Laugardagur 20. júlí, 2024
12.8 C
Reykjavik

Fár er faðir enginn sem móðir  

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Upphafslína Brekkukotsannáls eftir Halldór Kiljan Laxness er á þessa leið: „Vitur maður hefur sagt að næst því að missa móður sína sé fátt hollara úngum börnum en missa föður sinn.“ Auðvitað hnykkir okkur við að lesa þetta og sjálfsagt var það tilgangur skáldsins. Að ganga svolítið fram af þeim sem saklaus greip bókina og fletti upp á fyrstu síðu. Álfgrími verður til happs að hann lendir hjá kærleiksríku og hugsandi fólki. Þar var hann ábyggilega betur kominn en á flækingi með fátækri móður í grimmu íslensku samfélagi í upphafi 20. aldar. En allir þeir sem hafa þekkt kærleiksríka foreldra geta verið sammála um að fátt kemur í staðinn fyrir þá. Sjálf naut ég móður minnar í fimmtíu og þrjú ár. Ég hefði ekki viljað missa eina mínútu af þeim tíma og fannst hún kveðja allt of snemma. Söknuðurinn er enn sár og grípur af og til en ég á þá huggun að hún fékk að fara snöggt, eins og hún hafði sjálf óskað sér og hafði náð því að verða 80 ára. Sjálf missti hún móður sína aðeins þriggja ára og fann fyrir því tómarúmi alla ævi að eiga aðeins óljósar minningar um móðurástina.

Elín Sigríður Grétarsdóttir vaknaði við hlið móður sinnar látinnar þegar hún var átta ára. Vart er hægt að hugsa sér erfiðari reynslu fyrir barn. Dauðinn er enn fjarlægur, óskiljanlegur á þessum árum og það kemur vel fram í viðtalinu við Elínu Sigríði að hún skynjaði hvernig komið var en gerði sér þó ekki fyllilega grein fyrir því. Það vantaði að hinir fullorðnu töluðu við hana, staðfestu hvernig komið var og hjálpuðu barninu að takast á við sorgina, áfallið og þann raunveruleika sem blasti við.

„Dauðinn er enn fjarlægur, óskiljanlegur á þessum árum og það kemur vel fram í viðtalinu við Elínu Sigríði að hún skynjaði hvernig komið var en gerði sér þó ekki fyllilega grein fyrir því.“

Sorgin þarfnast þess nefnilega að vera viðruð, að talað sé um hana, tilfinningarnar látnar í ljós og jafnvel fengin svölun í tárum. Allt of lengi hafa menn gert því skóna að börn séu á einhvern hátt sterkari en fullorðnir, hafi svo einstaka aðlögunarhæfni að ekki þurfi að huga að þeim og beina í réttan farveg. Fíllinn í stofunni hverfur ekki þótt hann sé aldrei nefndur á nafn.

Elín Sigríður þróaði með sér fíkn í mat og síðar áfengi í kjölfar móðurmissisins. Hvorutveggja algeng viðbrögð við áföllum og algeng leið til að leitast við að deyfa tilfinningar sínar og fylla upp í tómið hið innra. Henni tókst að sigrast á fíkninni og lifir nú heilbrigðara og betra lífi. Ég gleðst innilega fyrir hennar hönd en mikið vildi ég að einhver hefði haft vit á að taka utan um hina átta ára gömlu Ellu Siggu og segja henni að hún hafi brugðist rétt við aðstæðum, verið ótrúlega dugleg og móðir hennar ekki farið sjálfviljug. Líka hefði verið gott að minna hana á að sorgin sé eðlilegur hluti lífsins og það verði að leyfa henni að hafa sinn gang.

Sjá einnig: Vaknaði átta ára gömul við hlið látinnar móður sinnar

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -