2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Suðum saman

Síðast en ekki síst
Eftir / Óttarr Proppé

Það eru komin lauf á birkið fyrir utan húsið. Um helgina mætti ég æstum þresti andartaki áður en ég gekk næstum á hreiður undir þakskeggi. Upp úr hreiðrinu teygðust svangir goggar. Þeir gerðu ekki greinarmun á mömmu sinni og ókunnugum risaskeggapa. Þeir eru nú meiri kjánaprikin þessir þrastarungar. Það er varla hjólandi um hverfið mitt fyrir svefndrukknum randaflugum. Lífið er gott. Ekkert jafnast á við íslenskt vor eftir ömurlegan dimman vetur. Tilveran er í jafnvægi. Öll erum við lífverur og eigum okkur samastað einhvers staðar í gangverki náttúrunnar.

En hvað er að frétta úr mannheimum. Þeim ólgandi suðupotti ónáttúrunnar? Bandaríkin nötra af réttlátri reiði. Heimsbyggðin er brjáluð og eiginlega ekki að furða. Hvert sem litið er grasserar ofbeldi, hatur og rasismi. Mismunun, hroki og fasismi tröllríða öllu hægri vinstri. Og ástandið er algjörlega hætt að vera töff. Það er endanlega ljóst að meðvirkni er ekki lengur í boði. Þetta er löngu hætt að vera fyndið strákar, (já, aðallega strákar).

Hvað er hrokafyllra en að halda því fram að skoðanir og jafnvel tilvera annars fólks sé minna virði en manns eigin. Hvaða dæmalausa sjálfsblekking fær nokkurn mann til að trúa því að hann hafi alltaf rétt fyrir sér? Þeir sem eru öðruvísi en maður sjálfur hverfa ekkert þótt maður öskri á þá eða beiti þá ofbeldi.

AUGLÝSING


Tökum okkur taki. Við erum öll lömb alheimsins og hlutskipti okkar er að suða saman á sömu jarðkúlunni hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Við berum öll ábyrgð á því að láta það ganga upp. Við verðum að sýna hvert öðru virðingu. Viðurkennum jafnan rétt alls fólks, ekki bara þeirra sem okkur finnst vera smart og næs. Það er eina leiðin, krakkar. Blikkum nágrannann sem við þolum ekki, brosum á rauðu ljósi. Gefum býflugum sykurmola, heyrum móðurástina í gargi kríunnar. Sýnum skilning. Verum góð.

Viltu birta pistil á mannlif.is? Sendu okkur línu.

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is

Nýjast á Gestgjafanum