Sunnudagur 8. september, 2024
3.8 C
Reykjavik

Björgólfur noti hluta af 276 milljarða eignum sínum og greiði miskabætur vegna hrunsins

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég skora hér með á auðmanninn Björgólf Thor Björgólfsson að nota hluta af auði sínum (276 milljarðar) til að greiða viðskiptavinum Landsbankans „miskabætur“ vegna hruns bankans árið 2008!“ skrifar Lilja Mósesdóttir, fyrrverandi þingmaður á Facebook.

„Margir skuldsettir viðskiptavinir bankans urðu fyrir ómældu tjóni vegna ásetnings eða stórfellds gáleysis stjórnenda bankans sem enn hefur ekki verið bætt,“ segir Lilja enn fremur.

Sunday Times birtin nýlega lista yfir ríkustu einstaklinga Bretlands. Þar er Björgólf að finna en auður hans er eins og áður segir metinn á 276 milljarða íslenskra króna eða um 1.7 milljarð punda.

Staða Björgólfs er því nokkuð breytt frá því sem var skömmu eftir hrun íslenska bankakerfisins árið 2008. Við fall Landsbankans voru Björgólfur Thor Björgólfsson og félög tengd honum stærstu skuldarar bankans. Björgólfur Guðmundsson var þriðji stærsti skuldari bankans. Samtals námu skuldbindingar þeirra við bankann vel yfir 200 milljörðum króna. Það var meira en sem nam eigin fé Landsbankasamstæðunnar. Þetta kom fram í Rannsóknarskýrslu Alþingis um fall íslensku bankanna. Stjórnarformaður Landsbankans á árunum fyrir hrun var Björgólfur Guðmundsson, faðir Björgólfs Thors.

Við fall bankakerfisins voru hluthafar í Landsbankanum rúmlega 12 þúsund. Gjaldþrot Landsbankans er meðal stærstu gjaldþrota heims. Þannig kemur fram í minnisblaði Jared Bibler, rannsakanda á verðbréfasviði Fjármálaeftirlitsins, að gjaldþrot Landsbankans sé 25% stærra en gjaldþrot Chrystler bifreiðaframleiðandans árið 2009. „Til þess að skilja stærð áfallsins hérlendis er hægt að draga upp mynd af því ef Bandaríkin eða Bretland hefðu lent í svipaðri kreppu. Það sem gerðist á Íslandi í byrjun október 2008 hefði jafngilt meira en 140 Northern Rock áföllum í Bretlandi. Yfirfært á Bandaríkin myndi það jafngilda því að næstum 300 Lehman Brothers bankar hefðu orðið gjaldþrota samtímis,“ segir í minnisblaðinu.

Árið 2015 var greint frá því að fyrrverandi hluthafar í Landsbankanum hafi fengið fyrirtækið Landslög til að undirbúa málsókn gegn Björgólfi. Í frétta­til­kynn­ingu frá Jó­hann­esi Bjarna Björns­syni, lög­fræðingi hjá Lands­lög­um sem send var til fjölmiðla upphafi málsóknarinnar sagði að­ rann­sókn og gagna­öfl­un hafi leitt til þess að fram séu kom­in „gögn sem gefa sterk­lega til kynna að Björgólf­ur Thor hafi með sak­næm­um hætti komið í veg fyr­ir að hlut­haf­ar fengju upp­lýs­ing­ar um um­fangs­mikl­ar lán­veit­ing­ar tengd­ar hon­um og einnig að hann hafi brotið gegn regl­um um yf­ir­töku­skyldu.“

Í frétta­til­kynn­ingu um máls­sókn­ina seg­ir að í mál­inu verði byggt á því að eft­ir brott­hvarf Magnús­ar Þor­steins­son­ar úr hlut­hafa­hópi Sam­son haustið 2005 hafi „Björgólf­ur Thor með sak­næm­um hætti hindrað að hann yrði tal­inn tengd­ur aðili við bank­ann til þess að koma í veg fyr­ir að upp­lýst yrði um um­fangs­mikl­ar lán­veit­ing­ar tengd­ar hon­um sem voru langt um­fram heim­ild­ir bank­ans að mati Fjár­mála­eft­ir­lits­ins.“ Málinu hefur ítrekað verið vísað frá dómstólum.

- Auglýsing -

Í desember var Björgólfur sýknaður af Landsrétti vegna 600 milljón kóna bótakröfu tveggja fyrirtækja í eigu Kristjáns Loftssonar en krafan var talin fyrnd. Félög Kristjáns, Vogun HF krafðist 366 milljóna króna og Fiskveiðihlutafélagið Venus HF 238 milljóna. Var það gert á þeim forsendum að Samson eignarhaldsfélag var meirihlutaeigandi í Landsbankanum fyrir hrun. Félög Kristjáns höfðu keypt hlutabréf í bankanum sem urðu verðlaus við bankahrun.

Samkvæmt fréttatilkynningu Björgólfs og Novator frá júlí 2010 var gerður samningur um skuldauppgjör við innlenda og erlenda lánardrottna um allar skuldir Novatos og Björgólfs. Viðskiptablaðið greindi frá því að uppgjörið næmi 1200 milljörðum íslenskra króna. „Samkvæmt samkomulaginu munu skuldir verða gerðar upp að fullu og ekki gefnar eftir. Allar eignir Björgólfs Thors og Novators liggja til grundvallar uppgjörinu, en á þeim var gerð ítarleg úttekt og mat af hálfu alþjóðlegs ráðgjafarfyrirtækis. Björgólfur Thor verður áfram hluthafi í félögum á borð við Actavis, Play, CCP og Verne Holding. Arðurinn af þessum eignarhlutum og verðmæti, komi til sölu þeirra, munu hins vegar ganga til uppgjörs skuldanna, ásamt ýmsum persónulegum eigum hans. Þar á meðal eru húseign í Reykjavík og sumarhús við Þingvelli. Samhliða þessu skuldauppgjöri hefur náðst samkomulag um fjárhagslega endurskipulagningu lyfjafyrirtækisins Actavis.“

Árið 2014 var skuldauppgjörinu lokið. Heildarfjárhæð greidd til lánardrottna var um 1200 milljarðar samkvæmt frétt Morgunblaðsins. Þar af fengu íslenskir bankar og dótturfélag þeirra greidd um 100 milljarða króna.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -