Föstudagur 6. desember, 2024
-1.2 C
Reykjavik

Dýrmæt vinátta

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Leiðari úr 3. tölublaði Vikunnar.

Þegar fólk sest að utanlands er oft að annars konar sýn fæst á heimalandið. Fjarlægðin setur margt í móðu og skýrir annað. Kristbjörg Jónasdóttir hefur verið búsett erlendis um árabil. Hún fylgdi manninum sínum, fótboltakappanum Aroni Einari Gunnarssyni, fyrst til Englands og síðan til Cardiff. Þetta hafa verið viðburðarík ár full af gleði, sköpunarkrafti en líka hindrunum. Þau eru samhent hjónin og takast á við hvern vanda af yfirvegun og hika ekki við að leita sér hjálpar sé þess þörf. Kristbjörg varð fyrir þeirri sorg á síðastliðnu ári að missa eina af sínum allrabestu vinkonum. Þá var fjarlægðin erfið. Fanney, vinkona hennar, var líka þeirrar gerðar að hún kaus að bíta á jaxlinn og láta aðra ekki verða þess vara hve veik hún var orðin. Áfallið var því mun stærra og erfiðara fyrir Kristbjörgu en ef hún hefði verið nærstödd og þess vegna séð betur hvert stefndi. Auk veikindanna þurfti Fanney að takast á við vandamál í einkalífi sínu og það hlýtur að hafa reynt á að leitast við að teygja sig yfir lönd og höf með hjálp tækninnar til að styðja vinkonu sína.

Mér fannst líka áhugavert að heyra lýsingar Kristbjargar á lífinu í Katar. Þetta eyðimerkurland er svo fjarlægt okkar veruleika og þær venjur og siðir sem þar ríkja okkur framandi. Kristbjörg býr í afmörkuðu hverfi innan um aðra útlendinga og hún finnur meira fyrir einangrun þar en í Cardiff. Samgangur milli fjölskyldna leikmanna var þar meiri og allir studdu liðið sitt til sigurs. Þarna fer hver til síns heima að leik loknum og lítið um að samskipti utan vallar. Kristbjörg hefur hins vegar mikinn stuðning af Íris Sæmundsdóttur en hún er á sama báti, fylgdi sínum manni, Heimi Hallgrímssyni til arabalandsins. Þær stunda líkamsrækt saman og lögðu upp í ævintýraferð til nágrannaríkisins Óman og hlupu þar erfitt fjallahlaup. Kristbjörg er lærður einkaþjálfari og hefur ákaflega gaman af allri hreyfingu.

Vináttan er svo dýrmæt og kannski aldrei ómetanlegri en einmitt þegar mest reynir á sjálfstæði manns og getu til að leysa sjálfur úr eigin þrautum. Kristbjörg er augljóslega ein af þeim sem ekki deyr ráðalaus og kýs fremur að finna lausnir en velta sér upp úr þeim hindrunum sem eru í veginum. Hún og Aron Einar voru í fríi hér á landi um jólin og nýttu tækifærið til að kynna nýja húðvörulínu sína AK Pure Skin. Þau hönnuðu hana í samvinnu við Pharmartica á Grenivík. Það er Kristbjörgu mikið hjartans mál að öll innihaldsefni séu hrein og náttúruleg, að tillit sé tekið til umhverfisins og vörurnar skili árangri. Það verður gaman að fylgjast áfram með þróun þessa verkefnis þeirra Kristbjargar og Arons og hvernig þeim vegnar í heimi íþróttanna.

„Áfallið var því mun stærra og erfiðara fyrir Kristbjörgu en ef hún hefði verið nærstödd og þess vegna séð betur hvert stefndi. Auk veikindanna þurfti Fanney að takast á við vandamál í einklífi sínu og það hlýtur að hafa reynt á að leitast við að teygja sig yfir lönd og höf með hjálp tækninnar til að styðja vinkonu sína.“

Sjá einnig: „Mun halda minningu hennar á lofti alla tíð“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -