Föstudagur 19. júlí, 2024
10.8 C
Reykjavik

Nískan drap ástina

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Lífsreynslusaga úr Vikunni

Vinkona mín var með sérlega nískum manni í eitt og hálft ár. Hún áttaði sig ekki sjálf á því hvað hann var samansaumaður fyrr en þau fóru saman í sumarfrí til útlanda.

Ég kynntist Benna aldrei mjög vel, jafnvel þótt ég væri öll af vilja gerð, hann var jú kærasti einnar af bestu vinkonum mínum. Þau bjuggu aldrei saman en líklega hefði sambandið ekki staðið jafnlengi og það gerði ef þau hefðu farið í sambúð.

Ásta er vön að hugsa um sig sjálf og hefur aldrei fengið neitt upp í hendurnar í lífinu. Hún hafði búið ein með syni sínum frá því hann var ársgamall, eftir að sambandi hennar og barnsföður hennar lauk. Henni tókst þó að mennta sig og var ágætlega stödd í lífinu, í eigin íbúð og góðu starfi þegar þau Benni kynntust. Það hefði þó seint verið hægt að segja að hún hefði það gott fjárhagslega þótt hún ætti fyrir reikningunum um hver mánaðamót.

Erfitt að deila með öðrum

Benni var nokkuð frábrugðinn þeim ábyrgðarlausu mönnum sem hún hafði stundum hitt. Hann var barnlaus, hafði það mjög gott í lífinu og var í frábæru starfi. Hann virtist einhvern veginn svo pottþéttur og það kunni Ásta að meta.

Fyrstu kynni okkar Benna voru í matarboði heima hjá Ástu. Við vorum mörg og öll tókum við með okkur drykkjarföng, rauðvín, hvítvín eða bjór, sem við komum fyrir á borði í borðstofunni. Allir nema Benni. Hann hafði tekið með sér eitthvert fínt rauðvín og til að enginn annar fengi sér af því geymdi hann það inni í svefnherbergi Ástu. Venjan var þó í boðum að allir gátu fengið sér það sem þeir vildu; við færðum Ástu þetta vín og það var ætlað öllum.

- Auglýsing -

Benni gat alveg verið skemmtilegur, en samt var hann svolítið „ferkantaður“ í hugsun, skorti víðsýni, að mínu mati. Ég ákvað með sjálfri mér að dæma hann ekki fyrir að passa svona upp á rauðvínið sitt en ég hafði lúmskt gaman af þessu.

Þegar ég hélt matarboð nokkrum mánuðum seinna mætti hann með Ástu og tók með sér fínt vín. Hann spurði mig hvort hann mætti ekki geyma það afsíðis svo að hann gæti haft það í friði. Ég hváði og fór að hlæja en sagði það ekkert mál, en yfirleitt væri það þannig að allir mættu með eitthvað sem væri ætlað fyrir allan hópinn. Það gat Benni greinilega ekki hugsað sér, sagði að þá gætu hinir komið með ódýrt og vont vín en samt drukkið bara dýra vínið hans. „Við höfum nú ekki lent í því enn,“ sagði ég hissa og bætti við að það væri samt bara allt í lagi.

Ég sýndi honum skáp sem hann kom flöskunni sinni fyrir í og þangað fór hann og sótti sér vín í glasið um kvöldið. Ásta kom með vínflösku sem hún setti á borðið hjá hinum flöskunum. Henni var greinilega ekki boðið upp á vín kærastans.

- Auglýsing -

Benni passaði mjög vel upp á sitt. Það var eins og hann óttaðist að einhver hefði gott af honum. Benni hafði víst alist upp við mikið dekur. Hann var langyngstur systkina sinna og það hefur greinilega steingleymst að kenna honum að deila með öðrum þar sem hann átti bara miklu eldri systkini.

Samband Ástu og Benna virtist ganga vel. Þau hittust reglulega og þegar ég spurði hana einn daginn hvort þau ætluðu ekkert að fara að búa saman sagði hún að það lægi ekkert á. Hún væri sátt við þetta fyrirkomulag og hann líka. Að öðru leyti talaði hún ekki mikið um hann og ég spurði ekki.

Uppnám á veitingahúsi

Annað sumarið þeirra stakk Benni upp á því að þau færu saman í sumarfrí til Frakklands í hálfan mánuð. Ásta var alls ekki til í það í fyrstu, enda hafði hún nóg með sig, einstæð móðirin og að auki ekki í vellaunuðu starfi eins og Benni. Hann lagði fast að henni, sagði að þetta yrði svo gaman, þau myndu skipta öllu jafnt og þannig kæmi þetta vel út fyrir þau.

Hann fór til dæmis í gönguferð með hann einn daginn og keypti ís handa honum. Svo rukkaði hann Ástu um ísinn á eftir og hún borgaði þegjandi og hljóðalaust en svolítið hissa.

Ásta á vinkonu í Frakklandi og hafði samband við hana. Vinkonan bauðst til að hýsa þau aðra vikuna sem varð til þess að Ásta samþykkti að fara í ferðina og keypti miðana fyrir sig og son sinn.

Einn fagran júnídag lögðu þau af stað til Frakklands. Allt gekk ljómandi vel, þau skiptu öllu hnífjafnt, nema Ásta borgaði bæði fyrir sig og barnið sem var nú ekki þungt á fóðrum. Það kom auðvitað ekki til mála að Benni borgaði fyrir barn sem hann átti ekkert í. Hann var góður við strákinn en passaði upp á sitt. Hann fór til dæmis í gönguferð með hann einn daginn og keypti ís handa honum. Svo rukkaði hann Ástu um ísinn á eftir og hún borgaði þegjandi og hljóðalaust en svolítið hissa.

Eitt kvöldið bauðst vinkona Ástu til að passa drenginn svo að þau gætu farið ein út að borða á verulega fínan matsölustað. Staðurinn olli engum vonbrigðum, var einstaklega fallegur og rómantískur.

Á veitingastaðnum fékk Benni matseðil með verði á réttunum en ekki Ásta. Greinilega var gert ráð fyrir því að karlinn borgaði.

Þau pöntuðu og nutu þess síðan að tala saman yfir góðum mat og kertaljósum.

Í lok máltíðar bað Benni um reikninginn … sundurliðaðan og skipt í tvennt. Það varð nánast uppnám á veitingastaðnum, það var eins og þjónarnir skildu ekki hvað Benni meinti. Ætlaði maðurinn virkilega að láta þessa fallegu kona borga?

Þarna ofbauð Ástu og sagði Benna að hún tæki ekki þátt í svona bulli. Hann skyldi borga fyrir matinn. Hann gerði það en þessi leiðindauppákoma eyðilagði kvöldið algjörlega fyrir Ástu. Kvöldið eyðilagðist eðlilega hjá Benna þegar hann þurfti að borga fyrir þau bæði. Hann reyndi þó ekki að rukka hana eftir á fyrir þessa máltíð, þá einu sem hann borgaði fyrir hana allan þann tíma sem þau voru saman.

Sundurliðaður reikningur

Ásta er ekki langrækin, þótt henni hefði misboðið framkoma Benna þetta kvöld var allt gleymt daginn eftir. Þau tóku bíl á leigu, sem þau borguðu auðvitað hnífjafnt fyrir, og ferðuðust aðeins um Frakkland seinni vikuna þeirra og gistu á ódýrum gistihúsum. Ferðin var hin ágætasta þrátt fyrir uppákomuna á veitingastaðnum.

Ég hitti Ástu skömmu eftir að hún kom heim og hún var í sjöunda himni eftir ferðina, sólbrún og sæl. Hún sagði mér hlæjandi frá atvikinu á veitingastaðnum og ég gat ekki stillt mig um að segja að mér fyndist Benni ansi hreint nískur. „Já, hann á þetta alveg til,“ samþykkti hún og sýndi mér sundurliðaðan reikning frá honum þar sem fram kom að hún skuldaði honum 20 evrur eftir ferðina. Ástu fannst þetta nokkuð fyndið og var búin að borga honum en þarna virtist hún þó vera farin að átta sig betur á því hversu ótrúlega nískur Benni var. Ég spurði hana hvort ekki hefði verið ráð að senda honum til baka reikning fyrir gistinguna sem hún útvegaði þeim frítt, hvort Benni væri ekki í raun í stórri skuld við hana. Ásta hló bara og sagði að þau  hefðu nú skipst á að kaupa í matinn hjá vinkonu hennar og líklega hefði hann litið á það sem hæfilega borgun fyrir gistinguna.

Örfáum vikum seinna voru þau hætt saman. Ásta sagði mér að níska hans hefði eflaust átt þá í því að gera út af við ástina. Hann væri góður maður á margan hátt en hana langaði ekki að verja ævinni með svona manni. Frekar vildi hún berjast í fátækt með berklaveiku ljóðskáldi sem gæfi af sér, bætti hún við og hló.

Þó fyrr hefði verið, hugsaði ég. Níska er eitthvað það mesta „turn off“ sem ég veit. Mér finnst ekkert sjálfsagt að karlar borgi allt og ég reyndi lengi vel að fá að borga helminginn þegar við Gunni, maðurinn minn, vorum í tilhugalífinu og fórum út að borða. Það kom aldrei til greina af hans hálfu, og svo bara hætti ég að nenna að berjast við hann. Hann var svo miklu efnaðri en ég, einstæð tveggja barna móðirin, og sagði alltaf að það væri hann sem hefði boðið mér út að borða og því hans að borga. Hann er samt engin karlremba, síður en svo og fannst að jafnréttisbaráttan ætti ekki að fara fram þarna, væri ekki nær að laga fyrst launamisrétti kynjanna? Jamm, ekkert skrítið þótt ég elski þennan mann.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -