Mánudagur 17. júní, 2024
8.8 C
Reykjavik

Baltasar reffilegur á rauða dreglinum í London

|||
|||

Leikstjórinn Baltasar Kormákur lét sig ekki vanta á sýningu á nýjustu mynd sinni, Adrift á Soho-hótelinu í London í gær, sunnudag.

Aðalleikarar myndarinnar, Sam Claflin og Shailene Woodley, voru að sjálfsögðu einnig mætt á rauða dregilinn og tók þríeykið sig vel út saman.

Sam, Shailene og Baltasar.

Sjá einnig: Kveikti á myndavélunum þegar allir byrjuðu að æla.

Shailene Woodley klæddist rauðri blússu við svartar buxur.

Adrift var frumsýnd vestan hafs í byrjun mánaðarins og samkvæmt Wikipedia hefur hún halað inn um 31 milljón dollara í miðasölutekjur, en framleiðslukostnaður við myndina var 35 milljónir dollara. Þá hefur myndin fengið fína dóma víða um heim.

Sam Claflin klæddist gráum jakkafötum.

Myndin er lauslega byggð á sannri sögu pars sem sigldi frá Tahítí til San Diego árið 1983. Þau sigldu hins vegar rakleiðis til móts við fellibylinn Raymond en misstu ekki lífsviljann.

Tímaritið People kallar Rúrik augnakonfekt

||||||||||
||||||||||

Tímaritið People birtir lista yfir þá 39 leikmenn á heimsmeistaramóti karla í knattspyrnu sem blaðamönnum finnst skara fram úr þegar kemur að kynþokka.

Það kemur líklega ekki á óvart að Rúrik okkar Gíslason er á listanum, en hann hefur vakið gríðarlega athygli á heimsmeistaramótinu. Eins og hefur verið sagt frá var Rúrik með um fjörutíu þúsund fylgjendur á Instagram fyrir mótið en er nú kominn yfir milljón fylgjendur. Rúrik er eini Íslendingurinn á lista People.

Sjá einnig: BBC segir Rúrik blöndu af Brad Pitt, Channing Tatum og Chris Hemsworth.

Á honum eru einnig kunnugleg andlit eins og portúgalski knattspyrnukappinn Cristiano Ronaldo. Það vekur hins vegar athygli að þýski markvörðurinn Manuel Neuer er einnig á listanum, en boltaspekingurinn Hjörvar Hafliðason kvartaði mikið yfir fjarveru hans á kynþokkalistum á Twitter. Virðist Hjörvar hafa verið bænheyrðu af People.

Sjá einnig: Rúrik og Ragnar meðal kynþokkafyllstu leikmanna á HM.

Hér fyrir neðan má sjá nokkra af þeim 39 knattspyrnumönnum sem People kallar augnakonfekt, en listann í heild sinni má sjá með því að smella hér.

Diafra Sakho – Senegal

Dusan Tadic – Serbía

Jose Carvallo – Perú

Manuel Neuer – Þýskaland

Mathew Leckie – Ástralía

Morteza Pouraliganji – Íran

Roman Burki – Sviss

Sam Morsy – Egyptaland

Sergio Aguero – Argentína

Kim Shin-Wook – Suður-Kórea

Aðalmynd / Skjáskot úr auglýsingu Coca Cola á Íslandi

Myndir: Svona var stemningin á Secret Solstice

||||||||||||
||||||||||||

Tónlistarhátíðin Secret Solstice var haldin með pompi og prakt í Laugardalnum um helgina, fimmta árið í röð. Fjöldinn allur af heimsþekktum listamönnum tróð upp, svo sem Slayer, Gucci Mane, Stormzy og Bonnie Tyler.

Mikil mannmergð var í Laugardalnum út af hátíðinni. Þó veðrið hafi ekki beint leikið við hátíðargesti var mikil stemning í dalnum, eins og meðfylgjandi myndir frá tónleikahöldurum sýna.

Myndir / Secret Solstice

„Mikilvægt að okkar raddir heyrist“

Ensk-íslenska verkið (Can This Be) Home verðlaunað á leiklistarhátíð í Tékklandi.

Ensk-íslenska verkið (Can This Be) Home hlaut í vikunni brautryðjendaverðlaunin á Fringe-leiklistarhátíðinni í Prag og í kjölfar þess hefur aðstandendum sýningarinnar verið boðið að setja verkið upp í hinu virta leikhúsi Chats Palace í London. Í samtali við Mannlíf segist leikstjórinn, Kolbrún Björt Sigfúsdóttir, vera í skýjunum með boðið og viðurkenninguna enda standi efnisviður verksins henni nærri. „Það er alveg frábært að fá þessa viðurkenningu því við erum búin að vinna að verkinu í tvö ár og erum að fjalla um málefni sem skiptir okkur miklu máli,“ segir hún og vísar þar í umfjöllunarefnið sem snýst um upplifun innflytjenda í Bretlandi af kosningunum um Brexit. Hvernig þeir, þar á meðal hún sjálf, hafi liðið með að vera sagt óbeint að þeir ættu ekki lengur heima í Bretlandi í ljósi niðurstöðunnar.

Kolbrún segir að þetta sé reyndar ekki fyrsta útgáfa verksins heldur hafi það þróast í takt við umræðuna um Brexit-málið og því nokkrar útgáfur litið dagsins ljós. Fyrsta útgáfan hafi orðið til áður en kosningin um Brexit fór fram. Í annarri útgáfu hafi verið reynt að gera upp niðurstöðu kosninganna fyrir innflytjendur og þá sem kusu að halda Bretlandi innan Evrópusambandsins. Þriðja hafi verið lesin á degi skyndikosninganna sem Theresa May boðaði til í von um að auka stuðning sinn og Brexit á þingi, sem hafi ekki gengið upp. „Nú eru svo komin tvö ár síðan það var kosið og Brexit er enn í mótun. Þess vegna fannst okkur mikilvægt að okkar raddir heyrðust, nú sem aldrei fyrr, áður en langvarandi ákvarðanir sem móta framtíð okkar eru teknar. Ætlunin með verkinu er að tala til fólks. Fá það til að hugsa um það sem er í gangi.“

„Það er alveg frábært að fá þessa viðurkenningu því við erum búin að vinna að verkinu í tvö ár og erum að fjalla um málefni sem skiptir okkur miklu máli.“

Hún viðurkennir að vegna hins pólitíska umfjöllunarefnis hafi aðstandendur (Can This Be) Home alls ekki búist við að verkið ynni til verðlauna á hátíðinni í Prag. Auk þess sé verkið langt frá því að vera hefðbundin leiksýning. Eiginlega sé varla hægt að tala um leiksýningu þar sem verkið samanstandi af tveimur hlutum, tónleikum flautuleikarans Tom Oakes, innblásnum af ferðlögum hans um heiminn og ljóðaupplestri þar sem Kolbrún flytur eigin texta, byggðan á fyrrnefndri reynslu innflytjenda af Brexit. Sigurinn hafi því komið henni og öðrum aðstandendum sýningarinnar skemmtilega á óvart.

En er ekki gaman fyrir ungan leikstjóra og leikritaskáld að fá svona rífandi start? „Jú það er voða ljúft. Það er grínast með það að „overnight success“ í Hollywood taki fimm ár. Tvö er vel sloppið,“ segir hún og bætir við að þar sem þetta sé fyrsta handritið hennar sem hlýtur verðlaun þá sé þetta líka persónulegur sigur.

Spurð út í framhaldið segir hún uppsetninguna í London vera næst á dagskrá. „Við erum bara að vinna í því að finna hentugar dagsetningar,“ segir hún glaðlega, „en þetta verður alveg geggjað.“

 

Stólar Wegner alltaf heillað

Guðmundur Hallgrímsson er fasteignasali á REMAX Senter-fasteignasölunni. Hann býr í Vesturbænum í Reykjavík og er í sambúð með Völu Valþórsdóttur viðskiptaþróunarstjóra hjá Landsvirkjun, og á tvo stráka, Patrek Thor, fimmtán ára og Kormák Krumma, tíu ára.

Hvað heillar þig mest við starfið?
„Það sem er skemmtilegast er fjölbreytileikinn og samskipti við fólk, einnig er mjög gaman að óska fólki til hamingju þegar það hefur fest kaup á nýju heimili.“

Geturðu lýst hefðbundnum vinnudegi hjá þér?
„Dagurinn byrjar milli klukkan 8-9 á morgnana og endar oft milli kl. 18.00 og 19.00 en þó er maður oft að vinna lengur en þá í símanum og tölvupóstum.  Annars eru dagarnir mjög misjafnir, suma daga er maður að vinna allan daginn á skrifstofunni en aðra er maður mikið á ferðinni í verðmati á eignum og að sýna eignir.“

Hvað er það sem þér finnst gera heimili að heimili?
„Mér finnst gaman að hafa fallegt hjá mér og hef áhuga á myndlist og fallegum húsgögnum en það sem gerir heimilið að heimili er númer eitt fólkið sem býr þar og þeir sem koma í heimsókn, vinir, ættingjar og vinir barnanna. Það er til dæmis gott merki um að heimilið sé góður staður til að vera á þegar maður kemur úr vinnu og allt eldhúsið er fullt af diskum og brauðmylsnu eftir synina og vini þeirra.“

Geturðu líst þínum stíl?
„Hann er frekar skandinavískur en með kannski smáslettu af breskum húmor, mér finnst gaman að poppa upp skandinavíska mínimalstílinn með litum og stemningu.“

„Það er til dæmis gott merki um að heimilið sé góður staður til að vera á þegar maður kemur úr vinnu og allt eldhúsið er fullt af diskum og brauðmylsnu eftir synina og vini þeirra.“

Áttu þinn uppáhaldsarkitekt?
„Það eru mjög margir frábærir arkitektar bæði innlendir og erlendir og mér finnst erfitt að benda á einn, en meðal annars er Manfreð Vilhjálmsson í miklu uppáhaldi hjá mér. Við á REMAX erum einmitt með Blikanes 21 til sölu núna sem er eitt af húsunum sem hann teiknaði.“

Áttu þinn uppáhaldshönnuð?  
„Það er svipað og með arkitektana og gæti listinn verið endalaus. Stólarnir hans Hans Wegner hafa alltaf heillað mig og svo er HAF, íslenska hönnunarteymið, að gera frábæra hluti og auðvitað Ólafur Elíasson sem er allt í senn listamaður, hönnuður og arkitekt.“

Hvað hefur þig alltaf dreymt um að eignast en ekki eignast hingað til?
„Ég hef í mörg ár haft augastað á koníaksbrúnum sófa frá ítalska merkinu Flexform, hann skilar sér vonandi einn daginn í stofuna.“

Uppáhaldsliturinn þinn? „Það sveiflast svolítið milli árstíða, ljósari litir á sumrin og dekkri á veturna. Brúnt, grænt og navy-blátt er alltaf klassískt og svo er ég mjög hrifinn af hvítum skyrtum í fataskápinn.“

Hvar líður þér best? 

„Það er heima með fólkinu mínu og svo með vinum. Hef gaman af því að vera í náttúrunni á skíðum og fjallahjóli.“

Nú er sumarið komið og margir huga að garðinum, er eitthvað sem þig langar að eignast í garðinn? 
„Það eina sem vantar í hann er meiri sól.“

Svalasti veitingastaðurinn á Íslandi í dag? „Það er endalaust verið að opna skemmtilega nýja staði, Bastard er til dæmis frábær viðbót í flóruna en mínir uppáhalds eru alltaf Snaps og Jómfrúin en ég elska danskt smurbrauð.“

Er einhver byggingarstíll sem heillar þig meira en annar?
„Nei, í raun ekki en ég er bæði mjög hrifinn að gömlum húsum með fallegum gluggum og loftlistum, það er að segja þessi hús frá árunum 1900-1930 og svo stílnum frá 1960-1970 þar sem formin eru einfaldari og gluggarnir stærri.“

 

„Magnað að leikur sem maður bjó til sé spilaður 2000 sinnum á dag“

|
|

Nýr íslenskur tölvuleikur á meðal áhugaverðustu „indí“-leikja á Norðurlöndunum.

Íslenski tölvuleikurinn Out of the Loop, eða Úti á túni, sem kom út á dögunum hefur verið valinn til þátttöku á leikjaráðstefnunni Nordic Game Conference sem fer fram í Malmö í Svíþjóð á næsta ári. Leikurinn verður á sýningu helgaðri áhugaverðustu „indí“-leikjunum á Norðurlöndunum.

„Það er Yonderplay sem stendur fyrir valinu, en Yonderplay er nýja nafnið á Nordic Indie Sensation sem velur mest spennandi leikina sem eru gefnir sjálfstætt út á Norðurlöndum,“ útskýrir Sigursteinn Gunnarsson, annar hönnuða leiksins. „Það er ótrúlegur heiður að verða fyrir valinu.“

Sigursteinn lýsir Out of the Loop sem stafrænum spurningaborðspilaleik í nokkrum umferð-um fyrir síma, sem 3-9 geta spilað í einu og fá allir nema einn leikmanna eitt leyniorð í hverri umferð. „Leikmennirnir eiga síðan að svara spurningum sem tengjast hverju leyniorði og reyna þannig að finna út hvern vantar leyniorðin, þ.e. hver er úti á túni, á meðan sá reynir að veiða leyniorðin upp úr þeim svo þeir fatti það ekki,“ útskýrir hann og bætir við að Out of the Loop sé í ætt við tölvuleikinn Spyfall sem sumir íslenskir „spilarar“ ættu að kannast við.

„Í rauninni jafnast þó ekkert á við að að sjá fólk hlæja og skemmta sér í leiknum sem maður bjó til.“

Out of the Loop hlaut á dögunum viðurkenningu frá Copenhagen Game Collective.

Out of the Loop hefur verið í þróun í níu mánuði og er annar leikurinn sem Sigursteinn og Torfi Ásgeirsson, félagi hans og meðeigandi leikjafyrirtækisins Tasty Rook, senda frá sér. Fyrri leikur þeirra félaga, spæjaraleikurinn Triple Agent, er að sögn Sigursteins í svipuðum stíl og Out of the Loop en hann komst líka inn á sömu sýningu í fyrra og hefur hlotið góðar viðtökur. „Triple Agent hefur verið sýndur á þónokkrum hátíðum erlendis og frægur YouTube- gagnrýnandi, Totalbiscuit, valdi hann sem einn af tíu bestu leikjum ársins í fyrra, en það er svolítið magnað að vita til þess að leikur sem maður bjó til sé spilaður 2000 sinnum á dag,“ segir hann og brosir.

Spurður hvaða þýðingu þátttaka á Nordic Game Conference komi til með að hafa fyrir Out of the Loop og fyrirtækið Tasty Rook, segir Sigursteinn að þeir Torfi séu þessa dagana á fullu að kynna leikinn og viðurkenningar af þessu tagi hjálpi klárlega til. „Auðvitað er alltaf ótrúlega gaman þegar það sem maður er að gera vekur áhuga og hrifningu en í rauninni jafnast þó ekkert á við að að sjá fólk hlæja og skemmta sér í leiknum sem maður bjó til,“ segir hann glaður.

Aðalmynd: Sigursteinn Gunnarsson og Torfi Ásgeirsson, meðeigendur leikjafyrirtækisins Tasty Rook.

Ævintýri á Jónsmessunótt

Þrátt fyrir viðvarandi sólskinsskort er sumarið víst komið og gott betur en það. Miðsumarshátíðir njóta mikilla vinsælda á Norðurlöndum en hér á landi eru ýmsar yfirnáttúrulegar verur tengdar sólstöðum. Á aðfaranótt Jónsmessu, þann 24. júní, er mælt með því að velta sér upp úr dögginni og jafnvel talið að dýr geti talað.

Hugmyndin um Jónsmessunótt er í augum margra sveipuð rómantískum bjarma sem eflaust á rætur sínar að rekja til skáldsögu Williams Shakespeare um Draum á Jónsmessu (e. A Midsummer Night´s Dream). Þar má sjá flóru fjölbreyttra persóna skipta um ham þessa dularfullu nótt og vægast sagt undarlega atburðarás eiga sér stað þar sem ólíklegustu fyrirbæri fella hugi saman.

Ástin er blind á augum, skyggn í hjarta, svo Amor sjónlaus þenur vænginn bjarta; á vizku og táli veit hann aldrei skil, og vængjuð blinda þýtur háskans til.

Bókmenntaunnendur, ólæknandi rómantíkusar og aðdáendur sögunnar þurfa þó ekki að bíða lengi því til stendur að setja verkið upp í Þjóðleikhúsinu á komandi leikári.

Hefðirnar ekki séríslenskar
Margir halda að mýtur tengdar Jónsmessunótt séu séríslenskar en svo er ekki. Hugmyndin um að dýr tali mannamál þessa nótt, eða að selir kasti ham sínum þekkist víða annars staðar. Ein algengasta kenning tengd þessari goðsagnakenndu nóttu er tengd lækningarmætti daggarinnar og hafa eflaust margir látið á hana reyna. Talið er að döggin á Jónsmessunótt sé svo heilnæm að hún geti læknað kláða ásamt öðrum húðmeinum en lækning á að felast í því að láta döggina þorna af sjálfri sér á nöktum líkamanum. Eins er sú trú að þessa nótt sé hægt að finna náttúrusteina með töframátt, svokallaða lausnarsteina til að hjálpa bæði konum og kúm. Sagan segir jafnframt að á Baulutindi sé tjörn og í henni sé að finna óskastein. Sá sem nær í steininn á að fá óskir sínar uppfylltar, en aðeins þessa einu nótt.
Hún er jafnframt langlíf sú trú að skil milli heima séu minni á Jónsmessunótt en aðrar nætur og því séu auknar líkur á að hitta fyrir hverskyns handanheimsverur. Púkar, nornir og draugar njóta því mikillar hylli ásamt öðrum yfirnáttúrulegum verum sem óhjákvæmilega tengjast nóttinni, en bæði nú og þá tíðkast víða að halda veislur, brennur og dansleiki á þessum degi.

Svíar skemmta sér fram undir morgun
Ísland hefur þó ekki tærnar þar sem Svíþjóð hefur hælana í þessum efnum því þrátt fyrir að þjóðhátíðardagur Svía sé aðeins tæpum tveimur vikum áður er miðsumarshátíðin (e. midsomer) þekktasta hefð landsins. Hátíðin er ekki bundin við aðfaranótt 24. júní eins og hér heima heldur er hún alltaf haldin um helgi og flakkar á milli daganna 19. til 25. júní. Börn eru þá komin í sumarfrí og flest fjölskyldufólk farið í sitt staðlaða fimm vikna sumarfrí.
Vinir og ættingjar safnast saman og fagna sumrinu en margir sækja í sveitasæluna enda er hvergi betra að koma saman en í grænni náttúrunni. Hátíðin fer að sjálfsögðu fram undir berum himni þar sem sumarkvöldin eru aldrei lengri eða fegurri en á þessum árstíma.

Ströng hefð ríkir um hátíðina og óhætt að segja hana sveipaða nostalgískum ljóma. Um hana ríkja ákveðnar reglur sem nær óhjákvæmilegt er að brjóta en matseðillinn er til að mynda ein þeirra órjúfanlegu hefða sem margir tengja við þennan tíma árs.

Miðsumarshátíðarmatseðillinn inniheldur nær undantekningalaust lax í ýmsum útfærslum ásamt soðnum kartöflum með fersku dilli og sýrðum rjóma. Eftirrétturinn er jafnframt ófrávíkjanlega fyrsta uppskera sumarsins af jarðarberjum, bornum fram með þeyttum rjóma. Með veisluhöldunum drekka hátíðargestir bjór en í hvert sinn sem glasið er fyllt á ný bresta veislugestir í tilheyrandi þjóðhátíðarsöngva. Eftir mat er slegið upp dansgólfi upp á gamla mátann þar sem ungir sem aldnir skemmta sér saman.
Blóm leika mikilvægt hlutverk í borðskreytingum en kvenkynsgestir bera jafnframt blómakransa á höfði.

Samkvæmt aldafornum hefðum tína ógiftar konur svo sjö mismunandi blómategundir með sér í krans á leiðinni heim og leggja undir koddann sinn. Um nóttina á þeim svo að birtast í draumi sá maður sem síðar verður þeirra eiginmaður.

Nóttin fyrir Jónsmessu er því töfrandi tími, einkum og sér í lagi í rómantískum skilningi því samkvæmt Svíum kemur sannleikurinn sífellt betur í ljós eftir því sem bjórglösum miðsumarshátíðarinnar fjölgar. Sannleikurinn getur svo ýmist leitt til hjónabands eða skilnaðar. Hvað sem því líður er þessi árstími einkar vinsæll fyrir brúðkaup og önnur hátíðarhöld.

 

Greinin birtist í 24. tbl Vikunnar.

Hvernig er hægt að gera leigumarkaðinn öruggari?

|||
|||

Leigumarkaðurinn á Íslandi er óstöðugur og hefur hækkað hratt á undanförnum árum. Hvaða ástæður liggja að baki því og hvernig getum við bætt hann að mati sérfræðinga?

Konráð S. Guðjónsson.

Stefna íslenskra stjórnvalda um að betra sé að eiga en að leigja íbúð virðist hafa leitt til óöryggis og sveiflna á leigumarkaði. Þrír hagfræðingar hafa lagt fram tillögur sínar til að sporna við þessum sveiflum, en allar eru þær eru ólíkar í eðli sínu. Gætu þessar breytingar raunverulega leitt til stærri og öruggari leigumarkaðar á Íslandi?

Lágtekjufólk greiddi á Íslandi að jafnaði helming ráðstöfunartekna sinna í leigu árið 2016, meira en á öllum hinum Norðurlöndunum samkvæmt nýlegri skýrslu Íbúðalánasjóðs. Hlutfall íbúa á leigumarkaði var einnig nokkuð lágt miðað við sömu löndin þrátt fyrir aukningu síðari ára, en árið 2016 var það einungis lægra í Noregi. Íslendingar virðast því leigja minna og búa við verri kost á leigumarkaði samanborið við aðrar Norðurlandaþjóðir.

Ólafur Margeirsson.

Þessi staða hefur ekki gerst að sjálfu sér, að mati Konráðs S. Guðjónssonar, hagfræðings Viðskiptaráðs. Samkvæmt honum hefur séreignarstefnan sem rekin hefur verið af stjórnvöldum skapað hvata til þess að eiga frekar en að leigja húsnæði. Líkt og Konráð segir Ólafur Margeirsson hagfræðingur þá hugsun að Íslendingar „eigi að eiga“ húsnæði hafa leitt til meiri skuldsetningar, hærra fasteignaverðs og óstöðugleika á húsnæðismarkaði. Í erindi sem hann hélt á fundi á vegum stéttarfélagsins Eflingar á mánudag sagði hann að ein lausn á þessu vandamáli gæti verið sú að auka aðkomu langtímafjárfesta að leigumarkaðnum á Íslandi, þá einna helst með leigufélögum sem lífeyrissjóðirnir gætu átt og rekið.

Una Jónsdóttir.

Una Jónsdóttir hagfræðingur hjá Íbúðalánasjóði tekur undir áhyggjur Konráðs og Ólafs um afleiðingar séreignarstefnunnar. Una veltir því upp hvaða leiguverð gæti talist sanngjarnt og eðlilegt. Þar sem húsnæði sé nauðsynjavara og öruggt aðgengi að þeim séu skilgreind sem mannréttindi samkvæmt Sameinuðu þjóðunum væru ríkisafskipti óumflýjanleg.

Ítarleg fréttaskýring um leigumarkaðinn á Íslandi er að finna í nýjasta tölublaði Mannlífs. Nánar má lesa um málið á vef Kjarnans.

Texti / Jónas Atla Gunnarsson

19 ára New York-búi gerir heimildarmynd um íslenska sauðfjárbændur

||
||

„Það sem veitir mér innblástur eru mál sem snerta venjulegt fólk, hvort sem það býr í stríðshrjáðum löndum, er heimilislaust í New York eða þarf að bregðast við breyttu landslagi í sauðfjárbúskap á Íslandi,“ segir neminn, ljósmyndarinn og kvikmyndagerðarmaðurinn Erik Kantar. Erik er nítján ára gamall og vinnur nú að heimildarmynd um íslenska sauðfjárbændur. Hann féll fyrir landi og þjóð í fyrra og ákvað í kjölfarið að kafa ofan í heim fjárbænda.

Fór á puttanum um Ísland

Erik við störf í íslenskri náttúru.

„Mig hafði alltaf dreymt um að fara til Íslands þannig að í fyrra lét ég hvatvísi ráða för og pantaði sextán daga ferð og kom til landsins án þess að vera með hótel bókað. Ég var svo spenntur að koma á staðinn. Ég fór á puttanum um landið og varð ástfanginn af öllu við Ísland. Alveg síðan þá hefur hjarta mitt sagt mér að kom aftur. Ég þurfti að finna mér verkefni svo ég gæti gert eitthvað stærra en bara heimsækja landið,“ segir Erik og brosir.

„Ég valdi að gera heimildarmynd um sauðfjárbændur því iðnaðurinn er að deyja á smærri býlum. Yfirvöld hafa gert þessum bændum erfitt fyrir að lifa af starfinu eins og þeir gerðu áður fyrr. Þessi iðnaður er að breytast hratt og myndin mun fjalla um það.“

Í anda Vice

Hann segir að myndin verði í anda heimildarþátta frá Vice Media.

„Markmið myndarinnar er mjög hnitmiðað. Myndin fjallar um hið geysistóra vandamál sem sauðfjárbændur standa frammi fyrir í dag, sem í raun neyðir þá til að hætta búskap, og hvernig ein fjölskylda er að kljást við þetta vandamál. Í stuttu máli er markmið myndarinnar að sýna þessar breytingar í bússkapnum í gegnum líf einnar fjölskyldu.“

Erik er nýsnúinn aftur til Bandaríkjanna eftir að hafa eytt tíma hér á landi við tökur. Hann fékk gistingu hjá bændunum á Hólum í Búðardal, sem reka einnig lítinn húsdýragarð sem er opinn á sumrin og líkaði dvölin vel.

„Fjölskyldan hafði frábæra sögu að segja fyrir myndina,“ segir Erik dulur og vill ekki gefa of mikið upp um það. Erik snýr svo aftur til Íslands í réttir í haust til að taka upp meira efni og klárar myndina í kjölfarið. Hægt verður að horfa á myndina á heimasíðu hans, erikkantarphoto.com en hægt er að fylgjast með framgang myndarinnar á Instagram síðu hans undir nafninu @erikkantar.

En hvað tekur svo við hjá Erik?

„Ég get ekki sagt til um það strax. En Ísland er alltaf í hjarta mínu þegar ég leita að sögu.“

Byggðastofnun skoðaði dreifingu sauðfjár á Íslandi árið 2016 miðað við ásetning það ár. Þá kom fram að …

… fjöldi sauðfjárbúa hér á landi væri 2481 talsins
… búunum hafði fækkað um sautján bú frá árinu áður
… langflest búin töldu 199 eða færri kindur, eða 63,5%
… stærstu búin sem héldu 600 kindur eða fleiri væru aðeins 125 talsins

Meeee!

Hef ekki þörf fyrir já-fólk

|||||
|||||

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur aldrei haft mikla þörf fyrir það að hafa bara já-fólk í kringum sig. Henni finnst oft gott að heyra í fólki sem er ósammála sér og kippir sér lítið upp við gagnrýni en myndi hins vegar aldrei þora að birta eigin skáldskap af ótta við að vera grilluð.

„Ég hef sennilega enst svona lengi í stjórnmálum vegna þess að ég hef húmor fyrir fólki og sjálfri mér. Það er alveg nauðsynlegt,“ segir Katrín, spurð út í þátttöku hennar í stjórnmálum.

Katrín er eðli málsins samkvæmt umsetin kona og ekki margar lausar stundir í hjá henni í deginum. Hún gefur sér þó tíma til að spjalla við mig og þar sem viðtalið fer fram í vikunni þegar Trump Bandaríkjaforseti setur alþjóðasamfélagið á hliðina með innflytjendastefnu sinni, jafn vel þótt hann hafi síðan vikið frá því að skilja að foreldra og börn innflytjenda, er eðlilegt að fyrsta spurningin snúi að því hvað henni finnist um framgöngu hans.

„Það að skilja börn frá foreldrum sínum er auðvitað ekki í takt við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna,“ segir hún. „Og þótt Bandaríkin séu ekki aðilar að honum stríðir þetta líka gegn þeim gildum sem við stöndum fyrir þegar kemur að því að tryggja velferð og réttindi barna. Þetta er auðvitað líka mjög umdeilt innan Bandaríkjanna, hefur sætt mikilli gagnrýni úr báðum flokkum og sérlega áhugavert að allar lifandi forsetafrúr Bandaríkjanna hafa gagnrýnt þetta.“

Þú munt sem forsætisráðherra Íslands ávarpa NATO-ráðstefnuna í Brussel í júlí, þar sem Trump og Erdogan verða meðal áheyrenda, hvernig leggst það í þig?

„Það er bara hluti af starfinu að eiga í alþjóðlegum samskiptum,“ svarar Katrín hin rólegasta. „Það er bara þannig.“

VG er eini flokkurinn sem hefur haft það á stefnuskrá að Ísland gengi úr NATO, þannig að það hlýtur að taka svolítið á þig persónulega að þurfa að taka þátt í ráðstefnu þess.

„Við höfum þá stefnu, það er rétt,“ segir Katrín. „Það breytir því ekki að allir aðrir flokkar á þinginu hafa samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland þar sem aðildin að NATO er einn af hornsteinunum og við fylgjum þeirri stefnu sem er lýðræðislega samþykkt, það er auðvitað bara hluti af því að vera í stjórnmálum og það höfum við gert áður þegar við vorum síðast í ríkisstjórnarsamstarfi og það liggur fyrir að sem ráðherra starfar maður samkvæmt þeirri stefnu sem Alþingi hefur tekið lýðræðislega ákvörðun um að fylgja.“

Ég var reyndar að fiska eftir persónulegri líðan Katrínar með það að þurfa að vera í samskiptum við þessa menn en hún er ekki á því að láta mig komast upp með það. Hún bætir þó við: „Ég mun auðvitað tala fyrir okkar utanríkisstefnu sem er sú að það beri alltaf að reyna að stefna að pólitískum og friðsamlegum lausnum á átökum. Það eigi alltaf að vera fyrsta val. Við höfum ákveðna sérstöðu sem herlaust land og tölum fyrir slíkum lausnum á alþjóðavettvangi og ég mun gera það á þessum fundi.“

„Fólk verður að fá að hafa sínar skoðanir og ég hef aldrei haft mikla þörf fyrir það að hafa bara já-fólk í kringum mig. Mér finnst oft gott að heyra í fólki sem er ósammála mér.“

Katrín segist hafa góðan stuðning allrar fjölskyldunnar en hún er yngst fjögurra systkina og segist hafa verið hálfgerð dekurrófa á heimilinu.

Hefur húmor fyrir fólki
Vinstri græn hafa setið undir gagnrýni síðan þau fóru í ríkisstjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk, er starf forsætisráðherra ekki ofboðslega slítandi?

„Það er nú ekki allt neikvætt, sem betur fer,“ svarar Katrín um hæl og ég heyri að hún brosir. „Það eru einhverjir ánægðir og aðrir ekki. Það er nú bara hluti af því að vera í stjórnmálum.“

Þetta svar vekur upp spurninguna um það hvað upphaflega hafi valdið því að Katrín fór að taka þátt í stjórnmálum.

„Ég er búin að vera á Alþingi síðan 2007 og mun lengur í pólitík og ástæðan fyrir því er að ég hef rosalegan áhuga á samfélagsmálum og fyrir því að vinna fyrir samfélagið. Þann áhuga hef ég haft frá því ég byrjaði að vera virk í félagslífi í framhaldsskóla. Ástæðan fyrir því að ég endist í pólitík er hins vegar að ég hef líka áhuga á fólki og mér finnst gaman að vinna með því, líka fólki sem er ósammála mér. Það finnst mér geta verið krefjandi og áhugavert. Ég hef sennilega enst svona lengi í stjórnmálum vegna þess að ég hef húmor fyrir fólki og sjálfri mér. Það er alveg nauðsynlegt.“

Þrátt fyrir langan stjórnmálaferil, meðal annars sem menntamálaráðherra, hlýtur starf forsætisráðherra að vera mun meira álag en Katrín hefur áður upplifað. Er þetta starf það erfiðasta sem hún hefur tekist á við?

„Já, ætli það sé það ekki,“ segir hún hugsi. „En það er auðvitað þannig að við öll sem vorum í stjórnmálum eftir hrun, óháð því hvort við vorum í stjórn eða stjórnarandstöðu held ég, lifðum tíma sem reyndust mörgum mjög erfiðir og það að vera menntamálaráðherra og vinna í málaflokkum sem maður hefur ástríðu fyrir, bæði menntamálum og menningarmálum, var auðvitað flókið á mestu niðurskurðartímum í lýðveldissögunni, þannig að ég segi ekki að maður hafi ekki mætt mótlæti eða álagi áður. En þetta er auðvitað stórt verkefni sem ég er í núna.“

„Ég verð í stjórnmálum á meðan ég hef ástríðu fyrir þeim. Svo hætti ég. Við verðum bara að bíða og sjá hvenær það verður.“

Sofnar um leið og hún sest niður
Hefurðu einhvern tíma til að eiga eitthvert líf fyrir utan starfið? Geturðu horft á fótbolta og gert eitthvað sem þér finnst skemmtilegt?

„Starfið er sem betur fer líka skemmtilegt. En það er ekki mikill tími sem gefst til að kúpla sig út en maður verður að gera það við og við, annars missir maður bara vitið,“ segir Katrín og hlær. „En það verður að viðurkennast að til þess gefst minni tími en oft áður.“

Ertu áhugamanneskja um fótbolta?

„Já, ef ég væri í öðru starfi eða hefði tök á því þá myndi ég horfa á alla leiki en akkúrat núna er ástandið þannig að maður lætur sér nægja að fylgjast með leikjum Íslands. Svo sér maður kannski slitrur úr öðrum leikjum á hlaupum. Það er auðvitað töluvert horft á þetta á mínu heimili þar sem ég á nú þrjá stráka þannig að ég missi ekki alveg af þessu.“

Geturðu einhvern tíma verið heima hjá þér á kvöldin?

„Jú, jú, auðvitað kemur maður stundum heim,“ svarar hún og andvarpar. „Gallinn er að maður sofnar yfirleitt strax og maður sest niður þannig að maður er kannski ekki góður félagsskapur.“

Katrín hefur áður talað um það í viðtölum að heimilishaldið hvíli mest á eiginmanni hennar, Gunnari Sigvaldasyni, og það hefur væntanlega ekki breyst við nýja starfið, eða hvað?

„Já, þetta hvílir ansi mikið á honum, það verður að viðurkennast,“ segir hún. „Það er held ég hluti af því sem gerist hjá mörgum stjórnmálamönnum að makar þeirra þurfa að taka mestu ábyrgðina á öllu þessu sem þarf að sinna hjá öllum fjölskyldum. Vinnutíminn er oft mjög óvenjulegur og ófyrirséður og það er kannski það sem ég ímynda mér að sé leiðinlegast við að vera giftur stjórnmálamanni. Að vita í sjálfu sér aldrei hvað gerist.“

„Við höfum ákveðna sérstöðu sem herlaust land og tölum fyrir slíkum lausnum á alþjóðavettvangi og ég mun gera það á þessum fundi.“

Alltaf erfitt að vera í ríkisstjórn
Eins og fram kom áður hefur þingflokkur VG setið undir gagnrýni fyrir að hafa gengið inn í þetta ríkisstjórnarsamstarf. Er ekkert erfitt að takast á við það?

„Það er bara erfitt að vera í ríkisstjórn, það var líka erfitt á árunum 2009-2013, það er bara hluti af lífinu. Maður gengur ekki inn í þetta verkefni með það að markmiði að verða eitthvað sérstaklega vinsæll. Okkur fannst hins vegar mjög mikilvægt að hafa áhrif á stjórn landsins. Það hefur verið að molna undan innviðum samfélagsins eftir kreppu og við verðum bara að horfast í augu við stöðuna eins og hún er. Það er mjög mikilvægt að við nýtum núna þá efnahagslegu hagsæld sem verið hefur til þess að byggja upp þessa innviði. Það eru líka stór verkefni sem mínum flokki fannst mikilvægt að hafa áhrif á, ég get nefnt umhverfismálin, náttúruvernd og loftslagsmál, kynjajafnréttismál og þessa innviðauppbyggingu sem mér finnst mikilvæg til þess að tryggja aukinn jöfnuð og aukna velsæld í samfélaginu. Þannig að, jú, jú, við erum gagnrýnd fyrir það að gera málamiðlanir og ná ekki öllum okkar málum fram en það er bara fylgifiskur þess að fara í ríkisstjórn. Það er ekki eins og við séum ókunnug þessum viðbrögðum frá fyrri tíð. Ef maður er alltaf að hugsa um að einhverjum muni finnast eitthvað athugavert við það sem maður gerir þá mun maður líklega aldrei gera neitt.“

Er þetta ekki bara svipað og að vera í hjónabandi? Snýst þetta ekki meira og minna um málamiðlanir og tilslakanir?

„Jú, jú, það er náttúrlega undirstaða lýðræðissamfélaga að ólík öfl geti gert málamiðlanir og það þekkjum auðvitað bæði úr okkar sögu og sögu annarra landa að undirstaðan er sú að við höfum öll okkar hugmyndir og okkar stefnu og svo þurfum við einhvern veginn að lenda einhverjum ásættanlegum niðurstöðum og það er auðvitað alltaf flókið.“

Katrín í myndatöku á tröppum Stjórnarráðsins.

Tekur ekki fram fallbyssuna
Oft hefur verið bent á Katrínu sem einn mesta diplómatann í íslenskum stjórnmálum, er hún sammála því mati? Á hún auðvelt með að miðla málum og aðlaga sig að ólíkum áherslum annarra?

„Ég held það sé alveg rétt að ég eigi það og það átti í sjálfu sér alveg eins við í stjórnarandstöðu,“ segir Katrín. „Ég viðurkenni það að ég er ekki manneskja stórra orða og ég tek ekki fram fallbyssuna í hvert sinn sem eitthvað gerist. Mér finnst það ekki spennandi stjórnmál sem snúast bara um það.“

Þegar Katrín tók við forsætisráðherraembætinu vakti það einna mesta athygli erlendra miðla að hún væri sérfræðingur í glæpasögum sem myndi væntanlega koma sér vel í þessu starfi. Er hún sammála þeirri skoðun? Er það góður grunnur fyrir forsætisráðherra að hafa stúderað glæpasögur?

„Það er góður grunnur fyrir alla stjórnmálamenn,“ segir hún og glottir. „Þetta er náttúrlega skrýtinn geiri og glæpasögur byggja á þeirri forsendu að engum sé treystandi, þannig að er það ekki ágætis grunnur?“

Þurfa stjórnmálamenn þá alltaf að vera á varðbergi gagnvart því að einhver styngi þá í bakið?

„Ja, maður hefur séð dæmi um það í stjórnmálum,“ svarar hún rólega. „Þótt ég þekki það ekki endilega persónulega af minni reynslu. En maður hefur séð það gerast hjá öðrum.“

Les skáldskap á hverjum degi
Glæpasögur eru varla eina áhugamálið, hvaða fleiri áhugamál hefur forsætisráðherrann?

„Ég hef engin áhugamál, ég er alltaf í vinnunni,“ svarar Katrín um hæl og skellir upp úr. „Nei, nei, ég hef rosalega gaman af því að vera úti á sumrin og njóta okkar náttúru og fallega lands. Sennilega er það stærsta áhugamál mitt að vera úti í íslenskri náttúru og síðan les ég nú fleira en glæpasögur. Ég les skáldskap á hverjum einasta degi. Þótt glæpasögur séu ágætar geta þær orðið leiðigjarnar til lengdar, maður er svolítið farinn að sjá það fyrir á blaðsíðu 200 hver morðinginn reynist vera á síðu 500 þegar maður hefur lesið svona mikið af þeim. Þannig að ég les alls konar skáldskap og þetta tvennt er efst á listanum, að vera úti og lesa.“

Það fylgir því auðvitað að vera í opinberu embætti að þurfa að gæta orða sinna en áttu ekki eitthvert athvarf, hjá vinum eða fjölskyldu, þar sem þú getur bara verið Katrín og sagt allt sem þér dettur í hug?

„Maður verður auðvitað að sinna þeim störfum sem maður tekur að sér og gerir það bara. Þau eru hluti af manni sjálfum líka. En það er nauðsynlegt að eiga góða vini og fjölskyldu þar sem maður getur talað í trúnaði og þarf ekki að vega og meta hvert orð. Og ég er mjög heppin með vini.“

„Ég ímynda mér að það sé miklu verra að vera tekinn af lífi sem rithöfundur. Maður er öllu vanur úr stjórnmálunum en það hlýtur að vera alveg hræðileg upplifun að láta grilla hugverkin sín.“

Alveg einlæglega, hvað hefur reynst þér erfiðast í starfi forsætisráðherra?

„Kannski það að maður er alltaf í embættinu, eins og við vorum að tala um. Það er auðvitað ákveðið álag. Þess vegna er ég að tala um nauðsyn þess að eiga góða vini sem maður getur verið opinskár við og sagt hluti sem eru ekki „réttir“. Sagt bara allt sem ekki má. Það er alveg ljóst að maður talar ekki bara fyrir sína hönd þegar maður er forsætisráðherra, maður talar fyrir hönd landsins.“

Eitt af því sem gerir það að verkum að Katrín hefur verið einn vinsælasti stjórnmálamaður á Íslandi er hvað hún er vel máli farin og fer vel með tungumálið, er það að hennar mati nauðsynlegur eiginleiki góðs stjórnmálamanns?

„Það skiptir máli fyrir okkur öll að nýta tungumálið sem við eigum, við gleymum því stundum hvað við eigum mikil verðmæti í þessu tungumáli. Ég er oft spurð erlendis hvaða tungumál við tölum á Íslandi og það kemur mörgum á óvart þegar ég segi að við tölum íslensku. Það er eins og mörgum, sérstaklega stærri þjóðum, finnist það algjörlega galið að 350.000 manna þjóð tali eigið tungumál. Ég held hins vegar að það skipti okkur sem þjóð ofboðslega miklu máli að eiga þessar rætur og geta verið í þessum tengslum við okkar fortíð í gegnum tungumálið. Það er sérstaklega mikilvægt núna, þegar við sjáum heiminn í kringum okkur breytast dag frá degi og tæknina verða stærri og stærri þátt í lífi okkar, að íslenskan verði gjaldgeng í tækniheiminum.“

Katrín í ríkisstjórnarherberginu.

Hefur ekki þörf fyrir já-fólk
Talið berst aftur að eiginmanninum og hvort Katrín og hann séu til dæmis alltaf sammála um pólitíkina?

„Nei, það erum við ekki,“ svarar hún. „Við rífumst alveg um pólitík. Ég veit ekki einu sinni hvað hann kýs, ég fer ekki með honum inn í kjörklefann. En hann hefur hins vegar sýnt mér mikinn stuðning með ráðum og dáð þótt hann sé ekkert alltaf sammála mér. Enda geri ég enga kröfu um það. Fólk verður að fá að hafa sínar skoðanir og ég hef aldrei haft mikla þörf fyrir það að hafa bara já-fólk í kringum mig. Mér finnst oft gott að heyra í fólki sem er ósammála mér.“

Katrín segist hafa góðan stuðning allrar fjölskyldunnar en hún er yngst fjögurra systkina og segist hafa verið hálfgerð dekurrófa á heimilinu.

„Ég var mikið uppáhaldsbarn, eins og oft er með yngstu börn,“ segir hún og hlær. „Ég er sex árum yngri en tvíburabræður mínir og fjórtán árum yngri en systir mín og þeim þótti uppeldi mínu mjög ábótavant. Þau gagnrýndu foreldra okkar mikið fyrir að hafa hætt öllu uppeldi þegar ég kom í heiminn. Það hef ég fengið að heyra frá því ég man eftir mér.“

Spurð hvað hún hafi ætlað sér að verða áður en stjórnmálin hertóku huga hennar vefst Katrínu tunga um tönn, nema hún segist aldrei hafa ætlað sér að verða stjórnmálamaður þegar hún yrði stór. „Ég hafði alls konar hugmyndir. Var minnt á það um daginn að ég hefði skrifað í einhverja bekkjarbók í grunnskóla að ég ætlaði að verða skurðlæknir. Ég hef líka mjög mikinn áhuga á því sem ég var að gera áður en ég varð stjórnmálamaður en þá vann ég bæði við bókaútgáfu og sem kennari og fannst hvort tveggja mjög gaman. Mér hafa reyndar fundist flest störf sem ég hef sinnt mjög skemmtileg.“

Birti tvær örsögur
Talandi um bókaútgáfu og færni í íslensku, skrifarðu sjálf skáldskap?

„Nei, því miður ekki,“ svarar Katrín og dæsir. „Ég er samt alltaf að ímynda mér að ég sé að fara að gera það bráðum. Ég skrifaði ljóð og einhvern hallærisskap þegar ég var unglingur en ég held það hafi beinlínis ekkert birst eftir mig af skáldskap nema tvær örsögur sem birtust í tímariti íslenskunema þegar ég var í Háskólanum. Ég lít svo á að skáld séu hugrakkasta fólk í heimi því þau rífa úr sér hjartað og leggja það á borð og eru svo jafnvel tekin af lífi og grilluð. Mér finnst það mjög ógnvekjandi starf.“

Ég bendi Katrínu á að stjórnmálamenn séu nú líka aldeilis grillaðir í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum en henni finnst það mun minna mál.

„Ég ímynda mér að það sé miklu verra að tekinn af lífi sem rithöfundur. Maður er öllu vanur úr stjórnmálunum en það hlýtur að vera alveg hræðileg upplifun að láta grilla hugverkin sín.“

Einhvers staðar las ég að þú værir ákveðin í að hætta í stjórnmálum þegar þessu kjörtímabili lyki, er eitthvað hæft í því?

„Ég tek bara einn dag í einu,“ svarar hún véfréttarlega. „Ég hef ekki tekið neina ákvörðun um það. Ég verð í stjórnmálum á meðan ég hef ástríðu fyrir þeim. Svo hætti ég. Við verðum bara að bíða og sjá hvenær það verður.“

Og ætlarðu þá að skrifa krassandi sjálfsævisögu og segja allt sem þú gast ekki sagt á meðan þú varst í opinberu embætti?

„Það verður svoleiðis,“ segir Katrín og skellihlær. „Og svo mun ég flytja eitthvað mjög langt í burtu!“

 

Myndir: Aldís Pálsdóttir

Einstakt að ganga í bjartri nóttunni

|||
|||

Jónsmessunæturferðir frá Fimmvörðuhálsi yfir að Básum hafa notið sívaxandi vinsælda en ferðin markar hápunkt í starfi Útivistar ár hvert.

Skúli Skúlason, framkvæmdarstjóri Útivistar.

„Það sem gerir þessa göngu einstaka er kannski fyrst og fremst sú stemning sem fylgir því að ganga í bjartri nóttinni.  Kyrrðin verður næstum áþreifanleg, jafnvel fuglarnir eru farnir að sofa,“ segir Skúli Skúlason, framkvæmdarstjóri Útivistar.

Gangan fer þannig fram að brottför er síðdegis á föstudegi frá BSÍ.  Ekið að Skógum og gengið yfir nóttina yfir Fimmvörðuháls með nokkrum stoppum á leiðinni, meðal annars við skála Útivistar efst á Fimmvörðuhálsi þar sem boðið verður upp á heita kjötsúpu.  Stuttan spöl norðan við Fimmvörðuskála eru tvö yngstu fjöll landsins, þeir bræður Magni og Móði. Gengið er upp á Magna og horft yfir splunkunýtt apalhraunið sem enn rýkur úr. Það er einstök tilfinning að standa á eldfjallinu og finna hve jörðin er volg undir iljunum.

Áfram er haldið í norður og fljótlega blasir Fjallabak við í morgunbirtunni. Gengið er fram á Heiðarhornið en þaðan sést stórkostleg náttúra hvert sem litið er. Síðasti áfangi göngunnar er niður í Strákagil og þaðan heim í Bása þar sem notalegur svefnpokinn bíður þreyttra göngumanna.

Þegar kemur fram á morgun fer hópurinn að týnast í Bása og flestir þá væntanlega orðnir þægilega þreyttir þannig að það verður gott að leggja sig í nokkra klukkutíma. Allur farangur er fluttur yfir í Bása þannig að svefnpoki og tjald verður komið á staðinn þegar þangað er komið. Um kvöldið verður svo slegið upp grillveislu þar sem boðið verður upp á klassískt lambalæri.  Eftir matinn verður svo slegið upp varðeldi og að sjálfsögðu tekið lagið eins og í öllum góðum útilegum.

Skúli segir umgjörðina um þessa göngu vera umfangsmeiri en í venjulegum Fimmvörðuhálsferðum og kjötsúpan uppi á hálsinum sé bara einn þáttur í því.  „Loks er það svo sú stemning sem er í Básum þessa helgi, en fjöldi fólks gerir sér ferð þangað til að upplifa hana þó að það taki ekki þátt í göngunni sem slíkri.“

„Fyrir mörgum kemur sumarið ekki fyrir alvöru fyrr en með Jónsmessugöngunni á Fimmvörðuháls og gleðinni í Básum.“

Fatnaður og góðir skór skipta öllu máli
Að hans sögn er lögð áhersla að fara ekki of hratt yfir og alltaf sé gætt vel af því að hafa nægilega marga fararastjóra með í för svo þörfum allra sé sinnt, hvort sem þeir fari hægt yfir eða hratt.  „Það er snúnara að hætta við á miðri leið. Við gerum þó ráðstafanir til að geta brugðist við ef einhverjir gefast upp eða meiðast og geta ekki haldið áfram göngu. Ég tel þessa ferð henta öllum sem á annað borð geta stundað göngur.  Það er þó rétt að hafa í huga að leiðin er 24 km sem er nokkuð drjúg dagleið og auk þess verið að ganga að næturlagi.“

Þegar kemur að útbúnaði fyrir slíka ferð segir hann mikilvægt að huga að góðum gönguskóm og hlífðarfatnaði. „Mikilvægt er að hafa meðferðis allt sem göngumaðurinn þarfnast og forðast að taka með sér óþarfa hluti sem hægt er að vera án. Of þungar byrðar gera ferðina erfiðari og draga úr ánægju göngumannsins af henni. Fyrir utan líkamlegt atgervi gegna skóbúnaður og fatnaður lykilhlutverki. Veðrið í bænum við brottför segir ekki allt um hvernig veðrið er uppi á Fimmvörðuhálsi. Það má alveg ganga að því vísu að þar sé talsvert kaldara, ekki síst um miðja nótt.  Hlý undirföt, millilag og svo er nauðsynlegt að vera með regnheldan jakka og buxur í bakpokanum, jafnvel þótt það sé sólskin við brottför.  Svo þarf líka að vera með orkuríkt nesti og vatnsflösku. Líkaminn þarf orku í gönguna og þó svo við bjóðum upp á hressingu á leiðinni er það ekki nóg.“

Gengið er yfir nóttina yfir Fimmvörðuháls með nokkrum stoppum á leiðinni, meðal annars við skála Útivistar efst á Fimmvörðuhálsi þar sem boðið verður upp á heita kjötsúpu.

Að því sögðu segir Skúli að mikil tilhlökkun sé vegna göngunnar því ferðin marki alltaf ákveðin hápunkt í starfi Útivistar. „Við leggjum allt í að gera þessa helgi skemmtilega og fyrir mörgum kemur sumarið ekki fyrir alvöru fyrr en með Jónsmessugöngunni á Fimmvörðuháls og gleðinni í Básum. Á sunnudeginum er svo lagt af stað heim með rútum um hádegisbilið en fararstjórar Útivistar sjá um alla leiðsögn á heimleiðinni. Þar eru fjölmörg náttúruundur sem vert er að skoða á leiðinni með kærkomnum kaffistoppum.“

Áríðandi er að hafa meðferðis allt sem göngumaðurinn þarfnast.
Góður skóbúnaður og hlífðarfatnaður er m.a. mikilvægur.
Hlý undirföt, millilag, regnheldur jakki og buxur í bakpokanum.
Orkuríkt nesti og vatnsflaska.
Ekki of þungar byrðar.
Gott líkamlegt atgervi.

Myndir / úr einkasafni

Ísland mætir Ofurörnunum í dag

||
||

Landslið Íslands mætir Nígeríu í viðureign á HM Í Rússlandi í dag. Nígería á eitt allra sigursælasta lið Afríku og því full ástæða til að vanmeta það ekki.

Landslið Nígeríu í fótbolta er kallað Ofurernirnir.

Nígería er risastórt land. Þjóðarbrotin eru óteljandi og tungumálin sem töluð eru innan Nígeru skipta hundruðum. En eitt á öll þjóðin sameiginlegt og það er ástin á landsliðinu sínu. Saga þess er glæsileg en með sanni má segja að Nígería sé eitt allra sigursælasta lið Afríku. Við ætlum okkur auðvitað að binda enda á þessa sigurgöngu en víst er að við megum síst við að vanmeta þessa miklu knattspyrnuþjóð.

Takk, pabbi!
Það er allt í lagi að Nígeríumenn skori, svo lengi sem við skorum fleiri en þeir. En ef þeir skora syngja stuðningsmennirnir „Ósje Baba“, sem þýðir „Takk fyrir, faðir“ á yourobísku, sem er eitt af mest töluðu tungumálunum í Nígeríu. Við skulum bara vona að þeir hafi lítið að þakka fyrir í leiknum.

Vesturafrískur taktur
Stuðningsmenn Nígeríu þykja með þeim hressari en skrautlegir búningar, fagurgrænar hárkollur og  sólgleraugu í yfirstærð eru algeng sjón meðal þeirra.
Yfirleitt fylgir þeim hljómsveit sem spilar svokallaða Highlife-tónlist. Sú tónlistarstefna á rætur sínar að rekja til Gana og er blanda af klassískum vesturafrískum takti og vestrænni popptónlist.
Til að koma sér í stuð fyrir leikinn má finna fullt af Highlife-tónlist á YouTube, svona áður en við syngjum endurtekið Ég er kominn heim fullum hálsi.

Strákarnir okkar á móti Ofurörnunum
Áður en Nígería lýsti yfir sjálfstæði og tók sér sinn græna og hvíta fána spilaði landslið þeirra í rauðum búningum. Þeir voru þá kallaðir Rauðu djöflarnir. Í kjölfar sjálfstæðis urðu búningarnir grænir og síðan var viðurnefninu breytt í Grænu ernirnir. Í kjölfar mjög svo umdeilds ósigurs þeirra í úrslitum Afríkubikarsins árið 1988 var nafninu breytt í Ofurernina.
Kvennalandslið þeirra kallar sig Ofurfálkana og eru unglingalandslið beggja kynja kölluð ýmist Fljúgandi ernirnir eða Gylltu arnarungarnir.

Þrefaldir Afríkumeistarar
Þrisvar hafa Nígeríumenn hrósað sigri í Afríkukeppninni. Keppnin er haldin annað hvert ár og sigraði Nígería fyrst árið 1980 á heimavelli, svo árið 1994 í Túnis, og að lokum árið 2013 í Suður-Afríku.
Liðið komst hins vegar ekki á lokamótið tvö síðustu skipti, árið 2015 og 2017.

Dottnir úr stuði?
Nígería hefur einungis unnið einn leik af síðustu sjö og gert eitt jafntefli. Margir segja að gullöld þeirra sé liðin og ljóst er að í liðinu er enginn leikmaður sem kallast getur stórstjarna.
Það eru góðar fréttir fyrir okkur, en þrátt fyrir það er ljóst að leikurinn verður gríðarlega erfiður.

Erkifjendur og nágrannar
Nígeríumenn hafa marga hildina háð við landslið Kamerún og mikil samkeppni hefur myndast milli þessara granna. Hápunktinum var náð í úrslitaleik Afríkukeppninnar árið 2000 en dómarinn dæmdi svo í vítaspyrnukeppni að loknum venjulegum leiktíma og framlengingu að vítaspyrna Viktors Ikpeba hefði ekki farið yfir línuna og því töpuðu þeir leiknum.

En erkifjendur Nígeríu á knattspyrnuvellinum eru samt sem áður Ganabúar sem einmitt gerðu jafntefli 2-2 við íslenska landsliðið í loka undirbúningsleik okkar fyrir HM.

2010 komst nígeríska landsliðið ekki upp úr riðlinum á HM. Forseti landsins, Goodluck Jonathan, fyrirskipaði að í refsingaskyni skyldi liðið sæta tveggja ára keppnisbanni.

Frumraunin á HM ‘94
Nígería komst í fyrsta sinn á lokamót HM árið 1994. Liðið var firnasterkt og mikill og góður liðsandi þótti einkenna spilamennsku þess. Þeir sigruðu riðilinn sinn og voru svo tveimur mínútum frá því að sigra Ítalíu í 16 liða úrslitum. Roberto Baggio nokkur marði drauma þeirra með marki á lokamínútunni svo Nígería sat eftir en Ítalía hélt áfram keppni þar til þeir töpuðu fyrir Brasilíu í frægri vítaspyrnukeppni í útslitaleiknum.
Þar réð spyrna téðs Roberto Baggio úrslitum í leiðinlegasta úrslitaleik síðari tíma en hann skaut himinhátt yfir af punktinum.

Pólitísk afskipti
Ofurernirnir komust aftur á HM 1998, 2002, 2010 og 2014. Þeir hafa lengst komist í 16 liða úrslit.
2010 komust þeir hins vegar ekki upp úr riðlinum og hlutu einungis eitt stig. Forseti landsins, Goodluck Jonathan, fyrirskipaði svo að í refsingaskyni skyldi liðið sæta tveggja ára keppnisbanni. Stórundarleg ákvörðun í alla staði og FIFA hótaði öllu illu enda lítt hrifið af pólitískum afskiptum.
Í kjölfarið fór af stað mikill farsi þar sem þingið aflétti banni forsetans, en FIFA fannst það ekki nóg og setti liðið í ótímabundið bann um haustið. Bannið entist í heila fjóra daga en var þá aflétt.

Sjúklingarnir á Kleppi gleymdust

||
||

Öryggis- og réttargeðdeildin á Kleppi getur ekki útskrifað sjúklinga vegna skorts á búsetuúrræðum og þar af leiðandi ekki tekið á móti nýjum sjúklingum. Samkvæmt starfsmanni á velferðarsviði Reykjavíkurborgar má ástæðuna meðal annars rekja til þess að sjúklingarnir hafi orðið útundan.

Berglind Magnúsdóttir, skrifstofustjóri öldrunar- og húsnæðismála á velferðarsviði Reykjavíkurborgar.

Mannlíf greindi frá því á dögunum að ófremdarástand hafi skapast á öryggis- og réttargeðdeildinni á Kleppi. Skortur á félagslegu húsnæði í Reykjavík og í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu veldur því að ekki hefur verið hægt að útskrifa fólk sem hefur lokið meðferð á deildunum. Á öryggisgeðdeildinni geta verið átta sjúklingar og voru þar sjö. Af þeim er hægt að útskrifa fjóra. Búsetuúrræði í félagslega kerfinu er hins vegar ekki til staðar fyrir þá. Á réttargeðdeildinni eru svo fjórir og eru þrír þar útskriftarhæfir. Tveir á réttargeðdeildinni hafa beðið eftir búsetuúrræði síðan um áramótin síðustu.

Elsa Bára Traustadóttir, sálfræðingur á öryggis- og réttargeðdeildinni á Kleppi, sagði í samtali við Mannlíf þetta valda klemmu, ekki sé hægt að taka á móti nýjum sjúklingum þegar útskriftarhæft fólk er þar fyrir.

„Við höfum fullan skilning á vanda sjúklinga á Kleppi. Það dregur líka úr batahorfum þeirra að þurfa að gista þar þótt hægt sé að útskrifa þá,“ segir Berglind Magnúsdóttir, skrifstofustjóri öldrunar- og húsnæðismála á velferðarsviði Reykjavíkurborgar og bendir á það séu margir þröskuldar sem þurfi að yfirstíga og því vinni velferðarsvið Reykjavíkurborgar og geðsvið Landspítalans saman að því að finna húsnæði fyrir sjúklinga svo þeir komist af spítalanum.

„Við höfum fullan skilning á vanda sjúklinga á Kleppi. Það dregur líka úr batahorfum þeirra að þurfa að gista þar þótt hægt sé að útskrifa þá.“

Skortur á félagslegu húsnæði í Reykjavík og í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu veldur því að ekki hefur verið hægt að útskrifa fólk sem hefur lokið meðferð á Öryggis- og réttargeðdeildinni á Kleppi.

Berglind segir Reykjavíkurborg og reyndar fleiri enn vera að vinna sig út úr því þegar málefni fatlaðra voru færð frá ríki til sveitarfélaga árið 2011. Í þeirri yfirfærslu hafi gleymst að gera ráð fyrir þeim sem voru á spítala. „Þetta er vandamál sem hefur verið unnið markvisst með. Með átaki tókst að eyða biðlistanum fyrir tveimur árum. Hann hefur hins vegar birst jafnharðan aftur.“

Að hennar sögn hefur margt tafið fyrir því að úrræðum fjölgi sem mæti þörfum sjúklinganna á Kleppi. Þar á meðal sé uppsveifla á fasteignamarkaði sem setji meiri pressu á allt. Til viðbótar sé samkeppni um stofnframlögum sveitarstjórnar og ríkis úr Íbúðalánasjóði til byggingar félagslegs húsnæðis og fleiri verkefna fyrir fatlaða. Hún bendir hins vegar á að fyrir um ári hafi verið samþykkt uppbyggingaráætlun fyrir geðfatlaða og fleiri sem heyri undir velferðarsvið Reykjavíkurborgar. Þar er í samræmi við spá gert ráð fyrir byggingu 200 íbúðakjarna til ársins 2030. Unnið er eftir því. Í samræmi við það voru tveir íbúðakjarnar opnaðir í apríl og maí og opnar sá þriðji í júlí.

„Við höfum skoðað ýmsar aðrar leiðir, svo sem að hafa íbúðir utan kjarna, íbúðir í venjulegum húsum fyrir geðfatlaða einstaklinga sem þurfa ekki næturþjónustu. En það sama á við um þær og íbúðakjarnana, íbúar í hverfum borgarinnar þurfa að vera hliðhollir því að íbúðakjarnar séu í götum þeirra. Kærur hafa farið á milli vegna þessa og það hefur bæði hamlað og hægt á framkvæmdum. En þegar hjólin fara að snúast þá gerist þetta vonandi allt hraðar,“ segir Berglind.

Fær væna summu fyrir sinn hlut

|
|

GAMMA selt til Kviku banka.

Gísli Hauksson. Mynd af vef gamma.is.

Ætla má að Gísli Hauksson, fyrrverandi forstjóri og einn af stofnendum fjármálafyrirtækisins GAMMA Capital Management, komi vel inn í sumarið. Eins og greint var frá í vikunni hafa hluthafar GAMMA undirritað viljayfirlýsingu um að selja Kviku banka allt hlutafé fyrirtækisins fyrir tæpa 3,8 milljarða króna.

Gísli stofnaði GAMMA ásamt Agnari Tómasi Möller fyrir tíu árum og er hann einn stærsti hluthafi fyrirtækisins með 31% eignarhlut. Miðað við það ætti Gísli að fá um 1,7 milljarða króna fyrir hlutinn. Ef af verður mun Kvika banki greiða fyrir GAMMA með reiðufé og hlutabréfum í bankanum.

BBC segir Rúrik blöndu af Brad Pitt, Channing Tatum og Chris Hemsworth

„Hvað færðu þegar þú blandar saman Chris Hemsworth og Brad Pitt, með dass af Channing Tatum? Hinn íslenska Rúrik Gíslason.“ Svona byrjar grein á vef BBC um nýjustu samfélagsmiðlastjörnu Íslands, knattspyrnukappann Rúrik Gíslason. Brad Pitt þarf vart að kynna en Chris Hemsworth er hvað þekktastur fyrir að leika þrumugoðið Þór og Channing Tatum þekkja margir úr kvikmyndunum Magic Mike.

Last day in Dubai. Time to go home and see my family!

A post shared by Rurik Gislason (@rurikgislason) on

Rúrik sprengdi næstum því Instagram eftir leikinn gegn Argentínu um síðustu helgi. Rúrik átti um fjörutíu þúsund fylgjendur á samfélagsmiðlum fyrir leik en nálgast nú óðum milljón fylgjendur og nær því eflaust áður en heimsmeistaramótinu lýkur.

Í kjölfar þessa gríðarlegu vinsælda hefur athugasemdum við myndir hans á Instagram fjölgað til muna og virðast margar þeirra koma frá argentínskum notendum miðilsins. Því virðist sem Rúrik hafi með útliti sínu náð að milda höggið fyrir argentínska landsliðið, allavega ef marka má athugasemdir við myndirnar hans.

Viktoría Alfreðsdóttir ❤️

A post shared by Rurik Gislason (@rurikgislason) on

„Hann gerir mig brjálaða,“ skrifar einn notandi við mynd Rúriks á meðan annar notandi er frekar frakkur: „Ég sendi þér númerið mitt í einkaskilaboðum. Kossar.“

Þá vill einn notandi samfélagsmiðilsins vita hvernig sjampó maðurinn notar, enda hefur vel hirt hár kappans vakið athygli. Margir sem sjá sig knúna til að skrifa athugasemdir við myndir Rúriks kalla hann einfaldlega sælgæti.

☀️☀️☀️?️ #holiday

A post shared by Rurik Gislason (@rurikgislason) on

Blaðamaður BBC fer yfir þessar vinsældir Rúriks í pistli sínum og kallar hann hjartaknúsara. Bendir hann réttilega á að Rúrik eigi nú flesta fylgjendur á Instagram í landsliðinu. Þetta Rúriks æði sem gripið hefur um sig á heimsmeistaramótinu minnir um margt á hve eftirsóttur liðsfélagi hans Birkir Bjarnason var á Evrópumótinu í knattspyrnu fyrir tveimur árum síðar. Þá gerði Birkir allt vitlaust á öðrum samfélagsmiðli, nefnilega Twitter, þar sem honum var líkt við NFL-stjörnuna Tom Brady til að mynda. Þá skrifaði Daily Mail heila grein um kappann og líkti honum við þrumugoðið Þór og ungan Brad Pitt, eins og BBC um Rúrik nú, og breski fatarisinn ASOS bauð Birki fyrirsætustörf.

Birkir á þó langt í land með að ná Rúrik í Instagram-vinsældum þar sem sá fyrrnefndi er aðeins með rúmlega hundrað þúsund fylgjendur.

Kveikti á myndavélunum þegar allir byrjuðu að æla

Leikstjórinn Baltasar Kormákur er í skemmtilegu viðtali við The Telegraph þar sem hann ræðir um gerð nýjustu myndar sinnar, Adrift, með þeim Shailene Woodley og Sam Claflin í aðalhlutverkum. Myndin er byggð á sannsögulegum atburðum og fjallar um par sem lendir í einum versta fellibyl allra tíma. Í byrjun fyrrnefnds viðtals byrjar Baltasar á því að rifja upp hugleiðingar sínar við gerð myndarinnar Everest sem kom út árið 2015, þar sem hann vaknaði eldsnemma á morgnana í -30°C frosti.

„Hvað í andskotanum er að mér?“ rifjar Baltasar upp. „Af hverju er ég hér þegar ég gæti verið heima með fallegu eiginkonu minni og börnum? Það var eitt andartak sem ég hugsaði: Hvað í andskotanum er ég búinn að koma mér í?“ bætir hann við.

Baltasar ákvað að endurgera efni Adrift í miðju Kyrrahafinu í staðinn fyrir að geta notið þæginda inni í myndveri.

„Hafið kallar fram raunverulegar tilfinningar,“ segir hann í viðtalinu og heldur áfram. „Ég elska hvernig það gerir leikara berskjaldaða. Við áttum að skjóta senu með úfnum sjó en það var sólskin og fallegt veður. Fólk tók sjálft og sagði: „Ég trúi því ekki að við fáum borgað fyrir þetta.“ Klippt í tvo tíma síðar og þau voru að kasta upp og tökuliðið var berandi fötur fullar af ælu í burtu. Þá vorum við tilbúin til að kveikja á myndavélunum. Þetta er eitthvað raunverulegt og mér finnst það áhugavert.“

Glæsileg og björt hæð í hjarta borgarinnar

Þessi glæsileg og bjarta eign er á efstu hæð, þeirri sjöundu, í Stakkholti 2b í hjarta borgarinnar. Það er einstakt útsýni til suðurs yfir borgina og til austurs að Keili. Einnig blasir við stórfenglegt útsýni á hæðinni yfir Snæfellsfjallagarðinn, Akrafjall og Skarðsheiði.

Einfaldur og stílhreinn stíll í forgrunni
Eignin er aðlaðandi fyrir augað, bæði stílhrein og björt, þar sem einfaldleikinn ræður ríkjum. Skipulag eigninnar er mjög gott og hugsað er fyrir öllum smáatriðum. Gólfefnin eru vönduð, fallegt eikarparket með breiðum plönkum sem kemur skemmtilega út. Eigninni fylgja tvö barnaherbergi og rúmgott hjónaherbergi sem nýtast vel. Eldhúsið og stofan tengjast saman í opnu og björtu rými sem býður upp á fjölmarga möguleika á nýtingu. Falleg innrétting og eyja prýða eldhúsið. Útgengt er á svalir í opna rýminu sem kemur mjög vel út. Eigninni fylgir stæði í bílakjalllara og sérgeymsla á sameign sem er með tvöfaldri lofthæð sem er mikill kostur.

Menningarlífið blómstrar allt í kring og hverfið iðar af lífi
Staðsetning eignarinnar er á miðsvæði borgarinnar þar sem stutt er í allar áttir. Stutt er í alla þjónustu og það má með sanni segja að þjónustan og menningarlífið blómstri allt í kring. Meðal annars má nefna að stutt er á Hlemm, þar sem Mathöll var nýlega opnuð og stutt er í miðbæinn þar sem má finna allt milli himins og jarðar. Bónus í Skipholti er í göngufæri sem er einkum hagkvæmt fyrir heimilið. Menningarlífið er skammt undan en Kjarvalsstaðir og Klambratúnið eru í göngufæri, þar er að finna bæði kaffihús og almenningsgarð sem iðar af mannlífi. Á Klambratúni er hægt að stunda ýmsar íþróttir og hreyfingu og má þar nefna körfubolta, fótbolta, frisbígolf. Einnig er þar leikvöllur fyrir yngstu kynslóðina sem er mikill kostur fyrir fjölskyldufólk. Stórir vinnustaður eru margir þarna í kring og má þar meðal annars nefna Landspítalann við Hringbraut.

Skólar fyrir öll skólastig í nágrenninu
Í göngufæri við Stakkholt eru fjölmargir skólar. Þar má nefna Háteigsskóla, Austurbæjarskóla og Ísaksskóla. Einnig er Tækniskólinn í göngufæri og stutt í Háskólann í Reykjavík og Háskóla Íslands. Jafnframt eru margir leikskólar í grenndinni, bæði í miðbænum sem og í Hlíðunum. Samgöngur eru góðar á þessu svæði og fínir hjólareiðastígar í allar áttir. Svæðið býður upp á fjölmargar leiðir til hreyfingar af ýmsu tagi og má þar nefnda Öskjuhlíðina og íþróttafélögin Valur og Mjölnir eru á svæðinu.

Húsaskjól/Garún fasteignasala er með þessa glæsilegu fjögurra herbergja hæð til sölu og heildarstærð eignarinnar er skráð 149,9 fermetrar. Verðið á eigninni er 79,9 milljónir en fasteignamatið árið 2019 er rúmar 75 milljónir. Allar nánari upplýsingar veitir Ásdís Ósk. Ekki hika við að hafa samband í síma 863-0402 eða sendu línu á [email protected].

_______________________________________________________________

Ásdís Ósk Valsdóttir, eigandi Húsaskjóls, hefur útfært nýja gerð af fasteignamyndböndum sem er algjör nýjung á íslenskum markaði. Markmið þeirra er að bjóða viðskiptavinum sínum upp á framúrskarandi þjónustu og þess vegna vilja þau færa út kvíarnar og ná til nýrra og núverandi viðskiptavinum með stílhreinum og einföldum glæsileika sem heillar bæði augu og eyru. Ásdís Ósk fagnaði nýlega 15 ára starfsafmæli sínu í fasteignabransanum og má segja að hún viti hvað virkar. Fasteignaviðskipti eru sífellt að verða flóknari og þess vegna finnst starfsfólki Húsaskjóls mikilvægt að fylgjast með og innleiða nýjungar svo að viðskiptavinir þeirra séu þeir ánægðustu á markaðnum.

Meðan allt er á fullu er enginn tími til að líta inn á við

Í upphafi árs opnuðu listakonurnar Tinna Sverrisdóttir og Lára Rúnarsdóttir fyrsta súkkulaðisetur landsins.

Tildrög þess var djúp heilunarvinna sem Tinna sótti í kjölfar mikillar streitu og langvarandi álags. Hún segir mikilvægt að byggja sjálfsvirðingu sína upp innan frá í stað þess að hengja á hana einkunnir.

„Við sem Íslendingar þjáumst líklega meira en flestar þjóðir af ýktu vinnusiðferði og dugnaði. Við lifum hratt, borðum hratt, vinnum hratt, tölum hratt og svona mætti lengi telja. Sjálf tengi ég mjög vel við það og hef alltaf verið talin mjög “dugleg”. Ég lagði mikið upp úr því að standa mig vel í skóla, var virk í félagslífi, vann margskonar störf og lifði oft á tíðum í sjötta gír án þess að stoppa.”

„Ég eins og margir aðrir ætlaði að massa þetta líf, tikka í öll boxin, vera til fyrirmyndar og fylgja uppskriftinni.”

„Þannig óð ég í gegnum grunnskóla, menntaskóla og loks háskóla þar til lífið greip í taumana. Tuttugu og fimm ára og nýútskrifuð sem leikkona úr Listaháskóla Íslands stóð ég í fyrsta skipti frammi fyrir lífinu án þess að vera með stundaskrá í hendinni og krassa.”

„Á stuttum tíma greindist ég með vefjagigt, fékk blæðandi magasár og lenti í árekstri.”

„Nokkuð skýr merki um að lífið væri að reyna að hægja á mér en ég var orðin svo samdauna streitunni og álaginu að ég fann ekki einkennin fyrr en ég var bókstaflega kýld niður og stoppaði loks. Við tók ár af endurhæfingu þar sem ég fékk það verðuga verkefni að gera minna, að gera hlutina 60% en ekki 183%. Ég áttaði mig á því á þessu ári hversu sterkt ég hafði alltaf tengt sjálfsvirðinguna mína við það sem ég “afrekaði”, vann við eða gerði í lífinu og því var stærsta verkefnið mitt að byggja upp sjálfsvirðinguna mína innan frá í stað þess að hengja hana á einkunnir, árangur eða álit annarra. Ég fór í mjög djúpa heilunarvinnu á þessum tíma þar sem ég gerði upp kynferðisofbeldi, tókst á við meðvirknina mína, leitaði til heilara, sálfræðinga, galdrakerlinga og fleiri snillinga sem hjálpuðu mér að stíga aftur inn í styrkinn minn. Og einmitt þaðan fæðist ANDAGIFT, frá þeirri uppgötvun hjá sjálfri mér að það má slaka á. Það má gera minna. Það má fylgja innsæinu sínu frekar en norminu eða óskrifuðu reglunum. Það má dreyma og það má njóta.”

Viðtalið í heild má lesa í nýjustu Vikunni.

Texti / Íris Hauksdóttir.
Mynd / Aldís Pálsdóttir.

„Þarna var bara tvennt í stöðunni, að drepast eða halda áfram“

Brynja Hlíf Hjaltadóttir er engin venjuleg ung kona. Á síðasta ári lauk hún framhaldsskólanámi með glæsibrag, útskrifaðist á dögunum sem förðunarfræðingur og stefnir á að hefja nám í lögfræði í haust. Brynja er að eigin sögn adrenalínfíkill sem lifir fyrir að leika sér á fjórhjóli og snjósleða. Fyrir fjórum árum breyttist líf hennar varanlega þegar hún lenti í alvarlegu slysi með þeim afleiðingum að hún lamaðist. Sú hindrun stoppar Brynju þó ekki í því að lifa lífinu og framkvæma allt sem henni dettur í hug.

Brynja Hlíf er fædd árið 1998 og verður því tvítug í október. Hún hefur í nógu að snúast þessa dagana, en ásamt því að vinna í félagsmiðstöð byrjaði hún nýlega í naglaskóla. Í síðasta mánuði lauk hún námi í förðunarfræði við Reykjavík Makeup School, þar sem hún hlaut hæstu einkunn fyrir „smokey eye“.

Það vakti þjóðarathygli árið 2014 þegar Brynja, þá 16 ára gömul, slasaðist alvarlega í mótókrossslysi í Noregi. Hún var þá í námi við lýðháskóla í Setesdal sem sérhæfir sig í sportinu. Brynja hafði verið úti í þrjá mánuði þegar dagurinn örlagaríki rann upp. Sjálf man hún ekki eftir slysinu né dögunum á eftir, og í raun veit enginn fyllilega hvað það var sem gerðist. „Þennan dag var ég bara að hjóla eins og alla aðra daga. Ég var ein í braut og eitthvað klikkaði. Ég datt en man ekkert eftir því. Foreldrar mínir og kærastinn minn komu út og vöktu yfir mér en mér var haldið sofandi í viku eftir slysið. Það vissi í raun enginn hvernig ástandið yrði en þegar ég vaknaði fann ég ekkert fyrir fótunum. Það var auðvitað mikið áfall og erfitt að meðtaka, en frá fyrsta degi var ég harðákveðin í að tækla þetta verkefni. Þarna var bara tvennt í stöðunni, að drepast eða halda áfram,“ segir Brynja.

Það er alls ekki það að mér finnist óþægilegt að vera í sviðsljósinu, enda hef ég alltaf verið mjög athyglissjúk

Eftir að fréttir af slysinu bárust var mikið fjallað um það í íslenskum fjölmiðlum. Brynja var á þeim tíma að átta sig á breyttum aðstæðum, var á sterkum lyfjum og í raun út úr heiminum. Hún segist helst hafa viljað að ekkert væri birt um þetta. „Ég hafði ekkert um það að segja hversu nákvæmar upplýsingar um slysið og mína líðan væru birtar í öllum fjölmiðlum. Það er alls ekki það að mér finnist óþægilegt að vera í sviðsljósinu, enda hef ég alltaf verið mjög athyglissjúk. Ég vil hinsvegar ekki bara vera þekkt fyrir það að vera stelpan sem lenti í slysinu. Síðustu ár hef ég oft verið beðin um að koma í allskonar viðtöl en ég hef ekki haft áhuga á því, það er að segja til að tala bara um slysið. Núna, hins vegar, er mjög margt skemmtilegt og uppbyggilegt að gerast í lífi mínu og ég hef margt annað að tala en bara þetta blessaða slys. Ég vona að ég geti verið hvatning fyrir annað fólk.“

Lestu ítarlegt viðtal við Brynju Hlíf í nýjasta tölublaði Vikunnar.

Texti: Margrét Björk Jónsdóttir

Myndir: Hallur Karlsson

Förðun: Perla Kristín Smáradóttir

Hár og förðun á Secret Solstice sem þolir flest veður

Secret Solstice er að festa sig í sessi sem hápunktur ársins fyrir tónlistarunnendur landsins, sem og gesti víðsvegar að. Við slíkt tilefni er gaman að fara nýjar og djarfari leiðir í hárgreiðslu og förðun. Við ákváðum því að leita til þeirra bestu í bransanum sem gætu komið með hugmyndir að rétta útlitinu.

Við vorum svo heppnar að fá hársnillingana frá Hárstofunni Sprey, þær Katrínu Sif (Kötu) og Eddu Heiðrúnu til liðs við okkur. Þær voru ekki í vandræðum með að töfra fram nokkrar einfaldar og fallegar greiðslur sem henta fullkomlega í Laugardalinn um helgina.

Hár eftir Eddu

Módel: Jónína

Skref 1

Skiptið hárinu í miðju. Gerið skáskiptingu frá auga að miðju og festið með lítilli þunnri teygju.

Skref 2

Takið annan lokk, bætið við hári sitthvoru megin frá (eins og gert er með fastri fléttu), túperið örlítið og festið með teygju.

Skref 3

Tosið í miðjuna sitthvoru megin við teygjurnar þannig að myndist bunga.Gerið þetta alla leið niður.

Skref 4

Hægt er að skreyta og fela teygjurnar með vír eða flottu bandi til að lífga aðeins upp á greiðsluna.

Hár eftir Kötu

Módel: Inga Rún

Vertu eins og drottning og gerðu kórónu úr hárinu. Tveir lokkar frá eyra eru bundnir saman í hnút. Því næst eru lokkar dregnir saman sitt hvoru megin eins og í fastri fléttu, bundnir saman í hnút og haldið áfram að hinu eyranu. Svo má endilega tosa „kórónuna“ aðeins til og gera hana stærri.

Skref 1

Þrír lokkar eru fléttaðir, mega vera fleiri eða færri. Á milli þeirra er hárið slétt. Festið flétturnar með teygju sem er svo losuð í skrefi 2.

Skref 2

Sameinið allt hárið í tagl. Þegar allt er fast og fínt, klippið þá teygjurnar sem héldu fléttunum saman.

Skref 3

Tveir lokkar eru teknir sitt hvoru megin í taglinu og þeim vafið utan um taglið nokkra hringi, svo bundnir í hnút. Gerið það sama við aðra lokka og endurtakið nokkrum sinnum. Þegar þú ert orðin ánægð festirðu síðustu lokkana með spennu.

Skref 4

Hárlakki úðað yfir til að halda öllu á sínum stað.

Förðun sem endist dag og nótt

Þær Berglind Stella og Silja Dröfn frá Urban Decay á Íslandi sáu um förðunina á módelunum. Urban Decay leggur mikið upp úr því að bjóða upp á vörur sem endast 100% allan daginn og nóttina.

Ein þekktasta varan frá merkinu er ALL NIGHTER setting-spreyið sem lætur förðunina endast þar til hún er þrifin af. Það er alltaf gaman að leika sér með liti og glimmer yfir sumartímann en við vitum þó öll að sumarið á Íslandi getur verið mjög blautt. Með það í huga var notast við Razor sharp blauta eyelinera, 24/7-augnblýanta og Heavy Metals-glimmer. Þessar vörur eiga það sameiginlegt að vera algjörlega vatnsheldar.

Þú getur því verið í rigningu og roki, miklum hita og sól og allt þar á milli og förðunin helst fullkomlega á.

Eftirtaldar vörur voru notaðar við förðunina:

Myndir / Aldís Pálsdóttir
Hár / Edda Heiðrún Úlfarsdóttir og Katrín Sif Jónsdóttir
Förðun / Berglind Stella Benediktsdóttir og Silja Dröfn Jónsdóttir
Módel / Inga Rún og Jónína frá Eskimo models

Baltasar reffilegur á rauða dreglinum í London

|||
|||

Leikstjórinn Baltasar Kormákur lét sig ekki vanta á sýningu á nýjustu mynd sinni, Adrift á Soho-hótelinu í London í gær, sunnudag.

Aðalleikarar myndarinnar, Sam Claflin og Shailene Woodley, voru að sjálfsögðu einnig mætt á rauða dregilinn og tók þríeykið sig vel út saman.

Sam, Shailene og Baltasar.

Sjá einnig: Kveikti á myndavélunum þegar allir byrjuðu að æla.

Shailene Woodley klæddist rauðri blússu við svartar buxur.

Adrift var frumsýnd vestan hafs í byrjun mánaðarins og samkvæmt Wikipedia hefur hún halað inn um 31 milljón dollara í miðasölutekjur, en framleiðslukostnaður við myndina var 35 milljónir dollara. Þá hefur myndin fengið fína dóma víða um heim.

Sam Claflin klæddist gráum jakkafötum.

Myndin er lauslega byggð á sannri sögu pars sem sigldi frá Tahítí til San Diego árið 1983. Þau sigldu hins vegar rakleiðis til móts við fellibylinn Raymond en misstu ekki lífsviljann.

Tímaritið People kallar Rúrik augnakonfekt

||||||||||
||||||||||

Tímaritið People birtir lista yfir þá 39 leikmenn á heimsmeistaramóti karla í knattspyrnu sem blaðamönnum finnst skara fram úr þegar kemur að kynþokka.

Það kemur líklega ekki á óvart að Rúrik okkar Gíslason er á listanum, en hann hefur vakið gríðarlega athygli á heimsmeistaramótinu. Eins og hefur verið sagt frá var Rúrik með um fjörutíu þúsund fylgjendur á Instagram fyrir mótið en er nú kominn yfir milljón fylgjendur. Rúrik er eini Íslendingurinn á lista People.

Sjá einnig: BBC segir Rúrik blöndu af Brad Pitt, Channing Tatum og Chris Hemsworth.

Á honum eru einnig kunnugleg andlit eins og portúgalski knattspyrnukappinn Cristiano Ronaldo. Það vekur hins vegar athygli að þýski markvörðurinn Manuel Neuer er einnig á listanum, en boltaspekingurinn Hjörvar Hafliðason kvartaði mikið yfir fjarveru hans á kynþokkalistum á Twitter. Virðist Hjörvar hafa verið bænheyrðu af People.

Sjá einnig: Rúrik og Ragnar meðal kynþokkafyllstu leikmanna á HM.

Hér fyrir neðan má sjá nokkra af þeim 39 knattspyrnumönnum sem People kallar augnakonfekt, en listann í heild sinni má sjá með því að smella hér.

Diafra Sakho – Senegal

Dusan Tadic – Serbía

Jose Carvallo – Perú

Manuel Neuer – Þýskaland

Mathew Leckie – Ástralía

Morteza Pouraliganji – Íran

Roman Burki – Sviss

Sam Morsy – Egyptaland

Sergio Aguero – Argentína

Kim Shin-Wook – Suður-Kórea

Aðalmynd / Skjáskot úr auglýsingu Coca Cola á Íslandi

Myndir: Svona var stemningin á Secret Solstice

||||||||||||
||||||||||||

Tónlistarhátíðin Secret Solstice var haldin með pompi og prakt í Laugardalnum um helgina, fimmta árið í röð. Fjöldinn allur af heimsþekktum listamönnum tróð upp, svo sem Slayer, Gucci Mane, Stormzy og Bonnie Tyler.

Mikil mannmergð var í Laugardalnum út af hátíðinni. Þó veðrið hafi ekki beint leikið við hátíðargesti var mikil stemning í dalnum, eins og meðfylgjandi myndir frá tónleikahöldurum sýna.

Myndir / Secret Solstice

„Mikilvægt að okkar raddir heyrist“

Ensk-íslenska verkið (Can This Be) Home verðlaunað á leiklistarhátíð í Tékklandi.

Ensk-íslenska verkið (Can This Be) Home hlaut í vikunni brautryðjendaverðlaunin á Fringe-leiklistarhátíðinni í Prag og í kjölfar þess hefur aðstandendum sýningarinnar verið boðið að setja verkið upp í hinu virta leikhúsi Chats Palace í London. Í samtali við Mannlíf segist leikstjórinn, Kolbrún Björt Sigfúsdóttir, vera í skýjunum með boðið og viðurkenninguna enda standi efnisviður verksins henni nærri. „Það er alveg frábært að fá þessa viðurkenningu því við erum búin að vinna að verkinu í tvö ár og erum að fjalla um málefni sem skiptir okkur miklu máli,“ segir hún og vísar þar í umfjöllunarefnið sem snýst um upplifun innflytjenda í Bretlandi af kosningunum um Brexit. Hvernig þeir, þar á meðal hún sjálf, hafi liðið með að vera sagt óbeint að þeir ættu ekki lengur heima í Bretlandi í ljósi niðurstöðunnar.

Kolbrún segir að þetta sé reyndar ekki fyrsta útgáfa verksins heldur hafi það þróast í takt við umræðuna um Brexit-málið og því nokkrar útgáfur litið dagsins ljós. Fyrsta útgáfan hafi orðið til áður en kosningin um Brexit fór fram. Í annarri útgáfu hafi verið reynt að gera upp niðurstöðu kosninganna fyrir innflytjendur og þá sem kusu að halda Bretlandi innan Evrópusambandsins. Þriðja hafi verið lesin á degi skyndikosninganna sem Theresa May boðaði til í von um að auka stuðning sinn og Brexit á þingi, sem hafi ekki gengið upp. „Nú eru svo komin tvö ár síðan það var kosið og Brexit er enn í mótun. Þess vegna fannst okkur mikilvægt að okkar raddir heyrðust, nú sem aldrei fyrr, áður en langvarandi ákvarðanir sem móta framtíð okkar eru teknar. Ætlunin með verkinu er að tala til fólks. Fá það til að hugsa um það sem er í gangi.“

„Það er alveg frábært að fá þessa viðurkenningu því við erum búin að vinna að verkinu í tvö ár og erum að fjalla um málefni sem skiptir okkur miklu máli.“

Hún viðurkennir að vegna hins pólitíska umfjöllunarefnis hafi aðstandendur (Can This Be) Home alls ekki búist við að verkið ynni til verðlauna á hátíðinni í Prag. Auk þess sé verkið langt frá því að vera hefðbundin leiksýning. Eiginlega sé varla hægt að tala um leiksýningu þar sem verkið samanstandi af tveimur hlutum, tónleikum flautuleikarans Tom Oakes, innblásnum af ferðlögum hans um heiminn og ljóðaupplestri þar sem Kolbrún flytur eigin texta, byggðan á fyrrnefndri reynslu innflytjenda af Brexit. Sigurinn hafi því komið henni og öðrum aðstandendum sýningarinnar skemmtilega á óvart.

En er ekki gaman fyrir ungan leikstjóra og leikritaskáld að fá svona rífandi start? „Jú það er voða ljúft. Það er grínast með það að „overnight success“ í Hollywood taki fimm ár. Tvö er vel sloppið,“ segir hún og bætir við að þar sem þetta sé fyrsta handritið hennar sem hlýtur verðlaun þá sé þetta líka persónulegur sigur.

Spurð út í framhaldið segir hún uppsetninguna í London vera næst á dagskrá. „Við erum bara að vinna í því að finna hentugar dagsetningar,“ segir hún glaðlega, „en þetta verður alveg geggjað.“

 

Stólar Wegner alltaf heillað

Guðmundur Hallgrímsson er fasteignasali á REMAX Senter-fasteignasölunni. Hann býr í Vesturbænum í Reykjavík og er í sambúð með Völu Valþórsdóttur viðskiptaþróunarstjóra hjá Landsvirkjun, og á tvo stráka, Patrek Thor, fimmtán ára og Kormák Krumma, tíu ára.

Hvað heillar þig mest við starfið?
„Það sem er skemmtilegast er fjölbreytileikinn og samskipti við fólk, einnig er mjög gaman að óska fólki til hamingju þegar það hefur fest kaup á nýju heimili.“

Geturðu lýst hefðbundnum vinnudegi hjá þér?
„Dagurinn byrjar milli klukkan 8-9 á morgnana og endar oft milli kl. 18.00 og 19.00 en þó er maður oft að vinna lengur en þá í símanum og tölvupóstum.  Annars eru dagarnir mjög misjafnir, suma daga er maður að vinna allan daginn á skrifstofunni en aðra er maður mikið á ferðinni í verðmati á eignum og að sýna eignir.“

Hvað er það sem þér finnst gera heimili að heimili?
„Mér finnst gaman að hafa fallegt hjá mér og hef áhuga á myndlist og fallegum húsgögnum en það sem gerir heimilið að heimili er númer eitt fólkið sem býr þar og þeir sem koma í heimsókn, vinir, ættingjar og vinir barnanna. Það er til dæmis gott merki um að heimilið sé góður staður til að vera á þegar maður kemur úr vinnu og allt eldhúsið er fullt af diskum og brauðmylsnu eftir synina og vini þeirra.“

Geturðu líst þínum stíl?
„Hann er frekar skandinavískur en með kannski smáslettu af breskum húmor, mér finnst gaman að poppa upp skandinavíska mínimalstílinn með litum og stemningu.“

„Það er til dæmis gott merki um að heimilið sé góður staður til að vera á þegar maður kemur úr vinnu og allt eldhúsið er fullt af diskum og brauðmylsnu eftir synina og vini þeirra.“

Áttu þinn uppáhaldsarkitekt?
„Það eru mjög margir frábærir arkitektar bæði innlendir og erlendir og mér finnst erfitt að benda á einn, en meðal annars er Manfreð Vilhjálmsson í miklu uppáhaldi hjá mér. Við á REMAX erum einmitt með Blikanes 21 til sölu núna sem er eitt af húsunum sem hann teiknaði.“

Áttu þinn uppáhaldshönnuð?  
„Það er svipað og með arkitektana og gæti listinn verið endalaus. Stólarnir hans Hans Wegner hafa alltaf heillað mig og svo er HAF, íslenska hönnunarteymið, að gera frábæra hluti og auðvitað Ólafur Elíasson sem er allt í senn listamaður, hönnuður og arkitekt.“

Hvað hefur þig alltaf dreymt um að eignast en ekki eignast hingað til?
„Ég hef í mörg ár haft augastað á koníaksbrúnum sófa frá ítalska merkinu Flexform, hann skilar sér vonandi einn daginn í stofuna.“

Uppáhaldsliturinn þinn? „Það sveiflast svolítið milli árstíða, ljósari litir á sumrin og dekkri á veturna. Brúnt, grænt og navy-blátt er alltaf klassískt og svo er ég mjög hrifinn af hvítum skyrtum í fataskápinn.“

Hvar líður þér best? 

„Það er heima með fólkinu mínu og svo með vinum. Hef gaman af því að vera í náttúrunni á skíðum og fjallahjóli.“

Nú er sumarið komið og margir huga að garðinum, er eitthvað sem þig langar að eignast í garðinn? 
„Það eina sem vantar í hann er meiri sól.“

Svalasti veitingastaðurinn á Íslandi í dag? „Það er endalaust verið að opna skemmtilega nýja staði, Bastard er til dæmis frábær viðbót í flóruna en mínir uppáhalds eru alltaf Snaps og Jómfrúin en ég elska danskt smurbrauð.“

Er einhver byggingarstíll sem heillar þig meira en annar?
„Nei, í raun ekki en ég er bæði mjög hrifinn að gömlum húsum með fallegum gluggum og loftlistum, það er að segja þessi hús frá árunum 1900-1930 og svo stílnum frá 1960-1970 þar sem formin eru einfaldari og gluggarnir stærri.“

 

„Magnað að leikur sem maður bjó til sé spilaður 2000 sinnum á dag“

|
|

Nýr íslenskur tölvuleikur á meðal áhugaverðustu „indí“-leikja á Norðurlöndunum.

Íslenski tölvuleikurinn Out of the Loop, eða Úti á túni, sem kom út á dögunum hefur verið valinn til þátttöku á leikjaráðstefnunni Nordic Game Conference sem fer fram í Malmö í Svíþjóð á næsta ári. Leikurinn verður á sýningu helgaðri áhugaverðustu „indí“-leikjunum á Norðurlöndunum.

„Það er Yonderplay sem stendur fyrir valinu, en Yonderplay er nýja nafnið á Nordic Indie Sensation sem velur mest spennandi leikina sem eru gefnir sjálfstætt út á Norðurlöndum,“ útskýrir Sigursteinn Gunnarsson, annar hönnuða leiksins. „Það er ótrúlegur heiður að verða fyrir valinu.“

Sigursteinn lýsir Out of the Loop sem stafrænum spurningaborðspilaleik í nokkrum umferð-um fyrir síma, sem 3-9 geta spilað í einu og fá allir nema einn leikmanna eitt leyniorð í hverri umferð. „Leikmennirnir eiga síðan að svara spurningum sem tengjast hverju leyniorði og reyna þannig að finna út hvern vantar leyniorðin, þ.e. hver er úti á túni, á meðan sá reynir að veiða leyniorðin upp úr þeim svo þeir fatti það ekki,“ útskýrir hann og bætir við að Out of the Loop sé í ætt við tölvuleikinn Spyfall sem sumir íslenskir „spilarar“ ættu að kannast við.

„Í rauninni jafnast þó ekkert á við að að sjá fólk hlæja og skemmta sér í leiknum sem maður bjó til.“

Out of the Loop hlaut á dögunum viðurkenningu frá Copenhagen Game Collective.

Out of the Loop hefur verið í þróun í níu mánuði og er annar leikurinn sem Sigursteinn og Torfi Ásgeirsson, félagi hans og meðeigandi leikjafyrirtækisins Tasty Rook, senda frá sér. Fyrri leikur þeirra félaga, spæjaraleikurinn Triple Agent, er að sögn Sigursteins í svipuðum stíl og Out of the Loop en hann komst líka inn á sömu sýningu í fyrra og hefur hlotið góðar viðtökur. „Triple Agent hefur verið sýndur á þónokkrum hátíðum erlendis og frægur YouTube- gagnrýnandi, Totalbiscuit, valdi hann sem einn af tíu bestu leikjum ársins í fyrra, en það er svolítið magnað að vita til þess að leikur sem maður bjó til sé spilaður 2000 sinnum á dag,“ segir hann og brosir.

Spurður hvaða þýðingu þátttaka á Nordic Game Conference komi til með að hafa fyrir Out of the Loop og fyrirtækið Tasty Rook, segir Sigursteinn að þeir Torfi séu þessa dagana á fullu að kynna leikinn og viðurkenningar af þessu tagi hjálpi klárlega til. „Auðvitað er alltaf ótrúlega gaman þegar það sem maður er að gera vekur áhuga og hrifningu en í rauninni jafnast þó ekkert á við að að sjá fólk hlæja og skemmta sér í leiknum sem maður bjó til,“ segir hann glaður.

Aðalmynd: Sigursteinn Gunnarsson og Torfi Ásgeirsson, meðeigendur leikjafyrirtækisins Tasty Rook.

Ævintýri á Jónsmessunótt

Þrátt fyrir viðvarandi sólskinsskort er sumarið víst komið og gott betur en það. Miðsumarshátíðir njóta mikilla vinsælda á Norðurlöndum en hér á landi eru ýmsar yfirnáttúrulegar verur tengdar sólstöðum. Á aðfaranótt Jónsmessu, þann 24. júní, er mælt með því að velta sér upp úr dögginni og jafnvel talið að dýr geti talað.

Hugmyndin um Jónsmessunótt er í augum margra sveipuð rómantískum bjarma sem eflaust á rætur sínar að rekja til skáldsögu Williams Shakespeare um Draum á Jónsmessu (e. A Midsummer Night´s Dream). Þar má sjá flóru fjölbreyttra persóna skipta um ham þessa dularfullu nótt og vægast sagt undarlega atburðarás eiga sér stað þar sem ólíklegustu fyrirbæri fella hugi saman.

Ástin er blind á augum, skyggn í hjarta, svo Amor sjónlaus þenur vænginn bjarta; á vizku og táli veit hann aldrei skil, og vængjuð blinda þýtur háskans til.

Bókmenntaunnendur, ólæknandi rómantíkusar og aðdáendur sögunnar þurfa þó ekki að bíða lengi því til stendur að setja verkið upp í Þjóðleikhúsinu á komandi leikári.

Hefðirnar ekki séríslenskar
Margir halda að mýtur tengdar Jónsmessunótt séu séríslenskar en svo er ekki. Hugmyndin um að dýr tali mannamál þessa nótt, eða að selir kasti ham sínum þekkist víða annars staðar. Ein algengasta kenning tengd þessari goðsagnakenndu nóttu er tengd lækningarmætti daggarinnar og hafa eflaust margir látið á hana reyna. Talið er að döggin á Jónsmessunótt sé svo heilnæm að hún geti læknað kláða ásamt öðrum húðmeinum en lækning á að felast í því að láta döggina þorna af sjálfri sér á nöktum líkamanum. Eins er sú trú að þessa nótt sé hægt að finna náttúrusteina með töframátt, svokallaða lausnarsteina til að hjálpa bæði konum og kúm. Sagan segir jafnframt að á Baulutindi sé tjörn og í henni sé að finna óskastein. Sá sem nær í steininn á að fá óskir sínar uppfylltar, en aðeins þessa einu nótt.
Hún er jafnframt langlíf sú trú að skil milli heima séu minni á Jónsmessunótt en aðrar nætur og því séu auknar líkur á að hitta fyrir hverskyns handanheimsverur. Púkar, nornir og draugar njóta því mikillar hylli ásamt öðrum yfirnáttúrulegum verum sem óhjákvæmilega tengjast nóttinni, en bæði nú og þá tíðkast víða að halda veislur, brennur og dansleiki á þessum degi.

Svíar skemmta sér fram undir morgun
Ísland hefur þó ekki tærnar þar sem Svíþjóð hefur hælana í þessum efnum því þrátt fyrir að þjóðhátíðardagur Svía sé aðeins tæpum tveimur vikum áður er miðsumarshátíðin (e. midsomer) þekktasta hefð landsins. Hátíðin er ekki bundin við aðfaranótt 24. júní eins og hér heima heldur er hún alltaf haldin um helgi og flakkar á milli daganna 19. til 25. júní. Börn eru þá komin í sumarfrí og flest fjölskyldufólk farið í sitt staðlaða fimm vikna sumarfrí.
Vinir og ættingjar safnast saman og fagna sumrinu en margir sækja í sveitasæluna enda er hvergi betra að koma saman en í grænni náttúrunni. Hátíðin fer að sjálfsögðu fram undir berum himni þar sem sumarkvöldin eru aldrei lengri eða fegurri en á þessum árstíma.

Ströng hefð ríkir um hátíðina og óhætt að segja hana sveipaða nostalgískum ljóma. Um hana ríkja ákveðnar reglur sem nær óhjákvæmilegt er að brjóta en matseðillinn er til að mynda ein þeirra órjúfanlegu hefða sem margir tengja við þennan tíma árs.

Miðsumarshátíðarmatseðillinn inniheldur nær undantekningalaust lax í ýmsum útfærslum ásamt soðnum kartöflum með fersku dilli og sýrðum rjóma. Eftirrétturinn er jafnframt ófrávíkjanlega fyrsta uppskera sumarsins af jarðarberjum, bornum fram með þeyttum rjóma. Með veisluhöldunum drekka hátíðargestir bjór en í hvert sinn sem glasið er fyllt á ný bresta veislugestir í tilheyrandi þjóðhátíðarsöngva. Eftir mat er slegið upp dansgólfi upp á gamla mátann þar sem ungir sem aldnir skemmta sér saman.
Blóm leika mikilvægt hlutverk í borðskreytingum en kvenkynsgestir bera jafnframt blómakransa á höfði.

Samkvæmt aldafornum hefðum tína ógiftar konur svo sjö mismunandi blómategundir með sér í krans á leiðinni heim og leggja undir koddann sinn. Um nóttina á þeim svo að birtast í draumi sá maður sem síðar verður þeirra eiginmaður.

Nóttin fyrir Jónsmessu er því töfrandi tími, einkum og sér í lagi í rómantískum skilningi því samkvæmt Svíum kemur sannleikurinn sífellt betur í ljós eftir því sem bjórglösum miðsumarshátíðarinnar fjölgar. Sannleikurinn getur svo ýmist leitt til hjónabands eða skilnaðar. Hvað sem því líður er þessi árstími einkar vinsæll fyrir brúðkaup og önnur hátíðarhöld.

 

Greinin birtist í 24. tbl Vikunnar.

Hvernig er hægt að gera leigumarkaðinn öruggari?

|||
|||

Leigumarkaðurinn á Íslandi er óstöðugur og hefur hækkað hratt á undanförnum árum. Hvaða ástæður liggja að baki því og hvernig getum við bætt hann að mati sérfræðinga?

Konráð S. Guðjónsson.

Stefna íslenskra stjórnvalda um að betra sé að eiga en að leigja íbúð virðist hafa leitt til óöryggis og sveiflna á leigumarkaði. Þrír hagfræðingar hafa lagt fram tillögur sínar til að sporna við þessum sveiflum, en allar eru þær eru ólíkar í eðli sínu. Gætu þessar breytingar raunverulega leitt til stærri og öruggari leigumarkaðar á Íslandi?

Lágtekjufólk greiddi á Íslandi að jafnaði helming ráðstöfunartekna sinna í leigu árið 2016, meira en á öllum hinum Norðurlöndunum samkvæmt nýlegri skýrslu Íbúðalánasjóðs. Hlutfall íbúa á leigumarkaði var einnig nokkuð lágt miðað við sömu löndin þrátt fyrir aukningu síðari ára, en árið 2016 var það einungis lægra í Noregi. Íslendingar virðast því leigja minna og búa við verri kost á leigumarkaði samanborið við aðrar Norðurlandaþjóðir.

Ólafur Margeirsson.

Þessi staða hefur ekki gerst að sjálfu sér, að mati Konráðs S. Guðjónssonar, hagfræðings Viðskiptaráðs. Samkvæmt honum hefur séreignarstefnan sem rekin hefur verið af stjórnvöldum skapað hvata til þess að eiga frekar en að leigja húsnæði. Líkt og Konráð segir Ólafur Margeirsson hagfræðingur þá hugsun að Íslendingar „eigi að eiga“ húsnæði hafa leitt til meiri skuldsetningar, hærra fasteignaverðs og óstöðugleika á húsnæðismarkaði. Í erindi sem hann hélt á fundi á vegum stéttarfélagsins Eflingar á mánudag sagði hann að ein lausn á þessu vandamáli gæti verið sú að auka aðkomu langtímafjárfesta að leigumarkaðnum á Íslandi, þá einna helst með leigufélögum sem lífeyrissjóðirnir gætu átt og rekið.

Una Jónsdóttir.

Una Jónsdóttir hagfræðingur hjá Íbúðalánasjóði tekur undir áhyggjur Konráðs og Ólafs um afleiðingar séreignarstefnunnar. Una veltir því upp hvaða leiguverð gæti talist sanngjarnt og eðlilegt. Þar sem húsnæði sé nauðsynjavara og öruggt aðgengi að þeim séu skilgreind sem mannréttindi samkvæmt Sameinuðu þjóðunum væru ríkisafskipti óumflýjanleg.

Ítarleg fréttaskýring um leigumarkaðinn á Íslandi er að finna í nýjasta tölublaði Mannlífs. Nánar má lesa um málið á vef Kjarnans.

Texti / Jónas Atla Gunnarsson

19 ára New York-búi gerir heimildarmynd um íslenska sauðfjárbændur

||
||

„Það sem veitir mér innblástur eru mál sem snerta venjulegt fólk, hvort sem það býr í stríðshrjáðum löndum, er heimilislaust í New York eða þarf að bregðast við breyttu landslagi í sauðfjárbúskap á Íslandi,“ segir neminn, ljósmyndarinn og kvikmyndagerðarmaðurinn Erik Kantar. Erik er nítján ára gamall og vinnur nú að heimildarmynd um íslenska sauðfjárbændur. Hann féll fyrir landi og þjóð í fyrra og ákvað í kjölfarið að kafa ofan í heim fjárbænda.

Fór á puttanum um Ísland

Erik við störf í íslenskri náttúru.

„Mig hafði alltaf dreymt um að fara til Íslands þannig að í fyrra lét ég hvatvísi ráða för og pantaði sextán daga ferð og kom til landsins án þess að vera með hótel bókað. Ég var svo spenntur að koma á staðinn. Ég fór á puttanum um landið og varð ástfanginn af öllu við Ísland. Alveg síðan þá hefur hjarta mitt sagt mér að kom aftur. Ég þurfti að finna mér verkefni svo ég gæti gert eitthvað stærra en bara heimsækja landið,“ segir Erik og brosir.

„Ég valdi að gera heimildarmynd um sauðfjárbændur því iðnaðurinn er að deyja á smærri býlum. Yfirvöld hafa gert þessum bændum erfitt fyrir að lifa af starfinu eins og þeir gerðu áður fyrr. Þessi iðnaður er að breytast hratt og myndin mun fjalla um það.“

Í anda Vice

Hann segir að myndin verði í anda heimildarþátta frá Vice Media.

„Markmið myndarinnar er mjög hnitmiðað. Myndin fjallar um hið geysistóra vandamál sem sauðfjárbændur standa frammi fyrir í dag, sem í raun neyðir þá til að hætta búskap, og hvernig ein fjölskylda er að kljást við þetta vandamál. Í stuttu máli er markmið myndarinnar að sýna þessar breytingar í bússkapnum í gegnum líf einnar fjölskyldu.“

Erik er nýsnúinn aftur til Bandaríkjanna eftir að hafa eytt tíma hér á landi við tökur. Hann fékk gistingu hjá bændunum á Hólum í Búðardal, sem reka einnig lítinn húsdýragarð sem er opinn á sumrin og líkaði dvölin vel.

„Fjölskyldan hafði frábæra sögu að segja fyrir myndina,“ segir Erik dulur og vill ekki gefa of mikið upp um það. Erik snýr svo aftur til Íslands í réttir í haust til að taka upp meira efni og klárar myndina í kjölfarið. Hægt verður að horfa á myndina á heimasíðu hans, erikkantarphoto.com en hægt er að fylgjast með framgang myndarinnar á Instagram síðu hans undir nafninu @erikkantar.

En hvað tekur svo við hjá Erik?

„Ég get ekki sagt til um það strax. En Ísland er alltaf í hjarta mínu þegar ég leita að sögu.“

Byggðastofnun skoðaði dreifingu sauðfjár á Íslandi árið 2016 miðað við ásetning það ár. Þá kom fram að …

… fjöldi sauðfjárbúa hér á landi væri 2481 talsins
… búunum hafði fækkað um sautján bú frá árinu áður
… langflest búin töldu 199 eða færri kindur, eða 63,5%
… stærstu búin sem héldu 600 kindur eða fleiri væru aðeins 125 talsins

Meeee!

Hef ekki þörf fyrir já-fólk

|||||
|||||

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur aldrei haft mikla þörf fyrir það að hafa bara já-fólk í kringum sig. Henni finnst oft gott að heyra í fólki sem er ósammála sér og kippir sér lítið upp við gagnrýni en myndi hins vegar aldrei þora að birta eigin skáldskap af ótta við að vera grilluð.

„Ég hef sennilega enst svona lengi í stjórnmálum vegna þess að ég hef húmor fyrir fólki og sjálfri mér. Það er alveg nauðsynlegt,“ segir Katrín, spurð út í þátttöku hennar í stjórnmálum.

Katrín er eðli málsins samkvæmt umsetin kona og ekki margar lausar stundir í hjá henni í deginum. Hún gefur sér þó tíma til að spjalla við mig og þar sem viðtalið fer fram í vikunni þegar Trump Bandaríkjaforseti setur alþjóðasamfélagið á hliðina með innflytjendastefnu sinni, jafn vel þótt hann hafi síðan vikið frá því að skilja að foreldra og börn innflytjenda, er eðlilegt að fyrsta spurningin snúi að því hvað henni finnist um framgöngu hans.

„Það að skilja börn frá foreldrum sínum er auðvitað ekki í takt við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna,“ segir hún. „Og þótt Bandaríkin séu ekki aðilar að honum stríðir þetta líka gegn þeim gildum sem við stöndum fyrir þegar kemur að því að tryggja velferð og réttindi barna. Þetta er auðvitað líka mjög umdeilt innan Bandaríkjanna, hefur sætt mikilli gagnrýni úr báðum flokkum og sérlega áhugavert að allar lifandi forsetafrúr Bandaríkjanna hafa gagnrýnt þetta.“

Þú munt sem forsætisráðherra Íslands ávarpa NATO-ráðstefnuna í Brussel í júlí, þar sem Trump og Erdogan verða meðal áheyrenda, hvernig leggst það í þig?

„Það er bara hluti af starfinu að eiga í alþjóðlegum samskiptum,“ svarar Katrín hin rólegasta. „Það er bara þannig.“

VG er eini flokkurinn sem hefur haft það á stefnuskrá að Ísland gengi úr NATO, þannig að það hlýtur að taka svolítið á þig persónulega að þurfa að taka þátt í ráðstefnu þess.

„Við höfum þá stefnu, það er rétt,“ segir Katrín. „Það breytir því ekki að allir aðrir flokkar á þinginu hafa samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland þar sem aðildin að NATO er einn af hornsteinunum og við fylgjum þeirri stefnu sem er lýðræðislega samþykkt, það er auðvitað bara hluti af því að vera í stjórnmálum og það höfum við gert áður þegar við vorum síðast í ríkisstjórnarsamstarfi og það liggur fyrir að sem ráðherra starfar maður samkvæmt þeirri stefnu sem Alþingi hefur tekið lýðræðislega ákvörðun um að fylgja.“

Ég var reyndar að fiska eftir persónulegri líðan Katrínar með það að þurfa að vera í samskiptum við þessa menn en hún er ekki á því að láta mig komast upp með það. Hún bætir þó við: „Ég mun auðvitað tala fyrir okkar utanríkisstefnu sem er sú að það beri alltaf að reyna að stefna að pólitískum og friðsamlegum lausnum á átökum. Það eigi alltaf að vera fyrsta val. Við höfum ákveðna sérstöðu sem herlaust land og tölum fyrir slíkum lausnum á alþjóðavettvangi og ég mun gera það á þessum fundi.“

„Fólk verður að fá að hafa sínar skoðanir og ég hef aldrei haft mikla þörf fyrir það að hafa bara já-fólk í kringum mig. Mér finnst oft gott að heyra í fólki sem er ósammála mér.“

Katrín segist hafa góðan stuðning allrar fjölskyldunnar en hún er yngst fjögurra systkina og segist hafa verið hálfgerð dekurrófa á heimilinu.

Hefur húmor fyrir fólki
Vinstri græn hafa setið undir gagnrýni síðan þau fóru í ríkisstjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk, er starf forsætisráðherra ekki ofboðslega slítandi?

„Það er nú ekki allt neikvætt, sem betur fer,“ svarar Katrín um hæl og ég heyri að hún brosir. „Það eru einhverjir ánægðir og aðrir ekki. Það er nú bara hluti af því að vera í stjórnmálum.“

Þetta svar vekur upp spurninguna um það hvað upphaflega hafi valdið því að Katrín fór að taka þátt í stjórnmálum.

„Ég er búin að vera á Alþingi síðan 2007 og mun lengur í pólitík og ástæðan fyrir því er að ég hef rosalegan áhuga á samfélagsmálum og fyrir því að vinna fyrir samfélagið. Þann áhuga hef ég haft frá því ég byrjaði að vera virk í félagslífi í framhaldsskóla. Ástæðan fyrir því að ég endist í pólitík er hins vegar að ég hef líka áhuga á fólki og mér finnst gaman að vinna með því, líka fólki sem er ósammála mér. Það finnst mér geta verið krefjandi og áhugavert. Ég hef sennilega enst svona lengi í stjórnmálum vegna þess að ég hef húmor fyrir fólki og sjálfri mér. Það er alveg nauðsynlegt.“

Þrátt fyrir langan stjórnmálaferil, meðal annars sem menntamálaráðherra, hlýtur starf forsætisráðherra að vera mun meira álag en Katrín hefur áður upplifað. Er þetta starf það erfiðasta sem hún hefur tekist á við?

„Já, ætli það sé það ekki,“ segir hún hugsi. „En það er auðvitað þannig að við öll sem vorum í stjórnmálum eftir hrun, óháð því hvort við vorum í stjórn eða stjórnarandstöðu held ég, lifðum tíma sem reyndust mörgum mjög erfiðir og það að vera menntamálaráðherra og vinna í málaflokkum sem maður hefur ástríðu fyrir, bæði menntamálum og menningarmálum, var auðvitað flókið á mestu niðurskurðartímum í lýðveldissögunni, þannig að ég segi ekki að maður hafi ekki mætt mótlæti eða álagi áður. En þetta er auðvitað stórt verkefni sem ég er í núna.“

„Ég verð í stjórnmálum á meðan ég hef ástríðu fyrir þeim. Svo hætti ég. Við verðum bara að bíða og sjá hvenær það verður.“

Sofnar um leið og hún sest niður
Hefurðu einhvern tíma til að eiga eitthvert líf fyrir utan starfið? Geturðu horft á fótbolta og gert eitthvað sem þér finnst skemmtilegt?

„Starfið er sem betur fer líka skemmtilegt. En það er ekki mikill tími sem gefst til að kúpla sig út en maður verður að gera það við og við, annars missir maður bara vitið,“ segir Katrín og hlær. „En það verður að viðurkennast að til þess gefst minni tími en oft áður.“

Ertu áhugamanneskja um fótbolta?

„Já, ef ég væri í öðru starfi eða hefði tök á því þá myndi ég horfa á alla leiki en akkúrat núna er ástandið þannig að maður lætur sér nægja að fylgjast með leikjum Íslands. Svo sér maður kannski slitrur úr öðrum leikjum á hlaupum. Það er auðvitað töluvert horft á þetta á mínu heimili þar sem ég á nú þrjá stráka þannig að ég missi ekki alveg af þessu.“

Geturðu einhvern tíma verið heima hjá þér á kvöldin?

„Jú, jú, auðvitað kemur maður stundum heim,“ svarar hún og andvarpar. „Gallinn er að maður sofnar yfirleitt strax og maður sest niður þannig að maður er kannski ekki góður félagsskapur.“

Katrín hefur áður talað um það í viðtölum að heimilishaldið hvíli mest á eiginmanni hennar, Gunnari Sigvaldasyni, og það hefur væntanlega ekki breyst við nýja starfið, eða hvað?

„Já, þetta hvílir ansi mikið á honum, það verður að viðurkennast,“ segir hún. „Það er held ég hluti af því sem gerist hjá mörgum stjórnmálamönnum að makar þeirra þurfa að taka mestu ábyrgðina á öllu þessu sem þarf að sinna hjá öllum fjölskyldum. Vinnutíminn er oft mjög óvenjulegur og ófyrirséður og það er kannski það sem ég ímynda mér að sé leiðinlegast við að vera giftur stjórnmálamanni. Að vita í sjálfu sér aldrei hvað gerist.“

„Við höfum ákveðna sérstöðu sem herlaust land og tölum fyrir slíkum lausnum á alþjóðavettvangi og ég mun gera það á þessum fundi.“

Alltaf erfitt að vera í ríkisstjórn
Eins og fram kom áður hefur þingflokkur VG setið undir gagnrýni fyrir að hafa gengið inn í þetta ríkisstjórnarsamstarf. Er ekkert erfitt að takast á við það?

„Það er bara erfitt að vera í ríkisstjórn, það var líka erfitt á árunum 2009-2013, það er bara hluti af lífinu. Maður gengur ekki inn í þetta verkefni með það að markmiði að verða eitthvað sérstaklega vinsæll. Okkur fannst hins vegar mjög mikilvægt að hafa áhrif á stjórn landsins. Það hefur verið að molna undan innviðum samfélagsins eftir kreppu og við verðum bara að horfast í augu við stöðuna eins og hún er. Það er mjög mikilvægt að við nýtum núna þá efnahagslegu hagsæld sem verið hefur til þess að byggja upp þessa innviði. Það eru líka stór verkefni sem mínum flokki fannst mikilvægt að hafa áhrif á, ég get nefnt umhverfismálin, náttúruvernd og loftslagsmál, kynjajafnréttismál og þessa innviðauppbyggingu sem mér finnst mikilvæg til þess að tryggja aukinn jöfnuð og aukna velsæld í samfélaginu. Þannig að, jú, jú, við erum gagnrýnd fyrir það að gera málamiðlanir og ná ekki öllum okkar málum fram en það er bara fylgifiskur þess að fara í ríkisstjórn. Það er ekki eins og við séum ókunnug þessum viðbrögðum frá fyrri tíð. Ef maður er alltaf að hugsa um að einhverjum muni finnast eitthvað athugavert við það sem maður gerir þá mun maður líklega aldrei gera neitt.“

Er þetta ekki bara svipað og að vera í hjónabandi? Snýst þetta ekki meira og minna um málamiðlanir og tilslakanir?

„Jú, jú, það er náttúrlega undirstaða lýðræðissamfélaga að ólík öfl geti gert málamiðlanir og það þekkjum auðvitað bæði úr okkar sögu og sögu annarra landa að undirstaðan er sú að við höfum öll okkar hugmyndir og okkar stefnu og svo þurfum við einhvern veginn að lenda einhverjum ásættanlegum niðurstöðum og það er auðvitað alltaf flókið.“

Katrín í myndatöku á tröppum Stjórnarráðsins.

Tekur ekki fram fallbyssuna
Oft hefur verið bent á Katrínu sem einn mesta diplómatann í íslenskum stjórnmálum, er hún sammála því mati? Á hún auðvelt með að miðla málum og aðlaga sig að ólíkum áherslum annarra?

„Ég held það sé alveg rétt að ég eigi það og það átti í sjálfu sér alveg eins við í stjórnarandstöðu,“ segir Katrín. „Ég viðurkenni það að ég er ekki manneskja stórra orða og ég tek ekki fram fallbyssuna í hvert sinn sem eitthvað gerist. Mér finnst það ekki spennandi stjórnmál sem snúast bara um það.“

Þegar Katrín tók við forsætisráðherraembætinu vakti það einna mesta athygli erlendra miðla að hún væri sérfræðingur í glæpasögum sem myndi væntanlega koma sér vel í þessu starfi. Er hún sammála þeirri skoðun? Er það góður grunnur fyrir forsætisráðherra að hafa stúderað glæpasögur?

„Það er góður grunnur fyrir alla stjórnmálamenn,“ segir hún og glottir. „Þetta er náttúrlega skrýtinn geiri og glæpasögur byggja á þeirri forsendu að engum sé treystandi, þannig að er það ekki ágætis grunnur?“

Þurfa stjórnmálamenn þá alltaf að vera á varðbergi gagnvart því að einhver styngi þá í bakið?

„Ja, maður hefur séð dæmi um það í stjórnmálum,“ svarar hún rólega. „Þótt ég þekki það ekki endilega persónulega af minni reynslu. En maður hefur séð það gerast hjá öðrum.“

Les skáldskap á hverjum degi
Glæpasögur eru varla eina áhugamálið, hvaða fleiri áhugamál hefur forsætisráðherrann?

„Ég hef engin áhugamál, ég er alltaf í vinnunni,“ svarar Katrín um hæl og skellir upp úr. „Nei, nei, ég hef rosalega gaman af því að vera úti á sumrin og njóta okkar náttúru og fallega lands. Sennilega er það stærsta áhugamál mitt að vera úti í íslenskri náttúru og síðan les ég nú fleira en glæpasögur. Ég les skáldskap á hverjum einasta degi. Þótt glæpasögur séu ágætar geta þær orðið leiðigjarnar til lengdar, maður er svolítið farinn að sjá það fyrir á blaðsíðu 200 hver morðinginn reynist vera á síðu 500 þegar maður hefur lesið svona mikið af þeim. Þannig að ég les alls konar skáldskap og þetta tvennt er efst á listanum, að vera úti og lesa.“

Það fylgir því auðvitað að vera í opinberu embætti að þurfa að gæta orða sinna en áttu ekki eitthvert athvarf, hjá vinum eða fjölskyldu, þar sem þú getur bara verið Katrín og sagt allt sem þér dettur í hug?

„Maður verður auðvitað að sinna þeim störfum sem maður tekur að sér og gerir það bara. Þau eru hluti af manni sjálfum líka. En það er nauðsynlegt að eiga góða vini og fjölskyldu þar sem maður getur talað í trúnaði og þarf ekki að vega og meta hvert orð. Og ég er mjög heppin með vini.“

„Ég ímynda mér að það sé miklu verra að vera tekinn af lífi sem rithöfundur. Maður er öllu vanur úr stjórnmálunum en það hlýtur að vera alveg hræðileg upplifun að láta grilla hugverkin sín.“

Alveg einlæglega, hvað hefur reynst þér erfiðast í starfi forsætisráðherra?

„Kannski það að maður er alltaf í embættinu, eins og við vorum að tala um. Það er auðvitað ákveðið álag. Þess vegna er ég að tala um nauðsyn þess að eiga góða vini sem maður getur verið opinskár við og sagt hluti sem eru ekki „réttir“. Sagt bara allt sem ekki má. Það er alveg ljóst að maður talar ekki bara fyrir sína hönd þegar maður er forsætisráðherra, maður talar fyrir hönd landsins.“

Eitt af því sem gerir það að verkum að Katrín hefur verið einn vinsælasti stjórnmálamaður á Íslandi er hvað hún er vel máli farin og fer vel með tungumálið, er það að hennar mati nauðsynlegur eiginleiki góðs stjórnmálamanns?

„Það skiptir máli fyrir okkur öll að nýta tungumálið sem við eigum, við gleymum því stundum hvað við eigum mikil verðmæti í þessu tungumáli. Ég er oft spurð erlendis hvaða tungumál við tölum á Íslandi og það kemur mörgum á óvart þegar ég segi að við tölum íslensku. Það er eins og mörgum, sérstaklega stærri þjóðum, finnist það algjörlega galið að 350.000 manna þjóð tali eigið tungumál. Ég held hins vegar að það skipti okkur sem þjóð ofboðslega miklu máli að eiga þessar rætur og geta verið í þessum tengslum við okkar fortíð í gegnum tungumálið. Það er sérstaklega mikilvægt núna, þegar við sjáum heiminn í kringum okkur breytast dag frá degi og tæknina verða stærri og stærri þátt í lífi okkar, að íslenskan verði gjaldgeng í tækniheiminum.“

Katrín í ríkisstjórnarherberginu.

Hefur ekki þörf fyrir já-fólk
Talið berst aftur að eiginmanninum og hvort Katrín og hann séu til dæmis alltaf sammála um pólitíkina?

„Nei, það erum við ekki,“ svarar hún. „Við rífumst alveg um pólitík. Ég veit ekki einu sinni hvað hann kýs, ég fer ekki með honum inn í kjörklefann. En hann hefur hins vegar sýnt mér mikinn stuðning með ráðum og dáð þótt hann sé ekkert alltaf sammála mér. Enda geri ég enga kröfu um það. Fólk verður að fá að hafa sínar skoðanir og ég hef aldrei haft mikla þörf fyrir það að hafa bara já-fólk í kringum mig. Mér finnst oft gott að heyra í fólki sem er ósammála mér.“

Katrín segist hafa góðan stuðning allrar fjölskyldunnar en hún er yngst fjögurra systkina og segist hafa verið hálfgerð dekurrófa á heimilinu.

„Ég var mikið uppáhaldsbarn, eins og oft er með yngstu börn,“ segir hún og hlær. „Ég er sex árum yngri en tvíburabræður mínir og fjórtán árum yngri en systir mín og þeim þótti uppeldi mínu mjög ábótavant. Þau gagnrýndu foreldra okkar mikið fyrir að hafa hætt öllu uppeldi þegar ég kom í heiminn. Það hef ég fengið að heyra frá því ég man eftir mér.“

Spurð hvað hún hafi ætlað sér að verða áður en stjórnmálin hertóku huga hennar vefst Katrínu tunga um tönn, nema hún segist aldrei hafa ætlað sér að verða stjórnmálamaður þegar hún yrði stór. „Ég hafði alls konar hugmyndir. Var minnt á það um daginn að ég hefði skrifað í einhverja bekkjarbók í grunnskóla að ég ætlaði að verða skurðlæknir. Ég hef líka mjög mikinn áhuga á því sem ég var að gera áður en ég varð stjórnmálamaður en þá vann ég bæði við bókaútgáfu og sem kennari og fannst hvort tveggja mjög gaman. Mér hafa reyndar fundist flest störf sem ég hef sinnt mjög skemmtileg.“

Birti tvær örsögur
Talandi um bókaútgáfu og færni í íslensku, skrifarðu sjálf skáldskap?

„Nei, því miður ekki,“ svarar Katrín og dæsir. „Ég er samt alltaf að ímynda mér að ég sé að fara að gera það bráðum. Ég skrifaði ljóð og einhvern hallærisskap þegar ég var unglingur en ég held það hafi beinlínis ekkert birst eftir mig af skáldskap nema tvær örsögur sem birtust í tímariti íslenskunema þegar ég var í Háskólanum. Ég lít svo á að skáld séu hugrakkasta fólk í heimi því þau rífa úr sér hjartað og leggja það á borð og eru svo jafnvel tekin af lífi og grilluð. Mér finnst það mjög ógnvekjandi starf.“

Ég bendi Katrínu á að stjórnmálamenn séu nú líka aldeilis grillaðir í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum en henni finnst það mun minna mál.

„Ég ímynda mér að það sé miklu verra að tekinn af lífi sem rithöfundur. Maður er öllu vanur úr stjórnmálunum en það hlýtur að vera alveg hræðileg upplifun að láta grilla hugverkin sín.“

Einhvers staðar las ég að þú værir ákveðin í að hætta í stjórnmálum þegar þessu kjörtímabili lyki, er eitthvað hæft í því?

„Ég tek bara einn dag í einu,“ svarar hún véfréttarlega. „Ég hef ekki tekið neina ákvörðun um það. Ég verð í stjórnmálum á meðan ég hef ástríðu fyrir þeim. Svo hætti ég. Við verðum bara að bíða og sjá hvenær það verður.“

Og ætlarðu þá að skrifa krassandi sjálfsævisögu og segja allt sem þú gast ekki sagt á meðan þú varst í opinberu embætti?

„Það verður svoleiðis,“ segir Katrín og skellihlær. „Og svo mun ég flytja eitthvað mjög langt í burtu!“

 

Myndir: Aldís Pálsdóttir

Einstakt að ganga í bjartri nóttunni

|||
|||

Jónsmessunæturferðir frá Fimmvörðuhálsi yfir að Básum hafa notið sívaxandi vinsælda en ferðin markar hápunkt í starfi Útivistar ár hvert.

Skúli Skúlason, framkvæmdarstjóri Útivistar.

„Það sem gerir þessa göngu einstaka er kannski fyrst og fremst sú stemning sem fylgir því að ganga í bjartri nóttinni.  Kyrrðin verður næstum áþreifanleg, jafnvel fuglarnir eru farnir að sofa,“ segir Skúli Skúlason, framkvæmdarstjóri Útivistar.

Gangan fer þannig fram að brottför er síðdegis á föstudegi frá BSÍ.  Ekið að Skógum og gengið yfir nóttina yfir Fimmvörðuháls með nokkrum stoppum á leiðinni, meðal annars við skála Útivistar efst á Fimmvörðuhálsi þar sem boðið verður upp á heita kjötsúpu.  Stuttan spöl norðan við Fimmvörðuskála eru tvö yngstu fjöll landsins, þeir bræður Magni og Móði. Gengið er upp á Magna og horft yfir splunkunýtt apalhraunið sem enn rýkur úr. Það er einstök tilfinning að standa á eldfjallinu og finna hve jörðin er volg undir iljunum.

Áfram er haldið í norður og fljótlega blasir Fjallabak við í morgunbirtunni. Gengið er fram á Heiðarhornið en þaðan sést stórkostleg náttúra hvert sem litið er. Síðasti áfangi göngunnar er niður í Strákagil og þaðan heim í Bása þar sem notalegur svefnpokinn bíður þreyttra göngumanna.

Þegar kemur fram á morgun fer hópurinn að týnast í Bása og flestir þá væntanlega orðnir þægilega þreyttir þannig að það verður gott að leggja sig í nokkra klukkutíma. Allur farangur er fluttur yfir í Bása þannig að svefnpoki og tjald verður komið á staðinn þegar þangað er komið. Um kvöldið verður svo slegið upp grillveislu þar sem boðið verður upp á klassískt lambalæri.  Eftir matinn verður svo slegið upp varðeldi og að sjálfsögðu tekið lagið eins og í öllum góðum útilegum.

Skúli segir umgjörðina um þessa göngu vera umfangsmeiri en í venjulegum Fimmvörðuhálsferðum og kjötsúpan uppi á hálsinum sé bara einn þáttur í því.  „Loks er það svo sú stemning sem er í Básum þessa helgi, en fjöldi fólks gerir sér ferð þangað til að upplifa hana þó að það taki ekki þátt í göngunni sem slíkri.“

„Fyrir mörgum kemur sumarið ekki fyrir alvöru fyrr en með Jónsmessugöngunni á Fimmvörðuháls og gleðinni í Básum.“

Fatnaður og góðir skór skipta öllu máli
Að hans sögn er lögð áhersla að fara ekki of hratt yfir og alltaf sé gætt vel af því að hafa nægilega marga fararastjóra með í för svo þörfum allra sé sinnt, hvort sem þeir fari hægt yfir eða hratt.  „Það er snúnara að hætta við á miðri leið. Við gerum þó ráðstafanir til að geta brugðist við ef einhverjir gefast upp eða meiðast og geta ekki haldið áfram göngu. Ég tel þessa ferð henta öllum sem á annað borð geta stundað göngur.  Það er þó rétt að hafa í huga að leiðin er 24 km sem er nokkuð drjúg dagleið og auk þess verið að ganga að næturlagi.“

Þegar kemur að útbúnaði fyrir slíka ferð segir hann mikilvægt að huga að góðum gönguskóm og hlífðarfatnaði. „Mikilvægt er að hafa meðferðis allt sem göngumaðurinn þarfnast og forðast að taka með sér óþarfa hluti sem hægt er að vera án. Of þungar byrðar gera ferðina erfiðari og draga úr ánægju göngumannsins af henni. Fyrir utan líkamlegt atgervi gegna skóbúnaður og fatnaður lykilhlutverki. Veðrið í bænum við brottför segir ekki allt um hvernig veðrið er uppi á Fimmvörðuhálsi. Það má alveg ganga að því vísu að þar sé talsvert kaldara, ekki síst um miðja nótt.  Hlý undirföt, millilag og svo er nauðsynlegt að vera með regnheldan jakka og buxur í bakpokanum, jafnvel þótt það sé sólskin við brottför.  Svo þarf líka að vera með orkuríkt nesti og vatnsflösku. Líkaminn þarf orku í gönguna og þó svo við bjóðum upp á hressingu á leiðinni er það ekki nóg.“

Gengið er yfir nóttina yfir Fimmvörðuháls með nokkrum stoppum á leiðinni, meðal annars við skála Útivistar efst á Fimmvörðuhálsi þar sem boðið verður upp á heita kjötsúpu.

Að því sögðu segir Skúli að mikil tilhlökkun sé vegna göngunnar því ferðin marki alltaf ákveðin hápunkt í starfi Útivistar. „Við leggjum allt í að gera þessa helgi skemmtilega og fyrir mörgum kemur sumarið ekki fyrir alvöru fyrr en með Jónsmessugöngunni á Fimmvörðuháls og gleðinni í Básum. Á sunnudeginum er svo lagt af stað heim með rútum um hádegisbilið en fararstjórar Útivistar sjá um alla leiðsögn á heimleiðinni. Þar eru fjölmörg náttúruundur sem vert er að skoða á leiðinni með kærkomnum kaffistoppum.“

Áríðandi er að hafa meðferðis allt sem göngumaðurinn þarfnast.
Góður skóbúnaður og hlífðarfatnaður er m.a. mikilvægur.
Hlý undirföt, millilag, regnheldur jakki og buxur í bakpokanum.
Orkuríkt nesti og vatnsflaska.
Ekki of þungar byrðar.
Gott líkamlegt atgervi.

Myndir / úr einkasafni

Ísland mætir Ofurörnunum í dag

||
||

Landslið Íslands mætir Nígeríu í viðureign á HM Í Rússlandi í dag. Nígería á eitt allra sigursælasta lið Afríku og því full ástæða til að vanmeta það ekki.

Landslið Nígeríu í fótbolta er kallað Ofurernirnir.

Nígería er risastórt land. Þjóðarbrotin eru óteljandi og tungumálin sem töluð eru innan Nígeru skipta hundruðum. En eitt á öll þjóðin sameiginlegt og það er ástin á landsliðinu sínu. Saga þess er glæsileg en með sanni má segja að Nígería sé eitt allra sigursælasta lið Afríku. Við ætlum okkur auðvitað að binda enda á þessa sigurgöngu en víst er að við megum síst við að vanmeta þessa miklu knattspyrnuþjóð.

Takk, pabbi!
Það er allt í lagi að Nígeríumenn skori, svo lengi sem við skorum fleiri en þeir. En ef þeir skora syngja stuðningsmennirnir „Ósje Baba“, sem þýðir „Takk fyrir, faðir“ á yourobísku, sem er eitt af mest töluðu tungumálunum í Nígeríu. Við skulum bara vona að þeir hafi lítið að þakka fyrir í leiknum.

Vesturafrískur taktur
Stuðningsmenn Nígeríu þykja með þeim hressari en skrautlegir búningar, fagurgrænar hárkollur og  sólgleraugu í yfirstærð eru algeng sjón meðal þeirra.
Yfirleitt fylgir þeim hljómsveit sem spilar svokallaða Highlife-tónlist. Sú tónlistarstefna á rætur sínar að rekja til Gana og er blanda af klassískum vesturafrískum takti og vestrænni popptónlist.
Til að koma sér í stuð fyrir leikinn má finna fullt af Highlife-tónlist á YouTube, svona áður en við syngjum endurtekið Ég er kominn heim fullum hálsi.

Strákarnir okkar á móti Ofurörnunum
Áður en Nígería lýsti yfir sjálfstæði og tók sér sinn græna og hvíta fána spilaði landslið þeirra í rauðum búningum. Þeir voru þá kallaðir Rauðu djöflarnir. Í kjölfar sjálfstæðis urðu búningarnir grænir og síðan var viðurnefninu breytt í Grænu ernirnir. Í kjölfar mjög svo umdeilds ósigurs þeirra í úrslitum Afríkubikarsins árið 1988 var nafninu breytt í Ofurernina.
Kvennalandslið þeirra kallar sig Ofurfálkana og eru unglingalandslið beggja kynja kölluð ýmist Fljúgandi ernirnir eða Gylltu arnarungarnir.

Þrefaldir Afríkumeistarar
Þrisvar hafa Nígeríumenn hrósað sigri í Afríkukeppninni. Keppnin er haldin annað hvert ár og sigraði Nígería fyrst árið 1980 á heimavelli, svo árið 1994 í Túnis, og að lokum árið 2013 í Suður-Afríku.
Liðið komst hins vegar ekki á lokamótið tvö síðustu skipti, árið 2015 og 2017.

Dottnir úr stuði?
Nígería hefur einungis unnið einn leik af síðustu sjö og gert eitt jafntefli. Margir segja að gullöld þeirra sé liðin og ljóst er að í liðinu er enginn leikmaður sem kallast getur stórstjarna.
Það eru góðar fréttir fyrir okkur, en þrátt fyrir það er ljóst að leikurinn verður gríðarlega erfiður.

Erkifjendur og nágrannar
Nígeríumenn hafa marga hildina háð við landslið Kamerún og mikil samkeppni hefur myndast milli þessara granna. Hápunktinum var náð í úrslitaleik Afríkukeppninnar árið 2000 en dómarinn dæmdi svo í vítaspyrnukeppni að loknum venjulegum leiktíma og framlengingu að vítaspyrna Viktors Ikpeba hefði ekki farið yfir línuna og því töpuðu þeir leiknum.

En erkifjendur Nígeríu á knattspyrnuvellinum eru samt sem áður Ganabúar sem einmitt gerðu jafntefli 2-2 við íslenska landsliðið í loka undirbúningsleik okkar fyrir HM.

2010 komst nígeríska landsliðið ekki upp úr riðlinum á HM. Forseti landsins, Goodluck Jonathan, fyrirskipaði að í refsingaskyni skyldi liðið sæta tveggja ára keppnisbanni.

Frumraunin á HM ‘94
Nígería komst í fyrsta sinn á lokamót HM árið 1994. Liðið var firnasterkt og mikill og góður liðsandi þótti einkenna spilamennsku þess. Þeir sigruðu riðilinn sinn og voru svo tveimur mínútum frá því að sigra Ítalíu í 16 liða úrslitum. Roberto Baggio nokkur marði drauma þeirra með marki á lokamínútunni svo Nígería sat eftir en Ítalía hélt áfram keppni þar til þeir töpuðu fyrir Brasilíu í frægri vítaspyrnukeppni í útslitaleiknum.
Þar réð spyrna téðs Roberto Baggio úrslitum í leiðinlegasta úrslitaleik síðari tíma en hann skaut himinhátt yfir af punktinum.

Pólitísk afskipti
Ofurernirnir komust aftur á HM 1998, 2002, 2010 og 2014. Þeir hafa lengst komist í 16 liða úrslit.
2010 komust þeir hins vegar ekki upp úr riðlinum og hlutu einungis eitt stig. Forseti landsins, Goodluck Jonathan, fyrirskipaði svo að í refsingaskyni skyldi liðið sæta tveggja ára keppnisbanni. Stórundarleg ákvörðun í alla staði og FIFA hótaði öllu illu enda lítt hrifið af pólitískum afskiptum.
Í kjölfarið fór af stað mikill farsi þar sem þingið aflétti banni forsetans, en FIFA fannst það ekki nóg og setti liðið í ótímabundið bann um haustið. Bannið entist í heila fjóra daga en var þá aflétt.

Sjúklingarnir á Kleppi gleymdust

||
||

Öryggis- og réttargeðdeildin á Kleppi getur ekki útskrifað sjúklinga vegna skorts á búsetuúrræðum og þar af leiðandi ekki tekið á móti nýjum sjúklingum. Samkvæmt starfsmanni á velferðarsviði Reykjavíkurborgar má ástæðuna meðal annars rekja til þess að sjúklingarnir hafi orðið útundan.

Berglind Magnúsdóttir, skrifstofustjóri öldrunar- og húsnæðismála á velferðarsviði Reykjavíkurborgar.

Mannlíf greindi frá því á dögunum að ófremdarástand hafi skapast á öryggis- og réttargeðdeildinni á Kleppi. Skortur á félagslegu húsnæði í Reykjavík og í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu veldur því að ekki hefur verið hægt að útskrifa fólk sem hefur lokið meðferð á deildunum. Á öryggisgeðdeildinni geta verið átta sjúklingar og voru þar sjö. Af þeim er hægt að útskrifa fjóra. Búsetuúrræði í félagslega kerfinu er hins vegar ekki til staðar fyrir þá. Á réttargeðdeildinni eru svo fjórir og eru þrír þar útskriftarhæfir. Tveir á réttargeðdeildinni hafa beðið eftir búsetuúrræði síðan um áramótin síðustu.

Elsa Bára Traustadóttir, sálfræðingur á öryggis- og réttargeðdeildinni á Kleppi, sagði í samtali við Mannlíf þetta valda klemmu, ekki sé hægt að taka á móti nýjum sjúklingum þegar útskriftarhæft fólk er þar fyrir.

„Við höfum fullan skilning á vanda sjúklinga á Kleppi. Það dregur líka úr batahorfum þeirra að þurfa að gista þar þótt hægt sé að útskrifa þá,“ segir Berglind Magnúsdóttir, skrifstofustjóri öldrunar- og húsnæðismála á velferðarsviði Reykjavíkurborgar og bendir á það séu margir þröskuldar sem þurfi að yfirstíga og því vinni velferðarsvið Reykjavíkurborgar og geðsvið Landspítalans saman að því að finna húsnæði fyrir sjúklinga svo þeir komist af spítalanum.

„Við höfum fullan skilning á vanda sjúklinga á Kleppi. Það dregur líka úr batahorfum þeirra að þurfa að gista þar þótt hægt sé að útskrifa þá.“

Skortur á félagslegu húsnæði í Reykjavík og í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu veldur því að ekki hefur verið hægt að útskrifa fólk sem hefur lokið meðferð á Öryggis- og réttargeðdeildinni á Kleppi.

Berglind segir Reykjavíkurborg og reyndar fleiri enn vera að vinna sig út úr því þegar málefni fatlaðra voru færð frá ríki til sveitarfélaga árið 2011. Í þeirri yfirfærslu hafi gleymst að gera ráð fyrir þeim sem voru á spítala. „Þetta er vandamál sem hefur verið unnið markvisst með. Með átaki tókst að eyða biðlistanum fyrir tveimur árum. Hann hefur hins vegar birst jafnharðan aftur.“

Að hennar sögn hefur margt tafið fyrir því að úrræðum fjölgi sem mæti þörfum sjúklinganna á Kleppi. Þar á meðal sé uppsveifla á fasteignamarkaði sem setji meiri pressu á allt. Til viðbótar sé samkeppni um stofnframlögum sveitarstjórnar og ríkis úr Íbúðalánasjóði til byggingar félagslegs húsnæðis og fleiri verkefna fyrir fatlaða. Hún bendir hins vegar á að fyrir um ári hafi verið samþykkt uppbyggingaráætlun fyrir geðfatlaða og fleiri sem heyri undir velferðarsvið Reykjavíkurborgar. Þar er í samræmi við spá gert ráð fyrir byggingu 200 íbúðakjarna til ársins 2030. Unnið er eftir því. Í samræmi við það voru tveir íbúðakjarnar opnaðir í apríl og maí og opnar sá þriðji í júlí.

„Við höfum skoðað ýmsar aðrar leiðir, svo sem að hafa íbúðir utan kjarna, íbúðir í venjulegum húsum fyrir geðfatlaða einstaklinga sem þurfa ekki næturþjónustu. En það sama á við um þær og íbúðakjarnana, íbúar í hverfum borgarinnar þurfa að vera hliðhollir því að íbúðakjarnar séu í götum þeirra. Kærur hafa farið á milli vegna þessa og það hefur bæði hamlað og hægt á framkvæmdum. En þegar hjólin fara að snúast þá gerist þetta vonandi allt hraðar,“ segir Berglind.

Fær væna summu fyrir sinn hlut

|
|

GAMMA selt til Kviku banka.

Gísli Hauksson. Mynd af vef gamma.is.

Ætla má að Gísli Hauksson, fyrrverandi forstjóri og einn af stofnendum fjármálafyrirtækisins GAMMA Capital Management, komi vel inn í sumarið. Eins og greint var frá í vikunni hafa hluthafar GAMMA undirritað viljayfirlýsingu um að selja Kviku banka allt hlutafé fyrirtækisins fyrir tæpa 3,8 milljarða króna.

Gísli stofnaði GAMMA ásamt Agnari Tómasi Möller fyrir tíu árum og er hann einn stærsti hluthafi fyrirtækisins með 31% eignarhlut. Miðað við það ætti Gísli að fá um 1,7 milljarða króna fyrir hlutinn. Ef af verður mun Kvika banki greiða fyrir GAMMA með reiðufé og hlutabréfum í bankanum.

BBC segir Rúrik blöndu af Brad Pitt, Channing Tatum og Chris Hemsworth

„Hvað færðu þegar þú blandar saman Chris Hemsworth og Brad Pitt, með dass af Channing Tatum? Hinn íslenska Rúrik Gíslason.“ Svona byrjar grein á vef BBC um nýjustu samfélagsmiðlastjörnu Íslands, knattspyrnukappann Rúrik Gíslason. Brad Pitt þarf vart að kynna en Chris Hemsworth er hvað þekktastur fyrir að leika þrumugoðið Þór og Channing Tatum þekkja margir úr kvikmyndunum Magic Mike.

Last day in Dubai. Time to go home and see my family!

A post shared by Rurik Gislason (@rurikgislason) on

Rúrik sprengdi næstum því Instagram eftir leikinn gegn Argentínu um síðustu helgi. Rúrik átti um fjörutíu þúsund fylgjendur á samfélagsmiðlum fyrir leik en nálgast nú óðum milljón fylgjendur og nær því eflaust áður en heimsmeistaramótinu lýkur.

Í kjölfar þessa gríðarlegu vinsælda hefur athugasemdum við myndir hans á Instagram fjölgað til muna og virðast margar þeirra koma frá argentínskum notendum miðilsins. Því virðist sem Rúrik hafi með útliti sínu náð að milda höggið fyrir argentínska landsliðið, allavega ef marka má athugasemdir við myndirnar hans.

Viktoría Alfreðsdóttir ❤️

A post shared by Rurik Gislason (@rurikgislason) on

„Hann gerir mig brjálaða,“ skrifar einn notandi við mynd Rúriks á meðan annar notandi er frekar frakkur: „Ég sendi þér númerið mitt í einkaskilaboðum. Kossar.“

Þá vill einn notandi samfélagsmiðilsins vita hvernig sjampó maðurinn notar, enda hefur vel hirt hár kappans vakið athygli. Margir sem sjá sig knúna til að skrifa athugasemdir við myndir Rúriks kalla hann einfaldlega sælgæti.

☀️☀️☀️?️ #holiday

A post shared by Rurik Gislason (@rurikgislason) on

Blaðamaður BBC fer yfir þessar vinsældir Rúriks í pistli sínum og kallar hann hjartaknúsara. Bendir hann réttilega á að Rúrik eigi nú flesta fylgjendur á Instagram í landsliðinu. Þetta Rúriks æði sem gripið hefur um sig á heimsmeistaramótinu minnir um margt á hve eftirsóttur liðsfélagi hans Birkir Bjarnason var á Evrópumótinu í knattspyrnu fyrir tveimur árum síðar. Þá gerði Birkir allt vitlaust á öðrum samfélagsmiðli, nefnilega Twitter, þar sem honum var líkt við NFL-stjörnuna Tom Brady til að mynda. Þá skrifaði Daily Mail heila grein um kappann og líkti honum við þrumugoðið Þór og ungan Brad Pitt, eins og BBC um Rúrik nú, og breski fatarisinn ASOS bauð Birki fyrirsætustörf.

Birkir á þó langt í land með að ná Rúrik í Instagram-vinsældum þar sem sá fyrrnefndi er aðeins með rúmlega hundrað þúsund fylgjendur.

Kveikti á myndavélunum þegar allir byrjuðu að æla

Leikstjórinn Baltasar Kormákur er í skemmtilegu viðtali við The Telegraph þar sem hann ræðir um gerð nýjustu myndar sinnar, Adrift, með þeim Shailene Woodley og Sam Claflin í aðalhlutverkum. Myndin er byggð á sannsögulegum atburðum og fjallar um par sem lendir í einum versta fellibyl allra tíma. Í byrjun fyrrnefnds viðtals byrjar Baltasar á því að rifja upp hugleiðingar sínar við gerð myndarinnar Everest sem kom út árið 2015, þar sem hann vaknaði eldsnemma á morgnana í -30°C frosti.

„Hvað í andskotanum er að mér?“ rifjar Baltasar upp. „Af hverju er ég hér þegar ég gæti verið heima með fallegu eiginkonu minni og börnum? Það var eitt andartak sem ég hugsaði: Hvað í andskotanum er ég búinn að koma mér í?“ bætir hann við.

Baltasar ákvað að endurgera efni Adrift í miðju Kyrrahafinu í staðinn fyrir að geta notið þæginda inni í myndveri.

„Hafið kallar fram raunverulegar tilfinningar,“ segir hann í viðtalinu og heldur áfram. „Ég elska hvernig það gerir leikara berskjaldaða. Við áttum að skjóta senu með úfnum sjó en það var sólskin og fallegt veður. Fólk tók sjálft og sagði: „Ég trúi því ekki að við fáum borgað fyrir þetta.“ Klippt í tvo tíma síðar og þau voru að kasta upp og tökuliðið var berandi fötur fullar af ælu í burtu. Þá vorum við tilbúin til að kveikja á myndavélunum. Þetta er eitthvað raunverulegt og mér finnst það áhugavert.“

Glæsileg og björt hæð í hjarta borgarinnar

Þessi glæsileg og bjarta eign er á efstu hæð, þeirri sjöundu, í Stakkholti 2b í hjarta borgarinnar. Það er einstakt útsýni til suðurs yfir borgina og til austurs að Keili. Einnig blasir við stórfenglegt útsýni á hæðinni yfir Snæfellsfjallagarðinn, Akrafjall og Skarðsheiði.

Einfaldur og stílhreinn stíll í forgrunni
Eignin er aðlaðandi fyrir augað, bæði stílhrein og björt, þar sem einfaldleikinn ræður ríkjum. Skipulag eigninnar er mjög gott og hugsað er fyrir öllum smáatriðum. Gólfefnin eru vönduð, fallegt eikarparket með breiðum plönkum sem kemur skemmtilega út. Eigninni fylgja tvö barnaherbergi og rúmgott hjónaherbergi sem nýtast vel. Eldhúsið og stofan tengjast saman í opnu og björtu rými sem býður upp á fjölmarga möguleika á nýtingu. Falleg innrétting og eyja prýða eldhúsið. Útgengt er á svalir í opna rýminu sem kemur mjög vel út. Eigninni fylgir stæði í bílakjalllara og sérgeymsla á sameign sem er með tvöfaldri lofthæð sem er mikill kostur.

Menningarlífið blómstrar allt í kring og hverfið iðar af lífi
Staðsetning eignarinnar er á miðsvæði borgarinnar þar sem stutt er í allar áttir. Stutt er í alla þjónustu og það má með sanni segja að þjónustan og menningarlífið blómstri allt í kring. Meðal annars má nefna að stutt er á Hlemm, þar sem Mathöll var nýlega opnuð og stutt er í miðbæinn þar sem má finna allt milli himins og jarðar. Bónus í Skipholti er í göngufæri sem er einkum hagkvæmt fyrir heimilið. Menningarlífið er skammt undan en Kjarvalsstaðir og Klambratúnið eru í göngufæri, þar er að finna bæði kaffihús og almenningsgarð sem iðar af mannlífi. Á Klambratúni er hægt að stunda ýmsar íþróttir og hreyfingu og má þar nefna körfubolta, fótbolta, frisbígolf. Einnig er þar leikvöllur fyrir yngstu kynslóðina sem er mikill kostur fyrir fjölskyldufólk. Stórir vinnustaður eru margir þarna í kring og má þar meðal annars nefna Landspítalann við Hringbraut.

Skólar fyrir öll skólastig í nágrenninu
Í göngufæri við Stakkholt eru fjölmargir skólar. Þar má nefna Háteigsskóla, Austurbæjarskóla og Ísaksskóla. Einnig er Tækniskólinn í göngufæri og stutt í Háskólann í Reykjavík og Háskóla Íslands. Jafnframt eru margir leikskólar í grenndinni, bæði í miðbænum sem og í Hlíðunum. Samgöngur eru góðar á þessu svæði og fínir hjólareiðastígar í allar áttir. Svæðið býður upp á fjölmargar leiðir til hreyfingar af ýmsu tagi og má þar nefnda Öskjuhlíðina og íþróttafélögin Valur og Mjölnir eru á svæðinu.

Húsaskjól/Garún fasteignasala er með þessa glæsilegu fjögurra herbergja hæð til sölu og heildarstærð eignarinnar er skráð 149,9 fermetrar. Verðið á eigninni er 79,9 milljónir en fasteignamatið árið 2019 er rúmar 75 milljónir. Allar nánari upplýsingar veitir Ásdís Ósk. Ekki hika við að hafa samband í síma 863-0402 eða sendu línu á [email protected].

_______________________________________________________________

Ásdís Ósk Valsdóttir, eigandi Húsaskjóls, hefur útfært nýja gerð af fasteignamyndböndum sem er algjör nýjung á íslenskum markaði. Markmið þeirra er að bjóða viðskiptavinum sínum upp á framúrskarandi þjónustu og þess vegna vilja þau færa út kvíarnar og ná til nýrra og núverandi viðskiptavinum með stílhreinum og einföldum glæsileika sem heillar bæði augu og eyru. Ásdís Ósk fagnaði nýlega 15 ára starfsafmæli sínu í fasteignabransanum og má segja að hún viti hvað virkar. Fasteignaviðskipti eru sífellt að verða flóknari og þess vegna finnst starfsfólki Húsaskjóls mikilvægt að fylgjast með og innleiða nýjungar svo að viðskiptavinir þeirra séu þeir ánægðustu á markaðnum.

Meðan allt er á fullu er enginn tími til að líta inn á við

Í upphafi árs opnuðu listakonurnar Tinna Sverrisdóttir og Lára Rúnarsdóttir fyrsta súkkulaðisetur landsins.

Tildrög þess var djúp heilunarvinna sem Tinna sótti í kjölfar mikillar streitu og langvarandi álags. Hún segir mikilvægt að byggja sjálfsvirðingu sína upp innan frá í stað þess að hengja á hana einkunnir.

„Við sem Íslendingar þjáumst líklega meira en flestar þjóðir af ýktu vinnusiðferði og dugnaði. Við lifum hratt, borðum hratt, vinnum hratt, tölum hratt og svona mætti lengi telja. Sjálf tengi ég mjög vel við það og hef alltaf verið talin mjög “dugleg”. Ég lagði mikið upp úr því að standa mig vel í skóla, var virk í félagslífi, vann margskonar störf og lifði oft á tíðum í sjötta gír án þess að stoppa.”

„Ég eins og margir aðrir ætlaði að massa þetta líf, tikka í öll boxin, vera til fyrirmyndar og fylgja uppskriftinni.”

„Þannig óð ég í gegnum grunnskóla, menntaskóla og loks háskóla þar til lífið greip í taumana. Tuttugu og fimm ára og nýútskrifuð sem leikkona úr Listaháskóla Íslands stóð ég í fyrsta skipti frammi fyrir lífinu án þess að vera með stundaskrá í hendinni og krassa.”

„Á stuttum tíma greindist ég með vefjagigt, fékk blæðandi magasár og lenti í árekstri.”

„Nokkuð skýr merki um að lífið væri að reyna að hægja á mér en ég var orðin svo samdauna streitunni og álaginu að ég fann ekki einkennin fyrr en ég var bókstaflega kýld niður og stoppaði loks. Við tók ár af endurhæfingu þar sem ég fékk það verðuga verkefni að gera minna, að gera hlutina 60% en ekki 183%. Ég áttaði mig á því á þessu ári hversu sterkt ég hafði alltaf tengt sjálfsvirðinguna mína við það sem ég “afrekaði”, vann við eða gerði í lífinu og því var stærsta verkefnið mitt að byggja upp sjálfsvirðinguna mína innan frá í stað þess að hengja hana á einkunnir, árangur eða álit annarra. Ég fór í mjög djúpa heilunarvinnu á þessum tíma þar sem ég gerði upp kynferðisofbeldi, tókst á við meðvirknina mína, leitaði til heilara, sálfræðinga, galdrakerlinga og fleiri snillinga sem hjálpuðu mér að stíga aftur inn í styrkinn minn. Og einmitt þaðan fæðist ANDAGIFT, frá þeirri uppgötvun hjá sjálfri mér að það má slaka á. Það má gera minna. Það má fylgja innsæinu sínu frekar en norminu eða óskrifuðu reglunum. Það má dreyma og það má njóta.”

Viðtalið í heild má lesa í nýjustu Vikunni.

Texti / Íris Hauksdóttir.
Mynd / Aldís Pálsdóttir.

„Þarna var bara tvennt í stöðunni, að drepast eða halda áfram“

Brynja Hlíf Hjaltadóttir er engin venjuleg ung kona. Á síðasta ári lauk hún framhaldsskólanámi með glæsibrag, útskrifaðist á dögunum sem förðunarfræðingur og stefnir á að hefja nám í lögfræði í haust. Brynja er að eigin sögn adrenalínfíkill sem lifir fyrir að leika sér á fjórhjóli og snjósleða. Fyrir fjórum árum breyttist líf hennar varanlega þegar hún lenti í alvarlegu slysi með þeim afleiðingum að hún lamaðist. Sú hindrun stoppar Brynju þó ekki í því að lifa lífinu og framkvæma allt sem henni dettur í hug.

Brynja Hlíf er fædd árið 1998 og verður því tvítug í október. Hún hefur í nógu að snúast þessa dagana, en ásamt því að vinna í félagsmiðstöð byrjaði hún nýlega í naglaskóla. Í síðasta mánuði lauk hún námi í förðunarfræði við Reykjavík Makeup School, þar sem hún hlaut hæstu einkunn fyrir „smokey eye“.

Það vakti þjóðarathygli árið 2014 þegar Brynja, þá 16 ára gömul, slasaðist alvarlega í mótókrossslysi í Noregi. Hún var þá í námi við lýðháskóla í Setesdal sem sérhæfir sig í sportinu. Brynja hafði verið úti í þrjá mánuði þegar dagurinn örlagaríki rann upp. Sjálf man hún ekki eftir slysinu né dögunum á eftir, og í raun veit enginn fyllilega hvað það var sem gerðist. „Þennan dag var ég bara að hjóla eins og alla aðra daga. Ég var ein í braut og eitthvað klikkaði. Ég datt en man ekkert eftir því. Foreldrar mínir og kærastinn minn komu út og vöktu yfir mér en mér var haldið sofandi í viku eftir slysið. Það vissi í raun enginn hvernig ástandið yrði en þegar ég vaknaði fann ég ekkert fyrir fótunum. Það var auðvitað mikið áfall og erfitt að meðtaka, en frá fyrsta degi var ég harðákveðin í að tækla þetta verkefni. Þarna var bara tvennt í stöðunni, að drepast eða halda áfram,“ segir Brynja.

Það er alls ekki það að mér finnist óþægilegt að vera í sviðsljósinu, enda hef ég alltaf verið mjög athyglissjúk

Eftir að fréttir af slysinu bárust var mikið fjallað um það í íslenskum fjölmiðlum. Brynja var á þeim tíma að átta sig á breyttum aðstæðum, var á sterkum lyfjum og í raun út úr heiminum. Hún segist helst hafa viljað að ekkert væri birt um þetta. „Ég hafði ekkert um það að segja hversu nákvæmar upplýsingar um slysið og mína líðan væru birtar í öllum fjölmiðlum. Það er alls ekki það að mér finnist óþægilegt að vera í sviðsljósinu, enda hef ég alltaf verið mjög athyglissjúk. Ég vil hinsvegar ekki bara vera þekkt fyrir það að vera stelpan sem lenti í slysinu. Síðustu ár hef ég oft verið beðin um að koma í allskonar viðtöl en ég hef ekki haft áhuga á því, það er að segja til að tala bara um slysið. Núna, hins vegar, er mjög margt skemmtilegt og uppbyggilegt að gerast í lífi mínu og ég hef margt annað að tala en bara þetta blessaða slys. Ég vona að ég geti verið hvatning fyrir annað fólk.“

Lestu ítarlegt viðtal við Brynju Hlíf í nýjasta tölublaði Vikunnar.

Texti: Margrét Björk Jónsdóttir

Myndir: Hallur Karlsson

Förðun: Perla Kristín Smáradóttir

Hár og förðun á Secret Solstice sem þolir flest veður

Secret Solstice er að festa sig í sessi sem hápunktur ársins fyrir tónlistarunnendur landsins, sem og gesti víðsvegar að. Við slíkt tilefni er gaman að fara nýjar og djarfari leiðir í hárgreiðslu og förðun. Við ákváðum því að leita til þeirra bestu í bransanum sem gætu komið með hugmyndir að rétta útlitinu.

Við vorum svo heppnar að fá hársnillingana frá Hárstofunni Sprey, þær Katrínu Sif (Kötu) og Eddu Heiðrúnu til liðs við okkur. Þær voru ekki í vandræðum með að töfra fram nokkrar einfaldar og fallegar greiðslur sem henta fullkomlega í Laugardalinn um helgina.

Hár eftir Eddu

Módel: Jónína

Skref 1

Skiptið hárinu í miðju. Gerið skáskiptingu frá auga að miðju og festið með lítilli þunnri teygju.

Skref 2

Takið annan lokk, bætið við hári sitthvoru megin frá (eins og gert er með fastri fléttu), túperið örlítið og festið með teygju.

Skref 3

Tosið í miðjuna sitthvoru megin við teygjurnar þannig að myndist bunga.Gerið þetta alla leið niður.

Skref 4

Hægt er að skreyta og fela teygjurnar með vír eða flottu bandi til að lífga aðeins upp á greiðsluna.

Hár eftir Kötu

Módel: Inga Rún

Vertu eins og drottning og gerðu kórónu úr hárinu. Tveir lokkar frá eyra eru bundnir saman í hnút. Því næst eru lokkar dregnir saman sitt hvoru megin eins og í fastri fléttu, bundnir saman í hnút og haldið áfram að hinu eyranu. Svo má endilega tosa „kórónuna“ aðeins til og gera hana stærri.

Skref 1

Þrír lokkar eru fléttaðir, mega vera fleiri eða færri. Á milli þeirra er hárið slétt. Festið flétturnar með teygju sem er svo losuð í skrefi 2.

Skref 2

Sameinið allt hárið í tagl. Þegar allt er fast og fínt, klippið þá teygjurnar sem héldu fléttunum saman.

Skref 3

Tveir lokkar eru teknir sitt hvoru megin í taglinu og þeim vafið utan um taglið nokkra hringi, svo bundnir í hnút. Gerið það sama við aðra lokka og endurtakið nokkrum sinnum. Þegar þú ert orðin ánægð festirðu síðustu lokkana með spennu.

Skref 4

Hárlakki úðað yfir til að halda öllu á sínum stað.

Förðun sem endist dag og nótt

Þær Berglind Stella og Silja Dröfn frá Urban Decay á Íslandi sáu um förðunina á módelunum. Urban Decay leggur mikið upp úr því að bjóða upp á vörur sem endast 100% allan daginn og nóttina.

Ein þekktasta varan frá merkinu er ALL NIGHTER setting-spreyið sem lætur förðunina endast þar til hún er þrifin af. Það er alltaf gaman að leika sér með liti og glimmer yfir sumartímann en við vitum þó öll að sumarið á Íslandi getur verið mjög blautt. Með það í huga var notast við Razor sharp blauta eyelinera, 24/7-augnblýanta og Heavy Metals-glimmer. Þessar vörur eiga það sameiginlegt að vera algjörlega vatnsheldar.

Þú getur því verið í rigningu og roki, miklum hita og sól og allt þar á milli og förðunin helst fullkomlega á.

Eftirtaldar vörur voru notaðar við förðunina:

Myndir / Aldís Pálsdóttir
Hár / Edda Heiðrún Úlfarsdóttir og Katrín Sif Jónsdóttir
Förðun / Berglind Stella Benediktsdóttir og Silja Dröfn Jónsdóttir
Módel / Inga Rún og Jónína frá Eskimo models

Raddir