Laugardagur 27. apríl, 2024
4.1 C
Reykjavik

Tónlistin fann Aldísi Fjólu aftur og aftur: „Rosalegt að koma tilfinningum út á þennan hátt“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Tónlistarkonan Aldís Fjóla heldur útgáfutónleika í Iðnó á morgun, laugardaginn 23. apríl. Það óvenjulega við þessa útgáfutónleika, eins og gildir um marga viðburði um þessar mundir, er að fyrsta plata Aldísar, sem tónleikarnir hverfast um, er tveggja ára gömul.

„Ég er í rauninni bara búin að halda á plötunni minni síðan hún kom út 2020 og bíða eftir að fá að halda tónleika í Reykjavík til að fagna henni með öllum sem vilja,“ segir Aldís Fjóla um tímasetningu tónleikanna. Það hefur enda verið flókið fyrir tónlistarfólk að gefa út nýjar plötur síðustu tvö ár í heimsfaraldri, þegar tónleikahald hefur lítið sem ekkert verið í boði.

Aldís Fjóla á myndinni framan á plötunni hennar, Shadows. Mynd: aðsend.

Aldís Fjóla kemur frá Borgarfirði eystra og vissi snemma að hún vildi standa uppi á sviði. „Öll hádegi voru danshádegi í stofunni heima, þar sem ég var bara ein að dansa við Ruth Reginalds, Stjórnina og Mini Pops. Ég og frænka mín tókum síðan upp endalaus myndbönd af okkur að mæma lög af gríðarlegri tilfinningu. Ellefu ára samdi ég fyrsta lagið mitt um köttinn minn sem dó. Það var rosalegt að koma tilfinningum út á þennan hátt.“ Aldís var þó lengi að láta drauminn sinn um að syngja rætast. Með aldrinum kom óöryggið og efinn. „Þegar ég sá og heyrði að umhverfið og samfélagið í kringum mig sagði mér stanslaust að ég gæti ekki unnið eða lifað á því sem ég brenn fyrir, þá tók rökhugsunin yfir og ég fór einhvern veginn í allar áttir til að reyna að finna eitthvað annað. Það er ekki svo auðvelt þegar tónlistin lætur þig varla í friði. Árið 2006 fór ég fyrir algjöra heppni í Complete Vocal Institute í Kaupmannahöfn og þar fann ég mína rödd, fékk þau hrós og hvatningu sem ég þurfti og samdi og kláraði mitt annað lag. Þarna kviknaði eitthvað sem ég var búin að bæla niður svo lengi,“ segir Aldís.

Aldís Fjóla opnaði aftur á tónlist tveimur árum eftir andlát móður sinnar, sem lést eftir erfiða baráttu við krabbamein, með því að stofna hljómsveitina Borgfjörð með nokkrum vinum sínum. Sú hljómsveit gaf út tvö lög og Aldís fann neistann á ný. Skömmu síðar flutti hún aftur suður til Reykjavíkur til að vera nær hljómsveitinni – en ekkert gerðist. „Ég var einhvern veginn alltaf að bíða eftir því að það myndi eitthvað gerast. Að strákarnir í bandinu hefðu tíma, að einhver myndi „finna“ okkur eða við myndum henda í meiri tónlist. Eftir mikla sjálfsvinnu og pælingar lærði ég að það gerir enginn þetta fyrir þig. Það hefur enginn jafnmikinn metnað og þú fyrir þinni tónlist og ég þurfti að gera þetta sjálf til að það myndi eitthvað gerast hjá mér.“

Frá tónleikum hljómsveitarinnar. Mynd: aðsend.

Plötuna, sem nefnist Shadows, gerði Aldís í samvinnu við Stefán Örn Gunnlaugsson, upptökustjóra. „Árið 2018 þorði ég að senda honum skilaboð með tveimur demóum frá mér og spurði hvort hann vildi hjálpa mér. Tíu mínútum seinna sagði hann já og hann hefur ekki losnað við mig síðan.“ Aldís og Stefán Örn semja lögin saman en Aldís Fjóla semur textana. „Ég hef alltaf hlustað rosalega mikið á texta og túlkað þá í gegnum mig og mína líðan hverju sinni. Mínir textar eru innblásnir af minni reynslu, umhverfinu og vinum, ásamt því að ég gríp oft línur úr kvikmyndum og þáttum sem stingast inn í mig þegar ég horfi.“

Útgáfutónleikar Aldísar Fjólu fara fram í Iðnó á morgun, laugardaginn 23. apríl klukkan 20:00. Um upphitun sér tónlistarkonan Zöé. Aldís biður tónleikagesti um að koma með dansskóna með sér. „Það verður farið alla leið og skálað og dansað eftir tónleika, þar sem ég verð nýorðin fertug þarna,“ segir hún, afar spennt fyrir laugardeginum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -