Sunnudagur 21. júlí, 2024
12.1 C
Reykjavik

Vonda stjúpan – góða stjúpan

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Lífsreynslusaga úr Vikunni

Ófá ævintýri fjalla um vondar stjúpur sem láta einskis ófreistað til að gera stjúpbörnum sínum lífið leitt, jafnvel koma þeim fyrir kattarnef. Hans og Gréta, Mjallhvít og Öskubuska koma strax upp í hugann. Sjálf hef ég upplifað að eiga stjúpu, alls ekki af betri gerðinni, og undanfarin ár hef ég verið stjúpmóðir tveggja drengja.

 

Ég var tveggja ára þegar foreldrar mínir hættu að vera saman og að verða níu ára þegar pabbi fór að vera með Steinunni. Steinunn var bæði vinsæl og vel liðin í bænum okkar. Hún var vel menntuð, í góðu starfi og að auki treyst til að sitja í barnaverndarnefnd á staðnum þar sem hún átti að tryggja velferð barna. Þessi mikla „gæðakona“ hefur alla tíð verið ótrúlega afbrýðisöm út í mig og tilveru mína og stjórnað pabba eins og strengjabrúðu frá því þau kynntust.

Ég hafði verið í ágætu sambandi við pabba og gat hitt hann nánast þegar ég vildi. Ég fór oft til afa og ömmu í föðurætt og gisti ófáar helgar hjá þeim í æsku. Þau hafa alltaf reynst mér afar vel. Þeim fannst ég beitt órétti af Steinunni og pabba og reyndu sitt besta til að bæta fyrir það þótt það væri alls ekki þeirra.

„Næstu árin eignaðist ég þrjú hálfsystkini og eins óvelkomin og ég hafði verið á heimili Steinunnar og pabba fram að því var ég allt í einu orðin nógu góð til að passa börnin.“

Næstu árin eignaðist ég þrjú hálfsystkini og eins óvelkomin og ég hafði verið á heimili Steinunnar og pabba fram að því var ég allt í einu orðin nógu góð til að passa börnin. Ekki kvarta ég yfir því, ég naut þess að fá að vera með þeim.

Mikil mismunun

- Auglýsing -

Mikið hefur verið gert upp á milli okkar systkinanna alla tíð, ekki síst þegar kemur að jóla- og afmælisgjöfum og ég skil hreinlega ekkert í pabba að láta sér það lynda, svo mikill er munurinn. Systkinum mínum hefur verið drekkt í dýrum gjöfum í gegnum tíðina, þau hafa fengið tölvur, iPada, snjallsíma, snjóbrettabúnað, nokkrar utanlandsferðir, rándýr námskeið sem tengjast áhugamálum þeirra, bæði á Íslandi og erlendis, og fleira og fleira. Nóg þótti að gefa mér eitthvað á borð við húfu og vettlinga eða bækur sem ég átti sumar hverjar fyrir því þetta voru aldrei nýútkomnar bækur og annað í þeim dúr. Stundum grét ég yfir þessu en ég lét engan sjá það, mér fannst þetta líka skammarlegt, eins og ég ætti einhverja sök á þessu sjálf.

Afi og amma í föðurætt reyndu bæði leynt og ljóst að bæta mér þetta upp og ég fékk alltaf mjög veglegar gjafir frá þeim. Mun veglegri en yngri systkini mín en ég þurfti alltaf að þegja yfir gjöfunum til að svekkja engan.

Eftir því sem ég varð eldri gat ég farið að hlæja að þessu með sjálfri mér, ekki síst þegar gjafirnar til systkina minna voru sérlega veglegar. Þetta var svo yfirgengilega fáránlegt.

- Auglýsing -

Steinunn virtist sjúklega afbrýðisöm út í fyrra líf pabba og það bitnaði á mér. Hún var ekki þroskaðri en þetta og hefur ekkert breyst.

Um það leyti sem hún og pabbi fóru að vera saman, missti mamma heilsuna, fyrst líkamlega og seinna fór hún að þjást af kvíða og þunglyndi. Hún gerði þó sitt allra besta til að skapa mér gott líf og fannst erfitt að geta ekki veitt mér það sem henni fannst ég eiga skilið en hún gat lítið gert á örorkubótum. Ég var sannarlega ekki ofdekruð og miðað við hvernig systkini mín geta stundum látið er ég fegin því að hafa ekki fengið allt upp í hendurnar.

Foreldrar mömmu bjuggu í Reykjavík og voru í litlu sambandi við okkur svo mamma gat aldrei leitað til þeirra. Þau ferðuðust mikið um heiminn og mér finnst eiginlega óskiljanlegt að þau hafi viljað eignast börn, þau sáu bara hvort annað. Eldri systir mömmu lést í bílslysi áður en ég fæddist og kannski var þetta leið þeirra við að takast á við sorgina, gleyma hinu barninu sínu og hugsa bara um sig sjálf. Þau voru alltaf ósköp góð við mig í þau fáu skipti sem við hittumst en ég náði aldrei að tengjast þeim.

Sjálf stjúpmóðir

Þegar ég kynntist Bjarna var það nánast ást við fyrstu sýn hjá okkur báðum. Hann er sex árum eldri en ég og var fráskilinn, tveggja barna faðir. Hann hafði verið með konunni sinni frá því þau voru sextán ára en ástin minnkaði jafnt og þétt hjá þeim og breyttist að lokum í vináttu.

Vinnu Bjarna vegna gat hann ekki verið með strákana aðra hverja viku, eins og hann, og þau bæði reyndar, vildu en þeir voru samt ansi mikið hjá honum, fyrir utan aðra hverja helgi. Stutt var á milli heimilanna og gott samkomulag á milli. Svo gott að þegar fyrrverandi konan hans var byrjuð að slá sér upp með núverandi manni sínum, fékk hún mikinn stuðning frá Bjarna sem hjálpaði strákunum að sættast við nýja manninn.

Þegar ég kom til sögunnar mætti mér nokkur fjandskapur frá strákunum, aðallega tortryggni, held ég. Þeir voru sannarlega ekki sáttir við nýju konuna hans pabba í upphafi. „Þú ert sko ekki mamma okkar,“ sögðu þeir nokkrum sinnum.

Ég er svo heppin að eiga góða vinkonu sem einnig er stjúpa og hún hafði farið á námskeið í Reykjavík um stjúptengsl. Hún átti í einstaklega góðu sambandi við stjúpdóttur sína, vissi ég, og hringdi í hana eitt kvöldið og leitaði ráða hjá henni.

Frábær ráð

Vinkona mín talaði bæði af eigin reynslu og einnig um það sem hún hafði lært á námskeiðinu. Það var mjög nytsamlegt og gott að geta talað um áhyggjur mínar við hana. Ég varð rólegri og sáttari eftir símtalið og hlakkaði til að nýta mér ráð hennar næst þegar strákarnir kæmu. Ég fann fljótlega mun á andrúmsloftinu á heimilinu og eftir að ég fann réttu leiðina að þeim, þar sem húmor leikur stórt hlutverk, hætti ég að hafa nokkrar áhyggjur af þessu.

Ég hafði verið á nálum í kringum þá og reynt að þóknast þeim á allan hátt. Ég steinhætti því, var bara ég sjálf með kostum mínum og göllum.

„…ég gef þeim afmælis- og jólagjafir frá mér einni en það var eitt af ráðunum frá vinkonu minni.“

Þegar þeir gista hjá okkur eru þeir saman í stóru herbergi. Hjónaherbergið er minna og það finnst mér eðlilegt, við Bjarni sofum þar og búið, en strákarnir leika sér mikið í sínu herbergi yfir daginn. Þeir eiga hvor sína kommóðuna undir dót og fatnað og ganga alltaf að öllu sínu vísu. Ég reyni ekki að vera móðurleg við þá, heldur sagði þeim fljótlega að þeir ættu góða mömmu og ég ætlaði sannarlega ekki að reyna að koma í staðinn fyrir hana. Ég væri frekar eins og frænka eða vinkona.

Svo er eitt sem hefur komið mér ofar á vinsældalistann og ég finn að þeir kunna vel að meta, ég gef þeim afmælis- og jólagjafir frá mér einni en það var eitt af ráðunum frá vinkonu minni. Þeir fá líka sérgjöf frá pabba sínum. Ótrúlegt hvað þetta litla atriði er í raun stórt og skiptir svona miklu máli.

Þegar systir þeirra kom í heiminn fyrir nokkrum árum fann ég bara væntumþykju og hrifningu frá þeim, enga afbrýðisemi. Þeir voru kannski orðnir sjóaðir í að vera stóru bræður því mamma þeirra hafði eignast tvö börn með skömmu millibili.

Við sama heygarðshornið

Blessunin hún stjúpa mín sýnir dóttur minni sama viðmót og hún sýndi mér og stjúpsynir mínir eru ekki einu sinni til í hennar huga. Ég hef haldið nokkur barnaafmæli en Steinunn ekki látið sjá sig. Ástæðuna segir hún vera þá að hún vilji ekki hitta mömmu! Konu sem aldrei hefur gert henni neitt og er sannarlega ekki í nokkurri samkeppni við hana um pabba. En hún er auðvitað hluti af fortíð pabba, eins og ég. Systkini mín mæta þó alltaf og stundum pabbi.

Nú á Steinunn orðið tvö barnabörn sjálf og eys í þau gjöfum. Dóttir mín fær til málamynda eitthvað smávegis frá henni og pabba í jóla- og afmælisgjafir en ég er hætt að spyrja systkini mín hver hafi gefið börnum þeirra þessa flottu hluti sem þau eru kannski að leika sér með eða klæðast. Svarið var alltaf afi og amma þeirra, eða pabbi og stjúpa mín. Ég finn að mér sárnar mun meira fyrir hönd dóttur minnar en fyrir mína hönd.

Mér finnst pabbi ótrúlega huglaus að láta Steinunni stjórna sér svona, ég veit að honum þykir vænt um mig og einnig dóttur mína.

Það var aldrei haft samband við mig ef eitthvað var um að vera hjá þeim, nema auðvitað þegar þau vantaði pössun. Það er þannig enn nema núna er ég í góðu sambandi við systkini mín. Þau eru vissulega fordekruð en að upplagi eru þau góðar manneskjur sem mér þykir einstaklega vænt um.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -