Föstudagur 12. júlí, 2024
11.8 C
Reykjavik

Að gefast upp á að hjálpa

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Lífsreynslusaga úr Vikunni

Í flestum fjölskyldum þykir sjálfsagt að fólk hjálpi og styðji hvert annað. Mín fjölskylda er engin undantekning þar frá en nýlega tókum við hjónin ákvörðun um að hætta alveg að aðstoða systur hans, enda okkur báðum orðið ljóst að það væri eins og að moka í botnlausa tunnu.

 

Doddi, maðurinn minn, er elstur fjögurra systkina. Langyngst er Sóley en tíu ár eru milli hennar og Sigga sem er næstyngstur. Það kemur því sennilega engum á óvart að mikið var látið með Sóley í æsku og hún þurfti sjaldan að dýfa hendi í kalt vatn. Þegar eldri krakkarnir voru að alast upp var oft þröngt í búi en þegar Sóley tók að stálpast var róðurinn tekinn að léttast og tengdaforeldrar mínir gátu veitt henni ýmislegt sem hin fengu ekki. Hún fékk að taka þátt í tómstundastarfi með tilheyrandi kaupum á útbúnaði, ferðalögum og öðru sem hin höfðu aldrei notið. Enginn taldi þetta eftir eða öfundaði Sóleyju.

Líkt og hin systkinin menntaði Sóley sig en ólíkt þeim var hún alltaf í vandræðum. Námslánin dugðu aldrei og hún varð í hverjum mánuði að fá lán hjá foreldrum sínum. Hún virtist líka eiga í erfiðleikum með að aga sjálfa sig. Hún skilaði verkefnum ævinlega á síðustu stundu, stundum of seint og fékk ekki að taka próf þannig að hún lauk ekki námi fyrr tveimur árum seinna en jafnaldrar. Ekkert af þessu var hins vegar Sóleyju að kenna. Kennarinn hafði ekki verið nógu skýr, hún fékk ekki senda námsáætlunina, tölvan hrundi og fleira og fleira. Oft hjálpuðu systkinin henni að vinna verkefnin sín og iðulega settist Doddi með henni fyrir prófin og hjálpaði henni að glósa og vinna sig í gegnum bækurnar.

Sóley lauk námi og fékk fljótlega vinnu. Ekki tók betra við eftir það. Þrátt fyrir að vera með ágæt laun átti hún aldrei fyrir mat eða öðrum nauðsynjum þegar líða tók á mánuðinn. Foreldrar hennar hlupu undir bagga oftar en ekki og stundum systkini hennar. Allir reyndu að kenna henni að fara betur með. Anna setti upp fjárhagsáætlun, kom henni í greiðsluþjónustu og skipulagði sparnað fyrir hana. Ekkert af þessu dugði. Sóley var fljót að segja upp greiðsluþjónustunni og sagðist ætla að sjá um sitt sjálf. Ekki leið á löngu þar til allt var komið í óefni og Sóley farin að skulda alls staðar.

Borguðu upp skuldirnar

- Auglýsing -

Foreldrar hennar borguðu upp skuldirnar og kallað var til fjölskyldufundar þar sem Sóleyju var gert ljóst að nú yrði hún að taka sig á og standa sig. Anna benti henni á að þær hefðu svipuð laun og sér hefði alltaf tekist að standa fullkomlega í skilum. Sóley reiddist þessu og sagði Önnu ósanngjarna. Ekki væri hægt að bera saman aðstæður þeirra, Anna væri eldri, ætti maka og væri búin að greiða af námslánum sínum lengi. Öll vissum við að ekkert af þessu skipti máli þegar kom að fjármálunum heldur munaði mest um að Anna hafði skynsamlega stjórn á sínu en Sóley ekki.

„Fyrstu tvo mánuðina kom greiðslan með skilum en þann þriðja hringdi Sóley og nú stóð svo illa á hjá henni að hún gat ekki borgað neitt.“

Nokkrum mánuðum eftir þetta var Sóleyju sagt upp vinnunni. Í ljós kom að hún hafði séð um starfsmannasjóðinn en þegar nýr aðili tók við kom í ljós nokkrar færslur voru óútskýrðar. Skiljanlega voru samstarfsmenn hennar ekki hrifnir af þessu en féllust á að kæra ekki ef Sóley greiddi til baka það sem hún hafði tekið. Að þessu sinni tók Doddi upp veskið. Um var að ræða 300.000 kr. Hann og Sóley gerðu samning um endurgreiðslur og hún ætlaði að borga 5.000 kr. á mánuði þar til skuldin væri gerð upp. Doddi vildi ekki ganga hart að systur sinni, þótt hún hefði fljótlega fengið loforð um aðra vinnu í gegnum Sigga. Fyrstu tvo mánuðina kom greiðslan með skilum en þann þriðja hringdi Sóley og nú stóð svo illa á hjá henni að hún gat ekki borgað neitt. Doddi samþykkti að sleppa einum mánuði úr ef hún tæki upp þráðinn aftur í næsta mánuði. Það var ekkert mál að mati skuldarans en sama sagan endurtók sig næst og svo aftur næst. Eftir það hætti hún að hringja og borga. Doddi ákvað að ganga ekki á eftir peningunum.

Um svipað leyti byrjaði Sóley með Gunna. Hann var indæll maður og fjölskyldunni leist ágætlega á sambandið. Þau byrjuðu að búa saman og næstu árin virtist allt með felldu. Gunni var duglegur, rak eigið fyrirtæki og var búinn að koma sér ágætlega fyrir þegar hann og Sóley byrjuðu saman. Þau eignuðust dóttur saman og Sóley virtist hamingjusöm. Þegar Gunnar gekk út af heimilinu dag nokkurn var hún gersamlega niðurbrotin. Hún sagðist alls ekki geta ímyndað sér hvers vegna hann hefði farið og var alveg eyðilögð.

- Auglýsing -

Allir vildu hjálpa

Öll systkini Sóleyjar og foreldrar voru full samúðar og vildu allt fyrir þær mæðgur gera. Tengdaforeldrar mínir fóru með þær í sólarlandaferð og við hin reyndum að bjóða þeim oft í mat, taka þær með ef við vorum að fara eitthvað og á allan hátt hlúa að þeim. Gunni virtist ætla að reynast Sóleyju vel, að minnsta kosti hvað fjármál varðaði, því hann sagði að hún gæti fengið húsið gegn því að hún gerði enga kröfu í fyrirtæki hans. Anna skoðaði ársreikninga þess og fullyrti að þetta væri góður samningur því þótt fyrirtækið væri ágætlega rekið gæfi það ekki mikinn arð.

Úr varð að Sóley samþykkti skiptin og skilnaður gekk í gegn. Þótt ekkert okkar væri tilbúið að rækta einhvern óvinskap við Gunna æxlaðist það einhvern veginn þannig að enginn talaði við hann eftir skilnaðinn. Þegar ég hitti Alla, bróður hans, fyrir tilviljun í boði hjá sameiginlegu vinafólki sagði ég honum hvað okkur hefði öllum þótt leitt að missa Gunna úr fjölskyldunni og að okkar þætti vænt um hann. Að við bara skildum ekki af hverju hjónabandið hafi brostið. Alli var svolítið kenndur og horfði á mig skrýtinn á svipinn, svo sagði hann: „Ég er ekki hissa á að þið sjáið eftir Gunna. Hann hefur gert allt sem hann mögulega gat til að taka ábyrgð á manneskju sem virðist aldrei hafa vaxið upp og kann ekkert með peninga að fara. Hún gerði aldrei neitt inni á heimilinu, allt beið eftir að Gunni kæmi heim, sama hversu seint það var. Hún eyddi og sóaði hugsunarlaust og talaði þar að auki til bróður míns með svo niðurlægjandi hætti að okkur blöskraði öllum. Við í minni fjölskyldu erum á hinn bóginn hissa á að hjónabandið hafi enst svona lengi.“

Mér hnykkti við en ég áttaði mig á að allt sem Alli sagði var satt. Sóley var og er gersamlega hömlulaus. Ef henni mislíkar sleppir hún sér alveg og eys sér yfir fólk. Þá er sama hvar hún er stödd og hún sparar ekki stóru orðin. Við í fjölskyldu hennar erum sennilega orðin svo vön skapsmunum hennar að við erum hætt að taka því alvarlega. Kannski erum við svona meðvirk. En Alli opnaði augu mín og Didda. Við rifjuðum upp ótal atvik þar sem Sóley hafði gert lítið úr Gunna í boðum og í eyru barnsins hans. Við mundum líka eftir rifrildum og öskrum sem gengu alltof langt.

„Í ljós kom að Sóley hafði gengið mjög á eignir foreldra sinna og hafði tekið út meira en nam arfi hennar fyrirfram.“

En þótt Alli hafi þarna skýrt fyrir okkur hvers vegna hjónabandið brást hélt fjölskyldan áfram að dansa í kringum Sóleyju. Nú var hún einstæð móðir og notfærði sér sannarlega þá stöðu. Tengdafaðir minn dó fyrir tveimur árum og í vetur lést tengdamamma. Þá var farið að gera upp bú þeirra. Í ljós kom að Sóley hafði gengið mjög á eignir foreldra sinna og hafði tekið út meira en nam arfi hennar fyrirfram. Tengdapabbi hafði skráð þetta niður, enda sanngjarn maður sem vildi ekki gera upp á milli barna sinna. Hún brjálaðist þegar systkinin bentu henni á þetta en nú var hins vegar öllum nóg boðið. Þau neituðu að gefa eftir og skipta jafnt því sem eftir var í búinu. Þau sögðu henni sömuleiðis að hér eftir yrði hún að bjarga sér sjálf. Síðan hefur Sóley ekki talað við systkini sín og ber þau út við aðra ættingja og segir þau hafa stolið af sér arfinum eftir foreldrana. Við látum okkur það í léttu rúmi liggja. Flestir vita sannleikann hvort sem er og við höfum lært þá lexíu að sumu fólki er einfaldlega ekki hægt að hjálpa.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -