Laugardagur 7. desember, 2024
-3.2 C
Reykjavik

Forboðnar ástir

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Lífsreynslusaga úr Vikunni

Maðurinn minn hélt fram hjá mér og þegar ég ákvað að fyrirgefa honum og taka saman við hann aftur varð allt vitlaust í fjölskyldu minni sem vildi að ég segði endanlega skilið við hann. Ég mun aldrei sjá eftir því að gefa honum annað tækifæri þótt hann hafi ekki átt það skilið.

Við Danni vorum rúmlega tvítug þegar við kynntumst og urðum ástfangin og þegar við létum skíra elsta barnið okkar giftum við okkur í leiðinni. Tveimur árum síðar kom næsta barn í heiminn og það þriðja og síðasta eftir önnur tvö ár. Báðum fannst okkur gott að ljúka barneignum af á stuttum tíma.

Hjónabandið var gott og ég var alltaf mjög ástfangin af Danna þótt hann væri kannski ekki fyrirmyndareiginmaður. Við rifumst þó bara um húsverkin eða skiptingu þeirra. Danni skaffaði vel en mér fannst verulega ósanngjarnt að vinnudegi hans lyki mörgum klukkutímum á undan mínum. Ég skildi ekki hvernig hann gat setið og slakað á yfir kvöldmatnum og síðan sjónvarpinu á meðan ég var á þeytingi um allt hús. Ég er viss um að hann hefur haldið að ég gerði lítið yfir daginn á meðan hann var í vinnunni. Hann kom heim í hreint hús og gat gengið að fötunum sínum vísum, hreinum og straujuðum inni í skáp, og lét eins og það gerðist af sjálfu sér. Svo sá ég líka um „karlmannsverkin“, eins og að dytta að og mála en bróðir minn er smiður og var alltaf fús til að hjálpa ef eitthvað bilaði eða skemmdist. Danni fór ekki einu sinni með bílinn í skoðun, hann sagði alltaf að skoðunarkarlarnir væru betri við konur og horfðu frekar fram hjá því sem gera þyrfti við bíla sem konur kæmu með.

Yfirleitt horfði ég fram hjá öllu þessu því ég elskaði Danna minn heitt og hann hafði fjölmarga kosti sem bættu upp gallana. Það var bara þegar ég var yfir mig þreytt sem ég missti þolinmæðina. Þegar Danni fékk áhuga á eldamennsku sá hann um matargerð um helgar og það fannst mér algjör lúxus. En þegar ég kom með þá hugmynd að hann vaskaði sjálfur upp eftir eldamennskuna leið ekki langur tími þar til langþráð uppþvottavél kom á heimilið.

Hræðileg uppgötvun

Árin liðu og líf mitt var gott. Ég var farin að vinna úti allan daginn og fannst dásamlegt að vera í samskiptum við aðra en bara börnin og eiginmanninn.

- Auglýsing -

Ég var önnum kafin við að undirbúa fermingu yngsta barnsins þegar ég fann að allt fór að breytast. Veislan var haldin heima og eins og venjulega tók Danni lítinn þátt í undirbúningnum. Ég var löngu hætt að kippa mér upp við það en fannst skrítið að hann skyldi flýja svona að heiman þótt ég væri að atast í eldhúsinu en hann fór nánast á hverju kvöldi einn í bíltúr.

Fermingarveislan gekk mjög vel en nokkrum dögum seinna, þegar allt var orðið rólegt aftur, áttaði ég mig fyrst almennilega á því hvað Danni hafði breyst. Hann hafði byrjað í líkamsrækt eftir áramótin, sagði það áramótaheitið sitt, en mér fannst hann hafa meiri áhyggjur af útlitinu en heilsunni. Bíltúrarnir héldu áfram þótt veislan væri búin og ró komin yfir heimilislífið. Danni varð fúll þegar ég spurði hann hvort allt væri í lagi hjá okkur og sagðist ekki nenna svona yfirheyrslum. Það gerði mig enn áhyggjufyllri og sú hugsun að hann héldi fram hjá mér leitaði á mig. Ég sagði engum frá áhyggjum mínum og vonaði að allt yrði gott aftur.

Eitt kvöldið þegar Danni var í baði sá ég að hann hafði gleymt gemsanum á hjónarúminu. Ég greip tækifærið og kíkti í hann, ég varð að fá að vita vissu mína. Danni var í samskiptum við marga vinnunnar vegna og ég sá fjölda símanúmera sem ég kannaðist ekki við. En ég sá að hann talaði oft við einhverja Önnu og þegar ég kíkti á símanúmerið á bak við nafnið sá ég að þetta var besta vinkona mín sem ég hafði þekkt frá barnæsku og var í miklum samskiptum við. Hún og maðurinn hennar komu oft í mat til okkar og þau buðu okkur líka reglulega til sín. Fyrst hugsaði ég með mér að þau tvö væru kannski að plana eitthvað sniðugt fyrir fertugsafmælið mitt síðar á árinu en ég fylltist samt óþægilegri tilfinningu og ákvað að skoða SMS-in. Þar fann ég fjölmörg skilaboð milli hans og Önnu. Þau tengdust afmæli mínu ekki á nokkurn hátt, heldur var greinilegt að þau áttu í ástarsambandi.

„Ég fylltist samt óþægilegri tilfinningu og ákvað að skoða SMS-in. Þar fann ég fjölmörg skilaboð milli hans og Önnu. Þau tengdust afmæli mínu ekki á nokkurn hátt …“

- Auglýsing -

Ég setti gemsann hans Danna á sama stað og dreif mig niður í eldhús í miklu uppnámi. Danni kom niður korteri seinna og sagðist ætla í bíltúr. Hann tók ekki eftir neinu, enda sneri ég baki í hann þegar ég kvaddi hann. Ég hágrét eftir að hann var farinn og var þakklát fyrir að börnin voru ekki heima.

Sættir og sælutímar

Þegar reiðin hafði náð yfirhöndinni, pakkaði ég dótinu hans Danna niður í stóra plastpoka og setti fram í forstofu. Síðan sendi ég honum SMS um að ég vissi allt um hann og Önnu og að mér þættu þau bæði viðbjóðsleg. Danni gæti komið og sótt dótið sitt en ég kærði mig ekki um að hitta hann.

Ég hringdi síðan í systur mína og bað hana um að koma og vera hjá mér um kvöldið og gista. Hún fékk að vita allt og varð bálreið fyrir mína hönd.

Danni kom ekki heim fyrr en daginn eftir og reyndi fyrst að ljúga sig út úr þessu en ég neitaði að hlusta á hann. Hann hunskaðist í burtu og flutti tímabundið til bróður síns.

Við skildum í kjölfarið en áður en skilnaðurinn varð að lögum ákvað ég að fyrirgefa honum og við tókum saman aftur. Það var eins og að eignast nýjan mann, svo mjög var Danni breyttur. Hann var hjálplegri á heimilinu og svo miklu rómantískari en áður. Hann stóð við öll loforð sem hann hafði gefið mér um að breytast.

Fjölskylda mín tók þessu mjög illa. Bæði foreldrar mínir og systkini reyndu allt hvað þau gátu til að fá mig til að breyta ákvörðun minni. Það lá við að fjölskyldan sneri baki við mér en sem betur fer gerðist það ekki. Mér finnst enginn hafa leyfi til að skipta sér svona af einkamálum annarra en ég veit að þeim gekk gott eitt til og þau óttuðust bara að ég yrði særð aftur.

„Mér finnst enginn hafa leyfi til að skipta sér svona af einkamálum annarra en ég veit að þeim gekk gott eitt til og þau óttuðust bara að ég yrði særð aftur.“

Hjónaband Önnu, fyrrverandi bestu vinkonu minnar, stóð þetta af sér en ég hef ekki talað við hana síðan þetta gerðist.

Til að innsigla sættirnar og hefja nýtt og betra líf ákváðum við Danni að reyna að eignast fjórða barnið. Þótt ég væri orðin fertug varð ég ófrísk nánast um leið og í fyllingu tímans kom yndislegur sonur í heiminn. Ég var að springa úr hamingju. Eldri börnin okkar voru mjög ánægð og ekki síst með að við Danni hefðum tekið saman aftur.

„Hvað hef ég eiginlega gert þér?“

Allt gekk vel í rúmlega þrjú ár en þá fann ég breytingu á framkomu Danna við mig og hann var sífellt meira að heiman. Að þessu sinni kom gemsinn ekki upp um hann, heldur kom bróðir hans í heimsókn til mín og sagði mér að kona hans og Danni ættu í sambandi. Hann hefði grunað það um hríð en væri kominn með sannanir fyrir því núna. Hann ætlaði að tala við konu sína þegar hún kæmi heim úr „saumaklúbbnum“ eða réttara sagt frá því að hitta Danna. Fyrst hefði hann viljað láta mig vita. Ég var honum þakklát fyrir það. Ekki var ég jafnhugulsöm við mann Önnu þegar Anna hélt við manninn minn. Ég hef alltaf haft á tilfinningunni að hann hafi fengið verulega fegraða útgáfu Önnu af framhjáhaldinu, eins og að þetta hefði bara gerst einu sinni í ölæði, en þori samt ekki að fullyrða það.

Einhverra hluta vegna varð seinna áfallið minna en það fyrra. Auðvitað hafði ég vonað að maðurinn sem ég elskaði myndi ekki svíkja mig aftur en kannski hef ég innst inni átt von á því.

Við Danni skildum og að þessu sinni endanlega, og einnig bróðir hans og mágkona.

Það fór eðlilega allt á hvolf í fjölskyldu Danna en fólkið mitt stóð þétt við hlið mér og enginn orðaði það sem allir hugsuðu: „Hvað sagði ég?“ Ef ég hefði hlustað á fjölskyldu mína á sínum tíma hefði ég aldrei eignast yngsta barnið, augasteininn minn.

Danni sýndi á sér ýmsar leiðinlegar hliðar þegar hann áttaði sig á því að hann gæti ekki komið aftur heim. Hann hótaði því að reyna að fá forræðið yfir syni okkar en ég vissi allan tímann að hann ætlaði að nota barnið sem stjórntæki á mig. Hann var of latur til að nenna að vera einn með þriggja ára barn en samt gekk hann svo langt að fara í forræðisdeilu við mig. Eins og það yrði til þess að ég tæki aftur við honum. Ég treysti mér ekki til að deila forræðinu með honum eftir það sem á undan var gengið og sem betur fer var mér dæmt það. Aldrei myndi mér detta í hug að hamla umgengni hans við barnið.

Danni má eiga það að hann er góður við börnin sín og ég vildi að feðgarnir væru í sem mestum samskiptum. Ég stakk upp á því að hann væri með drenginn aðra hverja helgi frá fimmtudegi til mánudags og oftar eftir samkomulagi. Það samþykkti hann en gafst upp á því eftir nokkrar vikur. Hann vildi bara hitta drenginn inni á mínu heimili eftir sínum hentugleikum og ég samþykkti það, allra barnanna okkar vegna. Hann varði fyrstu jólunum eftir skilnaðinn með okkur og var eins og grár köttur á heimilinu langt fram á næsta ár. Ég fann að hann stefndi að því að komast aftur heim. Sambandið við mágkonuna stóð stutt.  Ég áttaði mig á því að hann vildi vera giftur mér en eiga jafnframt í spennandi og forboðnum samböndum til að krydda tilveruna. Ég var ekki til í það.

Loks fékk ég nóg og sagði Danna að þetta gengi ekki lengur. Hann væri fyrrverandi maðurinn minn og ég ætlaði ekki að taka saman við hann aftur. Aldrei! Þá sagði Danni þessa óborganlegu setningu: „Hvað hef ég eiginlega gert þér?“ Ég fór að hlæja og svaraði: „Hvar á ég að byrja?“

Næstu vikur og mánuði þurfti ég að standa föst á mínu því Danni gafst ekki upp. Loks var eins og hann sæi að honum tækist ekki að smjaðra sér leið að mér á nýjan leik og ég fékk frið. Nokkrum mánuðum seinna eignaðist ég svo vin, frábæran mann sem ég er farin að búa með. Danni er brjálaður út af því og reynir að ljúga upp ljótum sögum um nýja manninn sem hann segir að ég geti ekki treyst. Ég treysti honum algjörlega en Danna get ég aftur á móti aldrei framar treyst eftir sára reynslu mína af honum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -