Föstudagur 26. apríl, 2024
7.1 C
Reykjavik

Mannlíf og mannlífið

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Höfundur/ Henry Alexander Henrysson, heimspekingur

Ég þekki ekki söguna bakvið það hvers vegna foreldrar mínir gerðust strax áskrifendur að tímaritinu Mannlífi þegar það hóf göngu sína á níunda áratugnum. Það hefur verið fremur óvænt framtakssemi af þeirra hálfu. Að þau hafi aldrei haft fyrir því að segja upp áskriftinni þangað til útgáfan lagðist af var kannski dæmigerðara fyrir þau. Og í gegnum árin hlóðust upp árgangar og tölublöð af þessu ágæta tímariti. Stundum brá þar fyrir ágætum töktum og tímaritið virkaði sem hið íslenska Der Spiegel. Oftar minnti það fremur á erlend slúðurblöð og á verstu árunum var það meira eins og ofvaxinn vörulisti. Auglýsingar og kostuð umfjöllun hafði alveg tekið tímaritið yfir.

Það besta við þessa áskriftarsögu er að árgangarnir eru allir til reiðu í sumarhúsi fjölskyldunnar. Ég veit ekkert skemmtilegra heldur en að fá mér kaffibolla í sveitinni og teygja mig af handahófi í gamalt eintak. Í hverju tölublaði má alltaf finna eitthvað áhugavert. Viðtöl við svokallaða viðskiptasnillinga voru alltaf vinsæl. Þau viðtöl, sem og alls konar úttektir á viðskiptaveldum í íslenskum samfélagi, sýna skemmtilega fram á að ekki var alltaf mikil innistæða fyrir oflætinu. Og svo rekur maður einnig augun í tækninýjungar sem voru svo stórkostlegar að lengra varð ekki komist í þeim vöruflokki. Fullkomnun var náð.

Ég hef kennt tuga námskeiða um gagnrýna hugsun á háskólastigi og fyrir almenning á undanförnum árum. Í kennslunni hvarflar það að mér í hvert sinn að líklega sé besta kennsluefnið í sumarhúsinu fyrir austan. Ekkert af því sem okkur er sagt í samtímanum að sé snilld og ómissandi er líklegra til að standast tímans tönn heldur en það efni sem fyllti síður Mannlífs árum saman. Megrunarráðið árið 1988 reyndist ekki töfralausn – ekki fremur en hvaða næringartrend sem skekur internetið í dag. Ekkert tæki er lausn á öllum okkar vandamálum, það er ekki hægt að sveigja og beygja hagræn lögmál bara af því að maður kemur svo vel fyrir og það er ekki hægt að stytta sér leið til að efla traust til íslenskra stjórnmála. Enginn leikari eða tónlistarmaður er endanlega búinn að meika það.

Vissulega þarf lestur á gömlum tölublöðum Mannlífs ekki alltaf að vekja upp neikvæðar hugsanir. Maður þarf ekki alltaf að fussa og sveia. Inn á milli gleðst maður yfir því hvernig hæfileikar og vinnusemi gera það að verkum að í íslensku samfélaginu er þrátt fyrir allt til fólk sem á raunverulegt erindi á síður tímarita. Til dæmis er óborganlegt að sjá Bubba Mortens endurfæðast með nokkurra ára millibili. Og við það að blaða í gegnum gömul eintök styrkist maður í þeirri trú að einungis tveir Íslendingar hafi náð máli á heimsvísu undanfarna áratugi. Að þeir séu báðir konur ætti ekki að koma neinum á óvart. Ein kona til, Hildur Guðnadóttir, mun svo væntanlega bætast í þennan hóp.

En hvað lærir maður á lestri gamals Mannlífs? Ég hef persónulega dregið nokkra lærdóma af kaffidrykkju með gömul hefti í höndunum. Forsíðumynd þýðir ekki að maður sé kominn til að vera. Að tjá ást sína í viðtalið þýðir ekki að hún muni endast að eilífu. Alvöru hlutafé og eigið fé er bráðsniðugt í rekstri fyrirtækja. Engin græja er svo ómissandi að maður geti ekki beðið eftir næsta eða þar næsta módeli. Og svona mætti lengi telja. Hver veit svo nema að mikilvægasti lærdómurinn sé hversu nauðsynlegt það er hverju samfélagi að halda úti tímaritaútgáfu þar sem leitast er við að festa á blað svipmyndir mannlífs samtímans. Útgáfan mun taka breytingum með minni áherslu á prentað efni en maður óttast að útgáfan leggist að lokum af ef við ætlum einungis að grípa í blöð á kaffihúsum og aldrei borga fyrir aðgang. Oflæti, almannatengsl og auglýsingamennska mun auðvitað alltaf lita tímaritaútgáfu, en allt það er um leið einkenni á samtímanum. Við þurfum reglulega að fá tækifæri til að horfast í augu við brestina í dómgreind okkar. Án þeirra tækifæra mun dómgreindin seint eflast.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -