Föstudagur 26. apríl, 2024
2.6 C
Reykjavik

Æ er pest?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Höfundur/ Jóhanna Sveinsdóttir

Þegar börnin okkar fá pestir verðum við foreldrarnir fullkomlega miður okkar. Við breiðum út faðminn, höllum höfði, strjúkum blíðlega yfir litla barnsennið og spyrjum með músarödd: „Æ er hiti?“ Barnið kjökrar. Við leggjum lófa að litlum vanga og hvíslum: „Æ er hor?“ Barnið kjökrar. Við sækjum hitamæli og tissjú og fáum yfir okkur spýju úr litlum munni: „Æ er gubb?“ Barnið kjökrar, við kúgumst. Elsku litli engillinn er lasinn og þarfnast okkar. Sameinuð í umhyggju og samvinnu kveðjast foreldrarnir með elju í hjarta, annað er heima fyrir hádegi, hitt eftir hádegi, verndarenglar með calendörin synchronize-uð.

Nema börn eru yfirleitt ekki veik í einn dag, heldur í marga daga. Börn eru líka lagin við að tryggja afkomu sína og því gera systkin með sér ómálga samning þess efnis að verða ekki veik fyrr en +/- 3 klst. frá því að hið fyrra verður hraust. Stakur veikur = meira dekur. Það er þess vegna, að veikindum loknum þegar allir eru loksins klárir á leikskólann, sem fríska barnið gubbar í dyragættinni á leið út. Svo líða margir dagar í hori og hósta, enn og aftur pípir hitamælirinn 38°C, ömmurnar hætta að svara og fara í lagningu, samvinna verður að sundrung og við foreldrarnir verðum fullkomlega miður okkar. Blíðlega strjúkum við svitann af efri vör makans og hvíslum taugatrekktri röddu: „Æ er kvöldvinna?“ Makinn kjökrar. Við leggjum lófa á þreyttan vanga: „Æ eru 89 ólesnir póstar?“ Makinn kjökrar. Við bjóðum knús og fáum í fangið spýju af álagsergelsi: „Æ er pirr?“

Svo hressast börnin og þá fáum við sjálf pest, á föstudags síðdegi, með húsið fullt af heilsuhraustum börnum sem hafa vegna veikinda ekki farið út í fimm daga. Að lokum munu þó pestarnar hverfa og loksins, loksins, munu allir ná fullri heilsu á ný og þá búmm! … starfsdagur og leikskólaverkfall. Æ er pest? Baráttukveðjur.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -