Fimmtudagur 5. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Gott mataræði hluti af árangrinum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Mataræði spilar stóran sess í lífi afreksíþróttafólks og í fyrsta tölublaði ársins hafði Gestgjafinn samband við fjóra flotta aðila sem eiga það sameiginlegt að hafa náð langt í heimi íþróttanna en það eru þau Ásdís Hjálmsdóttir Annerud spjótkastari, Sólveig Bergsdóttir fimleikakona, Elín Edda Sigurðardóttir hlaupari og Sigurður Örn Ragnarsson þríþrautarkappi.

 

„Ég tel að mataræðið skipti miklu máli hjá öllum og ekki síst hjá afreksíþróttafólki en fyrir það er sérstaklega mikilvægt að vera með sterkt ónæmiskerfi, jafnvægi í meltingarkerfinu og að fá inn öll snefilefni sem skipta máli við uppbyggingu og endurheimt,“ segir Elín Edda, læknir og þáttastjórnandi Hlaupalíf hlaðvarps, en hún æfir langhlaup hjá Meistaraflokki ÍR og á annan besta tíma í maraþoni kvenna á Íslandi. Hún æfir tíu sinnum í viku. „Ég hef verið að gera hægfara breytingar á mínu mataræði í gegnum árin og myndi segja að ég væri á einhvers konar Miðjarðarhafsjurtaríkismataræði ef ég ætti að skilgreina það.

Elín Edda Sigurðardóttir hlaupari. Mynd/Hákon Davíð Björnsson

„Það er ýmislegt að koma í ljós um þessar mundir sem bendir til að það sé mikilvægt að innbyrða eins fjölbreytt úrval úr jurtaríkinu og maður hefur kost á.“

Nýlega hætti ég alveg að borða kjöt, en ég var farin að borða svo lítið af því að það breytti nánast engu fyrir mig að taka það alveg út. Ég leyfi mér fisk en hef verið mikið að minnka aðrar dýraafurðir svo sem egg og mjólkurafurðir síðastliðna mánuði og er farin að prófa mig áfram með vegan nokkra daga í viku. Það hvetur mig líka til að prófa nýjar uppskriftir. Áður fyrr borðaði ég mjólkurafurðir í nánast í hvert mál og mér þykir það ekki fara sérlega vel í maga í tengslum við álagsæfingar. Það er ýmislegt að koma í ljós um þessar mundir sem bendir til að það sé mikilvægt að innbyrða eins fjölbreytt úrval úr jurtaríkinu og maður hefur kost á og ég legg því einnig mikið upp úr fjölbreytni. Varðandi bætiefni þá getur verið að maður þurfi að huga að þeim ef maður er á sérfæði og ég tek til dæmis járn og B12 í litlum skömmtum til viðbótar við D-vítamínið sem allir Íslendingar ættu að taka inn.“

Ásdís Hjálmsdóttir Annerud spjótkastari. Mynd/John Annerud

Áhersla á heilan, óunnin mat

Ásdís, lyfjafræðingur og fyrirlesari, hefur æft spjótkast í rúmlega 18 ár og komist í útslit á Evrópumeistaramótum, Heimsmeistaramótum og Ólympíuleikum. Hún segir að mataræðið skipti gríðarlega miklu máli þegar kemur að endurheimt og að hafa næga orku til að æfa.

„Ég er að vinna með næringarfræðingi sem segir mér hversu mikið ég þarf að borða af kolvetnum, fitu og próteini. Ég fæ ekki nákvæmt matarplan frá henni þar sem þetta á ekki að vera heftandi. Hins vegar hef ég það sem reglu að borða eins hreinan mat og ég get. Þá meina ég að búa hann sem mest til sjálf eða hafa hann eins lítið unninn og hægt er,“ segir Ásdís og Sigurður Örn tekur í sama streng og segir mataræðið algeran grunnþátt í því að geta æft og keppt af þeirri ákefð sem hann geri.

- Auglýsing -

„Það er engin ein ákveðin regla hvað ég borða og hvað ekki, fyrir utan að ég reyni að borða bara mat sem ég veit nákvæmlega hvað inniheldur. Þannig tek ég til að mynda engin duftfæðubótarefni eða annað slíkt heldur legg áherslu á heilan, óunnin mat.“ Sigurður Örn er vélaverkfræðingur hjá Matís ohf., þjálfari hjá Þríþrautadeild Breiðabliks og einkaþjálfari. Hann hefur stundað þríþraut fá árinu 2015 og faganði stórum sigrum á liðnu ári. „Í grunninn er ég á nokkurs konar lágkolvetna mataræði sem byggist að miklu leyti á feitum fiski, grænmeti, eggjum, hnetum, ávöxtum og að einhverju leyti á kjöti en ég eyk þá hlutfall kolvetna í samsvari við ákefð æfinga.“

Sigurður Örn Ragnarsson þríþrautarkappi. Mynd/Hallur Karlsson

„Það er engin ein ákveðin regla hvað ég borða og hvað ekki, fyrir utan að ég reyni að borða bara mat sem ég veit nákvæmlega hvað inniheldur.“

Aðlagaði matmálstíma og mataræðið að æfingatímum

Sólveig Bergsdóttir flugfreyja hjá Icelandair hefur æft fimleika frá tveggja ára aldri og hefur á undanförnum árum unnið til fjölmargra verðlauna á alþjóðlegum vettvangi í hópfimleikum. Hún segir að mataræði skipti miklu máli til að hámarka árangur.

- Auglýsing -
Sólveig Bergsdóttir fimleikakona. Mynd/Hallur Karlsson

„Ég var lengi að finna hvað hentaði mér best í sambandi við mat og æfingar. Þegar ég var barn borðaði ég auðvitað bara það sem var í matinn heima. Foreldrar mínir eru flinkir í eldhúsinu og það var alltaf hollur matur í boði, fiskur og kjöt var í miklu uppáhaldi. Þegar ég varð eldri og æfingaálagið jókst færðist ábyrgðin svo smám saman yfir á mig sjálfa og þá fór ég að taka eftir ýmsu. Til að mynda borða ég ekki stóra máltíð stuttu fyrir æfingar, ég finn of mikla orku fara í meltinguna þegar ég vil vera að nota hana í annað. Það tók tíma að finna taktinn í þessu en ég finn mikinn mun á mér eftir að ég lærði betur inn á líkamann minn. Banani, epli eða skyr eru mínir go to-hlutir í æfingatöskunni til að borða annað hvort rétt fyrir eða rétt eftir æfingar,“ segir Sólveig.

Í fyrsta tölublaði Gestgjafans 2020 er að finna ítarlegri viðtöl við Elínu Eddu, Ásdísi, Sigurð Örn og Sólveigu auk þess sem þau deila hollum og góðum uppskriftum með lesendum.

Tryggðu þér áskrift að Gestgjafanum í vefverslun

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -