Fimmtudagur 12. september, 2024
7.8 C
Reykjavik

Aldís ein skærasta leikkona Íslands: „Alls konar hæðir og lægðir við að vinna í sjálfri mér“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Að vinna í sjálfri mér andlega og líkamlega hefur haft í för með sér alls konar hæðir og lægðir. Ég get ekki undirstrikað það nóg oft hversu heppin ég er að hafa traust stuðningsnet í kringum mig af fólki sem lyftir mér alltaf upp þegar ég ligg með andlitið í drullunni. Mín helsta áskorun þessa dagana er eflaust að halda áfram að vinna í sjálfri mér svo þau þurfa ekki að bera mig reglulega uppi! Þetta er allt á réttri leið.“

Helstu áskoranir Aldísar hefur verið sjálfsvinnan, sérstaklega andlega og líkamlega en sú vinna hefur haft í för með sér alls konar hæðir og lægðir.

Aldís Amah Hamilton er ein skærasta leikkona á Íslandi í dag. Hún er dýravelferðarsinni og aktivisti í hjáverkum. Leikkonan góðkunna kom í stutt en bráðskemmtilegt spjall um það sem hún hefur verið að fást við síðustu misseri.

Lífstíll sem byggir á samkennd og virðingu
„90% af tímanum mínum utan vinnu fer í að sitja í sófanum að spila tölvuleiki eða hanga á Instagram, en hin 10% fara í að berjast fyrir velferð þeirra sem minna mega sín og hvetja fólk til lífsstíls sem byggist á samkennd og virðingu fyrir öllum lífverum.

Persónan Ryn úr tölvuleik Myrkur Games

Ég flyt til Íslands þriggja ára gömul, í gamla Vesturbæinn þar sem ég hef búið meira og minna síðan. Þannig að ég er í raun lattelepjandi-listasmíðandi-miðbæjarVesturbæingur.“

Aldís hefur verið í 6 vikna pásu eftir síðasta verkefni en hún var við tökur á sjónvarpsþáttaröðinni Svörtu Sandar, þar sem hún er meðhöfundur og aðalleikkona.

„Ég tók mér hvíld frá listinni, ferðaðist til Póllands og er núna að koma mér rólega inn í næsta verkefni. Ég leik aðalhetju í tölvuleik sem er á vegum Myrkur Games. Tökur eru dreifðar svo ég hef tíma þeirra á milli til þess að leita mér að innblæstri sem gerist aðallega með því að ég spila nóg af tölvuleikjum sjálf og hlusta á hlaðvörp/bækur.“

- Auglýsing -

Vantaði fjölbreytni í leikaraflóruna
Aldís segist að lokum hafa fengið áhuga á leiklist, en í grunninn langaði hana að vera söngkona og dansari þegar hún var barn.

„En svo varð ég táningur og upptekin af alls konar öðru en að æfa sönglistina og gerði mér ekki grein fyrir því að ég hefði þurft að æfa dans samhliða henni til að geta náð einhverjum árangri. Ég var á leiðinni í kínverska viðskiptafræði 22 ára þegar mér var bent á að Listaháskólinn væri með prufur fyrir leikarabrautina. Ég var hvött til að taka þátt. Á svipuðum tíma tók ég eftir að það vantaði fjölbreytni í leikaraflóruna hérlendis og reyndar líka erlendis, sérstaklega í tölvuleikjum á þeim tíma, svo ég ákvað að fara í prufurnar. Svo komst ég einhvern veginn í gegnum öll þrepin og inn í skólann. Þá var það of freistandi að prófa þetta nám svo ég hætti við Kína og þar við sat.“

Það sem hefur komið Aldísi mest á óvart er hversu heppin hún hefur verið og tækifærin sem henni hafa boðist.

- Auglýsing -
Ljósmyndari: Birta Rán Björgvinsdóttir

„Án gríns þá hélt ég að ég þyrfti að berjast miklu meira fyrir því að fá þau hlutverk sem ég hef fengið að leika. Ég var viss um að mín örlög yrðu að vera stöðugt í hlutverki túrista eða enskumælandi starfsmanns á kassa. Ég hef hvorugt leikið þannig að kannski ætti það að vera næsta markmið.“

Mörg ár af ofvinnu og óhollum lífstíl
Atvinnulega séð er Aldís stoltust af sjónvarpsþáttaröðinni Svörtu Sandar sem verða sýndir um næstu jól á Stöð 2. Í þáttunum voru teknar miklar áhættur með sögu og persónusköpun og það virtist virka vel.

„Við þrýstum á ákveðin þolmörk með því að fara á móti norminu og ég er ótrúlega ánægð með okkur að hafa náð að skapa eitthvað nýtt. Þetta er fyrsta verkefnið sem ég tek þátt í að skrifa, fyrir utan skólaverkefni, en satt best að segja hélt ég að ég hefði þetta ekki í mér. En persónulega er ég stoltust af því að hafa tekið ábyrgð á eigin heilsu og geðheilsu sem hrakaði mjög mikið eftir mörg ár af ofvinnu og óhollum lífstíl. Ég hef unnið mjög ötullega í átt að betri heilsu síðasta árið og mun halda því áfram.“

Þau báru mig á herðum sér
Fyrsta árið í Listaháskólanum var Aldísi mjög erfitt. Þessi tími var mikill umbreytingartíma í hennar lífi og námið krafðist alls og miklu meira en hún gat gefið.

Ljósmyndari: Saga Sig

„Ég flutti heim til foreldra minna daginn áður en skólinn byrjaði með hund í farteskinu og allar mínar eigur. Þau vildu alls ekki fá dýr á heimilið á þeim tíma, en blessunarlega sigraði tíkin hug þeirra og hjörtu. Það er engum blöðum um það að fletta að án þeirra stuðnings, hjálpar, hvatningar og skilnings hefði ég aldrei klárað námið. Þau báru mig eiginlega á herðum sér, ég sé það þegar ég lít tilbaka. Ég ætlaði að hætta eftir fyrsta árið, en ákvað blessunarlega að prófa eitt ár í viðbót og sé ekki eftir því.“

Það eru spennandi tímar framundan hjá Aldísi, en hún er í tökum á tölvuleik og verður það næstu 3 árin, með hléum.

„Ég vona svo að Svörtu Sandar fái hlýjar móttökur svo að við getum haldið áfram með sögu þeirra persóna, en svo er ég tilbúin til þess að ferðast til útlanda á ný svo vonandi geri ég það á næstunni. Og vonandi fæ ég, eða skapa mér sjálf, fleiri spennandi atvinnutækifæri. Þess á milli ætla ég að halda áfram með fyrrnefnda sjálfsvinnu, leika mér í tölvuleikjum, lesa meira, auka við uppskriftaflóruna mína og jafnvel fara af stað með blogg sem ég hef ætlað mér að gera síðustu fimm árin eða svo.“

Vera óhrædd við að biðja um hjálp
Að lokum ítrekar Aldís það og undirstrikar hversu mikilvægt það er að setja andlegu heilsu í forgrunn og vinna í sér ef nauðsyn krefur, eins erfitt og það getur verið. Að gefa sér til tíma í það. Því fyrr sem gripið er inn í, því styttra er í batann. Ef fólk skynjar að það er í vanda statt hvetur Aldís fólk til að vera óhrætt við að biðja um hjálp.

„Ég geri mér fulla grein fyrir því að ekki allir hafa traust stuðningsnet né búa svo fjárhagslega vel að geta sótt aðstoð en hvað sem þú getur gert, gerðu það. Hlaðvörp hafa til dæmis hjálpað mér svakalega, þau eru nánast ókeypis og fullt af fagfólki sem gefur góð ráð. Bendi samt á að það þarf að vanda valið þar sem hver sem er getur búið til hlaðvarp. Svo eru auðvitað fullt af samtökum sem veita stuðning og aðstoð gegn frjálsum framlögum. Einnig geta heimilislæknar oft veitt góða aðstoð, líka sálfræðilega. Og svo mæli ég með því að bjóða fram aðstoð í framtíðinni þegar fólk hefur tök á því. Það hjálpar líka til við að halda sér í bata.“

 

Smelltu hér til að lesa allt um málið í brakandi fesku helgarblaði eða flettu því hér fyrir neðan:

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -