2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Klappað og púað

Þorleifur Örn Arnarsson leikstjóri hefur getið sér gott orð úti í heimi og var valinn í fyrra leikstjóri ársins í Þýskalandi þar sem hann var búsettur með hléum í rúman áratug. Hann er nú genginn til liðs við Þjóðleikhúsið og mun í vetur setja upp Rómeó og Júlíu.

Hann situr á kaffihúsi með kaffibolla fyrir framan sig. Doðrantur fyrir framan hann sem hann kom með. Capital and Ideology. „Ég les gjarnan um tengsl hugmynda og hagfræði, enda alæta á samfélagslega skoðun,“ segir leikstjórinn.

Lagið „Unforgettable“ hljómar í hátalarakerfinu.

Unforgettable
That’s what you are

AUGLÝSING


Þorleifur Örn Arnarsson leikstjóri flutti frá Þýskalandi til Íslands í mars ásamt fjölskyldu sinni, eiginkonunni Önnu Rún Tryggvadóttur myndlistarmanni og sonum.
Hann starfar enn sem listrænn stjórnandi Volksbühne-leikhússins í Berlín sem er eitt virtasta leikhús Þýskalands en í framtíðinni segist leikstjórinn ætla að vinna jöfnum höndum hér heima og erlendis.

Þorleifur Örn segir að ástæða þess að fjölskyldan flutti til Íslands tengist ýmsum þáttum og nefnir þýskt skólakerfi. „Strákunum okkar leið ekki vel úti enda er stífleiki í þýska skólakerfinu erfiður fyrir íslensk börn – og foreldra þeirra.“

Við komuna til Íslands fór fjölskyldan í sóttkví og dvaldi í sumarbústað á Suðurlandi. „Ég var staddur á hóteli í Ölpunum þegar ég las um það að íslenski sóttvarnalæknirinn væri búinn að skilgreina Alpana, sérstaklega skíðasvæðin, sem áhættusvæði vegna COVID-19. Þar sem ég las þetta horfði ég út um gluggann á þúsundir manna skíða í sól og gleði í skíðabrekkunni hinum megin í dalnum. Þaðan fór ég til Vínarborgar þar sem ég var hálfnaður að sviðsetja Pétur Gaut og þar var sama sagan, allir mættir á æfingar og lífið átti að halda áfram eins og ekkert hefði ískorist. Þetta var eins og að vera staddur í skringilegum hliðarveruleika. Þetta var líka óþægilegt, ég var ábyrgur fyrir að um 70 manns kæmu saman á hverjum degi á æfingasvæðinu á sama tíma og á Íslandi var verið að setja á samgöngubann. Ég tók að lokum af skarið og stöðvaði æfingar. Seinna sama dag hélt austurríska ríkisstjórnin blaðamannafund og lokaði í raun landinu. Ég náði síðustu flugvél heim til Berlínar áður en landamærum Austurríkis og Þýskalands var lokað. Þegar ég kom til Berlínar var sama afneitunin í gangi. Mér leið eins og stráknum í sögunni Úlfur úlfur, nema úlfurinn var raunverulegur.“

Á meðan á viðtalinu stendur fær Þorleifur Örn tölvupóst frá leikhússtjóra Burg-leikhússins þar sem endanlega er staðfest að ekki verður hægt að sviðsetja Pétur Gaut vegna COVID-19.

Byrjaði ungur að leika

Lagið „Moon River“ hljómar á kaffihúsinu.

Two drifters, off to see the world

Þorleifur Örn er sonur hjónanna Þórhildar Þorleifsdóttur, leikstjóra og fyrrverandi alþingismanns Kvennalistans, og Arnars Jónssonar leikara. Þorleifur Örn er miðjubarnið í fimm systkina hópi.

Þorleifur Örn segir það ekki alltaf hafa verið auðvelt að alast upp sem barn þekktra foreldra, hvað þá þegar foreldrarnir voru umdeildir. „Ég held að hugmyndir fólks um foreldra mína hafi oft smitast yfir á skoðanir fólks á mér. Ímynd mömmu og pabba varð skugginn minn. Enda bæði baráttufólk innan leikhússins sem utan. Mamma er harður femínisti sem hefur alltaf þurft að berjast fyrir öllu sem hún fékk og litaði það oftar en ekki skoðanir fólks á henni. Pabbi var mjög pólitískur í listinni sem og í lífinu. Þetta getur oft verið erfið blanda í ekki stærra samfélagi en Ísland er. Og svo er hitt að þegar maður elst upp við blöndu sterkrar listar og pólitíkur þá er oft erfitt að móta sér sína eigin listrænu og hugmyndafræðilegu afstöðu – sem er kannski grundvallarástæða þess að ég ákvað síðar að hefja feril minn erlendis; sér í lagi þar sem ég hafði ekki ímyndunarafl til þess að velja mér annan starfsvettvang,“ segir Þorleifur og glottir.

Þorleifur Örn segir að Þjóðleikhúsið, þar sem foreldrar hans störfuðu, hafi verið sitt annað heimili. Minningarnar úr leikhúsinu eru margar.
„Ég var sex ára þegar pabbi lék Platonov sem verður að lokum fyrir lest og deyr. Það þurfti að fara með mig hágrátandi út úr salnum því að pabbi minn var að deyja en ég vissi samtímis að ég væri að fara að hitta hann baksviðs eftir sýningu. Ég trúði sársaukanum og dramanu í mómentinu algerlega en vissi samt að um leið og ljósin kviknuðu að þetta væri ekki raunverulegt. Ég hef oft hugsað hvort þetta sé andartakið þar sem nálgun mín á leikhúsinu byrjaði að mótast. Uppspuni sem raunveruleiki og svo er kannski raunveruleikinn hinn sanni uppspuni.“

Þorleifur Örn Arnarsson
Mynd /Hákon Davíð Björnsson

Þorleifur Örn stóð sem barn einnig oft á sviði, meðal annars í uppsetningu Þórhildur á Pétri Gaut þar sem Arnar lék aðalhlutverk. Hann lék einnig í kvikmyndinni Stella í Orlofi sem móðir hans leikstýrði. Hann var þá níu ára. „Þar segi ég hina epísku setningu: „Þú kveiktir í typpinu á honum.“ Ekki hefði mig grunað að öllum þessum árum seinna kynni enn þá önnur hver manneskja á landinu setninguna sem bætir svo sem upp fyrir það að í mörg ár var mér strítt mikið út af þessu – enda ekki margir 10 ára strákar sem tala opinberlega um typpin á pöbbum sínum.“ Þorleifur hlær. „Núna er bara magnað að eiga þennan litla en örugga sess í kvikmyndasögunni.“

„Vinnuaðferðir mínar í leikhúsinu markerast og byggja algjörlega á því að hafa hætt að drekka, að takast á við sársauka og horfast í augu við óttann og lífið.“

Sólveig, systir Þorleifs Arnars, lék einnig í kvikmyndinni og hafa systkinin unnið mikið saman. „Við eigum ríkt systkinasamband öll systkinin og systursonur minn en við Sólveig eigum að auki gefandi listrænt samstarf sem spannar margar sýningar í mörgum löndum.“

Erfið ár

Þorleifur Örn var mikill vandræðaunglingur. „Ég hraktist til og frá í kerfinu og kom mér og öðrum í töluvert mikinn vanda. Ég skipti ört um skóla og það voru alltaf einhver slagsmál og vesen á mér. Núna þegar ég á sjálfur börn þá hugsa ég með hryllingi til þess hve erfitt það hefur verið fyrir foreldra mína og allar áhyggjurnar sem þau hljóta að hafa haft. Auðvitað bitnaði vandi minn líka oft á litlu systkinum mínum.

Þegar ég var yngri leið mér alltaf eins og ég passaði hvergi inn og ég lét heiminn finna fyrir því. Hins vegar átti ég alltaf skjól í foreldrum mínum. Það er auðveldara að mæta skólastjóranum þegar Þórhildur Þorleifsdóttir er mætt til þess að taka slaginn með þér. Hún var eins og skriðdreki.“

Þorleifur Örn byrjaði að drekka á unglingsaldri. Hann man eftir fyrsta skiptinu sem hann smakkaði áfengi. „Ég fór heim til félaga míns sem bjó í Arnarnesinu. Foreldrar hans höfðu verið með partí kvöldið áður og við fundum rommflösku með 80% vínanda sem við drukkum og svo sofnuðum við undir brúnni við Reykjanesbrautina. Þetta var ekki mjög gloríus. Það er frekar sorglegt að hugsa til þess.“

Hann byrjaði líka að reykja þegar hann var 13 ára. „Töffararnir reyktu og ég fylgdist með þeim, tók ákvörðun og keypti mér pakka. Ég reykti hann allan, hóstandi og spúandi, og reykti svo pakka á dag samfleytt í 17 ár. Ég var svona „allt eða ekkert maður“. Að sumu leyti er ég enn þá þannig í dag; vonandi þó eitthvað mildari.“

Fjölskylda Þorleifs flutti til Spánar þegar hann var 15 ára og árið eftir til Þýskalands „Ég komst í félagsskap sem hafði aðgang að sterkari efnum og brátt fór sambland þeirra og áfengis út í algert stjórnleysi.“

Fjölskyldan flutti svo aftur heim og Þorleifur Örn fór í MH þar sem skólagangan gekk brösuglega og að lokum hætti hann og fór að vinna á börum. „Ég held það hafi ekki liðið einn dagur frá því ég var um 17 ára til tvítugs sem ég var ekki að drekka eða nota eitthvað. Mamma sendi mig til Danmerkur í lýðháskóla því þar mátti ekki drekka. Ég reyndi að standa þar fyrir hallarbyltingu, sem mistókst náttúrlega, en ég gat þá farið í fússi rakleiðis niður á Nýhöfn til þess að drekka Tuborg með félögum mínum.

„Ég vil vinna með stórar hugmyndir. Kjarninn í leikhúsi mínu er frelsi leikarans í mómentinu í bland við opinn og margræðan sögustrúktúr.“

Þetta tímabil einkennist af sársauka og þoku og neyslan sem ég fór í var auðvitað hrein endurspeglun á þeim sársauka. Ég leyfi mér að halda að í skólakerfinu eins og það er í dag fái krakkar meiri og víðtækari hjálp. Neysla á unglingsaldri er ekki „normalíseruð“ í dag eins og hún var þegar ég var unglingur. Ef ekki hefði verið fyrir magnaða kennara sem tóku mig upp á arma sína þá hefði ég líklega ekki átt mér viðreisnar von.“

Þorleifur Örn hætti tvítugur allri neyslu og hefur verið edrú síðan – í tæp 22 ár. „Það að verða edrú bjargaði lífi mínu. Það gaf mér tækin og tólin til þess staldra við og taka stöðuna og takast í kjölfarið á við sjálfan mig og lífið – frekar en að hlaupast undan og flýja.
Vinnuaðferðir mínar í leikhúsinu markerast og byggja algjörlega á því að hafa hætt að drekka, að takast á við sársauka og horfast í augu við óttann og lífið.“

Systurmissir

Þorleifur er fæddur sama mánaðardag og elsta systir hans, Guðrún Helga. Þau voru náin þó svo það væru 15 ár á milli þeirra. Guðrún Helga greindist með krabbamein árið 1993.
„Hún virtist hafa jafnað sig þar til fimm árum seinna þegar meinvörp fundust í lifrinni. Hún tókst á við veikindin af svo ótrúlegum krafti og æðruleysi. Bæði breytti hún lífi sínu gagngert og fór strax að hjálpa öðrum. Hún var einn af stofnendum Krafts, stuðningsfélags ungs fólks með krabbamein. Þetta var á sama tíma og ég var að byrja á gagngerri endurskoðun á eigin lífi og það að fylgjast með henni takast á við veikindi sín hjálpaði mér að skilja samhengi þess að takast á við eigin erfiðleika með því að starfa fyrir aðra og með öðrum. Hugrekki hennar og trú var mér og öðrum innblástur þó svo að krabbameinið hafi náð yfirhöndinni að lokum. Hún dó kvöldið sem ég frumsýndi síðasta verkið mitt í nemendaleikhúsi LHÍ. Ég gisti uppi á spítala nóttina áður en hún dó, svo frumsýndum við og í stað þess að fagna því með samnemendum mínum fór ég upp á spítala til þess að kveðja hana.“

Lagið „Smile“ er spilað á kaffihúsinu.

Smile tho’ your heart is aching
Smile even tho’ it’s breaking

Þorleifur Örn horfir upp í loftið. Það er augljóst að það reynir á að tala um systurmissinn.
„Þetta var erfiður tími en líka lærdómsríkur. Þetta var svo stór lexía. Guðrún Helga var mjög ung kona í blóma lífsins og þau hjónin áttu son og voru nýbúin að ættleiða litla stelpu. En hvernig hún hafði tekist á við sjúkdóminn og hversu stórt skarð hún skyldi eftir sig sýndi mér svo skýrt að við verðum að fara vel með þann tíma sem okkur er gefinn.“

Fljótlega eftir jarðarförina fór Þorleifur Örn til Los Angeles þar sem hann dvaldi hjá vini sínum, Þorvaldi heitnum Þorsteinssyni leikskáldi. „Þar brotnaði ég alveg saman. Líklegast hefði ég ekki getað valið fallegri manneskju en Þorvald til að fara í gegnum þetta ferli með. Þorvaldur var svo ótrúlega djúpvitur maður og hann hjálpaði mér að vinna úr þessu áfalli og að setja það í samhengi við mitt eigið ferðalag, bæði sem manneskju en ekki síður sem listamann. Við Þorvaldur töluðum saman og grétum og hlógum til skiptis. Ég var hjá honum í tvær vikur og fékk á þeim tíma möguleika á því að byrja raunverulegt sorgarferli.“

If you smile
Thro’ your fear and sorrow
Smile and maybe tomorrow
You’ll see the sun come shin-ing thro’ for you

„Ég sest reglulega niður og tala við Guðrúnu Helgu, systur mína. Ég aðhyllist ekki trúarbrögð sem slík en ég hef djúpa trú á tilgang lífsins og krafti andans.“

Ástin
Þorleifur Örn stundaði nám við hinn virta leikhússkóla Ernst Busch í Berlín og útskrifaðist um þrítugt.
„Ég vissi í Leiklistarskólanum að ég ætlaði ekki að verða leikari en kláraði skólann ekki síst til þess að sanna fyrir sjálfum mér að ég gæti klárað eitthvað. Í kjölfarið tók ég ákvörðun um að fara úr landi og leita gæfunnar í Þýskalandi. Að hluta til kannski til þess að losna undan byrðum hér heima, ímynduðum og raunverulegum. Innsæið sagði mér að til þess að finna eigin listrænan farveg og verða sjálfstæður þá þyrfti ég fyrst að komast í aðstæður þar sem ég ætti ekki fortíð og þar sem ég gæti lært að vinna og hugsa í allt öðru samhengi en ég hafði alist upp við. Á Íslandi eru tvö stór leikhús og því möguleikarnir takmarkaðir. Ég hafði alltaf heillast af þýska leikhúsheiminum og frelsinu og áræðninni þar. Þess vegna sóttist ég eftir að komast í nám í Berlín.“

Það var í Berlín sem Þorleifur Örn kynntist ástinni í lífi sínu, Önnu Rún Tryggvadóttur myndlistarmanni. Hann kom auga á hana fyrir utan veitingahús eitt fallegt sumarkvöld árið 2008. „Anna Rún var í heimsókn hjá vinkonu sinni. Ég þekki hana þannig að þegar við Oddný, yngri systir mín, gengum fram hjá þeim hafði ég fullgilda ástæðu til þess að stoppa og setjast hjá þeim. Ég held samt að ljóst hafi verið hvar áhugi minn lá.“ Þau urðu fljótt par. Þorleifur Örn var svo næstu misserin á flakki á milli Þýskalands og Íslands og svo fluttu þau ásamt Rúnari, syni Önnu, til Montreal í Kanada þar sem hún fór í meistaranám við Concordia-háskóla og bjuggu þau þar í tvö ár.

Þorleifur Örn og Anna giftu sig í Þórsmörk; úti í guðsgrænni náttúrunni fallegan sumardag árið 2013. Þá höfðu þau gengið Laugaveginn ásamt stórum hópi vina og fjölskyldu dagana fyrir athöfnina sjálfa. Hann var í kjölfötum. Hún í gulllitum kjól. Brúðarvöndurinn var samsettur úr villiblómum úr Þórsmörk. „Þetta var dásamlegt ævintýri. Það verður til svo falleg stemning í göngum á fjöllum, nánd og heiðríkja í huganum.“

Some day, when I’m awfully low
When the world is cold
I will feel a glow just thinking of you
And the way you look tonight

Afgreiðslukonan á kaffihúsinu gengur að borðinu. Tilkynnir að það sé verið að loka. Viðtalið er ekki búið. Sest er inn á asískan matsölustað í sömu byggingu til að halda áfram en þá þarf Þorleifur skyndilega að fara vestur í bæ í verslun fyrir lokun. Ákveðið er að hittast á veitingastað úti á Granda. Þegar þangað er komið kemur í ljós að staðurinn er lokaður á mánudögum.

Þorleifur Örn Arnarsson
Mynd /Hákon Davíð Björnsson

Leikstjórinn leysir málið. Hann býður upp á að klára viðtalið í bílnum sínum og næsta klukkutímann ekur hann hring eftir hring eftir hring eftir hring á Grandanum. Stórir olíutankarnir eru eins og stór eyru. Esjan, Akrafjall og Skarðsheiði blasa við í öllu sínu veldi. Hafið bláa hafið eins og leiksvið.

Leikstjóri ársins

Þegar Þorleifur Örn hóf feril sinn eftir útskrift í Þýskalandi byrjaði hann sennilega á toppnum hvað varðar verkefni með Rómeó og Júlíu. Síðan þá hefur Þorleifur Örn sett upp á milli 50 og 60 sýningar víða um heim. Hann virðist hafa eitthvað í sér sem séní hafa.
Sigrarnir eru margir og líka ósigrarnir en viðbrögð áhorfenda og gagnrýnenda hafa verið misjöfn. „Þegar frá líður þá eru sýningarnar sem umdeildastar voru þær sýningar sem fyrir mig voru listrænt mikilvægastar. Stundum geri ég sýningar þar sem ég er í rauninni að ýta út í öllum mörkum til að endurnýja sjálfan mig í listinni.“

Þorleifur Örn segir að það sé einhver grunnorka í uppsetningunum sínum. „Ég vil vinna með stórar hugmyndir. Kjarninn í leikhúsi mínu er frelsi leikarans í mómentinu í bland við opinn og margræðan sögustrúktúr. Performance í myndum. Orka í þögninni. Ekki endilega fylgispekt við fyrir fram gefna túlkun heldur opna fyrir nýja og marglaga túlkun. Heimurinn býr ekki lengur við miðlægan söguþráð. Þetta verðum við að endurspegla í leikhúsinu. Leikarinn fær mikið frelsi í ferlinu til þess að leita og breikka túlkun sína; þannig nást fleiri sjónarhólar. Það er ekki einn maður sem stýrir öllu heldur er ferlið opið, fleiri koma að og úr verður kraftur sem einkennir sýningarnar. Ég er líka mjög glúrinn að velja frábært samstarfsfólk.“

Álagið er oft mikið. Bæði er mikið um ferðalög og oft mörg verkefni í vinnslu samtímis. „Ég hitti lækni þegar ég var við það að gefast upp sem sagði að ég þyrfti að sofa samfleytt í tvær vikur til að ná því sem eðlilegt myndi teljast vera lágmarkssvefn. Stundum hleyp ég hraðar en líkaminn, eða andinn, ræður við.“

„Þessi verðlaun hafa margir af mögnuðustu listamönnum þýskrar leikhússögu unnið, fólk sem ég lít á sem fyrirmyndir mínar. Það er skrýtið að vera allt í einu kominn í þeirra hóp.“

Þorleifur Örn hlaut í fyrra verðlaun sem „leikstjóri ársins“ í Þýskalandi. „Ég held ég sé sá yngsti sem hefur hlotið þessi verðlaun en það er skrýtið að vera kominn með verðlaunagrip uppi í hillu. Þessi verðlaun hafa margir af mögnuðustu listamönnum þýskrar leikhússögu unnið, fólk sem ég lít á sem fyrirmyndir mínar. Það er skrýtið að vera allt í einu kominn í þeirra hóp. Mér líður alltaf eins og ég sé ungi uppreisnarseggurinn en þegar svona hlutur er kominn í hillu og ég orðinn yfirmaður í einu stærsta leikhúsi í Evrópu þá getur maður ekki annað sagt en að maður sé orðinn „establishment“ að einhverju leyti, jafnvel miðaldra.“
Hér heima hefur Þorleifur Örn meðal annars sett upp Engla alheimsins, Njálu og Guð blessi Ísland.

Þorleifur segir að lífsreynslan, sérstaklega sú erfiða, komi sér vel í starfi sínu sem leikstjóri.„Hún gerir mér kleift að setja mig í spor annarra; ég veit hvernig fólki getur liðið í erfiðum aðstæðum. Þegar ég lít á feril minn þá endurspeglast oft í sýningum hvar ég er staddur í persónulegu ferðalagi mínu. Ég reyni að miðla upplifun minni inn í listaverkin og skapa grundvöll fyrir þá listamenn sem eru að vinna með mér til að gera slíkt hið sama. Ég væri ekki listamaðurinn sem ég er í dag og gerði ekki það leikhús sem ég geri ef ég hefði ekki farið í gegnum þá reynslu sem ég hef gengið í gegnum.“

Það hefur mikið verið klappað á sýningum sem Þorleifur Örn hefur sett upp. Það hefur líka verið púað og fólk hneykslast. Sérstaklega í óperunni. „Ópera er miklu íhaldssamari en leikhúsið – en það þýðir einungis að það er fleira til þess að pota í; útrunnir túlkunarlegir sáttmálar sem þarf að endurskoða. Ég verð bara að vera sannur í því sem ég sé í verkum og ekki hafa áhyggjur af niðurstöðunni.“

Þjóðleikhúsið

Leikstjórinn víðförli hefur nú gert samkomulag við Þjóðleihúsið sem felur í sér að hann setur þar upp eina sýningu á hverju leikári næstu árin. Þá mun hann vinna með leikhúsinu að því að efla alþjóðlegt starf þess og veita því listræna ráðgjöf.

Þorleifur Örn kom heim í miðjum COVID-19 faraldri og leikhúsið harðlokað. „Það að þögn ríkti í leikhúsinu fannst mér skýrasta birtingarmyndin á því hversu mikilvægt samfélagsleg samvera er. Leikhúsið er ekki til þegar áhorfendur eru ekki viðstaddir. Aðeins þegar við komum saman eignast það sem leikið er merkingu. Merkingin verður til þegar manneskjur koma saman. Það er það sem mannlegt samfélag snýst um. Og nú þegar leikhúsið vaknar upp af þessum Þyrnirósarsvefni verðum við að spyrja okkur hverju við sækjumst eftir þegar við komum saman. Hvað viljum við læra af þessu stóra inngripi í líf okkar og venjur? Þetta er tími til að fara djúpt í tilgang og tilurð leikhússins en ekki síður tími til þess að spyrja grundvallarspurninga um heiminn sem við búum í, hvernig hagkerfið okkar virkar, framkomu okkar við náttúruna og hvert við annað. Þar getur listin og leikhúsið spilað stóra rullu. Það verður spennandi að finna þeim hugmyndum farveg í Þjóðleikhúsinu á næstu árum.“

Hann segir að íslensk stjórnvöld ættu að búa listamönnum öruggara umhverfi. „Það á að skilgreina listirnar sem þjóðhagslega mikilvægar enda eru listirnar, ásamt náttúru Íslands, það sem ber hróður þessa smáa en magnaða lands hæst af öllu.“

Þorleifur Örn Arnarsson
Mynd /Hákon Davíð Björnsson

Þorleifur Örn hóf feril sinn erlendis með Rómeó og Júlíu og má segja að hann loki nú hringnum þegar hann snýr aftur í Þjóðleikhúsið. „Það magnaða við Shakespeare er að hann býður upp á stóran heim sem þolir margvíslegar frásagnir. Þessi saga er nauðsynlegri nú en nokkru sinni fyrr, saga um frelsi og bardaga kynslóðanna. En ekki síst sagan af sjálfstæðisbaráttu ungrar konu í heimi þar sem fortíðin er við völd. Þar er því margt sem minnir á heiminn í dag.“

Sárum trega sveipuð lifir þó, sagan af Júlíu og Rómeó.

Tjaldið fellur.

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is