2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Erlendar bílaleigur svindla á Íslendingum

Þúsundir Íslendinga eru að undirbúa ferðalögin í útlöndum um þessar mundir. Margir leigja bíla en þá er mikilvægt að hafa varan á því dæmi eru um að erlendar bílaleigur hlunnfari Íslendinga.

Mörg dæmi eru um að íslenskir viðskiptavinir hafi orðið fyrir barðinu á ósvífnum viðskiptaháttum erlendra bílaleiga þegar bílar eru pantaðir í gegnum Netið.

„Ég fann góðan díl fyrir fjölskyldubíl í gegnum vefsíðu flugfélagsins. Allt gekk samkvæmt venju. Á skrifstofunni var tekið afrit af kreditkortinu til tryggingar tjóni, ég fékk bíllyklana og bílinn. Þegar ég skilaði honum til baka tæpum hálfum mánuði síðar byrjuðu vandræðin,“ segir Birkir Marteinsson, sem fór með fjölskyldu sinni til Malpensa á Ítalíu í fyrra en þangað fljúga öll helstu flugfélögin. Birkir segir að þegar hann hafi skilað bílnum á bílaleiguna, sem er fyrir utan flugvöllinn, hafi starfsmaður gert athugasemd við á bílnum aftanverðum.

„Þetta var álíka stórt og títuprjónshaus hjá skottinu, venjulegt slit á bíl,“ segir Birkir. Hann segir starfsmanninn hafa skrifað tjónalýsingu á ítölsku inni á skrifstofunni þar sem hann lýsti því yfir að Birkir væri valdur að skemmdinni. Meta yrði tjónið og ætlaðist starfsmaðurinn til að Birkir skrifaði undir. Því neitaði hann. Á endanum skrifaði starfsmaðurinn lýsinguna á ensku og sagði Birki heppinn að vera ekki rukkaður fyrir annað tjón á bílnum. Birkir segir að hann hafi ekki getað sannað að skemmdin hafi verið á bílnum þegar hann leigði hann en maðkur hafi greinilega verið í mysunni því á sama tíma og þetta átti sér stað leigði annar viðskiptavinur bílinn og ók á brott.

„Mér til lukku voru tryggingar á kortinu og því endaði ég á að borga 20.000 krónur því tryggingin tók hinn hlutann. Ég passaði mig á að loka kortinu strax svo bílaleigan gæti ekki óskað eftir fleiri úttektum seinna.“

Þegar hann skoðaði á Netinu ummæli um bílaleiguna sá hann að aðrir viðskiptavinir höfðu greitt þúsundir króna vegna tjóns sem þeir voru sannfærðir um að hafa ekki valdið. Hann hafði því strax samband við kortafyrirtæki sitt á Íslandi. Bílaleigan var þar með úttektarheimild upp á 1.000 evrur, jafnvirði rúmlega 120.000 íslenskra króna. „Nokkru eftir að ég kom heim kom færsla frá þeim upp á 52.000 krónur. Mér til lukku voru tryggingar á kortinu og því endaði ég á að borga 20.000 krónur því tryggingin tók hinn hlutann. Ég passaði mig á að loka kortinu strax svo bílaleigan gæti ekki óskað eftir fleiri úttektum seinna,“ segir Birkir og kveðst hafa fengið sér annað kort.

AUGLÝSING


Kröfðust 360.000 króna tryggingu

Mörg önnur dæmi eru um að íslenskir viðskiptavinir hafi orðið fyrir barðinu á ósvífnum viðskiptaháttum erlendra bílaleiga þegar bílar eru pantaðir í gegnum Netið. Dæmi er um að fólk hafi leigt bíl á Spáni hjá leigu sem bauð góð tilboð en viðkomandi þekkti lítið til. Þegar á hólminn var komið gerði starfsmaður bílaleigunnar kröfu um að taka út 3.000 evrur (jafnvirði um 360.000 króna) af kreditkorti leigutaka sem tryggingu og endurgreiða hana 30 dögum eftir að bílnum væri skilað. Það var til viðbótar 400 evru leigu á bílnum. Þetta sætti viðskiptavinurinn sig ekki við og sleit viðskiptunum. Hann fékk hins vegar ekki evrurnar 400 endurgreiddar frá bílaleigunni og varð að snúa sér til kortafyrirtækisins. Endurgreiðslan skilaði sér fjórum mánuðum síðar.

Til að koma í veg fyrir svikastarfsemi sem þessa mælir Birkir Marteinsson með að fólk lesi ummæli viðskiptavina bílaleiga á Netinu áður en það leigir sér bíl, en þær má m.a. finna á https://uk.trustpilot.com/. „Ég mæli líka með því að velja stóru, viðurkenndu bílaleigurnar í stað þeirra sem maður þekkir ekki mikið eins og í mínu tilviki,“ segir hann og leggur áherslu á að fólk taki jafnframt myndir af bílum sem það leigir þegar það fær hann og við skil.

Aðalmynd: Birkir Marteinsson hvetur fólk til að eiga viðskipti við stórar, viðurkenndar bílaleigur.

Lestu meira

Engar færslur fundust.

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is