Laugardagur 27. júlí, 2024
10.8 C
Reykjavik

Setur leiklistina í annað sæti

Gwyneth Paltrow hefur meiri áhuga á lífstílsmerki sínu Goop heldur en leiklistinni.

Leikkonan Gwyneth Paltrow hefur tekið sér smá hlé frá leiklistinni til að einbeita sér að rekstri fyrirtækisins í kringum lífsstílsmerkið Goop. Hún saknar þess ekki að leika jafn mikið og hún gerði áður fyrr.

Þessi greindi hún frá í viðtali við Marie Claire. Þegar blaðamaður spurði hana hvers hún saknaði mest við að hafa leiklistina sem aðalstarf sagði hún: „Ekki neins. Það er mjög skrýtið. Ég hata samt ekki að leika, en ég bara sakna þess ekki.“ Hún bætti við að hún ætti nóg með fyrirtækið í kringum Goop.

Hún er þó ekki alveg hætt að leika en kvaðst í dag leggja mikla áherslu á að vanda valið þegar kemur að hlutverkum sem hún tekur að sér. „Ég tek ekki mörg verkefni að mér núna en þegar ég geri það þá sæki ég í verkefni sem skila einhverjum árangri.“

Þess má geta að samkvæmt IMDb þá er Avengers-kvikmynd sem Paltrow fer með hlutverk í væntanleg á næsta ári. Sömuleiðis fer hún með hlutverk í þáttunum The Politician sem koma út á næsta ári.

„Þetta er fyrsta gjöf barnsins“

Fyrsta gjöf barnsins er komin í hús.

Tilkynning frá Kensington-höll þess efnis að Harry Bretaprins og Meghan Markle, hertogaynjan af Sussex, eigi von á barni í vor var send út í gær. Þrátt fyrir að aðeins rúmur sólarhringur sé frá því að tilkynningin var send út eru þau strax byrjuð að fá gjafir handa ófædda barninu.

Harry og Meghan eru í opinberri heimsókn í Ástralíu og áttu fund með hershöfðingjanum Peter Cosgrove og eiginkonu hans, Lady Lynne Cosgrove, í Sidney. Cosgrove-hjónin færðu þeim að því tilefni keingúrubangsa og lítil stígvél frá ástralska merkinu Ugg.

„En sætt. Þetta er fyrsta gjöf barnsins,“ sagði hertogaynjan þegar hún tók við gjöfinni.

Þess má geta að Harry og Meghan eru í sextán daga heimsókn í Ástralíu.

Guðbjörg Jóna hreppti gullið

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir hreppti gullið í 200 metra hlaupi stúlkna á Ólympíuleikum ungmenna í Buenos Aires.

Fyrr í kvöld tryggði Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir sér sigur í 200 metra hlaupi stúlkna á Ólympíuleikum ungmenna í Buenos Aires í Argentínu. Hún hljóp vegalengdina á 23,47 sekúndum.

Þess má geta að Guðbjörg bætti Íslandsmet sitt í greininni á laugardaginn þegar hún hljóp á 23,55 sekúndum. Hún gerði sér þá lítið fyrir og bætti metið aftur í kvöld um 0,8 sekúndur.

Guðbjörg er fædd árið 2001 og er 16 ára gömul.

Mynd / Af Facebook-síðu ÍSÍ

Segir samfélagsmiðla ýta undir kvíða og einmannaleika

Breski rithöfundurinn Matt Haig segir samfélagsmiðla ýta undir kvíða og einmannaleika.

Tækninýjungar og hraðinn sem einkennir nútímasamfélag virðist ýta undir að sífellt fleira fólk finnur fyrir einkennum þunglyndis og kvíða. Breski rithöfundurinn Matt Haig er einn þeirra sem hefur þjáðst af þunglyndi og kvíða en hann hefur nýtt sér reynslu sína til að skrifa bækur, meðal annars bókina Reasons to Stay Alive sem kom út árið 2015. Nú er komin út ný bók eftir hann sem ber heitið Notes in a Nervous Planet. Sú bók fjallar um kvíðann sem margt fólk finnur fyrir vegna samfélagsmiðla og þess stöðuga áreitis sem þeim fylgir.

„Fólk lifir öðruvísi lífi, hittir fólk á annan hátt, talar við vini sína á annan hátt en það gerði, fer minna út og svefnmynstur fólks er að breytast. Þetta er allt að breytast vegna tilkomu aukinnar tækni,“ segir Matt Haig í viðtali við Economist.

„En það er ekki tæknin sjálf sem er vandamálið. Vandamálið er það að við erum ekki meðvituð um hvernig hún er að breyta tilveru okkar og hafa áhrif á hugarfar okkar.“

Hann bendir þá á að niðurstöður nýrra rannsókna benda til þess að fólk á aldrinum 16 til 24 ára er sú kynslóð sem finnur fyrir hvað mestum einmanaleika, samt er þetta sú kynslóð sem er hvað virkust á samfélagsmiðlum. Hann segir þetta vera merki um að samfélagsmiðlar ýti undir einmanaleika hjá fólki.

Viðtalið við Haig má lesa í heild sinni á vef Economist ásamt broti út bókinni.

„Ég varð eiginlega alveg brjáluð þegar ég las þessa bók“

|
|

Brynhildur Björnsdóttir, fjölmiðlakona og leikstjóri, segir frá bókunum sem hafa haft mest áhrif á hana.

Skáldsagan The Mists of Avalon eftir Marion Zimmer Bradley kom út árið 1983 og segir söguna af konunum í kringum Arthúr konung og hvernig mæðraveldi og náttúrudýrkun fer halloka fyrir feðraveldi og stríðsguðum. Hún sýnir klassíska söguskoðun frá allt öðru sjónarhorni og fékk mig til að hugsa um möguleikann á marglaga söguskoðun þar sem allskyns sannleikur lifir hlið við hlið. Ég las hana fyrst þegar ég var nítján ára en komst að því fyrir nokkrum árum að til eru söfnuðir í Bretlandi og Bandaríkjunum sem byggja vissa tegund gyðjutrúar á gyðjutrúnni sem birtist í þessari bók.

The Beauty Myth eftir Naomi Wolf er ein af bókunum sem gerði mig að femínista. Hún lýsir því hvernig hugmyndin um fegurð er búin til af markaðsöflum og feðraveldinu og hvernig hún þjónar því hlutverki að halda konum frá völdum, vellíðan og velgengni. Ég varð eiginlega alveg brjáluð þegar ég ég las þessa bók og gerði mér grein fyrir hvað það var búið að hafa mig að miklu fífli. Ákvað síðan í framhaldinu að gera mestu uppreisn sem hægt er að gera, sem er að vera ánægð með mig!

Hugsanir annarra eftir Kristján Þórð Hrafnsson er afskaplega falleg bók þar sem fjallað er um ást, svik og einmanaleika af einstakri næmni. Hún segir af giftum manni sem á í ástarsambandi við yngri konu og hvernig hann upplifir þeirra samskipti og valdaleysi sitt gagnvart því sem hún hugsar en öll upplifum við einhvern tíma óöryggið og valdaleysið sem fylgir því að vita ekki hvað gengur á innra með þeim sem við elskum.

 

Small Gods eftir Terry Pratchett er uppáhaldsbókin mín eftir þann gengna snilling en ég á næstum allar bækurnar hans og hef lesið þær flestar oftar en tölu verður á komið. Flestar bækur hans gerast í spegilveröld við okkar sem hann notar til að sýna okkur ástandið á okkur á hátt sem er allt í senn; heimspekilegur, gagnrýninn og fáránlega fyndinn.

Mynd / Rut Sigurðardóttir

The Pink Panther 2 vanmetin mynd

|
|

Þegar kemur að kvikmyndum er Þórir Snær Sigurðarson hafsjór af fróðleik. Mannlíf kom því ekki að tómum kofa þegar Þórir var beðinn um að nefna ofmetnustu og vantmetnustu mynd allra tíma.

Die Hard 1
Die Hard 1 (1998) er meðal vinsælustu hasarmynda allra tíma. Þó fyrirfinnast nokkrir sem þykir lítið til hennar koma og er ég meðal þeirra. Í myndinni reynir John McClane, lögreglumaður í New York, að bjarga gíslum úr klóm hryðjuverkamanna í jólaboði í Nakatomi Plaza. Die Hard átti vissulega sinn þátt í þróun hasarmynda á gósentíð þeirra á níunda áratugnum, en þar sem svo margar myndir hafa síðan verið byggðar á svipaðri hugmynd hverfur Die Hard oft inn í fjölda miðlungsheppnaðra hasarmynda. Myndin er að nokkru leyti ótrúverðug, atburðarásin hæg og söguþráður heldur þunnur. Leikararnir gera þó það besta mögulega úr því sem þeir hafa úr að moða. Bruce Willis og James Shigeta eru þeir sem helst standa upp úr.

 

The Pink Panther 2
Endurgerðir hinna sígildu gamanmynda um lögreglumanninn Jacques Clouseau, þar sem Steve Martin leikur aðalhlutverkið, fengu ekki sérlega góða dóma. Þó þykir mér meira í þær varið en gagnrýnendum þótti á sínum tíma. Í annarri mynd þessarrar nýrri myndaraðar gengur Clouseau til liðs við alþjóðlega sveit einkaspæjara, sem fá það verkefni að stöðva alræmdan þjóf sem sérhæfir sig í því að stela sögufrægum munum.

https://youtu.be/_bKw1XfJppI

Auk Steve kemur fjöldi þekktra leikara fram í myndinni, svo sem John Cleese og Andy Garcia. Myndum eins og þessari er auðvitað ekki ætlað að marka tímamót í kvikmyndasögunni, heldur er hún fyrst og fremst skemmtileg. Sagan er hjartnæm og falleg, sem gefur henni meira vægi. Steve Martin kemst þó ekki með tærnar þar sem Peter heitinn Sellers hafði hælana.

Þórir Snær Sigurðarson stýrði kvikmyndaþættinum Hvíta tjaldið á ÍNN. Hér er hann á setti með leikstjóranum Friðriki Þór Friðrikssyni.

Harry og Meghan eiga von á barni í vor

Harry Bretaprins og Meghan Markle, hertogaynjan af Sussex, eiga von á barni. Í tilkynningu frá Kensington-höll segir að barnið eigi að fæðast næsta vor.

Barnið verður sjöunda í röðinni að bresku krúnunni.

Tilkynning frá Kensington-höll var gefin út í dag en fregnir herma að Harry og Meghan hafi sagt fjölskyldu sinni fréttirnar á  föstudaginn, sama dag og Eugenie prinsessa gifti sig.

Lýðræðissamfélag þarf öfluga og óháða fjölmiðla

|
|

Síðast en ekki síst

Höfundur / Steinunn Stefánsdóttir

Ríkisstjórnin ætlar að styrkja einkarekna ritstýrða fjölmiðla um 400 milljónir á ári frá og með því næsta. Fram til þessa hafa einkareknir fjölmiðlar á Íslandi verið þeir einu á Norðurlöndum sem ekki hafa notið neinna styrkja eða ívilnana frá ríkinu. Hvergi er þörfin þó líklega eins mikil og hér þar sem fámennið er mest og rekstrargrundvöllurinn því erfiðastur.

Ekki verður ítrekað nógu oft og mikið hversu miklu hlutverki fjölmiðlar gegna í lýðræðissamfélagi. Þeir þurfa að veita stjórnvöldum aðhald, þeir þurfa að fræða og þeir þurfa líka að skemmta.

Til þess að þeir séu færir um að gegna þessum hlutverkum, ekki síst því sem fyrst er nefnt, að veita aðhald, þurfa þeir fjármagn, meira fjármagn en þeir eiga möguleika á að afla hér í örsamfélaginu þar sem áskrifendur geta aldrei skipt hundruðum þúsunda og auglýsingaverð er í einhverskonar samræmi við það að hversu hversu fáum auglýsingarnar geta beinst í samfélagi þar sem ekki búa nema 350 þúsund manns.

Það er jafnmikil vinna að rannsaka fréttaefni og skrifa vel unna og skýrandi frétt í blað, vefmiðil eða fyrir ljósvaka sem nær til 350 þúsund manns eins og ef um væri að ræða miðil sem nær til milljóna eða tugmilljóna. Fjölmiðlar eru sannarlega ekki hafnir yfir gagnrýni en þessa staðreynd verður að hafa í huga þegar íslenskir fjölmiðlar eru skammaðir fyrir að fara ekki nógu djúpt í málin.

Sérhagsmunir og hagsmunir almennings fara sjaldnast saman. Þess vegna er svo mikilvægt að búa til umhverfi þar sem fjölmiðlar geta þrifist án þess að vera háðir hagsmunum eigenda sinna.

Ríkisútvarpið og sú faglega vinnsla á fréttum og fréttatengdu efni sem þar fer fram er sannarlega mikilvæg og að henni þarf að hlúa. Án stöðugleikans þar væri íslenskt fjölmiðlalandslag heldur tætt og trosnað. Að sama skapi er fjölbreytileg fjölmiðlaflóra mikilvæg, að til séu fleiri öflugir og óháðir fjölmiðlar þar sem fram fer vinnsla frétta sem lúta grundvallarreglum blaðamennsku og þar sem hagsmunir almennings eru hafðir að leiðarljósi. Það er eitt að því sem gerir samfélag að lýðræðissamfélagi. Þess vegna skiptir öllu að 400 milljónirnar nýtist til að styrkja frjálsa og óháða fjölmiðla.

Vilja losna við kínversk tákn og nöfn fyrrverandi

Þau tattú sem fólk vill gjarnan losna við eru kínversk tákn og tattú sem eru farin að fölna að sögn húðlæknisins Jennu Huldar. Svo eru það auðvitað nöfn fyrrverandi maka sem fólk vill losna við af líkama sínum.

Margt fólk vill losna við tattúin sín að sögn húðlæknisins Jennu Huldar Eysteinsdóttur. Beðin um að nefna dæmi um þau tattú sem fólk vill losna við segir Jenna: „Það eru kínversk tákn og annað í þeim dúr sem eitt sinn var í tísku. Sömuleiðis vilja margar konur losna við varanlega tattúförðun, augabrúnir og svoleiðis. Svo eru sumir sem vilja láta fjarlægja gömul tattú sem eru farin að dofna og grána.“

Sumir hafa þá brennt sig á því að fá sér tattú til heiðurs maka síns en vilja svo losna við það þegar ástin slokknar. Angelina Jolie og Johnny Depp eru gott dæmi. Spurð út í hvort hún hafi þá rætt við íslenskt fólk sem vill losna við nöfn fyrrverandi maka og annað í þá áttina svarar Jenna játandi. „Já, að sjálfsögðu, það er alltaf eitthvað um það.“

Jenna verður vör við að margt fólk bíður spennt eftir að losna við tattúin sín í starfi sínu sem húðlæknir á Húðlæknastöðinni. Eftirspurnin eftir meðferðum til að losna við gömul tattú er svo mikil að hún og samstarfsfólk hennar ákváðu að fjárfesta í nýrri og öflugri græju sem fjarlægir tattú betur en aðrar græjur.

„Þetta er alveg rándýrt tæki en við ákváðum að kaupa hana af því að eftirspurnin var svo mikil. Við fáum hana í nóvember,“ útskýrir Jenna.

Spurð út í hvort hún sjálf eða kollegar hennar í húðlæknibransanum séu með tattú sem þau ætla að losa sig við þegar nýja græjan kemur í hús segir Jenna kímin: „já, það er allavega mikil spenna hérna innanhúss.“

Meðfylgjandi er myndband sem sýnir græjuna sem um ræðir.

„Óður til píanósins“

|
|

Þriðja breiðskífa raftónlistarmannsins Bistro Boy, Píanó í þokunni, kom út þann 1. október 2018. Bistro Boy er hliðarsjálf tónlistarmannsins Frosta Jónssonar en hann hefur fengist við tónlist af ýmsum toga um langt skeið.

„Vinnuferlið við þessa plötu var dálítið öðruvísi en á fyrri plötum. Ég setti mér stífari ramma í upphafi, bæði varðandi hljóðheiminn og lögin sjálf. Ég vildi byggja lögin í kringum gömul hljóðdæmi og lagabúta sem ég hef viðað að mér í gegnum árin og reyna að halda mig við fremur einfaldar melódíur. Þá er platan líka einskonar óður til píanósins sem hefur fylgt mér lengi svo ég lauma inn píanói í flest laganna með einum eða öðrum hætti þó það heyrist ekki endilega,“ segir Frosti sem ásamt fleirum stendur einnig að baki plötuútgáfunnar Möller Records sem gefur út íslenska raftónlist.

Píanó í þokunni.

Hann segir að platan sé persónuleg eins og fyrri plöturnar hans en hann hefur einnig sent frá sér EP-plötuna Sólheimar (2012) og breiðskífurnar Svartir Sandar (2016) og Journey (2013) auk nokkurra smáskífa. Hann hefur komið fram á tónlistarhátíðum hérlendis sem erlendis svo sem Secret Solstice, Iceland Airwaves og Dias Nordicos í Madrid og mun spila á Airwaves í nóvember.
„Píanó í þokunni er að einhverju leyti þakklætisvottur fyrir að hafa fengið tíma og tækifæri til að búa til tónlist og píanóið á líklega einn stærstan þátt í að svona fór. Ég sem alla tónlist og spila á öll hljóðfæri en fékk bróðurdóttur mína, hana Eiri Ólafsdóttur, til að spila á selló í tveimur laganna á plötunni. Hún er mikið hæfileikabúnt, er þriðjungur í hljómsveitinni Ateria sem sigraði músíktilraunir í ár og á pottþétt eftir að láta meira að sér kveða í tónalistinni.“

Hnallþóra – alltaf góð

tertur tertur *** Local Caption *** tertuþáttur tertuþáttur

Á mannfögnuðum á góð hnallþóra ávallt vel við. Hverskyns ber eru frískandi hráefni á kökur og skemmtileg til skreytinga. Svo er bara að laga gott kaffi og bjóða vinum og ættingjum heim.

Banana- og kókoskaka með bláberjum

fyrir 12-14

300 g smjör, mjúkt

3 ½ dl sykur

3 eggjahvítur

3 vel þroskaðir bananar, stappaðir

1 tsk. vanilludropar

6 dl hveiti

1 tsk. lyftiduft

1 tsk. matarsódi

1 tsk. salt

4 dl ab-mjólk eða súrmjólk

2 dl gróft kókosmjöl

Stillið ofn á 180°C. Hrærið smjör og sykur vel saman þar til blandan er létt og ljós. Bætið eggjahvítum saman við og hrærið í 1-2 mín. Setjið stappaða banana út í ásamt vanilludropum og blandið vel. Sigtið hveiti, lyftiduft, matarsóda og salt saman í aðra skál og blandið vel saman.

Setjið þurrefnin og ab-mjólk til skiptis út í deigið og hrærið vel á milli. Þegar allt er vel samlagað er kókosmjölinu bætt saman við. Fóðrið þrjú hringlaga form sem eru u.þ.b. 22 cm í þvermál með bökunarpappír og smyrjið hliðarnar með smjöri. Eins má nota tvö stærri form.

Skiptið deiginu jafnt í formin og bakið í u.þ.b. 20 mín. Athugið að bökunartíminn getur verið breytilegur eftir því hvort notuð eru tvö eða þrjú form og hversu stór þau eru.

Látið botnana kólna alveg áður en sett er á þá.

Fylling

5 dl rjómi

2 tsk. vanilludropar

½ dl flórsykur

½ dl kakó

Þeytið allt vel saman þar til rjóminn er hæfilega stífur. Setjið rjómann á milli botnanna.

Ofan á

150 g dökkt súkkulaði

¾ dl rjómi

½ -1 dl kókosflögur, ristaðar

1-2 dl fersk bláber, eða önnur ber

Hitið rjóma varlega að suðu. Brytjið súkkulaði í skál og hellið heitum rjómanum yfir. Látið standa í 5 mín. og hrærið þá allt vel saman og dreifið yfir kökuna. Skreytið með ristuðum kókosflögum og ferskum berjum.

Umsjón / Kristín Dröfn Einarsdóttir
Mynd / Rakel Sigurðardóttir
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir

Velur íslenska hönnun fram yfir fjöldaframleiðslu

Dagskrárgerðarkonan Sunna Axelsdóttir lýsir stílnum sínum sem „komfí kúl“ .

„Ég held að ég myndi lýsa mínum persónulega fatastíl sem „komfí kúl“ en ég pæli mikið í efnum og sniðum og finnst best að versla í litlum búðum, helst beint frá hönnuði. Bæði af því að gæðin eru betri og miklu skemmtilegra að eiga færri vönduð föt sem maður elskar heldur en að fylla skápinn af drasli sem maður hendir síðan eftir nokkur ár. Að mínu mati er líka mun betra að styðja við íslenska hönnun og skapandi fatagerð heldur en fjöldaframleiðslu. Á Íslandi versla ég í Yeoman, Kiosk, Stefánsbúð og við ÝRÚRARÍ. Annars versla ég mikið á Netinu því oftast veit ég hvað ég vil og þá er þægilegt að leita það uppi fyrir framan tölvuskjáinn.“

„Að mínu mati er líka mun betra að styðja við íslenska hönnun og skapandi fatagerð heldur en fjöldaframleiðslu.“

Þegar talið berst að þekktum konum sem veiti innblástur segir hún þær margar. „Ef ég ætti að nefna nokkrar þá væru það: Karin Dreijer Andersson, Kate Bush, Iris Apfel, Miharu Koshi, Pussy Riot, Nawal El Saadawi og allar konur sem þora að vera tussur og druslur. Ef það er eitthvað sem allar konur ættu að eiga í fataskápnum sínum fyrir veturinn, og reyndar bara almennt í lífinu væri það eitthvað sem þeim finnst geggjað kúl en engum öðrum.“

Mynd / Aldís Pálsdóttir

 

 

 

 

Útlönd í Þingholtunum

Í 114 ára gömlu bárujárnsklæddu timburhúsi í Þingholtunum býr Eva Þrastardóttir. Hún er borgarhönnuður að mennt og starfar hjá einni stærstu verkfræðistofu landsins.  Hún bjó um sex ára skeið í Danmörku, bæði á Jótlandi og Sjálandi, þar sem hún var í námi.  Íbúðin ber þess merki að Eva hefur búið erlendis og minnir hún um margt á Kaupmannahöfn að mati blaðamanns. Húsið sjálft er í raun tvö hús sem byggð voru samsíða. Annar hluti hússins er byggður árið 1900 en hinn árið 1904 og geymir það sex íbúðir í heildina.

Eva er alin upp í Hafnarfirði þar sem fjölskyldan hennar býr enn í dag en hún segir að eftir búsetuna í Danmörku hafi hana heldur langað að búa í miðbænum. Hún hafi heillast mikið af gömlum húsum í Danmörku og séð í þeim sjarmann. Þá nefnir hún loftbitana, gamaldags glugga, brakið í gólfunum í gömlu húsunum sem svo sannarlega hafa lifað með fólkinu sem í þeim bjó.

Mannlífið heillar hana einnig mikið og hún segir að sér finnist gott að keyra í átt að mannlífinu í miðbænum að vinnudegi loknum en Eva vinnur í útjaðri Reykjavíkur. Íbúðin sjálf sem er 60 fm að stærð hefur tekið töluverðum breytingum eftir að Eva festi kaup á henni fyrir tveimur árum síðan. Hún fór af stað í framkvæmdir með ákveðna sýn í huga. Gólfin voru tekin í gegn, pússuð upp og hvíttuð en gólfin eru upprunaleg og jafngömul húsinu og fannst Evu því mikilvægt að halda þeim enda vildi hún að allt það upprunalega sem hægt væri að nýta fengi að vera áfram.

Panellinn var málaður en áður hafði hann verið viðarlitaður sem minnti um margt á sumarhús eins og við Íslendingar þekkjum þau. Eldhúsinu var einnig breytt en Eva fjarlægði efri skápa sem voru komnir til ára sinna en hana hafði alltaf dreymt um opið eldhús eins og hún hafði haft á einum stað í Danmörku þar sem hún bjó um tíma. Gamall skorsteinn setur skemmtilegan svip á eldhúsið en hefur fengið að halda sér þrátt fyrir að vera ekki lengur í notkun enda hafa aðrar leiðir til húshitunar tekið yfir. Því má segja að hann sé fallegur minnisvarði um gamla tíma. Eva segist hafa verið afar heppin í framkvæmdunum en faðir hennar og mágur hafi veitt henni mikla og góða aðstoð.

Upplifun sem minnir á útlönd

Stórir og fallegir gluggar umlykja íbúðina og er útsýni til allra átta. Birtan í íbúðinni er óviðjafnanleg og mannlífið allt um kring. Það er öðruvísi að upplifa borgina úr hærri hæð en hinn gangandi vegfarandi. Mörg húsanna í miðbænum eru áhugaverðust að ofanverðu þar sem stórir gluggar eru einkennandi og fallegir þakkantar. Það vekur upp mikla útlandastemningu hjá blaðamanni að horfa út um gluggana hjá Evu en íbúðin sjálf ýtir undir þá upplifun.

Eva hefur gaman af að blanda saman nýju og gömlu og má í íbúðinni sjá stól með karrígulu áklæði sem langafi hennar átti en stóllinn hefur fylgt Evu frá því að hún var 17 ára og ferðast með henni yfir höfin. Því má segja að stólinn hafi upplifað tímana tvenna sem gerir hann fallegri fyrir vikið. Gömul tekkhúsgögn í bland við ný einkenna stílinn í íbúðinni en Evu hefur tekist afar vel til að blanda þeim saman svo úr verður falleg heild með persónulegu yfirbragði. Plöntur eru einnig eitt af áhugamálum Evu sem gefa heimilinu notalegt yfirbragð.

Það brakar í gólfinu í hverju skrefi á leið út og er blaðamaður sammála Evu um að gömlu húsin séu mest sjarmerandi sem einkennast af miklu lífi og sögu. Við kveðjum Evu og læðuna Móeyju sem nýlega fluttist inn í þessa fallegu íbúð en á þó eftir að kynnst miðbænum og mannlífinu betur. Að lokum hvetur blaðamaður lesendur til þess að horfa meira í átt til himins á ferðum sínum um miðbæinn og einblína frekar á arkitektúrinn þar sem hann mætir himinhvolfinu heldur en þar sem hann mætir jörðinni. Þá gerast töfrarnir.

Myndir / Hákon Davíð Björnsson

 

 

 

Tískubólur eftirhrunsáranna

Í tilefni þess að 10 ár eru liðin frá falli íslensku bankanna rifjar Mannlíf upp helstu tískustrauma eftirhrunsáranna.

Það var ekki bara efnahagur Íslands sem tók stakkaskiptum við efnahagshrunið. Öll samfélagsgerðin breyttist. Það sem áður þótti sjálfsögð neysluhegðun varð skyndilega litin hornauga og nýjar stefnur og straumar tóku yfir. Í tilefni þess að 10 ár eru liðin frá falli íslensku bankanna rifjar Mannlíf upp helstu tískustrauma eftirhrunsáranna.

Prjónaskapur og hannyrðir

Vinsældir prjónaskapar og hvers kyns hannyrða jukust gríðarlega eftir hrun. Líkt og áður fyrr voru saumaklúbbar orðnir vettvangur handavinnu í stað Tupperware- og hjálpartækjakynninga. Garn og prjónatímarit seldust í bílförmum og víðs vegar um land opnuðu litlar prjónabúðir. Eitt hitamálið eftir hrun var þegar upplýst var að íslenska lopapeysan, sem naut mikilla vinsælda eftir hrun, var í raun og veru prjónuð í Kína en seld sem íslensk hönnun án nokkurra upprunavottorða.

Hamstur

Mitt í allri ringulreiðinni sem fylgdi hruni bankanna var greint frá mögulegum vöruskorti í landinu ef ske kynni að greiðsluþrotið yrði algjört. Margir tóku þá til við að hamstra mat úr verslunum, jafnvel matvörum sem engum hefði dottið í hug að láta inn fyrir sínar varir nokkrum vikum fyrr. Aldrei kom til vöruskorts og því ekki ólíklegt að einhverjir eigi enn lager af niðursoðnum fiskbúðingi eða Campbell´s-súpum uppi í skáp hjá sér.

Lopapeysa og Mugison

Við hrunið leituðu broddborgarar landsins sér að jarðtengingu og fundu hana í lopapeysunni sem varð á skömmum tíma einkennisklæðnaður íslensku þjóðarinnar og leysti þar með jakkafötin af hólmi. Allt íslenskt varð meginstreymis og skyndilega var Mugison orðinn að ofurstjörnu sem ítrekað troðfyllti Hörpu, enda íslenskari listamaður vandfundinn. Mugison var hipsterinn holdi klæddur og í kjölfarið mátti sjá karlmenn úr öllum lögum samfélagsins skarta þykku og miklu skeggi.

Góði hirðirinn

Góði hirðirinn sem selur notaða muni varð ein vinsælasta verslun landsins eftir hrun. Biðraðir mynduðust fyrir utan verslunina skömmu fyrir hádegi þegar nýjar vörur voru teknar inn og var hreinlega barist um bestu bitana. Nú er öldin önnur því endurvinnslustöðvar Sorpu eru smekkfullar og Góði hirðirinn hefur neyðst til að afþakka muni því að þeir seljast ekki. Nýverið hefur meira að segja borið á kvörtunum yfir háu verðlagi í Góða hirðinum og honum jafnvel líkt við Epal.

Framboð

Fjölmargir töldu sig eiga erindi í áhrifastöður eftir hrun, en líkt og svo oft áður var framboðið langt umfram eftirspurnina. Þannig voru 14 stjórnmálaflokkar og Sturla Jónsson í framboði til þings árið 2013. Þá eru ónefndar þær hreyfingar sem ætluðu í framboð en hættu við þegar ljóst var að stemningin var engin. Tvöfaldar kappræður og stórir kjörseðlar eru orðin venjan fremur en undantekningin. Kosningarnar til stjórnlagaþings voru svo sérkapítuli út af fyrir sig þar sem 522 börðust um sætin 25 sem voru í boði. Einn frambjóðandi hlaut eitt atkvæði, væntanlega sitt eigið.

Lukkuriddarar

Lukkuriddarnarnir létu ekki eingöngu til sín taka á stjórnmálasviðinu, heldur einnig í viðskiptalífinu. Margar brjálaðar hugmyndir voru á sveimi fyrir hrun og þótt þeim hafi kannski fækkað eftir hrun, þá voru þær allt eins brjálaðar og tóku á sig aðra mynd – iðulega í tilfelli dularfullra útlendra auðmanna sem ætluðu að nota dýrmætan gjaldeyri til að skapa haug af störfum. Nærtæk dæmi eru hugmyndir um 200 milljarða fjárfestingu ECA Programs sem ætlaði að þjálfa herflugmenn á Keflavíkurflugvelli en reyndist þegar á botninn var hvolft skýjaborgir einar. Eða þegar fyrirtæki að nafni Northern Lights Energy reyndi að fá íslenskan ríkisborgararétt fyrir tíu kanadíska auðmenn í gegnum Alþingi.

Náttúruhobbí

Íslendingar eru miklar hópsálir. Þegar nágranninn kaupir sér græju þarf Íslendingurinn að eignast eins græju, ef til vill eilítið dýrari. Þetta á líka við um áhugamálin. Eftir hrunið þótti ekki fínt að svitna inni í líkamsræktarstöðvum, allra síst þeim sem voru tengdar áberandi persónum í viðskiptalífinu. Og áhugamálin urðu fínni eftir því sem tengslin við náttúruna voru meiri. Allra fínast þótti sjósundið sem eingöngu sérvitringar höfðu stundað fyrir hrun, svo fóru allir að hlaupa og það jafngilti nánast úrsögn úr samfélaginu að birta ekki sjálfu úr Reykjavíkurmaraþoni. Svo þegar efnahagurinn vænkaðist eilítið hoppaði hjörðin í gult spandex og upp á racer-hjólin.

Einfaldur og þjóðlegur matur

Við hrunið þótti skyndilega óviðeigandi að sáldra gullryki yfir matinn sinn eða bjóða upp á prjál eins og prosciutto eða carpaccio. Og að skála í kampavíni varð algjört tabú. Einfaldleikinn tók yfir og skyndilega var ólíklegasta fólk farið að taka slátur og borða innmat. Bjúgu og hamsatólg varð annað og meira en bara mötuneytis-/iðnaðarmannafæða. Þessi bylgja hvarf þó fljótt með túristasprengjunni þegar nýmóðins veitingastaðir spruttu upp eins og gorkúlur. Sölutölur Vínbúðarinnar sýna að þjóðin skálar í sjampói eins og árið 2007 og hver einasta búlla skreytir sig með orðinu „mathöll“. Þegar kjúklingastaðurinn í Suðurveri fer að kalla sig Suðurver mathöll, þá er næsta hrun handan við hornið.

Með tvær háskólagráður í ísbúð

|
|

Sante Feaster er með háskólagráður í bæði alþjóðafræðum og mannfræði frá SUNY Cortland-háskóla í New York en á Íslandi stendur hún vaktina í ísbúð við Rauðarárstíg. Ekki beint það sem hún hafði í huga þegar hún ákvað að fara í háskólanám þrátt fyrir þröngan fjárhag en ástin spyr ekki um áður gerð plön og eftir að hafa kynnst íslenskum manni sem hún varð ástfangin af tók Sante sig upp, flutti til Íslands, giftist ástinni sinni og reynir að gera það besta úr stöðunni í atvinnuleitinni, sem hefur verið henni vægast sagt torsótt.

„Ég flutti hingað fyrir einu og hálfu ári til að búa með manninum mínum,“ segir Sante og brosir allan hringinn. „Við giftum okkur í maí í fyrra og síðan hef ég verið að reyna að komast inn á íslenska vinnumarkaðinn. Það er ekki beint auðvelt og ég hef fengið alveg ótrúlega dónalegt viðmót í sumum atvinnuviðtölunum sem ég hef farið í. Ég hef náttúrlega þrennt á móti mér; ég er svört, ég er kona og ég er Ameríkani, það virðist ekki vera vinsælt hér,“ bætir hún við og hlær aftur.

Störfin eingöngu fyrir Íslendinga

Beðin að útskýra menntun sína og hvað það er sem hún sækist eftir að vinna við útskýrir Sante að hún sé svo sem opin fyrir alls konar störfum en hún myndi gjarnan vilja að menntun hennar væri metin hér.

„Ég var í háskóla í fjögur ár og hef tvær háskólagráður, í mannfræði og alþjóðafræðum þar sem ég lagði áherslu á málefni latnesku Ameríku. Ég hef reynt að fá vinnu hér á mínu sérsviði en það virðist vera mjög takmarkað framboð af störfum sem tengjast því. Og þau störf sem eru í boði eru eingöngu ætluð Íslendingum.“

„Ég hef reynt að fá vinnu hér á mínu sérsviði en það virðist vera mjög takmarkað framboð af störfum sem tengjast því.“

Sante hefur þó fundið leið til að nýta menntun sína með því að vinna með kvennahópi sem skoðar rasisma og kynjahyggju á Íslandi og hún segir engan vafa á því að hvort tveggja sé talsvert útbreitt hér. Hvort það eigi þátt í því hversu erfitt henni reynist að fá vinnu við sitt hæfi þori hún þó ekki að fullyrða.

„Ég kenndi um tíma ensku í tungumálaskóla en það var bara hlutastarf og ég þurfti að fá fulla vinnu svo ég hætti því. Ég hef unnið á tveimur veitingahúsum, bæði í Reykjavík og Kópavogi, og nú vinn ég í ísbúð. Það er ekkert hræðilegt en ekki beint það sem mig langar til að vinna við.“

Sante hefur ekki lagt stund á skipulegt nám í íslensku en hún segist þó geta talað dálítið og hún skilji mun meira en fólk geri ráð fyrir sem sé stundum vandræðalegt þegar fólk sé að tala um hana að henni viðstaddri og gangi út frá því að hún skilji ekki neitt. Það sé oft óþægilegt bæði fyrir hana og þá sem eru að baktala hana.

Tala eins og svart fólk í bíómynd

Spurð hvað hún hafi hugsað sér að gera til að komast í starf sem hæfi henni og hennar menntun, segist Sante ekki vita almennilega hvað sé hægt að gera.

„Ég þarf bara að byrja á botninum og vinna mig upp,“ segir hún. „Það er eina leiðin fyrir innflytjendur og ég mun halda því áfram þangað til ég fæ einhverja vinnu sem ég hef áhuga á. Það er ótrúlega erfitt að fá góða vinnu hérna og ég skil ekki alveg hvers vegna. Ég hef víðtæka starfsreynslu á mörgum sviðum, auk menntunarinnar, ég vann bæði með menntaskólanáminu og háskólanáminu til þess að hafa efni á því að mennta mig og ég skil ekki hvaða þröskuldar það eru sem íslenskir vinnuveitendur vilja ekki hleypa mér yfir.“

„Það er ótrúlega erfitt að fá góða vinnu hérna og ég skil ekki alveg hvers vegna.“

Sante segir húðlit sinn kannski eiga þátt í því hversu erfitt henni reynist að fá góða vinnu. Stundum hafi hún á tilfinningunni að þeir vinnuveitendur sem kalli hana í viðtal hafi aldrei talað við svarta manneskju fyrr.

„Það er ekki beint opinskár rasismi í gangi hér en það eru alls konar smáatriði sem ég sé í framkomu fólks sem eru hreinn og klár rasismi. Fólk fer allt í einu að tala eins og svart fólk gerir í amerískum bíómyndum og ég kem alveg af fjöllum, hví í ósköpunum talar fólk öðruvísi við mig en aðra enskumælandi umsækjendur í atvinnuviðtali? Sumir hafa sagt fáránlega hluti um húðina á mér og einn vinnuveitandinn sagði hreint út að ég væri of feit, hvort ég væri viss um að ég gæti unnið starfið sem ég var að sækja um. Ég varð svo hissa að ég gat varla svarað. Mér hafði aldrei dottið í hug að þyngd mín yrði gerð að umræðuefni í atvinnuviðtali, enda hefur hún aldrei komið í veg fyrir að ég gerði það sem ég ætlaði mér. Ég passaði mig samt að sýna ekki hvað ég varð reið því ég vil ekki staðfesta steríótýpuna af reiðu svörtu konunni í hugum fólks. Ég er mjög meðvituð um það að í augum sumra er ég fulltrúi allra svarta kvenna, svo ég passa mig alltaf á hvað ég segi.“

„Sumir hafa sagt fáránlega hluti um húðina á mér og einn vinnuveitandinn sagði hreint út að ég væri of feit, hvort ég væri viss um að ég gæti unnið starfið sem ég var að sækja um. Ég varð svo hissa að ég gat varla svarað.“

Sante er bjartsýn á að henni takist með tímanum að fá vinnu í sínu fagi en þangað til ætlar hún að halda áfram að reyna að klifra upp stigann, eins og hún kallar það. Hún segir þó mikilvægt að innflytjendur láti ekki bjóða sér hvað sem er á vinnumarkaðnum og hvetur fólk til að tala við sitt stéttarfélag og kynna sér réttindi sín, það sé allt of algengt að reynt sé að borga erlendu fólki minna en samningar kveða á um og láta það ekki fá lögbundinn frítíma.

„Við verðum að standa með sjálfum okkur og láta ekki svindla á okkur,“ segir hún ákveðin. „Það er óásættanlegt að erlendir launþegar njóti ekki sömu réttinda og þeir íslensku og við verðum að stoppa það sjálf. Það gerir það enginn fyrir okkur.“

Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

 

Íslendingar áhugasamir um staðgöngumæðrun

Forsvarsmaður ísraelska fyrirtækisins Tammuz Nordic, sem býður fólki upp á milligöngu um staðgöngumæðrun, segir Íslendinga spennta fyrir þessum kosti. Fyrirtækið hélt hér kynningarfund á dögunum og í kjölfarið barst því fjöldi fyrirspurna frá áhugasömum Íslendingum.

Mikkel Raahede, forsvarsmaður Tammuz Nordic.

„Fólk hefur verið í sambandi við okkur og að minnsta kosti þrjú pör eru mjög áhugasöm um að fara þessa leið, það er að segja að eignast barn með aðstoð staðgöngumóður,“ segir Mikkel Raahede, forsvarsmaður ísraelska staðgöngumæðrunarfyrirtækisins Tammuz Nordic, sem býður fólki upp á milligöngu um staðgöngumæðrun. Mikkel hélt hér á dögunum fyrirlestur fyrir áhugasama um starfsemi fyrirtækisins og þann kost að eignast barn með staðgöngumæðrun. Hann segir fundinn hafa verið ágætlega sóttan og að honum loknum hafi fyrirtækinu borist fjöldi fyrirspurna frá áhugasömum Íslendingum.
„Fólk hefur meðal annars verið forvitnast um siðfræðilegu hliðina og þá lagalegu,“ segir hann, en eins og kunnugt er staðgöngumæðrun ólögleg á Íslandi. Mikkel segir þó ekki ólöglegt fyrir Íslendinga að fá staðgöngumæðrun erlendis, það hafi hann verið fullvissaður um af íslenskum lögfræðingum.

Fyrstu börnin árið 2020
Að hans sögn hafa mestmegnis karlkyns samkynja pör á Íslandi verið í samskiptum við Tammuz Nordic eftir fyrirlesturinn en þjónustan sem fyrirtækið býður upp á stendur bæði gagnkynhneigðum pörum og karlkyns samkynhneigðum pörum til boða og sömuleiðis einstæðum karlmönnum. Vegna íslenskra laga segir Mikkel að töluvert flóknara sé að aðstoða einstæðar konur og lesbíur, þar sem barnið yrði skráð barn staðgöngumóðurinnar og því gæti kona lent í vandræðum með að fá að koma með barnið inn í landið. Hann bendir á að sé faðirinn íslenskur, til dæmis eins og þegar um er að ræða gagnkynhneigð pör eða tvo karlmenn, sé þetta aftur á móti ekki vandamál.

„Fólk hefur verið í sambandi við okkur og að minnsta kosti þrjú pör eru mjög áhugasöm um að fara þessa leið, það er að segja að eignast barn með aðstoð staðgöngumóður.“

Spurður hversu langan tíma taki umsækjendur að fara í gegnum allt ferlið, segir Mikkel að algengur tími sé á bilinu 16 til 18 mánuðir. Umsækjendur þurfi þó fyrst að uppfylla ýmis skilyrði sem Tammuz Nordic setur, rétt eins og konur sem vilja gerast staðgöngumæður þurfa að uppfylla alls kyns kröfur, en þær þurfa m.a. að undirgangast læknisskoðun. „Við ræðum við fólk, metum hæfni þess til að gerast foreldrar og það hefur komið fyrir að við höfum hafnað umsækjendum,“ segir hann en tekur fram að þeir Íslendingar sem hafa átt í samskiptum við fyrirækið eftir fyrirlesturinn komi vel út. Gangi allt vel fyrir sig gætu fyrstu börnin verið komin til væntanlegra foreldra í febrúar árið 2020.

Mótmæli á fyrirlestrinum
Tammuz Nordic hefur starfað í tíu ár og segir Mikkel engin vandamál hafa komið upp hjá fyrirtækinu, engar lögsóknir og að það sé eitt hið virtasta í heimi á sínu sviði. Því hafi komið honum á óvart þegar efnt var til mótmæla vegna fyrirlestursins á Íslandi, en einn mótmælandi mætti á svæðið og kallaði til lögreglu. „Lögreglan yfirheyrði mig og hvarf svo fljótlega af vettvangi, enda átti sér ekkert ólöglegt stað,“ segir hann en kveðst þó skilja þessa afstöðu þar sem staðgöngumæðrun hafi sums staðar á sér illt orð. Tammuz Nordic styðji hins vegar vel við staðgöngumæðurnar og væntanlega foreldra. „Það eina sem við viljum er að hjálpa fólki að gerast foreldrar,“ segir hann.

Ástarsaga tveggja raðmorðingja

|
Undir lok 16. aldar var Björn Pétursson

Ný kvikmynd um hinn alræmda morðingja Axlar-Björn er vinnslu. Búi Baldvinsson hjá framleiðslufyrirtækinu Hero Produtions segir að hér sé á ferð alveg ný nálgun á söguna.

Búi Baldvinsson hjá framleiðslufyrirtækinu Hero Produtions segir að hér sé á ferð alveg ný nálgun á söguna.

„Þetta er engan veginn hrollvekja þótt það sé mikið um ofbeldi,“ segir Búi. „Þetta er í raun súrrealísk ástarsaga tveggja raðmorðingja. Axlar-Björn er auðvitað hálfgerð þjóðsaga þar sem raunverulega lítið er vitað hvað gerðist á bænum Öxl á Snæfellsnesi þar sem hann og eiginkona hans, Þórdís Ólafsdóttir, bjuggu. Það gefur okkur svigrúm til að leika okkur með söguna, búa til okkar eigin útgáfu af Birni og Þórdísi. Það er þeirra samband og draumar sem keyrir myndina áfram.“
Sagan um Axlar-Björn er fyrsta kvikmyndin í fullri lengd sem Hero Productions framleiðir í heild sinni en fyrirtækið hefur áður meðframleitt myndir eins og Rökkur, It Hatched og Angels never Cry. Leikstjóri og handritshöfundur myndarinar er Davíð Charles Friðbertsson, tökumaður Eduardo Ramirez og Vilius Petrikas annast framleiðslu. Aðalhlutverkin tvö, hlutverk Þórdísar og Axlar-Björns, eru í höndum Vivian Ólafsdóttur og Hafsteins Gunnars Hafsteinssonar og munu persónurnar verða í jafnstórum hlutverkum í þessari útfærslu sögunnar. Búi segir framleiðendurna hafa gefið sér góðan tíma til að finna réttu leikarana, enda séu Þórdís og Björn flóknar persónur og því hafi þeir viljað vanda valið.
„Okkar Björn er t.d. ekki þessi grimmi morðingi sem margir sjá fyrir sér þegar talað er um Axlar-Björn heldur viðfelldinn og sympatískur maður og það tók tíma að finna rétta leikarann. Þegar Hafsteinn kom í prufu vissum við að hann væri loksins fundinn. Hafsteinn bara smellpassaði í hlutverkið.“

„Sagan byggir á þjóðsögu og þótt henni sé kannski ekki fylgt alveg eftir þá hefur leikstjórinn skapað þarna veröld sem verður ólík öllu öðru.“

En hvers vegna ákváðuð þið að gera þessa mynd – þ.e. hvað var það við söguna sem heillaði ykkur? „Af því að undanfarið hafa helst verið að koma út realískar myndir á Íslandi og þessi mynd verður skemmtilega á skjön við þær. Sagan byggir á þjóðsögu og þótt henni sé kannski ekki fylgt alveg eftir þá hefur leikstjórinn skapað þarna veröld sem verður ólík öllu öðru sem er verið að gera hér núna.“
Spurður hvenær myndin verði sýnd í íslenskum bíóum segist Búi reikna með því að það verði í fyrsta lagi næsta haust. Tökum sé nýverið lokið og gangi eftirvinnslan vel verði myndin tilbúin til sýningar í vor. Stefnt sé að fara með hana á hátíðir í vor og sumar og eftir það liggi leiðin í kvikmyndahús. „Þá verður spennandi að sjá hvernig íslenskir áhorfendur taka henni.“

Tobba og Kalli eignuðust sitt annað barn í gær

Rithöfundurinn og fjölmiðlakonan Tobba Marinósdóttir og unnusti hennar, Karl Sigurðsson, eiguðust stelpu í gær. Þessu greindu þau frá á Facebook fyrr í kvöld.

Tobba fór heila átta daga fram yfir settan dag og hefur talaði opinskátt um það á Facebook og í viðtölum að hún hafi beitt öllum brögðum til að koma barninu í heiminn þegar settur dagur rann upp.

Þetta er annað barn þeirra Tobbu og Kalla en fyrir eiga þau fjögurra ára dóttur.

Þess má geta að nýjasta bók Tobbu er bókin Gleðilega fæðingu sem hún gaf út ásamt Hildi Harðardóttur fæðingarlækni og Aðalbirni Þorsteinssyni svæfingalækni.

Átján mánaða barátta við kerfið

||
||

Harald Schaller hefur búið á Íslandi í ellefu ár, stundaði háskólanám hér og lítur á sig sem Íslending þótt hann sé ekki innfæddur. Hann kom hingað upphaflega sem skiptinemi og líkaði svo vel að hann ákvað að koma aftur og setjast hér að. Hann lauk háskólanámi í iðnverkfræði í heimalandi sínu Þýskalandi en þegar hann hugðist nýta þá menntun á Íslandi kom babb í bátinn.

Harald Schaller lauk háskólanámi í iðnverkfræði í heimalandi sínu, Þýskalandi, en þegar hann hugðist nýta þá menntun á Íslandi kom babb í bátinn.

Verkfræðingafélag Íslands neitaði að staðfesta gráðu hans í iðnverkfræðinni og eftir að hafa reynt að hefja framhaldsnám í sinni grein við Háskóla Íslands söðlaði hann um og hóf að nema umhverfis- og auðlindafræði og síðar landafræði. Hann starfar í dag sem verkefnastjóri í Þjóðgarðinum á Þingvöllum og unir glaður við sitt, en hann segir baráttuna við að fá menntun sína metna á Íslandi hafa tekið mikið á sig.

„Ég ætlaði upphaflega bara að vera hálft ár sem skiptinemi á Íslandi en mér líkaði svo vel hér að ég ákvað að framlengja dvölina og var hér í heilt ár,“ segir Harald spurður um ástæðu þess að hann settist að á Íslandi. „Svo fór ég aftur heim til Þýskalands og lauk háskólanáminu í iðnverkfræði þar. Eftir að náminu lauk áttaði ég mig á að mig langaði til að læra meira og kom aftur til Íslands til að hefja framhaldsnám í iðnverkfræði við Háskóla Íslands.“

Mátti kalla sig tæknifræðing
Sú áætlun fór þó ekki alveg eins og Harald hafði hugsað sér og lendingin varð sú að hann skipti um námsbraut og hóf nám í umhverfis- og auðlindafræðum. Hvernig stóð á því?

„Áður en ég gat hafið framhaldsnám í iðnverkfræði setti Háskóli Íslands það skilyrði að ég lyki tveimur kúrsum í stærðfræði, sem voru kenndir á íslensku. Þeir áttu líka í erfiðleikum með að finna leiðbeinanda fyrir mig og á endanum varð þetta bara of flókið svo ég skipti yfir í umhverfis- og auðlindafræðina sem síðar leiddi mig yfir í landafræðina.“

Í framhaldi af náminu starfaði Harald að rannsóknum sem tengdust ferðamennsku og landafræði fyrir HÍ. Hann segir hlæjandi að þetta hafi verið löng og flókin leið, þrettán ára háskólanám en hann lauk M.Sc-gráðu í landafræði vorið 2016 og fór síðan að velta fyrir sér möguleikum sínum á starfi við sitt hæfi. Hann hafði með fram náminu unnið við alls kyns störf tengd ferðamannaiðnaðinum, á hótelum, börum, upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn og sem leiðsögumaður en hann segist fljótt hafa áttað sig á því að til þess að geta unnið vinnu við sitt hæfi á Íslandi yrði hann að læra íslensku betur.

 „Ég vildi ekki festast í ferðamannaiðnaðinum svo ég reyndi að fá gráðuna mína í iðnverkfræðinni staðfesta af íslenskum yfirvöldum svo ég mætti kalla mig iðnverkfræðing og gæti unnið sem slíkur hér á landi. Það var þá sem vandræðin byrjuðu.“

„Ég vildi ekki festast í ferðamannaiðnaðinum svo ég reyndi að fá gráðuna mína í iðnverkfræðinni staðfesta af íslenskum yfirvöldum svo ég mætti kalla mig iðnverkfræðing og gæti unnið sem slíkur hér á landi. Það var þá sem vandræðin byrjuðu. Það ferli tók eitt og hálft ár, þrátt fyrir að ég hefði staðfestingu á gráðunni frá háskólanum mínum í Þýskalandi. Umsóknin fór til ráðuneytisins sem síðan bað Verkfræðingafélag Íslands um álit. Þeir úrskurðuðu að ég mætti ekki kalla mig iðnverkfræðing en ég mætti segjast vera með BS-gráðu í tæknifræði. Það tók mig sem sagt átján mánuði af rökræðum við Verkfræðingafélagið að fá þessa niðurstöðu þrátt fyrir samninga á milli Evrópusambandsins og Íslands um að nám mitt í Þýskalandi jafngildi BS-gráðu í iðnverkfræði og einu ári af námi á masters-stigi í greininni að auki. Það voru mikil vonbrigði að fá það ekki viðurkennt hér og á endanum gafst ég bara upp á þessu ströggli og sætti mig við að ég gæti aldrei unnið sem iðnverkfræðingur á Íslandi.“

Forréttindi að vera frá Mið-Evrópu
Eftir þessa baráttu fór Harald að leita sér að starfi við eitthvað sem tengdist námi hans í umhverfis- og auðlindafræðinni og hann segir það hafa verið sitt lán að rekast á auglýsingu um starf sem landvörður í þjóðgarðinum á Þingvöllum. Hann fékk starfið og vann sig síðan upp í það að verða verkefnastjóri í þjóðgarðinum þar sem hann vinnur í dag. Spurður hvort það sé ekki dálítið ótengt því sem hann menntaði sig til viðurkennir hann að það sé auðvitað ekki það sem hann hafi hugsað sér þegar hann hóf námið en hann hafi ákveðið að setja það ekki fyrir sig og telji sig í dag hafa dottið í lukkupottinn við það að fá þetta starf. Þetta ferli hafi sýnt honum fram á að það sem sagt er um að þegar einar dyr lokist opnist aðrar sé satt.

Aðspurður hvað valdi því að hann hafi ákveðið að gera Ísland að heimalandi sínu þrátt fyrir vonbrigðin sem úrskurður Verkfræðingafélagsins olli honum svarar Harald að það sé svo sem ekkert einfalt svar við þeirri spurningu.

„Þegar ég kom hingað fékk ég þá tilfinningu að hér gæti ég látið hvað sem væri gerast,“ segir hann. „Heima í Þýskalandi fannst mér stundum að alls konar reglugerðir og stíf lagskipting samfélagsins stæði manni fyrir þrifum. Hér eru allir möguleikar opnir og maður kemst ótrúlega fljótt inn í hugsunarháttinn „þetta reddast“. Og þótt það sé reyndar ekki góð stefna fyrir stjórnvöld til að stjórna landinu þá gefur hún einstaklingum ótrúlegt frelsi til að fara alls konar krókaleiðir í lífinu. Það hentar mér vel.“

Harald er 39 ára gamall og þótt hann sé samkynhneigður tilheyrir hann samt menginu „hvítur miðaldra karlmaður“ sem hann viðurkennir fúslega að gefi honum forskot fram yfir ýmsa aðra útlendinga sem vilja lifa og starfa á Íslandi. Það sé líka ákveðin virðing borin fyrir fólki frá Mið-Evrópu og hann hafi því ekki upplifað fordóma fyrir útlendingum á eigin skinni.

„Ég geri mér grein fyrir því að þótt ég tilheyri minnhlutahópi sem samkynhneigður karlmaður nýt ég samt forréttinda hér,“ segir hann. „Ég hef alveg orðið var við fordóma fyrir öðrum útlendingum og ég held að það þurfi virkilega að fara að taka á þeim málum. Það gengur ekki í nútímasamfélagi að fólk sé fordæmt út frá húðlit eða uppruna.“

Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

 

 

Hroki og hleypidómar

Það virðist vera fyrir löngu orðið landlægt hér að aðflutt fólk með háskólamenntun fái ekki vinnu við sitt hæfi og mýmörg dæmi eru um að slíkt fólk sinni láglaunastörfum. Í Mannlífi í dag er rætt við fólk sem hefur búið á Íslandi um árabil en ekki enn fengið starf sem það hefur menntun til. Fólk sem vill búa hér, læra íslensku og taka þátt í atvinnulífinu af fullum krafti en fær ekki menntun sína metna og er sjaldan eða aldrei boðað í starfsviðtöl þegar það sækir um vinnu. Gerist það á annað borð segist sumt þeirra hafa mætt einkennilegum viðhorfum – jafnvel ótrúlegustu fordómum.

Þannig greinir einn viðmælenda, háskólamenntuð kona af erlendum uppruna, frá því að sumir atvinnurekenda hafi gert óviðeigandi athugasemdir við húðlit hennar í atvinnuviðtölum. Einn hafi hreinlega sagt með berum orðum að hún væri of feit til sinna starfinu sem hún sótti um. „Ég þarf bara að byrja á botninum og vinna mig upp,“ lýsir konan í viðtalinu. „Það er eina leiðin fyrir innflytjendur og ég mun halda því áfram þangað til ég fæ einhverja vinnu sem ég hef áhuga á.“

Mannlíf hafði samband við fjölmarga einstaklinga vegna málsins og fæstir vildu koma í viðtal. Annaðhvort taldi fólk að það myndi engu breyta, það væri fyrir lifandis löngu búið að sætta sig við að fá hér aldrei góða vinnu eða það treysti sér ekki í viðtal einfaldlega af ótta við að missa vinnuna, því þótt sú vinna væri kannski erfið og illa launuð þá væri hún þeirra eina lífsviðværi.

Flestum bar saman um að hér sé ótrúlega erfitt að fá störf við hæfi og þeir eiga bágt með að skilja ástæðuna. Hvort menntun þeirra uppfylli raunverulega ekki einhver tiltekin skilyrði eða hvort einskærir fordómar ráði kannski ferð, fordómar sem snúa að menntun sem kemur annars staðar frá en Íslandi eða fordómar sem snúa jafnvel að fólkinu sjálfu, húðlit þess eða uppruna.

Hver svo sem ástæðan er þá er ljóst að við þurfum að gefa fólki af erlendum uppruna sömu möguleika hér og öðrum, eins og umrædd kona orðar það í viðtalinu. Koma til móts við þá sem vilja komast á íslenskan vinnumarkað í krafti menntunar sinnar og kunnáttu, meðal annars með því að setja skýrari reglur um hvernig menntun erlendis frá er metin, auka ráðgjöf sem hjálpar fólkinu að skilja betur kerfið og breyta viðhorfi okkar til þeirra sem setjast hér að. Svo fólk gefist hreinlega ekki upp og jafnvel flytji annað, því varla viljum við missa vel menntaða og reynsluríka einstaklinga úr landi.

Ef við ætlum að byggja hér upp betra og sterkara samfélag þurfum við að nýta alla þá krafta sem okkur bjóðast, burtséð frá því hvort fólk er íslenskt eða „erlent“. Sá hugsunarháttur að „erlent“ vinnuafl sé á einhvern hátt minna virði en íslenskt er löngu úr sér genginn og okkur til skammar.

Setur leiklistina í annað sæti

Gwyneth Paltrow hefur meiri áhuga á lífstílsmerki sínu Goop heldur en leiklistinni.

Leikkonan Gwyneth Paltrow hefur tekið sér smá hlé frá leiklistinni til að einbeita sér að rekstri fyrirtækisins í kringum lífsstílsmerkið Goop. Hún saknar þess ekki að leika jafn mikið og hún gerði áður fyrr.

Þessi greindi hún frá í viðtali við Marie Claire. Þegar blaðamaður spurði hana hvers hún saknaði mest við að hafa leiklistina sem aðalstarf sagði hún: „Ekki neins. Það er mjög skrýtið. Ég hata samt ekki að leika, en ég bara sakna þess ekki.“ Hún bætti við að hún ætti nóg með fyrirtækið í kringum Goop.

Hún er þó ekki alveg hætt að leika en kvaðst í dag leggja mikla áherslu á að vanda valið þegar kemur að hlutverkum sem hún tekur að sér. „Ég tek ekki mörg verkefni að mér núna en þegar ég geri það þá sæki ég í verkefni sem skila einhverjum árangri.“

Þess má geta að samkvæmt IMDb þá er Avengers-kvikmynd sem Paltrow fer með hlutverk í væntanleg á næsta ári. Sömuleiðis fer hún með hlutverk í þáttunum The Politician sem koma út á næsta ári.

„Þetta er fyrsta gjöf barnsins“

Fyrsta gjöf barnsins er komin í hús.

Tilkynning frá Kensington-höll þess efnis að Harry Bretaprins og Meghan Markle, hertogaynjan af Sussex, eigi von á barni í vor var send út í gær. Þrátt fyrir að aðeins rúmur sólarhringur sé frá því að tilkynningin var send út eru þau strax byrjuð að fá gjafir handa ófædda barninu.

Harry og Meghan eru í opinberri heimsókn í Ástralíu og áttu fund með hershöfðingjanum Peter Cosgrove og eiginkonu hans, Lady Lynne Cosgrove, í Sidney. Cosgrove-hjónin færðu þeim að því tilefni keingúrubangsa og lítil stígvél frá ástralska merkinu Ugg.

„En sætt. Þetta er fyrsta gjöf barnsins,“ sagði hertogaynjan þegar hún tók við gjöfinni.

Þess má geta að Harry og Meghan eru í sextán daga heimsókn í Ástralíu.

Guðbjörg Jóna hreppti gullið

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir hreppti gullið í 200 metra hlaupi stúlkna á Ólympíuleikum ungmenna í Buenos Aires.

Fyrr í kvöld tryggði Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir sér sigur í 200 metra hlaupi stúlkna á Ólympíuleikum ungmenna í Buenos Aires í Argentínu. Hún hljóp vegalengdina á 23,47 sekúndum.

Þess má geta að Guðbjörg bætti Íslandsmet sitt í greininni á laugardaginn þegar hún hljóp á 23,55 sekúndum. Hún gerði sér þá lítið fyrir og bætti metið aftur í kvöld um 0,8 sekúndur.

Guðbjörg er fædd árið 2001 og er 16 ára gömul.

Mynd / Af Facebook-síðu ÍSÍ

Segir samfélagsmiðla ýta undir kvíða og einmannaleika

Breski rithöfundurinn Matt Haig segir samfélagsmiðla ýta undir kvíða og einmannaleika.

Tækninýjungar og hraðinn sem einkennir nútímasamfélag virðist ýta undir að sífellt fleira fólk finnur fyrir einkennum þunglyndis og kvíða. Breski rithöfundurinn Matt Haig er einn þeirra sem hefur þjáðst af þunglyndi og kvíða en hann hefur nýtt sér reynslu sína til að skrifa bækur, meðal annars bókina Reasons to Stay Alive sem kom út árið 2015. Nú er komin út ný bók eftir hann sem ber heitið Notes in a Nervous Planet. Sú bók fjallar um kvíðann sem margt fólk finnur fyrir vegna samfélagsmiðla og þess stöðuga áreitis sem þeim fylgir.

„Fólk lifir öðruvísi lífi, hittir fólk á annan hátt, talar við vini sína á annan hátt en það gerði, fer minna út og svefnmynstur fólks er að breytast. Þetta er allt að breytast vegna tilkomu aukinnar tækni,“ segir Matt Haig í viðtali við Economist.

„En það er ekki tæknin sjálf sem er vandamálið. Vandamálið er það að við erum ekki meðvituð um hvernig hún er að breyta tilveru okkar og hafa áhrif á hugarfar okkar.“

Hann bendir þá á að niðurstöður nýrra rannsókna benda til þess að fólk á aldrinum 16 til 24 ára er sú kynslóð sem finnur fyrir hvað mestum einmanaleika, samt er þetta sú kynslóð sem er hvað virkust á samfélagsmiðlum. Hann segir þetta vera merki um að samfélagsmiðlar ýti undir einmanaleika hjá fólki.

Viðtalið við Haig má lesa í heild sinni á vef Economist ásamt broti út bókinni.

„Ég varð eiginlega alveg brjáluð þegar ég las þessa bók“

|
|

Brynhildur Björnsdóttir, fjölmiðlakona og leikstjóri, segir frá bókunum sem hafa haft mest áhrif á hana.

Skáldsagan The Mists of Avalon eftir Marion Zimmer Bradley kom út árið 1983 og segir söguna af konunum í kringum Arthúr konung og hvernig mæðraveldi og náttúrudýrkun fer halloka fyrir feðraveldi og stríðsguðum. Hún sýnir klassíska söguskoðun frá allt öðru sjónarhorni og fékk mig til að hugsa um möguleikann á marglaga söguskoðun þar sem allskyns sannleikur lifir hlið við hlið. Ég las hana fyrst þegar ég var nítján ára en komst að því fyrir nokkrum árum að til eru söfnuðir í Bretlandi og Bandaríkjunum sem byggja vissa tegund gyðjutrúar á gyðjutrúnni sem birtist í þessari bók.

The Beauty Myth eftir Naomi Wolf er ein af bókunum sem gerði mig að femínista. Hún lýsir því hvernig hugmyndin um fegurð er búin til af markaðsöflum og feðraveldinu og hvernig hún þjónar því hlutverki að halda konum frá völdum, vellíðan og velgengni. Ég varð eiginlega alveg brjáluð þegar ég ég las þessa bók og gerði mér grein fyrir hvað það var búið að hafa mig að miklu fífli. Ákvað síðan í framhaldinu að gera mestu uppreisn sem hægt er að gera, sem er að vera ánægð með mig!

Hugsanir annarra eftir Kristján Þórð Hrafnsson er afskaplega falleg bók þar sem fjallað er um ást, svik og einmanaleika af einstakri næmni. Hún segir af giftum manni sem á í ástarsambandi við yngri konu og hvernig hann upplifir þeirra samskipti og valdaleysi sitt gagnvart því sem hún hugsar en öll upplifum við einhvern tíma óöryggið og valdaleysið sem fylgir því að vita ekki hvað gengur á innra með þeim sem við elskum.

 

Small Gods eftir Terry Pratchett er uppáhaldsbókin mín eftir þann gengna snilling en ég á næstum allar bækurnar hans og hef lesið þær flestar oftar en tölu verður á komið. Flestar bækur hans gerast í spegilveröld við okkar sem hann notar til að sýna okkur ástandið á okkur á hátt sem er allt í senn; heimspekilegur, gagnrýninn og fáránlega fyndinn.

Mynd / Rut Sigurðardóttir

The Pink Panther 2 vanmetin mynd

|
|

Þegar kemur að kvikmyndum er Þórir Snær Sigurðarson hafsjór af fróðleik. Mannlíf kom því ekki að tómum kofa þegar Þórir var beðinn um að nefna ofmetnustu og vantmetnustu mynd allra tíma.

Die Hard 1
Die Hard 1 (1998) er meðal vinsælustu hasarmynda allra tíma. Þó fyrirfinnast nokkrir sem þykir lítið til hennar koma og er ég meðal þeirra. Í myndinni reynir John McClane, lögreglumaður í New York, að bjarga gíslum úr klóm hryðjuverkamanna í jólaboði í Nakatomi Plaza. Die Hard átti vissulega sinn þátt í þróun hasarmynda á gósentíð þeirra á níunda áratugnum, en þar sem svo margar myndir hafa síðan verið byggðar á svipaðri hugmynd hverfur Die Hard oft inn í fjölda miðlungsheppnaðra hasarmynda. Myndin er að nokkru leyti ótrúverðug, atburðarásin hæg og söguþráður heldur þunnur. Leikararnir gera þó það besta mögulega úr því sem þeir hafa úr að moða. Bruce Willis og James Shigeta eru þeir sem helst standa upp úr.

 

The Pink Panther 2
Endurgerðir hinna sígildu gamanmynda um lögreglumanninn Jacques Clouseau, þar sem Steve Martin leikur aðalhlutverkið, fengu ekki sérlega góða dóma. Þó þykir mér meira í þær varið en gagnrýnendum þótti á sínum tíma. Í annarri mynd þessarrar nýrri myndaraðar gengur Clouseau til liðs við alþjóðlega sveit einkaspæjara, sem fá það verkefni að stöðva alræmdan þjóf sem sérhæfir sig í því að stela sögufrægum munum.

https://youtu.be/_bKw1XfJppI

Auk Steve kemur fjöldi þekktra leikara fram í myndinni, svo sem John Cleese og Andy Garcia. Myndum eins og þessari er auðvitað ekki ætlað að marka tímamót í kvikmyndasögunni, heldur er hún fyrst og fremst skemmtileg. Sagan er hjartnæm og falleg, sem gefur henni meira vægi. Steve Martin kemst þó ekki með tærnar þar sem Peter heitinn Sellers hafði hælana.

Þórir Snær Sigurðarson stýrði kvikmyndaþættinum Hvíta tjaldið á ÍNN. Hér er hann á setti með leikstjóranum Friðriki Þór Friðrikssyni.

Harry og Meghan eiga von á barni í vor

Harry Bretaprins og Meghan Markle, hertogaynjan af Sussex, eiga von á barni. Í tilkynningu frá Kensington-höll segir að barnið eigi að fæðast næsta vor.

Barnið verður sjöunda í röðinni að bresku krúnunni.

Tilkynning frá Kensington-höll var gefin út í dag en fregnir herma að Harry og Meghan hafi sagt fjölskyldu sinni fréttirnar á  föstudaginn, sama dag og Eugenie prinsessa gifti sig.

Lýðræðissamfélag þarf öfluga og óháða fjölmiðla

|
|

Síðast en ekki síst

Höfundur / Steinunn Stefánsdóttir

Ríkisstjórnin ætlar að styrkja einkarekna ritstýrða fjölmiðla um 400 milljónir á ári frá og með því næsta. Fram til þessa hafa einkareknir fjölmiðlar á Íslandi verið þeir einu á Norðurlöndum sem ekki hafa notið neinna styrkja eða ívilnana frá ríkinu. Hvergi er þörfin þó líklega eins mikil og hér þar sem fámennið er mest og rekstrargrundvöllurinn því erfiðastur.

Ekki verður ítrekað nógu oft og mikið hversu miklu hlutverki fjölmiðlar gegna í lýðræðissamfélagi. Þeir þurfa að veita stjórnvöldum aðhald, þeir þurfa að fræða og þeir þurfa líka að skemmta.

Til þess að þeir séu færir um að gegna þessum hlutverkum, ekki síst því sem fyrst er nefnt, að veita aðhald, þurfa þeir fjármagn, meira fjármagn en þeir eiga möguleika á að afla hér í örsamfélaginu þar sem áskrifendur geta aldrei skipt hundruðum þúsunda og auglýsingaverð er í einhverskonar samræmi við það að hversu hversu fáum auglýsingarnar geta beinst í samfélagi þar sem ekki búa nema 350 þúsund manns.

Það er jafnmikil vinna að rannsaka fréttaefni og skrifa vel unna og skýrandi frétt í blað, vefmiðil eða fyrir ljósvaka sem nær til 350 þúsund manns eins og ef um væri að ræða miðil sem nær til milljóna eða tugmilljóna. Fjölmiðlar eru sannarlega ekki hafnir yfir gagnrýni en þessa staðreynd verður að hafa í huga þegar íslenskir fjölmiðlar eru skammaðir fyrir að fara ekki nógu djúpt í málin.

Sérhagsmunir og hagsmunir almennings fara sjaldnast saman. Þess vegna er svo mikilvægt að búa til umhverfi þar sem fjölmiðlar geta þrifist án þess að vera háðir hagsmunum eigenda sinna.

Ríkisútvarpið og sú faglega vinnsla á fréttum og fréttatengdu efni sem þar fer fram er sannarlega mikilvæg og að henni þarf að hlúa. Án stöðugleikans þar væri íslenskt fjölmiðlalandslag heldur tætt og trosnað. Að sama skapi er fjölbreytileg fjölmiðlaflóra mikilvæg, að til séu fleiri öflugir og óháðir fjölmiðlar þar sem fram fer vinnsla frétta sem lúta grundvallarreglum blaðamennsku og þar sem hagsmunir almennings eru hafðir að leiðarljósi. Það er eitt að því sem gerir samfélag að lýðræðissamfélagi. Þess vegna skiptir öllu að 400 milljónirnar nýtist til að styrkja frjálsa og óháða fjölmiðla.

Vilja losna við kínversk tákn og nöfn fyrrverandi

Þau tattú sem fólk vill gjarnan losna við eru kínversk tákn og tattú sem eru farin að fölna að sögn húðlæknisins Jennu Huldar. Svo eru það auðvitað nöfn fyrrverandi maka sem fólk vill losna við af líkama sínum.

Margt fólk vill losna við tattúin sín að sögn húðlæknisins Jennu Huldar Eysteinsdóttur. Beðin um að nefna dæmi um þau tattú sem fólk vill losna við segir Jenna: „Það eru kínversk tákn og annað í þeim dúr sem eitt sinn var í tísku. Sömuleiðis vilja margar konur losna við varanlega tattúförðun, augabrúnir og svoleiðis. Svo eru sumir sem vilja láta fjarlægja gömul tattú sem eru farin að dofna og grána.“

Sumir hafa þá brennt sig á því að fá sér tattú til heiðurs maka síns en vilja svo losna við það þegar ástin slokknar. Angelina Jolie og Johnny Depp eru gott dæmi. Spurð út í hvort hún hafi þá rætt við íslenskt fólk sem vill losna við nöfn fyrrverandi maka og annað í þá áttina svarar Jenna játandi. „Já, að sjálfsögðu, það er alltaf eitthvað um það.“

Jenna verður vör við að margt fólk bíður spennt eftir að losna við tattúin sín í starfi sínu sem húðlæknir á Húðlæknastöðinni. Eftirspurnin eftir meðferðum til að losna við gömul tattú er svo mikil að hún og samstarfsfólk hennar ákváðu að fjárfesta í nýrri og öflugri græju sem fjarlægir tattú betur en aðrar græjur.

„Þetta er alveg rándýrt tæki en við ákváðum að kaupa hana af því að eftirspurnin var svo mikil. Við fáum hana í nóvember,“ útskýrir Jenna.

Spurð út í hvort hún sjálf eða kollegar hennar í húðlæknibransanum séu með tattú sem þau ætla að losa sig við þegar nýja græjan kemur í hús segir Jenna kímin: „já, það er allavega mikil spenna hérna innanhúss.“

Meðfylgjandi er myndband sem sýnir græjuna sem um ræðir.

„Óður til píanósins“

|
|

Þriðja breiðskífa raftónlistarmannsins Bistro Boy, Píanó í þokunni, kom út þann 1. október 2018. Bistro Boy er hliðarsjálf tónlistarmannsins Frosta Jónssonar en hann hefur fengist við tónlist af ýmsum toga um langt skeið.

„Vinnuferlið við þessa plötu var dálítið öðruvísi en á fyrri plötum. Ég setti mér stífari ramma í upphafi, bæði varðandi hljóðheiminn og lögin sjálf. Ég vildi byggja lögin í kringum gömul hljóðdæmi og lagabúta sem ég hef viðað að mér í gegnum árin og reyna að halda mig við fremur einfaldar melódíur. Þá er platan líka einskonar óður til píanósins sem hefur fylgt mér lengi svo ég lauma inn píanói í flest laganna með einum eða öðrum hætti þó það heyrist ekki endilega,“ segir Frosti sem ásamt fleirum stendur einnig að baki plötuútgáfunnar Möller Records sem gefur út íslenska raftónlist.

Píanó í þokunni.

Hann segir að platan sé persónuleg eins og fyrri plöturnar hans en hann hefur einnig sent frá sér EP-plötuna Sólheimar (2012) og breiðskífurnar Svartir Sandar (2016) og Journey (2013) auk nokkurra smáskífa. Hann hefur komið fram á tónlistarhátíðum hérlendis sem erlendis svo sem Secret Solstice, Iceland Airwaves og Dias Nordicos í Madrid og mun spila á Airwaves í nóvember.
„Píanó í þokunni er að einhverju leyti þakklætisvottur fyrir að hafa fengið tíma og tækifæri til að búa til tónlist og píanóið á líklega einn stærstan þátt í að svona fór. Ég sem alla tónlist og spila á öll hljóðfæri en fékk bróðurdóttur mína, hana Eiri Ólafsdóttur, til að spila á selló í tveimur laganna á plötunni. Hún er mikið hæfileikabúnt, er þriðjungur í hljómsveitinni Ateria sem sigraði músíktilraunir í ár og á pottþétt eftir að láta meira að sér kveða í tónalistinni.“

Hnallþóra – alltaf góð

tertur tertur *** Local Caption *** tertuþáttur tertuþáttur

Á mannfögnuðum á góð hnallþóra ávallt vel við. Hverskyns ber eru frískandi hráefni á kökur og skemmtileg til skreytinga. Svo er bara að laga gott kaffi og bjóða vinum og ættingjum heim.

Banana- og kókoskaka með bláberjum

fyrir 12-14

300 g smjör, mjúkt

3 ½ dl sykur

3 eggjahvítur

3 vel þroskaðir bananar, stappaðir

1 tsk. vanilludropar

6 dl hveiti

1 tsk. lyftiduft

1 tsk. matarsódi

1 tsk. salt

4 dl ab-mjólk eða súrmjólk

2 dl gróft kókosmjöl

Stillið ofn á 180°C. Hrærið smjör og sykur vel saman þar til blandan er létt og ljós. Bætið eggjahvítum saman við og hrærið í 1-2 mín. Setjið stappaða banana út í ásamt vanilludropum og blandið vel. Sigtið hveiti, lyftiduft, matarsóda og salt saman í aðra skál og blandið vel saman.

Setjið þurrefnin og ab-mjólk til skiptis út í deigið og hrærið vel á milli. Þegar allt er vel samlagað er kókosmjölinu bætt saman við. Fóðrið þrjú hringlaga form sem eru u.þ.b. 22 cm í þvermál með bökunarpappír og smyrjið hliðarnar með smjöri. Eins má nota tvö stærri form.

Skiptið deiginu jafnt í formin og bakið í u.þ.b. 20 mín. Athugið að bökunartíminn getur verið breytilegur eftir því hvort notuð eru tvö eða þrjú form og hversu stór þau eru.

Látið botnana kólna alveg áður en sett er á þá.

Fylling

5 dl rjómi

2 tsk. vanilludropar

½ dl flórsykur

½ dl kakó

Þeytið allt vel saman þar til rjóminn er hæfilega stífur. Setjið rjómann á milli botnanna.

Ofan á

150 g dökkt súkkulaði

¾ dl rjómi

½ -1 dl kókosflögur, ristaðar

1-2 dl fersk bláber, eða önnur ber

Hitið rjóma varlega að suðu. Brytjið súkkulaði í skál og hellið heitum rjómanum yfir. Látið standa í 5 mín. og hrærið þá allt vel saman og dreifið yfir kökuna. Skreytið með ristuðum kókosflögum og ferskum berjum.

Umsjón / Kristín Dröfn Einarsdóttir
Mynd / Rakel Sigurðardóttir
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir

Velur íslenska hönnun fram yfir fjöldaframleiðslu

Dagskrárgerðarkonan Sunna Axelsdóttir lýsir stílnum sínum sem „komfí kúl“ .

„Ég held að ég myndi lýsa mínum persónulega fatastíl sem „komfí kúl“ en ég pæli mikið í efnum og sniðum og finnst best að versla í litlum búðum, helst beint frá hönnuði. Bæði af því að gæðin eru betri og miklu skemmtilegra að eiga færri vönduð föt sem maður elskar heldur en að fylla skápinn af drasli sem maður hendir síðan eftir nokkur ár. Að mínu mati er líka mun betra að styðja við íslenska hönnun og skapandi fatagerð heldur en fjöldaframleiðslu. Á Íslandi versla ég í Yeoman, Kiosk, Stefánsbúð og við ÝRÚRARÍ. Annars versla ég mikið á Netinu því oftast veit ég hvað ég vil og þá er þægilegt að leita það uppi fyrir framan tölvuskjáinn.“

„Að mínu mati er líka mun betra að styðja við íslenska hönnun og skapandi fatagerð heldur en fjöldaframleiðslu.“

Þegar talið berst að þekktum konum sem veiti innblástur segir hún þær margar. „Ef ég ætti að nefna nokkrar þá væru það: Karin Dreijer Andersson, Kate Bush, Iris Apfel, Miharu Koshi, Pussy Riot, Nawal El Saadawi og allar konur sem þora að vera tussur og druslur. Ef það er eitthvað sem allar konur ættu að eiga í fataskápnum sínum fyrir veturinn, og reyndar bara almennt í lífinu væri það eitthvað sem þeim finnst geggjað kúl en engum öðrum.“

Mynd / Aldís Pálsdóttir

 

 

 

 

Útlönd í Þingholtunum

Í 114 ára gömlu bárujárnsklæddu timburhúsi í Þingholtunum býr Eva Þrastardóttir. Hún er borgarhönnuður að mennt og starfar hjá einni stærstu verkfræðistofu landsins.  Hún bjó um sex ára skeið í Danmörku, bæði á Jótlandi og Sjálandi, þar sem hún var í námi.  Íbúðin ber þess merki að Eva hefur búið erlendis og minnir hún um margt á Kaupmannahöfn að mati blaðamanns. Húsið sjálft er í raun tvö hús sem byggð voru samsíða. Annar hluti hússins er byggður árið 1900 en hinn árið 1904 og geymir það sex íbúðir í heildina.

Eva er alin upp í Hafnarfirði þar sem fjölskyldan hennar býr enn í dag en hún segir að eftir búsetuna í Danmörku hafi hana heldur langað að búa í miðbænum. Hún hafi heillast mikið af gömlum húsum í Danmörku og séð í þeim sjarmann. Þá nefnir hún loftbitana, gamaldags glugga, brakið í gólfunum í gömlu húsunum sem svo sannarlega hafa lifað með fólkinu sem í þeim bjó.

Mannlífið heillar hana einnig mikið og hún segir að sér finnist gott að keyra í átt að mannlífinu í miðbænum að vinnudegi loknum en Eva vinnur í útjaðri Reykjavíkur. Íbúðin sjálf sem er 60 fm að stærð hefur tekið töluverðum breytingum eftir að Eva festi kaup á henni fyrir tveimur árum síðan. Hún fór af stað í framkvæmdir með ákveðna sýn í huga. Gólfin voru tekin í gegn, pússuð upp og hvíttuð en gólfin eru upprunaleg og jafngömul húsinu og fannst Evu því mikilvægt að halda þeim enda vildi hún að allt það upprunalega sem hægt væri að nýta fengi að vera áfram.

Panellinn var málaður en áður hafði hann verið viðarlitaður sem minnti um margt á sumarhús eins og við Íslendingar þekkjum þau. Eldhúsinu var einnig breytt en Eva fjarlægði efri skápa sem voru komnir til ára sinna en hana hafði alltaf dreymt um opið eldhús eins og hún hafði haft á einum stað í Danmörku þar sem hún bjó um tíma. Gamall skorsteinn setur skemmtilegan svip á eldhúsið en hefur fengið að halda sér þrátt fyrir að vera ekki lengur í notkun enda hafa aðrar leiðir til húshitunar tekið yfir. Því má segja að hann sé fallegur minnisvarði um gamla tíma. Eva segist hafa verið afar heppin í framkvæmdunum en faðir hennar og mágur hafi veitt henni mikla og góða aðstoð.

Upplifun sem minnir á útlönd

Stórir og fallegir gluggar umlykja íbúðina og er útsýni til allra átta. Birtan í íbúðinni er óviðjafnanleg og mannlífið allt um kring. Það er öðruvísi að upplifa borgina úr hærri hæð en hinn gangandi vegfarandi. Mörg húsanna í miðbænum eru áhugaverðust að ofanverðu þar sem stórir gluggar eru einkennandi og fallegir þakkantar. Það vekur upp mikla útlandastemningu hjá blaðamanni að horfa út um gluggana hjá Evu en íbúðin sjálf ýtir undir þá upplifun.

Eva hefur gaman af að blanda saman nýju og gömlu og má í íbúðinni sjá stól með karrígulu áklæði sem langafi hennar átti en stóllinn hefur fylgt Evu frá því að hún var 17 ára og ferðast með henni yfir höfin. Því má segja að stólinn hafi upplifað tímana tvenna sem gerir hann fallegri fyrir vikið. Gömul tekkhúsgögn í bland við ný einkenna stílinn í íbúðinni en Evu hefur tekist afar vel til að blanda þeim saman svo úr verður falleg heild með persónulegu yfirbragði. Plöntur eru einnig eitt af áhugamálum Evu sem gefa heimilinu notalegt yfirbragð.

Það brakar í gólfinu í hverju skrefi á leið út og er blaðamaður sammála Evu um að gömlu húsin séu mest sjarmerandi sem einkennast af miklu lífi og sögu. Við kveðjum Evu og læðuna Móeyju sem nýlega fluttist inn í þessa fallegu íbúð en á þó eftir að kynnst miðbænum og mannlífinu betur. Að lokum hvetur blaðamaður lesendur til þess að horfa meira í átt til himins á ferðum sínum um miðbæinn og einblína frekar á arkitektúrinn þar sem hann mætir himinhvolfinu heldur en þar sem hann mætir jörðinni. Þá gerast töfrarnir.

Myndir / Hákon Davíð Björnsson

 

 

 

Tískubólur eftirhrunsáranna

Í tilefni þess að 10 ár eru liðin frá falli íslensku bankanna rifjar Mannlíf upp helstu tískustrauma eftirhrunsáranna.

Það var ekki bara efnahagur Íslands sem tók stakkaskiptum við efnahagshrunið. Öll samfélagsgerðin breyttist. Það sem áður þótti sjálfsögð neysluhegðun varð skyndilega litin hornauga og nýjar stefnur og straumar tóku yfir. Í tilefni þess að 10 ár eru liðin frá falli íslensku bankanna rifjar Mannlíf upp helstu tískustrauma eftirhrunsáranna.

Prjónaskapur og hannyrðir

Vinsældir prjónaskapar og hvers kyns hannyrða jukust gríðarlega eftir hrun. Líkt og áður fyrr voru saumaklúbbar orðnir vettvangur handavinnu í stað Tupperware- og hjálpartækjakynninga. Garn og prjónatímarit seldust í bílförmum og víðs vegar um land opnuðu litlar prjónabúðir. Eitt hitamálið eftir hrun var þegar upplýst var að íslenska lopapeysan, sem naut mikilla vinsælda eftir hrun, var í raun og veru prjónuð í Kína en seld sem íslensk hönnun án nokkurra upprunavottorða.

Hamstur

Mitt í allri ringulreiðinni sem fylgdi hruni bankanna var greint frá mögulegum vöruskorti í landinu ef ske kynni að greiðsluþrotið yrði algjört. Margir tóku þá til við að hamstra mat úr verslunum, jafnvel matvörum sem engum hefði dottið í hug að láta inn fyrir sínar varir nokkrum vikum fyrr. Aldrei kom til vöruskorts og því ekki ólíklegt að einhverjir eigi enn lager af niðursoðnum fiskbúðingi eða Campbell´s-súpum uppi í skáp hjá sér.

Lopapeysa og Mugison

Við hrunið leituðu broddborgarar landsins sér að jarðtengingu og fundu hana í lopapeysunni sem varð á skömmum tíma einkennisklæðnaður íslensku þjóðarinnar og leysti þar með jakkafötin af hólmi. Allt íslenskt varð meginstreymis og skyndilega var Mugison orðinn að ofurstjörnu sem ítrekað troðfyllti Hörpu, enda íslenskari listamaður vandfundinn. Mugison var hipsterinn holdi klæddur og í kjölfarið mátti sjá karlmenn úr öllum lögum samfélagsins skarta þykku og miklu skeggi.

Góði hirðirinn

Góði hirðirinn sem selur notaða muni varð ein vinsælasta verslun landsins eftir hrun. Biðraðir mynduðust fyrir utan verslunina skömmu fyrir hádegi þegar nýjar vörur voru teknar inn og var hreinlega barist um bestu bitana. Nú er öldin önnur því endurvinnslustöðvar Sorpu eru smekkfullar og Góði hirðirinn hefur neyðst til að afþakka muni því að þeir seljast ekki. Nýverið hefur meira að segja borið á kvörtunum yfir háu verðlagi í Góða hirðinum og honum jafnvel líkt við Epal.

Framboð

Fjölmargir töldu sig eiga erindi í áhrifastöður eftir hrun, en líkt og svo oft áður var framboðið langt umfram eftirspurnina. Þannig voru 14 stjórnmálaflokkar og Sturla Jónsson í framboði til þings árið 2013. Þá eru ónefndar þær hreyfingar sem ætluðu í framboð en hættu við þegar ljóst var að stemningin var engin. Tvöfaldar kappræður og stórir kjörseðlar eru orðin venjan fremur en undantekningin. Kosningarnar til stjórnlagaþings voru svo sérkapítuli út af fyrir sig þar sem 522 börðust um sætin 25 sem voru í boði. Einn frambjóðandi hlaut eitt atkvæði, væntanlega sitt eigið.

Lukkuriddarar

Lukkuriddarnarnir létu ekki eingöngu til sín taka á stjórnmálasviðinu, heldur einnig í viðskiptalífinu. Margar brjálaðar hugmyndir voru á sveimi fyrir hrun og þótt þeim hafi kannski fækkað eftir hrun, þá voru þær allt eins brjálaðar og tóku á sig aðra mynd – iðulega í tilfelli dularfullra útlendra auðmanna sem ætluðu að nota dýrmætan gjaldeyri til að skapa haug af störfum. Nærtæk dæmi eru hugmyndir um 200 milljarða fjárfestingu ECA Programs sem ætlaði að þjálfa herflugmenn á Keflavíkurflugvelli en reyndist þegar á botninn var hvolft skýjaborgir einar. Eða þegar fyrirtæki að nafni Northern Lights Energy reyndi að fá íslenskan ríkisborgararétt fyrir tíu kanadíska auðmenn í gegnum Alþingi.

Náttúruhobbí

Íslendingar eru miklar hópsálir. Þegar nágranninn kaupir sér græju þarf Íslendingurinn að eignast eins græju, ef til vill eilítið dýrari. Þetta á líka við um áhugamálin. Eftir hrunið þótti ekki fínt að svitna inni í líkamsræktarstöðvum, allra síst þeim sem voru tengdar áberandi persónum í viðskiptalífinu. Og áhugamálin urðu fínni eftir því sem tengslin við náttúruna voru meiri. Allra fínast þótti sjósundið sem eingöngu sérvitringar höfðu stundað fyrir hrun, svo fóru allir að hlaupa og það jafngilti nánast úrsögn úr samfélaginu að birta ekki sjálfu úr Reykjavíkurmaraþoni. Svo þegar efnahagurinn vænkaðist eilítið hoppaði hjörðin í gult spandex og upp á racer-hjólin.

Einfaldur og þjóðlegur matur

Við hrunið þótti skyndilega óviðeigandi að sáldra gullryki yfir matinn sinn eða bjóða upp á prjál eins og prosciutto eða carpaccio. Og að skála í kampavíni varð algjört tabú. Einfaldleikinn tók yfir og skyndilega var ólíklegasta fólk farið að taka slátur og borða innmat. Bjúgu og hamsatólg varð annað og meira en bara mötuneytis-/iðnaðarmannafæða. Þessi bylgja hvarf þó fljótt með túristasprengjunni þegar nýmóðins veitingastaðir spruttu upp eins og gorkúlur. Sölutölur Vínbúðarinnar sýna að þjóðin skálar í sjampói eins og árið 2007 og hver einasta búlla skreytir sig með orðinu „mathöll“. Þegar kjúklingastaðurinn í Suðurveri fer að kalla sig Suðurver mathöll, þá er næsta hrun handan við hornið.

Með tvær háskólagráður í ísbúð

|
|

Sante Feaster er með háskólagráður í bæði alþjóðafræðum og mannfræði frá SUNY Cortland-háskóla í New York en á Íslandi stendur hún vaktina í ísbúð við Rauðarárstíg. Ekki beint það sem hún hafði í huga þegar hún ákvað að fara í háskólanám þrátt fyrir þröngan fjárhag en ástin spyr ekki um áður gerð plön og eftir að hafa kynnst íslenskum manni sem hún varð ástfangin af tók Sante sig upp, flutti til Íslands, giftist ástinni sinni og reynir að gera það besta úr stöðunni í atvinnuleitinni, sem hefur verið henni vægast sagt torsótt.

„Ég flutti hingað fyrir einu og hálfu ári til að búa með manninum mínum,“ segir Sante og brosir allan hringinn. „Við giftum okkur í maí í fyrra og síðan hef ég verið að reyna að komast inn á íslenska vinnumarkaðinn. Það er ekki beint auðvelt og ég hef fengið alveg ótrúlega dónalegt viðmót í sumum atvinnuviðtölunum sem ég hef farið í. Ég hef náttúrlega þrennt á móti mér; ég er svört, ég er kona og ég er Ameríkani, það virðist ekki vera vinsælt hér,“ bætir hún við og hlær aftur.

Störfin eingöngu fyrir Íslendinga

Beðin að útskýra menntun sína og hvað það er sem hún sækist eftir að vinna við útskýrir Sante að hún sé svo sem opin fyrir alls konar störfum en hún myndi gjarnan vilja að menntun hennar væri metin hér.

„Ég var í háskóla í fjögur ár og hef tvær háskólagráður, í mannfræði og alþjóðafræðum þar sem ég lagði áherslu á málefni latnesku Ameríku. Ég hef reynt að fá vinnu hér á mínu sérsviði en það virðist vera mjög takmarkað framboð af störfum sem tengjast því. Og þau störf sem eru í boði eru eingöngu ætluð Íslendingum.“

„Ég hef reynt að fá vinnu hér á mínu sérsviði en það virðist vera mjög takmarkað framboð af störfum sem tengjast því.“

Sante hefur þó fundið leið til að nýta menntun sína með því að vinna með kvennahópi sem skoðar rasisma og kynjahyggju á Íslandi og hún segir engan vafa á því að hvort tveggja sé talsvert útbreitt hér. Hvort það eigi þátt í því hversu erfitt henni reynist að fá vinnu við sitt hæfi þori hún þó ekki að fullyrða.

„Ég kenndi um tíma ensku í tungumálaskóla en það var bara hlutastarf og ég þurfti að fá fulla vinnu svo ég hætti því. Ég hef unnið á tveimur veitingahúsum, bæði í Reykjavík og Kópavogi, og nú vinn ég í ísbúð. Það er ekkert hræðilegt en ekki beint það sem mig langar til að vinna við.“

Sante hefur ekki lagt stund á skipulegt nám í íslensku en hún segist þó geta talað dálítið og hún skilji mun meira en fólk geri ráð fyrir sem sé stundum vandræðalegt þegar fólk sé að tala um hana að henni viðstaddri og gangi út frá því að hún skilji ekki neitt. Það sé oft óþægilegt bæði fyrir hana og þá sem eru að baktala hana.

Tala eins og svart fólk í bíómynd

Spurð hvað hún hafi hugsað sér að gera til að komast í starf sem hæfi henni og hennar menntun, segist Sante ekki vita almennilega hvað sé hægt að gera.

„Ég þarf bara að byrja á botninum og vinna mig upp,“ segir hún. „Það er eina leiðin fyrir innflytjendur og ég mun halda því áfram þangað til ég fæ einhverja vinnu sem ég hef áhuga á. Það er ótrúlega erfitt að fá góða vinnu hérna og ég skil ekki alveg hvers vegna. Ég hef víðtæka starfsreynslu á mörgum sviðum, auk menntunarinnar, ég vann bæði með menntaskólanáminu og háskólanáminu til þess að hafa efni á því að mennta mig og ég skil ekki hvaða þröskuldar það eru sem íslenskir vinnuveitendur vilja ekki hleypa mér yfir.“

„Það er ótrúlega erfitt að fá góða vinnu hérna og ég skil ekki alveg hvers vegna.“

Sante segir húðlit sinn kannski eiga þátt í því hversu erfitt henni reynist að fá góða vinnu. Stundum hafi hún á tilfinningunni að þeir vinnuveitendur sem kalli hana í viðtal hafi aldrei talað við svarta manneskju fyrr.

„Það er ekki beint opinskár rasismi í gangi hér en það eru alls konar smáatriði sem ég sé í framkomu fólks sem eru hreinn og klár rasismi. Fólk fer allt í einu að tala eins og svart fólk gerir í amerískum bíómyndum og ég kem alveg af fjöllum, hví í ósköpunum talar fólk öðruvísi við mig en aðra enskumælandi umsækjendur í atvinnuviðtali? Sumir hafa sagt fáránlega hluti um húðina á mér og einn vinnuveitandinn sagði hreint út að ég væri of feit, hvort ég væri viss um að ég gæti unnið starfið sem ég var að sækja um. Ég varð svo hissa að ég gat varla svarað. Mér hafði aldrei dottið í hug að þyngd mín yrði gerð að umræðuefni í atvinnuviðtali, enda hefur hún aldrei komið í veg fyrir að ég gerði það sem ég ætlaði mér. Ég passaði mig samt að sýna ekki hvað ég varð reið því ég vil ekki staðfesta steríótýpuna af reiðu svörtu konunni í hugum fólks. Ég er mjög meðvituð um það að í augum sumra er ég fulltrúi allra svarta kvenna, svo ég passa mig alltaf á hvað ég segi.“

„Sumir hafa sagt fáránlega hluti um húðina á mér og einn vinnuveitandinn sagði hreint út að ég væri of feit, hvort ég væri viss um að ég gæti unnið starfið sem ég var að sækja um. Ég varð svo hissa að ég gat varla svarað.“

Sante er bjartsýn á að henni takist með tímanum að fá vinnu í sínu fagi en þangað til ætlar hún að halda áfram að reyna að klifra upp stigann, eins og hún kallar það. Hún segir þó mikilvægt að innflytjendur láti ekki bjóða sér hvað sem er á vinnumarkaðnum og hvetur fólk til að tala við sitt stéttarfélag og kynna sér réttindi sín, það sé allt of algengt að reynt sé að borga erlendu fólki minna en samningar kveða á um og láta það ekki fá lögbundinn frítíma.

„Við verðum að standa með sjálfum okkur og láta ekki svindla á okkur,“ segir hún ákveðin. „Það er óásættanlegt að erlendir launþegar njóti ekki sömu réttinda og þeir íslensku og við verðum að stoppa það sjálf. Það gerir það enginn fyrir okkur.“

Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

 

Íslendingar áhugasamir um staðgöngumæðrun

Forsvarsmaður ísraelska fyrirtækisins Tammuz Nordic, sem býður fólki upp á milligöngu um staðgöngumæðrun, segir Íslendinga spennta fyrir þessum kosti. Fyrirtækið hélt hér kynningarfund á dögunum og í kjölfarið barst því fjöldi fyrirspurna frá áhugasömum Íslendingum.

Mikkel Raahede, forsvarsmaður Tammuz Nordic.

„Fólk hefur verið í sambandi við okkur og að minnsta kosti þrjú pör eru mjög áhugasöm um að fara þessa leið, það er að segja að eignast barn með aðstoð staðgöngumóður,“ segir Mikkel Raahede, forsvarsmaður ísraelska staðgöngumæðrunarfyrirtækisins Tammuz Nordic, sem býður fólki upp á milligöngu um staðgöngumæðrun. Mikkel hélt hér á dögunum fyrirlestur fyrir áhugasama um starfsemi fyrirtækisins og þann kost að eignast barn með staðgöngumæðrun. Hann segir fundinn hafa verið ágætlega sóttan og að honum loknum hafi fyrirtækinu borist fjöldi fyrirspurna frá áhugasömum Íslendingum.
„Fólk hefur meðal annars verið forvitnast um siðfræðilegu hliðina og þá lagalegu,“ segir hann, en eins og kunnugt er staðgöngumæðrun ólögleg á Íslandi. Mikkel segir þó ekki ólöglegt fyrir Íslendinga að fá staðgöngumæðrun erlendis, það hafi hann verið fullvissaður um af íslenskum lögfræðingum.

Fyrstu börnin árið 2020
Að hans sögn hafa mestmegnis karlkyns samkynja pör á Íslandi verið í samskiptum við Tammuz Nordic eftir fyrirlesturinn en þjónustan sem fyrirtækið býður upp á stendur bæði gagnkynhneigðum pörum og karlkyns samkynhneigðum pörum til boða og sömuleiðis einstæðum karlmönnum. Vegna íslenskra laga segir Mikkel að töluvert flóknara sé að aðstoða einstæðar konur og lesbíur, þar sem barnið yrði skráð barn staðgöngumóðurinnar og því gæti kona lent í vandræðum með að fá að koma með barnið inn í landið. Hann bendir á að sé faðirinn íslenskur, til dæmis eins og þegar um er að ræða gagnkynhneigð pör eða tvo karlmenn, sé þetta aftur á móti ekki vandamál.

„Fólk hefur verið í sambandi við okkur og að minnsta kosti þrjú pör eru mjög áhugasöm um að fara þessa leið, það er að segja að eignast barn með aðstoð staðgöngumóður.“

Spurður hversu langan tíma taki umsækjendur að fara í gegnum allt ferlið, segir Mikkel að algengur tími sé á bilinu 16 til 18 mánuðir. Umsækjendur þurfi þó fyrst að uppfylla ýmis skilyrði sem Tammuz Nordic setur, rétt eins og konur sem vilja gerast staðgöngumæður þurfa að uppfylla alls kyns kröfur, en þær þurfa m.a. að undirgangast læknisskoðun. „Við ræðum við fólk, metum hæfni þess til að gerast foreldrar og það hefur komið fyrir að við höfum hafnað umsækjendum,“ segir hann en tekur fram að þeir Íslendingar sem hafa átt í samskiptum við fyrirækið eftir fyrirlesturinn komi vel út. Gangi allt vel fyrir sig gætu fyrstu börnin verið komin til væntanlegra foreldra í febrúar árið 2020.

Mótmæli á fyrirlestrinum
Tammuz Nordic hefur starfað í tíu ár og segir Mikkel engin vandamál hafa komið upp hjá fyrirtækinu, engar lögsóknir og að það sé eitt hið virtasta í heimi á sínu sviði. Því hafi komið honum á óvart þegar efnt var til mótmæla vegna fyrirlestursins á Íslandi, en einn mótmælandi mætti á svæðið og kallaði til lögreglu. „Lögreglan yfirheyrði mig og hvarf svo fljótlega af vettvangi, enda átti sér ekkert ólöglegt stað,“ segir hann en kveðst þó skilja þessa afstöðu þar sem staðgöngumæðrun hafi sums staðar á sér illt orð. Tammuz Nordic styðji hins vegar vel við staðgöngumæðurnar og væntanlega foreldra. „Það eina sem við viljum er að hjálpa fólki að gerast foreldrar,“ segir hann.

Ástarsaga tveggja raðmorðingja

|
Undir lok 16. aldar var Björn Pétursson

Ný kvikmynd um hinn alræmda morðingja Axlar-Björn er vinnslu. Búi Baldvinsson hjá framleiðslufyrirtækinu Hero Produtions segir að hér sé á ferð alveg ný nálgun á söguna.

Búi Baldvinsson hjá framleiðslufyrirtækinu Hero Produtions segir að hér sé á ferð alveg ný nálgun á söguna.

„Þetta er engan veginn hrollvekja þótt það sé mikið um ofbeldi,“ segir Búi. „Þetta er í raun súrrealísk ástarsaga tveggja raðmorðingja. Axlar-Björn er auðvitað hálfgerð þjóðsaga þar sem raunverulega lítið er vitað hvað gerðist á bænum Öxl á Snæfellsnesi þar sem hann og eiginkona hans, Þórdís Ólafsdóttir, bjuggu. Það gefur okkur svigrúm til að leika okkur með söguna, búa til okkar eigin útgáfu af Birni og Þórdísi. Það er þeirra samband og draumar sem keyrir myndina áfram.“
Sagan um Axlar-Björn er fyrsta kvikmyndin í fullri lengd sem Hero Productions framleiðir í heild sinni en fyrirtækið hefur áður meðframleitt myndir eins og Rökkur, It Hatched og Angels never Cry. Leikstjóri og handritshöfundur myndarinar er Davíð Charles Friðbertsson, tökumaður Eduardo Ramirez og Vilius Petrikas annast framleiðslu. Aðalhlutverkin tvö, hlutverk Þórdísar og Axlar-Björns, eru í höndum Vivian Ólafsdóttur og Hafsteins Gunnars Hafsteinssonar og munu persónurnar verða í jafnstórum hlutverkum í þessari útfærslu sögunnar. Búi segir framleiðendurna hafa gefið sér góðan tíma til að finna réttu leikarana, enda séu Þórdís og Björn flóknar persónur og því hafi þeir viljað vanda valið.
„Okkar Björn er t.d. ekki þessi grimmi morðingi sem margir sjá fyrir sér þegar talað er um Axlar-Björn heldur viðfelldinn og sympatískur maður og það tók tíma að finna rétta leikarann. Þegar Hafsteinn kom í prufu vissum við að hann væri loksins fundinn. Hafsteinn bara smellpassaði í hlutverkið.“

„Sagan byggir á þjóðsögu og þótt henni sé kannski ekki fylgt alveg eftir þá hefur leikstjórinn skapað þarna veröld sem verður ólík öllu öðru.“

En hvers vegna ákváðuð þið að gera þessa mynd – þ.e. hvað var það við söguna sem heillaði ykkur? „Af því að undanfarið hafa helst verið að koma út realískar myndir á Íslandi og þessi mynd verður skemmtilega á skjön við þær. Sagan byggir á þjóðsögu og þótt henni sé kannski ekki fylgt alveg eftir þá hefur leikstjórinn skapað þarna veröld sem verður ólík öllu öðru sem er verið að gera hér núna.“
Spurður hvenær myndin verði sýnd í íslenskum bíóum segist Búi reikna með því að það verði í fyrsta lagi næsta haust. Tökum sé nýverið lokið og gangi eftirvinnslan vel verði myndin tilbúin til sýningar í vor. Stefnt sé að fara með hana á hátíðir í vor og sumar og eftir það liggi leiðin í kvikmyndahús. „Þá verður spennandi að sjá hvernig íslenskir áhorfendur taka henni.“

Tobba og Kalli eignuðust sitt annað barn í gær

Rithöfundurinn og fjölmiðlakonan Tobba Marinósdóttir og unnusti hennar, Karl Sigurðsson, eiguðust stelpu í gær. Þessu greindu þau frá á Facebook fyrr í kvöld.

Tobba fór heila átta daga fram yfir settan dag og hefur talaði opinskátt um það á Facebook og í viðtölum að hún hafi beitt öllum brögðum til að koma barninu í heiminn þegar settur dagur rann upp.

Þetta er annað barn þeirra Tobbu og Kalla en fyrir eiga þau fjögurra ára dóttur.

Þess má geta að nýjasta bók Tobbu er bókin Gleðilega fæðingu sem hún gaf út ásamt Hildi Harðardóttur fæðingarlækni og Aðalbirni Þorsteinssyni svæfingalækni.

Átján mánaða barátta við kerfið

||
||

Harald Schaller hefur búið á Íslandi í ellefu ár, stundaði háskólanám hér og lítur á sig sem Íslending þótt hann sé ekki innfæddur. Hann kom hingað upphaflega sem skiptinemi og líkaði svo vel að hann ákvað að koma aftur og setjast hér að. Hann lauk háskólanámi í iðnverkfræði í heimalandi sínu Þýskalandi en þegar hann hugðist nýta þá menntun á Íslandi kom babb í bátinn.

Harald Schaller lauk háskólanámi í iðnverkfræði í heimalandi sínu, Þýskalandi, en þegar hann hugðist nýta þá menntun á Íslandi kom babb í bátinn.

Verkfræðingafélag Íslands neitaði að staðfesta gráðu hans í iðnverkfræðinni og eftir að hafa reynt að hefja framhaldsnám í sinni grein við Háskóla Íslands söðlaði hann um og hóf að nema umhverfis- og auðlindafræði og síðar landafræði. Hann starfar í dag sem verkefnastjóri í Þjóðgarðinum á Þingvöllum og unir glaður við sitt, en hann segir baráttuna við að fá menntun sína metna á Íslandi hafa tekið mikið á sig.

„Ég ætlaði upphaflega bara að vera hálft ár sem skiptinemi á Íslandi en mér líkaði svo vel hér að ég ákvað að framlengja dvölina og var hér í heilt ár,“ segir Harald spurður um ástæðu þess að hann settist að á Íslandi. „Svo fór ég aftur heim til Þýskalands og lauk háskólanáminu í iðnverkfræði þar. Eftir að náminu lauk áttaði ég mig á að mig langaði til að læra meira og kom aftur til Íslands til að hefja framhaldsnám í iðnverkfræði við Háskóla Íslands.“

Mátti kalla sig tæknifræðing
Sú áætlun fór þó ekki alveg eins og Harald hafði hugsað sér og lendingin varð sú að hann skipti um námsbraut og hóf nám í umhverfis- og auðlindafræðum. Hvernig stóð á því?

„Áður en ég gat hafið framhaldsnám í iðnverkfræði setti Háskóli Íslands það skilyrði að ég lyki tveimur kúrsum í stærðfræði, sem voru kenndir á íslensku. Þeir áttu líka í erfiðleikum með að finna leiðbeinanda fyrir mig og á endanum varð þetta bara of flókið svo ég skipti yfir í umhverfis- og auðlindafræðina sem síðar leiddi mig yfir í landafræðina.“

Í framhaldi af náminu starfaði Harald að rannsóknum sem tengdust ferðamennsku og landafræði fyrir HÍ. Hann segir hlæjandi að þetta hafi verið löng og flókin leið, þrettán ára háskólanám en hann lauk M.Sc-gráðu í landafræði vorið 2016 og fór síðan að velta fyrir sér möguleikum sínum á starfi við sitt hæfi. Hann hafði með fram náminu unnið við alls kyns störf tengd ferðamannaiðnaðinum, á hótelum, börum, upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn og sem leiðsögumaður en hann segist fljótt hafa áttað sig á því að til þess að geta unnið vinnu við sitt hæfi á Íslandi yrði hann að læra íslensku betur.

 „Ég vildi ekki festast í ferðamannaiðnaðinum svo ég reyndi að fá gráðuna mína í iðnverkfræðinni staðfesta af íslenskum yfirvöldum svo ég mætti kalla mig iðnverkfræðing og gæti unnið sem slíkur hér á landi. Það var þá sem vandræðin byrjuðu.“

„Ég vildi ekki festast í ferðamannaiðnaðinum svo ég reyndi að fá gráðuna mína í iðnverkfræðinni staðfesta af íslenskum yfirvöldum svo ég mætti kalla mig iðnverkfræðing og gæti unnið sem slíkur hér á landi. Það var þá sem vandræðin byrjuðu. Það ferli tók eitt og hálft ár, þrátt fyrir að ég hefði staðfestingu á gráðunni frá háskólanum mínum í Þýskalandi. Umsóknin fór til ráðuneytisins sem síðan bað Verkfræðingafélag Íslands um álit. Þeir úrskurðuðu að ég mætti ekki kalla mig iðnverkfræðing en ég mætti segjast vera með BS-gráðu í tæknifræði. Það tók mig sem sagt átján mánuði af rökræðum við Verkfræðingafélagið að fá þessa niðurstöðu þrátt fyrir samninga á milli Evrópusambandsins og Íslands um að nám mitt í Þýskalandi jafngildi BS-gráðu í iðnverkfræði og einu ári af námi á masters-stigi í greininni að auki. Það voru mikil vonbrigði að fá það ekki viðurkennt hér og á endanum gafst ég bara upp á þessu ströggli og sætti mig við að ég gæti aldrei unnið sem iðnverkfræðingur á Íslandi.“

Forréttindi að vera frá Mið-Evrópu
Eftir þessa baráttu fór Harald að leita sér að starfi við eitthvað sem tengdist námi hans í umhverfis- og auðlindafræðinni og hann segir það hafa verið sitt lán að rekast á auglýsingu um starf sem landvörður í þjóðgarðinum á Þingvöllum. Hann fékk starfið og vann sig síðan upp í það að verða verkefnastjóri í þjóðgarðinum þar sem hann vinnur í dag. Spurður hvort það sé ekki dálítið ótengt því sem hann menntaði sig til viðurkennir hann að það sé auðvitað ekki það sem hann hafi hugsað sér þegar hann hóf námið en hann hafi ákveðið að setja það ekki fyrir sig og telji sig í dag hafa dottið í lukkupottinn við það að fá þetta starf. Þetta ferli hafi sýnt honum fram á að það sem sagt er um að þegar einar dyr lokist opnist aðrar sé satt.

Aðspurður hvað valdi því að hann hafi ákveðið að gera Ísland að heimalandi sínu þrátt fyrir vonbrigðin sem úrskurður Verkfræðingafélagsins olli honum svarar Harald að það sé svo sem ekkert einfalt svar við þeirri spurningu.

„Þegar ég kom hingað fékk ég þá tilfinningu að hér gæti ég látið hvað sem væri gerast,“ segir hann. „Heima í Þýskalandi fannst mér stundum að alls konar reglugerðir og stíf lagskipting samfélagsins stæði manni fyrir þrifum. Hér eru allir möguleikar opnir og maður kemst ótrúlega fljótt inn í hugsunarháttinn „þetta reddast“. Og þótt það sé reyndar ekki góð stefna fyrir stjórnvöld til að stjórna landinu þá gefur hún einstaklingum ótrúlegt frelsi til að fara alls konar krókaleiðir í lífinu. Það hentar mér vel.“

Harald er 39 ára gamall og þótt hann sé samkynhneigður tilheyrir hann samt menginu „hvítur miðaldra karlmaður“ sem hann viðurkennir fúslega að gefi honum forskot fram yfir ýmsa aðra útlendinga sem vilja lifa og starfa á Íslandi. Það sé líka ákveðin virðing borin fyrir fólki frá Mið-Evrópu og hann hafi því ekki upplifað fordóma fyrir útlendingum á eigin skinni.

„Ég geri mér grein fyrir því að þótt ég tilheyri minnhlutahópi sem samkynhneigður karlmaður nýt ég samt forréttinda hér,“ segir hann. „Ég hef alveg orðið var við fordóma fyrir öðrum útlendingum og ég held að það þurfi virkilega að fara að taka á þeim málum. Það gengur ekki í nútímasamfélagi að fólk sé fordæmt út frá húðlit eða uppruna.“

Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

 

 

Hroki og hleypidómar

Það virðist vera fyrir löngu orðið landlægt hér að aðflutt fólk með háskólamenntun fái ekki vinnu við sitt hæfi og mýmörg dæmi eru um að slíkt fólk sinni láglaunastörfum. Í Mannlífi í dag er rætt við fólk sem hefur búið á Íslandi um árabil en ekki enn fengið starf sem það hefur menntun til. Fólk sem vill búa hér, læra íslensku og taka þátt í atvinnulífinu af fullum krafti en fær ekki menntun sína metna og er sjaldan eða aldrei boðað í starfsviðtöl þegar það sækir um vinnu. Gerist það á annað borð segist sumt þeirra hafa mætt einkennilegum viðhorfum – jafnvel ótrúlegustu fordómum.

Þannig greinir einn viðmælenda, háskólamenntuð kona af erlendum uppruna, frá því að sumir atvinnurekenda hafi gert óviðeigandi athugasemdir við húðlit hennar í atvinnuviðtölum. Einn hafi hreinlega sagt með berum orðum að hún væri of feit til sinna starfinu sem hún sótti um. „Ég þarf bara að byrja á botninum og vinna mig upp,“ lýsir konan í viðtalinu. „Það er eina leiðin fyrir innflytjendur og ég mun halda því áfram þangað til ég fæ einhverja vinnu sem ég hef áhuga á.“

Mannlíf hafði samband við fjölmarga einstaklinga vegna málsins og fæstir vildu koma í viðtal. Annaðhvort taldi fólk að það myndi engu breyta, það væri fyrir lifandis löngu búið að sætta sig við að fá hér aldrei góða vinnu eða það treysti sér ekki í viðtal einfaldlega af ótta við að missa vinnuna, því þótt sú vinna væri kannski erfið og illa launuð þá væri hún þeirra eina lífsviðværi.

Flestum bar saman um að hér sé ótrúlega erfitt að fá störf við hæfi og þeir eiga bágt með að skilja ástæðuna. Hvort menntun þeirra uppfylli raunverulega ekki einhver tiltekin skilyrði eða hvort einskærir fordómar ráði kannski ferð, fordómar sem snúa að menntun sem kemur annars staðar frá en Íslandi eða fordómar sem snúa jafnvel að fólkinu sjálfu, húðlit þess eða uppruna.

Hver svo sem ástæðan er þá er ljóst að við þurfum að gefa fólki af erlendum uppruna sömu möguleika hér og öðrum, eins og umrædd kona orðar það í viðtalinu. Koma til móts við þá sem vilja komast á íslenskan vinnumarkað í krafti menntunar sinnar og kunnáttu, meðal annars með því að setja skýrari reglur um hvernig menntun erlendis frá er metin, auka ráðgjöf sem hjálpar fólkinu að skilja betur kerfið og breyta viðhorfi okkar til þeirra sem setjast hér að. Svo fólk gefist hreinlega ekki upp og jafnvel flytji annað, því varla viljum við missa vel menntaða og reynsluríka einstaklinga úr landi.

Ef við ætlum að byggja hér upp betra og sterkara samfélag þurfum við að nýta alla þá krafta sem okkur bjóðast, burtséð frá því hvort fólk er íslenskt eða „erlent“. Sá hugsunarháttur að „erlent“ vinnuafl sé á einhvern hátt minna virði en íslenskt er löngu úr sér genginn og okkur til skammar.

Raddir