Höfundur / Eva H. Baldursdóttir
Lífeyrissjóðir stýra þriðjungi af heildarfjármagni í umferð á Íslandi. Þeir eiga ekki peningana – heldur hafa það hlutverk að gæta fjármuna sem við almenningur eigum. Lífeyrissjóðum er sett ákveðin umgjörð í lögum – bæði til að tryggja ávöxtun og stilla af áhættutöku. Þannig er ávöxtunarviðmið að finna í lagaumgjörð þeirra og fjárfestingarheimildir –hvernig eignasafninu skuli dreift á milli hlutabréfa, skuldabréfa o.s.frv. svo dæmi séu tekin.
Í markaðshagkerfi eins og hér á landi er það vel þekkt að hlutir hreyfast þegar peningarnir hreyfa sig. Ef okkur er alvara með að taka ábyrgð í umhverfismálum ber að stýra þessum peningum – að sjálfbærri atvinnustarfsemi og grænum verkefnum. Það hljóta fyrst og fremst að vera hagsmunir sjóðsfélaga að náttúra og auðlindir landsins séu vernduð.
Víða um heim er ákall eftir því að sjálfbærni verði meginmarkmið fjárfestinga. OECD gaf út hagvaxtarskýrslu síðasta sumar – sem segir skýrt að vöxtur þurfi að verða sjálfbær hvað umhverfi varðar þ.e. að hagvöxtur innihaldi skilyrði um að sjálfbærni. Evrópusambandið er með sérstaka áætlun í tengslum við sjálfbærar fjárfestingar. Ban Ki Moon, fyrrum aðalritari Sameinuðu þjóðanna, hefur biðlað sérstaklega til lífeyrissjóða heimsins að beina fjárfestingum að umhverfisvænum verkefnum. Fjárfestar gera það fyrst og fremst með tvennum hætti – annars vegar að selja allar eignir sem tengjast olíu, koli eða gasi og hins vegar með því að beina fjárfestingum sínum að grænum verkefnum. Norski olíusjóðurinn losaði eignasafn sitt að hluta í tengslum við rannsóknir á jarðefnaeldsneyti á síðasta ári. Danski lífeyrissjóðurinn MP tilkynnti að sjóðurinn myndi losa sig við allar eignir í olíufélögum síðasta haust. Danskir lífeyrissjóðir hafa gengið hvað lengst en þegar ríkisstjórnin þar kynnti metnaðarfulla áætlun í loftslagsmálum í september m.a. með markmiði um að draga úr losun um 70% árið 2030 hétu þeir að fjárfesta 350 billjónum danskra króna í græna innviðauppbyggingu, græn skuldabréf o.s.frv. Þá kynnti stærsti danski lífeyrissjóðurinn nýja vöru í vikunni – nú hafa sjóðsfélagar val um að setja fjármuni sína í loftslagsvænar fjárfestingar. Lífeyrissjóðir eru ekkert einir um þessa þróun – margir fjárfestingarsjóðir eru að taka upp ESG – viðmið (horft er til umhverfis, félagslegra og samfélagslegir þátta) og eru eingöngu í slíkum fjárfestingum enda er ávöxtun þeirra ekki síðri.
Allir lífeyrissjóðir ættu að taka fjárfestingarákvarðanir út frá þeim viðmiðum. Dæmi- fjárfestingarstefna Lífeyrissjóðs verslunarmanna fyrir árið 2019 fjallar ekki beint um umhverfislega þætti en í stefnuninni fyrir árið 2020 má finna sjálfbærniviðmið, sem eru þó ekki skýr. Þá kemur ekki fram hvort horft sé til umhverfisþátta í tengslum við áhættustýringu. Að sama skapi fyrir lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins eru fléttuð inn þessi ESG viðmið en orðalagið er mjúkt og „mælst til þess“ að fyrirtæki sem fjárfest er í hugi að þessum þáttum.
Íslenskir lífeyrissjóðir eiga að taka forystu við að innleiða sjálfbærni í fjárfestingum bæði með grænum innviðafjárfestingum og að hreinsa eignarsöfn sín af hlutum í olíufélögum og öðrum mengunarvöldum. Í lagaumgjörð lífeyrissjóða er þeim skylt að setja sér fjárfestingarstefnu en aðeins kemur fram að sjóðunum beri að setja sér siðferðisleg viðmið í fjárfestingum. Loftslagsbreytingar eru hamfarir af þeirri stærðargráðu að taka þarf að málum af festu – sem hér þýðir með lagaboði. Í baráttunni við hlýnandi jörð er nauðsynlegt að fjármálamarkaðir verði grænir og sjálfbærir – en að óbreyttu má leggja þá niður – enda jörðin mikilvægari en Kauphallir sem þjóna takmörkuðum hluta samfélagsins.