Magnús Andri Sæmundsson lést 12. febrúar eftir að hafa lent í sjálfheldu ópíóíðanna. Hann var aðeins 19 ára.
Foreldrar hans, Guðrún Katrín Sandholt og Sæmundur Steindór Magnússon, ákváðu rúmum tveimur mánuðum eftir andlát sonar síns að segja þessu ástandi stríð á hendur og vekja fólk til vitundar um þann skaða sem sala og framleiðsla lyfjanna veldur. Varla er hægt að ímynda sér dýpri sorg en þá að þurfa að fylgja barni sínu til grafar. Þau lýsa í Mannlífi nístandi sorginni við að sjá á eftir efnilegum syni í gröfina og rekja sögu hans, sem er lýsandi fyrir það að enginn sér það fyrir hver hlýtur þau örlög að verða fíkninni að bráð. Hjónin ákváðu að segja sögu sonar síns til þess að forða sem flestum frá því að hljóta þau örlög að glata lífi sínu í þeim manngerða háska sem steðjar að. Ekkert er dregið undan í frásögninni og skýru ljósi varpað á örlög ungs drengs sem hefði með réttu átt að eiga langt líf fram undan. Þessi barátta hjónanna er aðdáunarverð og nær vonandi eyrum sem flestra.