartur blettur á ferilskránni, til marks um að viðkomandi hafi ekki staðið sig eða verið á einhvern hátt óhæfur. Orðspor þess sem fær slíkt bréf í hendur er laskað og stundum þarf fólk tíma til að stappa í sig stálinu að nýju og fá kjark til að halda af stað í atvinnuleit. Stéttarfélögin voru stofnuð til að standa vörð um réttindi launafólks, styðja það gegn ósvífnum atvinnurekendum sem því miður eiga það til að segja manneskju upp bara af því þá langar ekki að vinna með þeim. Ábyrgðarleysið er algert og geðþóttaákvarðanir af þessu tagi bera vott um litla samlíðan með meðborgurum sínum.

„Stéttarfélögin voru stofnuð til að standa vörð um réttindi launafólks …“

Nú er ég ekki að tala um að halda beri fólki í vinnu sem ekki stendur sig né heldur að það sé óeðlilegt að nýir yfirmenn á vinnustað skipi sjálfir sína meðstjórnendur. En enginn eftirlætur fyrirrennara sínum að hreinsa til.

- Auglýsing -

Lykilorðin hér eru virðing fyrir öðrum og skilningur á því að starfið er hluti af sjálfsmynd mannsins. Það moldviðri sem nú gengur yfir Eflingu stéttarfélag snýst að mínu mati um þetta. Hvort fjárkröfur fyrrum starfsmanna séu réttlátar eður ei er vafamál en það er ekki öllum gefið að vera góðir yfirmenn og þar ættu stéttarfélög að ganga fram með góðu fordæmi.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -