Sunnudagur 27. nóvember, 2022
1.8 C
Reykjavik

„Fór að trúa að ég gæti þetta ekki“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

„Það gekk eiginlega bara allt út á það hjá þessum aðilum að finna eitthvað á mig,“ segir Andrea Björk Sigurvinsdóttir, sem var eina konan í slökkviliði Fjarðabyggðar þegar hún hóf störf þar sumarið 2017. Hún hafði reynslu af sjúkraflutningum og brennandi áhuga á starfinu, sótti sér aukna menntun í því og lagði sig alla fram. Fljótlega fór þó að bera á því að ýmsir samstarfsmenn hennar voru ekki hrifnir af því að fá konu sem starfsfélaga og Andrea upplifði síendurtekið áreiti innan slökkviliðsins sem endaði með því að hún brotnaði saman og hætti samkvæmt læknisráði. Hún hefur nú lagt fram formlega kvörtun vegna kynbundins áreitis og eineltis eftir að hafa ítrekað verið hunsuð af yfirmönnum slökkviliðsins þegar hún kvartaði. Á endanum hrökklaðist hún úr bænum og flutti til Dalvíkur ásamt eiginmanni og börnum, en hún er enn óvinnufær og treystir sér ekki ein út í búð, hvað þá meira, svo djúpstæð áhrif hafði eineltið á hana.

„Fór að trúa að ég gæti þetta ekki“

Í lok október 2018 gafst Andrea upp, gekk út af stöðinni og fór til læknis sem sendi hana umsvifalaust í veikindafrí. „Ég þurfti að kyngja því að ég gæti þetta ekki lengur,“ segir hún. „Ég gæti ekki barist lengur. Ég hætti í atvinnunáminu, hafði bara ekki lengur trú á sjálfri mér í þessu starfi. Það var stöðugt verið að fylgjast með mér, hvort ég gæti nokkuð einu sinni lyft sjúkrabörum og svo framvegis. Svona viðhorf síast inn og ég bara fór að trúa því að þetta væri ekki starf fyrir mig.“

Eftir að hún fór í veikindafrí hélt Andrea áfram að reyna að fá úrlausn sinna mála, sendi kvörtun til Landsambands slökkviliðsmanna og Vinnueftirlitsins og segir það ferli hafa tekið nokkra mánuði, með endalausum greinargerðum, tölvupóstum og samtölum. „Þau hjá Landsambandinu stóðu virkilega þétt við bakið á mér,“ segir hún. „En ég sá aldrei neinar aðgerðir og var orðin vonlítil um að þetta myndi nokkurn tímann klárast. Yfirmaður minn slökkviliðsstjórinn og þáverandi starfsmannastjóri fóru á fundi með fólki frá Landsambandinu, en vildu ekki viðurkenna að ég hefði kvartað nema í þetta eina sinn og sögðu að málið hefði verið klárað þá, þótt ég væri auðvitað með þetta allt skriflegt í tölvupóstum. Þá bara gafst ég upp, var í rauninni orðin mjög andlega veik, með hjartsláttartruflanir og þurfti að vera á róandi lyfjum og hjartalyfjum. Ég réði mig á leikskólann á Reyðarfirði en hætti eftir tvær vikur, því Reyðarfjörður er lítill bær og þessir aðilar áttu börn í þeim leikskóla. Í eitt skipti mætti ég þeim og það var í rauninni nóg og ég sagði starfinu upp, sá að ég gat engan veginn sinnt því með mína líðan.“

Fjallað er um málið í nýjasta tölublaði Mannlífs.

Andrea segist á þessum tíma hafa verið farin að mæta hunsun hjá  sveitarfélaginu og þá sérstaklega hjá yfirmönnum í Fjarðabyggð. Hún hafi reynt að sækja um störf sem hún hafi haft menntun og reynslu til að sinna, en ekki einu sinni verið boðuð í viðtöl. Hún hafi upplifað það þannig að sveitarfélagið hefði bara lokað á hana og hafnað henni. Á endanum var ástandið orðið óbærilegt og fjölskyldan flutti til Dalvíkur þar sem maðurinn hennar fékk vinnu. „Þetta var bara orðið óbærilegt,“ segir hún. „Ég var hætt að þora ein út því kvíðinn var orðinn það mikill að ef ég sá þessa aðila í búðinni fékk ég kvíðakast og hljóp út. Ég var búin að tala um þetta við lækna og sálfræðinginn en það var ósköp lítið hægt að gera annað en bara fara, eins hræðilega og það hljómar, og það endaði með því að við fluttum síðasta sumar.“

Lestu viðtalið í heild sinni í Mannlíf.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -