Bára í nýju ljósi

Deila

- Auglýsing -

Bára Halldórsdóttir stendur fyrir óvenjulegum viðburði í Gallerí Fold í dag.

„Þetta er sýning um hrakfarir, að vissu leyti, ef það er þá á annað borð hægt að kalla þetta sýningu. Kannski mætti segja að þetta sé frekar uppstand eða saga eða gjörningur eða samhengislaust tal nú eða jafnvel bara sýning um það hvernig sýningar verða ekki til,“ segir Bára Halldórsdóttir, fötlunaraktívisti, uppljóstrari og fjöllistakona, um sýninguna – eða ættum við kannski að segja uppákomuna – This is not a Show, sem Bára stendur fyrir í Gallerí Fold í dag klukkan 16.30 og er hluti af jaðarlistahátíðinni Reykjavík Fringe.

Þar ætlar Bára að varpa ljósi á þá stöðu sem margir langveikir eru í. „Þarna verður sjónum beint að fólki sem hefur glímt við veikindi lengi og þá sem eru í áhættuhópi í faröldrum eins og COVID-19,“ útskýrir hún. „Fókusinn verður á fólk sem vegna veikinda sinna nær ekki að klára alls konar hluti. Það er nefnilega svo oft þannig hjá okkur sem eru langveik að hlutir eru hálf kláraðir vegna alls konar hindrana. Við hendum þeim bara. Þessi viðburður er um það.“

„Áhorfendur urðu mjög snortnir og svo innilegir eftir á. Það var eiginlega alveg ótrúlegt.“

Bára tekur fram að viðbrögðin hafi verið ótrúlega góð þegar viðburðurinn var frumsýndur í Gallerí Fold á mánudaginn var. Eiginlega hafi þau farið fram úr björtustu vonum. „Áhorfendur urðu mjög snortnir og svo innilegir eftir á. Það var eiginlega alveg ótrúlegt,“ segir hún glaðlega.

Bára er ekki ókunnug Reykjavík Fringe því hún stóð fyrir óvenjulegum gjörningi á hátíðinni í fyrra. Þá var Bára „til sýnis“ á Listastofunni í Reykjavík í þeim tilgangi að sýna gestum og gangandi fólk með fötlun í umhverfi sem flestum er alla jafna hulið. Hún segir að þetta sé hins vegar í fyrsta skipti sem hún „performar live“. „Ég hef ekki staðið fyrir svona „live showi áður því síðast var ég meira til sýnis. Hver veit, kannski verður þetta upphafið að einhverju nýju og skemmtilegu“,“ segir hún og bætir við að það væri gaman að geta sýnt viðburðinn á öðrum vettvangi að hátíð lokinni, þ.e. þegar hún hafi náð að safna kröftum.

Hún hvetur þá sem ætla einungis að kíkja á innsetninguna, en ekki viðburðinn sjálfan, að lesa litla örviðtalið sem er haft þar til hliðsjónar. Nánar um viðburðinn hérna.

- Advertisement -

Athugasemdir