Fimmtudagur 12. desember, 2024
4.8 C
Reykjavik

Dýrindis drottningarterta

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Svampbotnar, rjómi, sulta og jarðarber blanda sem getur ekki klikkað.

Terta þessi er nefnd eftir Viktoríu Bretadrottningu sem var mikið fyrir svampbotnatertur sem hún naut með eftirmiðdagsteinu. Botnarnir eiga rætur sínar að rekja til klassískrar formköku en nýjungin í uppskriftinni var lyftiduft sem fundið var upp í Bretlandi á valdatíma hennar og gerði botnana hærri og loftkenndari. Viktoríutertur eru klassískar í ýmsum boðum hjá Englendingum og því ekki úr vegi að bjóða upp á eina slíka með hækkandi sól.

Terta Viktoríu drottningar
10-12 sneiðar


Hvítsúkkulaðirjómi

  • 80 g hvítt súkkulaði
  • 200 ml rjómi

Saxið súkkulaðið og setjið í meðalstóra skál. Hellið 80 ml af rjómanum í pott og setjið yfir meðalháan hita. Fylgist vel með rjómanum og þegar fyrstu loftbólurnar fara að koma upp er heita rjómanum hellt yfir súkkulaðið. Látið standa í 3 mín. og hrærið allt síðan vel saman til að bræða súkkulaðið. Hyljið og setjið inn í kæli í a.m.k. 1 klst. Þegar botnarnir eru tilbúnir og búnir að kólna, þeytið þá afganginn af rjómanum saman við súkkulaðiblönduna þar til mjúkir toppar myndast (passið vel að ofþeyta ekki rjómann).

Hveitið er sigtað þrisvar sinnum alls í þessari uppskrift, þetta gerir hveitið loftmeira og lyftir botnunum meira.2

Botnar

  • 225 g smjör, mjúkt
  • 225 g sykur
  • 1 tsk. vanilludropar
  • 4 egg
  • 225 g hveiti
  • 3½ tsk. lyftiduft
  • ½ tsk. salt
  • 2 msk. mjólk

Hitið ofn í 170°C. Smyrjið tvö 20 cm hringlaga smelluform og klippið til bökunarpappír til að leggja í botnana. Sigtið hveiti, lyftiduft og salt í skál, sigtið síðan aftur og setjið til hliðar. Þeytið saman smjör og sykur þar til blandan verður ljós og loftkennd.

Þeytið eggin saman við, eitt í einu, og passið að allt blandist vel saman. Þeytið vanilludropana saman við. Sigtið hveitiblönduna ofan í hrærivélarskálina og notið hægustu stillinguna til að blanda öllu rétt svo saman.

Klárið að blanda saman með sleikju og hrærið síðan mjólkina saman við ef deigið er mjög þykkt. Skiptið deiginu á milli formanna og bakið inni í ofni í 20-25 mín. eða þar til kökuprjónn kemur hreinn út þegar honum er stungið í miðju botnanna.

- Auglýsing -

Leyfið botnunum að kólna í 5 mín. á grind áður en formunum er smellt af. Látið kólna alveg áður en kakan er sett saman. Geyma má botnana vandlega innpökkuðum í plastfilmu í kæli í allt að 3 daga.

Jarðarberjasulta

Einnig má nota tilbúna jarðarberjasultu.

  • 200 g jarðarber, söxuð
  • 60 g sykur
  • 1 tsk. sítrónusafi

Setjið allt saman í pott og náið upp suðu, lækkið hitann og eldið í 5 mín. eða þar til sykurinn hefur leyst upp og blandan hefur þykknað. Setjið til hliðar og látið kólna.

- Auglýsing -

Samsetning

  • 100 g jarðarber, sneidd
  • 20 g flórsykur

Leggið annan botninn ofan á kökudisk og smyrjið jarðarberjasultunni yfir botninn. Notið skeið til að dreifa helmingnum af hvítsúkkulaðirjómanum yfir. Raðið sneiddu jarðarberjunum yfir og notið skeið til að dreifa afganginum af rjómanum yfir. Leggið hinn botninn ofan á og sigtið flórsykur yfir kökuna. Berið kökuna fram samdægurs, því nær samsetningu því betra því rjóminn fer að leka þegar kakan er látin standa lengi.

Stílisti / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir
Mynd / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -