Föstudagur 6. desember, 2024
-1.2 C
Reykjavik

„Ég ætlaði aldrei að bindast öðrum manni ástarböndum“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Lífsreynslusaga úr Vikunni

Ég elskaði manninn minn heitt og hélt að við yrðum saman alla tíð, í gegnum súrt og sætt, sorgir og gleði. Á erfiðum tíma í lífi okkar brást hann og ég var svo sár að ég ætlaði aldrei að bindast öðrum manni ástarböndum.

 

Við Jonni kynntumst í Háskólanum. Hann var ekki beint sætur en bjó yfir afar miklum persónutöfrum. Ég hafði sannarlega tekið eftir honum, eins og flestar stelpurnar sem sátu tíma með honum. Hann hafði greinilega tekið eftir mér líka. Í fyrstu „vísindaferð“ vetrarins fórum við að spjalla saman og eitt leiddi af öðru. Við vorum enn í námi þegar við giftum okkur og skömmu eftir útskrift eignuðumst við strákinn okkar. Ári síðar fórum við til útlanda í framhaldsnám. Íslendingafélagið var nokkuð virkt og við kynntumst mörgum löndum okkar. Skemmtanalíf var mikið, meira en ég átti von á og mér líkaði, en ég hvatti Jonna til að hanga ekki heima yfir mér og barninu, heldur drífa sig út. Við vorum vissulega mjög önnum kafin í náminu en Jonna þótti betra en mér að slaka á í góðra vina hópi.

Árið sem við komum heim hélt Jonni fram hjá mér en ég fyrirgaf honum. Hann var mjög drukkinn þegar það gerðist og var svo iðrandi þegar hann sagði mér frá því að ég gat ekki annað en fyrirgefið honum. Ég vissi að hann væri vinsæll hjá konum en mig grunaði samt aldrei að nokkuð svona gæti gerst. Ein vinkona mín ytra sagði að Jonni hafði lag á því að láta konum finnast þær svo fallegar, hann horfði einhvern veginn þannig á þær að þær fengju á tilfinninguna að þær væru æðislegar. Hún sagði það vera hluta af persónutöfrum hans en hefði aldrei litið á framkomu hans við sig sem viðreynslu. Þetta var rétt lýsing á honum og eitt af því sem ég kolféll fyrir þegar ég kynntist honum. Mér fannst ég fallegasta manneskja á jarðríki þegar hann horfði á mig. Ég hafði ekki áttað mig almennilega á því að hann gerði þetta við allar konur.

Það sem eftir lifði dvalar okkar ytra fór Jonni ekki út að skemmta sér án mín. Við fórum þó í sameiginlegt kveðjupartí með fleiri Íslendingum sem voru á heimleið en konan sem Jonni svaf hjá mætti ekki. Mig grunar að hann hafi beðið hana um að halda sig fjarri. Ég var annars viðbúin því að hitta hana en mikill var léttir minn þegar hún lét ekki sjá sig.

Áfall

- Auglýsing -

Þegar heim var komið fórum við í þennan venjulega pakka, finna íbúð, vinnu og leikskólapláss fyrir soninn. Það gekk allt vonum framar, enda höfðum við byrjað að undirbúa flutningana nokkrum mánuðum áður og foreldrar okkar hjálpað mikið til.

Rúmum mánuði eftir að sonur okkar byrjaði á leikskólanum fékk ég upphringingu og var sagt að hann væri veikur. Ekki grunaði mig að hann ætti ekki afturkvæmt þangað. Það sem virtist vera slappleiki reyndist alvarlegur sjúkdómur. Læknar sögðu að hann myndi þurfa að glíma við hann lengi og mögulega yrði hann aldrei samur. Ég vil ekki lýsa veikindunum nánar á þessum vettvangi en áfallið var gífurlega mikið. Svo mikið að ég missti fóstur. Mig hafði grunað að ég gæti verið ófrísk en átti eftir að fá það staðfest. Ég varð ótrúlega sár út í Jonna þegar hann sagði að þetta hefði verið fyrir bestu, það hlyti að vera hræðilegt álag að vera með mjög veikt barn og einnig ungbarn. Þetta var auðvitað rétt hjá honum en ekki það sem ég þurfti að heyra akkúrat á þessum tíma. Yfirleitt var ég jarðbundnari aðilinn í hjónabandinu en þarna var ég yfir mig þreytt, sorgmædd og svartsýn.

Aðallæknir sonar míns ráðlagði okkur Jonna að leita okkur hjálpar og benti á sálfræðiráðgjöf og fleiri möguleika. Við fundum fínan sálfræðing, konu sem var á svipuðum aldri og við, og fórum að hitta hana reglulega. Stundum saman, stundum sitt í hvoru lagi.

- Auglýsing -

Mér fannst gott að fara ein til sálfræðingsins og gat þá talað óheft um tilfinningar mínar. Ég sagði henni frá sársaukanum yfir því hvernig Jonni tók fósturmissinum og að það sem gerðist úti, eða framhjáhaldið, hefði rifjast upp. Mér líkaði sérlega vel við þessa konu og fannst gott að geta grátið hjá henni því ég gerði það ekki annars staðar. Mér leið alltaf betur eftir tímana hjá henni.

Ástfanginn af annarri

Ég hætti að vinna tímabundið til að sinna syni mínum, bæði á sjúkrahúsinu og svo eftir að hann var kominn heim. Andleg líðan mín var orðin miklu betri og það þakkaði ég meðal annars sálfræðingnum. Jonni virtist líka mjög ánægður með hana og sagðist vilja halda áfram hjá henni eftir að ég var hætt. Hann væri svo lokaður en þessari konu gengi vel að fá hann til að tala. Mér leist vel á það. Jonni vann mikið en þegar hann var heima á kvöldin og um helgar reyndi hann mikið að fá mig til að gera eitthvað fyrir sjálfa mig, fara út með vinkonum mínum, heimsækja foreldra mína eða bara gera eitthvað skemmtilegt. Ég gerði það nokkrum sinnum en fannst alltaf erfitt að vera lengi í burtu frá drengnum svo ég fór í mesta lagi í bíó með vinkonunum. Hjónalífið var samt ekki upp á sitt besta, ég var algjörlega orkulaus, allt sem ég átti til að gefa fór í drenginn. Jonni kvartaði ekki, heldur var hann mjög skilningsríkur.

Tæpu ári seinna fengum við góðar fréttir frá læknum barnsins og sólin fór að skína á ný. Hann myndi eiga í veikindunum allt sitt líf en vissar lífshættulegar aukaverkanir sem við vorum vöruð við, væru ekki lengur fyrir hendi.

Það var mitt í þeirri gleði sem Jonni ákvað að segja mér að hann vildi skilnað. Hann væri ástfanginn … af sálfræðingnum okkar. Ég skil ekki enn hvernig mér tókst að halda ró minni, ég var brjáluð innra með mér, ekki síst þegar ég rifjaði upp öll skiptin sem ég hafði grátið yfir Jonna hjá þessari konu. Mér hafði þótt vænt um hana og treyst henni algjörlega. Jonni var hættur í meðferð hjá henni en sagðist hafa rekist á hana þegar hann fór á pöbb með vinum sínum. Hann pakkaði niður nokkrum flíkum og snyrtidóti sínu og sagðist hafa samband við mig eftir nokkra daga.

Batnandi konu …

Skilnaðurinn gekk ótrúlega vel fyrir sig, ég var nánast dofin og Jonni vildi allt fyrir mig gera. Hann var með svo mikið samviskubit að hann vildi að ég héldi íbúðinni og sagðist ætla að borga þrefalt meðlag með barninu.

Doðinn hélst lengi en ég einbeitti mér að barninu mínu og þannig hélt ég geðheilsunni í sæmilegu lagi. Ég held líka að áfallið sem ég varð fyrir vegna veikinda drengsins hafi verið svo mikið að það hafi dregið úr hinu.

Jonni giftist konunni og mér skilst að þau séu hamingjusöm. Við sýnum hvort öðru fyllstu kurteisi barnsins okkar vegna.

Þegar sonur minn var sex ára byrjaði hann í skólanum og elskaði að vera þar frá fyrstu stundu. Þá fyrst gat ég farið að vinna fulla vinnu. Helgarnar og aukadagarnir sem drengurinn var hjá pabba sínum voru kærkomin hvíld og hjálpuðu mér við að púsla mér saman.

Besta vinkona mín sýndi mér mikinn stuðning og ég verð henni eilíflega þakklát fyrir það. Sama hversu illa mér leið tókst henni alltaf að hressa mig við. Hún reyndi ekki að rífa mig upp með neinni hörku, eins og sumir telja bestu aðferðina, heldur hafði hún lag á því að ná því besta fram hjá mér. Góðsemi hennar hafði svo miklu betri áhrif á mig en hálfgerðar skammir frá mömmu sem sagði að ég yrði nú að taka mig saman í andlitinu, ég mætti vera fegin að hafa losnað við þennan svikara, ég yrði að hætta að gráta og allt í þeim dúr. Ég varð bara enn sorgmæddari og fór að forðast mömmu þegar mér leið sem verst. Það tekur sinn tíma að syrgja og vinkona mín áttaði sig á því. Henni tókst alltaf að fá mig til að hlæja og fyllast hugrekki. Hún fór að hvetja mig óspart til að finna mér nýjan mann en ég hristi bara hausinn, ekkert var mér fjær skapi. Hún minnti mig á að til væru fjölmargir dásamlegir menn, eins og maðurinn hennar, bróðir minn, pabbi og fleiri. Það væri einhver góður þarna úti sem biði eftir að hitta mig.

Sannspá vinkona

Vinkona mín reyndist sannspá. Hún og maðurinn hennar drifu mig í skipulagða gönguferð um óbyggðir ásamt fullri rútu af skemmtilegu fólki. Þarna leyndist hann Leifur minn sem er eiginmaður minn í dag. Við smullum ótrúlega vel saman, það var eins og við hefðum alltaf þekkst. Hann er gjörólíkur mínum fyrrverandi, bæði útlitslega og hið innra. Við fórum okkur þó rólega til að byrja með, hittumst svo sífellt oftar og svo varð ekkert aftur snúið. Hann er átta árum eldri en ég, ekkill og á tvö uppkomin börn. Við ferðumst mikið, bæði innan- og utanlands. Leifur er einstaklega góður við son minn og þeir eru góðir vinir. Sárindi mín út í Jonna hurfu smám saman en ég hef samt afskaplega lítinn áhuga á því að vera í miklum samskiptum við hann og konuna hans, fyrrum sálfræðinginn minn. Við Jonni verðum samt alltaf tengd í gegnum son okkar og drengsins vegna mun ég aldrei sýna þeim hjónum neinn fjandskap. Til hvers? Lífið er allt of stutt til að velta sér upp úr leiðindum fortíðar og festast þar. Ég kýs frekar að horfa fram á veginn og hlakka til þess að verja lífinu með Leifi og syni mínum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -