Mánudagur 27. maí, 2024
10.8 C
Reykjavik

Fann dauða eðlu í salatpokanum

Washington-búanum Grace Goldstein brá heldur betur í brún þegar hún kom heim úr ferð í matvöruverslunina Trader Joe’s í síðustu viku. Þegar Grace tók upp úr pokunum sá hún dauða eðlu í grænkálspokanum sem hún keypti.

Í samtali við tímaritið People segir Grace að hún hafi fengið áfall þegar hún sá eðluna.

„Ég var ýmist í afneitun eða mig hryllti við þessu, sem varð til þess að ég bað kærastann minn í sífellu að skoða grænkálspokann og staðfesta að þetta væri eðla, og þá hrópaði ég og ýtti pokanum frá mér og neitaði að vera nálægt honum. Og síðan bað ég um að fá að sjá hana aftur,“ segir Grace.

Hún bætir við að hún hafi ekki vitað hvað hún ætti að gera við eðluna og því hafi hún ákveðið að setja hana inn í ísskáp til að varðveita hana.

„Við höfðum samband við Trader Joe’s og vorum ekki viss hvort við ættum að fara með hana aftur í hverfisbúðina okkar þar sem við keyptum pokann. Mig langaði ekki að hafa rotnandi eðlu í ísskápnum. Hún var aðeins of nálægt ísnum mínum.“

Vinkona Grace tísti mynd af pokanum og hefur fólk skrifað athugasemdir við myndina um sínar eigin hryllingssögur af Trader Joe’s. Talskona verslunarkeðjunnar segir í samtali við People að fyrirtækið sé að skoða kvörtun Grace.

Birtir myndir af appelsínuhúð og slitförum

|||
|||

Söngkonan Demi Lovato er ötul talskona jákvæðrar líkamsímyndar, en seint í síðustu viku birti hún myndir af sér á Instagram-sögu sinni sem hafa vakið talsverða athygli.

Á einni myndinni sést Demi grípa í hold sitt og sýna slitför sem hún er með um sig miðja:

Á annarri myndinni sýnir hún appelsínuhúðina fyrir neðan rassinn:

Og á þriðju myndinni sýnir hún að læri hennar snertast:

Demi hefur unnið mikið í að bæta sína eigin sjálfsmynd síðustu ár, en hún hefur barist við þunglyndi og fíkn, skaðað sjálfa sig og verið með átröskun. Um allt þetta og meira til tjáði hún sig um í heimildarmyndinni Simply Complicated sem var frumsýnd á YouTube í fyrra. Heimildarmyndina má horfa á hér fyrir neðan:

Birtu skemmtilegt myndband til að tilkynna kynið á barninu

Knattspyrnukappinn Aron Einar Gunnarsson og eiginkona hans, fitness-drottningin Kristbjörg Jónasdóttir, eiga von á sínu öðru barni, en fyrir eiga þau soninn Óliver.

Þau birtu skemmtilegt myndband á Instagram til að tilkynna kynið á ófædda barninu, en það var Óliver sem fékk að leika stórt hlutverk í myndbandinu.

Í því sést Óliver sprengja stóra blöðru sem á stendur Boy or Girl?, eða Stelpa eða strákur? Þegar Óliver sprengir svo blöðruna koma fjölmargir bláir borðar úr henni og því ljóst að Aron og Kristbjörg eiga von á öðrum dreng.

? or a ?? @krisjfitness

A post shared by Aron Gunnarsson (@arongunnarsson) on

Óliver var líka lykilmaður í því þegar hjónin opinberuðu óléttuna á samfélagsmiðlum. Þá birtu þau hjónin einfaldlega mynd af drengnum í bol sem á stóð: Ég er að verða stóribróðir.

Ari fær fjórar stjörnur í Ástralíu

Ari Eldjárn

Ari Eldjárn tekur þátt í Melbourne International Comedy Festival þessa dagana með uppistandssýninguna Pardon My Icelandic. Gagnrýnandinn Patricia Maunder hjá Artshub segir í nýlegri gagnrýni sinni að Ari hljóti að vera fyndnasti grínistinn á Norðurlöndunum, svo hrifin var hún af sýningu hans í Melbourne.

Patricia segir sýningu Ara vera einlæga og bætir jafnframt við að enskukunnátta hans sé mjög góð, þar með talið hinir ýmsu hreimar sem Ari gerir en hann er, eins og Íslendingar vita, afar góð eftirherma.

Patricia segir Ara túlka listilega vel þann ríg sem ríkir á milli Norðurlandanna og hvernig Íslendingar þoli ekki hvernig Danir, Svíar, Finnar og Norðmenn tali niður til Íslands, en að Íslendingar geri svo slíkt hið sama við frændur okkar í Færeyjum.

Þá er Patricia afar hrifin af gríninu sem Ari gerir um dóttur sína.

„Síðustu tíu mínúturnar af sýningunni snýr Ari sér að athugunum úr sínu eigin lífi, þá helst föðurhlutverkinu. Túlkun hans á þriggja ára dóttur sinni sem einræðisherra úr Game of Thrones, sem er fullkomnuð með hrokafullum, enskum hreim, lætur mann óska að sýningin sé í annan klukkutíma,“ skrifar Patricia og bætir við, um leið og hún gefur sýningunni fjórar stjörnur:

„Þetta er gríngull sem týnist klárlega ekki á milli tungumála.“

Fór í lýtaaðgerð og dó í heila mínútu

Heidi Montag gerði garðinn frægan um miðbik síðasta áratugar í sjónvarpsþáttunum The Hills. Í kjölfarið fór hún í ansi margar lýtaaðgerðir, þar á meðal brjóstastækkun og ýmsar aðgerðir á andliti sínu, en þessi umbreyting var vel skrásett af slúðurmiðlum um allan heim.

Í nýju viðtali við tímaritið Paper segist Heidi hafa verið hætt komin í einni af aðgerðunum.

A post shared by heidipratt (@heidipratt) on

„Spencer hélt að hann væri búinn að missa mig,“ segir Heidi, og vísar í eiginmann sinn Spencer Pratt, en þau gengu í það heilaga árið 2009.

„Ég dó í eina mínútu. Út af öllum þessum aðgerðum þurfti ég að vera undir eftirliti hjúkrunarfræðinga allan sólarhringinn og Spencer vildi ekki líta af mér. Ég var lögð inn á endurhæfingastöð og þurfti að fá Demerol til að lina sársaukann því hann var svo mikill,“ bætir hún við.

Heidi segir að litlu hafi munað að hún hafi farið yfir móðuna miklu í fyrrnefndri aðgerð þar sem hjarta hennar hætti að slá í eina mínútu.

„Öryggisverðirnir hringdu í Spencer og sögðu honum: Hjarta Heidi stoppaði. Hún hefur það ekki af. Og ég hefði auðveldlega geta dáið. Ég mæli ekki með því að láta skera sig upp og Demerol er ekki eitthvað til að leika sér með. Michael Jackson dó af því.“

Þessi lífsreynsla breytti lífi Heidi.

„Ég þurfti að horfa á sjálfa mig í spegli á hverjum degi í batanum og hugsa: Hvað var ég að gera við sjálfa mig? Hvernig komst ég hingað? Hvað er að gerast,“ segir Heidi og bætir við:

Babymoon! ?

A post shared by heidipratt (@heidipratt) on

„Það kom mikið af jákvæðum hlutum úr þessu. Ég þurfti að ná botninum í mínu lífi til að gera mér grein fyrir því hvað væri mikilvægast.“

Lítið hefur farið fyrir Heidi og Spencer síðustu ár en í október í fyrra eignuðust þau sitt fyrsta barn saman, soninn Gunner Stone.

A post shared by heidipratt (@heidipratt) on

„Aðalgaldurinn er að þora að fara í hjarta sitt og opna það fyrir öðrum”

„Mér finnst ekkert svo stressandi að taka að mér að syngja þessi lög, þó þau séu svona vel þekkt og að vafalaust eigi flestir sína uppáhaldsflytjendur,” segir söngkonan Kristín Stefánsdóttir. Hún heldur tónleika til heiðurs Burt Bacharach í Salnum í Kópavogi þann 20. apríl, í tilefni af níræðisafmæli tónlistarmannsins þann 12. maí.

„Ég tengi mjög vel við þessi lög og skilaboðin í þeim og geri þau að mínum með því að mála myndina í huganum af sögunni sem verið er að segja. Þegar svona dásamleg tónsmíð rammar svo inn söguna er óhjákvæmilegt annað en að tengjast á sinn eigin hátt. Aðalgaldurinn er að þora að fara í hjarta sitt og opna það fyrir öðrum þannig að þeir geti tengst sínu hjarta í gegnum flutninginn,” segir Kristín, en meðal laga sem munu hljóma í Salnum eru The Look of Love, I Say a Little Prayer og What the World Needs Now.

Algjör suga á tónlist

„Mér finnst eins og lög Burt Bacharach séu svolítið samofin uppvexti mínum, á þann hátt á ég minningar af þessum lögum en ég var algjör suga á alls konar tónlist í uppvextinum. Lögin hans eiga það sameiginlegt að vera melódísk og þægileg fyrir eyrað en hafa einnig skýra sögu eða skilaboð sem ég held að sé líka galdurinn að vinsældunum. Maður á sterkar minningar af lögum eins og What the World Needs Now, That’s What Friends Are For, Close to You og Say a Little Prayer, svo fátt eitt sé nefnt. En það kom mér á óvart þegar ég fór að vinna þetta prógramm hvað hann á líka mörg ofboðslega falleg lög sem maður hafði sjaldan eða jafnvel aldrei heyrt. Þá gæti ég nefnt lög eins og Alfie, Who Will Speak for Love, Love’s the Answer og svona hádramatísk lög eins og This House is Empty Now. Lögin hans eru svo ljúf og fjalla flest öll á einn eða annan hátt um ástina og munum við kappkosta að koma þeim skilaboðum eins fallega og við getum til skila,” segir þessi hressa söngkona.

Fann kjólinn í útlöndum

Kristín er búin að leggja mikla vinnu í að skipleggja tónleikana og kom tónleikakjóllinn uppí hendurnar á henni fyrir utan landsteinana.

„Mér finnst stundum eins og ég sé að búa til listaverk þegar ég skipulegg svona tónleika. Öll smáatriði fæðast í huganum og verða svo að einni heild. Mikilvægur þáttur í þeirri mynd er auðvitað klæðnaðurinn. Mér fannst eins og klæðnaður minn þyrfti að vera í samræmi við orkuna í lögunum bæði í lit og mýkt. Þegar ég var svo í fríi í útlöndum í janúar kom rétti kjóllinn í fangið á mér. Mér fannst eins og þetta væri akkúrat kjóllinn sem hæfði lögunum; bæði rómantískur og mjúkur. Það skiptir miklu máli að líða vel í fötunum sem maður syngur í,” segir söngkonan og hlakkar mikið til tónleikanna, en auk grunnbands verða á sviðinu sex manna blásarateymi, fjögurra manna strengjasveit, þrjár bakraddir og Hreimur Örn Heimisson er gestasöngvari.

„Það hefur lengi blundað í mér að syngja lög eftir Burt Bacharach. Eftir að ég sá hann í Hörpu fyrir nokkrum árum fór myndin að taka á sig skýrara form og þegar ég svo flutti lagið The Look of Love á tónleikum í Noregi í fyrrasumar ákvað ég að nú myndi ég láta þennan draum rætast á nítugasta afmælisári tónlistarmannsins. Hlynur Þór Agnarsson píanóleikari, samþykkti að taka að sér útsetningar og hljómsveitarstjórn og við lögðumst í hugmyndavinnu. Það kom ekkert annað til greina en að gera þessum lögum góð skil og fá með okkur einvala lið tónlistarmanna,” segir Kristín og bætir við:

„Það sem ég held að muni koma áhorfendum mest á óvart er hvað þetta verður stór og flottur viðburður. Við verðum alls nítján manns að flytja tónlistina þar sem valinn maður er í hverju rúmi. Einnig munum við vera með ýmsan fróðleik um Burt Bacharach; ævi hans og lífshlaup og fjalla um þá sem sömdu með honum tónlistina og textana. Við söngvararnir fimm munum svo hjálpast að við syngja lögin eftir því sem okkur finnst hæfa hverju lagi fyrir sig. That´s what friends are for…”

Mynd / Úr einkasafni

Skrýtið að hafa foreldrana ekki með á brúðkaupsdaginn

„Dagurinn byrjaði voða rólega og við giftum okkur klukkan þrjú í gamalli kirkju í Innri Njarðvík,“ segir Ingibjörg Ósk Jóhannsdóttir. Hún gekk að eiga sinn heittelskaða, Þorstein Inga Hjálmarsson, á sjálfan þjóðhátíðardaginn 17. júní árið 2016.

Báðir foreldrar Ingibjargar eru látnir og því þurfti hún að velja einhvern annan til að leiða sig upp að altarinu á þessum stóra degi. Bæði Ingibjörg og Þorsteinn voru sammála um að það verðuga verkefni ætti að vera sett í hendur einkadóttur þeirra, Huldu Sigurlaugar, sem þá var níu ára gömul.

„Okkur fannst hún tilvalin. Ég var strax ákveðin að velja hana,“ segir Ingibjörg, en Huldu fannst þetta mikill heiður.

„Hún var svo stolt og ánægð og fannst þetta gaman.“

Fann fyrir nærveru foreldranna

Ingibjörg saknaði foreldra sinna á brúðkaupsdaginn, en var í staðinn umvafin stórum systkinahópi.

„Vissulega var skrýtið að hafa ekki foreldra sína með, en ég fann fyrir nærveru þeirra. Þetta var mitt fyrsta brúðkaup og ég kem úr stórum systkinahóp og þau komu öll,“ segir Ingibjörg og bætir við að hún hafi verið afskaplega ánægð með daginn.

„Dagurinn var yndislegur. Við héldum veisluna heima með okkar nánustu, fengum gott veður, þó það væri 17. júní,“ segir Ingibjörg og hlær. „Við erum með stórt hús og stóran pall þannig að þetta gekk vel og allt gekk upp, nema brúðartertan sem ég pantaði var mislukkuð. Ég varð fyrir vonbrigðum með hana.“

Punkta allt niður og vera tímanlega

Hvað með góð ráð fyrir stóra daginn, lumar Ingibjörg á nokkrum slíkum?

„Já, það er best að punkta allt niður sem maður ætlar að hafa og gera. Og vera tímanlega í öllu svo það verði ekki mikið stress á stóra daginn.“

Fékk þrefaldan sýklalyfjaskammt daginn fyrir brúðkaup

|
|

Ingólfur Ágústsson og Sigríður Etna Marinósdóttir voru búin að vera saman í sjö ár þegar þau ákváðu að láta pússa sig saman þann 12. júlí árið 2014 á Tálknafirði. Helgina fyrir brúðkaupið var Ingólfur steggjaður af vinum og fjölskyldumeðlimum, steggjun sem átti svo sannarlega eftir að draga dilk á eftir sér.

„Ég var nánast allsber allan daginn og meðal annars hent ofan í sjóinn í Reykjavík tvisvar sinnum. Strax eftir helgi fór ég að finna fyrir eymslum í hálsinum en var ekkert að spá mikið í það enda nóg að gera bæði í vinnu og að undirbúa brúðkaup sem átti að halda í um fimm hundruð kílómetra fjarlægð,“ segir Ingólfur, sem varð þó örlítið áhyggjufullur þegar nær dró stóra deginum.

„Á fimmtudagsmorgni byrjuðum við að græja brúðkaupssalinn og ég fann að mér leið ekki vel. Ég var að reyna að láta lítið fyrir því fara til að gera brúðina ekki áhyggjufulla. Svo var ég að sækja eitthvað inn í áhaldageymslu og var alveg bugaður og lagðist á dýnu og sofnaði. Eftir einhvern tíma skildi konan mín ekkert í hvar ég gæti verið. Svo var henni tilkynnt að ég væri sofandi inn í áhaldageymslu. Hún kom og vakti mig og botnaði ekkert í þessari hegðun hjá mér. Þá sagði ég henni að ég væri orðinn slappur og að ég héldi að ég væri kominn með streptókokka, en ég hafði fengið þá áður,“ segir Ingólfur sem fór til læknis á Patreksfirði í kjölfarið.

„Læknirinn var fljótur að greina mig og skrifaði upp á sterk sýklalyf og lét mig taka þrefaldan skammt. Hann sagði mér að ég ætti að hvíla mig fram að brúðkaupi, reyna að vera sem minnst með konunni, til að smita hana ekki, og alls ekki kyssa hana.“

Ingólfur tók ekki eftir miklum óþægindum á brúðkaupsdaginn, nema hann var með litla matarlyst.

Í móki nóttina fyrir brúðkaup

Daginn eftir, á föstudeginum, streymdu fjölskyldumeðlimir og vinir á Tálknafjörð, en Ingólfur neyddist til að láta lítið fyrir sér fara. „Ég gat ekki tekið á móti þeim eða aðstoðað við að gera brúðkaupið klárt, lá bara hundveikur uppi í rúmi og hálfvankaður af lyfjunum. Nóttina fyrir brúðkaupið var ég víst bara í einhverju móki, svitnaði svakalega og konan gat ekki sofið af áhyggjum. Hún var svo smeyk um að það þyrfti að fresta brúðkaupinu og allir hefðu þá komið í fýluferð vestur. Gaman að segja frá því að hún svaf á milli hjá foreldrum sínum þessa nótt. Þau reyndu að fullvissa óléttu, stressuðu stelpuna sína um að allt yrði í lagi og að brúðkaupsdagurinn yrði góður,“ segir Ingólfur og brosir þegar hann rifjar upp þessa daga.

Þegar sjálfur brúðkaupsdagurinn rann svo upp var Ingólfur enn slappur, en eins og fyrir örlög breyttist eitthvað í athöfninni sem var töfrum líkast.

„Við hjónin komum síðust í kirkjuna og gengum saman inn kirkjugólfið. Eins væmið og það hljómar þá losnaði um allt í hálsinum á sama andartaki og dyrnar inn í kirkjuna opnuðust og við hjónin gengum inn gólfið. Dagurinn var skemmtilegur og góður svo ég tók ekki eftir neinum óþægindum, nema ég var ekki með mikla matarlyst,“ segir Ingólfur, sem er enn leiður yfir því að hafa ekki getað tekið virkan þátt í þessum mikilvæga degi sökum veikindanna.

Leiðinlegt að taka ekki þátt í undirbúningnum

„Brúðkaupsdagurinn heppnaðist vel þrátt fyrir veikindin og ég er þakklátur fyrir það. En mér finnst enn þá leiðinlegt að hafa ekki geta tekið þátt í undirbúningnum. Salurinn var orðinn alveg klár snemma á föstudegi, því við hjónin ætluðum að eyða restinni af föstudeginum í að taka á móti fjölskyldu og vinum. En við gerðum það ekki og það var pínu súrt. Það voru margir duglegir að taka Snapchat og senda okkur og fannst okkur það mjög skemmtilegt. Að sjá vini okkar sem þekktust ekki fyrir brúðkaupið vera að hittast á tjaldstæðinu og þess háttar,“ segir hann. Það stendur svo ekki á svörunum þegar hann er beðinn um ráð fyrir tilvonandi brúðhjón.

„Númer eitt, tvö og þrjú ráðlegg ég fólki að steggja og gæsa ekki brúðhjón viku fyrir brúðkaup. Númer fjögur, ef þið eruð eitthvað slöpp, kíkið strax til læknis! Númer fimm, reynið að vera skipulögð og tímalega í undirbúningnum, það var mjög gott að vera búinn að gera allt klárt snemma á föstudeginum. Númer sex, hafið daginn ykkar nákvæmlega eins og þið viljið hafa hann. Ekki efast um ákvarðanir sem þið takið tengdar brúðkaupinu. Bjóðið bara þeim sem þið viljið, óháð því sem „búist er við af manni“. Það er æðisleg tilfinning að ganga inn kirkjugólfið og vera umkringdur fólki sem manni þykir vænt um. Veljið matinn, drykkina, tónlistina og fleira nákvæmlega eins og þið viljið hafa það. Þetta er ykkar dagur.“

Þetta viðtal er hluti af stærra efni í nýjasta tölublaði Mannlífs um óvæntar uppákomur á brúðkaupsdaginn. Smelltu hér til að lesa Mannlíf á netinu.

Myndir / Sólný Pálsdóttir

Hlýddi ömmu og fór að teikna

||
||

Teikningar eftir förðunarfræðinginn Ísak Frey vekja athygli.

Fyrirsætan Carzon Zehner, sem er meðal annarra nýja andlit Mulberry, förðuð af Ísak og mynduð af Sögu Sig. Tengingin við teikningar Ísaks er augljós.

„Þetta eru teikningar sem ég hef verið að skapa allt frá árinu 2013 en hef ekkert verið að flagga þeim. Þær komu í raun ekki fyrir sjónir almennings fyrr en seint á síðasta ári í íslenska tímaritinu Blæti,“ segir förðunarfræðingurinn Ísak Freyr um umræddar teikningar en þær hafa verið að vekja athygli erlendis að undanförnu og eru orðnar eftirsóttar af viðskiptavinum hans, stórum nöfnum innan tísku-heimsins.

„Þetta var frekar fyndið en þegar ég fór að tala um myndirnar við kúnna sem ég var að farða þá vildu þeir endilega fá að sjá þær og í framhaldinu hafa margir þeirra hafa óskað eftir myndum eftir mig.“

Ísak segist hafa byrjað að teikna myndirnar þegar hann bjó í listakommúnu í Camberwell Green í London 2013, en á þeim tíma hafi hann verið að reyna finna sjálfan sig og haft óstjórnlega þörf á að skapa. „Það var eins og þessi sköpunartilfinning kæmi frá einhverjum innri kjarna í líkamanum sem ég átti erfitt með að nálgast,“ segir hann. „Það var eins og eitthvað væri að reyna að brjótast út.“ Það hafi hins vegar ekki verið fyrr en amma hans hvatti hann til dáða sem hann ákvað að láta slag standa. „Henni fannst agalegt að ég skyldi ekki vera að teikna eins og ég hafði gert þegar ég var yngri og hvatti mig áfram. Þetta kveikti á einhverju hjá mér og í framhaldinu keypti ég liti og blöð og fór að teikna.“

Myndir eftir Ísak Frey eru farnar að vekja athygli.

Á þeim tíma segist hann hafa átt erfitt með að koma hugsunum sínum í orð, „hausinn hafi verið að springa“ eins og hann orðar það en hann hafi náð að tjá sig í gegnum myndirnar og oft teiknað þær undir áhrifum áfengis, það geri hann hins vegar ekki lengur. Gaman sé að sjá hvað þær hafi breyst mikið á þessum fimm árum.

„Í dag líður mér betur, ég er á allt öðrum stað sem er bjartari og betri og teikningarnar endurspegla það,“ segir hann.

Spurður hvort hann sé mögulega farinn að velta fyrir sér að skipta um starfsvettvang, þvertekur hann fyrir það. „Nei, ég vill alls ekki hætta að farða því mér finnst svo gaman að vinna með fólki. En, ég er farinn að velja vandlega verkefni sem ég tek mér fyrir hendur svo ég geti teiknað meira. Að því sögðu lít ég svo á að það sé beintenging á milli þessara listforma og ef eitthvað er þá hef ég óhikað nýtt myndlistina í förðuninni í gegnum tíðina. Þetta tvennt helst í hendur.“

Ráðherrar eyða allt of miklum tíma í símanum

|||||||||
|||||||||

Símanotkun Íslendinga er eitthvað sem kemst reglulega í umræðuna og virðast margir eiga við það vandamál að stríða að vera of mikið í símanum. Grunnskólar eru farnir að banna síma á kennslutíma og Barnaheill hefur lagt sín lóð á vogarskálarnar með símalausum sunnudögum.

Mikil umræða hefur verið um að börn og unglingar noti snjalltæki of mikið síðustu misseri, en foreldrarnir hafa oft gleymst í þessari umræðu. Rannsóknir hafa sýnt að ef foreldri er mikið í símanum, jafnvel marga klukkutíma í dag, geti það valdið því að það tengist börnum sínum ekki nægilega vel, sé fjarlægt, eigi erfitt með svefn og geti þróað með sér kvíða.

Við ákváðum því að spyrja æðstu foreldra og fyrirmyndir þjóðarinnar, sjálfa ráðherra í ríkisstjórn, um þeirra símanotkun.

———

Forsætisráðherraístuði

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

Hvernig síma áttu?
„Ég á iPhone 6. Held ég.“

Hvað telur þú að þú eyðir miklum tíma á degi hverjum í símanum?
„Ætli ég sé ekki í símanum að tala eða svara póstum ef ég er ekki á fundum. Á kvöldin legg ég þó símann til hliðar.“

Í hvað notarðu símann annað en að svara tölvupóstum, símtölum og smáskilaboðum?
„Bíddu ertu ekki að elta mig á Snapchat? Ég er með forsætisráðherraístuði. Djók.“

Hvaða smáforrit í símanum þínum notarðu mest?
„Er SMS-smáforrit? Nei annars, ég hef mikið notað strætó-appið sem mér finnst frábært.“

Hvað heldur þú að þú gætir verið lengi án símans?
„Ég vil trúa því að ég gæti verið án hans alla ævi en líklega í raun ekki nema í svona 4 mínútur í mesta lagi.“

———

Messenger mest notað

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.

Hvernig síma áttu?
„iPhone 7.“

Hvað telur þú að þú eyðir miklum tíma á degi hverjum í símanum?
„1 til 2 tímum.“

Í hvað notarðu símann annað en að svara tölvupóstum, símtölum og smáskilaboðum?
„Hlusta á podcast, Spotify og útvarp.“

Hvaða smáforrit í símanum þínum notarðu mest?
„Messenger.“

Hvað heldur þú að þú gætir verið lengi án símans?
„Ótakmarkað.“

———

Minni tími fyrir framan tölvuna

Kolbrún Þórdís Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Hvernig síma áttu?
„Ég á iPhone.“

Hvað telur þú að þú eyðir miklum tíma á degi hverjum í símanum?
„Það er misjafnt eftir dagskránni og til dæmis minna um helgar en á virkum dögum. Líklega of miklum þó. En í staðinn eyði ég minni tíma fyrir framan tölvuna.“

Í hvað notarðu símann annað en að svara tölvupóstum, símtölum og smáskilaboðum?
„Samfélagsmiðla, les fréttir, tek myndir og hlusta á Spotify.“

Hvaða smáforrit í símanum þínum notarðu mest?
„Tölvupóstinn, Facebook og Spotify.“

Hvað heldur þú að þú gætir verið lengi án símans?
„Vonandi lengi en ég þyrfti þá að tryggja með öðrum hætti að fólk gæti náð í mig.“

———

Gæti verið án síma í innan við mínútu

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra.

Hvernig síma áttu?
„iPhone.“

Hvað telur þú að þú eyðir miklum tíma á degi hverjum í símanum?
„Allt of miklum.“

Í hvað notarðu símann annað en að svara tölvupóstum, símtölum og smáskilaboðum?
„Skoða fréttir á Netinu.“

Hvaða smáforrit í símanum þínum notarðu mest?
„Smáforrit fyrir tölvupóst og svo netvafrann (Chrome).“

Hvað heldur þú að þú gætir verið lengi án símans?
„Púff … Dætur mínar segja eflaust að það sé innan við 1 mínútu …“

———

Eyðir þremur klukkustundum í símanum

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.

Hvernig síma áttu?
„iPhone SE (2016).“

Hvað telur þú að þú eyðir miklum tíma á degi hverjum í símanum?
„Um þremur klukkustundum.“

Í hvað notarðu símann annað en að svara tölvupóstum, símtölum og smáskilaboðum?
„Skoða Netið, aðallega fréttir.“

Hvaða smáforrit í símanum þínum notarðu mest?
„Facebook og Messenger.“

Hvað heldur þú að þú gætir verið lengi án símans?
„Í mjög skamman tíma!“

———

Vildi óska að hann gæti verið án símans

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra.

Hvernig síma áttu?
„iPhone.“

Hvað telur þú að þú eyðir miklum tíma á degi hverjum í símanum?
„Starf mitt er einfaldlega þess eðlis að það krefst mikilla samskipta og því er ég mikið í símanum. Einhverjir myndu segja of mikið.“

Í hvað notarðu símann annað en að svara tölvupóstum, símtölum og smáskilaboðum?
„Ég nota hann til að skoða fréttir, lesa og taka myndir.“

Hvaða smáforrit í símanum þínum notarðu mest?
„Ætli það sé ekki tölvupósturinn.“

Hvað heldur þú að þú gætir verið lengi án símans?
„Stundum vildi ég óska þess að ég gæti verið án hans og hefði líklega komist upp með það fyrir mörgum árum síðan. Margt hefur breyst og ég efast um að ég gæti verið lengi án hans í dag.“

———
Það er líf án síma

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra

Hvernig síma áttu?
„Ég er með Apple 6s+.“

Hvað telur þú að þú eyðir miklum tíma á degi hverjum í símanum?
„Ég nota símann minn meira með hverju árinu. Að grípa í símann jafnast á við að setjast við skrifborðið þar sem tölvan mín stendur. Mér er ómögulegt að áætla hvað ég eyði miklum tíma í símanum en ég gæti trúað að það væru um tvær til þrjár klukkustundir á dag sem fara í að tala í símann, lesa skilaboð, skrifa tölvupósta og skeyti fyrir utan að fygljast með fréttum, lesa skýrslur og annað efni.“

Í hvað notarðu símann annað en að svara tölvupóstum, símtölum og smáskilaboðum?
„Það eru samfélagsmiðlarnir, Facebook og Messenger, Twitter af og til, Snapchat til að hafa gaman, Spotify til að hafa enn meira gaman. Myndavélin er líka mikið notuð.“

Hvaða smáforrit í símanum þínum notarðu mest?
„Ætli það sé ekki Messenger.“

Hvað heldur þú að þú gætir verið lengi án símans?
„Ég myndi byrja að anda stutt eftir 4-6 tíma en á öðrum degi myndi renna upp fyrir mér að lífið heldur áfram. Það er líf án síma.“

Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra baðst undan því að svara spurningum blaðamanns. Þá svöruðu Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra ekki.

Þú ert of mikið í símanum ef …

… þú ert alltaf í símanum þegar þú ert ein/n.
… þú kíkir á símann rétt áður en þú ferð að sofa og um leið og þú vaknar.
… þú kíkir hvort eitthvað nýtt sé að frétta á samfélagsmiðlum á rauðu ljósi.
… þú færð kvíða í flugvél þegar þú þarft að svissa yfir á flugvélarstillinguna.
… maki þinn og börn segja að þú sért meira í símanum en með þeim.
… þú hefur meiri áhuga á símanum en að tala við vini þína þegar þið hittist.
… öll samskipti þín eru í formi skrifaðra skilaboða í gegnum Netið.
… þú fríkar út þegar þú finnur ekki símann.
… lífið þitt er orðið frekar litlaust.

Síminn getur verið mikill tímaþjófur.

Nærri fimm klukkutímar í símanum á dag

Fyrirtækið Statista kannaði símanotkun fólks eftir löndum og birti niðurstöður sínar í fyrra. Þar kom í ljós að Brasilíubúar eyða mestum tíma í símanum á dag, eða 4 klukkustundum og 48 mínútum. Það er næstum því heil vinnuvika.

Þá eyða Kínverjar rúmum þremur tímum á dag í símann og Bandaríkjamenn ríflega tveimur og hálfri klukkustund.

Brasilíubúar,  4,48 tímar
Kínverjar,  3,03 tímar
Bandaríkjamenn,  2,37 tímar
Ítalir,  2,34 tímar
Spánverjar,  2,11 tímar
Suður-Kórerubúar,  2,10 tímar
Kanadabúar,  2,10 tímar
Bretar,  2,09 tímar
Þjóðverjar,  1,37 tími
Frakkar,  1,32 tími

Helmingur eyðir tveimur til þremur tímum í símanum á dag

Mannlíf lagði könnun fyrir 118 Íslendinga um þeirra símanotkun. Þar kom fram að rúmlega fimmtíu prósent, eða 61, sagðist vera í tvo til þrjá tíma í símanum á dag. Þá sögðust 28 manns, eða tæplega 24 prósent, eyða fimm til sjö klukkustundum í símanum daglega. Rétt rúmlega 20 prósent sögðust eyða núll til einni klukkustund í símanum á degi hverjum á meðan 3,4 prósent eyddu átta klukkustundum eða meira í símanum.

Flestir nota símann til að skoða samfélagsmiðla, eða rétt rúmlega 94 prósent. Þá sögðust rétt rúmlega 92 prósent nota símann til að svara símtölum og smáskilaboðum. Þegar spurt var hvaða smáforrit í símanum væru mest notuð voru það Facebook, Instagram og Snapchat sem höfðu vinninginn.

H&M býður brúðarkjól Kate Middleton á 30 þúsund

||
||

Kate Middleton, hertogynjan af Cambridge, gekk að eiga Vilhjálm Bretaprins í apríl árið 2011 og vakti kjóll hennar verðskuldaða athygli.

Vilhjálmur og Kate geisluðu á brúðkaupsdaginn.

Kjóllinn var sérsaumaður af hönnuðinum Alexander McQueen og er metinn á tuttugu til fjörutíu milljónir króna. Það er því ekki á færi almúgans að festa kaup á slíkum brúðarkjól. En nú hefur fatarisinn H&M framleitt kjól sem er um margt líkur kjól Kate. Sá kostar aðeins þrjú hundruð dollara, eða tæplega þrjátíu þúsund krónur.

Eins og kjóll Kate, er kjóllinn úr smiðju H&M með fallegri blúndu að ofan og yfir langar ermarnar. Hann er beinhvítur og afskaplega fallega sniðinn, en auðvitað ekki nærri því jafn fallegur og mikið í hann lagt og kjólinn sem Kate klæddist.

Kjóllinn frá H&M.

Mesti munurinn á upprunalega kjólnum og þeim fjöldaframleidda er líklegast sá að langa og tignarlega slóðann vantar á kjólinn frá H&M, en það var systir Kate, Pippa, sem sá um að halda honum í lagi á stóra daginn, eins og frægt er orðið.

„Saumuð“ í kjólinn rétt fyrir veisluna

|
|

„Ég er algjört jólabarn, enda fædd 24. desember og þess vegna kom eiginlega aldrei neitt annað til greina en jólabrúðkaup,“ segir Aðalbjörg Aðalbjörnsdóttir. Hún játaðist Guðmundi Frey Hallgrímssyni þann 30. desember árið 2017. Athöfnin var haldin í Akraneskirkju og veislan í Hafnarfirði, en á leiðinni í veisluna gerðist svolítið óvænt.

„Á leiðinni í veisluna stoppuðum við fyrir myndatöku og planið var svo að koma við heima hjá mömmu í Reykjavík til að skipta um kjól sem ég hafði keypt fyrir veisluna. Það gekk ekki betur en svo að rennilásinn festist og í átökunum eyðilagðist hann alveg. Ég varð frekar stressuð þar sem þarna hefðum við átt að vera mætt í eigin veislu en sem betur fer tók frænka mín til sinna ráða og sagði að hún myndi bara sauma mig í kjólinn,“ segir Aðalbjörg og bætir við sposk á svip:

„Um kvöldið fékk svo eiginmaðurinn að rífa kjólinn af mér.“

Aðalbjörg gekk að eiga Guðmund í fyrra.

Ekki gleyma ykkur í smáatriðum

Aðalbjörg hugsar hlýtt til þessa atviks í dag, þó að henni hafi alls ekki verið sama á þessu augnabliki.

„Í dag finnst mér þetta voðalega fyndið og eitthvað sem gerir daginn bara enn þá eftirminnilegri,“ segir hún og bætir við að besta ráðið á brúðkaupsdaginn sé einmitt að stressa sig ekki um of á einhverju sem skiptir litlu máli.

„Besta ráðið sem ég get gefið er að gleyma sér ekki í smáatriðum og passa sig á að njóta dagsins til fulls, því hann líður allt of hratt.“

Þetta viðtal er hluti af stærra efni í nýjasta tölublaði Mannlífs um óvæntar uppákomur á brúðkaupsdaginn. Smelltu hér til að lesa Mannlíf á netinu.

Myndir / Halldór Ingi Eyþórsson

Yngsta dóttirin fór úr olnbogalið á brúðkaupsdaginn

||
||

Vala Dögg Petrudóttir gekk að eiga Trausta Má þann 13. ágúst árið 2016 á Ísafirði, en umgjörð brúðkaupsins var afskaplega rómantísk.

„Okkur langaði í síðsumarbrúðkaup þegar aðeins væri farið að dimma og extra kósí. Brúðkaupið var haldið úti undir berum himni í miðbæ Ísafjarðar, á stað sem kallast Blómagarðurinn, afskaplega fallegum og gróðursælum stað. Ég var auðvitað búin að panta rjómablíðu, eða að minnsta kosti logn. Óskin um lognið rættist en ég fékk á móti rigningarúða. En þar sem þetta var ísfirska lognið eins og það kallast þá kom það ekki að sök, afskaplega ljúft veður,“ segir Vala.

Hún Agnes sem fór úr lið.

Þau Trausti eiga þrjú börn saman en á sjálfan brúðkaupsdaginn þurfti að bruna með það yngsta, tveggja ára stúlku, á bráðamóttökuna. „Þeirri yngstu fannst mikið sport að hitta stóru frænkur sínar, önnur var komin með bílpróf og fékk hún því að fara með þeim aðeins í bæinn að kíkja í búðir. Þær voru báðar að leiða hana þegar hún ákvað að róla sér á milli þeirra, hangandi á handleggjunum þegar eitthvað gerðist og greyið fór að hágráta. Þær komu strax með hana heim og hafði hún sofnað á leiðinni hálfgrátandi. Þegar hún kom heim og vaknaði var hún enn alveg ómöguleg og vildi alls ekki rétta úr vinstri handleggnum. Hún hágrét ef eitthvað var reynt að rétta úr eða bara snerta handlegginn. Þarna var mér alls ekki farið að lítast á blikuna. Maðurinn minn var farinn til foreldra sinna með son okkar og hárgreiðslukonan mín var að detta í hús,“ segir Vala, sem fékk góðan og þarfan stuðning frá systur sinni.

„Systir mín sem er hjúkrunarfræðingur ákvað að taka málin í sínar hendur og fór ásamt hinni systur minni upp á bráðamóttöku til að láta kíkja á elsku barnið,“ segir hún, sem sjálf hafði engan tíma til að fara með.

Íhugaði að fresta brúðkaupinu

Skemmtileg brúðkaupsmynd.

„Ég var bara heima í hárgreiðslu því við máttum engan tíma missa. Klukkan var þarna um það bil þrjú og brúðkaupið átti að byrja klukkan fimm. Ég var vægast sagt orðin stressuð því þetta hafði aldrei gerst áður og ég vissi ekki hvað var að, hvort hún var brotin eða eitthvað annað. Sem betur fer var þetta „bara“ það að hún fór úr olnbogalið og eftir þetta atvik þá hefur það gerst tvisvar sinnum svo við erum heldur betur reynslunni ríkari. En ég íhugaði í alvöru í smástund hvort við þyrftum að fresta brúðkaupinu. Mamma bauð sig strax fram til að vera heima með stelpuna ef það þyrfti en sem betur fer fór það ekki svo.“

Litla stúlkan jafnaði sig fljótt og gat sem betur fer tekið virkan þátt í athöfninni og veislunni. „Um leið og læknirinn náði að smella henni í liðinn var hún eins og ný og fann ekkert til lengur. Þannig að þegar hún kom heim frá bráðamóttökunni var hún svo glöð því læknirinn var búinn að „laga höndina“ eins og hún sagði sjálf. Hún fór því beint í hárgreiðslu afskaplega spennt og glöð,“ segir Vala og bætir við að fjölskyldan geti hlegið dátt að þessu atviki núna.

„Já heldur betur. Þetta er bara ansi stór minning í minningabankann,“ segir hún og hlær.

Þetta viðtal er hluti af stærra efni í nýjasta tölublaði Mannlífs um óvæntar uppákomur á brúðkaupsdaginn. Smelltu hér til að lesa Mannlíf á netinu.

Myndir / Ágúst Atlason (gusti.is)

Brúðkaupin blessunarlega breytingum háð

Eysteinn Orri Gunnarsson prestur tekur breytingum fagnandi þegar kemur að brúðkaupsathöfnum en hann segir brúðkaup blessunarlega breytingum háð eins og allt annað.

Hann segir jafnframt að þó brúðkaup byggi á gömlum gildum sé mikilvægt að gera athöfnina sem persónulegasta.

„Ég hef verið spurður um eitt og annað sem er kannski ekki alveg eftir öllu. Alltaf sagt já enda ekki það gjörsamlega galnar óskir um að ræða. Ég man eftir einum snilling sem spurði mig hvort það væri í lagi ef að hann setti undir vinstri skó sinn hjarta límmiða, sem ég svaraði „já auðvitað ekki er velkomnara en smá auka ást“ svo hóstaði hann aðeins og varð hálfvandræðalegur á svipinn og spurði hvort hann mætti setja Liverpool merkið undir þann hægri. Ég sá auðvitað ekkert að því enda Liverpoolmaður síðan Ian Rush var með nettustu mottu í heiminum þannig að ég játaði því bara. Hugsaði þetta ekkert lengra. Svo var komið að giftingu og við rúllum í gegnum í athöfnina og þá fattaði ég þetta. Þau voru komin á skeljarnar og allir vinirnir hans skælbrosandi útá eyru og sumir vel það. Auðvitað, þvílíkur snillingur og allir höfðu gaman af. Það eru einmitt brúkaup, þau eru gleði. Eitthvað sem gerir okkur að okkur á heima í athöfnum.”

Viðtalið má lesa í heild sinni í brúðarblaði Vikunnar.

Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Tími einkabílsins er að líða undir lok

Búist við miklum breytingum á samgöngum.

„Framtíðin er í almenningssamgöngum og öðrum umhverfisvænum samgöngumátum. Allir voru að tala um hvernig tími einkabílsins fer að líða undir lok,“ segir Salvar Þór Sigurðarson, vörustjóri hjá frumkvöðlafyrirtækinu Vortexa í Bretlandi. Vortexa hefur vakið talsverða athygli. Fyrirtækið nýtir eigin tækni til að sýna nákvæmlega olíuskipaflutninga með hjálp gervigreinar, hversu mikið af olíu og hvernig olíu er verið að flytja um alla heim á rauntíma.

Á dögunum sat Salvar ráðstefnu um þróun á hrávörumarkaði í Lausanne í Sviss á vegum breska dagblaðsins Financial Times. Þetta er árleg ráðstefna sem fjallar um ýmsar hliðar hrávörumarkaðarins á borð við kol, járn og ýmislegt annað. Olía var fyrirferðarmesta umfjöllunarefnið. Á meðal annarra ráðstefnugesta voru forstjórar og annað lykilfólk stórfyrirtækja í olíu- og flutningageiranum. Vortexa var eitt af aðalstyrktarfyrirtækjum ráðstefnunnar og kynnti Salvar þar vörur þess.

„Allskonar nýir orkugjafar eru nú orðnir samkeppnishæfari og munu halda áfram að þróast. Þetta og fleira ræddi fólk um án þess að snúa öllu upp í karp um hvort þétting byggðar og auknar almenningssamgöngur séu yfirhöfuð góðar hugmyndir. Ég sakna þess á Íslandi.“

„Mér fannst mjög áhugavert að sjá hversu vel tókst að ræða umfangsmiklar breytingar á heiminum, sem fara margar beint gegn hagsmunum þeirra fyrirtækja sem áttu fulltrúa þarna, án þess að detta í afneitun. Þétting byggðar mun halda áfram og bráðum verður einkabíllinn ekki konungur allra samganga,“ segir Salvar.

Yfirskrift ráðstefnunnar í ár var: Upphaf nýrrar sveiflu. Fjallað var um þróun mála í kjölfar fjármálakreppunnar, uppsveiflunnar um heim allan eftir hana og nýja orkugjafa. „Stemningin virtist vera sú að eftir niðurskurð síðustu ára fari að birta aftur á mörkuðum með hækkandi olíuverði, hvort sem eitthvað er til í því eða ekki. Undirtónninn var samt mjög skýr. Uppsveiflan sem er að hefjast núna er alls ekki venjuleg, því hún gerist á sama tíma og mestu tækniframfarir mannkynssögunnar eru að eiga sér stað, sérstaklega þegar kemur að orkugjöfum,“ segir Salvar og bætir við að forstjórar olíufyrirtækjanna hafi verið sammála um að heimurinn sé að breytast og að þeir þurfi að fylgja með. Mikið var líka rætt um rafhlöðutækni, mengunarvandamál, þéttingu byggðar, samgöngumál og mál á borð við bitakeðju (e. blockchain) sem talið er að geti haft mikla breytingu í för með sér í fjármálaheiminum og flestum viðskiptum.

„Allskonar nýir orkugjafar eru nú orðnir samkeppnishæfari og munu halda áfram að þróast. Þetta og fleira ræddi fólk um án þess að snúa öllu upp í karp um hvort þétting byggðar og auknar almenningssamgöngur séu yfirhöfuð góðar hugmyndir. Ég sakna þess á Íslandi,“ segir Salvar.

Fleiri samkynja pör taka börn í fóstur

Fleiri samkynja pör taka nú börn í fóstur en áður og fleiri gerast fósturforeldrar.

Bryndís S. Guðmundsdóttir, uppeldisfræðingur hjá Barnaverndarstofu, segir að lesbísk pör hafi tekið að sér börn í fóstur um áraraðir og nokkur börn fundið framtíðarheimili á nýjum heimilum. Þeim hafði hins vegar fækkað talsvert þar til sjónvarpsþáttur Sindra Sindrasonar, Fósturbörn, fór í loftið á Stöð 2.

„Eftir að þættirnir voru sýndir sóttu fjögur samkynhneigð pör um að taka að sér fósturbörn, allt karlmenn. Það þýðir að 4-7 börn fundu ný heimili,“ segir Bryndís. Á síðasta ári fóru börn í fóstur á 60 heimilum og eru tæplega 400 börn á Íslandi á fósturheimilum.

Bryndís segir nokkra aðra þætti geta skýrt að fósturforeldrum hafi fækkað þar til þáttur Sindra var sýndur. Hugsanlega geti það skrifast á uppsveiflu í efnahagslífinu en þá hafi fólk meira að gera en í niðursveiflu. Hún bætir við að fólk velti því fyrir sér lengi að gerast fósturforeldrar. Yfirleitt þurfi eitthvað að ýta við því til að stíga skrefið til fulls og sækja um að verða það. „Ég held að sjónvarpsþættirnir hafi vakið áhuga hjá fólki og því sæki fleiri samkynja pör um að taka börn í fóstur,“ segir Bryndís. Lengra viðtal við má finna við hana á vefnum GayIceland.

„Þetta gefur mér meiri tíma með konunni og börnum og það er það sem ég vil“

||||
||||

„Það má aldrei segja nákvæmlega hvað þetta er og fyrir hvern fyrr en þeir eru búnir að henda út fréttatilkynningu, sem þeir eru semsé ekki búnir að gera. En þetta er tíu þátta sjónvarpssería sem gerist í geimnum fyrir eina af stóru streymisþjónustunum í heiminum. Sem sagt sci-fi geimdrama,“ segir leikarinn Jóhannes Haukur Jóhannesson.

Hann hefur verið í Höfðaborg í Suður-Afríku síðustu sex vikur við tökur á erlendri sjónvarpsseríu og verður þar í þrjár vikur til viðbótar. Hann segir ferlið hingað til hafa verið ljúft og að þægilegt sé að vinna við seríuna, ef svo má segja, þar sem hún er öll tekin upp í myndveri.

Jóhannes fékk fjölskyldu sína í heimsókn til Höfðaborgar fyrir stuttu.

„Af því að serían gerist í geimnum er allt tekið upp í myndveri, þannig að þetta er eins þægilegt og kvikmyndagerð getur orðið. Það er nú oftar en ekki þannig að maður þarf að díla við alls kyns tökustaði þar sem veður, fjarlægðir og því um líkt er alltaf að breytast. En hér fer ég alltaf á nákvæmlega sama staðinn og ef það skyldi rigna, sem gerist sjaldan, skiptir það engu máli því við erum inni í hljóðeinangruðu myndveri. Þannig að þetta er ansi gott, þó að það sé auðvitað langt að fara hingað. Það er ekki eins og ég eigi heima hérna hinum megin við hornið,“ segir Jóhannes sposkur á svip.

Sjónvarpsþættirnir eru ólíkir öðru sem Jóhannes hefur tekið sér fyrir hendur en hann hefur leikið meira í erlendum verkefnum en innlendum síðustu árin. Meðal þess sem hann hefur leikið í eru sjónvarpsþættirnir A.D. The Bible Continues og Game of Thrones og kvikmyndin Atomic Blonde. Þá lauk hann nýverið við tökur á sjónvarpsþáttunum The Innocents fyrir Netflix.

„Fjölbreytni er eitthvað sem maður tekur fagnandi í þessum bransa. Mér finnst ég alltaf vera eins og fiskur á þurru landi í hverju verkefni sem ég byrja í, sérstaklega í þessum erlendu verkefnum. Þau eru svo ólík. Á undan geimdramanu var ég að leika í tveimur bíómyndum; önnur gerist um borð í skipi og hin er 19. aldar vestri. Þetta þrennt er allt mjög, mjög ólíkt hvað öðru. Ég vil forðast að gera hluti sem virka eins fyrir mér en svo náttúrlega ræð ég því ekkert sjálfur hvaða tækifæri mér bjóðast. Ég er allavega þakklátur fyrir að fá svo fjölbreytt verkefni í hendurnar,“ segir þessi fjölhæfi leikari.

Fjölskyldutíminn skiptir mestu máli

Jóhannes á þrjú börn með eiginkonu sinni, Rósu Björk Sveinsdóttur. Þau heimsóttu hann nýverið til Höfðaborgar og eyddi fjölskyldan saman þremur vikum, en fjölskyldutíminn skiptir Jóhannes öllu máli.

Jóhannes og Rósa styðja hvort annað í gegnum þykkt og þunnt.

„Ég tek aldrei ákvarðanir um verkefni án þess að skoða hvaða áhrif þau hafa á minn tíma með fjölskyldunni. Hann skiptir mig mestu máli. Ef ég horfi á síðastliðin þrjú ár hef ég verið að jafnaði þriðjung af árinu í útlöndum og tvo þriðju heima. Þessa tvo þriðju hluta er ég nánast bara í fríi. Þegar ég skoðaði þetta verkefni fannst mér of mikið að vera níu vikur frá fjölskyldunni en þegar ég skoðaði þetta með konunni sagði hún mér að hana hefði alltaf langað til að fara til Höfðaborgar. Þannig að við höfðum þetta þannig að ég var einn hér í þrjár vikur, síðan kom konan með börnin og var hjá mér í þrjár vikur og svo er ég einn í þrjár vikur í restina. Þannig að í raun er ég bara í þrjár vikur í burtu sitthvoru megin við fríið með þeim. Svo verð ég í fríi í dágóðan tíma eftir að ég kem heim. Ég leyfi þessu ekki að taka of stóran bita af fjölskyldulífinu. Konan hefur reyndar heimsótt mig með börnin í öll erlendu verkefnin sem ég hef tekið mér fyrir hendur. Hún hefur komið til Ungverjalands, Marokkó, Vancouver í Kanada og til Bretlands, sem er rosalega gaman og mikið ævintýri fyrir alla,“ segir Jóhannes, en tökuplanið var fjölskyldunni hliðhollt í nýlegri heimsókn til Höfðaborgar.

Það var ýmislegt brallað þegar fjölskyldan átti frítíma saman í Suður-Afríku.

„Það raðaðist þannig að þessar þrjár vikur sem þau voru hér þá held ég að ég hafi unnið í fimm daga samtals, sem var æðislegt. Þrír af þessum fimm dögum voru hálfir dagar þannig að það var eins og ég hefði hannað þetta sjálfur sem var ofboðslega gott.“

Betur borgað en á Íslandi

Jóhannes kann vel við að ferðast um heiminn á vit nýrra og krefjandi verkefna, eins og hann hefur gert nánast eingöngu síðastliðin fjögur ár.

„Mér finnst þetta algjör forréttindi. Ég fæ að heimsækja staði í heiminum sem ég hef aldrei komið til áður. Ég finn líka hvað þetta gefur mér mikinn frítíma. Ég hef miklu meiri frítíma núna en nokkurn tíma þegar ég var að vinna á Íslandi. Þetta tekur ekki yfir allan minn tíma á árinu og er töluvert betur borgað en að vera leikari á Íslandi. Þetta gefur mér meiri tíma með konunni og börnum og það er það sem ég vil. Ég er þakklátur fyrir þessar aðstæður sem ég er í núna og vil endilega halda þessu áfram,“ segir Jóhannes. Nánasta framtíð er óráðin þegar kemur að verkefnum.

„Akkúrat núna er bara frí sem tekur við eftir tökur í Höfðaborg. Ég vil helst vera í fríi þangað til í haust. Netflix-serían The Innocents verður frumsýnd í júlí og ef ákveðið verður að gera aðra seríu er ég samningsbundinn að leika í henni. Þá fer ég aftur í tökur í september eða október, að því gefnu að verði gerð önnur sería sem ég veit ekki fyrr en í ágúst. Mögulega leik ég í skandinavískri bíómynd í ágúst en það er allt á samningsstigi og ekkert ákveðið. En það væri gaman,“ segir leikarinn.

Hvar er fastráðningin í Þjóðleikhúsinu?

En á hann eftir að uppfylla einhverja drauma á ferlinum?

„Ég er allavega kominn á ákveðinn stað sem mig óraði ekki fyrir að ég myndi komast á. Ég hef alltaf tekið eitt skref fram á við en aldrei horft á einhvern endapunkt. Þegar ég var í leiklistarskólanum hugsaði ég aldrei að ég ætlaði að leika í erlendum sjónvarpsþáttum og bíómyndum. Nei, ég hugsaði: Ég ætla að verða fastráðinn leikari í Þjóðleikhúsinu. Það fyrir mér var ákveðinn staður til að komast á. Svo þegar ég fékk fastráðningu langaði mig að leika í íslenskum kvikmyndum. Eftir að ég lék í Svartur á leik fékk ég erlendan umboðsmann og þá var allt í einu komið inn í myndina að leika í erlendum bíómyndum,“ segir Jóhannes og bætir við að hann standi á hálfgerðum krossgötum.

Stund á milli stríða hjá Jóhannesi.

„Ég hef verið að hugsa þetta undanfarið: Hvar er fastráðningin í Þjóðleikhúsinu núna? Hvert vil ég komast. Ég hreinlega veit það ekki. Það er hættulegt að vera of sáttur við hvar maður er og maður þarf að stefna að einhverju. Ein hugsun sem hefur læðst að mér er að kannski sé næsta skref fyrir mig að framleiða eitthvað sjálfur. Að segja einhverja sögu sem mig langar til að segja. En ég veit ekki hvaða saga það er.“

Myndir / Úr einkasafni

Presturinn sagði vitlaust nafn í kirkjunni

Þau Alma Jónsdóttir og Matthías Árni ákváðu að slá tvær flugur í einu höggi þann 12. ágúst í fyrra – að ganga í það heilaga og skíra son sinn, Jón Inga, á sama tíma í Hafnarfjarðarkirkju.

„Dagurinn var fullkominn í alla staði, æðislegt veður og fjölskylda og vinir samankomnir til að fagna deginum með okkur,“ segir Alma. Það var þó eitt óvænt, en frekar fyndið, atvik í athöfninni sjálfri, sem vakti mikla athygli fram eftir degi og kvöldi.

„Athöfnin hafði gengið rosalega vel. Við byrjuðum á að skíra Jón Inga og var það æðisleg stund þar sem hann er skírður í höfuðið á öfum sínum sem voru þarna með okkur. Svo var komið að því að gifta okkur. Presturinn, sem við þekkjum bæði vel, var búinn að vera í smávegis veseni með hátalarakerfið en lét það ekki á sig fá og hélt áfram með athöfnina. Þegar kom að því að spyrja okkur hvort við vildum ganga að eiga hvort annað byrjaði hann á að spyrja Matthías hvort það væri einlægur ásetningur hans að ganga að eiga Telmu sem við hlið hans stæði. Þarna var maðurinn minn sem betur fer fljótur að svara: „Nei Ölmu!“ Þá roðnaði presturinn smávegis og gátum ekki annað en brosað. Athöfnin hélt svo áfram áfallalaust og við gengum út úr kirkjunni gift,“ segir Alma og bætir við:

„Eftir athöfnina kom presturinn til okkar og ætlaði að fara biðja okkur afsökunar á þessu atviki en við vorum fljót að stoppa hann og hlæja bara að þessu með honum.“

Segja má að þessi nafnaruglingur hafi verið eitt af aðalskemmtiatriðunum í veislunni eftir athöfnina.

„Þar sem að hátalarakerfið var búið að vera eitthvað aðeins að stríða okkur voru það ekki margir sem heyrðu prestinn segja rangt nafn, en þeir sem heyrðu þetta fannst þetta bara skondið atvik. Í veislunni var þetta hins vegar aðalgrínið og mikið hlegið af þessu. Í dag getum við svo sannarlega hlegið jafnmikið að þessu og við gerðum á brúðkaupsdaginn,“ segir Alma.

Þetta viðtal er hluti af stærra efni í nýjasta tölublaði Mannlífs um óvæntar uppákomur á brúðkaupsdaginn. Smelltu hér til að lesa Mannlíf á netinu.

Mynd / Zack Gemmell

Leita að ungri stúlku til að leika í stuttmynd

Framleiðslufyrirtækið Join Motion Pictures leitar nú að stúlku á aldrinum fimm til sjö ára til að leika aðalhlutverk í nýrri stuttmynd.

Join Motion Pictures var stofnað árið 2007 af framleiðandanum Antoni Mána Svanssyni og leikstjóranum Guðmundi Arnari Guðmundssyni. Þetta tvíeyki vakti fyrst heimsathygli árið 2013 með stuttmyndinni Hvalfjörður, eða Whale Valley, sem sópaði til sín verðlaunum, þar á meðal á kvikmyndahátíðinni í Cannes þar sem myndin hlaut sérstök dómnefndarverðlaun.

Join Motion Pictures framleiddi einnig kvikmyndina Hjartastein, sem Guðmundur Arnar leikstýrði og skrifaði, en sú mynd hefur hlotið hátt í fjörutíu verðlaun hér heima og erlendis, og Vetrarbræður eftir Hlyn Pálmason sem státar af yfir tuttugu verðlaunum.

Áhugasamir foreldrar eru beðnir um að senda nýlegt myndbrot eða myndir af dætrum sínum á [email protected], ásamt upplýsingum um aldur, hæð og helstu áhugamál eigi síðar en sunnudaginn 8. apríl.

„Róandi lyf algengust“

|
|

Valgerður Rúnarsdóttir, læknir, framkvæmdastjóri lækninga hjá SÁÁ og forstjóri sjúkrahússins Vogs, segir að misnotkun lyfseðilsskyldra lyfja hafi tíðkast í áratugi og sé hluti af vímuefnavanda þeirra sem leita til SÁÁ.  

Valgerður Rúnarsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá SÁÁ, segir meðal annars að meðan framboðið á lyfjum sé mikið sé neyslan það einnig.

„Lyfseðilsskyld lyf sem eru misnotuð eru í þremur flokkum, öll ávanabindandi og geta valdið fíkn. Róandi-, svefn- og kvíðastillandi lyf, sterk verkjalyf og örvandi lyf. Öll þessi lyf eru meira áberandi meðal þeirra sem koma í meðferð nú en áður en þó eru ekki dramatískar breytingar nema fíkn í sterku verkjalyfin jókst umtalsvert síðustu tvö árin. Neyslan í dag er hjá flestum blönduð, áfengi, lyf og ólögleg vímuefni,“ segir Valgerður. „Algengast er þó að róandi lyfin séu með í för. Konur eru líklegri til að nota róandi lyfin en karlar, önnur lyfjaneysla er svipuð hjá báðum kynjum. Eldri einstaklingar hafa verið frekar í róandi og verkjalyfjum, en þetta hefur breyst og undanfarin ár sækir yngri kynslóðin mun meira í þessi lyf, jafnvel þau yngstu, það er að segja undir tvígtugu. Notkun örvandi lyfjanna er mest meðal yngri fullorðinna, 20-40 ára, og hættulegast er þegar þessi lyf eru notuð í æð.“

Lyfin oft af götunni
Hefur orðið aukning á einhverju tilteknu lyfi að undanförnu? „Við höfum tekið eftir aukningu á xanax sem er eitt af róandi lyfjunum og er ekki selt hér í apótekum, og síðan verkjalyfið oxycodone sem þó er mun minna um. Það eru þó oftast  sömu lyfin sem ganga kaupum og sölum, samanber nöfnin hér fyrir ofan. Það má segja að ópíóíðalyfin eða sterku verkjalyfin séu hættulegust í inntöku því þau geta haft lífshættulegar afleiðingar með öndunarhömlun sem er vegna áhrifa á heila. Önnur róandi lyf geta einnig verið lífshættuleg í inntöku sérstaklega með öðrum vímugjöfum eins og áfengi. Hins vegar er neysla methylphenidates (rítalíns) í æð og einnig morfínlyfin í æð, mjög hættuleg vegna þeirra lífshættulega fylgikvilla sem sprautufíkn fylgja. Bakteríusýkingar, lost, ofskammtar og svo framvegis. Áhrif methylphenidate-lyfja á hvatvísi, áhættuhegðun, dómgreind og fleira eru mjög alvarlegt mál. Örvandi neyslan á Íslandi er miklu meira vandamál heldur en verkjalyfin,“ segir Valgerður. „Þessi lyf eru til sölu á ólöglegan hátt, þau koma væntanlega flest úr apótekum landsins, geta líka verið innflutt. Margir fá einhver lyf frá læknum en það er algengara að fólk kaupi þau „á götunni“.“

„Þessi lyf eru til sölu á ólöglegan hátt, þau koma væntanlega flest úr apótekum landsins, geta líka verið innflutt. Margir fá einhver lyf frá læknum en það er algengara að fólk kaupi þau „á götunni“.“

Meðferð vandasöm
Hún segir að afeitrun af þessum mismunandi lyfjum geti verið vandasöm og sé ólík fyrir hvern lyfjaflokk. „Margir eru í blandaðri neyslu á þessum lyfjum og því full þörf á gát og endurmati lyfja þessa daga sem afeitrun stendur. Hún er veitt í inniliggjandi sjúkrahúsdvöl á Vogi, af læknum og hjúkrunarfræðingum. Margir þurfa framlengda dvöl vegna þessarar neyslu, sem getur tekið langan tíma að afeitra, allt upp í nokkrar vikur. Stundum á við sérstök meðferð fyrir þá sem eru með alvarlega fíkn í ópíóíðalyf, sterku verkjalyfin, sem kallast viðhaldsmeðferð og er veitt héðan frá göngudeild Vogs.

Auk þess er mikil þörf á framlengdri meðferð fyrir fólk sem sprautar í æð örvandi lyfjum, það þarf oft mikið umhald og stuðning. Við höfum fjögurra vikna eftirmeðferð á meðferðarstöð SÁÁ á Vík á Kjalarnesi sem er glæný, rúmgóð og býður kynjaskipta meðferð með nokkrum sérúrræðum. Það er meðal annars gott rými fyrir eldri einstaklingana sem voru lyfjaháðir og þurfa tíma til að jafna sig og læra að takast á við til dæmis svefnvanda og kvíðaeinkenni sem eru oft áberandi í þessum hópi. Einnig höfum við framhaldsdvöl í 6-18 mánuði á meðferðarheimilinu Vin fyrir karlmenn sem komnir eru í slæma stöðu. Og svo er það göngudeildin okkar í Von Efstaleiti og á Akureyri.“

Hefur verið sama þróun í þessum málum hér og í nágrannaþjóðunum? „Já, það eru áhyggjur af lyfjaneyslu og fíkn hjá nágrannaþjóðum. Í Bandaríkjunum kalla þeir það „faraldur“ þar sem hátt í 100 manns deyja á dag úr ofneyslu sterkra verkjalyfja.“

„Samfélagið mætti vel spyrja sig, hvers vegna lyf almennt. Við mörgum venjulegum einkennum og áhrifum lífsins. Til dæmis svefntruflunum, verkjum, vægum kvíðaeinkennum, öðrum geðrænum einkennum sem mörgum hverjum má sinna með allt öðrum hætti en með lyfjum.“

Breytingar á lífsstíl í stað lyfja
Áhugavert er að velta fyrir sér hvaða samfélagslegu aðstæður og ástæður geta verið fyrir því að öll þessi lyf eru í umferð og að fólk misnotar lyfseðilsskyld lyf í auknum mæli. „Það er einnig umhugsunarvert hvernig umgengni er við lyf, má gefa með sér lyfseðilskyld lyf? Svarið er nei, en sú er samt raunin. Samfélagið mætti vel spyrja sig, hvers vegna lyf almennt,“ segir Valgerður ákveðin, „við mörgum venjulegum einkennum og áhrifum lífsins. Til dæmis svefntruflunum, verkjum, vægum kvíðaeinkennum, öðrum geðrænum einkennum sem mörgum hverjum má sinna með allt öðrum hætti en með lyfjum. Hreyfing og ýmsar lífsstílsbreytingar geta haft gríðarlega mikil áhrif og góð. Sálfræðimeðferðir eru til við mörgum kvillum og geta læknað og lagað mjög mikið með einstaklingnum. Við langvinnum stoðkerfisverkjum, (ekki bráðum verkjum eða í líknarmeðferð), á helst ekki að nota þessi morfínskyldu verkjalyf. Bestu raun gefa hreyfing, sjúkraþjálfun, endurhæfing, sálfræðimeðferð, iðjuþjálfun og fleira auk ef til vill bólgueyðandi lyfja. Það er hugsað sem lausn á undirliggjandi og samhliða vanda, en ekki bara að slökkva á einkenninu sem er verkurinn. Kannski erum við orðin of lyfjatrúar, eða þolum minna en áður. Síðan er það vandinn af fíkninni. Þegar um er að ræða fíknsjúkdóm eru þessi lyf eins og hvert annað vímuefni og neyslan þá ekki stýrð af skynsemi eða rökum. Þau koma þá inn í neysluna almennt og verða hluti af henni, eins og raunin er. Ef nóg er framboðið, þá verður neyslan líka aukin,“ segir Valgerður.

En hvað með önnur fíkniefni, hefur orðið breyting á neyslu þeirra? „Hún hefur ekki minnkað, neysla ólöglegra vímuefna er sem aldrei fyrr.“

Lyf sem eru misnotuð skiptast í þrjá meginflokka

  1. Róandi- svefn- og kvíðastillandi lyf: Oftast benzodiazepin-lyf sem hafa ótal sérlyfjaheiti, meðal annars tafil, rivotril, lexotan, diazepam og mogadon. Einnig svo kölluð z-lyf eins og imovane og stilnoct.
  2. Sterk verkjalyf: Eru morfínskyld lyf, veikari eru tramadol og kodein, til dæmis parkódin, og sterkari eru meðal annars contalgin, oxy-lyfin og fentanyl.
  3. Örvandi lyf: Eins og amfetamín-töflur og methylphenidate, til dæmis rítalín og concerta.

Mikil umræða hefur verið að undanförnu um skaðsemi lyfseðilsskyldra lyfja. Dauðsföllum af völdum misnotkunar þeirra hefur fjölgað gríðarlega og grunur um að andlát níu manneskja á þessu ári megi rekja til ofneyslu slíkra lyfja eða fíkniefna. Mannlíf ræddi við einnig við Sigurð Rósant Júlíusson, fyrrverandi fíkil, um reynslu hans af hörðum heimi fíkniefna og föður stúlku sem lést vegna ofneyslu, um þann vanda sem samfélagið stendur frammi fyrir.

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Mynd / Aldís Pálsdóttir

Fann dauða eðlu í salatpokanum

Washington-búanum Grace Goldstein brá heldur betur í brún þegar hún kom heim úr ferð í matvöruverslunina Trader Joe’s í síðustu viku. Þegar Grace tók upp úr pokunum sá hún dauða eðlu í grænkálspokanum sem hún keypti.

Í samtali við tímaritið People segir Grace að hún hafi fengið áfall þegar hún sá eðluna.

„Ég var ýmist í afneitun eða mig hryllti við þessu, sem varð til þess að ég bað kærastann minn í sífellu að skoða grænkálspokann og staðfesta að þetta væri eðla, og þá hrópaði ég og ýtti pokanum frá mér og neitaði að vera nálægt honum. Og síðan bað ég um að fá að sjá hana aftur,“ segir Grace.

Hún bætir við að hún hafi ekki vitað hvað hún ætti að gera við eðluna og því hafi hún ákveðið að setja hana inn í ísskáp til að varðveita hana.

„Við höfðum samband við Trader Joe’s og vorum ekki viss hvort við ættum að fara með hana aftur í hverfisbúðina okkar þar sem við keyptum pokann. Mig langaði ekki að hafa rotnandi eðlu í ísskápnum. Hún var aðeins of nálægt ísnum mínum.“

Vinkona Grace tísti mynd af pokanum og hefur fólk skrifað athugasemdir við myndina um sínar eigin hryllingssögur af Trader Joe’s. Talskona verslunarkeðjunnar segir í samtali við People að fyrirtækið sé að skoða kvörtun Grace.

Birtir myndir af appelsínuhúð og slitförum

|||
|||

Söngkonan Demi Lovato er ötul talskona jákvæðrar líkamsímyndar, en seint í síðustu viku birti hún myndir af sér á Instagram-sögu sinni sem hafa vakið talsverða athygli.

Á einni myndinni sést Demi grípa í hold sitt og sýna slitför sem hún er með um sig miðja:

Á annarri myndinni sýnir hún appelsínuhúðina fyrir neðan rassinn:

Og á þriðju myndinni sýnir hún að læri hennar snertast:

Demi hefur unnið mikið í að bæta sína eigin sjálfsmynd síðustu ár, en hún hefur barist við þunglyndi og fíkn, skaðað sjálfa sig og verið með átröskun. Um allt þetta og meira til tjáði hún sig um í heimildarmyndinni Simply Complicated sem var frumsýnd á YouTube í fyrra. Heimildarmyndina má horfa á hér fyrir neðan:

Birtu skemmtilegt myndband til að tilkynna kynið á barninu

Knattspyrnukappinn Aron Einar Gunnarsson og eiginkona hans, fitness-drottningin Kristbjörg Jónasdóttir, eiga von á sínu öðru barni, en fyrir eiga þau soninn Óliver.

Þau birtu skemmtilegt myndband á Instagram til að tilkynna kynið á ófædda barninu, en það var Óliver sem fékk að leika stórt hlutverk í myndbandinu.

Í því sést Óliver sprengja stóra blöðru sem á stendur Boy or Girl?, eða Stelpa eða strákur? Þegar Óliver sprengir svo blöðruna koma fjölmargir bláir borðar úr henni og því ljóst að Aron og Kristbjörg eiga von á öðrum dreng.

? or a ?? @krisjfitness

A post shared by Aron Gunnarsson (@arongunnarsson) on

Óliver var líka lykilmaður í því þegar hjónin opinberuðu óléttuna á samfélagsmiðlum. Þá birtu þau hjónin einfaldlega mynd af drengnum í bol sem á stóð: Ég er að verða stóribróðir.

Ari fær fjórar stjörnur í Ástralíu

Ari Eldjárn

Ari Eldjárn tekur þátt í Melbourne International Comedy Festival þessa dagana með uppistandssýninguna Pardon My Icelandic. Gagnrýnandinn Patricia Maunder hjá Artshub segir í nýlegri gagnrýni sinni að Ari hljóti að vera fyndnasti grínistinn á Norðurlöndunum, svo hrifin var hún af sýningu hans í Melbourne.

Patricia segir sýningu Ara vera einlæga og bætir jafnframt við að enskukunnátta hans sé mjög góð, þar með talið hinir ýmsu hreimar sem Ari gerir en hann er, eins og Íslendingar vita, afar góð eftirherma.

Patricia segir Ara túlka listilega vel þann ríg sem ríkir á milli Norðurlandanna og hvernig Íslendingar þoli ekki hvernig Danir, Svíar, Finnar og Norðmenn tali niður til Íslands, en að Íslendingar geri svo slíkt hið sama við frændur okkar í Færeyjum.

Þá er Patricia afar hrifin af gríninu sem Ari gerir um dóttur sína.

„Síðustu tíu mínúturnar af sýningunni snýr Ari sér að athugunum úr sínu eigin lífi, þá helst föðurhlutverkinu. Túlkun hans á þriggja ára dóttur sinni sem einræðisherra úr Game of Thrones, sem er fullkomnuð með hrokafullum, enskum hreim, lætur mann óska að sýningin sé í annan klukkutíma,“ skrifar Patricia og bætir við, um leið og hún gefur sýningunni fjórar stjörnur:

„Þetta er gríngull sem týnist klárlega ekki á milli tungumála.“

Fór í lýtaaðgerð og dó í heila mínútu

Heidi Montag gerði garðinn frægan um miðbik síðasta áratugar í sjónvarpsþáttunum The Hills. Í kjölfarið fór hún í ansi margar lýtaaðgerðir, þar á meðal brjóstastækkun og ýmsar aðgerðir á andliti sínu, en þessi umbreyting var vel skrásett af slúðurmiðlum um allan heim.

Í nýju viðtali við tímaritið Paper segist Heidi hafa verið hætt komin í einni af aðgerðunum.

A post shared by heidipratt (@heidipratt) on

„Spencer hélt að hann væri búinn að missa mig,“ segir Heidi, og vísar í eiginmann sinn Spencer Pratt, en þau gengu í það heilaga árið 2009.

„Ég dó í eina mínútu. Út af öllum þessum aðgerðum þurfti ég að vera undir eftirliti hjúkrunarfræðinga allan sólarhringinn og Spencer vildi ekki líta af mér. Ég var lögð inn á endurhæfingastöð og þurfti að fá Demerol til að lina sársaukann því hann var svo mikill,“ bætir hún við.

Heidi segir að litlu hafi munað að hún hafi farið yfir móðuna miklu í fyrrnefndri aðgerð þar sem hjarta hennar hætti að slá í eina mínútu.

„Öryggisverðirnir hringdu í Spencer og sögðu honum: Hjarta Heidi stoppaði. Hún hefur það ekki af. Og ég hefði auðveldlega geta dáið. Ég mæli ekki með því að láta skera sig upp og Demerol er ekki eitthvað til að leika sér með. Michael Jackson dó af því.“

Þessi lífsreynsla breytti lífi Heidi.

„Ég þurfti að horfa á sjálfa mig í spegli á hverjum degi í batanum og hugsa: Hvað var ég að gera við sjálfa mig? Hvernig komst ég hingað? Hvað er að gerast,“ segir Heidi og bætir við:

Babymoon! ?

A post shared by heidipratt (@heidipratt) on

„Það kom mikið af jákvæðum hlutum úr þessu. Ég þurfti að ná botninum í mínu lífi til að gera mér grein fyrir því hvað væri mikilvægast.“

Lítið hefur farið fyrir Heidi og Spencer síðustu ár en í október í fyrra eignuðust þau sitt fyrsta barn saman, soninn Gunner Stone.

A post shared by heidipratt (@heidipratt) on

„Aðalgaldurinn er að þora að fara í hjarta sitt og opna það fyrir öðrum”

„Mér finnst ekkert svo stressandi að taka að mér að syngja þessi lög, þó þau séu svona vel þekkt og að vafalaust eigi flestir sína uppáhaldsflytjendur,” segir söngkonan Kristín Stefánsdóttir. Hún heldur tónleika til heiðurs Burt Bacharach í Salnum í Kópavogi þann 20. apríl, í tilefni af níræðisafmæli tónlistarmannsins þann 12. maí.

„Ég tengi mjög vel við þessi lög og skilaboðin í þeim og geri þau að mínum með því að mála myndina í huganum af sögunni sem verið er að segja. Þegar svona dásamleg tónsmíð rammar svo inn söguna er óhjákvæmilegt annað en að tengjast á sinn eigin hátt. Aðalgaldurinn er að þora að fara í hjarta sitt og opna það fyrir öðrum þannig að þeir geti tengst sínu hjarta í gegnum flutninginn,” segir Kristín, en meðal laga sem munu hljóma í Salnum eru The Look of Love, I Say a Little Prayer og What the World Needs Now.

Algjör suga á tónlist

„Mér finnst eins og lög Burt Bacharach séu svolítið samofin uppvexti mínum, á þann hátt á ég minningar af þessum lögum en ég var algjör suga á alls konar tónlist í uppvextinum. Lögin hans eiga það sameiginlegt að vera melódísk og þægileg fyrir eyrað en hafa einnig skýra sögu eða skilaboð sem ég held að sé líka galdurinn að vinsældunum. Maður á sterkar minningar af lögum eins og What the World Needs Now, That’s What Friends Are For, Close to You og Say a Little Prayer, svo fátt eitt sé nefnt. En það kom mér á óvart þegar ég fór að vinna þetta prógramm hvað hann á líka mörg ofboðslega falleg lög sem maður hafði sjaldan eða jafnvel aldrei heyrt. Þá gæti ég nefnt lög eins og Alfie, Who Will Speak for Love, Love’s the Answer og svona hádramatísk lög eins og This House is Empty Now. Lögin hans eru svo ljúf og fjalla flest öll á einn eða annan hátt um ástina og munum við kappkosta að koma þeim skilaboðum eins fallega og við getum til skila,” segir þessi hressa söngkona.

Fann kjólinn í útlöndum

Kristín er búin að leggja mikla vinnu í að skipleggja tónleikana og kom tónleikakjóllinn uppí hendurnar á henni fyrir utan landsteinana.

„Mér finnst stundum eins og ég sé að búa til listaverk þegar ég skipulegg svona tónleika. Öll smáatriði fæðast í huganum og verða svo að einni heild. Mikilvægur þáttur í þeirri mynd er auðvitað klæðnaðurinn. Mér fannst eins og klæðnaður minn þyrfti að vera í samræmi við orkuna í lögunum bæði í lit og mýkt. Þegar ég var svo í fríi í útlöndum í janúar kom rétti kjóllinn í fangið á mér. Mér fannst eins og þetta væri akkúrat kjóllinn sem hæfði lögunum; bæði rómantískur og mjúkur. Það skiptir miklu máli að líða vel í fötunum sem maður syngur í,” segir söngkonan og hlakkar mikið til tónleikanna, en auk grunnbands verða á sviðinu sex manna blásarateymi, fjögurra manna strengjasveit, þrjár bakraddir og Hreimur Örn Heimisson er gestasöngvari.

„Það hefur lengi blundað í mér að syngja lög eftir Burt Bacharach. Eftir að ég sá hann í Hörpu fyrir nokkrum árum fór myndin að taka á sig skýrara form og þegar ég svo flutti lagið The Look of Love á tónleikum í Noregi í fyrrasumar ákvað ég að nú myndi ég láta þennan draum rætast á nítugasta afmælisári tónlistarmannsins. Hlynur Þór Agnarsson píanóleikari, samþykkti að taka að sér útsetningar og hljómsveitarstjórn og við lögðumst í hugmyndavinnu. Það kom ekkert annað til greina en að gera þessum lögum góð skil og fá með okkur einvala lið tónlistarmanna,” segir Kristín og bætir við:

„Það sem ég held að muni koma áhorfendum mest á óvart er hvað þetta verður stór og flottur viðburður. Við verðum alls nítján manns að flytja tónlistina þar sem valinn maður er í hverju rúmi. Einnig munum við vera með ýmsan fróðleik um Burt Bacharach; ævi hans og lífshlaup og fjalla um þá sem sömdu með honum tónlistina og textana. Við söngvararnir fimm munum svo hjálpast að við syngja lögin eftir því sem okkur finnst hæfa hverju lagi fyrir sig. That´s what friends are for…”

Mynd / Úr einkasafni

Skrýtið að hafa foreldrana ekki með á brúðkaupsdaginn

„Dagurinn byrjaði voða rólega og við giftum okkur klukkan þrjú í gamalli kirkju í Innri Njarðvík,“ segir Ingibjörg Ósk Jóhannsdóttir. Hún gekk að eiga sinn heittelskaða, Þorstein Inga Hjálmarsson, á sjálfan þjóðhátíðardaginn 17. júní árið 2016.

Báðir foreldrar Ingibjargar eru látnir og því þurfti hún að velja einhvern annan til að leiða sig upp að altarinu á þessum stóra degi. Bæði Ingibjörg og Þorsteinn voru sammála um að það verðuga verkefni ætti að vera sett í hendur einkadóttur þeirra, Huldu Sigurlaugar, sem þá var níu ára gömul.

„Okkur fannst hún tilvalin. Ég var strax ákveðin að velja hana,“ segir Ingibjörg, en Huldu fannst þetta mikill heiður.

„Hún var svo stolt og ánægð og fannst þetta gaman.“

Fann fyrir nærveru foreldranna

Ingibjörg saknaði foreldra sinna á brúðkaupsdaginn, en var í staðinn umvafin stórum systkinahópi.

„Vissulega var skrýtið að hafa ekki foreldra sína með, en ég fann fyrir nærveru þeirra. Þetta var mitt fyrsta brúðkaup og ég kem úr stórum systkinahóp og þau komu öll,“ segir Ingibjörg og bætir við að hún hafi verið afskaplega ánægð með daginn.

„Dagurinn var yndislegur. Við héldum veisluna heima með okkar nánustu, fengum gott veður, þó það væri 17. júní,“ segir Ingibjörg og hlær. „Við erum með stórt hús og stóran pall þannig að þetta gekk vel og allt gekk upp, nema brúðartertan sem ég pantaði var mislukkuð. Ég varð fyrir vonbrigðum með hana.“

Punkta allt niður og vera tímanlega

Hvað með góð ráð fyrir stóra daginn, lumar Ingibjörg á nokkrum slíkum?

„Já, það er best að punkta allt niður sem maður ætlar að hafa og gera. Og vera tímanlega í öllu svo það verði ekki mikið stress á stóra daginn.“

Fékk þrefaldan sýklalyfjaskammt daginn fyrir brúðkaup

|
|

Ingólfur Ágústsson og Sigríður Etna Marinósdóttir voru búin að vera saman í sjö ár þegar þau ákváðu að láta pússa sig saman þann 12. júlí árið 2014 á Tálknafirði. Helgina fyrir brúðkaupið var Ingólfur steggjaður af vinum og fjölskyldumeðlimum, steggjun sem átti svo sannarlega eftir að draga dilk á eftir sér.

„Ég var nánast allsber allan daginn og meðal annars hent ofan í sjóinn í Reykjavík tvisvar sinnum. Strax eftir helgi fór ég að finna fyrir eymslum í hálsinum en var ekkert að spá mikið í það enda nóg að gera bæði í vinnu og að undirbúa brúðkaup sem átti að halda í um fimm hundruð kílómetra fjarlægð,“ segir Ingólfur, sem varð þó örlítið áhyggjufullur þegar nær dró stóra deginum.

„Á fimmtudagsmorgni byrjuðum við að græja brúðkaupssalinn og ég fann að mér leið ekki vel. Ég var að reyna að láta lítið fyrir því fara til að gera brúðina ekki áhyggjufulla. Svo var ég að sækja eitthvað inn í áhaldageymslu og var alveg bugaður og lagðist á dýnu og sofnaði. Eftir einhvern tíma skildi konan mín ekkert í hvar ég gæti verið. Svo var henni tilkynnt að ég væri sofandi inn í áhaldageymslu. Hún kom og vakti mig og botnaði ekkert í þessari hegðun hjá mér. Þá sagði ég henni að ég væri orðinn slappur og að ég héldi að ég væri kominn með streptókokka, en ég hafði fengið þá áður,“ segir Ingólfur sem fór til læknis á Patreksfirði í kjölfarið.

„Læknirinn var fljótur að greina mig og skrifaði upp á sterk sýklalyf og lét mig taka þrefaldan skammt. Hann sagði mér að ég ætti að hvíla mig fram að brúðkaupi, reyna að vera sem minnst með konunni, til að smita hana ekki, og alls ekki kyssa hana.“

Ingólfur tók ekki eftir miklum óþægindum á brúðkaupsdaginn, nema hann var með litla matarlyst.

Í móki nóttina fyrir brúðkaup

Daginn eftir, á föstudeginum, streymdu fjölskyldumeðlimir og vinir á Tálknafjörð, en Ingólfur neyddist til að láta lítið fyrir sér fara. „Ég gat ekki tekið á móti þeim eða aðstoðað við að gera brúðkaupið klárt, lá bara hundveikur uppi í rúmi og hálfvankaður af lyfjunum. Nóttina fyrir brúðkaupið var ég víst bara í einhverju móki, svitnaði svakalega og konan gat ekki sofið af áhyggjum. Hún var svo smeyk um að það þyrfti að fresta brúðkaupinu og allir hefðu þá komið í fýluferð vestur. Gaman að segja frá því að hún svaf á milli hjá foreldrum sínum þessa nótt. Þau reyndu að fullvissa óléttu, stressuðu stelpuna sína um að allt yrði í lagi og að brúðkaupsdagurinn yrði góður,“ segir Ingólfur og brosir þegar hann rifjar upp þessa daga.

Þegar sjálfur brúðkaupsdagurinn rann svo upp var Ingólfur enn slappur, en eins og fyrir örlög breyttist eitthvað í athöfninni sem var töfrum líkast.

„Við hjónin komum síðust í kirkjuna og gengum saman inn kirkjugólfið. Eins væmið og það hljómar þá losnaði um allt í hálsinum á sama andartaki og dyrnar inn í kirkjuna opnuðust og við hjónin gengum inn gólfið. Dagurinn var skemmtilegur og góður svo ég tók ekki eftir neinum óþægindum, nema ég var ekki með mikla matarlyst,“ segir Ingólfur, sem er enn leiður yfir því að hafa ekki getað tekið virkan þátt í þessum mikilvæga degi sökum veikindanna.

Leiðinlegt að taka ekki þátt í undirbúningnum

„Brúðkaupsdagurinn heppnaðist vel þrátt fyrir veikindin og ég er þakklátur fyrir það. En mér finnst enn þá leiðinlegt að hafa ekki geta tekið þátt í undirbúningnum. Salurinn var orðinn alveg klár snemma á föstudegi, því við hjónin ætluðum að eyða restinni af föstudeginum í að taka á móti fjölskyldu og vinum. En við gerðum það ekki og það var pínu súrt. Það voru margir duglegir að taka Snapchat og senda okkur og fannst okkur það mjög skemmtilegt. Að sjá vini okkar sem þekktust ekki fyrir brúðkaupið vera að hittast á tjaldstæðinu og þess háttar,“ segir hann. Það stendur svo ekki á svörunum þegar hann er beðinn um ráð fyrir tilvonandi brúðhjón.

„Númer eitt, tvö og þrjú ráðlegg ég fólki að steggja og gæsa ekki brúðhjón viku fyrir brúðkaup. Númer fjögur, ef þið eruð eitthvað slöpp, kíkið strax til læknis! Númer fimm, reynið að vera skipulögð og tímalega í undirbúningnum, það var mjög gott að vera búinn að gera allt klárt snemma á föstudeginum. Númer sex, hafið daginn ykkar nákvæmlega eins og þið viljið hafa hann. Ekki efast um ákvarðanir sem þið takið tengdar brúðkaupinu. Bjóðið bara þeim sem þið viljið, óháð því sem „búist er við af manni“. Það er æðisleg tilfinning að ganga inn kirkjugólfið og vera umkringdur fólki sem manni þykir vænt um. Veljið matinn, drykkina, tónlistina og fleira nákvæmlega eins og þið viljið hafa það. Þetta er ykkar dagur.“

Þetta viðtal er hluti af stærra efni í nýjasta tölublaði Mannlífs um óvæntar uppákomur á brúðkaupsdaginn. Smelltu hér til að lesa Mannlíf á netinu.

Myndir / Sólný Pálsdóttir

Hlýddi ömmu og fór að teikna

||
||

Teikningar eftir förðunarfræðinginn Ísak Frey vekja athygli.

Fyrirsætan Carzon Zehner, sem er meðal annarra nýja andlit Mulberry, förðuð af Ísak og mynduð af Sögu Sig. Tengingin við teikningar Ísaks er augljós.

„Þetta eru teikningar sem ég hef verið að skapa allt frá árinu 2013 en hef ekkert verið að flagga þeim. Þær komu í raun ekki fyrir sjónir almennings fyrr en seint á síðasta ári í íslenska tímaritinu Blæti,“ segir förðunarfræðingurinn Ísak Freyr um umræddar teikningar en þær hafa verið að vekja athygli erlendis að undanförnu og eru orðnar eftirsóttar af viðskiptavinum hans, stórum nöfnum innan tísku-heimsins.

„Þetta var frekar fyndið en þegar ég fór að tala um myndirnar við kúnna sem ég var að farða þá vildu þeir endilega fá að sjá þær og í framhaldinu hafa margir þeirra hafa óskað eftir myndum eftir mig.“

Ísak segist hafa byrjað að teikna myndirnar þegar hann bjó í listakommúnu í Camberwell Green í London 2013, en á þeim tíma hafi hann verið að reyna finna sjálfan sig og haft óstjórnlega þörf á að skapa. „Það var eins og þessi sköpunartilfinning kæmi frá einhverjum innri kjarna í líkamanum sem ég átti erfitt með að nálgast,“ segir hann. „Það var eins og eitthvað væri að reyna að brjótast út.“ Það hafi hins vegar ekki verið fyrr en amma hans hvatti hann til dáða sem hann ákvað að láta slag standa. „Henni fannst agalegt að ég skyldi ekki vera að teikna eins og ég hafði gert þegar ég var yngri og hvatti mig áfram. Þetta kveikti á einhverju hjá mér og í framhaldinu keypti ég liti og blöð og fór að teikna.“

Myndir eftir Ísak Frey eru farnar að vekja athygli.

Á þeim tíma segist hann hafa átt erfitt með að koma hugsunum sínum í orð, „hausinn hafi verið að springa“ eins og hann orðar það en hann hafi náð að tjá sig í gegnum myndirnar og oft teiknað þær undir áhrifum áfengis, það geri hann hins vegar ekki lengur. Gaman sé að sjá hvað þær hafi breyst mikið á þessum fimm árum.

„Í dag líður mér betur, ég er á allt öðrum stað sem er bjartari og betri og teikningarnar endurspegla það,“ segir hann.

Spurður hvort hann sé mögulega farinn að velta fyrir sér að skipta um starfsvettvang, þvertekur hann fyrir það. „Nei, ég vill alls ekki hætta að farða því mér finnst svo gaman að vinna með fólki. En, ég er farinn að velja vandlega verkefni sem ég tek mér fyrir hendur svo ég geti teiknað meira. Að því sögðu lít ég svo á að það sé beintenging á milli þessara listforma og ef eitthvað er þá hef ég óhikað nýtt myndlistina í förðuninni í gegnum tíðina. Þetta tvennt helst í hendur.“

Ráðherrar eyða allt of miklum tíma í símanum

|||||||||
|||||||||

Símanotkun Íslendinga er eitthvað sem kemst reglulega í umræðuna og virðast margir eiga við það vandamál að stríða að vera of mikið í símanum. Grunnskólar eru farnir að banna síma á kennslutíma og Barnaheill hefur lagt sín lóð á vogarskálarnar með símalausum sunnudögum.

Mikil umræða hefur verið um að börn og unglingar noti snjalltæki of mikið síðustu misseri, en foreldrarnir hafa oft gleymst í þessari umræðu. Rannsóknir hafa sýnt að ef foreldri er mikið í símanum, jafnvel marga klukkutíma í dag, geti það valdið því að það tengist börnum sínum ekki nægilega vel, sé fjarlægt, eigi erfitt með svefn og geti þróað með sér kvíða.

Við ákváðum því að spyrja æðstu foreldra og fyrirmyndir þjóðarinnar, sjálfa ráðherra í ríkisstjórn, um þeirra símanotkun.

———

Forsætisráðherraístuði

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

Hvernig síma áttu?
„Ég á iPhone 6. Held ég.“

Hvað telur þú að þú eyðir miklum tíma á degi hverjum í símanum?
„Ætli ég sé ekki í símanum að tala eða svara póstum ef ég er ekki á fundum. Á kvöldin legg ég þó símann til hliðar.“

Í hvað notarðu símann annað en að svara tölvupóstum, símtölum og smáskilaboðum?
„Bíddu ertu ekki að elta mig á Snapchat? Ég er með forsætisráðherraístuði. Djók.“

Hvaða smáforrit í símanum þínum notarðu mest?
„Er SMS-smáforrit? Nei annars, ég hef mikið notað strætó-appið sem mér finnst frábært.“

Hvað heldur þú að þú gætir verið lengi án símans?
„Ég vil trúa því að ég gæti verið án hans alla ævi en líklega í raun ekki nema í svona 4 mínútur í mesta lagi.“

———

Messenger mest notað

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.

Hvernig síma áttu?
„iPhone 7.“

Hvað telur þú að þú eyðir miklum tíma á degi hverjum í símanum?
„1 til 2 tímum.“

Í hvað notarðu símann annað en að svara tölvupóstum, símtölum og smáskilaboðum?
„Hlusta á podcast, Spotify og útvarp.“

Hvaða smáforrit í símanum þínum notarðu mest?
„Messenger.“

Hvað heldur þú að þú gætir verið lengi án símans?
„Ótakmarkað.“

———

Minni tími fyrir framan tölvuna

Kolbrún Þórdís Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Hvernig síma áttu?
„Ég á iPhone.“

Hvað telur þú að þú eyðir miklum tíma á degi hverjum í símanum?
„Það er misjafnt eftir dagskránni og til dæmis minna um helgar en á virkum dögum. Líklega of miklum þó. En í staðinn eyði ég minni tíma fyrir framan tölvuna.“

Í hvað notarðu símann annað en að svara tölvupóstum, símtölum og smáskilaboðum?
„Samfélagsmiðla, les fréttir, tek myndir og hlusta á Spotify.“

Hvaða smáforrit í símanum þínum notarðu mest?
„Tölvupóstinn, Facebook og Spotify.“

Hvað heldur þú að þú gætir verið lengi án símans?
„Vonandi lengi en ég þyrfti þá að tryggja með öðrum hætti að fólk gæti náð í mig.“

———

Gæti verið án síma í innan við mínútu

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra.

Hvernig síma áttu?
„iPhone.“

Hvað telur þú að þú eyðir miklum tíma á degi hverjum í símanum?
„Allt of miklum.“

Í hvað notarðu símann annað en að svara tölvupóstum, símtölum og smáskilaboðum?
„Skoða fréttir á Netinu.“

Hvaða smáforrit í símanum þínum notarðu mest?
„Smáforrit fyrir tölvupóst og svo netvafrann (Chrome).“

Hvað heldur þú að þú gætir verið lengi án símans?
„Púff … Dætur mínar segja eflaust að það sé innan við 1 mínútu …“

———

Eyðir þremur klukkustundum í símanum

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.

Hvernig síma áttu?
„iPhone SE (2016).“

Hvað telur þú að þú eyðir miklum tíma á degi hverjum í símanum?
„Um þremur klukkustundum.“

Í hvað notarðu símann annað en að svara tölvupóstum, símtölum og smáskilaboðum?
„Skoða Netið, aðallega fréttir.“

Hvaða smáforrit í símanum þínum notarðu mest?
„Facebook og Messenger.“

Hvað heldur þú að þú gætir verið lengi án símans?
„Í mjög skamman tíma!“

———

Vildi óska að hann gæti verið án símans

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra.

Hvernig síma áttu?
„iPhone.“

Hvað telur þú að þú eyðir miklum tíma á degi hverjum í símanum?
„Starf mitt er einfaldlega þess eðlis að það krefst mikilla samskipta og því er ég mikið í símanum. Einhverjir myndu segja of mikið.“

Í hvað notarðu símann annað en að svara tölvupóstum, símtölum og smáskilaboðum?
„Ég nota hann til að skoða fréttir, lesa og taka myndir.“

Hvaða smáforrit í símanum þínum notarðu mest?
„Ætli það sé ekki tölvupósturinn.“

Hvað heldur þú að þú gætir verið lengi án símans?
„Stundum vildi ég óska þess að ég gæti verið án hans og hefði líklega komist upp með það fyrir mörgum árum síðan. Margt hefur breyst og ég efast um að ég gæti verið lengi án hans í dag.“

———
Það er líf án síma

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra

Hvernig síma áttu?
„Ég er með Apple 6s+.“

Hvað telur þú að þú eyðir miklum tíma á degi hverjum í símanum?
„Ég nota símann minn meira með hverju árinu. Að grípa í símann jafnast á við að setjast við skrifborðið þar sem tölvan mín stendur. Mér er ómögulegt að áætla hvað ég eyði miklum tíma í símanum en ég gæti trúað að það væru um tvær til þrjár klukkustundir á dag sem fara í að tala í símann, lesa skilaboð, skrifa tölvupósta og skeyti fyrir utan að fygljast með fréttum, lesa skýrslur og annað efni.“

Í hvað notarðu símann annað en að svara tölvupóstum, símtölum og smáskilaboðum?
„Það eru samfélagsmiðlarnir, Facebook og Messenger, Twitter af og til, Snapchat til að hafa gaman, Spotify til að hafa enn meira gaman. Myndavélin er líka mikið notuð.“

Hvaða smáforrit í símanum þínum notarðu mest?
„Ætli það sé ekki Messenger.“

Hvað heldur þú að þú gætir verið lengi án símans?
„Ég myndi byrja að anda stutt eftir 4-6 tíma en á öðrum degi myndi renna upp fyrir mér að lífið heldur áfram. Það er líf án síma.“

Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra baðst undan því að svara spurningum blaðamanns. Þá svöruðu Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra ekki.

Þú ert of mikið í símanum ef …

… þú ert alltaf í símanum þegar þú ert ein/n.
… þú kíkir á símann rétt áður en þú ferð að sofa og um leið og þú vaknar.
… þú kíkir hvort eitthvað nýtt sé að frétta á samfélagsmiðlum á rauðu ljósi.
… þú færð kvíða í flugvél þegar þú þarft að svissa yfir á flugvélarstillinguna.
… maki þinn og börn segja að þú sért meira í símanum en með þeim.
… þú hefur meiri áhuga á símanum en að tala við vini þína þegar þið hittist.
… öll samskipti þín eru í formi skrifaðra skilaboða í gegnum Netið.
… þú fríkar út þegar þú finnur ekki símann.
… lífið þitt er orðið frekar litlaust.

Síminn getur verið mikill tímaþjófur.

Nærri fimm klukkutímar í símanum á dag

Fyrirtækið Statista kannaði símanotkun fólks eftir löndum og birti niðurstöður sínar í fyrra. Þar kom í ljós að Brasilíubúar eyða mestum tíma í símanum á dag, eða 4 klukkustundum og 48 mínútum. Það er næstum því heil vinnuvika.

Þá eyða Kínverjar rúmum þremur tímum á dag í símann og Bandaríkjamenn ríflega tveimur og hálfri klukkustund.

Brasilíubúar,  4,48 tímar
Kínverjar,  3,03 tímar
Bandaríkjamenn,  2,37 tímar
Ítalir,  2,34 tímar
Spánverjar,  2,11 tímar
Suður-Kórerubúar,  2,10 tímar
Kanadabúar,  2,10 tímar
Bretar,  2,09 tímar
Þjóðverjar,  1,37 tími
Frakkar,  1,32 tími

Helmingur eyðir tveimur til þremur tímum í símanum á dag

Mannlíf lagði könnun fyrir 118 Íslendinga um þeirra símanotkun. Þar kom fram að rúmlega fimmtíu prósent, eða 61, sagðist vera í tvo til þrjá tíma í símanum á dag. Þá sögðust 28 manns, eða tæplega 24 prósent, eyða fimm til sjö klukkustundum í símanum daglega. Rétt rúmlega 20 prósent sögðust eyða núll til einni klukkustund í símanum á degi hverjum á meðan 3,4 prósent eyddu átta klukkustundum eða meira í símanum.

Flestir nota símann til að skoða samfélagsmiðla, eða rétt rúmlega 94 prósent. Þá sögðust rétt rúmlega 92 prósent nota símann til að svara símtölum og smáskilaboðum. Þegar spurt var hvaða smáforrit í símanum væru mest notuð voru það Facebook, Instagram og Snapchat sem höfðu vinninginn.

H&M býður brúðarkjól Kate Middleton á 30 þúsund

||
||

Kate Middleton, hertogynjan af Cambridge, gekk að eiga Vilhjálm Bretaprins í apríl árið 2011 og vakti kjóll hennar verðskuldaða athygli.

Vilhjálmur og Kate geisluðu á brúðkaupsdaginn.

Kjóllinn var sérsaumaður af hönnuðinum Alexander McQueen og er metinn á tuttugu til fjörutíu milljónir króna. Það er því ekki á færi almúgans að festa kaup á slíkum brúðarkjól. En nú hefur fatarisinn H&M framleitt kjól sem er um margt líkur kjól Kate. Sá kostar aðeins þrjú hundruð dollara, eða tæplega þrjátíu þúsund krónur.

Eins og kjóll Kate, er kjóllinn úr smiðju H&M með fallegri blúndu að ofan og yfir langar ermarnar. Hann er beinhvítur og afskaplega fallega sniðinn, en auðvitað ekki nærri því jafn fallegur og mikið í hann lagt og kjólinn sem Kate klæddist.

Kjóllinn frá H&M.

Mesti munurinn á upprunalega kjólnum og þeim fjöldaframleidda er líklegast sá að langa og tignarlega slóðann vantar á kjólinn frá H&M, en það var systir Kate, Pippa, sem sá um að halda honum í lagi á stóra daginn, eins og frægt er orðið.

„Saumuð“ í kjólinn rétt fyrir veisluna

|
|

„Ég er algjört jólabarn, enda fædd 24. desember og þess vegna kom eiginlega aldrei neitt annað til greina en jólabrúðkaup,“ segir Aðalbjörg Aðalbjörnsdóttir. Hún játaðist Guðmundi Frey Hallgrímssyni þann 30. desember árið 2017. Athöfnin var haldin í Akraneskirkju og veislan í Hafnarfirði, en á leiðinni í veisluna gerðist svolítið óvænt.

„Á leiðinni í veisluna stoppuðum við fyrir myndatöku og planið var svo að koma við heima hjá mömmu í Reykjavík til að skipta um kjól sem ég hafði keypt fyrir veisluna. Það gekk ekki betur en svo að rennilásinn festist og í átökunum eyðilagðist hann alveg. Ég varð frekar stressuð þar sem þarna hefðum við átt að vera mætt í eigin veislu en sem betur fer tók frænka mín til sinna ráða og sagði að hún myndi bara sauma mig í kjólinn,“ segir Aðalbjörg og bætir við sposk á svip:

„Um kvöldið fékk svo eiginmaðurinn að rífa kjólinn af mér.“

Aðalbjörg gekk að eiga Guðmund í fyrra.

Ekki gleyma ykkur í smáatriðum

Aðalbjörg hugsar hlýtt til þessa atviks í dag, þó að henni hafi alls ekki verið sama á þessu augnabliki.

„Í dag finnst mér þetta voðalega fyndið og eitthvað sem gerir daginn bara enn þá eftirminnilegri,“ segir hún og bætir við að besta ráðið á brúðkaupsdaginn sé einmitt að stressa sig ekki um of á einhverju sem skiptir litlu máli.

„Besta ráðið sem ég get gefið er að gleyma sér ekki í smáatriðum og passa sig á að njóta dagsins til fulls, því hann líður allt of hratt.“

Þetta viðtal er hluti af stærra efni í nýjasta tölublaði Mannlífs um óvæntar uppákomur á brúðkaupsdaginn. Smelltu hér til að lesa Mannlíf á netinu.

Myndir / Halldór Ingi Eyþórsson

Yngsta dóttirin fór úr olnbogalið á brúðkaupsdaginn

||
||

Vala Dögg Petrudóttir gekk að eiga Trausta Má þann 13. ágúst árið 2016 á Ísafirði, en umgjörð brúðkaupsins var afskaplega rómantísk.

„Okkur langaði í síðsumarbrúðkaup þegar aðeins væri farið að dimma og extra kósí. Brúðkaupið var haldið úti undir berum himni í miðbæ Ísafjarðar, á stað sem kallast Blómagarðurinn, afskaplega fallegum og gróðursælum stað. Ég var auðvitað búin að panta rjómablíðu, eða að minnsta kosti logn. Óskin um lognið rættist en ég fékk á móti rigningarúða. En þar sem þetta var ísfirska lognið eins og það kallast þá kom það ekki að sök, afskaplega ljúft veður,“ segir Vala.

Hún Agnes sem fór úr lið.

Þau Trausti eiga þrjú börn saman en á sjálfan brúðkaupsdaginn þurfti að bruna með það yngsta, tveggja ára stúlku, á bráðamóttökuna. „Þeirri yngstu fannst mikið sport að hitta stóru frænkur sínar, önnur var komin með bílpróf og fékk hún því að fara með þeim aðeins í bæinn að kíkja í búðir. Þær voru báðar að leiða hana þegar hún ákvað að róla sér á milli þeirra, hangandi á handleggjunum þegar eitthvað gerðist og greyið fór að hágráta. Þær komu strax með hana heim og hafði hún sofnað á leiðinni hálfgrátandi. Þegar hún kom heim og vaknaði var hún enn alveg ómöguleg og vildi alls ekki rétta úr vinstri handleggnum. Hún hágrét ef eitthvað var reynt að rétta úr eða bara snerta handlegginn. Þarna var mér alls ekki farið að lítast á blikuna. Maðurinn minn var farinn til foreldra sinna með son okkar og hárgreiðslukonan mín var að detta í hús,“ segir Vala, sem fékk góðan og þarfan stuðning frá systur sinni.

„Systir mín sem er hjúkrunarfræðingur ákvað að taka málin í sínar hendur og fór ásamt hinni systur minni upp á bráðamóttöku til að láta kíkja á elsku barnið,“ segir hún, sem sjálf hafði engan tíma til að fara með.

Íhugaði að fresta brúðkaupinu

Skemmtileg brúðkaupsmynd.

„Ég var bara heima í hárgreiðslu því við máttum engan tíma missa. Klukkan var þarna um það bil þrjú og brúðkaupið átti að byrja klukkan fimm. Ég var vægast sagt orðin stressuð því þetta hafði aldrei gerst áður og ég vissi ekki hvað var að, hvort hún var brotin eða eitthvað annað. Sem betur fer var þetta „bara“ það að hún fór úr olnbogalið og eftir þetta atvik þá hefur það gerst tvisvar sinnum svo við erum heldur betur reynslunni ríkari. En ég íhugaði í alvöru í smástund hvort við þyrftum að fresta brúðkaupinu. Mamma bauð sig strax fram til að vera heima með stelpuna ef það þyrfti en sem betur fer fór það ekki svo.“

Litla stúlkan jafnaði sig fljótt og gat sem betur fer tekið virkan þátt í athöfninni og veislunni. „Um leið og læknirinn náði að smella henni í liðinn var hún eins og ný og fann ekkert til lengur. Þannig að þegar hún kom heim frá bráðamóttökunni var hún svo glöð því læknirinn var búinn að „laga höndina“ eins og hún sagði sjálf. Hún fór því beint í hárgreiðslu afskaplega spennt og glöð,“ segir Vala og bætir við að fjölskyldan geti hlegið dátt að þessu atviki núna.

„Já heldur betur. Þetta er bara ansi stór minning í minningabankann,“ segir hún og hlær.

Þetta viðtal er hluti af stærra efni í nýjasta tölublaði Mannlífs um óvæntar uppákomur á brúðkaupsdaginn. Smelltu hér til að lesa Mannlíf á netinu.

Myndir / Ágúst Atlason (gusti.is)

Brúðkaupin blessunarlega breytingum háð

Eysteinn Orri Gunnarsson prestur tekur breytingum fagnandi þegar kemur að brúðkaupsathöfnum en hann segir brúðkaup blessunarlega breytingum háð eins og allt annað.

Hann segir jafnframt að þó brúðkaup byggi á gömlum gildum sé mikilvægt að gera athöfnina sem persónulegasta.

„Ég hef verið spurður um eitt og annað sem er kannski ekki alveg eftir öllu. Alltaf sagt já enda ekki það gjörsamlega galnar óskir um að ræða. Ég man eftir einum snilling sem spurði mig hvort það væri í lagi ef að hann setti undir vinstri skó sinn hjarta límmiða, sem ég svaraði „já auðvitað ekki er velkomnara en smá auka ást“ svo hóstaði hann aðeins og varð hálfvandræðalegur á svipinn og spurði hvort hann mætti setja Liverpool merkið undir þann hægri. Ég sá auðvitað ekkert að því enda Liverpoolmaður síðan Ian Rush var með nettustu mottu í heiminum þannig að ég játaði því bara. Hugsaði þetta ekkert lengra. Svo var komið að giftingu og við rúllum í gegnum í athöfnina og þá fattaði ég þetta. Þau voru komin á skeljarnar og allir vinirnir hans skælbrosandi útá eyru og sumir vel það. Auðvitað, þvílíkur snillingur og allir höfðu gaman af. Það eru einmitt brúkaup, þau eru gleði. Eitthvað sem gerir okkur að okkur á heima í athöfnum.”

Viðtalið má lesa í heild sinni í brúðarblaði Vikunnar.

Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Tími einkabílsins er að líða undir lok

Búist við miklum breytingum á samgöngum.

„Framtíðin er í almenningssamgöngum og öðrum umhverfisvænum samgöngumátum. Allir voru að tala um hvernig tími einkabílsins fer að líða undir lok,“ segir Salvar Þór Sigurðarson, vörustjóri hjá frumkvöðlafyrirtækinu Vortexa í Bretlandi. Vortexa hefur vakið talsverða athygli. Fyrirtækið nýtir eigin tækni til að sýna nákvæmlega olíuskipaflutninga með hjálp gervigreinar, hversu mikið af olíu og hvernig olíu er verið að flytja um alla heim á rauntíma.

Á dögunum sat Salvar ráðstefnu um þróun á hrávörumarkaði í Lausanne í Sviss á vegum breska dagblaðsins Financial Times. Þetta er árleg ráðstefna sem fjallar um ýmsar hliðar hrávörumarkaðarins á borð við kol, járn og ýmislegt annað. Olía var fyrirferðarmesta umfjöllunarefnið. Á meðal annarra ráðstefnugesta voru forstjórar og annað lykilfólk stórfyrirtækja í olíu- og flutningageiranum. Vortexa var eitt af aðalstyrktarfyrirtækjum ráðstefnunnar og kynnti Salvar þar vörur þess.

„Allskonar nýir orkugjafar eru nú orðnir samkeppnishæfari og munu halda áfram að þróast. Þetta og fleira ræddi fólk um án þess að snúa öllu upp í karp um hvort þétting byggðar og auknar almenningssamgöngur séu yfirhöfuð góðar hugmyndir. Ég sakna þess á Íslandi.“

„Mér fannst mjög áhugavert að sjá hversu vel tókst að ræða umfangsmiklar breytingar á heiminum, sem fara margar beint gegn hagsmunum þeirra fyrirtækja sem áttu fulltrúa þarna, án þess að detta í afneitun. Þétting byggðar mun halda áfram og bráðum verður einkabíllinn ekki konungur allra samganga,“ segir Salvar.

Yfirskrift ráðstefnunnar í ár var: Upphaf nýrrar sveiflu. Fjallað var um þróun mála í kjölfar fjármálakreppunnar, uppsveiflunnar um heim allan eftir hana og nýja orkugjafa. „Stemningin virtist vera sú að eftir niðurskurð síðustu ára fari að birta aftur á mörkuðum með hækkandi olíuverði, hvort sem eitthvað er til í því eða ekki. Undirtónninn var samt mjög skýr. Uppsveiflan sem er að hefjast núna er alls ekki venjuleg, því hún gerist á sama tíma og mestu tækniframfarir mannkynssögunnar eru að eiga sér stað, sérstaklega þegar kemur að orkugjöfum,“ segir Salvar og bætir við að forstjórar olíufyrirtækjanna hafi verið sammála um að heimurinn sé að breytast og að þeir þurfi að fylgja með. Mikið var líka rætt um rafhlöðutækni, mengunarvandamál, þéttingu byggðar, samgöngumál og mál á borð við bitakeðju (e. blockchain) sem talið er að geti haft mikla breytingu í för með sér í fjármálaheiminum og flestum viðskiptum.

„Allskonar nýir orkugjafar eru nú orðnir samkeppnishæfari og munu halda áfram að þróast. Þetta og fleira ræddi fólk um án þess að snúa öllu upp í karp um hvort þétting byggðar og auknar almenningssamgöngur séu yfirhöfuð góðar hugmyndir. Ég sakna þess á Íslandi,“ segir Salvar.

Fleiri samkynja pör taka börn í fóstur

Fleiri samkynja pör taka nú börn í fóstur en áður og fleiri gerast fósturforeldrar.

Bryndís S. Guðmundsdóttir, uppeldisfræðingur hjá Barnaverndarstofu, segir að lesbísk pör hafi tekið að sér börn í fóstur um áraraðir og nokkur börn fundið framtíðarheimili á nýjum heimilum. Þeim hafði hins vegar fækkað talsvert þar til sjónvarpsþáttur Sindra Sindrasonar, Fósturbörn, fór í loftið á Stöð 2.

„Eftir að þættirnir voru sýndir sóttu fjögur samkynhneigð pör um að taka að sér fósturbörn, allt karlmenn. Það þýðir að 4-7 börn fundu ný heimili,“ segir Bryndís. Á síðasta ári fóru börn í fóstur á 60 heimilum og eru tæplega 400 börn á Íslandi á fósturheimilum.

Bryndís segir nokkra aðra þætti geta skýrt að fósturforeldrum hafi fækkað þar til þáttur Sindra var sýndur. Hugsanlega geti það skrifast á uppsveiflu í efnahagslífinu en þá hafi fólk meira að gera en í niðursveiflu. Hún bætir við að fólk velti því fyrir sér lengi að gerast fósturforeldrar. Yfirleitt þurfi eitthvað að ýta við því til að stíga skrefið til fulls og sækja um að verða það. „Ég held að sjónvarpsþættirnir hafi vakið áhuga hjá fólki og því sæki fleiri samkynja pör um að taka börn í fóstur,“ segir Bryndís. Lengra viðtal við má finna við hana á vefnum GayIceland.

„Þetta gefur mér meiri tíma með konunni og börnum og það er það sem ég vil“

||||
||||

„Það má aldrei segja nákvæmlega hvað þetta er og fyrir hvern fyrr en þeir eru búnir að henda út fréttatilkynningu, sem þeir eru semsé ekki búnir að gera. En þetta er tíu þátta sjónvarpssería sem gerist í geimnum fyrir eina af stóru streymisþjónustunum í heiminum. Sem sagt sci-fi geimdrama,“ segir leikarinn Jóhannes Haukur Jóhannesson.

Hann hefur verið í Höfðaborg í Suður-Afríku síðustu sex vikur við tökur á erlendri sjónvarpsseríu og verður þar í þrjár vikur til viðbótar. Hann segir ferlið hingað til hafa verið ljúft og að þægilegt sé að vinna við seríuna, ef svo má segja, þar sem hún er öll tekin upp í myndveri.

Jóhannes fékk fjölskyldu sína í heimsókn til Höfðaborgar fyrir stuttu.

„Af því að serían gerist í geimnum er allt tekið upp í myndveri, þannig að þetta er eins þægilegt og kvikmyndagerð getur orðið. Það er nú oftar en ekki þannig að maður þarf að díla við alls kyns tökustaði þar sem veður, fjarlægðir og því um líkt er alltaf að breytast. En hér fer ég alltaf á nákvæmlega sama staðinn og ef það skyldi rigna, sem gerist sjaldan, skiptir það engu máli því við erum inni í hljóðeinangruðu myndveri. Þannig að þetta er ansi gott, þó að það sé auðvitað langt að fara hingað. Það er ekki eins og ég eigi heima hérna hinum megin við hornið,“ segir Jóhannes sposkur á svip.

Sjónvarpsþættirnir eru ólíkir öðru sem Jóhannes hefur tekið sér fyrir hendur en hann hefur leikið meira í erlendum verkefnum en innlendum síðustu árin. Meðal þess sem hann hefur leikið í eru sjónvarpsþættirnir A.D. The Bible Continues og Game of Thrones og kvikmyndin Atomic Blonde. Þá lauk hann nýverið við tökur á sjónvarpsþáttunum The Innocents fyrir Netflix.

„Fjölbreytni er eitthvað sem maður tekur fagnandi í þessum bransa. Mér finnst ég alltaf vera eins og fiskur á þurru landi í hverju verkefni sem ég byrja í, sérstaklega í þessum erlendu verkefnum. Þau eru svo ólík. Á undan geimdramanu var ég að leika í tveimur bíómyndum; önnur gerist um borð í skipi og hin er 19. aldar vestri. Þetta þrennt er allt mjög, mjög ólíkt hvað öðru. Ég vil forðast að gera hluti sem virka eins fyrir mér en svo náttúrlega ræð ég því ekkert sjálfur hvaða tækifæri mér bjóðast. Ég er allavega þakklátur fyrir að fá svo fjölbreytt verkefni í hendurnar,“ segir þessi fjölhæfi leikari.

Fjölskyldutíminn skiptir mestu máli

Jóhannes á þrjú börn með eiginkonu sinni, Rósu Björk Sveinsdóttur. Þau heimsóttu hann nýverið til Höfðaborgar og eyddi fjölskyldan saman þremur vikum, en fjölskyldutíminn skiptir Jóhannes öllu máli.

Jóhannes og Rósa styðja hvort annað í gegnum þykkt og þunnt.

„Ég tek aldrei ákvarðanir um verkefni án þess að skoða hvaða áhrif þau hafa á minn tíma með fjölskyldunni. Hann skiptir mig mestu máli. Ef ég horfi á síðastliðin þrjú ár hef ég verið að jafnaði þriðjung af árinu í útlöndum og tvo þriðju heima. Þessa tvo þriðju hluta er ég nánast bara í fríi. Þegar ég skoðaði þetta verkefni fannst mér of mikið að vera níu vikur frá fjölskyldunni en þegar ég skoðaði þetta með konunni sagði hún mér að hana hefði alltaf langað til að fara til Höfðaborgar. Þannig að við höfðum þetta þannig að ég var einn hér í þrjár vikur, síðan kom konan með börnin og var hjá mér í þrjár vikur og svo er ég einn í þrjár vikur í restina. Þannig að í raun er ég bara í þrjár vikur í burtu sitthvoru megin við fríið með þeim. Svo verð ég í fríi í dágóðan tíma eftir að ég kem heim. Ég leyfi þessu ekki að taka of stóran bita af fjölskyldulífinu. Konan hefur reyndar heimsótt mig með börnin í öll erlendu verkefnin sem ég hef tekið mér fyrir hendur. Hún hefur komið til Ungverjalands, Marokkó, Vancouver í Kanada og til Bretlands, sem er rosalega gaman og mikið ævintýri fyrir alla,“ segir Jóhannes, en tökuplanið var fjölskyldunni hliðhollt í nýlegri heimsókn til Höfðaborgar.

Það var ýmislegt brallað þegar fjölskyldan átti frítíma saman í Suður-Afríku.

„Það raðaðist þannig að þessar þrjár vikur sem þau voru hér þá held ég að ég hafi unnið í fimm daga samtals, sem var æðislegt. Þrír af þessum fimm dögum voru hálfir dagar þannig að það var eins og ég hefði hannað þetta sjálfur sem var ofboðslega gott.“

Betur borgað en á Íslandi

Jóhannes kann vel við að ferðast um heiminn á vit nýrra og krefjandi verkefna, eins og hann hefur gert nánast eingöngu síðastliðin fjögur ár.

„Mér finnst þetta algjör forréttindi. Ég fæ að heimsækja staði í heiminum sem ég hef aldrei komið til áður. Ég finn líka hvað þetta gefur mér mikinn frítíma. Ég hef miklu meiri frítíma núna en nokkurn tíma þegar ég var að vinna á Íslandi. Þetta tekur ekki yfir allan minn tíma á árinu og er töluvert betur borgað en að vera leikari á Íslandi. Þetta gefur mér meiri tíma með konunni og börnum og það er það sem ég vil. Ég er þakklátur fyrir þessar aðstæður sem ég er í núna og vil endilega halda þessu áfram,“ segir Jóhannes. Nánasta framtíð er óráðin þegar kemur að verkefnum.

„Akkúrat núna er bara frí sem tekur við eftir tökur í Höfðaborg. Ég vil helst vera í fríi þangað til í haust. Netflix-serían The Innocents verður frumsýnd í júlí og ef ákveðið verður að gera aðra seríu er ég samningsbundinn að leika í henni. Þá fer ég aftur í tökur í september eða október, að því gefnu að verði gerð önnur sería sem ég veit ekki fyrr en í ágúst. Mögulega leik ég í skandinavískri bíómynd í ágúst en það er allt á samningsstigi og ekkert ákveðið. En það væri gaman,“ segir leikarinn.

Hvar er fastráðningin í Þjóðleikhúsinu?

En á hann eftir að uppfylla einhverja drauma á ferlinum?

„Ég er allavega kominn á ákveðinn stað sem mig óraði ekki fyrir að ég myndi komast á. Ég hef alltaf tekið eitt skref fram á við en aldrei horft á einhvern endapunkt. Þegar ég var í leiklistarskólanum hugsaði ég aldrei að ég ætlaði að leika í erlendum sjónvarpsþáttum og bíómyndum. Nei, ég hugsaði: Ég ætla að verða fastráðinn leikari í Þjóðleikhúsinu. Það fyrir mér var ákveðinn staður til að komast á. Svo þegar ég fékk fastráðningu langaði mig að leika í íslenskum kvikmyndum. Eftir að ég lék í Svartur á leik fékk ég erlendan umboðsmann og þá var allt í einu komið inn í myndina að leika í erlendum bíómyndum,“ segir Jóhannes og bætir við að hann standi á hálfgerðum krossgötum.

Stund á milli stríða hjá Jóhannesi.

„Ég hef verið að hugsa þetta undanfarið: Hvar er fastráðningin í Þjóðleikhúsinu núna? Hvert vil ég komast. Ég hreinlega veit það ekki. Það er hættulegt að vera of sáttur við hvar maður er og maður þarf að stefna að einhverju. Ein hugsun sem hefur læðst að mér er að kannski sé næsta skref fyrir mig að framleiða eitthvað sjálfur. Að segja einhverja sögu sem mig langar til að segja. En ég veit ekki hvaða saga það er.“

Myndir / Úr einkasafni

Presturinn sagði vitlaust nafn í kirkjunni

Þau Alma Jónsdóttir og Matthías Árni ákváðu að slá tvær flugur í einu höggi þann 12. ágúst í fyrra – að ganga í það heilaga og skíra son sinn, Jón Inga, á sama tíma í Hafnarfjarðarkirkju.

„Dagurinn var fullkominn í alla staði, æðislegt veður og fjölskylda og vinir samankomnir til að fagna deginum með okkur,“ segir Alma. Það var þó eitt óvænt, en frekar fyndið, atvik í athöfninni sjálfri, sem vakti mikla athygli fram eftir degi og kvöldi.

„Athöfnin hafði gengið rosalega vel. Við byrjuðum á að skíra Jón Inga og var það æðisleg stund þar sem hann er skírður í höfuðið á öfum sínum sem voru þarna með okkur. Svo var komið að því að gifta okkur. Presturinn, sem við þekkjum bæði vel, var búinn að vera í smávegis veseni með hátalarakerfið en lét það ekki á sig fá og hélt áfram með athöfnina. Þegar kom að því að spyrja okkur hvort við vildum ganga að eiga hvort annað byrjaði hann á að spyrja Matthías hvort það væri einlægur ásetningur hans að ganga að eiga Telmu sem við hlið hans stæði. Þarna var maðurinn minn sem betur fer fljótur að svara: „Nei Ölmu!“ Þá roðnaði presturinn smávegis og gátum ekki annað en brosað. Athöfnin hélt svo áfram áfallalaust og við gengum út úr kirkjunni gift,“ segir Alma og bætir við:

„Eftir athöfnina kom presturinn til okkar og ætlaði að fara biðja okkur afsökunar á þessu atviki en við vorum fljót að stoppa hann og hlæja bara að þessu með honum.“

Segja má að þessi nafnaruglingur hafi verið eitt af aðalskemmtiatriðunum í veislunni eftir athöfnina.

„Þar sem að hátalarakerfið var búið að vera eitthvað aðeins að stríða okkur voru það ekki margir sem heyrðu prestinn segja rangt nafn, en þeir sem heyrðu þetta fannst þetta bara skondið atvik. Í veislunni var þetta hins vegar aðalgrínið og mikið hlegið af þessu. Í dag getum við svo sannarlega hlegið jafnmikið að þessu og við gerðum á brúðkaupsdaginn,“ segir Alma.

Þetta viðtal er hluti af stærra efni í nýjasta tölublaði Mannlífs um óvæntar uppákomur á brúðkaupsdaginn. Smelltu hér til að lesa Mannlíf á netinu.

Mynd / Zack Gemmell

Leita að ungri stúlku til að leika í stuttmynd

Framleiðslufyrirtækið Join Motion Pictures leitar nú að stúlku á aldrinum fimm til sjö ára til að leika aðalhlutverk í nýrri stuttmynd.

Join Motion Pictures var stofnað árið 2007 af framleiðandanum Antoni Mána Svanssyni og leikstjóranum Guðmundi Arnari Guðmundssyni. Þetta tvíeyki vakti fyrst heimsathygli árið 2013 með stuttmyndinni Hvalfjörður, eða Whale Valley, sem sópaði til sín verðlaunum, þar á meðal á kvikmyndahátíðinni í Cannes þar sem myndin hlaut sérstök dómnefndarverðlaun.

Join Motion Pictures framleiddi einnig kvikmyndina Hjartastein, sem Guðmundur Arnar leikstýrði og skrifaði, en sú mynd hefur hlotið hátt í fjörutíu verðlaun hér heima og erlendis, og Vetrarbræður eftir Hlyn Pálmason sem státar af yfir tuttugu verðlaunum.

Áhugasamir foreldrar eru beðnir um að senda nýlegt myndbrot eða myndir af dætrum sínum á [email protected], ásamt upplýsingum um aldur, hæð og helstu áhugamál eigi síðar en sunnudaginn 8. apríl.

„Róandi lyf algengust“

|
|

Valgerður Rúnarsdóttir, læknir, framkvæmdastjóri lækninga hjá SÁÁ og forstjóri sjúkrahússins Vogs, segir að misnotkun lyfseðilsskyldra lyfja hafi tíðkast í áratugi og sé hluti af vímuefnavanda þeirra sem leita til SÁÁ.  

Valgerður Rúnarsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá SÁÁ, segir meðal annars að meðan framboðið á lyfjum sé mikið sé neyslan það einnig.

„Lyfseðilsskyld lyf sem eru misnotuð eru í þremur flokkum, öll ávanabindandi og geta valdið fíkn. Róandi-, svefn- og kvíðastillandi lyf, sterk verkjalyf og örvandi lyf. Öll þessi lyf eru meira áberandi meðal þeirra sem koma í meðferð nú en áður en þó eru ekki dramatískar breytingar nema fíkn í sterku verkjalyfin jókst umtalsvert síðustu tvö árin. Neyslan í dag er hjá flestum blönduð, áfengi, lyf og ólögleg vímuefni,“ segir Valgerður. „Algengast er þó að róandi lyfin séu með í för. Konur eru líklegri til að nota róandi lyfin en karlar, önnur lyfjaneysla er svipuð hjá báðum kynjum. Eldri einstaklingar hafa verið frekar í róandi og verkjalyfjum, en þetta hefur breyst og undanfarin ár sækir yngri kynslóðin mun meira í þessi lyf, jafnvel þau yngstu, það er að segja undir tvígtugu. Notkun örvandi lyfjanna er mest meðal yngri fullorðinna, 20-40 ára, og hættulegast er þegar þessi lyf eru notuð í æð.“

Lyfin oft af götunni
Hefur orðið aukning á einhverju tilteknu lyfi að undanförnu? „Við höfum tekið eftir aukningu á xanax sem er eitt af róandi lyfjunum og er ekki selt hér í apótekum, og síðan verkjalyfið oxycodone sem þó er mun minna um. Það eru þó oftast  sömu lyfin sem ganga kaupum og sölum, samanber nöfnin hér fyrir ofan. Það má segja að ópíóíðalyfin eða sterku verkjalyfin séu hættulegust í inntöku því þau geta haft lífshættulegar afleiðingar með öndunarhömlun sem er vegna áhrifa á heila. Önnur róandi lyf geta einnig verið lífshættuleg í inntöku sérstaklega með öðrum vímugjöfum eins og áfengi. Hins vegar er neysla methylphenidates (rítalíns) í æð og einnig morfínlyfin í æð, mjög hættuleg vegna þeirra lífshættulega fylgikvilla sem sprautufíkn fylgja. Bakteríusýkingar, lost, ofskammtar og svo framvegis. Áhrif methylphenidate-lyfja á hvatvísi, áhættuhegðun, dómgreind og fleira eru mjög alvarlegt mál. Örvandi neyslan á Íslandi er miklu meira vandamál heldur en verkjalyfin,“ segir Valgerður. „Þessi lyf eru til sölu á ólöglegan hátt, þau koma væntanlega flest úr apótekum landsins, geta líka verið innflutt. Margir fá einhver lyf frá læknum en það er algengara að fólk kaupi þau „á götunni“.“

„Þessi lyf eru til sölu á ólöglegan hátt, þau koma væntanlega flest úr apótekum landsins, geta líka verið innflutt. Margir fá einhver lyf frá læknum en það er algengara að fólk kaupi þau „á götunni“.“

Meðferð vandasöm
Hún segir að afeitrun af þessum mismunandi lyfjum geti verið vandasöm og sé ólík fyrir hvern lyfjaflokk. „Margir eru í blandaðri neyslu á þessum lyfjum og því full þörf á gát og endurmati lyfja þessa daga sem afeitrun stendur. Hún er veitt í inniliggjandi sjúkrahúsdvöl á Vogi, af læknum og hjúkrunarfræðingum. Margir þurfa framlengda dvöl vegna þessarar neyslu, sem getur tekið langan tíma að afeitra, allt upp í nokkrar vikur. Stundum á við sérstök meðferð fyrir þá sem eru með alvarlega fíkn í ópíóíðalyf, sterku verkjalyfin, sem kallast viðhaldsmeðferð og er veitt héðan frá göngudeild Vogs.

Auk þess er mikil þörf á framlengdri meðferð fyrir fólk sem sprautar í æð örvandi lyfjum, það þarf oft mikið umhald og stuðning. Við höfum fjögurra vikna eftirmeðferð á meðferðarstöð SÁÁ á Vík á Kjalarnesi sem er glæný, rúmgóð og býður kynjaskipta meðferð með nokkrum sérúrræðum. Það er meðal annars gott rými fyrir eldri einstaklingana sem voru lyfjaháðir og þurfa tíma til að jafna sig og læra að takast á við til dæmis svefnvanda og kvíðaeinkenni sem eru oft áberandi í þessum hópi. Einnig höfum við framhaldsdvöl í 6-18 mánuði á meðferðarheimilinu Vin fyrir karlmenn sem komnir eru í slæma stöðu. Og svo er það göngudeildin okkar í Von Efstaleiti og á Akureyri.“

Hefur verið sama þróun í þessum málum hér og í nágrannaþjóðunum? „Já, það eru áhyggjur af lyfjaneyslu og fíkn hjá nágrannaþjóðum. Í Bandaríkjunum kalla þeir það „faraldur“ þar sem hátt í 100 manns deyja á dag úr ofneyslu sterkra verkjalyfja.“

„Samfélagið mætti vel spyrja sig, hvers vegna lyf almennt. Við mörgum venjulegum einkennum og áhrifum lífsins. Til dæmis svefntruflunum, verkjum, vægum kvíðaeinkennum, öðrum geðrænum einkennum sem mörgum hverjum má sinna með allt öðrum hætti en með lyfjum.“

Breytingar á lífsstíl í stað lyfja
Áhugavert er að velta fyrir sér hvaða samfélagslegu aðstæður og ástæður geta verið fyrir því að öll þessi lyf eru í umferð og að fólk misnotar lyfseðilsskyld lyf í auknum mæli. „Það er einnig umhugsunarvert hvernig umgengni er við lyf, má gefa með sér lyfseðilskyld lyf? Svarið er nei, en sú er samt raunin. Samfélagið mætti vel spyrja sig, hvers vegna lyf almennt,“ segir Valgerður ákveðin, „við mörgum venjulegum einkennum og áhrifum lífsins. Til dæmis svefntruflunum, verkjum, vægum kvíðaeinkennum, öðrum geðrænum einkennum sem mörgum hverjum má sinna með allt öðrum hætti en með lyfjum. Hreyfing og ýmsar lífsstílsbreytingar geta haft gríðarlega mikil áhrif og góð. Sálfræðimeðferðir eru til við mörgum kvillum og geta læknað og lagað mjög mikið með einstaklingnum. Við langvinnum stoðkerfisverkjum, (ekki bráðum verkjum eða í líknarmeðferð), á helst ekki að nota þessi morfínskyldu verkjalyf. Bestu raun gefa hreyfing, sjúkraþjálfun, endurhæfing, sálfræðimeðferð, iðjuþjálfun og fleira auk ef til vill bólgueyðandi lyfja. Það er hugsað sem lausn á undirliggjandi og samhliða vanda, en ekki bara að slökkva á einkenninu sem er verkurinn. Kannski erum við orðin of lyfjatrúar, eða þolum minna en áður. Síðan er það vandinn af fíkninni. Þegar um er að ræða fíknsjúkdóm eru þessi lyf eins og hvert annað vímuefni og neyslan þá ekki stýrð af skynsemi eða rökum. Þau koma þá inn í neysluna almennt og verða hluti af henni, eins og raunin er. Ef nóg er framboðið, þá verður neyslan líka aukin,“ segir Valgerður.

En hvað með önnur fíkniefni, hefur orðið breyting á neyslu þeirra? „Hún hefur ekki minnkað, neysla ólöglegra vímuefna er sem aldrei fyrr.“

Lyf sem eru misnotuð skiptast í þrjá meginflokka

  1. Róandi- svefn- og kvíðastillandi lyf: Oftast benzodiazepin-lyf sem hafa ótal sérlyfjaheiti, meðal annars tafil, rivotril, lexotan, diazepam og mogadon. Einnig svo kölluð z-lyf eins og imovane og stilnoct.
  2. Sterk verkjalyf: Eru morfínskyld lyf, veikari eru tramadol og kodein, til dæmis parkódin, og sterkari eru meðal annars contalgin, oxy-lyfin og fentanyl.
  3. Örvandi lyf: Eins og amfetamín-töflur og methylphenidate, til dæmis rítalín og concerta.

Mikil umræða hefur verið að undanförnu um skaðsemi lyfseðilsskyldra lyfja. Dauðsföllum af völdum misnotkunar þeirra hefur fjölgað gríðarlega og grunur um að andlát níu manneskja á þessu ári megi rekja til ofneyslu slíkra lyfja eða fíkniefna. Mannlíf ræddi við einnig við Sigurð Rósant Júlíusson, fyrrverandi fíkil, um reynslu hans af hörðum heimi fíkniefna og föður stúlku sem lést vegna ofneyslu, um þann vanda sem samfélagið stendur frammi fyrir.

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Mynd / Aldís Pálsdóttir

Raddir