Mánudagur 15. júlí, 2024
11.8 C
Reykjavik

Metin að verðleikum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Leiðari úr 33. tölublaði Mannlífs

Ein andstyggilegasta tilhneiging mannsins er að mynda klíkur. Rotta sig saman í hópa, stóra eða litla, gína yfir öllu og tryggja að aðrir fái þar engan aðgang að. Stærsta klíkan er auðvitað stéttin sem menn tilheyra, síðan fjölskyldan, þá samsúrruð samtök á borð við margvíslega klúbba og félaga. Listinn er langur og heldur áfram niður í litla hópa inni á vinnustað, skóla eða annarri stofnun. Tilgangurinn alltaf sá sami. Vissulega er vinátta af hinu góða og ekkert að því að menn myndi tengsl. Klíkurnar útiloka hins vegar og beinlínis hafna góðu og hæfu fólki. Þær koma í veg fyrir að hæfileikar fái að njóta sín og duglítill einstaklingur gegnir starfi sem annar maður var betur fallinn til að sinna.

Á hinn bóginn er það líka svo að margir sem fá starf eða stöðu vegna tengsla sinna við klíku eru dæmdir síðri en aðrir umsækjendur. Þeir eru látnir gjalda þess. Sumir eru meðvitaðir um það forskot sem klíkan veitir þeim og leggja þess vegna tvöfalt harðar að sér til að sanna að þeir séu í raun verðugir. Og fleiri fordómar kunna að mæta þeim. Hugsanlega er aldur þeirra, kyn eða útlit líka fyrirstaða. Nýlega var ung kona beðin að taka að sér að vera ráðherra. Hún er næstyngsti einstaklingur í sögu lýðveldisins til að fá slíka stöðu og ákveðinn kór úti í samfélaginu rak upp ramakvein. Valið var kolrangt að hans mati.

Konan tilheyrði ekki réttri klíku, var of ung, skorti reynslu og var of lagleg. Henni var ekki einu sinni gefið tækifæri til að reyna sig við starfið áður en dómurinn var felldur. Nú er það svo að í lýðræðisríki er æskilegt að fjölbreyttur hópur fólks úr flestum ef ekki öllum stigum samfélagsins eigi raddir á þingi og í ríkisstjórn. Hingað til hefur minna verið um ungt fólk og konur á þingi en miðaldra karlmenn. Er þá ekki fagnaðarefni að það sé að breytast? Reynslan kennir mönnum margt en hún getur einnig fest þá í ákveðnum skorðum. Stundum kemur nýliðinn með ferska sýn að borðinu, opinn huga og einhvern tíma verða menn að fá tækifæri til að reyna sig.

„Jakkaföt og bindi eru ekki trygging fyrir mannkostum, frekar en gamaldags Bretadrottningarlegur kjóll.“

Það hvernig manneskja lítur út eða hvernig hún klæðir sig á svo aldrei að skipta máli. Jakkaföt og bindi eru ekki trygging fyrir mannkostum, frekar en gamaldags Bretadrottningarlegur kjóll. Erfðir ráða svo mestu um útlitið og lítið sem hver og einn getur gert til að breyta því. Það hefur hins vegar aldrei áhrif á getu manna til að skila góðu verki. Að auki er góð regla að leyfa fólki að spreyta sig áður en það dæmt óhæft.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -