Miðvikudagur 8. desember, 2021
0.8 C
Reykjavik

Athafnamaðurinn og hörkutólið Orri Björnsson: „Að vinna Grettisbeltið var auðvitað hápunkturinn“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Skarphéðinn Orri Björnsson, alltaf kallaður Orri, er hörku athafnamaður sem er að gera frábæra hluti í fyrirtækinu Algalíf þar sem hann er forstjóri. Hann var líka eitt sinn Glímukóngur Íslands og er einn besti keppandi sem tekið hefur þátt í Gettu betur. Mannlíf tók hús á Orra og spurði hann nokkurra spurninga.

Jæja Orri, segðu mér aðeins frá um uppeldið og æskuna, og fjölskyldu.

Ég er fæddur í Reykjavík 1971 og bjó fyrst í miðbænum og svo í Seljahverfinu fram á unglingsárin þegar fjölskyldan fluttist til Hafnarfjarðar. Ég á tvö yngri systkini, bróður og systur. Við vorum líka svo heppin að vera í sterkum tengslum við móðurættina sem býr í sveit norður í Húnavatnssýslu sem víkkaði sjóndeildarhring okkar systkinanna. Fjölskyldan hefur alltaf verið samheldin; haft mikinn áhuga á íþróttum og samfélagsmálum.

Þú tókst þátt í Gettu betur og vaktir mikla athygli fyrir þekkingu þína, hvað gaf sú keppni þér?

Ég kláraði stúdentsprófið í Flensborgarskólanum í Hafnarfirði og skömmu eftir að ég byrjaði þar voru próf fyrir Gettu betur. Mér gekk vel og var valinn í liðið sem varð sigursælt og komst mjög langt í keppninni. Á þessum tíma held ég að Gettu betur hafi verið stærri viðburður en nú er, enda mun minna framboð af afþreyingu en núna. Þannig að skyndilega var maður í kastljósinu og margir bæjarbúar vissu hver maður var. Það var bæði sérstök og skemmtileg tilfinning. En keppnin gaf mér fyrst og fremst sjálfstraust til að taka með mér út í lífið og svo kynntist ég mörgum sem ég held góðum tengslum við enn þann dag í dag. Þannig að víðsýni, þekking, kjarkur og vinátta eru stóru verðlaunin sem ég fékk út úr þáttöku í Gettu betur.

Gettu betur lið Flensborgar árið 1991, sem hafnaði í öðru sæti það árið. Bjarni, Orri og Svanur.

Þú varst glímukappi, og Glímukóngur árið 1994. Hvenær byrjaðirðu og hvað varð þess valdandi, og hvað var svo skemmtilegt og heillandi við glímuna?

- Auglýsing -

Faðir minn var tengdur KR og kraftaíþróttum og það var eiginlega þannig sem ég tengdist glímunni. Fljótlega kom í ljós að ég átti eitthvað erindi í þessa íþrótt sem reynir bæði á tækni, snerpu og kraft. Svo skemmir ekki fyrir að þetta er hin sanna þjóðaríþrótt Íslendinga og hefur mikla tengingu við sögu okkar og menningu. Ég eignaðist marga vini í glímunni og sá vinskapur lifir enn þótt árin líði. Þess utan fékk ég að ferðast bæði innanlands og utan til að keppa og sýna glíma sem jók mér auðvitað víðsýni og þekkingu. Að vinna svo Grettisbeltið var auðvitað punkturinn fyrir ofan i-ið á glímuferlinum og sannur heiður að vinna æðstu verðlaun í íþrótt sem maður hefur gefið sig allan í.

Svo fórstu í fyrirtækjarekstur og Algalíf varð að veruleika – segðu mér frá því hvernig hugmynd varð að veruleika og svo að mjög stórum veruleika. 

Ég hóf störf í lyfjageiranum fyrir um það bil 25 árum, fyrst hér á landi en svo leiddi ferillinn mig út um allan heim. Ég hef búið og starfað í Búlgaríu, Kenía og Noregi, þar sem ég leiddi meðal annars ýmis verkefni í lyfja- og líftæknigeirunum og var t.a.m. sérstakur ráðgjafi á vegum Sameinuðu þjóðanna. Allt þetta varð svo til þess að ég öðlaðist sérhæfða þekkingu og reynslu sem ekki margir búa yfir. Þegar fyrstu tilraunir hófust í Noregi með framleiðslu á astaxantíni úr örþörungum leituðu forsvarsmenn þess verkefnis til mín. Fljótlega varð ljóst að Ísland væri ákjósanlegur vettvangur fyrir verkefnið ákvörðun var tekin um að reisa verksmiðju hér. Ég hef verið svo heppinn að fá að leiða verkefnið hér og þrátt fyrir ýmis áföll hefur það gengið vel. Starfsmenn eru nú um 40 með veltu sem slagar í tvo milljarða. Við erum að stækka og verðum 80 manna fyrirtæki með fimm til sex milljarða veltu innan tveggja ára. Markaðurinn er stöðugt að vaxa og okkur hefur tekist að byggja upp frábært teymi í félaginu. Ég þakka því fyrst og fremst þennan góða árangur.

- Auglýsing -

Hvernig gekk að koma fyrirtækinu á legg og hvernig sérðu framtíð þess fyrir þér?

Auðvitað gekk ýmislegt brösulega á fyrstu árum Algalífs eins og gengur hjá svona nýsköpunarfyrirtækjum í líftæknigeiranum. Við vissum lítið hvað við vorum að gera, en lærðum af reynslunni og mistökunum. Við reyndum að fá aðstoð frá erlendum sérfræðingum en komumst að því að þeir vissu lítið meira en við. Nú er svo komið að við erum líklega með hagkvæmustu framleiðslu allra á fæðubótaefninu astaxanthíni, sem er það sem framleiðslan snýst um. Nú er stækkunin á fullum skriði, við erum að fara úr 5.500 m2 í 12.500 m2 og framleiðslan að þrefaldast. Á næsta ári munum við líka byrja framleiðslu á öðrum þörungi sem gefur af sér annað verðmætt fæðubótaefni, en við höfum verið í tilraunum með hann í nokkur misseri. Við reiknum því með stöðugum vexti á næstu árum og áratugum, enda virðist markaðurinn í miklum vexti um allan heim.

Orri er Sjálfstæðismaður og hefur gegnt ýmsum hlutverkum fyrir flokkinn.

Muntu á komandi árum halda áfram í pólitík meðfram Algalífi, er dagskráin hjá þér ekki ansi þétt?

Ætli ég myndi ekki skilgreinast sem frjálslyndur íhaldsmaður í pólitík. Ég hef lengi verið virkur liðsmaður í Sjálfstæðisflokknum og var m.a. formaður Stefnis, sem er félag ungra Sjálfstæðismanna í Hafnarfirði, í stjórn fulltrúaráðsins þar og svo mætti áfram telja. Áhugi minn varðandi stjórnmálaþáttöku hefur alltaf beinst meira að sveitarstjórnarstiginu en landsmálunum. Síðustu kjörtímabil hef ég tekið virkan þátt sem varabæjarfulltrúi auk þess sem ég hef setið í nefndum, ráðum og stjórnum fyrir hönd flokksins og bæjarins. Mér finnst þetta skemmtilegt og gott að geta lagt sitt af mörkum fyrir nærsamfélagið með þessum hætti. Ég ætla að halda því áfram.

Bara að lokum Orri, hver eru þín helstu áhugamál?

Ég er bókaormur og les mikið. Ævisögur stjórnmálamanna og sagnfræði eru þar ofarlega á blaði og pólitík myndi líklega flokkast sem eitt af aðaláhugamálunum. En ég hef líka mikinn áhuga á íþróttum og fylgist ágætlega með þar. Ekki bara glímu, heldur líka öllu hinu. Þess utan hef ég gaman af því að ferðast og hef gert mikið af því bæði í starfi og leik. Svo er auðvitað vinnan líka áhugamál. Maður leiðir ekki nýsköpunarfyrirtæki eins og Algalíf án þess að hafa brennandi áhuga á líftækigeiranum og þörungaræktun. Hvað þá að maður nái árangri án þess að vera vakinn og sofinn yfir öllu því sem snertir reksturinn og þann geira sem maður hefur valið sér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -