Laugardagur 2. nóvember, 2024
3.3 C
Reykjavik

Barnið og bangsinn

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Heimsmynd okkar allra er gjörbreytt á þessum dögum sem liðið hafa síðan veiran lokaði okkur af. Nánast hvert mannsbarn verður fyrir áhrifum. Og allir spyrja spurninga. Hvernig gat þetta allt gerst? Af hverju er ég ekki í flugi á leið til Moskvu eða Alicante? Svarið liggur í augum uppi.

Ósýnilegur óvinur læddist að mannkyninu til að sýkja og drepa og hann lamaði allar samgöngur á milli heimshluta og landa. Enginn mannleg þekking gat séð fyrir að svona yrði þetta. Eldgos, mannskæð snjóflóð og önnur óáran er hluti af sögu lands og þjóðar sem sigrast alltaf á erfiðleikum. Kórónaveiran er nú að skrifa enn einn kaflann sögu okkar frá degi til dags og frá mínútu til mínútu. Við, eins og allar aðrar þjóðir, lifum einhverja sögulegustu tíma þriggja kynslóða. Þjóðir heimsins berjast ekki aðeins við veiruna heldur gríðarleg efnahagsáhrif. Við lifum tíma þar sem allt lamast um tíma.

Óttar M. Norðfjörð rithöfundur lýsir sóttkví fjölskyldu sínnar í Barcelona á Spáni í Mannlífi. Hann sér það gagn sem ástandið vegna þessarar skelfilegu veiru getur gert fólki. Þetta er sunnudagurinn langi, segir Óttar sem hefur notið þess sem nánd fjölskyldunnar gefur. Það er einmitt stóra málið. Á meðan framverðirnir Alma Möller, Þórólfur Guðnason og Víðir Reynisson halda úti hersveitum sínum gegn veirunni þá reynum við hin að leggja okkar að mörkum og njóta hins einfalda, fábrotna lífs sem blasir við okkur. Göturnar tómar og hljóðar. Hvergi stórir mannfagnaðir. Veiran splundraði múgnum og hver hefur haldið til síns heima. En er það endilega svo slæmt? Svikrykið sem oft grúfir yfir er horfið. Náttúran blasir við þeim sem lítur upp og opnar augun.

Þegar ég skrifa þessi orð er þriggja ára stúlka að koma fyrir bangsa úti í glugga. Hún veit ekki í smáatriðum af hverju leikskólinn er lokaður eða af hverju flestir eru alltaf heima þessa dagana. En hún skynjar ótta og óöryggi og leggur sitt að mörkum eins og fjölmargir aðrir. Hún teflir böngsum sínum fram í stríðinu gegn óttanum og veirunni. Hún sendir skilaboð um gleði til nágranna sinna og út í heim sem er ekki svo stór eftir allt saman. Maður er þannig manns gaman.

Næstu vikur verða strembnar. Við munum hlýða fyrirmælum yfirvalda, sótthreinsa okkur og sleppa samskiptum við marga í einu. Engin léttúð andspænis óvininum. Við setjum öll bangsana okkar út í glugga og njótum samvista við okkar nánustu. Einn góðan veðurdag verðum við búin að yfirstíga þessa erfiðu tíma og sunnudagurinn langi liðinn og sumardagar teknir við. Þá viljum við að allt þetta hafi orðið til einhvers gagns. Við viljum verða betra fólk og eiga minningar um fallegar stundir úr svartnættinu. Við munum vinna stríðið. Í sumar munum við njóta lífsins með þá þekkingu að fæst í lífinu er öruggt eða fyrirsjáanlegt en flest er yfirstíganlegt.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -