Leigjendum á Íslandi hefur fjölgað mikið á undanförnum árum og er nú áætlað að þeir séu rúmlega 50 þúsund talsins í um 30 þúsund heimilum. Það þýðir að 16-18 prósent landsmanna sem eru 18 ára og eldri eru á leigumarkaði.
Frá því að reglulegar mælingar á leiguverði hófust árið 2011 hefur leiguverð hækkað um 95 prósent á sama tíma og t.d. húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um 104 prósent.
Fjölmennasti aldurshópurinn sem er á leigumarkaði er 25 til 34 ára og heimilistekjur meirihluta leigjenda eru á bilinu 250 til 800 þúsund krónur á mánuði.
Einungis átta prósent þeirra sem eru á leigumarkaði vilja vera þar samkvæmt könnun á viðhorfi leigjenda sem Zenter vann í fyrrahaust fyrir hagdeild Íbúðalánasjóðs. Þar kom einnig fram að þrátt fyrir að nærri allir leigjendur vilji búa í eigin húsnæði þá telji aðeins 40 prósent leigjenda öruggt eða líklegt að þeir kaupi sitt eigið húsnæði næst þegar skipt er um húsnæði.
Aðeins 57 prósent leigjenda telja sig búa við húsnæðisöryggi miðað við 94 prósent þeirra sem búa í eigin húsnæði. Framboð af íbúðarhúsnæði til leigu sem hentar einstaklingum eða fjölskyldum þykir auk þess lítið, en 79 prósent leigjenda voru sammála um það.
Um 16 prósent leigjenda leigja af leigufélögum sem eru einkarekin og hagnaðardrifin. Þar eru Heimavellir og Almenna leigufélagið stærstu leikendurnir.
Hákon Hákonarson, forstöðumaður Erfðarannsóknamiðstöðvar Barnaspítalans í Fíladelfíu, og teymi hans hafa í samstarfi við Landspítalann hafið rannsókn á arfgengum sjúkdómi hér á landi sem veldur blæðingum í heila. Talið er að hérlendis beri allt að 100 manns stökkbreytt gen sem veldur sjúkdómnum.
Hákon hefur beint sjónum sínum að því að skoða erfðamengi fólks með ákveðna sjúkdóma í því skyni að finna lyf við þeim, ekki til að meðhöndla afleiðingarnar heldur til að ráðast gegn orsökunum. Hann vinnur nú meðal annars að leit að meðferðarúrræðum við arfgengum sjúkdómi, sem stafar af stökkbreytingu í svokölluðu cystatín c-geni sem veldur endurteknum heilablæðingum og skemmdum í heilavef.
Hvað kom Hákoni á sporið? „Það atvikaðist þannig að læknar hér heima höfðu samband við mig vegna einstaklings í fjölskyldu minni sem hafði fengið heilablæðingu. Viðkomandi var með slímsöfnun í lungum og ég ráðlagði notkun ákveðins lyfs, N-acetýlcystein, sem hefur verið notað í um 40 ár og gefið góða raun. Við notkun lyfsins kom svolítið óvænt í ljós; það virtist líka hafa áhrif á þennan arfgenga sjúkdóm sjúklingsins, sem getur valdið súrefnisskorti eða ördrepi í heilavef og í verstu tilfellunum heilablæðingu, en þarna höfðum við ekki hugmynd um að lyfið hefði þau áhrif. Eftir níu mánaða meðferð vildi sjúklingurinn síðan halda áfram að taka lyfið, því hann fann að sér leið vel og átti meðal annars auðveldara með að kyngja.“
„Ætla menn að búa til ofurhuga eða yfirburðaíþróttafólk? Er aðferðin það örugg að hún útiloki að fólk þrói með sér annan sjúkdóm? Siðferðilegi þátturinn er stór.“
Greining var dauðadómur
Því má segja að tilviljun hafi ráðið því að lyf sem nýttist við sjúkdómnum fannst, en Hákon segir að engin önnur meðferðarúrræði hafi þá verið fyrir hendi. Stökkbreytingin í geninu sem veldur þessum sjúkdómi, hafi uppgötvast fyrir nokkrum áratugum og rannsóknir á henni farið fram á Keldum undir stjórn dr. Ástríðar Pálsdóttur sameindalíffræðings, í samstarfi við Íslenska erfðagreiningu og Elías Ólafsson, prófessor í taugalæknisfræði við Háskóla Íslands. Auk þess hafi fleiri læknar komið að rannsóknunum en þær miði að því að skilgreina hvað þessi stökkbreyting geri nákvæmlega. Eftir að hafa rambað á lyf sem nýttist í meðferð við sjúkdómnum, hefur Hákon sjálfur og hans teymi rannsakað stökkbreytta genið og leitað að lyfi sem geti fyrirbyggt sjúkdóminn sem það veldur. Fékk hann blóðsýni frá nokkrum íslenskum fjölskyldum sem eru með stökkbreytta genið og hóf að skoða hvernig það hegðar sér.
„Genið framleiðir prótín, svokallað cystatín c, sem sér um að draga úr virkni ákveðinna bólgumiðla í líkamanum. En í tilviki stökkbreytta afbrigðisins fléttast þetta prótín saman og fellur út í vefjum (nefnist þá mýlildi eða amyloid), til dæmis í slagæðaveggjum heilans, sem verða þá veikari fyrir og veldur það fyrrnefndum heilablæðingum og skemmdum í heilavef. Þegar við áttuðum okkur á þessu fórum við að leita leiða til að koma í veg fyrir að prótínið geti fallið út í vefjum líkamans,“ segir Hákon, en það tók hann og teymi hans um tvö ár að finna rétta lyfið.
Hákon segir að um 25 þekktir sjúklingar á Íslandi séu með stökkbreytta genið, en þeir tilheyra stórum fjölskyldum og því gætu, að hans sögn, verið í kringum 100 manns sem bera það hér á landi. Hann segir að þótt sjúkdómurinn hafi verið þekktur í um 35-40 ár hafi engin meðferðarúrræði fundist og að greinast með hann hafi verið dauðadómur. Það sé nú breytt með tilkomu fyrrnefnds lyfs, sem hann segir lofa góðu. Niðurstöður af notkun þess hafi reynst jákvæðar því uppsöfnun á afbrigðilega prótíninu í vefjum viðkomandi sjúklings minnkaði verulega.
Gæti gagnast fólki með Alzheimer
Aðspurður hvort lyfið geti nýst gegn öðrum sjúkdómum, segir Hákon að mögulega gæti það nýst Alzheimer-sjúklingum líka. „Allt að helmingur sjúklinga með þennan fyrrnefnda arfgenga heilablæðingasjúkdóm fær ekki sýnilega heilablæðingu, heldur hægfara minnisskerðingu sem kemur fram við 30 eða 40 aldur. Sem líkist Alzheimer-sjúkdómi. Ég er sannfærður um að sjúkdómsmyndin í þessum tveimur sjúkdómum sé hliðstæð, sjúkdómsferlið er bara hraðvirkara hjá sjúklingum með arfgenga heilaæðasjúkdóminn vegna stökkbreytta gensins. Lyf sem kemur í veg fyrir að þetta efni (mýlildi eða amyloid) safnist upp í vefjum heilans gæti því mögulega gagnast Alzheimer-sjúklingum. Þetta er nokkuð sem við komum til með að rannskaka í framtíðinni,“ segir hann.
„Maður þarf að hugsa út fyrir boxið“
Hákon hefur almennt í starfi sínu unnið að því að uppgötva erfðaþætti sem orsaka sjúkdóma og finna síðan lyf sem vinna á erfðaþáttunum. „Ég hef verið að vinna að ýmsum verkefnum og gert uppgötvanir sem ég hef getað kannað nánar á rannsóknarstofunni til að skilja áhrif erfðaþátta á myndun sjúkdóma og til að finna fyrirbyggjandi meðferðarúrræði. Þannig beini ég sjónum mínum að orsökum sjúkdóma, ekki bara afleiðingum eins og oft er gert í dag.“
Hann telur erfðaupplýsingar sérstaklega mikilvægar í börnum og segir að því yngra sem barn er þegar sjúkdómur kemur fram því sterkari séu áhrif gena. „Ef barn fær astma eru erfðaþættir sterkari en ef einstaklingur fær sjúkdóminn 25 ára því þá er líklegt að alls konar umhverfisþættir hafi haft áhrif. Rannsóknarteymi mitt hefur aðallega leitast við að nýta erfðaupplýsingar til að finna nýtileg lyf, sem þegar eru til og hafa áður verið reynd til að meðhöndla aðra sjúkdóma, því þá komumst við hjá um 10 árum í þróunarferli. Við erum með fimm svona verkefni í gangi í dag.“
Athyglisbrestur (ADHD) er eitt þessara verkefna, en Hákon hefur unnið að prófun lyfs við honum. Önnur verkefni eru einhverfa, astmi og þarmabólga. „Síðan erum við að fást við sjúkdóm í sogæðakerfi líkamans sem stafar af stökkbreytingu í geni sem veldur því að sogæðar vaxa stjórnlaust og leka vökva, en bráðlega munum við birta grein í virtu vísindariti sem fjallar um þetta. Við fundum nýja meðferð sem hafði aldrei verið lýst áður,“ segir hann og lýsir henni: „Tólf ára drengur sem hafði endurtekið farið í brennsluaðgerðir, lak vökva út um allan líkamann. Lungun fylltust vökva, einnig gollurshúsið sem umlykur hjartað, hann var háður súrefnisgjöf og beið bara eftir því að deyja. Við fundum genið sem orsakaði sjúkdóminn, settum það inn í tilraunadýr, svokallaðan sebrafisk, og reyndum að hemja það með lyfi sem hafði verið þróað sem krabbameinslyf. Meinsemdirnar hurfu algjörlega í fiskinum. Meðferðin hefur reynst árangursrík og drengurinn er farinn að hlaupa um allt. Maður þarf að hugsa út fyrir boxið og spyrja spurninga: Hvernig getum við notað erfðaupplýsingar til að skapa ný meðferðarúrræði.“
Vekur upp siðferðilegar spurningar
Það vekur óneitanlega upp spurningar um siðferðilega þáttinn í erfðavísindum þegar hægt er að fara inn í gen og breyta hegðun þeirra og hafa þannig áhrif á líf og heilsu fólks, oftast til góðs en það er líka hægt í öðrum tilgangi en að lækna ef menn hafa löngun til slíks.
Hákon segir að erfðafræðileg þekking verði sífellt meiri. Þannig hafi frumum úr sjúklingi verið breytt eða þær „editeraðar“ í Pensylvania-háskólanum í Bandaríkjunum með því að setja inn gen sem þekkja ákveðna þætti í krabbameinsfrumum og leiddi það til þess að þær frumur réðust á krabbameinsfrumurnar og drápu þær. Þetta sé hægt, tæknin sé til staðar. Það veki eðlilega upp siðferðilegar spurningar.
„Ætla menn að búa til ofurhuga eða yfirburðaíþróttafólk? Er aðferðin það örugg að hún útiloki að fólk þrói með sér annan sjúkdóm? Siðferðilegi þátturinn er stór. Þá er aðferðafræðin enn ekki það örugg að hægt sé að útiloka óæskilegar afleiðingar. Ég myndi ætla að um 20 ár séu í þetta komist á lygnan sjó,“ segir hann.
„Hvenær geturðu byrjað?“
En hvernig kom það eiginlega til að íslenskum lækni bauðst að stýra stórri og öflugri erfðavísindastofnun á sviði barnalækninga við Háskólaspítalann í Fíladelfíu?
„Ég starfaði hjá Íslenskri erfðagreiningu þegar mikil framþróun í rannsóknum á fjölgenasjúkdómum átti sér stað,“ svarar Hákon. „Ég hafði stundað sérfræðinám á Barnaspítalanum í Fíladelfíu og fékk í kjölfarið stóran styrk frá Bandarísku heilbrigðisstofnuninni, þannig að ég var þar með annan fótinn. Ég hélt fyrirlestur um það sem var að gerast á Íslandi, meðal annars um nýja örflögutækni, og sagði að nú væri tækifæri fyrir þá á Barnaspítalanum að verða leiðandi í erfðafræðivísindum á sviði barnalækninga. Mönnum þótti mjög merkilegt það sem við vorum að gera á Íslandi, það voru engir aðrir í heiminum sem gátu gert sambærilega hluti. Á Barnaspítalanum í Fíladelfíu var áhugi á að setja upp slíkt rannsóknarsetur og ég var beðinn um að leiða það starf. Ég setti ákveðnar kröfur sem ég taldi að þeir myndu ekki ganga að, enda var ég í góðri stöðu hjá Íslenskri erfðagreiningu. En eftir fjórar vikur fékk ég símhringingu og mér tjáð að allt hefði verið samþykkt og ég hreinlega spurður: „Hvenær geturðu byrjað?“ Þetta kom mér í opna skjöldu og þarna var eiginlega ekki aftur snúið. Þeir höfðu áhuga á að gera Barnaspítalann í Fíladelfíu leiðandi á heimsmælikvarða á sviði erfðasjúkdóma barna og spurðu hvort ég væri tilbúinn til að leiða það verkefni.“
Staða Íslands sterk í erfðavísindum
Spurður út í stöðu Íslands í heimi erfðavísinda í dag segir Hákon að hún sé sterk, enda hafi Íslensk erfðagreining verið brautryðjandi á þessu sviði á heimsvísu og leiðandi í um 20 ár.
Hann segir að nú séu stórar rannsóknarstofnanir á sviði erfðavísinda í Bandaríkjunum, Bretlandi og víðar að gera hliðstæða hluti og Íslensk erfðagreining. „Kári Stefánsson hefur verið í fararbroddi þannig að staðan á Íslandi er sterk á þessu sviði og hér eru margir mjög hæfileikaríkir vísindamenn. Ísland hefur sérstöðu og þekking okkar á ættfræði fólks hér skapar einstakt tækifæri fyrir erfðarannsóknir. Nema þegar um er að ræða mjög sjaldgæfa sjúkdóma þá erum við of fámenn. Ættfræðigrunnur okkar kemur að gagni við að skilgreina einstaklinga innan fjölskyldna sem gætu borið stökkbreytt gen eins og áðurnefnda cystatín c-genið,“ útskýrir hann.
„… að sjá barn, eins og fyrrnefndan dreng sem bíður eftir að deyja, ná bata er náttúrlega mjög gefandi.“
Á erfðavísindaþingi sem var haldið á Íslandi í vor var stefnt að víðtækri samvinnu til að skilgreina erfðavísa og safna stóru genamengi, 10-15 milljóna einstaklinga frá 30 þjóðum á einn stað. „Þá getum við skapað enn meiri þekkingu til að þróa og allra helst fyrirbyggja að sjúkdómurinn komi nokkurn tíma fram. Það viljum við gera í þessari íslensku arfgengu heilablæðingu, setja börnin á lyf, sem veldur engum aukaverkunum og kemur í veg fyrir að sjúkdómurinn komi nokkurn tíma fram,” segir Hákon.
Það er auðheyrilegt að Hákon hefur gaman af að segja frá og því er ekki úr vegi að spyrja í lokin hvort hann njóti starfsins? „Já, það er mjög gefandi. Til dæmis að sjá barn, eins og fyrrnefndan dreng sem bíður eftir að deyja, ná bata er náttúrlega mjög gefandi,“ segir hann og yfir andlitið færist bros.
Nara Walker sem var dæmd til fangelsisvistar fyrir að hafa bitið hluta af tungu þáverandi eiginmanns síns eftir langvarandi ofbeldi sem hún lýsir í nýjasta tölublaði Mannlífs ætlar ekki að játa sig sigraða fyrir óréttlætinu heldur fara með málið fyrir Mannréttindadómstól Evrópu.
„Fyrir mér er mikilvægt að fara með málið burt frá Íslandi þar sem málið snýst um ofbeldismanninn og það sem ég gerði til að losna undan honum. Næst verður þetta pólitískt og fer að snúast um kerfið og hvernig það tekur á heimilisofbeldi. Ég ætla mér að fara með þetta alla leið vegna þess að ég vil standa með sjálfri mér og standa fyrir réttindum kvenna sem þurfa að búa við ofbeldi á hverjum degi, jafnvel alla sína daga.“
Nara segir að það hafi haft mikla þýðingu fyrir hana þegar fólk kom og sýndi henni stuðning þegar hún var á leiðinni í fangelsi. „Þau voru þarna fyrir mig en líka fyrir alla sem búa við heimilisofbeldi. Þessi stuðningur gerði það ekki eins erfitt að ganga þarna inn og fyrst eftir að ég kom inn þá upplifði ég ákveðna kyrrð sem var skrítin tilfinning. En að vakna í fyrsta sinn í fangelsi var mjög erfitt enda er ég haldin áfallastreituröskun eftir allt sem á undan er gengið. En ég sé mig ekki sem glæpamann og ég trúi því að það sem ég gerði hafi verið að verja rétt minn til lífs. Ég valdi að lifa og fyrir það var mér refsað.
Í dag er ég enn að taka út minn dóm en ég ætla líka að halda áfram minni baráttu fyrir réttlæti fyrir mig og allar konur. Þegar ég hef unnið mína baráttu kemur næsta kona og berst fyrir því sama og þannig koll af kolli, því það er það sem við konur höfum verið að gera, þannig munum við að endingu sigra þetta óréttlæti.
Þetta hefur verið skelfileg lífsreynsla sem hefur breytt mér vegna þess að ég hef séð slíkt myrkur í heiminum en það sýnir mér fram á að það getur líka verið svo miklu meira ljós. Þegar manni er kastað svona inn í myrkrið og lifir það af er það vegna þess að maður sér ljósið. Sér vonina.“
Leik- og söngkonan Thelma Hrönn Sigurdórsdóttir leikur Báru hafmeyju í glænýju verki Leikhópsins Lottu sem sýnt verður um land allt í sumar. Sýningunni er ætlað að vekja fólk til umhugsunar um allt ruslið sem það hendir út í náttúruna.
„Verkið í ár heitir Litla hafmeyjan og við fléttum söguna saman við ævintýrið um Hlina kóngsson. Leikritið er samið með það í huga að vekja fólk til umhugsunar um ruslið sem það fleygir frá sér, hafmeyjurnar eru jú að drukkna í öllu þessu sorpi sem fleygt í sjóinn,“ segir Thelma sem fer með hlutverk Báru hafmeyju í verkinu. „Hún er mikill kvenskörungur, sterk, hvatvís og hugrökk stelpa.“ Þetta er í annað sinn sem Thelma tekur þátt í uppsetningu hópsins, byrjaði síðasta sumar í Lottu í leikritinu Gosa.
„Undirbúningurinn hefur gengið afar vel, leikritið er reyndar flóknara en sýningar sem Lotta hefur áður sýnt. Við erum yfirleitt öll á sviðinu á sama tíma, því þó að áhorfendur sjái bara tvær hafmeyjur að synda í hafinu á sviðinu, er restin af leikarahópnum skríðandi á hnjánum að reyna að láta þær líta vel út. Það getur verið ansi snúið að vera fastur í sporð á sviðinu og þurfum við mikla aðstoð. Það er mikið um lyftur og áhættuatriði í sýningunni og skiptir máli að hver aðili sé á réttum stað. Einu sinni datt ég á allan leikarahópinn úr hæstu lyftunni en sem betur fer var það á æfingu og við látum það ekki gerast aftur,“ segir hún brosandi.
Sjá um allt sjálf
Thelma er menntuð í sviðslistum og starfar aðallega sem söngkona. Áður en hún tók til starfa með leikhópnum Lottu lék hún í Þjóðleikhúsinu og hjá MAK, Menningarfélagi Akureyrar. „Munurinn á þessum leikhúsum og Lottu er auðvitað sá að við gerum allt sjálf, sex leikarar og leikstjóri, en í leikhúsinu eru tugir manns á bak við hverja sýningu og leikari er bara leikari, ekki markaðsfulltrúi, sviðsmaður, hljóðmaður, sviðshönnuður, starfsmaður í miðasölu, sætavísir, bílstjóri og svo framvegis. Sem betur fer erum við með búningahönnuð því ég gæti engan veginn saumað með mína tíu þumalputta,“ segir Thelma.
„Næstu mínúturnar fóru þá í að koma í veg fyrir að blóð færi á leikmynd og búninga.“
„Við sjáum um allt sjálf – setjum upp leikmyndina, undirbúum leikmuni, gjöllum til að láta fólk vita að við séum mætt á svæðið, seljum í sjoppunni og tökum á móti áhorfendum. Síðan kemur loksins að því að leika sjálfa sýninguna og eftir hana viljum við auðvitað tala við flesta og gefa fimmur eða taka myndir. Eftir það þarf svo að gera upp, taka niður leikmyndina og raða aftur í kerruna. Þetta er mikil vinna en við reynum að vera skipulögð og halda vel á spöðunum. Það er mikill kostur að fá að ferðast um landið og heimsækja falleg bæjarsvæði og kaupstaði. Auðvitað væri ég helst til í að taka fjölskylduna alltaf með, en stundum er svo brjálað að gera hjá okkur að það er bara ekki hægt, en það kemur fyrir að við getum boðið fjölskyldum okkar með okkur og þá er þetta alveg hreint dásamlegt.“
Veðrið hefur mikil áhrif
Henni finnst sýningarform Leikhópsins Lottu afar skemmtilegt enda sé engin sýning eins, undirlag ólíkt og veðráttan sjái til þess að þau þurfi að meta hverjar aðstæður fyrir sig.
„Nefnd innan hópsins sér til þess að hver sýning verði sem best. Hún ákveður nákvæma staðsetningu á grasinu og hvernig við snúum, undirlagið þarf jú að vera sem sléttast og sólin má ekki skína beint í augun á áhorfendum. Veðrið skiptir auðvitað svakalega miklu máli og er einn Lottumeðlimur skipaður veðurfræðingurinn og er í beinu sambandi við veðurguðina. Veðrið getur haft töluverð áhrif á sýninguna en á sólardögum fyllist dalurinn og áhorfendasvæðið og þá þarf að gera ráð fyrir fjöldanum og poppa nóg og mikið. Síðan á rigningardögum þurfum við að passa upp á rafmagnið og fleira sem við viljum ekki að blotni.“
Í öllum hamaganginum getur síðan eitt og annað komið upp á. „Á sýningu um daginn gaf Sævar, bróðir Báru hafmeyju, henni einn á hann þegar hann ætlaði að veifa höndinni aðeins. Næstu mínúturnar fóru þá í að koma í veg fyrir að blóð færi á leikmynd og búninga,“ segir hún hlæjandi.
Höfundur Litlu hafmeyjunnar er Anna Bergljót Thorarensen en þetta er níunda verkið sem hún skrifar fyrir hópinn. Hún semur einnig lagatexta ásamt Baldri Ragnarssyni og er leikstjóri sýningarinnar. Lögin eru eftir Björn Thorarensen, Rósu Ásgeirsdóttur og Þórð Gunnar Þorvaldsson, dansar eftir Berglindi Ýri Karlsdóttur og búningahönnun er í höndum Kristínu R. Berman. Leikarar ásamt Thelmu eru þau Andrea Ösp Karlsdóttir, Árni Beinteinn, Sigsteinn Sigurbergsson, Stefán Benedikt Vilhelmsson og Þórunn Lárusdóttir. Nánari upplýsingar eru á heimasíðunni leikhopurinnlotta.is.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar Erfðagreiningar, segir í viðtali á Kjarnanum að af viðbrögðum Klaustursþingmanna að dæma séu þeir virkir alkóhólistar. Hann leggur til að Alþingi bjóði þingmönnum upp á meðferð. Ummæli Kára, „Viðbrögð þeirra við gagnrýninni endurspeglar alkóhólisma,“ eru ein af sleggjum vikunnar sem Mannlíf tók saman.
„Það má ljúga, stela og klæmast í þinginu en það má ekki segja að þingmenn steli, ljúgi og klæmist. Það er kjarninn í nýjasta úrskurði siðanefndar þingsins og ákvörðun þingforseta um hvaða málum beri að vísa þangað og hvaða málum ekki.“ Þóra Kristín Ásgeirsdóttir.
„Ég átta mig ekki alveg á þessu. Er þetta svona óþægilegt að þegar við komum upp í pontu að forseti telur bara ástæðu til þess að stoppa okkur hérna í miðjum ræðum?“ Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, ósátt við að forseti Alþingis, Steingrímur J. Sigfússon stöðvi þingmenn Pírata í ræðum sínum.
„Þegar um er að ræða liðinn óundirbúnar fyrirspurnir og háttvirtir þingmenn hafa beðið um orðið til þess að spyrja tiltekinn ráðherra spurninga þá ber þeim að gera það. En ekki nota meirihlutann eða helminginn af sínum ræðutíma í árásir á aðra flokka.“ Steingrímur J. Sigfússon.
„Meirihlutinn í borginni hótar enn hærri sköttum vegna umferðartafa sem hann bjó sjálfur til.“ Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, gagnrýnir meirihlutann í borginni fyrir að íhuga að leggja veggjöld á bíla.
„Þó það sé gaman að fá sér stundum koníak er þetta eitthvað annað.“ Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, gagnrýnir slæma stöðu heilbrigðisþjónustu í dreifðari byggðum, í tilefni fréttar Mannlífs um erfiða stöðu í heilbrigðisþjónustu á Borgarfirði eystra þar sem sjúklingur var deyfður með koníaki.
„Búinn að átta mig á því að hjólreiðamenn sem vilja og geta hjólað í vinnuna er skæðasti sértrúarsöfnuður á Íslandi. Fjölmiðlafulltrúinn er @gislimarteinn og hann vinnur að því frítt í dag (var í borgarstjórnar í því starfi á sínum tíma). Note to self: ekki bögga hjólreiðafólk aftur.“ Sigmar Vilhjálmsson, athafnamaður sendir Gísla Marteini aftur tóninn á Twitter en þar hafa þeir eldað saman grátt silfur um nokkurt skeið.
„Í huganum hef ég matreidd kjötstykki með arseniki en því miður veit ég ekki hvar ég get fengið slíkt til að gæða hundkvikindunum á.“ Fjölmiðlamaðurinn Guðni Már Henningsson þolir ekki geltið í hundum nágrannans á Kanarí þar sem hann býr nú og hefur íhugað að eitra fyrir þeim.
Nokkur bakstursráð sem ættu að koma að góðum notum.
Það er gott að vita að deig flokkast í megindráttum í þrjá flokka.
Hrært deig þar sem byrjað er á því að hræra mjúkt smjör og sykur saman.
Þeytt deig en þá eru egg og sykur þeytt þar til það verður ljóst og létt.
Hnoðað deig þar sem hveiti og smjör er mulið saman og vökvi hnoðaður saman við það.
—
Þegar þið lagið þeytt deig, þ.e. deig þar sem byrjað er á því að þeyta egg og sykur vel saman, er gott að nota egg sem eru við stofuhita. Froðan verður miklu loftmeiri og kakan léttari. Ef þið eruð í tímahraki er ráð að leggja þau í heitt vatn úr krananum í skál í 5 mínútur.
—-
Góðir bakarar nota gjarnan fleiri en eitt ráð þegar kemur að því að athuga hvort kakan er bökuð eða ekki. – Hvernig kakan lítur út, hvernig hún lyktar og hvernig hún er viðkomu.
Ofnar eru til dæmis misjafnir. Byrjið á að athuga hvernig baksturinn á kökunni gengur 7-8 mínútum áður en baksturstímanum ætti að vera lokið. Kakan ætti að vera tilbúin þegar deig festist ekki á prjóni sem stungið er í miðjuna á kökunni. Annað gott ráð er að „hlusta“ á kökuna. Þegar kemur að lokum bökunartíma hættir hviss-hljóðið að heyrast í kökunni. Flestar kökur losna líka aðeins frá börmunum þegar þær eru tilbúnar.
—-
Stundum á maður ekki stærðina á forminu sem gefin er upp í uppskriftinni. Þá þarf að hafa í huga að ef stærðinni er breytt, breytist bökunartíminn á kökunni. Stærra form getur þýtt skemmri bökunartími og minna form lengri tíma.
—-
Passið vel að skálin sem á að þeyta eggjahvíturnar í sé alveg tandurhrein. Smáarða af fitu í skálinni getur orðið til þess að hvíturnar stífna ekki. Eggjahvítur verða að vera alveg aðskildar frá rauðunum, smávegis af rauðu getur eyðilagt allt. Best er að aðskilja egg sem eru köld úr ísskáp, þá er rauðan afmarkaðri frá hvítunni og betra að aðskilja þau.
—-
Uppskriftin kallar á mjúkt smjör og smjörið er glerhart í ísskápnum. Gott ráð er að raspa það á rifjárni eða sneiða með ostaskera það magn af smjöri sem þarf í uppskriftina.
—-
Það er mikilvægt að lesa alla uppskriftina yfir áður en byrjað er að baka. Síðan skuluð þið taka allt til sem á að fara í uppskriftina. Sumum finnst gott að raða hráefninu upp í þeirri röð sem á að nota það. Farið síðan yfir tímann sem gefinn er í baksturinn. Það er ekki gaman að lenda í tímaþröng og kakan ekki tilbúin í ofninum.
—-
—-
Fyrir þá sem vilja ná sem bestum árangri í bakstrinum er ekki alveg sama hvernig hveiti er notað í kökur. Það er um að gera að kynna sér hinar mismunandi tegundir. Létt hveiti sem inniheldur lyftiefni er til dæmis það sem er best að nota í bakstur á fínni kökum.
—-
Margir eru óöruggir með hvaða rim kakan á að vera í ofninum (þ.e.a.s. þegar ekki er notast við blástursofn). Reglan er sú að allar kökur t.d. formkökur sem bakast við vægan hita 175°C eða minna, bakast á neðstu rim. Bökur eru líka bakaðar á neðstu rim svo botninn bakist vel og allar kökur sem eru með sykraðan yfirflöt. Brauð sem eru lengi í ofninum eru oftast bökuð neðarlega í ofninum en brauðbollur á miðrim. Aðrar kökur sem eru bakaðar við hærri hita og eru 30 mínútur eða skemur í ofni er best að baka í miðjum ofni. Ef þið eruð óörugg er ráð að fylgjast vel með kökunni og breiða álpappír yfir hana, ef hún er að dökkna of mikið.
Betri er krókur en kelda
Oft er þægilegt að stytta sér leið í eldamennsku eða við bakstur en stundum borgar það sig þó alls ekki. Eitt af því sem fólk ætti alls ekki að sleppa er að fóðra form með bökunarpappír. Best er að smyrja formið vel t.d. með smjöri eða bragðlítilli olíu og setja síðan bökunarpappírinn ofan á. Þetta er ekki eins flókið og það hljómar. Hér eru tvær skotheldar leiðir til að klæða bæði aflöng form og smelluform.
Skepna fagnar útgáfu plötunnar Dagar Heiftar og Heimsku í Lucky Records í dag, laugardaginn 1. júní klukkan 16.
Platan verður látin rúlla á staðnum og verða léttar veitingar í boði Borg Brugghús. Skepna stígur svo á stokk og spilar nokkur lög en platan verður til sölu á disk og vínylplötu sem sveitin áritar. Gleðin hefst klukkan 16 eins og fyrr segir og er ókeypis inn.
Formlegir útgáfutónleikar verða svo haldnir á Hard Rock 14. júní.
Það hefur verið áhugavert að fylgjast með þróuninni innan Sjálfstæðisflokksins undanfarnar vikur. Undirliggjandi togstreita á milli frjálslyndra og afturhaldssamra afla innan flokksins hefur verið að koma upp á yfirborðið í tengslum við þriðja orkupakkann og frumvarp um fóstureyðingar. Í þetta skiptið er það hins vegar frjálslyndi armurinn sem hefur ráðið för. Það er ný staða.
Það skín í gegn að þessi hópur fyrrum valdakarla á erfitt með að fóta sig í hinum nýja veruleika, að ný kynslóð áhrifafólks taki ákvarðanir og myndi sér skoðanir án valdboðs eða leiðbeininga frá gamla valdakjarnanum. Gremjan birtist landsmönnum á síðum Morgunblaðsins nánast á hverjum degi. Hér áður fyrr var litið á greinar þessara manna sem ótvíræð skilaboð úr innsta kjarna en í dag eru þær ígildi gamalla karla að öskra á ský. Óþol forystu Sjálfstæðisflokksins gagnvart þessum hópi er sömuleiðis orðið áberandi, samanber ákvörðun formannsins um að birta viðhafnargrein sína í tilefni 90 ára afmælis Sjálfstæðisflokksins í Fréttablaðinu en ekki Morgunblaðinu. Slíkt hefði þótt óhugsandi fyrir einungis nokkrum mánuðum.
Óþol forystu Sjálfstæðisflokksins gagnvart þessum hópi er sömuleiðis orðið áberandi, samanber ákvörðun formannsins um að birta viðhafnargrein sína í tilefni 90 ára afmælis Sjálfstæðisflokksins í Fréttablaðinu en ekki Morgunblaðinu.
Þessi þróun er um margt ánægjuleg enda var Sjálfstæðisflokkurinn orðinn forpokaður og kreddufullur flokkur, svo mjög að hluti hinna frjálslyndu hrökklaðist í burtu yfir í Viðreisn. Maður spyr sig hvað veldur. Annars vegar eru framtíðarleiðtogar flokksins komnir með bullandi sjálfstraust, enda farnir að raða sér í áhrifastöður. Við sjáum meira af Áslaugu Örnu og Þórdísi Kolbrúnu en minna af Ásmundi Friðrikssyni. Sem er vel.
Hins vegar hefur orðið gerjun á hægri vængnum sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur þurft að taka tillit til. Miðflokkurinn hefur, þrátt fyrir nafnið, verið að marka sér stöðu langt úti á hægri vængnum með afar íhaldssömum, popúlískum og þjóðernissinnuðum málflutningi. Framganga Miðflokksmanna í vetur, innan sem utan þings, hefur verið með slíkum ólíkindum að það var óumflýjanlegt að Sjálfstæðisflokkurinn myndi vilja fjarlægja sig frá honum með áberandi hætti.
Þessi sinnaskipti vita á gott fyrir framhaldið enda líklegt að einn flokkur mun halda áfram að sækja út á jaðarinn, líkt og popúlistar í Evrópu og Bandaríkjunum hafa gert. Því einangraðri sem sá flokkur er, því betra. Það er hins vegar langt í frá að frjálslyndið hafi tekið flokkinn yfir, þrátt fyrir þessa tímabundnu nýju ásýnd. Ef framtíðarleiðtogar flokksins vilja virkilega sýna að þeir standi fyrir frjálslyndi og alþjóðasamvinnu, þá væri ágætis fyrsta skref að þrýsta á um úrsögn úr ACRE, bandalagi hægri manna sem hýsir marga af verstu stjórnmálamönnum Evrópu. Enda lítið frjálslyndi fólgið í því að sitja fundi með Erdogan, Nethanyahu og skoðanabræðrum þeirra.
Gamla þjóðernishyggjan, sósíalisminn og loftslagspólitík spretta úr spori
Úrslit í nýafstöðnum kosningum til Evrópuþingsins gefa enn eina vísbendingu um að miðjan sé að hverfa úr stjórnmálum en fylgi hefur verið að flytjast út á jaðrana til vinstri og hægri. Sama þróun hefur átt sér stað í Bandaríkjunum, Brasilíu og í Ungverjalandi. Skýringuna er að finna í örum samfélagsbreytingum og breyttu dagskrárvaldi fjölmiðla.
„Það blasir við að það hefur átt sér stað pólarisering í stjórnmálunum þar sem jaðrarnir hafa verið að styrkjast. Fyrst með uppgangi þjóðernispopulískra flokka víða í Evrópu og síðan Trump í Bandaríkjunum. Þessir flokkar hafa að mörgu leyti gjörbreytt stjórnmálunum, pólitískri umræðu og flórunni í pólitík álfunnar,“ segir dr. Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst.
Eiríkur segir að síðan hafi þessir flokkar verið að koma upp vinstra megin þar sem einarðir sósíalískir flokkar eru að koma fram á sjónarsviðið. „Einnig frjálslyndir flokkar sem sumir hverjir eru kannski tengdir inn í hina gömlu hefðbundnu miðju en hins vegar birtist pólariseringin á þann hátt að þeir eru enn frjálslyndari en áður var,“ útskýrir hann og tekur Emmanuel Macron, forseta Frakklands, sem dæmi en hann hefur í auknum mæli stillt sér upp sem and-popúlískum. „Hefðbundnu flokkarnir í Frakklandi hrynja og við taka hægri þjóðernissinnar undir forystu Marine Le Pen og mótvægið við það er hinn frjálslyndi Macron.“
Þá segir Eiríkur að í ljósi loftslagsumræðunnar séu Græningjarnir að styrkja sig víða. „Hefðbundnu flokkarnir, eins og hófsamir hægri flokkar og sósíaldemókratar, hafa verið að missa fylgi til þessara flokka. Mesta breytingin hefur verið hjá sósíaldemókrötum sem hafa verið að missa töluvert fylgi yfir til þjóðernispopúlískra hægri flokka. Þannig að það er mikið flot á þessu.“
Margleitari samfélög en áður er ein af skýringunum á þessum sveiflum, að mati Eiríks. „Á 20. öldinni var stefna vestrænna ríkja í sömu átt meira og minna. Enda tók stjórnmálalífið mið af því,“ segir hann og dregur fram að ákveðin samsvörun hafi verið í stjórnmálunum og fjölmiðlum.
„Það blasir við að það hefur átt sér stað pólarisering í stjórnmálunum þar sem jaðrarnir hafa verið að styrkjast.“
„Meginstraumsfjölmiðlarnir römmuðu inn umræðuna, ritstýrðu henni og héldu utan við hana alls konar röddum sem nú hafa komið fram en heyrðust ekki áður. Stjórnmálin á tuttugustu öldinni gengu eftir mjög svipuðum brautum. Síðan gerist það með þessum miklu samfélagsbreytingum sem hafa átt sér stað undanfarin 20 ár, sér í lagi með tækniframförum, að öll samfélagsmyndin verður margslungnari. Fjölmiðlunin verður miklu uppbrotnari og það endurspeglast síðan í stjórnmálunum. Þetta er sama þróunin,“ segir Eiríkur.
Ástandið í Bretlandi er sérstakt að mörgu leyti, að sögn Eiríks, þar sem fylkingar þjóðhyggjunnar og alþjóðasamstarfs sæki báðar í sig veðrið. „Ef skoðaður er uppgangur þjóðernishugmynda í Bretlandi, þá er honum mætt með enn þá meiri alþjóðahugsun hinum megin frá. Þannig að uppgangur beggja afla er eiginlega álíka mikill. Eðli málsins samkvæmt höfum við horft miklu meira á einangrunaröflin enda er þar að finna róttækari breytingu.“
Eiríkur dregur ekki dul á það að svipuð þróun eigi sér stað á vettvangi stjórnmálanna hér á landi þó að birtingamynd hennar sé ekki endilega sú sama. „Við sjáum þessa þróun í uppbroti fjórflokksins sem hafði hér ægivald, naut um 90 prósenta fylgis sem dreifðist á þessa fjóra flokka. Aðrir gátu ekki gert sér miklar vonir um langvarandi stuðning þó svo að fimmti flokkurinn væri oft með inni á þingi. Þetta kerfi er að breytast mjög mikið. Nýir flokkar hafa verið að ryðja sér til rúms, sem ekki eiga þessa rót í tuttugustu öldinni og þessu hefðbundna kerfi. Það er samsvarandi þróun uppi á teningnum í stjórnmálum víðast hvar þó að birtingarmyndin geti verið ólík frá einu landi til annars.“
Nara Walker hlaut dóm fyrir ofbeldi gegn þáverandi eiginmanni sínum sem hafði beitt hana ofbeldi í áraraðir. Hún var nýlega látin laus úr fangelsi en býr hér sem réttlaus kona þar sem enn eru 15 mánuðir eftir af skilorðsbundnum dómi hennar. Hún ætlar með mál sitt fyrir Mannréttindadómstól Evrópu og segir lesendum Mannlífs sögu sína.
„Já, það væri gaman því mér líður núna eins og allt mitt líf hverfist um þetta mál,“ segir Nara Walker þegar hún er beðin um að segja frá því hver hún er og hvaðan hún kemur. „Ég er fædd á stað sem heitir Springbrook, bæ sem stendur á óvirku eldfjalli ofan við Gold Coast í Queensland í Ástralíu. Þar ólst ég upp fram yfir sjö ára aldur og það er sannkölluð náttúruparadís þó svo að snákarnir og kóngulærnar séu ekki fyrir alla. Þarna bjó ég ásamt móður minni, systur og föður sem á reyndar fleiri börn sem eru fædd bæði fyrir og eftir hjónabandið með mömmu. Walker er reyndar ekki eftirnafn föður míns heldur stjúpföður vegna þess að faðir minn er ofbeldismaður og við þurftum seinna meir að forðast hann af fremsta mætti. Hann er einn þessari manna sem sjá hvorki sólina né annað fyrir sjálfum sér.“
Nýkomin úr fangelsi
Nara sem verður 29 ára í júlí hefur búið víða um ævina og reynt ýmislegt. Eftir að foreldrar hennar skildu bjó hún á Gold Coast, flutti síðan til Suður-Ástralíu eftir að móðir hennar tók saman við stjúpföður þeirra systra, ferðaðist með þeim um Evrópu um þriggja mánaða skeið, bjó á sveitabæ með þeim þar til þau skildu og eftir það á Sunshine Coast með viðkomu í Brisbane.
Í menntaskóla vann Nara til verðlauna fyrir listsköpun sem hvatti hana til þess að feta braut listarinnar. „Ég fór í listnám með áherslu á málaralist, fór svo til Óslóar með þáverandi kærastanum mínum og var þar í tíu mánuði árið 2010 en sneri aftur til þess að halda áfram með námið. Fólkið hennar mömmu kemur frá Noregi og því fannst mér gaman að kynnast landinu og lífinu þar. Mamma lagði reyndar alltaf áherslu á tengslin við ástralska náttúru og nafnið mitt er komið úr máli frumbyggja og merkir félagi. En eftir að ég kom aftur frá Noregi komst ég að í Griffith University í Brisbane og lauk þaðan BA-námi. Ég var svo á svokölluðu Hounors-ári þegar ég kynntist manninum sem nú er fyrrverandi eiginmaður minn og ástæðan fyrir því að ég er á Íslandi, nýkomin úr fangelsi.“
Nara var dæmd fyrir að bíta hluta af tungu fyrrverandi eiginmanns síns en hefur alla tíð lagt áherslu á að hún hafi ítrekað verið beitt ofbeldi af hans hálfu. Íslenskir dómstólar féllust ekki á að viðbrögð hennar hafi helgast af sjálfsvörn og hlaut hún því átján mánaða dóm, þrjá hefur hún þegar afplánað á Hólmsheiði og inni á Vernd en fimmtán eru skilorðsbundnir.
Byrjaði með brotið andlit
„Þetta byrjaði þannig að hann var að vinna handan götunnar þar sem ég var í háskólanámi og það hræðir mig í dag hvernig hann spilaði með mig frá upphafi. Faðir minn var ofbeldismaður og fyrir vikið er ég útsettari fyrir þessari hegðun og það var eins og hann skynjaði það frá upphafi. Hann vissi nákvæmlega hvernig hann átti að hegða sér. Hann er franskur, hávaxinn, hraustur og sex árum eldri en ég og í dag líður mér eins og ég hafi verið veidd. Hann kunni að spila á veikleika mína og bakgrunn minn og til þess að gera langa sögu stutta endaði það með því að við byrjuðum saman og allt frá upphafi var til staðar þetta sálræna ofbeldi þar sem það var gefið og tekið á víxl og allt snerist um að ná fullri stjórn á einstaklingnum.“
Nara segir að hún hafi ákveðið að slíta sambandinu vegna kærustunnar sem hann átti að auki. Hún vildi ekki vera kona sem gerði annarri konu eitthvað slíkt. „Ég hætti að hitta hann en varð nokkru síðar fyrir því að fótbrjóta mig. Þá kom hann og sagðist vera hættur með kærustunni, vildi aðstoða mig við daglegt líf af því að ég væri meidd, ætlaði að hugsa um mig. Ég hélt ákveðinni fjarlægð við hann en fór svo út með honum þegar ég var laus við gifsið og fór heim með honum en gisti bara á sófanum. Daginn eftir vaknaði ég illa vönkuð í rúminu hans, með skelfilega verki í andlitinu.
Ég hafði ekki verið drukkin kvöldið áður en vaknaði samt þarna og í þessu ástandi og skildi ekki hvað hafði gerst. Ég spurði hann ítrekað en hann fór alltaf undan í flæmingi, laug og bullaði, en þegar ég sagðist ætla að fara að hitta mömmu og fara svo á sjúkrahús þá loksins sagðist hann muna hvað gerðist. Sagði mér að hann hefði verið að bera mig inn í rúm og misst mig á leiðinni. Þannig að ég hef rotast við það og hann bara lagði mig í rúmið með heilahristing. Það hefði getað kostað mig lífið og að endingu fór vinur minn sem er læknir með mig á sjúkrahús og þá kom í ljós brákað kinnbein.“
Lamin til hlýðni
Nara segir að á þessum tímpunkti hafi hún verið komin í ofbeldissamband án þess að gera sér grein fyrir því. Eftir því sem leið á sambandið og síðar hjónabandið tókst eiginmanninum að herða tökin og Nara rekur fjölmörg dæmi um það hvernig ofbeldið stigmagnaðist. „Það var andlegt, líkamlegt og kynferðislegt en alltaf var þetta mér að kenna samkvæmt hans bókum. Þetta var vítahringur sem var erfitt að rjúfa og hélt áfram í gegnum allt okkar samband. Hann gætti þess að einangra mig alltaf frá því tengslaneti sem ég myndaði. Við fluttum alltaf á sex mánaða fresti og svo lofaði hann í sífellu að sjá um fjármálin og annað slíkt svo ég gæti sinnt listinni en stóð misvel við þau orð.
Það sem mér hefur þó þótt hvað erfiðast að horfast í augu við er kynferðisofbeldið sem hann beitti mig. Það hófst oft þegar ég var sofandi og varð sífellt grófara. Það getur verið erfitt fyrir konur í núgildandi samfélagsgerð að átta sig á því hvað er ásættanlegt. Í samfélagi sem segir þér að þú eigir að veita manninum þínum ánægju þá er erfitt að játa fyrir sjálfri sér að hann nauðgar þér. Nánd og kynlíf er fyrir báða aðila – þú ert ekki þarna svo hann geti lokið sér af þegar honum hentar. Að viðurkenna fyrir sjálfum sér hvað hefur gerst er erfitt því maður upplifir sig sem einskis virði. Að endurheimta eigið virði tekur tíma en það er hægt með því að horfast í augu við að það var hann sem gerði þér þetta.
Fyrrverandi eiginmaður minn bar enga virðingu fyrir mér, ég sé það núna, hann bara gerði við mig það sem hann vildi, þegar hann vildi. Ef ég sætti mig ekki við það þá var ég lamin til hlýðni með einum eða öðrum hætti.“
Hin auðmjúka sjálfsvörn
Nara segir að framan af sambandinu hafi hann verið lúmskari og beitt hana oft ofbeldi og nauðgunum í svefni eða með því að byrla henni lyf. Þegar þau gengu í hjónaband versnaði ástandið til mikilla muna. „Þá byrjaði hann fyrir alvöru að berja mig. Það var annað skref í því að gera mig veikari fyrir, rétt eins og að flytja úr landi, því þar með leit hann endanlega á mig sem sína eign.
Þegar mér fór að vegna vel í minni listsköpun og fékk að sýna á mikilvægum og stórum stöðum á borð við Hong Kong, Feneyjar og víðar, lagði hann sig líka fram um að eyðileggja það. Slíkt var ógn við vald hans yfir mér og því mikilvægt fyrir hann að rjúfa allt sem gæti falið í sér að ég fengi aukna sjálfsvirðingu og innri styrk.“
Nara kom fyrst til Íslands í lok október 2016, þegar hún bjó í Bretlandi en eiginmaður hennar þáverandi fékk vinnu hjá stóru fyrirtæki á Íslandi. Hann hefur viðurkennt að áður en hann fór til Íslands barði hann hana inni á heimili þeirra í Englandi þar sem þau bjuggu um borð í báti. „Hann reif mig upp og henti mér þvert yfir herbergið svo ég lenti á vegg. Þar hélt hann mér og barði mig í kviðarhol og brjóst og sparkaði svo hurðina niður þegar hann fór út. Ég lá eftir í áfalli og gat ekki hreyft mig í svona tíu mínútur. Þegar ég kom út var hann að fara af stað með bátinn og þá sagði ég bara: „Hæ!“ eins og ekkert hefði gerst. Var bara auðmjúk og voða góð við hann en samt hélt hann áfram að hella úr skálum reiði sinnar yfir mig og ég fór til Íslands með honum.
Þetta er auðvitað ekkert annað en sjálfsvarnarmekkanismi. Höfnun á því að það sé verið að beita mann ofbeldi og aðferð til þess að reyna að koma í veg fyrir að það gerist aftur. Vandinn er að ofbeldið á bara eftir að verða verra þar til vítahringurinn rofnar en það getur líka kostað þolandann lífið og gerir það í fjölmörgum tilvikum um allan heim á hverjum degi.“
„Sannfærð um að hann myndi drepa mig“
Nara er fær um að lýsa fjölda atvika þar sem fyrrverandi eiginmaður hennar beitti hana hrottalegu ofbeldi. Alltaf gætti hann þess þó að berja hana í brjóst- og kviðarhol svo áverkarnir væru síður sýnilegir en það sem er einkum sláandi eru lýsingar hennar á því hvernig hann gætti þess að horfa í augun á henni meðan á barsmíðunum stóð. Þessi frásögn er henni allt annað en auðveld og erfiðast af öllu er að ræða kvöldið sem leiddi til þess að hún hlaut fangelsisdóm á Íslandi.
„Helgina fyrir atvikið höfðum við farið út á lífið, hittum bandarískan ferðamann, spjölluðum við hann í fimm mínútur og hann fór að fylgja mér á Instagram. Sendi mér svo skilaboð á þriðjudeginum til að forvitnast um hvað væri að gerast í bænum og ég sagði honum að Airwaves væri í gangi og fullt af tónleikum. Í framhaldinu fórum við maðurinn minn út og hittum Bandaríkjamanninn og íslenska konu sem ég leit á sem sameiginlega vinkonu okkar hjóna. Hún hafði verið að vinna með manninum mínum en mér finnst líklegt að þau hafi þá þegar átt í sambandi þegar ég var ekki á landinu og að auki snerist þeirra samband talsvert um eiturlyf og neyslu, eitthvað sem er þeirra en ekki mitt.
Við fórum á tvo bari og vorum að drekka bjór en ég tók eftir því að hún var mjög agressív gagnvart mér sem hún hafði reyndar verið um tíma. Hann ætlaðist til þess að við værum vinkonur, enda var hún alltaf heima hjá okkur, en á þeim tíma leit ég á þeirra samband sem vináttu. Hún átti eftir að ljúga fyrir rétti fyrir hann og ég hefði átt að kæra hana fyrir líkamsárás en í mínum huga var hún fyrst og fremst næsta fórnarlamb hans.
Þegar við komum aftur í íbúðina voru maðurinn minn og íslenska konan að kyssast eins og þau höfðu verið gera fyrr um kvöldið. Það angraði mig satt best að segja ekki, það finnst kannski einhverjum skrítið, en fyrir mér var það bara koss og ég var búin að ákveða að skilja við hann hvort eð var. Ég hafði svo sem séð slíka tilburði hjá honum áður, ég hef séð hann hafa kynmök við annað fólk og hef þá yfirgefið herbergið. En þarna um kvöldið brást ég þannig við að ég kyssti Bandaríkjamanninn, það var svona ég að sýna honum að ég gæti alveg hagað mér svona en svo hætti ég því til þess að verða ekki lamin og við vorum bara að spjalla.
En svo sáum við að maðurinn minn og þessi íslenska kona voru nánast farin að stunda kynlíf en í fötunum inni í stofu. Bandaríkjamaðurinn sagðist bara ætla að fara þannig að ég sagðist líka ætla að fara, vildi ekki vera hluti af þessu. Þá varð allt vitlaust.
Maðurinn minn varð brjálaður. Hann átti mig og óttaðist að ég ætlaði að fara með Bandaríkjamanninum sem ég ætlaði alls ekki að gera. Ég vildi bara ekki vera þarna.
Maðurinn minn og konan voru stöðugt að öskra á mig einhverjar svívirðingar og ég man að ég horfði á hana og furðaði mig á því af hverju hún væri að standa í þessu. Íbúðin sem við vorum í var á hæðum og á einhverjum tímapunkti stóðu maðurinn minn og Bandaríkjamaðurinn frammi á stiganum og þá skyndilega ýtti maðurinn minn honum þannig að hann kútveltist niður stigann, niður á næstu hæð. Seinna kom fram í áverkaskýrslu að hann var með alvarlega áverka eftir þetta.
Ég fríkaði út þegar ég sá þetta. Maðurinn minn hljóp á eftir honum og stóð yfir honum og hann er stór og sterkur. Ég reyndi að beina athygli hans að mér svo að hann héldi ekki áfram að meiða hann og þá komst Bandaríkjamaðurinn undan. Maðurinn minn byrjaði að hrinda mér harkalega og það kemur fram á áverkaskýrslunni að ég var með áverka á brjósthrygg og brákað rif sem ég held að hafi gerst þarna. En málið er að ég var sannfærð um að nú myndi hann drepa mig.
„Hann starði inn í sálina á mér. Ég hef aldrei orðið eins hrædd og ég gat ekkert gert, leið skyndilega eins og ég væri utan eigin líkama.“
Hann starði inn í sálina á mér. Ég hef aldrei orðið eins hrædd og ég gat ekkert gert, leið skyndilega eins og ég væri utan eigin líkama. Horfði á allt gerast eins og fluga á vegg. Síðan byrjaði hann að berja mig í brjóst og kviðarhol á meðan hann horfði í augun á mér. Að hverju var hann að leita í augunum á mér? Eigin virði?“
Færð í handjárn
„Ég gat ekki andað. Hann tók mig upp og lagði mig á sófann sem er á neðri hæðinni inni í íbúðinni sem er á tveimur hæðum. Hún var þarna líka og hann stóð yfir mér á meðan ég var að reyna að ná andanum. Það var eins og árásin væri enn í gangi með hann þarna yfir mér og allar þessar hugsanir um hvað hafði gerst. Hugsanir um að hann hefði getað drepið þennan mann. Hugsanir um að hann hefði verið að berja mig og ég myndi líklega ekki lifa þetta kvöld af. Lá bara þarna og reyndi að anda á meðan hann stóð yfir mér og hélt áfram að öskra á mig. Öskra að hann ætti mig.
Skyndilega fann ég adrenalínið flæða um mig í bylgjum og líkamann segja mér að koma mér burt. Þannig að ég stóð loksins upp og reyndi að komast fram hjá honum. Hann greip um upphandleggina á mér, hélt mér fastri og hélt áfram að öskra á mig. Hann er eflaust svona 25 sm hærri en ég og skyndilega hallaði hann sér niður að mér og þvingaði sér á mig. Það var á því augnabliki sem ég beit bút af tungunni á honum.
Ég fann aldrei fyrir tungunni á honum uppi í mér, kannski vegna þess að þau höfðu sett kókaín í drykkina okkar án minnar vitundar og það hefur víst staðdeyfandi áhrif. Ég bara brást við og líkami minn lokaðist, herptist saman, með þessum afleiðingum.
Það var eins og tíminn stæði í stað. Skyndilega rankaði ég við mér og hjartað barðist um á ógnarhraða þar sem ég lá á bakinu á gólfinu og hún sat klofvega ofan á mér öskrandi ókvæðisorð. Ég var skelfingu lostin. Þau voru tvö og bæði miklu stærri en ég. Ég reyndi að ýta henni af mér og við tókumst á. En það sem ég óttaðist mest var hvað hann mundi gera mér á meðan mér væri haldið svona fastri. Ég óttaðist að hann kæmi og kastaði mér fram af svölunum eða eitthvað þaðan af verra.
Loksins náði ég að losa mig en ég komst ekki út fram hjá þeim heldur gat hlaupið upp á efri hæðina og falið mig þar. Ég var í algjöru áfalli. Þau héldu áfram að öskra á mig en hún hringdi í lögregluna. Þegar lögreglan kom var ég grátandi og endurtók mig í sífellu sem er augljóst merki um áfall, jafnvel ég veit það, en samt var ég sett í handjárn og þau tvö færð á sjúkrahús. Ég var færð handjárnuð út í aftursæti lögreglubíls og var í haldi lögreglu að því ég held í fimmtán klukkustundir.“
Hefðu getað orðið mín örlög
Nara sýndi lögreglunni víðtæka áverka á líkamanum sem gátu verið vísbending um innvortis blæðingar en það breytti engu. Að loknu varðhaldinu var svo farið með hana aftur heim til eiginmannsins, vegabréf hennar tekið og hún skilin eftir heimilislaus og án bankakorta því eiginmaðurinn hafði allt slíkt í sinni vörslu. Hún gat sótt einhverjar eigur en gekk síðan sjálf á sjúkrahús undir miðnætti til þess að fá læknishjálp.
„Móðir mín greiddi fyrir gistiheimili og ég borðaði hjá Samhjálp en á sama tíma var ég undir stöðugu áreiti frá honum. Hann sendi mömmu, öllum vinum mínum og sínu eigin samstarfsfólki alls konar vitleysu um mig og gerði allt sem hann gat til þess að einangra mig.
Vegna lögregluskýrslunnar og alls þess sem hann lét frá sér, var ég í hlutverki gerandans. Þurfti að takast á við hugsanir um að þetta væri mér að kenna, að ég hefði ögrað honum og meitt hann. Samt fékk ég að sjá hvað hann skrifaði íslensku konunni daginn eftir þar sem hún sagðist ekki muna hvað gerðist en hann sagði henni bara hvernig þetta var og það var fjarri sannleikanum. Hún lagði áherslu á að ég þyrfti að fara í fangelsi í langan tíma og á stóran þátt í að ég fékk dóm. Hún fékk föður sinn sem er læknir til þess að skrifa áverkaskýrslu eftir að aðrir læknar voru búnir að skoða hana áður. Fékk föður sinn til að votta um áverka sem voru ekki til staðar og þetta sá rétturinn en tók þetta auðvitað ekki til greina. Þetta gerði það að verkum að ég fékk ekki eins þungan dóm og ella. Engu að síður lét rétturinn samt aðrar lygar standa og tók vitnisburð þeirra góðan og gildan.“
Nara segir að hún sé enn að takast á við eftirköstin af því sem gerðist þetta kvöld. Líkamlega, andlega og félagslega en þar sem hún er án réttinda á Íslandi og má enn ekki vinna, getur hún ekki sótt sér þá aðstoð sem hún þarf á að halda. „Ofbeldið sem ég varð fyrir frá honum hefur í dag víkkað út í það sem ég má þola af hálfu kerfisins og frá þessari konu og fjölskyldu hennar. Hún tók þátt í árásinni þetta kvöld frá upphafi, fyrst með orðum en síðar gjörðum, þannig að sem vitni þá stenst auðvitað ekki að hún sé hlutlaus. Hún laug upp á mig við réttarhöldin þar sem hún laug einnig til um samband þeirra tveggja.
„Ofbeldið sem ég varð fyrir frá honum hefur í dag víkkað út í það sem ég má þola af hálfu kerfisins og frá þessari konu og fjölskyldu hennar.“
Hún meira að segja bjó með eiginmanni mínum, þau fluttu saman til London, og á meðan málið var enn fyrir Landsrétti leiddi rétturinn í ljós að þau hefðu logið fyrir Héraðsdómi. Þar með á framburður þeirra ekki að vera aðgreinanlegur. Auk alls þess óhróðurs sem þau létu frá sér á Netinu.“
Nara segir að hún hafi fundið til með þessari konu þrátt fyrir allt, vitandi að hann væri maðurinn á bak við þetta. „Þetta mál snýst um heimilsofbeldi frá a til ö. Það sem raunverulega gerðist var að ég reyndi að yfirgefa manninn sem beitti mig ofbeldi og eins og svo margar konur sem það reyna varð ég fyrir árás. Margar konur eru myrtar þegar þær reyna að fara og ég er viss um að það hefðu getað orðið mín örlög þetta kvöld.“
Rannsókn í skötulíki
Nara þagnar og heldur svo áfram. „Það sem raunverulega gerðist var að í september 2017 var ég loksins búin að átta mig á því að ég yrði að fara frá honum. Á þeim tíma beitti hann mig líkamlegu, andlegu, kynferðislegu og fjárhagslegu ofbeldi. Ég tók þátt í sýningu í Berlín sem framkallaði reynslu mína af heimilisofbeldi frá því þegar ég var barn og þá fann ég hugrekki til þess að segja honum að þetta yrði að hætta. Þá sömu helgi byrlaði hann mér LSD í teið mitt og í framhaldinu tók ég þessa ákvörðun.
Ég var að sýna í Hong Kong og víðar og ræddi þetta við móður mína sem kom með mér í eina af þeim ferðum. Þetta kom henni ekki á óvart því hún hafði átt í bréfaskiptum við hann þar sem þetta ofbeldi kom upp og það var lagt fram til sönnunar við réttarhöldin. Þar játaði hann meira að segja að hafa ráðist á mig og að hafa byrlað mér eiturlyf.
Þetta kom fram við réttarhöldin og þar var hann líka spurður út í að hafa nauðgað mér en eins og ég man svarið þá sagði hann: „Þetta er Nara að láta mér líða illa með nauðganir. Hún er konan mín.“ Hann sagði að ég gerði hann vondan og sýndi horn á höfði með höndunum til útskýringar og annað í þeim dúr sem að mínu mati tók af allan vafa um að hann væri ofbeldismaður. Hann var spurður um atvikið á bátnum og þá svaraði hann að hann hefði einu sinni ráðist á mig. En allt kom fyrir ekki. Ég fékk átján mánaða dóm, sat í mánuð á Hólmsheiði, í tvo mánuði á Vernd og svo standa fimmtán mánuðir eftir skilorðisbundnir.“
Nara bendir á að það sem gerðist þetta afdrifaríka kvöld sé afleiðing heimilsofbeldis en lögreglurannsókninni hafi verið vægast sagt ábótavant. Lögreglan sleppti því að mynda eiturlyf sem stóðu á stofuborðinu, enginn var sendur í lyfjapróf. Þessi kona játar að hafa reykt gras með eiginmanni mínum og að hann hafi sett kókaín í drykkina okkar. Engin rannsókn var gerð á þessu, jafnvel þó að ég hafi farið fram á slíkt og lagt fram lista yfir eiturlyf sem hann átti en það var nokkrum dögum síðar. Lögreglan taldi ekki ástæðu til þess að kanna það nánar.
Á rúmum tveimur vikum léttist ég um níu kíló sem er mikið fyrir smágerða konu eins og mig því þá var ég orðin aðeins 46 kíló. Ég var gerð heimilislaus, því lögreglan sendi frá sér skýrslu þar sem hún segist ekki eiga von á ofbeldi af hálfu mannsins gagnvart mér og þar af leiðandi var ég í raun á götunni. Í lögregluskýrslunni er líka ítrekað tekið fram að ég hafi engin tengsl við Ísland, ég sé það núna að það gerði mig réttlausa sem erlenda konu. En hann hafði tengsl þar sem hann var að vinna hjá stóru íslensku fyrirtæki, sama fyrirtæki og þessi kona hafði verið að vinna hjá og hún er auk þess Íslendingur. Saksóknarinn lagði líka mikla áherslu á að ég hefði engin tengsl við Ísland til þess að það væri lagt á mig farbann.“
Refsað fyrir að velja að lifa
En Nara ætlar ekki að játa sig sigraða fyrir óréttlætinu heldur fara með málið fyrir Mannréttindadómstól Evrópu. „Fyrir mér er mikilvægt að fara með málið burt frá Íslandi þar sem málið snýst um ofbeldismanninn og það sem ég gerði til að losna undan honum. Næst verður þetta pólitískt og fer að snúast um kerfið og hvernig það tekur á heimilisofbeldi. Ég ætla mér að fara með þetta alla leið vegna þess að ég vil standa með sjálfri mér og standa fyrir réttindum kvenna sem þurfa að búa við ofbeldi á hverjum degi, jafnvel alla sína daga.“
„Ég ætla mér að fara með þetta alla leið vegna þess að ég vil standa með sjálfri mér og standa fyrir réttindum kvenna sem þurfa að búa við ofbeldi á hverjum degi.“
Nara segir að það hafi haft mikla þýðingu fyrir hana þegar fólk kom og sýndi henni stuðning þegar hún var á leiðinni í fangelsi. „Þau voru þarna fyrir mig en líka fyrir alla sem búa við heimilisofbeldi. Þessi stuðningur gerði það ekki eins erfitt að ganga þarna inn og fyrst eftir að ég kom inn þá upplifði ég ákveðna kyrrð sem var skrítin tilfinning. En að vakna í fyrsta sinn í fangelsi var mjög erfitt enda er ég haldin áfallastreituröskun eftir allt sem á undan er gengið. En ég sé mig ekki sem glæpamann og ég trúi því að það sem ég gerði hafi verið að verja rétt minn til lífs. Ég valdi að lifa og fyrir það var mér refsað.
Í dag er ég enn að taka út minn dóm en ég ætla líka að halda áfram minni baráttu fyrir réttlæti fyrir mig og allar konur. Þegar ég hef unnið mína baráttu kemur næsta kona og berst fyrir því sama og þannig koll af kolli, því það er það sem við konur höfum verið að gera, þannig munum við að endingu sigra þetta óréttlæti.
Þetta hefur verið skelfileg lífsreynsla sem hefur breytt mér vegna þess að ég hef séð slíkt myrkur í heiminum en það sýnir mér fram á að það getur líka verið svo miklu meira ljós. Þegar manni er kastað svona inn í myrkrið og lifir það af er það vegna þess að maður sér ljósið. Sér vonina.“
Myndir / Aldís Pálsdóttir Förðun / Björg Alfreðsdóttir, alþjóðlegur förðunarfræðingur YSL á Íslandi
Myndbönd og upptökur með hljómsveitinni Vínyl sem naut mikilla vinsælda á Íslandi á tíunda áratug síðustu aldar, hafa aftur litið dagsins ljós en sumt af efninu er óútgefið.
Á tíunda áratugnum var tónlistarlífið á Íslandi afar líflegt og hljómsveitir á borð við Maus, Botnleðju og Kolrössu krókríðandi á meðal vinsælustu sveitanna. Tvíburabræðurnir Kristinn og Guðlaugur Júníussynir voru áberandi á senunni en þeir fóru fyrir rokksveitinni Vínyl ásamt Agli Tómassyni, Arnari Snæ Davíðssyni, Þórhalli Bergmann og Arnari Guðjónssyni.
Maðurinn á bak við tjöldin var kvikmyndagerðarmaðurinn Haraldur Sigurjónsson en hann skaut og vann allt myndefni fyrir sveitina. Tónlistarmyndbönd og tvennir tónleikar fóru í loftið á RÚV og Stöð 2 á árunum 1996 til 1998 en hafa ekki sést síðan þá. Allt endaði þetta ofan í kassa þar til nú, því Haraldur og bræðurnir hafa verið að dusta rykið af efninu og upptökum, sem hafa sumar ekki komið fyrir sjónir almennings áður.
„Það var bara enginn vettvangur fyrir svona hluti þá, svo þetta endaði allt ofan í kassa og inn í geymslu í 20 ár og hefur verið þar til dagsins í dag,“ segir Haraldur um myndböndin. „Þarna inn á milli eru lög með Vínyl sem hafa aldrei komið formlega út, þannig að þetta er algjör fjársjóður.“
Hljómsveitin Vínyll var stofnuð árið 1996 af þeim bræðrum Kristni og Guðlaugi og var með vinsælli sveitum á landinu. Sjálfir segja þeir bræður að þetta hafi verið góður tími og gaman að taka þátt í íslensku tónlistarsenunni enda hafi hún verið fjölbreytt og kraftmikil.
En hvernig varð sveitin eiginlega til?
„Við gerðum eina plötu og vantaði einhverja til þess að spila með okkur „live“, þannig að við fengum Arnar Guðjónson gítarleikara og Þórhall Bergmann hljómborðsleikara til liðs við okkur og spiluðum saman á nokkrum tónleikum, og fyrsta lagið okkar, Hún og þær, rataði í Blossa, kvikmynd leikstjórars Júlíusar Kemp,“ segir Kristinn um upphaf sveitarinnar og bætir við að það hafi orðið nokkur skipti á meðlimum hennar, eins og gengur og gerist, meðal annars hafi Georg Hólm spilað um tíma með henni, en í dag þekki hann eflaust margir sem bassaleikarann í Sigur Rós.
Stundum algjört rugl, en alltaf gaman
Eins og fyrr segir skaut Haraldur og vann allt myndefni fyrir sveitina. Spurður hvernig hafi eiginlega verið að vera eins og fluga á vegg hjá Vínyl og hvort hann hafi alltaf verið með myndavélina á lofti segist Haraldur bara hafa hangið með vinum sínum og því legið beinast við að taka þetta upp.
„Ég hafði átt myndavél í nokkur ár og gert alls konar „stuff“, til dæmis heimildamyndina Ný-rokk í Reykjavík árið 1994 og fylgt eftir sveitum eins og Sororicide, Kolrössu, Stjörnukisa og Pulsunni. Sem sagt hékk með vinum mínum og tók upp slatta á tónleikum, eins og Kóparokki og í Fellahelli og ég hélt þessu bara áfram með Gulla og Kidda.“ Myndbönd með Vínyl og Jetz, sem var annað band sem bræðurnir voru í, urðu fyrstu tónlistarmyndböndin sem hann bjó til en eftir það skellti hann sér í nám í kvikmyndaskóla í New York.
„Það var algjört ævintýri að hanga með bræðrunum, enda með eindæmum skemmtilegir strákar. Stundum var það algjört rugl en það var alltaf gaman og alltaf mikið hlegið. 90’s-tímabilið var bara rosalegt tónlistarlega séð,“ segir hann. „Það voru allir í hljómsveit, fannst manni.“
Nú, þegar myndböndin og upptökurnar eru að koma fyrir sjónir almennings, sumt í fyrsta sinn, er ekki úr vegi að spyrja hvort Vínyll muni koma saman aftur? „Við höfum verið að vinna fullt af efni undanfarið,“ svarar Kristinn, „þ.e. meðlimirnir sem voru í seinni útgáfunni af hljómsveitinni sem starfaði árunum 2002 til 2005, en þá skipuðum við Gulli bandið og Þórhallur Bergmann, Arnar S. Davíðsson og Egill Tómasson. Hver veit nema eitthvað af því efni komi út í framtíðinni,“ segir hann leyndardómsfullur.
Í hverju tölublaði tiltekur Mannlíf þá aðila sem átt hafa góða viku og slæma viku. Að þessu sinni eru það Þórir Sæmundsson og Guðfinna Th. Aðalgeirsdóttir sem komust á blað.
Slæm vika Þórir Sæmundsson
Skipverjarnir á Bíldsey SH uppskáru reiði þjóðarinnar þegar þeir skáru sporð af lifandi hákarli sem hafði flækst í línu þeirra, af einskærum ótuktarskap að því er virðist. Ekki bara uppskáru þeir fordæmingu samborgara sinna heldur fengu þeir að taka sjópokann sinn.
Leikarinn Þórir Sæmundsson átti líka afleita viku því upp komst að hann hafði um árabil haldið úti aðgangi á Twitter undir dulnefninu Boring Gylfi Sig. Uppljóstrunin var síst til þess fallin að auka hróður Þóris sem fyrir tveimur árum var rekinn frá Þjóðleikhúsinu fyrir að senda dónamyndir til ungra stúlkna.
Góð vika Guðfinna Th. Aðalgeirsdóttir
Körfuboltalið KR svo gott sem tryggði sér sjöunda Íslandsmeistaratitilinn í röð þegar þrír af bestu leikmönnunum landsins skrifuðu undir samning um að leika með liðinu á næsta tímabili. KR toppar þó ekki Guðfinnu Th. Aðalgeirsdóttur sem afrekaði eitthvað sem enginn Íslendingur hefur afrekað, að fá heilan tind á Suðurskautslandinu nefndan í höfuðið á sér.
Guðfinna er prófessor í jöklafræði og missti af leiðangri þangað eftir að hún sleit hásin. Erlendir kollegar hennar, sem kölluðu Guðfinnu Tolly, voru þó ekki búnir að gleyma henni og nefndu tindinn Tolly’s Heel og hefur nafnanefnd Suðurskautslandsins samþykkt nafnið.
Undirbúningur fyrir tónleikaferð Skólahljómsveitar Austurbæjar til Króatíu hefur verið lyginni líkastur. Tvö af þeim þremur flugfélögum sem hópurinn átti bókað flug með fóru á hausinn og samskiptaörðugleikar við það þriðja urðu þess valdandi að sú bókun glataðist. Þessi vandræði hafa kostað skólahljómsveitina vel á aðra milljón króna.
Annað hvert ár fer Skólahljómsveit Austurbæjar í tónleikaferð til útlanda og í ár er stefnan tekin á Króatíu dagana 13. til 20. júní. Hópinn skipa 50 ungmenni á aldrinum 13 til 18 ára og verða 10 stjórnendur og forráðamenn með í för. Undirbúningur fyrir ferðina hefur staðið yfir sleitulaust í tvö ár og hafa ungmennin meðal annars selt klósettpappír og annan varning til að fjármagna ferðina. Eins og gefur að skilja ríkir mikil eftirvænting innan hópsins fyrir draumaferðinni.
Það hefur hins vegar reynst þrautin þyngri að koma hópnum á áfangastað. Fyrsta flugfarið til útlanda var bókað í ágúst síðastliðnum með flugfélaginu Primera Air en félagið varð gjaldþrota í október. Blessunarlega var ekki búið að ganga frá neinum greiðslum þannig að næsta mál var að leita tilboða hjá öðru flugfélagi. Fyrir valinu varð WOW air og var bókað flug fyrir allan hópinn til Mílanó á Ítalíu. En WOW air varð líka gjaldþrota og í þetta skiptið slapp skólahljómsveitin ekki svo vel.
„Þegar ljóst var að WOW var fallið vorum við búin að borga 600 þúsund krónur í staðfestingargjald. Það er möguleiki að sækja það úr þrotabúinu seinna meir en eins og staðan er í dag er það ólíklegt og við lítum á þetta sem glatað fé,“ segir Vilborg Jónsdóttir, stjórnandi Skólahljómsveitar Austurbæjar. Eftir fall WOW var farið að leita tilboða hjá öðrum flugfélögum.
„Við fórum að leita að björgunarhring og höfðum samband við Icelandair en svör þaðan bárust seint og í millitíðinni duttum við niður á ágætis tilboð frá Wizz Air sem féll vel að okkar ferðaáætlun og því var ákveðið að stökkva á það.“
Bókunin glataðist vegna misskilnings
Bókað var flug frá Keflavík til Vínar og þaðan átti að keyra til Slóveníu til móts við þarlenda lúðrasveit áður en keyra átti til Króatíu. Bókað var staðfestingargjald upp á 350 þúsund krónur en þegar hópurinn ætlaði að ganga frá lokagreiðslu 30 dögum fyrir brottför kom heldur betur babb í bátinn. „Þá bara finnst engin bókun,“ segir Vilborg. „Þá er þarna pínulítil neðanmálsgrein í plöggunum að það þurfi að vera búið að borga 30 prósent af fargjaldinu 60 dögum fyrir brottför sem er allt öðruvísi hjá öllum öðrum félögum. Venjulega fær maður tilkynningu um slíkt frá flugfélögunum en við fengum ekki neitt og aðilarnir sem sáu um að bóka ferðina sáu ekki þessa neðanmálsgrein.“
Bókunin var því glötuð með öllu og segir Vilborg að þau hjá Wizz Air hafi sýnt stöðu hópsins lítinn skilning. Góð ráð reyndust því ansi dýr. „Við vorum komin í mjög þrönga stöðu því það er mánuður í brottför og við erum ekki með neitt far. Icelandair átti engin sæti handa okkur en Wizz Air bauð okkur að bóka allt upp á nýtt en þá var fargjaldið orðið miklu dýrara og farangursheimildin var minni,“ segir Vilborg en eins og gera sér má í hugarlund er það ekki lítill farangur sem fylgir heillri lúðrasveit. Þeim var því nauðugur kostur einn að ganga að tilboði Wizz Air. „Þegar upp er staðið hefur þetta kostað okkur um það bil 1,3 milljónir. Þetta er bara peningur sem er farinn út um gluggann.“
„Mér finnst það ljótt að fyrirtæki skuli ekki taka tillit til neins, þeim er alveg sama og hugsa bara um peningana.“
Vilborg er allt annað en sátt við samskiptin við ungverska lággjaldafélagið. „Við höfum verið að eltast við þau en þegar þau hafa loksins svarað okkur eftir langa bið vilja þau ekkert gera fyrir okkur. Þau hafa vissulega lögin með sér því þessi neðanmálsgrein er til staðar en maður spyr sig hvort virkilega ekkert sé hægt að gera þegar þú kaupir 60 miða. Við höfum skrifað þeim bréf og útskýrt hvers konar hópur er þarna á ferðinni en það kemur ekkert út úr því. Mér finnst það ljótt að fyrirtæki skuli ekki taka tillit til neins, þeim er alveg sama og hugsa bara um peningana.“
Spila upp í tjónið
Þrátt fyrir þessar hrakningar er mikill hugur í hljómsveitarmeðlimum sem eru staðráðnir í að láta ljós sitt skína við strendur Adríahafsins. „Þau eru algjörlega til í þetta. Enda rosalega spennandi að fá að fara á svona framandi staði og fá tækifæri til að spila tónlist úti við án þess að vera í regnstakk. Þau eru búin að leggja svo mikið á sig fyrir þessa ferð og það var ekki hægt að taka þetta af þeim.“
Vilborg segir að erfiðlega gangi að styrkja starfsemi sem þessa og til að bæta upp tjónið sé hópurinn tilbúinn til að taka að sér hvers konar verkefni. „Lúðrasveitin vill gjarnan spila sem víðast og öll verkefni eru vel þegin. Það er bæði hægt að fá alla sveitina og svo er líka hægt að semja um að fá minni hópa. Þau eru búin að vera með þróunarverkefni í gangi og hafa verið að æfa brasilíska karnivaltónlist í allan vetur. Þau eru tilbúin með heljarinnar prógramm sem enginn ætti að verða svikinn af.“
Hljómsveitin Dimma hefur verið óstöðvandi undanfarið og rennir í eina eldheita og sveitta standandi tónleika í Hard Rock-kjallaranum í kvöld, föstudaginn 31. maí
Dimmu þarf vart að kynna en hún hefur átt vinsældum að fagna undanfarin ár. Um áramótin gekk Egill Rafnsson trommuleikari til liðs við meðlimi sveitarinnar, þá Stebba Jak, Ingó og Silla Geirdal, en þeir stefna að því að taka upp nýja plötu á árinu.
Húsið verður opnað klukkan 21. Hægt er að nálgast miða á Tix.is.
Skráning Heimavalla, stærsta leigufélags landsins, á markað hefur ekki gengið sem skyldi. Lítill áhugi hefur verið á félaginu hjá lífeyrissjóðum landsins, það hefur sætt gagnrýni fyrir áhrif sín á húsnæðismarkað og ómögulegt hefur reynst að losna undan arðgreiðslubanni með því að klára endurfjármögnun.
Vegna þessarar stöðu reyndu nokkrir stórir hluthafar að afskrá félagið án þess að yfirtökuskylda hefði myndast. Kauphöll Íslands stóð hins vegar í vegi fyrir því og bar fyrir sig minnihlutavernd.
Ýmsir aðilar í viðskiptalífinu, meðal annars hluthafar í Heimavöllum, telja að mögulega hafi verið annar grundvöllur fyrir afskráningarvegferð stórra hluthafa en slæmt gengi á markaði. Þar staldra margir við mjög ítarlegt verðmat sem Arctica Finance, sem sá um afskráningarferlið, gerði á Heimavöllum. Um var að ræða langítarlegasta verðmat sem gert hefur verið á félaginu.
Virði Heimavalla miðað við markaðsvirði í dag er í kringum 13 milljarða króna. Það þýðir að skráður markaður verðmetur félagið á því verði. Eigið fé Heimavalla, munurinn á bókfærðum eignum og skuldum er hins vegar mun hærri tala eða 18,9 milljarðar króna. Og samkvæmt verðmatinu er virði Heimavalla talið vera 27 milljarðar króna.
Kynlíf er eðlilegur, heilbrigður og skemmtilegur hluti af lífi hinna fullorðnu. Og það að laðast kynferðislega að maka sínum og ná vel saman með honum í rúminu skiptir auðvitað máli í sambandi. En þarfir fólks geta verið misjafnar og það sem einum finnst nóg finnst kannski öðrum of lítið. Er hægt að stunda of mikið kynlíf? Er eitthvað sem telst eðlilegur fjöldi þegar kemur að skiptunum sem það er gert?
„Hversu oft er of oft?“ spurði vinkona mín þar sem við biðum eftir matnum okkar á veitingastað fyrir stuttu. Nú er hún búin að vera í sambandi í rúm tvö ár eftir að hafa verið einhleyp í langan tíma og finnst kærastinn í aðeins of miklu stuði. Fyrir kynlíf.
„Hann vill stunda kynlíf á hverju kvöldi. Hverju einasta kvöldi,“ sagði hún með þungri áherslu. „Er það bara eðlilegt? Eftir rúmlega tveggja ára samband? Ég meina, þetta var auðvitað æðislegt til að byrja með en núna væri ég stundum, ókei, reyndar oft, til í að fara bara að sofa án þess að þú veist … Gera það …“ Hún hallaði sér svo fram á borðið þar sem hún hvíslaði: „Og hann vill alltaf að ég sé að strjúka honum og gæla við hann … Þú veist … Þarna niðri. Jafnvel bara þegar við erum að horfa á fréttirnar.“
„Hann vill stunda kynlíf á hverju kvöldi. Hverju einasta kvöldi.“
Leiksigur í rúminu
Nú veit ég að vinkona mín hefur ekki verið svona hamingjusöm eins og hún er núna í langan, langan tíma. Ég sá það hins vegar á henni og heyrði að þetta endalausa kynlífsbrölt kærastans væri að trufla hana.
„Geturðu ekki einfaldlega sagt að þú sért ekki í stuði? Og að þig langi til að horfa á fréttirnar í rólegheitum?“ spurði ég.
„Nei, ég legg ekki í þann slag,“ svaraði vinkona mín. „Ég er búin að reyna að ræða þetta við hann, að ég sé ekki til í svona mikið kynlíf, en hann varð bara dálítið fúll og hélt að ég væri búin að missa allan áhuga á sér. Þetta varð eiginlega stórmál og lá næstum við sambandsslitum. Hann kastaði því meira að segja fram hvort við ættum þá ekki bara að slíta þessu fyrst ég hefði engan áhuga á sér. En málið snýst náttúrlega ekkert um það. Mér þætti bara fínt að gera þetta svona einu sinni til tvisvar í viku. Ekki á hverju einasta kvöldi. Og stundum á daginn líka reyndar.“ Hún leit á mig og þagnaði um stund áður en hún dæsti og sagði: „Þetta er bara of mikið af hinu góða. Skilurðu mig?“
Vinkona mín sagði svo að hún þættist oft sofa þegar kærastinn kæmi inn í rúm á eftir sér, í þeirri veiku von að hún fengi að sofa í friði frekar en að lenda í rökræðum og koma leiðindum af stað. Ég fullvissaði hana nú reyndar um að hún væri svo sannarlega ekki sú eina sem hefði gerst sek um það. Í hinum ýmsu saumaklúbbum og vinkvennahópum hefur sú umræða margoft komið upp hvernig hefur reynt á leiklistarhæfileikana þegar þær hafa þóst sofa. Ég hef sjálf sýnt leiksigur í þessum efnum; með tilheyrandi þykjustuhrotum og allt.
Má bjóða þér múffu?
Ég verð að viðurkenna að ég gat ekki svarað því hversu oft í viku gæti talist eðlilegt að stunda kynlíf í sambandi en ég sagði vinkonu minni þó hvað mér þætti um viðhorf kærastans. En það er nú efni í annan pistil. Svo stakk ég reyndar líka upp á því að hún gæfi honum svokallaða múffu sem hægt er að kaupa í verslunum sem selja hjálpartæki ástarlífsins. En mér fannst þetta hins vegar áhugaverð pæling: Hversu oft er of oft?
Fjölmargar erlendar rannsóknir hafa verið gerðar á því hversu oft pör eða hjón stunda saman kynlíf. Niðurstöður rannsóknar sem gerð var á tíunda áratugnum sýndu fram á að 40% hjónanna sem tóku þátt í rannsókninni stunduðu kynlíf tvisvar til þrisvar í viku. Skiptunum fækkaði eftir því sem aldur hjónanna hækkaði og lengra var liðið á hjónabandið.
Niðurstöður annarrar rannsóknar, sem gerð var árið 2015, sýndu fram á að hjón voru ánægðari eftir því sem þau stunduðu kynlíf oftar en þó sögðust flestir þátttakenda ekki vilja stunda það oftar en einu sinni í viku. Sem mér finnst dálítið merkilegt og ef til vill gefa vísbendingu um að þátttakendum hafi fundist eitt skipti í viku nóg til að halda hjónabandinu góðu.
Sálfræðingurinn Dr. Barry McCarthy, sem hefur meðal annars skrifað um kynlíf í parasamböndum, segir að það sé heilbrigt að stunda kynlíf með maka sínum einu sinni til tvisvar í viku. Hann segir það eðlilegt að fólk stundi kynlíf oftar þegar það er að kynnast og getur ekki hætt að hugsa um hinn aðilann. Og kynlífið aukist jafnvel fyrst eftir að fólk byrji að búa saman en það sé þó bara tímabundið ástand. Það sé eðlilegt að kynlífið minnki eftir því sem lengra líði á sambandið.
Kynlíf – ekki kvöð
Auðvitað er kynhvötin misjöfn hjá mannfólkinu eins og svo margt annað. Önnur vinkona mín sagði mér til dæmis að hún hefði verið í sambandi með manni sem hún taldi að hefði örugglega verið kynlífsfíkill. Og sér hefði þótt það geggjað. Hann var reyndar líka mjög uppátækjasamur í kynlífinu sem henni fannst sérlega skemmtilegt. En hver veit; sambandið stóð ekki nema í nokkra mánuði og henni fannst þetta gaman á meðan á því stóð. Kannski hefði hún orðið þreytt á öllu þessu kynlífi til lengdar, kannski ekki.
En kynlíf ætti í það minnsta ekki að vera kvöð. Fólk ætti að stunda það af því að það langar, ekki af því að því finnst það neyðast til þess. Sálmeðferðarfræðingurinn Ian Kerner segir að það að stunda kynlíf af miklum móð þurfi ekki að þýða að það sé of mikið af hinu góða, svo lengi sem báðir aðilar njóti þess. Sé það hins vegar svo að annar aðilinn fái meira út úr kynlífinu geti kynlífið breyst í kvöð fyrir hinn.
Það má segja nei
Mýfluga á það til að verða að úlfalda og þess vegna er það með kynlífið eins og flest annað í samböndum; það þarf að ræða. Komast að því hvað hinn aðilinn vill. Hvað hann vill ekki. Og taka tillit. Ekki neyða hann til að gera það sem hann ekki langar. Allir hafa rétt á að segja nei. Líka maki manns. Og það er engin ástæða til að taka því persónulega þótt maki manns segi af og til „nei, ég vil gjarnan fara bara að sofa.“
Kynlíf getur svo sannarlega verið skemmtilegt; það getur bætt og kætt og látið manni líða vel. En ef það gerir ekkert fyrir mann og lætur manni ekki líða vel þá er ólíklegt að áhrif þess séu jákvæð. Þá er betra að sleppa því. Og það er gott að hafa í huga að þegar kemur að kynlífi skipta gæðin en ekki magnið máli.
Sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hafa fallist á að leggja 800 milljónir króna í undirbúning Borgarlínunnar. Samkomulagið hefur verið undirritað af Bæjarstjórn Kópavogs, Reykjavíkur, Garðabæjar og Hafnarfjarðar.
RÚV greinir frá. Samningurinn er gerður með fyrirvara um að sama framlag komi frá ríkinu. Samkomulag að nást milli ríkis og sveitastjórnar um uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu til ársins 2033. Ef að samningar nást mun heildarfjárhæð verkefnisins nema um 1,6 milljarð króna. Tæknilegur og fjárhagslegur undirbúningur borgarlínunnar mun standa yfir næstu tvö ár.
„Uppbygging samgangna á höfuðborgarsvæðinu, stofnbrauta, almenningssamgangna og hjóla- og göngustíga, er afar brýnt viðfangsefni til að ná fram markmiðum um betra umferðarflæði, meira öryggi vegfarenda og til að draga úr mengun á svæðinu,“ segir í bókun sveitarfélaganna. Eins og áður segir veltur þetta á velgengni í samningaviðræðum milli ríkis og sveitarfélaga.
Hvað er Borgarlínan?
Á síðu Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu segir: „Borgarlínan er nýtt samgöngukerfi sem verður hryggjarstykkið í þróun höfuðborgarsvæðisins til ársins 2040 og lykilverkefni í samgöngum á svæðinu. Borgarlínan verður hagkvæm og vistvæn leið til að auka flutningsgetu á milli sveitarfélaganna.”
Leigjendum á Íslandi hefur fjölgað mikið á undanförnum árum og er nú áætlað að þeir séu rúmlega 50 þúsund talsins í um 30 þúsund heimilum. Það þýðir að 16-18 prósent landsmanna sem eru 18 ára og eldri eru á leigumarkaði.
Frá því að reglulegar mælingar á leiguverði hófust árið 2011 hefur leiguverð hækkað um 95 prósent á sama tíma og t.d. húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um 104 prósent.
Fjölmennasti aldurshópurinn sem er á leigumarkaði er 25 til 34 ára og heimilistekjur meirihluta leigjenda eru á bilinu 250 til 800 þúsund krónur á mánuði.
Einungis átta prósent þeirra sem eru á leigumarkaði vilja vera þar samkvæmt könnun á viðhorfi leigjenda sem Zenter vann í fyrrahaust fyrir hagdeild Íbúðalánasjóðs. Þar kom einnig fram að þrátt fyrir að nærri allir leigjendur vilji búa í eigin húsnæði þá telji aðeins 40 prósent leigjenda öruggt eða líklegt að þeir kaupi sitt eigið húsnæði næst þegar skipt er um húsnæði.
Aðeins 57 prósent leigjenda telja sig búa við húsnæðisöryggi miðað við 94 prósent þeirra sem búa í eigin húsnæði. Framboð af íbúðarhúsnæði til leigu sem hentar einstaklingum eða fjölskyldum þykir auk þess lítið, en 79 prósent leigjenda voru sammála um það.
Um 16 prósent leigjenda leigja af leigufélögum sem eru einkarekin og hagnaðardrifin. Þar eru Heimavellir og Almenna leigufélagið stærstu leikendurnir.
Hákon Hákonarson, forstöðumaður Erfðarannsóknamiðstöðvar Barnaspítalans í Fíladelfíu, og teymi hans hafa í samstarfi við Landspítalann hafið rannsókn á arfgengum sjúkdómi hér á landi sem veldur blæðingum í heila. Talið er að hérlendis beri allt að 100 manns stökkbreytt gen sem veldur sjúkdómnum.
Hákon hefur beint sjónum sínum að því að skoða erfðamengi fólks með ákveðna sjúkdóma í því skyni að finna lyf við þeim, ekki til að meðhöndla afleiðingarnar heldur til að ráðast gegn orsökunum. Hann vinnur nú meðal annars að leit að meðferðarúrræðum við arfgengum sjúkdómi, sem stafar af stökkbreytingu í svokölluðu cystatín c-geni sem veldur endurteknum heilablæðingum og skemmdum í heilavef.
Hvað kom Hákoni á sporið? „Það atvikaðist þannig að læknar hér heima höfðu samband við mig vegna einstaklings í fjölskyldu minni sem hafði fengið heilablæðingu. Viðkomandi var með slímsöfnun í lungum og ég ráðlagði notkun ákveðins lyfs, N-acetýlcystein, sem hefur verið notað í um 40 ár og gefið góða raun. Við notkun lyfsins kom svolítið óvænt í ljós; það virtist líka hafa áhrif á þennan arfgenga sjúkdóm sjúklingsins, sem getur valdið súrefnisskorti eða ördrepi í heilavef og í verstu tilfellunum heilablæðingu, en þarna höfðum við ekki hugmynd um að lyfið hefði þau áhrif. Eftir níu mánaða meðferð vildi sjúklingurinn síðan halda áfram að taka lyfið, því hann fann að sér leið vel og átti meðal annars auðveldara með að kyngja.“
„Ætla menn að búa til ofurhuga eða yfirburðaíþróttafólk? Er aðferðin það örugg að hún útiloki að fólk þrói með sér annan sjúkdóm? Siðferðilegi þátturinn er stór.“
Greining var dauðadómur
Því má segja að tilviljun hafi ráðið því að lyf sem nýttist við sjúkdómnum fannst, en Hákon segir að engin önnur meðferðarúrræði hafi þá verið fyrir hendi. Stökkbreytingin í geninu sem veldur þessum sjúkdómi, hafi uppgötvast fyrir nokkrum áratugum og rannsóknir á henni farið fram á Keldum undir stjórn dr. Ástríðar Pálsdóttur sameindalíffræðings, í samstarfi við Íslenska erfðagreiningu og Elías Ólafsson, prófessor í taugalæknisfræði við Háskóla Íslands. Auk þess hafi fleiri læknar komið að rannsóknunum en þær miði að því að skilgreina hvað þessi stökkbreyting geri nákvæmlega. Eftir að hafa rambað á lyf sem nýttist í meðferð við sjúkdómnum, hefur Hákon sjálfur og hans teymi rannsakað stökkbreytta genið og leitað að lyfi sem geti fyrirbyggt sjúkdóminn sem það veldur. Fékk hann blóðsýni frá nokkrum íslenskum fjölskyldum sem eru með stökkbreytta genið og hóf að skoða hvernig það hegðar sér.
„Genið framleiðir prótín, svokallað cystatín c, sem sér um að draga úr virkni ákveðinna bólgumiðla í líkamanum. En í tilviki stökkbreytta afbrigðisins fléttast þetta prótín saman og fellur út í vefjum (nefnist þá mýlildi eða amyloid), til dæmis í slagæðaveggjum heilans, sem verða þá veikari fyrir og veldur það fyrrnefndum heilablæðingum og skemmdum í heilavef. Þegar við áttuðum okkur á þessu fórum við að leita leiða til að koma í veg fyrir að prótínið geti fallið út í vefjum líkamans,“ segir Hákon, en það tók hann og teymi hans um tvö ár að finna rétta lyfið.
Hákon segir að um 25 þekktir sjúklingar á Íslandi séu með stökkbreytta genið, en þeir tilheyra stórum fjölskyldum og því gætu, að hans sögn, verið í kringum 100 manns sem bera það hér á landi. Hann segir að þótt sjúkdómurinn hafi verið þekktur í um 35-40 ár hafi engin meðferðarúrræði fundist og að greinast með hann hafi verið dauðadómur. Það sé nú breytt með tilkomu fyrrnefnds lyfs, sem hann segir lofa góðu. Niðurstöður af notkun þess hafi reynst jákvæðar því uppsöfnun á afbrigðilega prótíninu í vefjum viðkomandi sjúklings minnkaði verulega.
Gæti gagnast fólki með Alzheimer
Aðspurður hvort lyfið geti nýst gegn öðrum sjúkdómum, segir Hákon að mögulega gæti það nýst Alzheimer-sjúklingum líka. „Allt að helmingur sjúklinga með þennan fyrrnefnda arfgenga heilablæðingasjúkdóm fær ekki sýnilega heilablæðingu, heldur hægfara minnisskerðingu sem kemur fram við 30 eða 40 aldur. Sem líkist Alzheimer-sjúkdómi. Ég er sannfærður um að sjúkdómsmyndin í þessum tveimur sjúkdómum sé hliðstæð, sjúkdómsferlið er bara hraðvirkara hjá sjúklingum með arfgenga heilaæðasjúkdóminn vegna stökkbreytta gensins. Lyf sem kemur í veg fyrir að þetta efni (mýlildi eða amyloid) safnist upp í vefjum heilans gæti því mögulega gagnast Alzheimer-sjúklingum. Þetta er nokkuð sem við komum til með að rannskaka í framtíðinni,“ segir hann.
„Maður þarf að hugsa út fyrir boxið“
Hákon hefur almennt í starfi sínu unnið að því að uppgötva erfðaþætti sem orsaka sjúkdóma og finna síðan lyf sem vinna á erfðaþáttunum. „Ég hef verið að vinna að ýmsum verkefnum og gert uppgötvanir sem ég hef getað kannað nánar á rannsóknarstofunni til að skilja áhrif erfðaþátta á myndun sjúkdóma og til að finna fyrirbyggjandi meðferðarúrræði. Þannig beini ég sjónum mínum að orsökum sjúkdóma, ekki bara afleiðingum eins og oft er gert í dag.“
Hann telur erfðaupplýsingar sérstaklega mikilvægar í börnum og segir að því yngra sem barn er þegar sjúkdómur kemur fram því sterkari séu áhrif gena. „Ef barn fær astma eru erfðaþættir sterkari en ef einstaklingur fær sjúkdóminn 25 ára því þá er líklegt að alls konar umhverfisþættir hafi haft áhrif. Rannsóknarteymi mitt hefur aðallega leitast við að nýta erfðaupplýsingar til að finna nýtileg lyf, sem þegar eru til og hafa áður verið reynd til að meðhöndla aðra sjúkdóma, því þá komumst við hjá um 10 árum í þróunarferli. Við erum með fimm svona verkefni í gangi í dag.“
Athyglisbrestur (ADHD) er eitt þessara verkefna, en Hákon hefur unnið að prófun lyfs við honum. Önnur verkefni eru einhverfa, astmi og þarmabólga. „Síðan erum við að fást við sjúkdóm í sogæðakerfi líkamans sem stafar af stökkbreytingu í geni sem veldur því að sogæðar vaxa stjórnlaust og leka vökva, en bráðlega munum við birta grein í virtu vísindariti sem fjallar um þetta. Við fundum nýja meðferð sem hafði aldrei verið lýst áður,“ segir hann og lýsir henni: „Tólf ára drengur sem hafði endurtekið farið í brennsluaðgerðir, lak vökva út um allan líkamann. Lungun fylltust vökva, einnig gollurshúsið sem umlykur hjartað, hann var háður súrefnisgjöf og beið bara eftir því að deyja. Við fundum genið sem orsakaði sjúkdóminn, settum það inn í tilraunadýr, svokallaðan sebrafisk, og reyndum að hemja það með lyfi sem hafði verið þróað sem krabbameinslyf. Meinsemdirnar hurfu algjörlega í fiskinum. Meðferðin hefur reynst árangursrík og drengurinn er farinn að hlaupa um allt. Maður þarf að hugsa út fyrir boxið og spyrja spurninga: Hvernig getum við notað erfðaupplýsingar til að skapa ný meðferðarúrræði.“
Vekur upp siðferðilegar spurningar
Það vekur óneitanlega upp spurningar um siðferðilega þáttinn í erfðavísindum þegar hægt er að fara inn í gen og breyta hegðun þeirra og hafa þannig áhrif á líf og heilsu fólks, oftast til góðs en það er líka hægt í öðrum tilgangi en að lækna ef menn hafa löngun til slíks.
Hákon segir að erfðafræðileg þekking verði sífellt meiri. Þannig hafi frumum úr sjúklingi verið breytt eða þær „editeraðar“ í Pensylvania-háskólanum í Bandaríkjunum með því að setja inn gen sem þekkja ákveðna þætti í krabbameinsfrumum og leiddi það til þess að þær frumur réðust á krabbameinsfrumurnar og drápu þær. Þetta sé hægt, tæknin sé til staðar. Það veki eðlilega upp siðferðilegar spurningar.
„Ætla menn að búa til ofurhuga eða yfirburðaíþróttafólk? Er aðferðin það örugg að hún útiloki að fólk þrói með sér annan sjúkdóm? Siðferðilegi þátturinn er stór. Þá er aðferðafræðin enn ekki það örugg að hægt sé að útiloka óæskilegar afleiðingar. Ég myndi ætla að um 20 ár séu í þetta komist á lygnan sjó,“ segir hann.
„Hvenær geturðu byrjað?“
En hvernig kom það eiginlega til að íslenskum lækni bauðst að stýra stórri og öflugri erfðavísindastofnun á sviði barnalækninga við Háskólaspítalann í Fíladelfíu?
„Ég starfaði hjá Íslenskri erfðagreiningu þegar mikil framþróun í rannsóknum á fjölgenasjúkdómum átti sér stað,“ svarar Hákon. „Ég hafði stundað sérfræðinám á Barnaspítalanum í Fíladelfíu og fékk í kjölfarið stóran styrk frá Bandarísku heilbrigðisstofnuninni, þannig að ég var þar með annan fótinn. Ég hélt fyrirlestur um það sem var að gerast á Íslandi, meðal annars um nýja örflögutækni, og sagði að nú væri tækifæri fyrir þá á Barnaspítalanum að verða leiðandi í erfðafræðivísindum á sviði barnalækninga. Mönnum þótti mjög merkilegt það sem við vorum að gera á Íslandi, það voru engir aðrir í heiminum sem gátu gert sambærilega hluti. Á Barnaspítalanum í Fíladelfíu var áhugi á að setja upp slíkt rannsóknarsetur og ég var beðinn um að leiða það starf. Ég setti ákveðnar kröfur sem ég taldi að þeir myndu ekki ganga að, enda var ég í góðri stöðu hjá Íslenskri erfðagreiningu. En eftir fjórar vikur fékk ég símhringingu og mér tjáð að allt hefði verið samþykkt og ég hreinlega spurður: „Hvenær geturðu byrjað?“ Þetta kom mér í opna skjöldu og þarna var eiginlega ekki aftur snúið. Þeir höfðu áhuga á að gera Barnaspítalann í Fíladelfíu leiðandi á heimsmælikvarða á sviði erfðasjúkdóma barna og spurðu hvort ég væri tilbúinn til að leiða það verkefni.“
Staða Íslands sterk í erfðavísindum
Spurður út í stöðu Íslands í heimi erfðavísinda í dag segir Hákon að hún sé sterk, enda hafi Íslensk erfðagreining verið brautryðjandi á þessu sviði á heimsvísu og leiðandi í um 20 ár.
Hann segir að nú séu stórar rannsóknarstofnanir á sviði erfðavísinda í Bandaríkjunum, Bretlandi og víðar að gera hliðstæða hluti og Íslensk erfðagreining. „Kári Stefánsson hefur verið í fararbroddi þannig að staðan á Íslandi er sterk á þessu sviði og hér eru margir mjög hæfileikaríkir vísindamenn. Ísland hefur sérstöðu og þekking okkar á ættfræði fólks hér skapar einstakt tækifæri fyrir erfðarannsóknir. Nema þegar um er að ræða mjög sjaldgæfa sjúkdóma þá erum við of fámenn. Ættfræðigrunnur okkar kemur að gagni við að skilgreina einstaklinga innan fjölskyldna sem gætu borið stökkbreytt gen eins og áðurnefnda cystatín c-genið,“ útskýrir hann.
„… að sjá barn, eins og fyrrnefndan dreng sem bíður eftir að deyja, ná bata er náttúrlega mjög gefandi.“
Á erfðavísindaþingi sem var haldið á Íslandi í vor var stefnt að víðtækri samvinnu til að skilgreina erfðavísa og safna stóru genamengi, 10-15 milljóna einstaklinga frá 30 þjóðum á einn stað. „Þá getum við skapað enn meiri þekkingu til að þróa og allra helst fyrirbyggja að sjúkdómurinn komi nokkurn tíma fram. Það viljum við gera í þessari íslensku arfgengu heilablæðingu, setja börnin á lyf, sem veldur engum aukaverkunum og kemur í veg fyrir að sjúkdómurinn komi nokkurn tíma fram,” segir Hákon.
Það er auðheyrilegt að Hákon hefur gaman af að segja frá og því er ekki úr vegi að spyrja í lokin hvort hann njóti starfsins? „Já, það er mjög gefandi. Til dæmis að sjá barn, eins og fyrrnefndan dreng sem bíður eftir að deyja, ná bata er náttúrlega mjög gefandi,“ segir hann og yfir andlitið færist bros.
Nara Walker sem var dæmd til fangelsisvistar fyrir að hafa bitið hluta af tungu þáverandi eiginmanns síns eftir langvarandi ofbeldi sem hún lýsir í nýjasta tölublaði Mannlífs ætlar ekki að játa sig sigraða fyrir óréttlætinu heldur fara með málið fyrir Mannréttindadómstól Evrópu.
„Fyrir mér er mikilvægt að fara með málið burt frá Íslandi þar sem málið snýst um ofbeldismanninn og það sem ég gerði til að losna undan honum. Næst verður þetta pólitískt og fer að snúast um kerfið og hvernig það tekur á heimilisofbeldi. Ég ætla mér að fara með þetta alla leið vegna þess að ég vil standa með sjálfri mér og standa fyrir réttindum kvenna sem þurfa að búa við ofbeldi á hverjum degi, jafnvel alla sína daga.“
Nara segir að það hafi haft mikla þýðingu fyrir hana þegar fólk kom og sýndi henni stuðning þegar hún var á leiðinni í fangelsi. „Þau voru þarna fyrir mig en líka fyrir alla sem búa við heimilisofbeldi. Þessi stuðningur gerði það ekki eins erfitt að ganga þarna inn og fyrst eftir að ég kom inn þá upplifði ég ákveðna kyrrð sem var skrítin tilfinning. En að vakna í fyrsta sinn í fangelsi var mjög erfitt enda er ég haldin áfallastreituröskun eftir allt sem á undan er gengið. En ég sé mig ekki sem glæpamann og ég trúi því að það sem ég gerði hafi verið að verja rétt minn til lífs. Ég valdi að lifa og fyrir það var mér refsað.
Í dag er ég enn að taka út minn dóm en ég ætla líka að halda áfram minni baráttu fyrir réttlæti fyrir mig og allar konur. Þegar ég hef unnið mína baráttu kemur næsta kona og berst fyrir því sama og þannig koll af kolli, því það er það sem við konur höfum verið að gera, þannig munum við að endingu sigra þetta óréttlæti.
Þetta hefur verið skelfileg lífsreynsla sem hefur breytt mér vegna þess að ég hef séð slíkt myrkur í heiminum en það sýnir mér fram á að það getur líka verið svo miklu meira ljós. Þegar manni er kastað svona inn í myrkrið og lifir það af er það vegna þess að maður sér ljósið. Sér vonina.“
Leik- og söngkonan Thelma Hrönn Sigurdórsdóttir leikur Báru hafmeyju í glænýju verki Leikhópsins Lottu sem sýnt verður um land allt í sumar. Sýningunni er ætlað að vekja fólk til umhugsunar um allt ruslið sem það hendir út í náttúruna.
„Verkið í ár heitir Litla hafmeyjan og við fléttum söguna saman við ævintýrið um Hlina kóngsson. Leikritið er samið með það í huga að vekja fólk til umhugsunar um ruslið sem það fleygir frá sér, hafmeyjurnar eru jú að drukkna í öllu þessu sorpi sem fleygt í sjóinn,“ segir Thelma sem fer með hlutverk Báru hafmeyju í verkinu. „Hún er mikill kvenskörungur, sterk, hvatvís og hugrökk stelpa.“ Þetta er í annað sinn sem Thelma tekur þátt í uppsetningu hópsins, byrjaði síðasta sumar í Lottu í leikritinu Gosa.
„Undirbúningurinn hefur gengið afar vel, leikritið er reyndar flóknara en sýningar sem Lotta hefur áður sýnt. Við erum yfirleitt öll á sviðinu á sama tíma, því þó að áhorfendur sjái bara tvær hafmeyjur að synda í hafinu á sviðinu, er restin af leikarahópnum skríðandi á hnjánum að reyna að láta þær líta vel út. Það getur verið ansi snúið að vera fastur í sporð á sviðinu og þurfum við mikla aðstoð. Það er mikið um lyftur og áhættuatriði í sýningunni og skiptir máli að hver aðili sé á réttum stað. Einu sinni datt ég á allan leikarahópinn úr hæstu lyftunni en sem betur fer var það á æfingu og við látum það ekki gerast aftur,“ segir hún brosandi.
Sjá um allt sjálf
Thelma er menntuð í sviðslistum og starfar aðallega sem söngkona. Áður en hún tók til starfa með leikhópnum Lottu lék hún í Þjóðleikhúsinu og hjá MAK, Menningarfélagi Akureyrar. „Munurinn á þessum leikhúsum og Lottu er auðvitað sá að við gerum allt sjálf, sex leikarar og leikstjóri, en í leikhúsinu eru tugir manns á bak við hverja sýningu og leikari er bara leikari, ekki markaðsfulltrúi, sviðsmaður, hljóðmaður, sviðshönnuður, starfsmaður í miðasölu, sætavísir, bílstjóri og svo framvegis. Sem betur fer erum við með búningahönnuð því ég gæti engan veginn saumað með mína tíu þumalputta,“ segir Thelma.
„Næstu mínúturnar fóru þá í að koma í veg fyrir að blóð færi á leikmynd og búninga.“
„Við sjáum um allt sjálf – setjum upp leikmyndina, undirbúum leikmuni, gjöllum til að láta fólk vita að við séum mætt á svæðið, seljum í sjoppunni og tökum á móti áhorfendum. Síðan kemur loksins að því að leika sjálfa sýninguna og eftir hana viljum við auðvitað tala við flesta og gefa fimmur eða taka myndir. Eftir það þarf svo að gera upp, taka niður leikmyndina og raða aftur í kerruna. Þetta er mikil vinna en við reynum að vera skipulögð og halda vel á spöðunum. Það er mikill kostur að fá að ferðast um landið og heimsækja falleg bæjarsvæði og kaupstaði. Auðvitað væri ég helst til í að taka fjölskylduna alltaf með, en stundum er svo brjálað að gera hjá okkur að það er bara ekki hægt, en það kemur fyrir að við getum boðið fjölskyldum okkar með okkur og þá er þetta alveg hreint dásamlegt.“
Veðrið hefur mikil áhrif
Henni finnst sýningarform Leikhópsins Lottu afar skemmtilegt enda sé engin sýning eins, undirlag ólíkt og veðráttan sjái til þess að þau þurfi að meta hverjar aðstæður fyrir sig.
„Nefnd innan hópsins sér til þess að hver sýning verði sem best. Hún ákveður nákvæma staðsetningu á grasinu og hvernig við snúum, undirlagið þarf jú að vera sem sléttast og sólin má ekki skína beint í augun á áhorfendum. Veðrið skiptir auðvitað svakalega miklu máli og er einn Lottumeðlimur skipaður veðurfræðingurinn og er í beinu sambandi við veðurguðina. Veðrið getur haft töluverð áhrif á sýninguna en á sólardögum fyllist dalurinn og áhorfendasvæðið og þá þarf að gera ráð fyrir fjöldanum og poppa nóg og mikið. Síðan á rigningardögum þurfum við að passa upp á rafmagnið og fleira sem við viljum ekki að blotni.“
Í öllum hamaganginum getur síðan eitt og annað komið upp á. „Á sýningu um daginn gaf Sævar, bróðir Báru hafmeyju, henni einn á hann þegar hann ætlaði að veifa höndinni aðeins. Næstu mínúturnar fóru þá í að koma í veg fyrir að blóð færi á leikmynd og búninga,“ segir hún hlæjandi.
Höfundur Litlu hafmeyjunnar er Anna Bergljót Thorarensen en þetta er níunda verkið sem hún skrifar fyrir hópinn. Hún semur einnig lagatexta ásamt Baldri Ragnarssyni og er leikstjóri sýningarinnar. Lögin eru eftir Björn Thorarensen, Rósu Ásgeirsdóttur og Þórð Gunnar Þorvaldsson, dansar eftir Berglindi Ýri Karlsdóttur og búningahönnun er í höndum Kristínu R. Berman. Leikarar ásamt Thelmu eru þau Andrea Ösp Karlsdóttir, Árni Beinteinn, Sigsteinn Sigurbergsson, Stefán Benedikt Vilhelmsson og Þórunn Lárusdóttir. Nánari upplýsingar eru á heimasíðunni leikhopurinnlotta.is.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar Erfðagreiningar, segir í viðtali á Kjarnanum að af viðbrögðum Klaustursþingmanna að dæma séu þeir virkir alkóhólistar. Hann leggur til að Alþingi bjóði þingmönnum upp á meðferð. Ummæli Kára, „Viðbrögð þeirra við gagnrýninni endurspeglar alkóhólisma,“ eru ein af sleggjum vikunnar sem Mannlíf tók saman.
„Það má ljúga, stela og klæmast í þinginu en það má ekki segja að þingmenn steli, ljúgi og klæmist. Það er kjarninn í nýjasta úrskurði siðanefndar þingsins og ákvörðun þingforseta um hvaða málum beri að vísa þangað og hvaða málum ekki.“ Þóra Kristín Ásgeirsdóttir.
„Ég átta mig ekki alveg á þessu. Er þetta svona óþægilegt að þegar við komum upp í pontu að forseti telur bara ástæðu til þess að stoppa okkur hérna í miðjum ræðum?“ Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, ósátt við að forseti Alþingis, Steingrímur J. Sigfússon stöðvi þingmenn Pírata í ræðum sínum.
„Þegar um er að ræða liðinn óundirbúnar fyrirspurnir og háttvirtir þingmenn hafa beðið um orðið til þess að spyrja tiltekinn ráðherra spurninga þá ber þeim að gera það. En ekki nota meirihlutann eða helminginn af sínum ræðutíma í árásir á aðra flokka.“ Steingrímur J. Sigfússon.
„Meirihlutinn í borginni hótar enn hærri sköttum vegna umferðartafa sem hann bjó sjálfur til.“ Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, gagnrýnir meirihlutann í borginni fyrir að íhuga að leggja veggjöld á bíla.
„Þó það sé gaman að fá sér stundum koníak er þetta eitthvað annað.“ Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, gagnrýnir slæma stöðu heilbrigðisþjónustu í dreifðari byggðum, í tilefni fréttar Mannlífs um erfiða stöðu í heilbrigðisþjónustu á Borgarfirði eystra þar sem sjúklingur var deyfður með koníaki.
„Búinn að átta mig á því að hjólreiðamenn sem vilja og geta hjólað í vinnuna er skæðasti sértrúarsöfnuður á Íslandi. Fjölmiðlafulltrúinn er @gislimarteinn og hann vinnur að því frítt í dag (var í borgarstjórnar í því starfi á sínum tíma). Note to self: ekki bögga hjólreiðafólk aftur.“ Sigmar Vilhjálmsson, athafnamaður sendir Gísla Marteini aftur tóninn á Twitter en þar hafa þeir eldað saman grátt silfur um nokkurt skeið.
„Í huganum hef ég matreidd kjötstykki með arseniki en því miður veit ég ekki hvar ég get fengið slíkt til að gæða hundkvikindunum á.“ Fjölmiðlamaðurinn Guðni Már Henningsson þolir ekki geltið í hundum nágrannans á Kanarí þar sem hann býr nú og hefur íhugað að eitra fyrir þeim.
Nokkur bakstursráð sem ættu að koma að góðum notum.
Það er gott að vita að deig flokkast í megindráttum í þrjá flokka.
Hrært deig þar sem byrjað er á því að hræra mjúkt smjör og sykur saman.
Þeytt deig en þá eru egg og sykur þeytt þar til það verður ljóst og létt.
Hnoðað deig þar sem hveiti og smjör er mulið saman og vökvi hnoðaður saman við það.
—
Þegar þið lagið þeytt deig, þ.e. deig þar sem byrjað er á því að þeyta egg og sykur vel saman, er gott að nota egg sem eru við stofuhita. Froðan verður miklu loftmeiri og kakan léttari. Ef þið eruð í tímahraki er ráð að leggja þau í heitt vatn úr krananum í skál í 5 mínútur.
—-
Góðir bakarar nota gjarnan fleiri en eitt ráð þegar kemur að því að athuga hvort kakan er bökuð eða ekki. – Hvernig kakan lítur út, hvernig hún lyktar og hvernig hún er viðkomu.
Ofnar eru til dæmis misjafnir. Byrjið á að athuga hvernig baksturinn á kökunni gengur 7-8 mínútum áður en baksturstímanum ætti að vera lokið. Kakan ætti að vera tilbúin þegar deig festist ekki á prjóni sem stungið er í miðjuna á kökunni. Annað gott ráð er að „hlusta“ á kökuna. Þegar kemur að lokum bökunartíma hættir hviss-hljóðið að heyrast í kökunni. Flestar kökur losna líka aðeins frá börmunum þegar þær eru tilbúnar.
—-
Stundum á maður ekki stærðina á forminu sem gefin er upp í uppskriftinni. Þá þarf að hafa í huga að ef stærðinni er breytt, breytist bökunartíminn á kökunni. Stærra form getur þýtt skemmri bökunartími og minna form lengri tíma.
—-
Passið vel að skálin sem á að þeyta eggjahvíturnar í sé alveg tandurhrein. Smáarða af fitu í skálinni getur orðið til þess að hvíturnar stífna ekki. Eggjahvítur verða að vera alveg aðskildar frá rauðunum, smávegis af rauðu getur eyðilagt allt. Best er að aðskilja egg sem eru köld úr ísskáp, þá er rauðan afmarkaðri frá hvítunni og betra að aðskilja þau.
—-
Uppskriftin kallar á mjúkt smjör og smjörið er glerhart í ísskápnum. Gott ráð er að raspa það á rifjárni eða sneiða með ostaskera það magn af smjöri sem þarf í uppskriftina.
—-
Það er mikilvægt að lesa alla uppskriftina yfir áður en byrjað er að baka. Síðan skuluð þið taka allt til sem á að fara í uppskriftina. Sumum finnst gott að raða hráefninu upp í þeirri röð sem á að nota það. Farið síðan yfir tímann sem gefinn er í baksturinn. Það er ekki gaman að lenda í tímaþröng og kakan ekki tilbúin í ofninum.
—-
—-
Fyrir þá sem vilja ná sem bestum árangri í bakstrinum er ekki alveg sama hvernig hveiti er notað í kökur. Það er um að gera að kynna sér hinar mismunandi tegundir. Létt hveiti sem inniheldur lyftiefni er til dæmis það sem er best að nota í bakstur á fínni kökum.
—-
Margir eru óöruggir með hvaða rim kakan á að vera í ofninum (þ.e.a.s. þegar ekki er notast við blástursofn). Reglan er sú að allar kökur t.d. formkökur sem bakast við vægan hita 175°C eða minna, bakast á neðstu rim. Bökur eru líka bakaðar á neðstu rim svo botninn bakist vel og allar kökur sem eru með sykraðan yfirflöt. Brauð sem eru lengi í ofninum eru oftast bökuð neðarlega í ofninum en brauðbollur á miðrim. Aðrar kökur sem eru bakaðar við hærri hita og eru 30 mínútur eða skemur í ofni er best að baka í miðjum ofni. Ef þið eruð óörugg er ráð að fylgjast vel með kökunni og breiða álpappír yfir hana, ef hún er að dökkna of mikið.
Betri er krókur en kelda
Oft er þægilegt að stytta sér leið í eldamennsku eða við bakstur en stundum borgar það sig þó alls ekki. Eitt af því sem fólk ætti alls ekki að sleppa er að fóðra form með bökunarpappír. Best er að smyrja formið vel t.d. með smjöri eða bragðlítilli olíu og setja síðan bökunarpappírinn ofan á. Þetta er ekki eins flókið og það hljómar. Hér eru tvær skotheldar leiðir til að klæða bæði aflöng form og smelluform.
Skepna fagnar útgáfu plötunnar Dagar Heiftar og Heimsku í Lucky Records í dag, laugardaginn 1. júní klukkan 16.
Platan verður látin rúlla á staðnum og verða léttar veitingar í boði Borg Brugghús. Skepna stígur svo á stokk og spilar nokkur lög en platan verður til sölu á disk og vínylplötu sem sveitin áritar. Gleðin hefst klukkan 16 eins og fyrr segir og er ókeypis inn.
Formlegir útgáfutónleikar verða svo haldnir á Hard Rock 14. júní.
Það hefur verið áhugavert að fylgjast með þróuninni innan Sjálfstæðisflokksins undanfarnar vikur. Undirliggjandi togstreita á milli frjálslyndra og afturhaldssamra afla innan flokksins hefur verið að koma upp á yfirborðið í tengslum við þriðja orkupakkann og frumvarp um fóstureyðingar. Í þetta skiptið er það hins vegar frjálslyndi armurinn sem hefur ráðið för. Það er ný staða.
Það skín í gegn að þessi hópur fyrrum valdakarla á erfitt með að fóta sig í hinum nýja veruleika, að ný kynslóð áhrifafólks taki ákvarðanir og myndi sér skoðanir án valdboðs eða leiðbeininga frá gamla valdakjarnanum. Gremjan birtist landsmönnum á síðum Morgunblaðsins nánast á hverjum degi. Hér áður fyrr var litið á greinar þessara manna sem ótvíræð skilaboð úr innsta kjarna en í dag eru þær ígildi gamalla karla að öskra á ský. Óþol forystu Sjálfstæðisflokksins gagnvart þessum hópi er sömuleiðis orðið áberandi, samanber ákvörðun formannsins um að birta viðhafnargrein sína í tilefni 90 ára afmælis Sjálfstæðisflokksins í Fréttablaðinu en ekki Morgunblaðinu. Slíkt hefði þótt óhugsandi fyrir einungis nokkrum mánuðum.
Óþol forystu Sjálfstæðisflokksins gagnvart þessum hópi er sömuleiðis orðið áberandi, samanber ákvörðun formannsins um að birta viðhafnargrein sína í tilefni 90 ára afmælis Sjálfstæðisflokksins í Fréttablaðinu en ekki Morgunblaðinu.
Þessi þróun er um margt ánægjuleg enda var Sjálfstæðisflokkurinn orðinn forpokaður og kreddufullur flokkur, svo mjög að hluti hinna frjálslyndu hrökklaðist í burtu yfir í Viðreisn. Maður spyr sig hvað veldur. Annars vegar eru framtíðarleiðtogar flokksins komnir með bullandi sjálfstraust, enda farnir að raða sér í áhrifastöður. Við sjáum meira af Áslaugu Örnu og Þórdísi Kolbrúnu en minna af Ásmundi Friðrikssyni. Sem er vel.
Hins vegar hefur orðið gerjun á hægri vængnum sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur þurft að taka tillit til. Miðflokkurinn hefur, þrátt fyrir nafnið, verið að marka sér stöðu langt úti á hægri vængnum með afar íhaldssömum, popúlískum og þjóðernissinnuðum málflutningi. Framganga Miðflokksmanna í vetur, innan sem utan þings, hefur verið með slíkum ólíkindum að það var óumflýjanlegt að Sjálfstæðisflokkurinn myndi vilja fjarlægja sig frá honum með áberandi hætti.
Þessi sinnaskipti vita á gott fyrir framhaldið enda líklegt að einn flokkur mun halda áfram að sækja út á jaðarinn, líkt og popúlistar í Evrópu og Bandaríkjunum hafa gert. Því einangraðri sem sá flokkur er, því betra. Það er hins vegar langt í frá að frjálslyndið hafi tekið flokkinn yfir, þrátt fyrir þessa tímabundnu nýju ásýnd. Ef framtíðarleiðtogar flokksins vilja virkilega sýna að þeir standi fyrir frjálslyndi og alþjóðasamvinnu, þá væri ágætis fyrsta skref að þrýsta á um úrsögn úr ACRE, bandalagi hægri manna sem hýsir marga af verstu stjórnmálamönnum Evrópu. Enda lítið frjálslyndi fólgið í því að sitja fundi með Erdogan, Nethanyahu og skoðanabræðrum þeirra.
Gamla þjóðernishyggjan, sósíalisminn og loftslagspólitík spretta úr spori
Úrslit í nýafstöðnum kosningum til Evrópuþingsins gefa enn eina vísbendingu um að miðjan sé að hverfa úr stjórnmálum en fylgi hefur verið að flytjast út á jaðrana til vinstri og hægri. Sama þróun hefur átt sér stað í Bandaríkjunum, Brasilíu og í Ungverjalandi. Skýringuna er að finna í örum samfélagsbreytingum og breyttu dagskrárvaldi fjölmiðla.
„Það blasir við að það hefur átt sér stað pólarisering í stjórnmálunum þar sem jaðrarnir hafa verið að styrkjast. Fyrst með uppgangi þjóðernispopulískra flokka víða í Evrópu og síðan Trump í Bandaríkjunum. Þessir flokkar hafa að mörgu leyti gjörbreytt stjórnmálunum, pólitískri umræðu og flórunni í pólitík álfunnar,“ segir dr. Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst.
Eiríkur segir að síðan hafi þessir flokkar verið að koma upp vinstra megin þar sem einarðir sósíalískir flokkar eru að koma fram á sjónarsviðið. „Einnig frjálslyndir flokkar sem sumir hverjir eru kannski tengdir inn í hina gömlu hefðbundnu miðju en hins vegar birtist pólariseringin á þann hátt að þeir eru enn frjálslyndari en áður var,“ útskýrir hann og tekur Emmanuel Macron, forseta Frakklands, sem dæmi en hann hefur í auknum mæli stillt sér upp sem and-popúlískum. „Hefðbundnu flokkarnir í Frakklandi hrynja og við taka hægri þjóðernissinnar undir forystu Marine Le Pen og mótvægið við það er hinn frjálslyndi Macron.“
Þá segir Eiríkur að í ljósi loftslagsumræðunnar séu Græningjarnir að styrkja sig víða. „Hefðbundnu flokkarnir, eins og hófsamir hægri flokkar og sósíaldemókratar, hafa verið að missa fylgi til þessara flokka. Mesta breytingin hefur verið hjá sósíaldemókrötum sem hafa verið að missa töluvert fylgi yfir til þjóðernispopúlískra hægri flokka. Þannig að það er mikið flot á þessu.“
Margleitari samfélög en áður er ein af skýringunum á þessum sveiflum, að mati Eiríks. „Á 20. öldinni var stefna vestrænna ríkja í sömu átt meira og minna. Enda tók stjórnmálalífið mið af því,“ segir hann og dregur fram að ákveðin samsvörun hafi verið í stjórnmálunum og fjölmiðlum.
„Það blasir við að það hefur átt sér stað pólarisering í stjórnmálunum þar sem jaðrarnir hafa verið að styrkjast.“
„Meginstraumsfjölmiðlarnir römmuðu inn umræðuna, ritstýrðu henni og héldu utan við hana alls konar röddum sem nú hafa komið fram en heyrðust ekki áður. Stjórnmálin á tuttugustu öldinni gengu eftir mjög svipuðum brautum. Síðan gerist það með þessum miklu samfélagsbreytingum sem hafa átt sér stað undanfarin 20 ár, sér í lagi með tækniframförum, að öll samfélagsmyndin verður margslungnari. Fjölmiðlunin verður miklu uppbrotnari og það endurspeglast síðan í stjórnmálunum. Þetta er sama þróunin,“ segir Eiríkur.
Ástandið í Bretlandi er sérstakt að mörgu leyti, að sögn Eiríks, þar sem fylkingar þjóðhyggjunnar og alþjóðasamstarfs sæki báðar í sig veðrið. „Ef skoðaður er uppgangur þjóðernishugmynda í Bretlandi, þá er honum mætt með enn þá meiri alþjóðahugsun hinum megin frá. Þannig að uppgangur beggja afla er eiginlega álíka mikill. Eðli málsins samkvæmt höfum við horft miklu meira á einangrunaröflin enda er þar að finna róttækari breytingu.“
Eiríkur dregur ekki dul á það að svipuð þróun eigi sér stað á vettvangi stjórnmálanna hér á landi þó að birtingamynd hennar sé ekki endilega sú sama. „Við sjáum þessa þróun í uppbroti fjórflokksins sem hafði hér ægivald, naut um 90 prósenta fylgis sem dreifðist á þessa fjóra flokka. Aðrir gátu ekki gert sér miklar vonir um langvarandi stuðning þó svo að fimmti flokkurinn væri oft með inni á þingi. Þetta kerfi er að breytast mjög mikið. Nýir flokkar hafa verið að ryðja sér til rúms, sem ekki eiga þessa rót í tuttugustu öldinni og þessu hefðbundna kerfi. Það er samsvarandi þróun uppi á teningnum í stjórnmálum víðast hvar þó að birtingarmyndin geti verið ólík frá einu landi til annars.“
Nara Walker hlaut dóm fyrir ofbeldi gegn þáverandi eiginmanni sínum sem hafði beitt hana ofbeldi í áraraðir. Hún var nýlega látin laus úr fangelsi en býr hér sem réttlaus kona þar sem enn eru 15 mánuðir eftir af skilorðsbundnum dómi hennar. Hún ætlar með mál sitt fyrir Mannréttindadómstól Evrópu og segir lesendum Mannlífs sögu sína.
„Já, það væri gaman því mér líður núna eins og allt mitt líf hverfist um þetta mál,“ segir Nara Walker þegar hún er beðin um að segja frá því hver hún er og hvaðan hún kemur. „Ég er fædd á stað sem heitir Springbrook, bæ sem stendur á óvirku eldfjalli ofan við Gold Coast í Queensland í Ástralíu. Þar ólst ég upp fram yfir sjö ára aldur og það er sannkölluð náttúruparadís þó svo að snákarnir og kóngulærnar séu ekki fyrir alla. Þarna bjó ég ásamt móður minni, systur og föður sem á reyndar fleiri börn sem eru fædd bæði fyrir og eftir hjónabandið með mömmu. Walker er reyndar ekki eftirnafn föður míns heldur stjúpföður vegna þess að faðir minn er ofbeldismaður og við þurftum seinna meir að forðast hann af fremsta mætti. Hann er einn þessari manna sem sjá hvorki sólina né annað fyrir sjálfum sér.“
Nýkomin úr fangelsi
Nara sem verður 29 ára í júlí hefur búið víða um ævina og reynt ýmislegt. Eftir að foreldrar hennar skildu bjó hún á Gold Coast, flutti síðan til Suður-Ástralíu eftir að móðir hennar tók saman við stjúpföður þeirra systra, ferðaðist með þeim um Evrópu um þriggja mánaða skeið, bjó á sveitabæ með þeim þar til þau skildu og eftir það á Sunshine Coast með viðkomu í Brisbane.
Í menntaskóla vann Nara til verðlauna fyrir listsköpun sem hvatti hana til þess að feta braut listarinnar. „Ég fór í listnám með áherslu á málaralist, fór svo til Óslóar með þáverandi kærastanum mínum og var þar í tíu mánuði árið 2010 en sneri aftur til þess að halda áfram með námið. Fólkið hennar mömmu kemur frá Noregi og því fannst mér gaman að kynnast landinu og lífinu þar. Mamma lagði reyndar alltaf áherslu á tengslin við ástralska náttúru og nafnið mitt er komið úr máli frumbyggja og merkir félagi. En eftir að ég kom aftur frá Noregi komst ég að í Griffith University í Brisbane og lauk þaðan BA-námi. Ég var svo á svokölluðu Hounors-ári þegar ég kynntist manninum sem nú er fyrrverandi eiginmaður minn og ástæðan fyrir því að ég er á Íslandi, nýkomin úr fangelsi.“
Nara var dæmd fyrir að bíta hluta af tungu fyrrverandi eiginmanns síns en hefur alla tíð lagt áherslu á að hún hafi ítrekað verið beitt ofbeldi af hans hálfu. Íslenskir dómstólar féllust ekki á að viðbrögð hennar hafi helgast af sjálfsvörn og hlaut hún því átján mánaða dóm, þrjá hefur hún þegar afplánað á Hólmsheiði og inni á Vernd en fimmtán eru skilorðsbundnir.
Byrjaði með brotið andlit
„Þetta byrjaði þannig að hann var að vinna handan götunnar þar sem ég var í háskólanámi og það hræðir mig í dag hvernig hann spilaði með mig frá upphafi. Faðir minn var ofbeldismaður og fyrir vikið er ég útsettari fyrir þessari hegðun og það var eins og hann skynjaði það frá upphafi. Hann vissi nákvæmlega hvernig hann átti að hegða sér. Hann er franskur, hávaxinn, hraustur og sex árum eldri en ég og í dag líður mér eins og ég hafi verið veidd. Hann kunni að spila á veikleika mína og bakgrunn minn og til þess að gera langa sögu stutta endaði það með því að við byrjuðum saman og allt frá upphafi var til staðar þetta sálræna ofbeldi þar sem það var gefið og tekið á víxl og allt snerist um að ná fullri stjórn á einstaklingnum.“
Nara segir að hún hafi ákveðið að slíta sambandinu vegna kærustunnar sem hann átti að auki. Hún vildi ekki vera kona sem gerði annarri konu eitthvað slíkt. „Ég hætti að hitta hann en varð nokkru síðar fyrir því að fótbrjóta mig. Þá kom hann og sagðist vera hættur með kærustunni, vildi aðstoða mig við daglegt líf af því að ég væri meidd, ætlaði að hugsa um mig. Ég hélt ákveðinni fjarlægð við hann en fór svo út með honum þegar ég var laus við gifsið og fór heim með honum en gisti bara á sófanum. Daginn eftir vaknaði ég illa vönkuð í rúminu hans, með skelfilega verki í andlitinu.
Ég hafði ekki verið drukkin kvöldið áður en vaknaði samt þarna og í þessu ástandi og skildi ekki hvað hafði gerst. Ég spurði hann ítrekað en hann fór alltaf undan í flæmingi, laug og bullaði, en þegar ég sagðist ætla að fara að hitta mömmu og fara svo á sjúkrahús þá loksins sagðist hann muna hvað gerðist. Sagði mér að hann hefði verið að bera mig inn í rúm og misst mig á leiðinni. Þannig að ég hef rotast við það og hann bara lagði mig í rúmið með heilahristing. Það hefði getað kostað mig lífið og að endingu fór vinur minn sem er læknir með mig á sjúkrahús og þá kom í ljós brákað kinnbein.“
Lamin til hlýðni
Nara segir að á þessum tímpunkti hafi hún verið komin í ofbeldissamband án þess að gera sér grein fyrir því. Eftir því sem leið á sambandið og síðar hjónabandið tókst eiginmanninum að herða tökin og Nara rekur fjölmörg dæmi um það hvernig ofbeldið stigmagnaðist. „Það var andlegt, líkamlegt og kynferðislegt en alltaf var þetta mér að kenna samkvæmt hans bókum. Þetta var vítahringur sem var erfitt að rjúfa og hélt áfram í gegnum allt okkar samband. Hann gætti þess að einangra mig alltaf frá því tengslaneti sem ég myndaði. Við fluttum alltaf á sex mánaða fresti og svo lofaði hann í sífellu að sjá um fjármálin og annað slíkt svo ég gæti sinnt listinni en stóð misvel við þau orð.
Það sem mér hefur þó þótt hvað erfiðast að horfast í augu við er kynferðisofbeldið sem hann beitti mig. Það hófst oft þegar ég var sofandi og varð sífellt grófara. Það getur verið erfitt fyrir konur í núgildandi samfélagsgerð að átta sig á því hvað er ásættanlegt. Í samfélagi sem segir þér að þú eigir að veita manninum þínum ánægju þá er erfitt að játa fyrir sjálfri sér að hann nauðgar þér. Nánd og kynlíf er fyrir báða aðila – þú ert ekki þarna svo hann geti lokið sér af þegar honum hentar. Að viðurkenna fyrir sjálfum sér hvað hefur gerst er erfitt því maður upplifir sig sem einskis virði. Að endurheimta eigið virði tekur tíma en það er hægt með því að horfast í augu við að það var hann sem gerði þér þetta.
Fyrrverandi eiginmaður minn bar enga virðingu fyrir mér, ég sé það núna, hann bara gerði við mig það sem hann vildi, þegar hann vildi. Ef ég sætti mig ekki við það þá var ég lamin til hlýðni með einum eða öðrum hætti.“
Hin auðmjúka sjálfsvörn
Nara segir að framan af sambandinu hafi hann verið lúmskari og beitt hana oft ofbeldi og nauðgunum í svefni eða með því að byrla henni lyf. Þegar þau gengu í hjónaband versnaði ástandið til mikilla muna. „Þá byrjaði hann fyrir alvöru að berja mig. Það var annað skref í því að gera mig veikari fyrir, rétt eins og að flytja úr landi, því þar með leit hann endanlega á mig sem sína eign.
Þegar mér fór að vegna vel í minni listsköpun og fékk að sýna á mikilvægum og stórum stöðum á borð við Hong Kong, Feneyjar og víðar, lagði hann sig líka fram um að eyðileggja það. Slíkt var ógn við vald hans yfir mér og því mikilvægt fyrir hann að rjúfa allt sem gæti falið í sér að ég fengi aukna sjálfsvirðingu og innri styrk.“
Nara kom fyrst til Íslands í lok október 2016, þegar hún bjó í Bretlandi en eiginmaður hennar þáverandi fékk vinnu hjá stóru fyrirtæki á Íslandi. Hann hefur viðurkennt að áður en hann fór til Íslands barði hann hana inni á heimili þeirra í Englandi þar sem þau bjuggu um borð í báti. „Hann reif mig upp og henti mér þvert yfir herbergið svo ég lenti á vegg. Þar hélt hann mér og barði mig í kviðarhol og brjóst og sparkaði svo hurðina niður þegar hann fór út. Ég lá eftir í áfalli og gat ekki hreyft mig í svona tíu mínútur. Þegar ég kom út var hann að fara af stað með bátinn og þá sagði ég bara: „Hæ!“ eins og ekkert hefði gerst. Var bara auðmjúk og voða góð við hann en samt hélt hann áfram að hella úr skálum reiði sinnar yfir mig og ég fór til Íslands með honum.
Þetta er auðvitað ekkert annað en sjálfsvarnarmekkanismi. Höfnun á því að það sé verið að beita mann ofbeldi og aðferð til þess að reyna að koma í veg fyrir að það gerist aftur. Vandinn er að ofbeldið á bara eftir að verða verra þar til vítahringurinn rofnar en það getur líka kostað þolandann lífið og gerir það í fjölmörgum tilvikum um allan heim á hverjum degi.“
„Sannfærð um að hann myndi drepa mig“
Nara er fær um að lýsa fjölda atvika þar sem fyrrverandi eiginmaður hennar beitti hana hrottalegu ofbeldi. Alltaf gætti hann þess þó að berja hana í brjóst- og kviðarhol svo áverkarnir væru síður sýnilegir en það sem er einkum sláandi eru lýsingar hennar á því hvernig hann gætti þess að horfa í augun á henni meðan á barsmíðunum stóð. Þessi frásögn er henni allt annað en auðveld og erfiðast af öllu er að ræða kvöldið sem leiddi til þess að hún hlaut fangelsisdóm á Íslandi.
„Helgina fyrir atvikið höfðum við farið út á lífið, hittum bandarískan ferðamann, spjölluðum við hann í fimm mínútur og hann fór að fylgja mér á Instagram. Sendi mér svo skilaboð á þriðjudeginum til að forvitnast um hvað væri að gerast í bænum og ég sagði honum að Airwaves væri í gangi og fullt af tónleikum. Í framhaldinu fórum við maðurinn minn út og hittum Bandaríkjamanninn og íslenska konu sem ég leit á sem sameiginlega vinkonu okkar hjóna. Hún hafði verið að vinna með manninum mínum en mér finnst líklegt að þau hafi þá þegar átt í sambandi þegar ég var ekki á landinu og að auki snerist þeirra samband talsvert um eiturlyf og neyslu, eitthvað sem er þeirra en ekki mitt.
Við fórum á tvo bari og vorum að drekka bjór en ég tók eftir því að hún var mjög agressív gagnvart mér sem hún hafði reyndar verið um tíma. Hann ætlaðist til þess að við værum vinkonur, enda var hún alltaf heima hjá okkur, en á þeim tíma leit ég á þeirra samband sem vináttu. Hún átti eftir að ljúga fyrir rétti fyrir hann og ég hefði átt að kæra hana fyrir líkamsárás en í mínum huga var hún fyrst og fremst næsta fórnarlamb hans.
Þegar við komum aftur í íbúðina voru maðurinn minn og íslenska konan að kyssast eins og þau höfðu verið gera fyrr um kvöldið. Það angraði mig satt best að segja ekki, það finnst kannski einhverjum skrítið, en fyrir mér var það bara koss og ég var búin að ákveða að skilja við hann hvort eð var. Ég hafði svo sem séð slíka tilburði hjá honum áður, ég hef séð hann hafa kynmök við annað fólk og hef þá yfirgefið herbergið. En þarna um kvöldið brást ég þannig við að ég kyssti Bandaríkjamanninn, það var svona ég að sýna honum að ég gæti alveg hagað mér svona en svo hætti ég því til þess að verða ekki lamin og við vorum bara að spjalla.
En svo sáum við að maðurinn minn og þessi íslenska kona voru nánast farin að stunda kynlíf en í fötunum inni í stofu. Bandaríkjamaðurinn sagðist bara ætla að fara þannig að ég sagðist líka ætla að fara, vildi ekki vera hluti af þessu. Þá varð allt vitlaust.
Maðurinn minn varð brjálaður. Hann átti mig og óttaðist að ég ætlaði að fara með Bandaríkjamanninum sem ég ætlaði alls ekki að gera. Ég vildi bara ekki vera þarna.
Maðurinn minn og konan voru stöðugt að öskra á mig einhverjar svívirðingar og ég man að ég horfði á hana og furðaði mig á því af hverju hún væri að standa í þessu. Íbúðin sem við vorum í var á hæðum og á einhverjum tímapunkti stóðu maðurinn minn og Bandaríkjamaðurinn frammi á stiganum og þá skyndilega ýtti maðurinn minn honum þannig að hann kútveltist niður stigann, niður á næstu hæð. Seinna kom fram í áverkaskýrslu að hann var með alvarlega áverka eftir þetta.
Ég fríkaði út þegar ég sá þetta. Maðurinn minn hljóp á eftir honum og stóð yfir honum og hann er stór og sterkur. Ég reyndi að beina athygli hans að mér svo að hann héldi ekki áfram að meiða hann og þá komst Bandaríkjamaðurinn undan. Maðurinn minn byrjaði að hrinda mér harkalega og það kemur fram á áverkaskýrslunni að ég var með áverka á brjósthrygg og brákað rif sem ég held að hafi gerst þarna. En málið er að ég var sannfærð um að nú myndi hann drepa mig.
„Hann starði inn í sálina á mér. Ég hef aldrei orðið eins hrædd og ég gat ekkert gert, leið skyndilega eins og ég væri utan eigin líkama.“
Hann starði inn í sálina á mér. Ég hef aldrei orðið eins hrædd og ég gat ekkert gert, leið skyndilega eins og ég væri utan eigin líkama. Horfði á allt gerast eins og fluga á vegg. Síðan byrjaði hann að berja mig í brjóst og kviðarhol á meðan hann horfði í augun á mér. Að hverju var hann að leita í augunum á mér? Eigin virði?“
Færð í handjárn
„Ég gat ekki andað. Hann tók mig upp og lagði mig á sófann sem er á neðri hæðinni inni í íbúðinni sem er á tveimur hæðum. Hún var þarna líka og hann stóð yfir mér á meðan ég var að reyna að ná andanum. Það var eins og árásin væri enn í gangi með hann þarna yfir mér og allar þessar hugsanir um hvað hafði gerst. Hugsanir um að hann hefði getað drepið þennan mann. Hugsanir um að hann hefði verið að berja mig og ég myndi líklega ekki lifa þetta kvöld af. Lá bara þarna og reyndi að anda á meðan hann stóð yfir mér og hélt áfram að öskra á mig. Öskra að hann ætti mig.
Skyndilega fann ég adrenalínið flæða um mig í bylgjum og líkamann segja mér að koma mér burt. Þannig að ég stóð loksins upp og reyndi að komast fram hjá honum. Hann greip um upphandleggina á mér, hélt mér fastri og hélt áfram að öskra á mig. Hann er eflaust svona 25 sm hærri en ég og skyndilega hallaði hann sér niður að mér og þvingaði sér á mig. Það var á því augnabliki sem ég beit bút af tungunni á honum.
Ég fann aldrei fyrir tungunni á honum uppi í mér, kannski vegna þess að þau höfðu sett kókaín í drykkina okkar án minnar vitundar og það hefur víst staðdeyfandi áhrif. Ég bara brást við og líkami minn lokaðist, herptist saman, með þessum afleiðingum.
Það var eins og tíminn stæði í stað. Skyndilega rankaði ég við mér og hjartað barðist um á ógnarhraða þar sem ég lá á bakinu á gólfinu og hún sat klofvega ofan á mér öskrandi ókvæðisorð. Ég var skelfingu lostin. Þau voru tvö og bæði miklu stærri en ég. Ég reyndi að ýta henni af mér og við tókumst á. En það sem ég óttaðist mest var hvað hann mundi gera mér á meðan mér væri haldið svona fastri. Ég óttaðist að hann kæmi og kastaði mér fram af svölunum eða eitthvað þaðan af verra.
Loksins náði ég að losa mig en ég komst ekki út fram hjá þeim heldur gat hlaupið upp á efri hæðina og falið mig þar. Ég var í algjöru áfalli. Þau héldu áfram að öskra á mig en hún hringdi í lögregluna. Þegar lögreglan kom var ég grátandi og endurtók mig í sífellu sem er augljóst merki um áfall, jafnvel ég veit það, en samt var ég sett í handjárn og þau tvö færð á sjúkrahús. Ég var færð handjárnuð út í aftursæti lögreglubíls og var í haldi lögreglu að því ég held í fimmtán klukkustundir.“
Hefðu getað orðið mín örlög
Nara sýndi lögreglunni víðtæka áverka á líkamanum sem gátu verið vísbending um innvortis blæðingar en það breytti engu. Að loknu varðhaldinu var svo farið með hana aftur heim til eiginmannsins, vegabréf hennar tekið og hún skilin eftir heimilislaus og án bankakorta því eiginmaðurinn hafði allt slíkt í sinni vörslu. Hún gat sótt einhverjar eigur en gekk síðan sjálf á sjúkrahús undir miðnætti til þess að fá læknishjálp.
„Móðir mín greiddi fyrir gistiheimili og ég borðaði hjá Samhjálp en á sama tíma var ég undir stöðugu áreiti frá honum. Hann sendi mömmu, öllum vinum mínum og sínu eigin samstarfsfólki alls konar vitleysu um mig og gerði allt sem hann gat til þess að einangra mig.
Vegna lögregluskýrslunnar og alls þess sem hann lét frá sér, var ég í hlutverki gerandans. Þurfti að takast á við hugsanir um að þetta væri mér að kenna, að ég hefði ögrað honum og meitt hann. Samt fékk ég að sjá hvað hann skrifaði íslensku konunni daginn eftir þar sem hún sagðist ekki muna hvað gerðist en hann sagði henni bara hvernig þetta var og það var fjarri sannleikanum. Hún lagði áherslu á að ég þyrfti að fara í fangelsi í langan tíma og á stóran þátt í að ég fékk dóm. Hún fékk föður sinn sem er læknir til þess að skrifa áverkaskýrslu eftir að aðrir læknar voru búnir að skoða hana áður. Fékk föður sinn til að votta um áverka sem voru ekki til staðar og þetta sá rétturinn en tók þetta auðvitað ekki til greina. Þetta gerði það að verkum að ég fékk ekki eins þungan dóm og ella. Engu að síður lét rétturinn samt aðrar lygar standa og tók vitnisburð þeirra góðan og gildan.“
Nara segir að hún sé enn að takast á við eftirköstin af því sem gerðist þetta kvöld. Líkamlega, andlega og félagslega en þar sem hún er án réttinda á Íslandi og má enn ekki vinna, getur hún ekki sótt sér þá aðstoð sem hún þarf á að halda. „Ofbeldið sem ég varð fyrir frá honum hefur í dag víkkað út í það sem ég má þola af hálfu kerfisins og frá þessari konu og fjölskyldu hennar. Hún tók þátt í árásinni þetta kvöld frá upphafi, fyrst með orðum en síðar gjörðum, þannig að sem vitni þá stenst auðvitað ekki að hún sé hlutlaus. Hún laug upp á mig við réttarhöldin þar sem hún laug einnig til um samband þeirra tveggja.
„Ofbeldið sem ég varð fyrir frá honum hefur í dag víkkað út í það sem ég má þola af hálfu kerfisins og frá þessari konu og fjölskyldu hennar.“
Hún meira að segja bjó með eiginmanni mínum, þau fluttu saman til London, og á meðan málið var enn fyrir Landsrétti leiddi rétturinn í ljós að þau hefðu logið fyrir Héraðsdómi. Þar með á framburður þeirra ekki að vera aðgreinanlegur. Auk alls þess óhróðurs sem þau létu frá sér á Netinu.“
Nara segir að hún hafi fundið til með þessari konu þrátt fyrir allt, vitandi að hann væri maðurinn á bak við þetta. „Þetta mál snýst um heimilsofbeldi frá a til ö. Það sem raunverulega gerðist var að ég reyndi að yfirgefa manninn sem beitti mig ofbeldi og eins og svo margar konur sem það reyna varð ég fyrir árás. Margar konur eru myrtar þegar þær reyna að fara og ég er viss um að það hefðu getað orðið mín örlög þetta kvöld.“
Rannsókn í skötulíki
Nara þagnar og heldur svo áfram. „Það sem raunverulega gerðist var að í september 2017 var ég loksins búin að átta mig á því að ég yrði að fara frá honum. Á þeim tíma beitti hann mig líkamlegu, andlegu, kynferðislegu og fjárhagslegu ofbeldi. Ég tók þátt í sýningu í Berlín sem framkallaði reynslu mína af heimilisofbeldi frá því þegar ég var barn og þá fann ég hugrekki til þess að segja honum að þetta yrði að hætta. Þá sömu helgi byrlaði hann mér LSD í teið mitt og í framhaldinu tók ég þessa ákvörðun.
Ég var að sýna í Hong Kong og víðar og ræddi þetta við móður mína sem kom með mér í eina af þeim ferðum. Þetta kom henni ekki á óvart því hún hafði átt í bréfaskiptum við hann þar sem þetta ofbeldi kom upp og það var lagt fram til sönnunar við réttarhöldin. Þar játaði hann meira að segja að hafa ráðist á mig og að hafa byrlað mér eiturlyf.
Þetta kom fram við réttarhöldin og þar var hann líka spurður út í að hafa nauðgað mér en eins og ég man svarið þá sagði hann: „Þetta er Nara að láta mér líða illa með nauðganir. Hún er konan mín.“ Hann sagði að ég gerði hann vondan og sýndi horn á höfði með höndunum til útskýringar og annað í þeim dúr sem að mínu mati tók af allan vafa um að hann væri ofbeldismaður. Hann var spurður um atvikið á bátnum og þá svaraði hann að hann hefði einu sinni ráðist á mig. En allt kom fyrir ekki. Ég fékk átján mánaða dóm, sat í mánuð á Hólmsheiði, í tvo mánuði á Vernd og svo standa fimmtán mánuðir eftir skilorðisbundnir.“
Nara bendir á að það sem gerðist þetta afdrifaríka kvöld sé afleiðing heimilsofbeldis en lögreglurannsókninni hafi verið vægast sagt ábótavant. Lögreglan sleppti því að mynda eiturlyf sem stóðu á stofuborðinu, enginn var sendur í lyfjapróf. Þessi kona játar að hafa reykt gras með eiginmanni mínum og að hann hafi sett kókaín í drykkina okkar. Engin rannsókn var gerð á þessu, jafnvel þó að ég hafi farið fram á slíkt og lagt fram lista yfir eiturlyf sem hann átti en það var nokkrum dögum síðar. Lögreglan taldi ekki ástæðu til þess að kanna það nánar.
Á rúmum tveimur vikum léttist ég um níu kíló sem er mikið fyrir smágerða konu eins og mig því þá var ég orðin aðeins 46 kíló. Ég var gerð heimilislaus, því lögreglan sendi frá sér skýrslu þar sem hún segist ekki eiga von á ofbeldi af hálfu mannsins gagnvart mér og þar af leiðandi var ég í raun á götunni. Í lögregluskýrslunni er líka ítrekað tekið fram að ég hafi engin tengsl við Ísland, ég sé það núna að það gerði mig réttlausa sem erlenda konu. En hann hafði tengsl þar sem hann var að vinna hjá stóru íslensku fyrirtæki, sama fyrirtæki og þessi kona hafði verið að vinna hjá og hún er auk þess Íslendingur. Saksóknarinn lagði líka mikla áherslu á að ég hefði engin tengsl við Ísland til þess að það væri lagt á mig farbann.“
Refsað fyrir að velja að lifa
En Nara ætlar ekki að játa sig sigraða fyrir óréttlætinu heldur fara með málið fyrir Mannréttindadómstól Evrópu. „Fyrir mér er mikilvægt að fara með málið burt frá Íslandi þar sem málið snýst um ofbeldismanninn og það sem ég gerði til að losna undan honum. Næst verður þetta pólitískt og fer að snúast um kerfið og hvernig það tekur á heimilisofbeldi. Ég ætla mér að fara með þetta alla leið vegna þess að ég vil standa með sjálfri mér og standa fyrir réttindum kvenna sem þurfa að búa við ofbeldi á hverjum degi, jafnvel alla sína daga.“
„Ég ætla mér að fara með þetta alla leið vegna þess að ég vil standa með sjálfri mér og standa fyrir réttindum kvenna sem þurfa að búa við ofbeldi á hverjum degi.“
Nara segir að það hafi haft mikla þýðingu fyrir hana þegar fólk kom og sýndi henni stuðning þegar hún var á leiðinni í fangelsi. „Þau voru þarna fyrir mig en líka fyrir alla sem búa við heimilisofbeldi. Þessi stuðningur gerði það ekki eins erfitt að ganga þarna inn og fyrst eftir að ég kom inn þá upplifði ég ákveðna kyrrð sem var skrítin tilfinning. En að vakna í fyrsta sinn í fangelsi var mjög erfitt enda er ég haldin áfallastreituröskun eftir allt sem á undan er gengið. En ég sé mig ekki sem glæpamann og ég trúi því að það sem ég gerði hafi verið að verja rétt minn til lífs. Ég valdi að lifa og fyrir það var mér refsað.
Í dag er ég enn að taka út minn dóm en ég ætla líka að halda áfram minni baráttu fyrir réttlæti fyrir mig og allar konur. Þegar ég hef unnið mína baráttu kemur næsta kona og berst fyrir því sama og þannig koll af kolli, því það er það sem við konur höfum verið að gera, þannig munum við að endingu sigra þetta óréttlæti.
Þetta hefur verið skelfileg lífsreynsla sem hefur breytt mér vegna þess að ég hef séð slíkt myrkur í heiminum en það sýnir mér fram á að það getur líka verið svo miklu meira ljós. Þegar manni er kastað svona inn í myrkrið og lifir það af er það vegna þess að maður sér ljósið. Sér vonina.“
Myndir / Aldís Pálsdóttir Förðun / Björg Alfreðsdóttir, alþjóðlegur förðunarfræðingur YSL á Íslandi
Myndbönd og upptökur með hljómsveitinni Vínyl sem naut mikilla vinsælda á Íslandi á tíunda áratug síðustu aldar, hafa aftur litið dagsins ljós en sumt af efninu er óútgefið.
Á tíunda áratugnum var tónlistarlífið á Íslandi afar líflegt og hljómsveitir á borð við Maus, Botnleðju og Kolrössu krókríðandi á meðal vinsælustu sveitanna. Tvíburabræðurnir Kristinn og Guðlaugur Júníussynir voru áberandi á senunni en þeir fóru fyrir rokksveitinni Vínyl ásamt Agli Tómassyni, Arnari Snæ Davíðssyni, Þórhalli Bergmann og Arnari Guðjónssyni.
Maðurinn á bak við tjöldin var kvikmyndagerðarmaðurinn Haraldur Sigurjónsson en hann skaut og vann allt myndefni fyrir sveitina. Tónlistarmyndbönd og tvennir tónleikar fóru í loftið á RÚV og Stöð 2 á árunum 1996 til 1998 en hafa ekki sést síðan þá. Allt endaði þetta ofan í kassa þar til nú, því Haraldur og bræðurnir hafa verið að dusta rykið af efninu og upptökum, sem hafa sumar ekki komið fyrir sjónir almennings áður.
„Það var bara enginn vettvangur fyrir svona hluti þá, svo þetta endaði allt ofan í kassa og inn í geymslu í 20 ár og hefur verið þar til dagsins í dag,“ segir Haraldur um myndböndin. „Þarna inn á milli eru lög með Vínyl sem hafa aldrei komið formlega út, þannig að þetta er algjör fjársjóður.“
Hljómsveitin Vínyll var stofnuð árið 1996 af þeim bræðrum Kristni og Guðlaugi og var með vinsælli sveitum á landinu. Sjálfir segja þeir bræður að þetta hafi verið góður tími og gaman að taka þátt í íslensku tónlistarsenunni enda hafi hún verið fjölbreytt og kraftmikil.
En hvernig varð sveitin eiginlega til?
„Við gerðum eina plötu og vantaði einhverja til þess að spila með okkur „live“, þannig að við fengum Arnar Guðjónson gítarleikara og Þórhall Bergmann hljómborðsleikara til liðs við okkur og spiluðum saman á nokkrum tónleikum, og fyrsta lagið okkar, Hún og þær, rataði í Blossa, kvikmynd leikstjórars Júlíusar Kemp,“ segir Kristinn um upphaf sveitarinnar og bætir við að það hafi orðið nokkur skipti á meðlimum hennar, eins og gengur og gerist, meðal annars hafi Georg Hólm spilað um tíma með henni, en í dag þekki hann eflaust margir sem bassaleikarann í Sigur Rós.
Stundum algjört rugl, en alltaf gaman
Eins og fyrr segir skaut Haraldur og vann allt myndefni fyrir sveitina. Spurður hvernig hafi eiginlega verið að vera eins og fluga á vegg hjá Vínyl og hvort hann hafi alltaf verið með myndavélina á lofti segist Haraldur bara hafa hangið með vinum sínum og því legið beinast við að taka þetta upp.
„Ég hafði átt myndavél í nokkur ár og gert alls konar „stuff“, til dæmis heimildamyndina Ný-rokk í Reykjavík árið 1994 og fylgt eftir sveitum eins og Sororicide, Kolrössu, Stjörnukisa og Pulsunni. Sem sagt hékk með vinum mínum og tók upp slatta á tónleikum, eins og Kóparokki og í Fellahelli og ég hélt þessu bara áfram með Gulla og Kidda.“ Myndbönd með Vínyl og Jetz, sem var annað band sem bræðurnir voru í, urðu fyrstu tónlistarmyndböndin sem hann bjó til en eftir það skellti hann sér í nám í kvikmyndaskóla í New York.
„Það var algjört ævintýri að hanga með bræðrunum, enda með eindæmum skemmtilegir strákar. Stundum var það algjört rugl en það var alltaf gaman og alltaf mikið hlegið. 90’s-tímabilið var bara rosalegt tónlistarlega séð,“ segir hann. „Það voru allir í hljómsveit, fannst manni.“
Nú, þegar myndböndin og upptökurnar eru að koma fyrir sjónir almennings, sumt í fyrsta sinn, er ekki úr vegi að spyrja hvort Vínyll muni koma saman aftur? „Við höfum verið að vinna fullt af efni undanfarið,“ svarar Kristinn, „þ.e. meðlimirnir sem voru í seinni útgáfunni af hljómsveitinni sem starfaði árunum 2002 til 2005, en þá skipuðum við Gulli bandið og Þórhallur Bergmann, Arnar S. Davíðsson og Egill Tómasson. Hver veit nema eitthvað af því efni komi út í framtíðinni,“ segir hann leyndardómsfullur.
Í hverju tölublaði tiltekur Mannlíf þá aðila sem átt hafa góða viku og slæma viku. Að þessu sinni eru það Þórir Sæmundsson og Guðfinna Th. Aðalgeirsdóttir sem komust á blað.
Slæm vika Þórir Sæmundsson
Skipverjarnir á Bíldsey SH uppskáru reiði þjóðarinnar þegar þeir skáru sporð af lifandi hákarli sem hafði flækst í línu þeirra, af einskærum ótuktarskap að því er virðist. Ekki bara uppskáru þeir fordæmingu samborgara sinna heldur fengu þeir að taka sjópokann sinn.
Leikarinn Þórir Sæmundsson átti líka afleita viku því upp komst að hann hafði um árabil haldið úti aðgangi á Twitter undir dulnefninu Boring Gylfi Sig. Uppljóstrunin var síst til þess fallin að auka hróður Þóris sem fyrir tveimur árum var rekinn frá Þjóðleikhúsinu fyrir að senda dónamyndir til ungra stúlkna.
Góð vika Guðfinna Th. Aðalgeirsdóttir
Körfuboltalið KR svo gott sem tryggði sér sjöunda Íslandsmeistaratitilinn í röð þegar þrír af bestu leikmönnunum landsins skrifuðu undir samning um að leika með liðinu á næsta tímabili. KR toppar þó ekki Guðfinnu Th. Aðalgeirsdóttur sem afrekaði eitthvað sem enginn Íslendingur hefur afrekað, að fá heilan tind á Suðurskautslandinu nefndan í höfuðið á sér.
Guðfinna er prófessor í jöklafræði og missti af leiðangri þangað eftir að hún sleit hásin. Erlendir kollegar hennar, sem kölluðu Guðfinnu Tolly, voru þó ekki búnir að gleyma henni og nefndu tindinn Tolly’s Heel og hefur nafnanefnd Suðurskautslandsins samþykkt nafnið.
Undirbúningur fyrir tónleikaferð Skólahljómsveitar Austurbæjar til Króatíu hefur verið lyginni líkastur. Tvö af þeim þremur flugfélögum sem hópurinn átti bókað flug með fóru á hausinn og samskiptaörðugleikar við það þriðja urðu þess valdandi að sú bókun glataðist. Þessi vandræði hafa kostað skólahljómsveitina vel á aðra milljón króna.
Annað hvert ár fer Skólahljómsveit Austurbæjar í tónleikaferð til útlanda og í ár er stefnan tekin á Króatíu dagana 13. til 20. júní. Hópinn skipa 50 ungmenni á aldrinum 13 til 18 ára og verða 10 stjórnendur og forráðamenn með í för. Undirbúningur fyrir ferðina hefur staðið yfir sleitulaust í tvö ár og hafa ungmennin meðal annars selt klósettpappír og annan varning til að fjármagna ferðina. Eins og gefur að skilja ríkir mikil eftirvænting innan hópsins fyrir draumaferðinni.
Það hefur hins vegar reynst þrautin þyngri að koma hópnum á áfangastað. Fyrsta flugfarið til útlanda var bókað í ágúst síðastliðnum með flugfélaginu Primera Air en félagið varð gjaldþrota í október. Blessunarlega var ekki búið að ganga frá neinum greiðslum þannig að næsta mál var að leita tilboða hjá öðru flugfélagi. Fyrir valinu varð WOW air og var bókað flug fyrir allan hópinn til Mílanó á Ítalíu. En WOW air varð líka gjaldþrota og í þetta skiptið slapp skólahljómsveitin ekki svo vel.
„Þegar ljóst var að WOW var fallið vorum við búin að borga 600 þúsund krónur í staðfestingargjald. Það er möguleiki að sækja það úr þrotabúinu seinna meir en eins og staðan er í dag er það ólíklegt og við lítum á þetta sem glatað fé,“ segir Vilborg Jónsdóttir, stjórnandi Skólahljómsveitar Austurbæjar. Eftir fall WOW var farið að leita tilboða hjá öðrum flugfélögum.
„Við fórum að leita að björgunarhring og höfðum samband við Icelandair en svör þaðan bárust seint og í millitíðinni duttum við niður á ágætis tilboð frá Wizz Air sem féll vel að okkar ferðaáætlun og því var ákveðið að stökkva á það.“
Bókunin glataðist vegna misskilnings
Bókað var flug frá Keflavík til Vínar og þaðan átti að keyra til Slóveníu til móts við þarlenda lúðrasveit áður en keyra átti til Króatíu. Bókað var staðfestingargjald upp á 350 þúsund krónur en þegar hópurinn ætlaði að ganga frá lokagreiðslu 30 dögum fyrir brottför kom heldur betur babb í bátinn. „Þá bara finnst engin bókun,“ segir Vilborg. „Þá er þarna pínulítil neðanmálsgrein í plöggunum að það þurfi að vera búið að borga 30 prósent af fargjaldinu 60 dögum fyrir brottför sem er allt öðruvísi hjá öllum öðrum félögum. Venjulega fær maður tilkynningu um slíkt frá flugfélögunum en við fengum ekki neitt og aðilarnir sem sáu um að bóka ferðina sáu ekki þessa neðanmálsgrein.“
Bókunin var því glötuð með öllu og segir Vilborg að þau hjá Wizz Air hafi sýnt stöðu hópsins lítinn skilning. Góð ráð reyndust því ansi dýr. „Við vorum komin í mjög þrönga stöðu því það er mánuður í brottför og við erum ekki með neitt far. Icelandair átti engin sæti handa okkur en Wizz Air bauð okkur að bóka allt upp á nýtt en þá var fargjaldið orðið miklu dýrara og farangursheimildin var minni,“ segir Vilborg en eins og gera sér má í hugarlund er það ekki lítill farangur sem fylgir heillri lúðrasveit. Þeim var því nauðugur kostur einn að ganga að tilboði Wizz Air. „Þegar upp er staðið hefur þetta kostað okkur um það bil 1,3 milljónir. Þetta er bara peningur sem er farinn út um gluggann.“
„Mér finnst það ljótt að fyrirtæki skuli ekki taka tillit til neins, þeim er alveg sama og hugsa bara um peningana.“
Vilborg er allt annað en sátt við samskiptin við ungverska lággjaldafélagið. „Við höfum verið að eltast við þau en þegar þau hafa loksins svarað okkur eftir langa bið vilja þau ekkert gera fyrir okkur. Þau hafa vissulega lögin með sér því þessi neðanmálsgrein er til staðar en maður spyr sig hvort virkilega ekkert sé hægt að gera þegar þú kaupir 60 miða. Við höfum skrifað þeim bréf og útskýrt hvers konar hópur er þarna á ferðinni en það kemur ekkert út úr því. Mér finnst það ljótt að fyrirtæki skuli ekki taka tillit til neins, þeim er alveg sama og hugsa bara um peningana.“
Spila upp í tjónið
Þrátt fyrir þessar hrakningar er mikill hugur í hljómsveitarmeðlimum sem eru staðráðnir í að láta ljós sitt skína við strendur Adríahafsins. „Þau eru algjörlega til í þetta. Enda rosalega spennandi að fá að fara á svona framandi staði og fá tækifæri til að spila tónlist úti við án þess að vera í regnstakk. Þau eru búin að leggja svo mikið á sig fyrir þessa ferð og það var ekki hægt að taka þetta af þeim.“
Vilborg segir að erfiðlega gangi að styrkja starfsemi sem þessa og til að bæta upp tjónið sé hópurinn tilbúinn til að taka að sér hvers konar verkefni. „Lúðrasveitin vill gjarnan spila sem víðast og öll verkefni eru vel þegin. Það er bæði hægt að fá alla sveitina og svo er líka hægt að semja um að fá minni hópa. Þau eru búin að vera með þróunarverkefni í gangi og hafa verið að æfa brasilíska karnivaltónlist í allan vetur. Þau eru tilbúin með heljarinnar prógramm sem enginn ætti að verða svikinn af.“
Hljómsveitin Dimma hefur verið óstöðvandi undanfarið og rennir í eina eldheita og sveitta standandi tónleika í Hard Rock-kjallaranum í kvöld, föstudaginn 31. maí
Dimmu þarf vart að kynna en hún hefur átt vinsældum að fagna undanfarin ár. Um áramótin gekk Egill Rafnsson trommuleikari til liðs við meðlimi sveitarinnar, þá Stebba Jak, Ingó og Silla Geirdal, en þeir stefna að því að taka upp nýja plötu á árinu.
Húsið verður opnað klukkan 21. Hægt er að nálgast miða á Tix.is.
Skráning Heimavalla, stærsta leigufélags landsins, á markað hefur ekki gengið sem skyldi. Lítill áhugi hefur verið á félaginu hjá lífeyrissjóðum landsins, það hefur sætt gagnrýni fyrir áhrif sín á húsnæðismarkað og ómögulegt hefur reynst að losna undan arðgreiðslubanni með því að klára endurfjármögnun.
Vegna þessarar stöðu reyndu nokkrir stórir hluthafar að afskrá félagið án þess að yfirtökuskylda hefði myndast. Kauphöll Íslands stóð hins vegar í vegi fyrir því og bar fyrir sig minnihlutavernd.
Ýmsir aðilar í viðskiptalífinu, meðal annars hluthafar í Heimavöllum, telja að mögulega hafi verið annar grundvöllur fyrir afskráningarvegferð stórra hluthafa en slæmt gengi á markaði. Þar staldra margir við mjög ítarlegt verðmat sem Arctica Finance, sem sá um afskráningarferlið, gerði á Heimavöllum. Um var að ræða langítarlegasta verðmat sem gert hefur verið á félaginu.
Virði Heimavalla miðað við markaðsvirði í dag er í kringum 13 milljarða króna. Það þýðir að skráður markaður verðmetur félagið á því verði. Eigið fé Heimavalla, munurinn á bókfærðum eignum og skuldum er hins vegar mun hærri tala eða 18,9 milljarðar króna. Og samkvæmt verðmatinu er virði Heimavalla talið vera 27 milljarðar króna.
Kynlíf er eðlilegur, heilbrigður og skemmtilegur hluti af lífi hinna fullorðnu. Og það að laðast kynferðislega að maka sínum og ná vel saman með honum í rúminu skiptir auðvitað máli í sambandi. En þarfir fólks geta verið misjafnar og það sem einum finnst nóg finnst kannski öðrum of lítið. Er hægt að stunda of mikið kynlíf? Er eitthvað sem telst eðlilegur fjöldi þegar kemur að skiptunum sem það er gert?
„Hversu oft er of oft?“ spurði vinkona mín þar sem við biðum eftir matnum okkar á veitingastað fyrir stuttu. Nú er hún búin að vera í sambandi í rúm tvö ár eftir að hafa verið einhleyp í langan tíma og finnst kærastinn í aðeins of miklu stuði. Fyrir kynlíf.
„Hann vill stunda kynlíf á hverju kvöldi. Hverju einasta kvöldi,“ sagði hún með þungri áherslu. „Er það bara eðlilegt? Eftir rúmlega tveggja ára samband? Ég meina, þetta var auðvitað æðislegt til að byrja með en núna væri ég stundum, ókei, reyndar oft, til í að fara bara að sofa án þess að þú veist … Gera það …“ Hún hallaði sér svo fram á borðið þar sem hún hvíslaði: „Og hann vill alltaf að ég sé að strjúka honum og gæla við hann … Þú veist … Þarna niðri. Jafnvel bara þegar við erum að horfa á fréttirnar.“
„Hann vill stunda kynlíf á hverju kvöldi. Hverju einasta kvöldi.“
Leiksigur í rúminu
Nú veit ég að vinkona mín hefur ekki verið svona hamingjusöm eins og hún er núna í langan, langan tíma. Ég sá það hins vegar á henni og heyrði að þetta endalausa kynlífsbrölt kærastans væri að trufla hana.
„Geturðu ekki einfaldlega sagt að þú sért ekki í stuði? Og að þig langi til að horfa á fréttirnar í rólegheitum?“ spurði ég.
„Nei, ég legg ekki í þann slag,“ svaraði vinkona mín. „Ég er búin að reyna að ræða þetta við hann, að ég sé ekki til í svona mikið kynlíf, en hann varð bara dálítið fúll og hélt að ég væri búin að missa allan áhuga á sér. Þetta varð eiginlega stórmál og lá næstum við sambandsslitum. Hann kastaði því meira að segja fram hvort við ættum þá ekki bara að slíta þessu fyrst ég hefði engan áhuga á sér. En málið snýst náttúrlega ekkert um það. Mér þætti bara fínt að gera þetta svona einu sinni til tvisvar í viku. Ekki á hverju einasta kvöldi. Og stundum á daginn líka reyndar.“ Hún leit á mig og þagnaði um stund áður en hún dæsti og sagði: „Þetta er bara of mikið af hinu góða. Skilurðu mig?“
Vinkona mín sagði svo að hún þættist oft sofa þegar kærastinn kæmi inn í rúm á eftir sér, í þeirri veiku von að hún fengi að sofa í friði frekar en að lenda í rökræðum og koma leiðindum af stað. Ég fullvissaði hana nú reyndar um að hún væri svo sannarlega ekki sú eina sem hefði gerst sek um það. Í hinum ýmsu saumaklúbbum og vinkvennahópum hefur sú umræða margoft komið upp hvernig hefur reynt á leiklistarhæfileikana þegar þær hafa þóst sofa. Ég hef sjálf sýnt leiksigur í þessum efnum; með tilheyrandi þykjustuhrotum og allt.
Má bjóða þér múffu?
Ég verð að viðurkenna að ég gat ekki svarað því hversu oft í viku gæti talist eðlilegt að stunda kynlíf í sambandi en ég sagði vinkonu minni þó hvað mér þætti um viðhorf kærastans. En það er nú efni í annan pistil. Svo stakk ég reyndar líka upp á því að hún gæfi honum svokallaða múffu sem hægt er að kaupa í verslunum sem selja hjálpartæki ástarlífsins. En mér fannst þetta hins vegar áhugaverð pæling: Hversu oft er of oft?
Fjölmargar erlendar rannsóknir hafa verið gerðar á því hversu oft pör eða hjón stunda saman kynlíf. Niðurstöður rannsóknar sem gerð var á tíunda áratugnum sýndu fram á að 40% hjónanna sem tóku þátt í rannsókninni stunduðu kynlíf tvisvar til þrisvar í viku. Skiptunum fækkaði eftir því sem aldur hjónanna hækkaði og lengra var liðið á hjónabandið.
Niðurstöður annarrar rannsóknar, sem gerð var árið 2015, sýndu fram á að hjón voru ánægðari eftir því sem þau stunduðu kynlíf oftar en þó sögðust flestir þátttakenda ekki vilja stunda það oftar en einu sinni í viku. Sem mér finnst dálítið merkilegt og ef til vill gefa vísbendingu um að þátttakendum hafi fundist eitt skipti í viku nóg til að halda hjónabandinu góðu.
Sálfræðingurinn Dr. Barry McCarthy, sem hefur meðal annars skrifað um kynlíf í parasamböndum, segir að það sé heilbrigt að stunda kynlíf með maka sínum einu sinni til tvisvar í viku. Hann segir það eðlilegt að fólk stundi kynlíf oftar þegar það er að kynnast og getur ekki hætt að hugsa um hinn aðilann. Og kynlífið aukist jafnvel fyrst eftir að fólk byrji að búa saman en það sé þó bara tímabundið ástand. Það sé eðlilegt að kynlífið minnki eftir því sem lengra líði á sambandið.
Kynlíf – ekki kvöð
Auðvitað er kynhvötin misjöfn hjá mannfólkinu eins og svo margt annað. Önnur vinkona mín sagði mér til dæmis að hún hefði verið í sambandi með manni sem hún taldi að hefði örugglega verið kynlífsfíkill. Og sér hefði þótt það geggjað. Hann var reyndar líka mjög uppátækjasamur í kynlífinu sem henni fannst sérlega skemmtilegt. En hver veit; sambandið stóð ekki nema í nokkra mánuði og henni fannst þetta gaman á meðan á því stóð. Kannski hefði hún orðið þreytt á öllu þessu kynlífi til lengdar, kannski ekki.
En kynlíf ætti í það minnsta ekki að vera kvöð. Fólk ætti að stunda það af því að það langar, ekki af því að því finnst það neyðast til þess. Sálmeðferðarfræðingurinn Ian Kerner segir að það að stunda kynlíf af miklum móð þurfi ekki að þýða að það sé of mikið af hinu góða, svo lengi sem báðir aðilar njóti þess. Sé það hins vegar svo að annar aðilinn fái meira út úr kynlífinu geti kynlífið breyst í kvöð fyrir hinn.
Það má segja nei
Mýfluga á það til að verða að úlfalda og þess vegna er það með kynlífið eins og flest annað í samböndum; það þarf að ræða. Komast að því hvað hinn aðilinn vill. Hvað hann vill ekki. Og taka tillit. Ekki neyða hann til að gera það sem hann ekki langar. Allir hafa rétt á að segja nei. Líka maki manns. Og það er engin ástæða til að taka því persónulega þótt maki manns segi af og til „nei, ég vil gjarnan fara bara að sofa.“
Kynlíf getur svo sannarlega verið skemmtilegt; það getur bætt og kætt og látið manni líða vel. En ef það gerir ekkert fyrir mann og lætur manni ekki líða vel þá er ólíklegt að áhrif þess séu jákvæð. Þá er betra að sleppa því. Og það er gott að hafa í huga að þegar kemur að kynlífi skipta gæðin en ekki magnið máli.
Sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hafa fallist á að leggja 800 milljónir króna í undirbúning Borgarlínunnar. Samkomulagið hefur verið undirritað af Bæjarstjórn Kópavogs, Reykjavíkur, Garðabæjar og Hafnarfjarðar.
RÚV greinir frá. Samningurinn er gerður með fyrirvara um að sama framlag komi frá ríkinu. Samkomulag að nást milli ríkis og sveitastjórnar um uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu til ársins 2033. Ef að samningar nást mun heildarfjárhæð verkefnisins nema um 1,6 milljarð króna. Tæknilegur og fjárhagslegur undirbúningur borgarlínunnar mun standa yfir næstu tvö ár.
„Uppbygging samgangna á höfuðborgarsvæðinu, stofnbrauta, almenningssamgangna og hjóla- og göngustíga, er afar brýnt viðfangsefni til að ná fram markmiðum um betra umferðarflæði, meira öryggi vegfarenda og til að draga úr mengun á svæðinu,“ segir í bókun sveitarfélaganna. Eins og áður segir veltur þetta á velgengni í samningaviðræðum milli ríkis og sveitarfélaga.
Hvað er Borgarlínan?
Á síðu Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu segir: „Borgarlínan er nýtt samgöngukerfi sem verður hryggjarstykkið í þróun höfuðborgarsvæðisins til ársins 2040 og lykilverkefni í samgöngum á svæðinu. Borgarlínan verður hagkvæm og vistvæn leið til að auka flutningsgetu á milli sveitarfélaganna.”