Laugardagur 20. apríl, 2024
7.1 C
Reykjavik

Eina eftirsjá Attenboroughs

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Síðast en ekki síst
Texti / Óttar M. Norðfjörð

Ég hlustaði nýlega á viðtal við David Attenborough. Þessi vinsæli sjónvarpsmaður sagðist aðeins hafa eina eftirsjá á langri og viðburðaríkri ævinni: að hafa ekki varið meiri tíma með börnunum sínum þegar þau voru lítil, því hann var alltaf að vinna.

Þetta hefur setið í mér, því upp á síðkastið hefur mér verið hugleikið þetta kerfi utan um börnin okkar, hvernig þjóðfélagið reynir að fá okkur aftur út á vinnumarkaðinn nokkrum mánuðum eftir að þau fæðast, með dagforeldrum og leikskólum. Síðan eyðum við deginum í vinnunni, sækjum börnin seinnipartinn og þau eru komin í háttinn stuttu eftir kvöldmat. Meðalfjölskyldan er kannski að verja litlum 3–4 tímum saman á dag.

Eftir því sem ég hugsa meira um þetta, því undarlegra finnst mér þetta vera. Börnin okkar eru bara lítil einu sinni og æskan líður alveg ótrúlega hratt, því áður en við vitum af vilja þau ekki vera með foreldrum sínum lengur, heldur vinum sínum, og þá er þetta búið. Og þessi dýrmæti tími kemur aldrei aftur.

Hvað er ég eiginlega að biðja um? Ég veit það ekki alveg. Kannski einhvers konar breytingu á þessu kerfi sem við höfum smíðað undir merkjum norrænnar velferðar og fjölskyldunnar, því fjölskyldan ver svo gott sem engum tíma saman, ótrúlegt en satt. Stytting vinnuvikunnar væri strax í áttina, eða kannski er nóg að stytta sjálfan vinnudaginn, hafa leikskóladaginn styttri, svo börnin geti varið meiri tíma með foreldrum sínum frekar en starfsmönnum á stofnunum. Og við getum varið meiri tíma með þeim frekar en kollegum okkar, allavega fyrstu ár ævi þeirra. Eða kannski er þetta bara rugl í mér og fólk er sátt við núverandi fyrirkomulag. En höfum þá að minnsta kosti í huga orð Davids Attenborough, manns sem hefur marga fjöruna sopið, og hans einu eftirsjá í lífinu.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -